XXXVI HINN INNHVERFI – (Síðari hluti)

36.0 Inngangur

36.1 Innri þróun

36.2 Status quo

36.3 Ýmsar gerðir innhverfu

36.4 Um vonleysi

36.0 Inngangur.

Í tveimur síðustu þáttum höfum við tekið fyrir hina hlédrægu manngerð. Hvort sem er um að ræða norðanmann (17.-24. þáttur), sunnanmann (25.-30. þáttur) eða vestanmann (31.-33. þáttur) þá hafa þessar manngerðir það sameiginlegt að vilja kljást við umhverfið og heiminn með einum eða öðrum hætti. Eins og fram kom í 33. og 34. þætti telja sumir sig geta verndað sálu sína með því draga sig inn í skelina. Þetta þýðir þó ekki að flytja upp í óbyggðir eða í algera einangrun, heldur er verið að ná frelsi og sjálfstæði gagnvart öðrum með því að láta þá ekki hafa áhrif á ytri eða innri þarfir sínar.

Sjálfstæði gagnvart ytri þörfum má meðal annars ná með því að safna auði. Þá er auðæfum ekki safnað til að öðlast völd og áhrif, heldur varið til að öðlast sjálfstæði. En oftast nýtur viðkomandi ekki eigin ríkisdæmis vegna kvíða. Hann er varkár og sparsamur til þess að tryggja sig gagnvart óvæntum óhöppum og hugsanlegum uppákomum. Sama markmiði má ná með því að takmarka óskir sínar eða þarfir og halda þeim í lágmarki.

Sjálfstæði gagnvart innri þörfum næst með því að halda sig tilfinningalega fjarri öðrum, svo að ekkert geti sært eða valdið vonbrigðum. Tilfinningalegar þarfir eru kæfðar. Viðkomandi þarfnast þá ekki annarra og hann lætur enga hafa áhrif á sig, hann er ekki bundinn einu né neinu, öll nálægð er honum ógn um að bindast í fjötra. Fjarlægð og aðskilnaður er öryggisatriði fyrir hann. Þó liggur ótti alltaf í láginni um að þarfnast annarra, eða einhvers konar bindingu, nálægð eða ástarbönd.

Þessi viðhorf eiga það sameiginlegt með sunnanmanni, að óskirnar eru takmarkaðar. En þar sem sunnanmaðurinn takmarkar þarfir sínar til að vera “góður maður” og tryggir öryggi sitt með því að uppfylla væntingar annarra, þá skiptir “góðleiki” hinn innhverfa engu. Takmarkanir hans eiga að veita honum frelsi og sjálfstæði gagnvart öðrum. Hann segir við sjálfan sig: Ef ég dreg mig í hlé, þá getur ekkert sært mig.

36.1 Innri þróun.

Meginhvatinn þeirrar innhverfu sem hér er fjallað um kemur frá hinu innra sálræna ferli, enda þótt sókn eftir yfirburðum, sem aðrir leita eftir, komi hér einnig til. Fjarlægð hins innhverfa frá öðrum þegar í æsku dró úr árekstrum, ef henni var stöðugt fylgt eftir. En takmörkun óska, sem hin innhverfa lausn er byggð á, er erfið. Innhverfan var því oft sveiflukennd í fyrstu. Hinn innhverfi vill fá meira út úr lífinu en sálarfriður hans leyfir. Ef hann lendir í freistingum eða nánum tilfinningaböndum, gera innri árekstrar vart við sig og hann þarfnast innra jafnvægis og heilunar. En fyrri þróun hefur leitt til andlegra andstæðna og firrt hann sjálfum sér. Hann skortir sjálfstraust og finnur sig vanhæfan til að takast á við lífið. Hann getur því aðeins tekist á við aðra, að hann haldi sig í tilfinningalegri fjarlægð frá þeim. Lendi hann í nálægð þeirra, verður hann hemlaður og feiminn, auk þess sem hann býr við þá fötlun að geta ekki barist. Af þeim ástæðum neyðist hann eins og aðrir til að finna andsvör við þörfum sínum með því að gylla eigin ímynd. Hann reynir e.t.v. að fullnægja metnaði sínum í raun, en vegna margra eigin innri ástæðna og erfiðleika gefst hann upp. Sjálfsímynd hans verður gylling þeirra þarfa sem hann hefur þróað með sjálfum sér. Samsetning hennar er fyrst og fremst að vera sjálfum sér nógur, sjálfstæður, hafa innri sálarfrið, frelsi frá óskum og ástríðum, stóísk ró og sanngirni. Sanngirni hjá honum gegnir ekki hlutverki hefndar (eins og “réttlætið” gegnir hjá norðanmanninum), heldur fegrun aðgerðarleysis og tómlætis, að abbast ekki upp á aðra eða rétt annarra.

