Hugleiðing
Hin venjulega vitundargerð mannsins er stundum nefnd apahugurinn, þar sem athyglin flögrar frá einu atriðinu til annars eins og api sem sveiflar sér grein af grein.
Jafnvel þegar reynt er að einbeita huganum að einhverju sérstöku, fer athyglin á reik og dreymir um eitthvað sem maður ætlar að gera næstu helgi, eða upp í hugann kemur óleyst vandamál morgundagsins.
En þú átt þess kost að stöðva þetta sífellda flökt apahugans og öðlast „hljóðan” eða „kyrran” huga, sem er forsenda þess að geta þroskað hið andlega eðli þitt. Hugleiðingin er aðferðin til að þjálfa upp þessa hugkyrrð.
INNRI MIÐJA FRIÐAR
Eftir því sem vandamál hins ytri heims magnast og margfaldast eru þeir sífellt fleiri sem snúa sér að iðkun hugleiðingar sem fyrsta skref í átt til kyrrlátara lífs, skýrari hugsunar, aukinnar orku og visku í daglegu lífi og ekki síst til birtingar þeirrar uppsprettu styrkleika og friðar, sem býr hið innra með hverjum manni.
Í þessari andlegu leit megum við ekki missa sjónar af þeirri staðreynd að um er að ræða innri vegferð. Því á sama hátt og hafdýpið á sín kyrrlátu djúp, ósnortin af ókyrrð yfirborðsins, er því einnig farið hjá öllum mönnum. Í þessu djúpi vitundarinnar – hinni sönnu miðju og uppsprettu alls sem við erum – ríkir þögn, kyrrð og fegurð. Og við eigum þess kost að nálgast þessa innri miðju.
Ef athyglinni er beint að hinni innri miðju getur það leyst úr læðingi orku hinnar guðlegu uppsprettu, sem er hið sanna eðli hvers mannlegs einstaklings. En flest lifum við í sjálfviðmiðuðum hversdagsathöfnum efnisheimsins, útilokuð frá hinu andlega eðli okkar og því ljósi sem streymir um það frá hinni einu uppsprettu lífsorkunnar.
Það er lögmál náttúrunnar að eftirsókn okkar og óstöðvandi athafnaþrá – óttinn, langanirnar, venjurnar, efinn og dómharkan – draga stórlega úr þeirri orku sem við getum móttekið.
Með hugleiðingu getum við fjarlægt hindranirnar þannig að gáttir hinna andlegu sviða vitundarinnar ljúkist upp. Þá mun sköpunargleði og innsæi flæða inn í líf okkar, lina tak vandamálanna á okkar og leiða til tjáningar kærleika og friðar í öllu sem við gerum.
Hugleiðingin er alger kyrrð – kyrrð líkamans, kyrrð tungunnar og kyrrð hugans.
Til að öðlast kyrrð hugans verðum við að læra þá list að leyfa athöfnum okkar, hugsunum, og tilfinningum að vera það sem þeim er eðlilegt, án þess að hafa okkur á valdi sínu. Við getum ekki þröngvað huganum til að verða hljóður, en við getum dregið athyglina frá ókyrrð hans. Hugleiðingin er okkar innsta eðlilega ástand, hin tæra vitund sem við upplifum um leið og hugurinn hættir athafnasemi sinni. Hún er okkur erfið vegna þess að hún er það að gera „ekki neitt”. Hún er aðeins það að vera það sem við erum.
HIN ÆVAFORNU VÍSINDI
Hugleiðingin hefur verið höfuð viðfangsefni flestra andlegra hefða, en þar sem hún er iðkuð í kyrrð og einrúmi, er hún síður þekkt en margar þjóðfélagslegri iðkanir, svo sem prédikanir og söngur. Samt sem áður eru leiðbeiningar sem gefnar voru fyrir þúsundum ára af indverska spekingnum Patanjali enn í fullu gildi á okkar tímum. Hann byrjar á því að leggja áherslu á nauðsyn flekklauss lífernis, sem ekki byggist á græðgi og skynfýsn, heldur meinleysi, sannleiksást, einföldu líferni og nægjusemi.
Fyrsta leiðsögn Patanjalis til hugleiðandans er að hægja á tilbrigðum hugsunarinnar – að hindra hugann í að samkennast eða bregðast við áreiti. Hann setur síðan fram eftirfarandi fjögur skref sem nauðsynleg eru til að ná tökum á listinni að hugleiða:
Athugun (varurð). Að athuga með óskiptri athygli þroskar varurð eða „staðfestu hugans”, sem nauðsynleg er í hugleiðingu. Við verðum að vera stöðugt meðvituð um þau skilyrði sem liggja að baki hugsunum okkar og tilfinningum og reyna að starfa æ meira út frá þeirri miðju kyrrðar sem er okkar raunverulega sjálf. Eftir því sem við iðkum þetta lengur munum við gera okkur grein fyrir að hið raunverulega ferli hugleiðingarinnar er ekki aðgreinanlegt frá sjálfri listinni að lifa.
