Guðspeki

Orðið “guðspeki” er þýðing á gríska orðinu “Theosophia”. Það er eignað Ammoníusi Saccas (í byrjun 3. aldar). Frá þeim tíma hefur það verið þekkt um hinn vestræna heim og alltaf verið sömu merkingar. Í sanskrít, forntungu Indverja, er tilsvarandi orð yfir sama hugtak: “Bhrama Vidya” eða “Atma Vidya”, guðleg viska eða andleg viska.

Þegar lengst er seilst, er guðspeki hin hinstu sannindi um eðli tilverunnar, þekking á hinum hinsta veruleika og allri þeirri margbreytni, sem er upp runnin í honum – ekki hugmyndir um þessi sannindi, heldur sannindin sjálf, eins og þau eru reynd og lifuð.

Guðspekisinnar ímynda sér ekki, að þeir hafi tileinkað sér þessi sannindi. Þeir segja aðeins að þeir séu að reyna að nálgast þau.

GUÐSPEKILEGAR KENNINGAR

Ávöxturinn af tilraunum manna til að skilja þessi sannindi, uppgötva þau og gera að veruleika í lífi sínu, er það sem kallast guðspekikenningar eða guðspekilegar kenningar.

Öllum er auðvitað í sjálfsvald sett hvað þeir aðhyllast af þeim. Þær ber að taka einungis sem hugmyndir einstakra guðspekisinna um lífið og tilveruna, einungis skerfur þeirra til þeirrar viðleitni, sem færir mennina smátt og smátt nær sannindunum sjálfum, þ. e. hinni eiginlegu guðspeki.

Guðspekilegar kenningar eru t. d.: Kenningin um einingu alls lífs, kenningin um andlega þróun, endurholdgun, karma, mannlega fullkomnun, fullkomna menn, önnur tilverusvið o. fl.

ALLT LÍF EITT LÍF

Guðspekilegar kenningar fela í sér eftirfarandi meginatriði:

Allt líf er í innsta kjarna sínum eitt og ósundurgreinanlegt. Ekkert er til, sem hægt er að kalla “dauða náttúru”, allt er líf. Vitundin og hinn ytri heimur, efni og andi, líf og form eru ekki ósættanlegar andstæður, heldur ólíkar hliðar hins sama veruleika. Allar verur eru það, sem þær eru, vegna þróunar og eiga framundan óendanlega framtíðar- og framfaramöguleika, engin í eðli sínu annarri fremri, allur mismunur aðeins þroska eða aðstöðumunur.

ÖNNUR TILVERUSVIÐSkynsvið mannsins er takmarkað eins og vísindin færa glöggar sönnur á.Sú mynd, sem þau gefa af hinum ytri heimi er ófullkomin fyrir utan það, að ýmis svið eru skynjunum manna hulin. Á þeim sviðum lifa aðrar verur, auk þess sem menn og aðrar skynjanlegar lífverur í hinum jarðneska heimi eiga þar líka líf og starf. Öll tilverusviðin fylla sama rúm líkt og vatni má hella í flösku, sem er full af sandi, og eru þau úr mismunandi þéttu efni gerð. Þau eru frábrugðin hvert öðru á sama hátt og teningurinn er frábrugðinn fletinum.

KARMA OG ENDURHOLDGUN

Órjúfandi jafnvægi ríkir í tilverunni. Hverjum verknaði fylgir gagnverkun, nákvæmlega jafn stór og upphafsverknaðurinn og kemur niður á sama stað. Þetta er karma, lögmál athafnarinnar. Allt líf þróast í hringrásartímabilum (sbr. líf jurtanna og árstíðirnar). Það tekur sér gervi í þéttari tilverusviðum (holdgast), en skilar þeim svo aftur í sömu röð og það íklæddist þeim og dvelur um skeið á innri sviðum. Slík endurtekin hringför niður í þéttara efni kallast endurholdgun.

ÞRÓUN MANNSINS

Í öllum lífverum býr óforgengilegur neisti hins eina lífs. Maðurinn hefur einhverntíma þróast upp úr þroskastigi dýranna, stigið yfir það mark, sem aðgreinir dýr og menn. Á sama hátt eru dýrin komin upp úr þroskastigi jurtanna. Maðurinn endurholdgast hvað eftir annað og bætir við sig reynslu og þroska í hverri jarðvist.

Líkaminn, þær eigindir, sem eru aðsetur fyrir persónulegar tilfinningar og þrár, svo og hin hlutræna hugsun, eru eins konar starfstæki eða gervi, sem innri maðurinn, hinn raunverulegi maður, (sá sem endurholdgast) tekur sér fyrir hverja jarðvist. Starfstækin eru forgengileg, hinn innri maður óforgengilegur (sál, andi). Á milli jarðvista dvelur hann á tilverusviðum, sem eru úr smágervara (fíngerðara) efni, þar sem fleiri víddir ráða skynmöguleikum. Jarðlífið er skóli. Maðurinn er alltaf í öllum atriðum ábyrgur gerða sinna, skapar sér með framkomu sinni og athöfnum algerlega örlög sín og skilyrði, skammtar sér sjálfur algerlega sælu og þjáningu. Karma, lögmál athafnarinnar, sér um það. Karma er þó ekki refsari, heldur kennari. Það, sem vanrækt er í þessari jarðvist, verður að bæta fyrir í þeirri næstu. Sár, sem veitt eru, verður að græða

ÞROSKAVIÐLEITNI

Þannig verður maðurinn smátt og smátt göfugri vera, fjarlægist meira þroskastig dýrsins. Meðan hann hefur annað hvort enga eða mjög óljósa tilfinningu fyrir göfgi og þroska, knýja alheimslögmálin hann áfram, þótt hægt fari, hvort sem honum líkar betur eða verr. En þegar hann vitkast, opnast honum möguleikar til að vinna með alheimslögmálunum og hraða þannig þroska sínum og auðvelda hann til mikilla muna. Tilraunir hans í þá átt kallast þroskaviðleitni. Til eru allgreinileg fyrirmæli um meginatriði skipulagðrar þroskaviðleitni. (Yoga, hugrækt bænalíf, hvítigaldur, að leita guðs ríkis, hinn göfugi áttfaldi vegur o. fl.)

MANNLEG FULLKOMNUN

Að því hlýtur að koma, að maðurinn stigi yfir mark mannlegrar fullkomnunar, yfir í einhverja æðri og göfugri þróun, sem væntanlega er þroskastigi mannsins álíka miklu æðri og það er æðra þroskastigi dýranna. Þeir, sem náð hafa þeim þroska, eru fullnumar. Sumir fullnumar velja sér það starf að halda áfram að starfa í líkamsgervum mannsins meðal mannanna til þess að leiðbeina þeim og fræða. Þeir kallast meistarar. Þótt þeir starfi meðal manna, ber sjaldan neitt á þeim, því að þeir vinna vegna starfsins, algerlega óháðir hvers konar launa- eða ábatavon.

GUÐSPEKILEGT VIÐHORF

Félagsmenn í Guðspekifélaginu mega algerlega ráða afstöðu sinni til þessara kenninga. Þeim er auk þess bent á að aðhyllast ekkert – og ekki heldur hafna neinu – fyrr en að samviskusamlega athuguðu máli, vera alltaf á verði gagnvart þeim möguleika að ný reynsla afhjúpi ný sannindi eða sýni þau í algerlega nýju ljósi. Þetta eru skýringartilraunir.

S. H. 1961.

© Lífspekifélagið