Hér komum við að mikilvægum þáttaskilum. Þær skyldur sem fylgja slíkri sjálfsímynd skapa annan vanda fyrir hinn innhverfa. Ný hætta birtist á sjóndeildarhringnum. Upprunalega varð hann að vernda sjálfan sig fyrir hinum ytra heimi. Nú verður hann að vernda eigið sjálf fyrir enn ægilegri eigin innri harðstjórn. Útkoman veltur á því innra lífi sem hann hefur varðveitt til þessa. Ef það er sterkt og hann hefur óvitað ásett sér að vernda það með öllum ráðum, getur hann haldið því að einhverju leyti, þótt það kosti þær takmarkanir, sem áður voru ræddar, með því að draga sig út úr lífinu og setja hömlur á allar tilhneigingar til láta rætast úr eigin Sjálfi.

Innri harðstjórn er hér ekki sterkari en hjá öðrum. Mismunurinn liggur í því að hinn innhverfi þjáist meira undir henni en aðrir, vegna þarfar sinnar fyrir frelsi. Hann reynir að ná tökum á henni með því að varpa henni að hluta til út. En þar sem hann leggur bann við allri ýgi og ágengni, getur hann aðeins frávarpað skyldum sínum aðgerðarlaust, sem þýðir að væntingar annarra eða það sem honum finnst vera þær, verða fyrirskipanir sem hlýða verður skilyrðislaust. Honum finnst jafnvel að fólk myndi snúast harkalega gegn honum, ef hann uppfyllti ekki væntingar þess. Í raun þýðir þetta að hann hefur ekki aðeins frávarpað skyldum sínum heldur einnig sjálfshatri. Aðrir myndu snúast gegn honum af jafnmikilli hörku og hann sjálfur fyrir að standa ekki við skyldur sínar. Þar sem þessi ótti við fjandskap er frávarpaður, verður hann ekki læknaður með gagnstæðri reynslu. Hann óttast höfnun af litlu tilefni.

Af þessum ástæðum vex hin upprunalega viðkvæmni gagnvart ytra þrýstingi. Við skiljum nú hvers vegna hann upplifir ytri þvingun, jafnvel þótt lítill þrýstingur komi frá umhverfinu. Þótt frávarp eigin skyldna dragi úr innri spennu koma til nýir árekstrar. Hann ætti annars vegar að verða við væntingum annarra, hann ætti ekki að særa tilfinningar þeirra, hann verður að friðmælast vegna hugsanlegs fjandskapar og hins vegar ætti hann jafnframt að vera sjálfstæður. Þessi átök sjást í tvíbentum viðbrögðum hans til annarra. Í mörgum tilvikum er það eins og sambland af hlýðni og mótþróa. Hann getur t.d. orðið kurteislega við bón, en gleymt henni eða frestað. Gleymska hans getur orðið svo alvarleg, að hann getur ekki haft skipulag á lífi sínu nema með hjálp minnisbókar þar sem hann skráir niður fundi og verk sem framkvæma þarf. Einnig getur hann uppfyllt óskir annarra, en hundsað þær andlega, án þess að verða þess var. Hann getur t.d. fylgt reglum, verið stundvís o.s.frv. án þess að kljást efnislega við viðfangsefnið.