Fasthygli er nauðsynleg til að temja „apahugann”. Við verðum að læra að halda athyglinni staðfastlega við efnislega hluti, háleita hugmynd eða persónuímynd og leiða hana aftur að viðfangsefninu ef hún flöktir á dreif. Hugurinn reynir að taka völdin, en með því að fylgjast gaumgæfilega með ferli hugsunarinnar getum við lært að tryggja að það séum við, en ekki hugurinn sem ákveður innihald og starfshætti vitundarinnar.
Hugleiðing. Hin raunverulega hugleiðing hefst þegar starfsemi hugans þagnar og hugleiðandinn er sér meðvitaður um innri tilgang hennar. Þetta er eins og að hverfa handan fasthyglinnar inn í al-varurð og upplifa þannig eininguna.
Hljóður hugur. Í þessum lokaáfanga verður hugleiðandinn algerlega eitt með hugleiðingunni. Þetta leiðir til útvíkkunar vitundarinnar sem færir hann frá hinu takmarkaða sjálfi til hins æðra sjálfs. Ekki er lengur neitt „ég” eða „það” sem viðfangsefni hugleiðingarinnar, aðeins hinn eini veruleiki.
HVERNIG Á AÐ HUGLEIÐA?
Sérhver einstaklingur fer eigin leiðir við iðkun hugleiðingar, en eftirfarandi aðalatriði eru sameiginleg öllum hinum hefðbundnu hugleiðingaraðferðum:1. Hugleiðið reglulega á sama tíma hvern dag, ein í ró og næði.
2. Sitjið í þægilegri stöðu með beinan hrygg.
3. Slakið á öllum vöðvum – djúp öndun hjálpar til.
4. Dragið meðvitað athyglina frá öllu ytra áreyti.
5. Æfið einhverja af neðangreindum athygliæfingum.
6. Geislið meðvitað til alls heimsins þeim friði og kærleika, sem þið upplifið í hugleiðingunni.
7. Komið eftir u.þ.b. 15 mínútur rólega til baka til hinnar venjulegu dagvitundar.
Til að hjálpa við að koma á hugkyrrð eru margar mismunandi æfingar til reiðu fyrir hugleiðandann og eru nokkrar þær helstu tilgreindar hér að neðan:a. Fasthygli á andardráttinn. Haldið athyglinni stöðugri við streymi loftsins um nasirnar. Reynið ekki að telja andartökin, látið andardráttinn flæða eðlilega en verið meðvituð um flæðið inn og út. Þetta heldur athyglinni við hið líðandi andartak – sem er hið eina hlið til æðri vitundar.
b. Notkun mantra. Möntrur eru orð, sem tengja okkur við hin andlegu svið vitundarinnar vegna sérstakra hljómeiginleika. Að kyrja möntru á borð við hið forna indverska „ÓM”, (hin vestræna samsvörun er amen), er öflugt tæki í hugleiðingunni.
c. Að sjá fyrir sér hlut eða hugmynd. Tákn eða spakmæli á borð við „ég er eitt með alverunni”, má nota sem viðfangsefni fasthygli til að vekja hugkyrrð
d. Að tæma hugann. Margir hugleiðendur reyna einfaldlega að tæma hugann eða kyrra athafnir hans, meðvitaðir um að ef það tekst mun útvíkkun vitundarinnar fylgja.
Aðferðir sem hafa áhrif á vald okkar yfir huganum eru ekki æskilegar, þar sem þær geta leitt til alvarlegs skaða fyrir hugleiðandann bæði líkamlega og sálrænt. Einnig er mælt gegn notkun lyfja við hugleiðingu, þar sem þau geta opnað fyrir yfirskilvitlegar upplifanir en lyfta vitundinni aldrei til æðri vitundarstiga. Í raun tilheyra engar aðferðir sannri hugleiðingu, sem annaðhvort lofa vöknun yfirskilvitlegra hæfileika eða hvetja iðkandann til að gefa upp sjálfstjórn eigin hugar til ytri vitundarafla.
TILGANGUR HUGLEIÐINGAR
Hið endanlega takmark með hugleiðingunni er hið sama og með Yoga – að gera einstaklingnum kleyft að upplifa hið æðsta vitundarástand, hina mystisku reynslu eða einingarvitund, sem er eining þess sem við getum hugsað okkur sem Guð eða Náttúruna.
Þessi reynsla einingar er hin æðsta andlega upplifun, sem nokkur einstaklingur getur upplifað.
© Lífspekifélagið