Sagt hefur verið að Lífspekifélagið hafi verið of snemma á ferðinni, því hefði gengið betur ef það hefði komið seinna fram. En hefði það þá gert sama gagn? Var ekki partur af hlutverki þess að vera dálítið á undan tímanum. Fyrir heilli öld vori þeir fáir sem ekki vissu hvað var „rétt”. Menn skiptust þá í flokka um „sannleikann”. Sumir fundu hann hjá trúarbrögðunum, aðrir í efnisvísindunum, og allir vissu uppá hár hversu maður skildi haga sér í hverju tilfelli. Vesturlöndin voru að vakna til nýs máttar, hins tæknilega máttar, og voru barnaleg og sjálfumglöð úr hófi fram
Þess vegna hljómaði rödd Lífspekisinna undarlega þegar þeir kvöddu sér hljóðs. Þeir vissu ekki hvað væri rétt og satt og vildi fá að leita og töldu réttast að setja spurningamerki við setningar trúarbragða og niðurstöðu vísinda – og ekki síður við hið viðtekna siðgæði.
Slík var rödd Lífspekifélagsins í öndverðu
Þetta stafaði ekki af því að lífspekisinnar væru á móti trúarbrögðum eða vísindum síður en svo, en þeir drógu í efa færni mannsins til að sjá hvað væri rétt í eitt skipti fyrir öll, það þyrfti athugunar við, þeir væru ekki nógu vitrir sjálfir til að geta valið sér andlegan leiðtoga, þeir yrðu því að treysta á sjálfan sig, um annað væri ekki að ræða.
Meginhugsunin á bak við stofnun Lífspekifélagsins var ljós frá upphafi. Hún kemur skýrt fram í ræðu fyrsta forseta og stofnanda félagsins, H. S. Olcotts. Hann staðhæfir á fyrsta andartaki í sögu félagsins að „við” værum ekki kennarar, heldur nemendur, hefðum engan fyrirfram sannleika tilbúinn, en mundum engu hafna án ástæðu og ekkert játa án sannana.
Það er haft eftir ýmsum óánægðum nútíma unglingum að þeir viti ekki hvað þeir vilji, en á hinn bóginn viti þeir hvað þeir vilji ekki. Þetta er undarlega líkt orðum Olcotts á stofnfundinum fyrir heilli öld þegar hann benti á að félagið sé stofnað vegna óánægju með hlutina einsog þeir eru – án þess að geta fyrirfram bent á úrræði.
Nokkur ár liðu áður en tekist hafði að koma þessari hugsjón leitendans í andlegum efnum í orð í stefnuskránni þannig að ekki gæti misskilist, En Olcott auðnaðist áður en hann féll frá að ganga svo skilmerkilega frá að ekki hefur þurft að bæta síðan.
Stefnuskráin er þannig í hans síðustu gerð og hefur ekki verið breytt:
Að móta kjarna úr allsherjar bræðralagi mannkyns, án tillits til kynstofna, trúarskoðana, kynferðis, stétta eða hörundslitar.
Að hvetja menn til að leggja stund á samanburð trúarbragða, heimspeki og náttúruvísindi.
Að rannsaka óskilin náttúrulögmál og öfl þau, er leynast með mönnum.
Menn veiti athygli hve þetta er sérstæð stefnuskrá: Um aðeins eitt viðhorf er sameinast sem hægt er að jafna til skoðunar: allsherjar bræðralag mannkynsins. Um annað þurfa þeir ekki að vera samála. Á hinn bóginn sameinast þeir um vissan áhuga: að kynna sér það besta sem maðurinn hefur hugsað og kannað og velt fyrir sér hugsanlega óútskýrðum möguleikum mannsins – sem auðvitað felur í sér að vilja reyna að átta sig betur á sjálfum sér.
Lífspekifélagar sameinast um spurningar, ekki svör.
Og áhuginn er ekki aðeins fræðilegur, hann er líka hagnýttur, svo líf félagsins verður verkefnið fyrst og fremst. N. Sri Ram, fyrrverandi forseti félagsins komst eitt sinn svo að orði að lífspekifélagar vildu koma á grundvallar breytingu í viðhorfum mannkynsins ( í átt til bræðralags ), en fyrst í viðhorfum og lífi sjálfs síns.