Ekki verður hjá því komist að þessi átök skapi álag fyrir hann í samskiptum við aðra. Þetta álag er honum stundum meðvitað. En hvort sem hann verður þess var eða ekki, eykur það tilhneigingu hans til að draga sig í hlé frá öðrum.

Hið aðgerðarlausa viðnám sem hann setur gegn væntingum annarra verkar gagnvart þeim skyldum, sem ekki er frávarpað. Sú tilfinning, að eiga að gera eitthvað er oft nægileg til að gera hann lystarlausan. Þetta óafvitaða setuverkfall væri ekki alvarlegt ef það væri takmarkað við þau verk og störf, sem hann hefur í hjarta sínu ólyst á, svo sem að taka þátt í samkvæmum, skrifa ákveðin bréf, borga skuldir eða gera eftir atvikum eitthvað annað. En því meira sem hann hefur eytt persónulegum óskum, þeim mun meira verður allt sem hann gerir, gott, vont og hlutlaust, að skyldu, - eitthvað sem hann “á” að gera: bursta tennur, lesa dagblað, fá sér göngutúr, vinnan, borða eða hafa kynmök. Öllu er mætt með þögulli mótstöðu, sem leiðir til allsherjar dáðleysis. Allar athafnir eru takmarkaðar við lágmark og yfirleitt framkvæmdar undir álagi. Hann verður lítt skapandi, þreytist fljótt eða þjáist af stöðugri þreytu.

36.2 Status quo.

Tveir þættir viðhalda þeirri þróun, sem hér hefur verið lýst. Ef viðkomandi hefur í fyrsta lagi ekkert samband við sína eigin sjálflægu krafta, kann honum að vera ljóst að slíkur lífstíll sé eyðslusamur og ófullnægjandi, en hann sér enga leið til breytinga af því að honum finnst sem hann myndi einfaldlega ekki gera neitt nema af því að hann þvingaði sig til þess. Í öðru lagi hefur aðgerðarleysi og tómlæti hans öðlast ákveðið hlutverk. Hin andlega lömun getur í huga hans verið orðin að óbreytanlegri fötlun og hann notar hana til að firra sig sjálfsásökunum og sjálfsfyrirlitingu.

Sú áhersla sem lögð er á aðgerðarleysi fær aukinn styrk úr annari átt. Með sama hætti og aðferð hans til að leysa innri árekstra var að gera þá óvirka, reynir hann nú að taka skyldur sínar úr umferð. Hann gerir það með því að reyna að forðast þær kringumstæður, sem trufla hann. Hér er ný ástæða til að forðast samneyti við aðra eða að sýna afgerandi metnað. Hann fylgir óafvitað þeim einkunnarorðum, að svo lengi sem hann gerir ekkert brýtur hann engar skyldur og bönn. Stundum réttlætir hann aðgerðarleysi sitt með því að hugsa sem svo, að hann myndi ganga á rétt annarra með viðleitni sinni.

Þannig má sjá að innri þættir og þróun valda því með mörgum hætti að hin upprunalega lausn hins fráhverfa styrkist stig af stigi og að lokum skapast þær andlegu flækjur sem leiða til þeirrar innhverfu sem hér hefur verið lýst. Þessi staða væri ólæknanleg vegna þess að hvatinn til breytinga er í lágmarki, ef ekki væru til staðar jákvæðir þættir, þ.e. hve frelsið heillar. Hinn innhverfi skilur oft betur en aðrir, hversu harðstjórn skyldunnar er skaðleg í eðli sínu. Undir hagstæðum skilyrðum finnur hann það ok sem hún leggur á okkur í raun. Hann getur því tekið afdráttarlausa afstöðu gegn henni. Auðvitað afnemur slíkt meðvitað viðhorf ekki harðstjórn skyldunnar, en það getur reynst veruleg hjálp til að komast yfir hana smátt og smátt.

