Í Reykjavík hefur vetrarstarf Lífspekifélagsins birst almenningi undanfarna áratugi í formi funda og námskeiða í húsi félagsins Ingólfsstræti 22, frá byrjun október og fram til 8. maí. Opnir fundir eru á hverju föstudagskvöldi kl. 20:00. Þar eru haldin erindi eða samræður um fjölbreytt efni er snertir andlega viðleitni, heimspeki, visindi, og listir af félagsmönnum eða gestafyrirlesurum.
Hugleiðslustund er vikulega og hugrækt fyrir byrjendur hefur verið í formi námskeiðs eða opinna funda undanfarin ár. Opið hús hefur verið á laugardögum, milli kl. 15:00 og 16:30.
Einnig hafa verið í gangi innri fundir, þar sem fjallað er um valið efni nokkra fundi eða vetrarlangt. Öllum er heimil þátttaka í þessum fundum. Reglulegt fundarstarf hefur verið í gangi yfir veturinn á Akureyri, hálfsmánaðarlega eða sjaldnar.
Yfir sumarmánuðina liggur starfið niðri að mestu nema hvað sumarsamvera er haldinn, venjulega í lok júní. Á sumarsamverunni hafa félagar tækifæri til að koma saman til náms, iðkana og samveru. Dagskráin stendur frá morgni til kvölds og inniheldur hugleiðslu, erindi, umræður og frjálsar samverustundir. Oft eru fengnir til erlendir fyrirlesarar á sumarskólann.
Lífspekifélagið gefur út tímaritið Ganglera einu sinni á ári og er ritið 160 bls. Áskrifendur eru mun fleiri en félagsmenn. Deildin rekur bókaþjónustu og á bókasafn með fræðibókum um andleg málefni. Bókaútgáfa deildarinnar, Hliðskjálf, hefur gefið út nokkrar bækur. Þá gefur deildin út lítið félagsblað Mundilfara, sem kemur út nokkrum sinnum á ári og flytur fréttir af starfseminni.
Inntökuskilyrði í félagið eru að einstaklingurinn verður að hafa náð lögaldri og með undirskrift sinni á inntökubeiðni lýsir hann yfir samúð með eða er samþykkur stefnuskrá þess. Hann getur þess hvort hann óskar að vera skráður í sérstaka stúku eða vera utan þeirra og skuldbindur sig til að fara eftir lögum félagsins. Forseti gefur síðan út félagsskírteini. Sá sem gengur í Lífspekifélagið hefur ekki gert annað en lýsa yfir áhuga sínum á að kynnast innihaldi trúarbragðanna, meiningum heimspekistefna og niðurstöðum vísindarannsókna, ásamt því að gera einstaklingsbundnar athuganir á öflum og möguleikum sem leynast kunna með manninum. Samt er þetta síður en svo tilfinningalaus fræðistarfsemi, því félaginn lýsir einnig viðurkenningu á allsherjar bræðralagi mannkynsins.
Lífspekifélaganum er ekki sama hvernig heimurinn er. Hann er í senn áhorfandi og þátttakandi. Hann vill skoða mannlífið, einkum mannshugann, eiga þátt í myndun jákvæðra viðhorfa, því allir menn eru fyrst og fremst menn þrátt fyrir ýmsa meira eða minna tilbúnar skiptingar. Enginn einn getur skorast undan hlutdeild sinni í ábyrgð heildarinnar – af því hann lítur á bræðralagið sem staðreynd.
Í fjölda ára hafa lífspekisinnar um heim allan stutt starf þess og tilgang. Margir ganga í félagið til að taka þátt í viðleitni þess og til að verða hluti alheimsfélagsskapar sem tengir saman fólk af mismunandi menningu, trú og þjóðerni. Félagsaðild býður hins vegar upp á fleira en tækifæri til að láta gott af sér leiða. Hún gefur stórkostlegt tækifæri til náms, með því að félagið kappkostar ávallt að leggja félagsmönnum til fágætt úrval andlegs námsefnis.
Í Lífspekifélaginu geta menn kynnst á tiltölulega stuttum tíma, straumum og stefnum í andlegum málum, þeir frétta um athyglisverðar bækur og tímarit og kynnast öðru fólki sem hefur svipuð áhugamál, þeir læra af reynslu annarra og miðla um leið sínum eigin skilningi. Lífspekifélagið er ekki varnargarður utan um einhverjar kenningar eða átrúnað; það boðar enga kenningu og getur þar af leiðandi ekki sóst eftir áhangendum. Það er því ekki trúfélag né dulspekifélag eins og margir virðast halda. Félagið er samtök venjulegs fólks sem hefur það óvenjulega áhugamál að vilja kanna leyndardóma mannsins og vitundar hans, fólks sem vill nema eftir sinni eigin getu og í samræmi við eigin persónulega hæfileika. Forsenda slíkrar leitar eða náms er innra frelsi, frelsi til að leita, sem er að vera óbundinn af trúarsannfæringu og frelsi til að tjá skilning sinn.
Lífspekifélagið er vettvangur einstaklinga sem vilja sameinast um spurningar en ekki um svör,
sem vilja leita eftir skilningi en ekki sannfæringu.
Allt frá stofnun félagsins árið 1875 hefur megin markmið þess verið að kynna hugmynd, sem var afar nýstárleg á þeim tíma – allsherjar bræðralag mannkynsins. Síðan þá hefur hugtakið “einn heimur” náð mikilli útbreiðslu meðal hugsandi fólks. Mikill hluti mannkynsins getur nú fallist á fyrsta stefnuskráratriði félagsins, en allt of oft er aðeins um “samþykki í orði” að ræða.
