Kenningin um endurholdgun
Kenningin um endurholdgun er ævaforn og hefur verið hluti trúarbragða, heimspeki og viðhorfa milljóna manna víða um heim um árþúsundir. Sem innlegg í andlega umræðu á breiðum grundvelli hefur Guðspekifélagið kynnt þessar kenningar, ásamt öðrum, á vesturlöndum með áhrifaríkum hætti í meira en öld. Það hefur tekið saman fróðlegt heilsteypt kerfi kenninga, sem kallaðar hafa verið guðspekilegar kenningar og býður þær fram sem möguleika til skoðunar, án þess að lagðar séu kröfur á nokkurn, innan félagsins eða utan að aðhyllast þær.
Hverjum og einum er frjálst að hafa hverja þá meiningu um þessar kenningar sem honum sýnist. Hér er aðeins rúm til að brydda lítillega á innihaldi kenningarinnar um endurholdgun og þeim rökum sem hún styðst við, eins og hún hefur verið framsett af þeim félögum, sem hana hafa aðhyllst.
HVERSVEGNA MISMUNUR?
Það hafa komið fram margar skýringar um hinn mikla mismun sem augljóslega ríkir um atgervi, tækifæri eða aðstæður manna í lífinu. Hver og ein þeirra fjallar um mismunandi stig sjálfsákvörðunarréttar okkar í lífinu.
Ein skýringin, sem venjulega kemur frá trúarbrögðum, er sú að hver sál sé sérstök sköpun guðs. Þetta gefur til kynna að örlögum okkar sé stjórnað eða leiðbeint af utanaðkomandi vilja, sem kann að virðast tilviljanakenndur eða jafnvel óbilgjarn.
Vísindaleg efnishyggja heldur því fram að mismunur milli manna stafi af samblandi erfðra og umhverfisþátta. Þetta leiðir það einnig af sér að við séum að verulegu leyti áhrifalaus um eigið líf. Við erum þannig afleiðingar erfðra og utanaðkomandi þátta, sem við höfum aðeins óveruleg áhrif á.
Þriðja skýringin gerir ráð fyrir endurholdgun, eða röð endurfæðinga. Þegar endurholdgun er skoðuð í samhengi við lögmál orsaka og afleiðinga eða athafna og endurverkana, er hægt að líta á núverandi stöðu okkar sem afleiðingu af fyrri athöfnum. Þetta merkir að við getum haft nokkuð að segja um núverandi líf og líf okkar til framtíðar. Við getum haft áhrif á eigin framtíðar örlög með hugsunum okkar og athöfnum í dag.
Í hinni fyrstnefndu skýringu um guðlega sköpun, eigum við okkur enga einstaklings fortíð, en aftur á móti óendanlega framtíð. Eigindir okkar og aðstæður eru þá skapaðar sérstaklega af Guði og þröngvað upp á okkur án nokkurrar ákvörðunar af eigin hálfu.
Í erfðar og umhverfisskýringunni verður þróun mikilvægt atriði. Samt sem áður er erfitt að gera grein fyrir hæfileikum á borð við helga menn og snillinga.
Í þriðju skýringunni um endurholdgun verður þróunin að aðalatriði. Hún er þó ekki viðurkennd í heild sinni af vísindunum. Endurholdgunin fjallar nefnilega um vitræna og andleg þróun, ásamt þróun hinna líkamlegu þátta, sem háðir er erfða og umhverfisþáttum.
Endurholdgunarkenningin gefur okkur, ásamt lögmáli orsaka og afleiðinga, kost á vali og endurvekur réttlæti. Tilvera sérhverrar andlegrar sálar hefst með röð endurholdgana, þ.e. hvert eitt okkar byrjar ferð sálarinnar án þekkingar, samvisku eða dómgreindar. Við lærum af reynslunni, jafnt hinni þægilegu og hinni þjáningarfullu reynslu og afrakstur reynslunnar hjálpar til við að þroska huglæga og siðferðilega þætti okkar.
Þannig eru þau lyndiseinkenni, sem við fæðumst með við byrjun hverrar jarðvistar sjálfsköpuð og sýna það stig, sem við erum á, í langri ferð þróunarinnar. Erfðir og aðstæður, sem við mætum í þessu lífi, eru í samræmi við afleiðingar athafna okkar í fyrri lífum. Góðar eða slæmar aðstæður, hinir góðu hæfileikar okkar og allt okkar eðli er afleiðing fyrri athafna okkar, hugsana og tilfinninga. Öll þessi þróun er árangurinn af ákvörðunum, sem við höfum sjálf tekið í langri röð jarðvista. Þessar ákvarðanir verða síðan sífellt ígrundaðri og markvissari eftir því sem okkur miðar áfram í þroska.
MINNINGAR UM FYRRA LÍF
Spurning sem oft vaknar þegar minnst er á endurholdgun er: „Ef ég hef verið hér áður, hversvegna man ég þá ekki fyrri líf mín?” Við getum auðvitað viðurkennt að við gleymum meiru af okkar núverandi lífi en það sem við munum. Margir muna ekki eftir því þegar þeir lærðu að lesa þótt sú staðreynd að þeir geti lesið sanni að þeir hafi lært það. Atvik frá barnæsku og unglingsárum hafa e.t.v. máðst úr minningunni, en hafa samt skilið eftir mark sitt á sálarlíf okkar. Fall í bernsku kann að vera gleymt, þótt það hafi leitt af sér ævilanga fötlun.