Ef við nú lítum til baka til þess sem hér hefur verið reifað og í síðasta þætti, þá sjáum við að í heildarbyggingu innhverfunnar býr viðleitni til að viðhalda heilleika. Við sjáum þá ýmislegt mikilvægt. Við höfum oft orðið þess vör að yfir sönnum innhverfum mönnum býr heilleiki. Okkur má nú líka vera ljóst að heilleiki er eðlislægur kjarnaþáttur í uppbyggingu innhverfu. Fráhverft og innhverft fólk getur verið óraunsætt, óvirkt, duglaust og erfitt viðskiptis vegna þess hve ögrandi það er og sýnir mikla varurð gagnvart áhrifum og nálægð, en það er að meira eða minna leyti búið sakleysi og einfaldleika í sínum innstu hugsunum og tilfinningum, sem ekki er hægt að múta eða spilla með valdi, frægð og frama, skjalli eða “ást” sem tálbeitu.

Ennfremur sjáum við annan ákvörðunarþátt í þörfinni fyrir að viðhalda innri heilleika. Við höfum séð að sú árátta hins innhverfa, að forðast og takmarka athafnir sínar, var í þágu heilleika. Þörfin fyrir frelsi var þá ákvarðandi, án þess að við vissum þýðingu þess. Nú skiljum við að um er að ræða frelsi frá þátttöku, áhrifum, þrýstingi, frá hlekkjum metnaðar og samkeppni, til að halda innra lífi hreinu og flekklausu.

Hinn innhverfi hefur á margan hátt gefið óbeint til kynna að hann vill vera hann “sjálfur”, að hann er hræddur við að glata sér sem einstaklingi. Hann vill ekki að sjálfskoðun leiði til þess að hann verði eins og allir aðrir. Hann óttast að verða mótaður í annarra form. En vill hann vera eins og hann er eða hið ímyndaða, fegraða sjálf? Hann vill status quo. Með því að vilja vera hann sjálfur meinar hann m.a., að hann vill vernda heilleika eigin raunsjálfs, án þess þó að geta skilgreint það. Aðeins með sjálfsskoðun getur hann lært þann gamla sannleik, að við verðum að tapa sjálfum okkur (okkar eigin egoi og sjálfsímynd) til að finna sjálfa okkur, þ.e. eigið raunsjálf (atman).

36.3 Ýmsar gerðir innhverfu.

Innhverfar mangerðir mætti flokka með ýmsum hætti. Þó eru einkum tvær algengar. Þær ræði ég um. Hina fyrri nefni ég þráláta innhverfu og hina síðari mótþróafulla innhverfu.

Nokkur munur er á einstaklingum, sem haldnir eru þrálátri innhverfu, fer það mjög eftir því hvort norðan- eða sunnanvindar ríkja og hversu mikið viðkomandi hefur dregið sig í hlé. Þrátt fyrir áskapaða tilfinningalega fjarlægð frá öðrum, geta sumir gert ýmislegt fyrir fjölskyldu og vini og þá sem þeir umgangast í vinnu. Hjálp þeirra kemur að góðum notum, einkum vegna hlutleysis þeirra og vegna þess að þeir vænta einskis í staðinn.

Þrátt fyrir dáðleysi geta þeir sinnt sínum daglegu störfum, þótt það sé gert undir innra álagi innhverfunnar. Tregða til aðgerða og hneigð til að viðhalda óbreyttu ástandi, verður áberandi þegar vinnuálag eykst, verkið krefst frumkvæðis og í því er fólgin barátta fyrir einhverju eða gegn því. Innri áhugi á venjubundnu verki er blendinn. Fjárhagsþarfir, venjulegar innri skyldur koma hér til, en einnig er oft þörf fyrir að vera öðrum nytsamlegur þrátt fyrir fráhverfuna. Dagleg störf geta einnig gengt því hlutverki að forðast eigið innhaldsleysi eða tilgangsleysi, sem getur altekið þá, ef þeir hafa aðeins sjálfan sig til að halla sér að. Þeir vita ekki hvað gera skuli við frítíma. Samskipti við aðra eru of mikið álag til að vera ánægjuleg. Þeir vilja vera þeir sjálfir, en eru lítið skapandi, jafnvel lestur bókar getur mætt innri mótstöðu. Þeir hugsa, þá dreymir, þeir hlusta á tónlist eða njóta nátturunnar, ef þeir eiga kost á því án áreynslu. Þeim er ekki meðvitaður innri ótti við innihaldsleysi og tilgangsleysi og þeir skipuleggja störf sín og athafnir þannig að lítill frjáls tími gefst fyrir þá sjálfa.