Heimurinn á augljóslega ennþá erfiða tíma framundan og höfuð markmið lífspekisinnans er enn sem fyrr að ýta undir gagnkvæman skilning meðal fólks af öllum menningarheildum, þjóðerni, heimspekihugsun og trúarbrögðum. Önnur markmið lífspekisinnans eru meðal annars:
Lífspekifélagið reynir að forðast kreddur og óbilgjarnar skoðanir, en lítur í staðinn til uppsprettu einingar handan alls mismunar. Félagar þess um allan heim sameinast þrátt fyrir mismunandi trú og menningaruppruna í sameiginlegri leit að tilgangi lífsins.
Þegar lesandi þessarra síðna lítur yfir hina mismunandi kafla, sér hann væntanlega að mest af efninu vísar til þeirra grundvallarhugmynda, að lífið sé eining, að allir hlutir séu samtengdir og allt sé á langri þróunarbraut til hinnar guðdómlegu uppsprettu alls sem er.
Fyrsta stúkan, Reykjavíkurstúkan, var stofnuð 1912 og stúkan á Akureyri árið 1913. Eftir það voru fimm stúkur stofnaðar þar til 1920 að félagar ákveða að stofna Íslandsdeildina.Árið 1921 fær deildin formlega staðfestingu frá alsherjarforseta. Fyrsti forseti hennar var Jakob Kristinsson. Kristín Matthíasson tók við 1929. Rit deildarinnar, Gangleri, kom fyrst út prentað 1926 og hefur komið út óslitið síðan.
Gretar Fells var kosin forseti árið 1935 og gengdi því starfi í 21 ár, var jafnframt ritstjóri Ganglera í 30 ár. 1956 var Sigvaldi Hjálmarsson kosinn deildarforseti og var það í samanlagt 14 ár. 1965 tók hann við ritstjórn Ganglera. Núverandi forseti og ritstjóri Ganglera er Jón Ellert Benediktsson.
Frá upphafi félagsins hefur verið stöðugt starf yfir vetrarmánuðina með fyrirlestrum, hugleiðingum, spjalli og námskeiðum.
Saga deildarinnar er samofin húsi félagsins, án hússins hefði sennilega lítið eða ekkert orðið af félagsstarfi. Árið 1917 keypti Ludvig Kaaber einnar hæðar kirkju Aðventista og gaf félaginu. Tveimur árum seinna voru víðtækar breytingar gerðar á húsinu, byggð ofan á það ein hæð og ris. Árið 1970 er ýmislegt farið að láta á sjá í húsinu og 1975 var ráðist í verulegar endurbætur, þak endurnýjað og húsið klætt að utan og betur einangrað. 1992 var skipt um gólf á efri hæð og nýir burðarbitar settir undir gólfið. 1994 voru gerðar endurbætur á forstofu, uppgangi og forsal niðri. Grafið langt niðurundir grunn og steyptar burðarsúlur. Steyptir veggir inni, nýr stigi steyptur. Horn hússins sem var orðið laust frá, bundið með þessari steypuvinnu. Snyrting færð og snyrting sett einnig uppi. Millilofti breytt og mikið lagað. Gísli V Jónsson á mestan heiður af þessum endurbótum öllum.
Lífspekifélagið (The Theosophical Society) var ekki stofnað til að boða neina kenningu. Það var stofnað til þess að vera vettvangur fyrir fólk að leita sanninda um lífið og tilveruna, þar með aðallega sína eigin tilveru, hver á sinn hátt og eftir sinni leið.
Lífspekifélagið var fyrsta félagið sem vakti athygli á austrænum viðhorfum á Vesturlöndum. Þau voru talin áhugaverð þótt engin væri hvattur til að taka þau beinlínis upp og fleygja sínum gömlu viðhorfum. Það var líka fyrsta félagið sem hvatti til frjálsrar stúdíu á dulrænum fræðum almennt, bæði austrænum og vestrænum. Og nú skipta þau félög, skólar og stofnanir hundruðum, sem beint eða óbeint eiga rót sína að rekja til þessa kynningastarfs.
Lífspekifélagið var frá upphafi hugsað fyrir mannkynið allt. Það var ekki búið til á einum stað og breiddist síðan út um heiminn, það var þegar í upphafi stofnað sem alþjóðafélag, sennilega hið fyrsta þeirrar tegundar.
Afmörkuð lífspeki (guðspeki) í nafni félagsins er ekki til né hefði nokkru sinni til verið. Það sem kallað væri lífspeki eða lífspekifræði, eru hugmyndir eða kenningar sem hafa verið kynntar í félaginu en félagsins ekki að öðru leyti, því eðli félagsins samkvæmt boðar það engar kenningar né trúarfræði, sbr. einkunnarorðin: ,,Engin trúarbrögð eru sannleikanum æðri.” Lífspeki er afstaða spurnar og rannsóknar, opið hugarfar í sífelldri endurnýjun.
Lífspekifélagið er hlutlaust gagnvart öllum trúarhreyfingum og ann þeim öllum góðs gengis. Samt er því ekki neitað að lífspekistarf glæðir andlegan áhuga einmitt hjá þeim sem trúarbrögð ná ekki til, og þess vegna ætti það að njóta velvilja.