Ef rétt er að við mótumst verulega af reynslunni, sem við mætum í núverandi líkama, hversu líklegra er þá ekki að við endurspeglum einnig afleiðingar reynslu sem við verðum fyrir í fyrri líkömum? Og þar sem núverandi líkami og heili hafa engan þátt átt í hinum löngu liðnu atburðum, hvernig getum við þá munað nokkuð frá þeim?
Þetta merkir ekki að minningar um þessi fyrri líf hverfi endanlega. Því er haldið fram að öll atvik séu skráð varanlega og aðgengileg einstaklingunum þegar þeir komast á ákveðið stig andlegs þroska.
HVAÐ ENDURHOLDGAST?
Athugun á því hvað það er sem endurholdgast hjálpar til að svara ráðgátunni um minnið. Hið guðspekilega viðhorf er að innri gerð mannsins sé bæði margslungin og margvídda. Annars vegar samanstandi hún af forgengilegum þætti, sem við nefnum persónuleika, sem að mestu speglar þá reynslu, sem við höfum aflað okkur í þessu lífi. Á hinn bóginn eru fyrir hendi tiltölulega óforgengilegir þættir, sem innihalda samsafn allrar þeirrar reynslu, sem safnað hefur verið í gegnum mörg líf. Allar þessar hliðar mannlegrar uppbyggingar eru ekki aðgreindar heldur samtengdar í eina heild.
Hinn varanlegi hluti okkar, sem fylgir okkur gegnum allar hringferðir endurholdgana, er hinn andlegi líkami, sem oft er nefndur sál. Við dauðann eyðast hin hverfulu starfstæki eða eigindir áður en við snúum aftur til nýrrar jarðvistar. Hið nýja huglæga, tilfinningalega og jarðneska efni, sem safnað er saman og mótað fyrir nýtt líf, fær frá sálinni ekki beint reynslu fortíðarinnar, heldur færni, tilhneigingar og hæfileika, sem eru afleiðingar þessarar reynslu. Samviska okkar, eðlislæg viðbrögð við tilfinningalegum og huglægum áhrifum, skynjun okkar á rökrænu samhengi, skilningur á grundvallaratriðum góðs og ills, er allt áhrif frá fyrri reynslu.
ÞROSKI OG HÆFILEIKAR
Þroski og framþróun eru mikilvægur og óaðskiljanlegur þáttur endurholdgunarinnar. Áhersla er lögð á stöðugan vöxt til mannlegrar fullkomnunar. Hin guðspekilega heimspeki geri ekki ráð fyrir afturþróun, það er að menn geti endurholdgast sem dýr eða plöntur. Þegar einstaklingur er fljótur að tileinka sér heimspeki eða vísindi, þegar hann tileinkar sér list auðveldlega og án náms, þá er það árangur af fyrri iðkun, enda þótt staðreyndir, sem lærðar hafa verð í fyrri lífum, séu gleymdar. Þegar okkur finnst við þekkja ókunnugan við fyrstu sýn, kann sálin að kannast við vin úr fortíðinni. Þegar við hrökkvum frá öðrum ókunnugum með andúðartilfinningu, kann að vera um að ræða endurminningu sálarinnar af gömlum óvini.
Þessi samhygð eða andúð stafar frá hinni ævarandi sál eða andlegu miðju, sem er okkar sanna sjálf. Við munum, en þar sem líkaminn og heilinn eru ný starfstæki, getum við ekki munað smáatriðin. Sálin færir hinum nýja persónuleika árangur fortíðarinnar, en án minninganna um atvikin sjálf. Það hvernig við meðhöndlum þessi viðbrögð í hverju lífi, segir til um hinar andlegu framfarir.
Á sama hátt og reikningum ársins er lokað við hvert áramótauppgjör fyrirtækis og nýir reikningar opnaðir með lokaniðurstöðum fyrri reikninga án færslna síðasta tímabils, þannig færir sálin nýjum heila höfuðstólinn af reynslu fyrri lífa, niðurstöður sem fyrir hendi eru og ákvarðanir, sem teknar hafa verið. Þetta er viskan, sem hið nýja líf fær í vöggugjöf, hina raunverulegu minningar sálarinnar.
ANDLEGUR VÖXTUR
Það er hægt að endurheimta minningar fyrri lífa. En slíkir hæfileikar eru tengdir andlegum þroska og krefjast stöðugrar viðleitni. Þar er mikilvægt að ná stjórn á hinum ókyrra huga og koma á innri kyrrð, þannig að hann geti orðið næmur fyrir tjáningu sálarinnar. Aðeins þegar hin kyrrláta fíngerða rödd sálarinnar er greind er hægt að birt sögu fortíðarinnar og læra lexíur hennar til fulls. Það er aðeins sálin, sem getur raunveruleg munað.
Sársauki fylgir mistökum, en þetta getur verið uppbyggilegt, því við lærum að gera ekki sömu mistökin aftur. Styrkur fæst með áreynslu. Við lærum af sérhverri reynslu hið óhjákvæmilega: – hamingjan fylgir því að gera það sem rétt er, óhamingjan fylgir mistökunum.
Í öllum tilfellum lífsins er skýringar á atvikum líðandi stundar að leita í fortíðinni. Þegar lögmál andlegs vaxtar eru skilin og þeim hlýtt, verðum við ábyrgari í uppbyggingu eigin framtíðar. Þá mun líf okkar verða sífellt fyllra þar til við náum mannlegri fullkomnun. Á þeirri leið mun okkur hlotnast sú gæfa að fá að hjálpa til við að lyfta mannkyninu í heild til nýrra andlegra hæða.
© Lífspekifélagið