Dáðleysi og óbeit á venjulegu starfi getur einnig verið í fyrirrúmi. Ef fjárhagurinn er þröngur geta þeir unnið tilfallandi störf eða lagst svo lágt að lifa á öðrum. Ef þeir komast í þægilega aðstöðu reyna þeir að takmarka þarfir sínar til hins ítrasta, svo þeir geti verið frjálsir til að gera það sem þeim sýnist og það sem þeir hafa lyst á. Það sem þeir annars gera hefur einkenni tómstunda. Algert aðgerðarleysi og tómlæti getur einnig náð yfirhöndinni. Allt sem aðhafst er verður þá erfitt og gert undir miklu álagi.

Jafnvel þótt ekki sé slíkum öfgum til að dreifa felur þrálát innhverfa í sér hættu á viðkomandi tapi sér algerlega. Sú hætta getur verið fólgin í því að tregða til athafna færist yfir í andstöðu gegn því að hugsa og finna til. Hugsun og tilfinningar verða einungis vélræn viðbrögð. Einhver hugsanaviðbrögð eru látin í ljós með orðum, en fjara út. Sama gildir um jákvæðar eða neikvæðar tilfinningar. Heimsókn eða bréf geta skapað tilfinningaviðbrögð, sem hverfa brátt. Bréf getur kallað á svar, en ef það er ekki gert strax, gleymist það. Það sem rætt er gleymist fljótt, erfitt reynist að tengja saman staðreyndir. Tilveran verður tilgangslaust rugl. Í draumi finnur viðkomandi sig á ýmsum stöðum á jörðinni án þess að ætla sér að fara til neins þeirra. Hann veit ekki hvernig hann komst þangað eða hvernig hann kemst þaðan.

Því sterkari tökum sem dáðleysið nær þeim mun meiri verða áhrifin á tilfinningalífið. Viðbrögðin verða daufari gagnvart ytri fyrirbærum. Landslag vekur engar tilfinningar, nema það sé stórkostlegt. Slík þróun er sorgleg, því hinn innhverfi hefur takmarkað alla viðleitni sína til að ná tökum á umhverfinu til að halda tilfinningum sínum heilum og ósnertum. En þegar hér er komið sögu hefur þróunin orðið til þess að kæfa það líf, sem innhverfunni var ætlað að vernda. Því gerist það, að þegar að tilfinningalífið lamast, þjáist hann meira af tilfinningadauða en aðrir. Það er e.t.v. eina ástandið sem hann vill breyta. Hann er þó mótfallinn því að sjá að tilfinningadauðinn sé afleiðing eigin dáðleysis og að tilfinningar geti því aðeins komist til lífs, að látið sé af aðgerðarleysi og tómlæti.

Ef hinn innhverfi stundar eitthvert starf og lifir sæmilega viðunandi lífi, er líklegt að þrálát innhverfa haldist stöðug. Margir eiginleikar hins innhverfa stuðla að því, má þar nefna bann við metnaði og væntingum, andúð á að breyta sér, innri baráttu og hæfileika til að sætta sig við hlutina. Löngun til frelsis er þó þáttur sem snýst gegn þessu. Í raun er hinn innhverfi kúgaður uppreisnarmaður. Hingað til höfum við séð þennan eiginleika í aðgerðarlausri andstöðu hins innhverfa gegn innra og ytra þrýstingi. En það getur hvenær sem er breyst í síðari kostinn sem við ræðum hér, þ.e. mótþróafulla innhverfu. Hvort það gerist í raun fer eftir styrkleikavægi norðan- eða sunnanáttar í persónuleikanum og einnig því hversu mikið hinn innhverfi hefur varðveitt af sínu innra lífi. Þeim mun sterkari sem norðanáttin er og meira innra líf hefur varðveist, þeim mun óánægðari verður hann með takmarkanir í lífi sínu. Ef óánægjan með hina ytri stöðu er í fyrirrúmi, þá er það uppreisn gegn einhverju, en ef óánægjan er með hann sjálfan, er um að ræða uppreisn til einhvers.