Þegar Lífspekifélagið var stofnað, 17. nóvember 1875 í Mott Memorial Hall í New York, þá voru þar saman komin sautján manns. En af þeim reyndust aðeins þrjú hafa varanlegan áhuga á málinu: H. P. Blavatsky, H. S. Olcott og W. Q. Judge. Hin öll heltust tiltölulega fljótt úr lestinni.
Þessi þrjú störfuðu fyrir félagið af eldlegum áhuga til dauðadags. Þeim var ekki nóg að fá sjálf tækifæri til þeirra iðkana sem félagið kynnti, þau vildu líka gera öðrum kleift að koma með ef þeir kærðu sig um.
Af þeim ástæðum breiddist út sú skoðun að þau hlytu að vera að berjast fyrir einhverri sameiginlegri trú. Það var svo fjarlægt mönnum í þá daga að sannleikurinn yfirleitt, óuppgötvaður og óþekktur hver sem hann er, gæti vakið slíkan eld.
Í ávarpi sínu talar Olcott um mátt sannleikans. Kannski hafa sumir haldið að hann ætti við mátt einhvers fyrirfram – sannleika sem hann sjálfur hefði uppgötvað. Svo var auðvitað ekki; Hann meinti þann mátt sem felst í hinu sanna hvað sem það er, og þeirri lífsafstöðu sem gerir sannleikann og uppgötvun hans í einu og öllu að aðalatriði málsins. Hann vildi gera viðhorf rannsakandans að lífsviðhorfi. Það viðhorf átti að ríkja í lífi mannsins yfirleitt.
Saga félagsins er ekki aðeins merkileg fyrir það sem það sjálft hefur gert, heldur líka hins sem leitt hefur óbeint af starfi þess.
Lífspekifélagið var fyrsta félagið sem vakti athygli á austrænum viðhorfum á Vesturlöndum. Þau voru talin áhugaverð þótt engin væri hvattur til að taka þau beinlínis upp og fleygja sínum gömlu viðhorfum. Það var líka fyrsta félagið sem hvatti til frjálsrar stúdíu á dulrænum fræðum almennt, bæði austrænum og vestrænum. Og nú skipta þau félög, skólar og stofnanir tugum, ef ekki hundruðum, sem beint eða óbeint eiga rót sína að rekja til þessa kynningarstarfs.
Hin mystíska hreyfing nútímans í heild er frá Lífspekifélaginu runnin.
Hvað er hin mystíska hreyfing?
Í heiminum starfar nú mikill fjöldi félaga, reglna, skóla og ýmissa annarra stofnana sem lýsir yfir áhuga á hinni duldu hlið lífsins, óskýrðum andlegum möguleikum mannsins og hverju einu sem lýtur að torskildum þáttum í manninum og náttúrunni, þessu sem ekki vill falla inní hina viðteknu mynd af tilverunni. Þar að auki starfar mikill fjöldi manna á eigin vegum á þessu sviðum, og trúa gæti ég því, og er ekki heldur einn um þá skoðun, að fjöldi þeirra manna sem undir þetta heit má flokka í dag skipti miljónum.
En Lífspekifélagið í heiminum telur aðeins tæplega 35 þúsund félagsmenn, hefur eiginlega aldrei verið mikið fjölmennara.
Einstakir hópar og flokkar innan þessarar hreyfingar eru auðvitað misjafnir að „gæðum”, iðka mis-merkileg fræði og á mis-vísindalegan hátt, en allir eru þeir þó á sinn hátt vitnisburður um vilja mannkynsins til að byrja nýtt líf. Og til þess að byrja nýtt líf þarf að uppgötva eitthvað nýtt í manninum.
Heimur mannanna í dag er í upplausn. Hann er orðin samgöngulega ein heild – sem leitt hefur í ljós að menn kunna ekki að lifa saman eins og menn, eins og bræður.
Svar við þessum vanda er vafalaust nýr skilningur á manninum, að hver og einn sjái sjálfan sig og sambandið við aðra í nýju ljósi. En á þennan möguleika voru lífspekifélagar að reyna að benda í öndverðu.
Sigvaldi Hjálmarsson 1975
© Lífspekifélagið