Umhverfið, hvort sem er heimili eða vinnustaður, getur orðið svo óviðunandi, að hinn innhverfi umber það ekki lengur og snýst gegn því með einum eða öðrum hætti. Hann getur horfið að heiman, yfirgefið vinnu sína og sýnt öllum ýgi, hvort sem það eru menn, stofnanir eða siðir og venjur. Viðhorf hans er það, að hann lætur allar væntingar eða álit annarra lönd og leið. Hann getur sýnt þetta fágað og kurteislega eða með meira eða minna offorsi. Slík þróun er áhugaverð frá þjóðfélagslegu sjónarmiði. Ef uppreisn sem þessi snýst út á við er hann að sjálfsögðu ekki á þroskaleið, heldur fjarlægist sjálfan sig, þótt hún leysi orku hans úr læðingi.

Ef uppreisnin beinist á hinn bóginn aðallega inn á við og aðallega gegn innri harðstjórn, getur það innan vissra marka verkað í frjálsræðisátt. Þá er oft um að ræða hægfara þróun frekar en ólgandi uppreisn. Hinn innhverfi þjáist þá meira og meira undan hlekkjum sínum. Hann áttar sig á hve hemlaður hann er og innilokaður og fellur illa þessi lífstíll, hve háður hann er reglum og þykir í raun lítið vænt um fólkið í kring um sig og hve lítinn áhuga hann hefur á lífsstöðlum þess og siðferði. Hann hneigist stöðugt meira í þá átt að “vera hann sjálfur”, sem er eins og áður sagði samspil af mótþróa og fyrirlitningu annars vegar og heilbrigðra eða sannra þátta hins vegar. Orka leysist úr læðingi og hann verður meira skapandi, hverjir sem hæfileikar hans annars eru. Í “Tunglinu og tíeyringnum” lýsir Somerset Maugham slíkri þróun hjá málaranum Strickland. Svo virðist sem Gauguin, sem er að verulegu leyti fyrirmynd Maughams í sögunni, hafi gengið í gegnum slíka þróun. Sama gildir um marga aðra listamenn. Auðvitað er gildi þess sem skapað er, komið undir hæfileikum og gáfum viðkomandi og óþarft er að taka fram, að þetta er ekki eina leiðin til að verða skapandi. Það er þó leið, þar sem skapandi hæfileikar, sem áður voru bældir, fá frjálsa útrás.

Frelsið er þó takmarkað í þessum tilvikum. Þeir sem öðlast það bera merki innhverfu og þeir verða að gæta fjarlægðar sinnar frá öðrum. Varnarviðhorf þeirra til umheimsins er áfram óbreytt og herskátt. Þeir eru bæði tilfinningalausir og skeytingalausir gagnvart eigin lífi, nema að því er tekur til afkasta, sem geta einkennst af átökum og fumi. Allt þetta gefur vísbendingu um að þeir hafi ekki leyst sín innri átök, en náð málamiðlun sem er lausn að hluta til. Aðeins með því að átta sig á innhverfunni og sigrast á henni í heild, verða hin skapandi öfl leyst úr dróma og viðkomandi öðlast jafnframt því betri heildartengsl við sjálfan sig og aðra.

Hin mótþróafulla innhverfa sýnir ljóslega, hversu afgerandi mikilvægi frelsislöngunin hefur í þeirri heildarpersónuleikalausn sem innhverfan er og tengsl þessarar löngunar við þá viðleitni að viðhalda sjálfstjórn á innra lífi. En því mun meira sem viðkomandi fjarlægist sjálfan sig, þeim mun minni verður merking frelsisins. Með því að draga sig í hlé frá innri átökum, lífinun sjálfu, áhuga á eigin þroska, er hætt við að viðkomandi fjarlægist dýpt sinna eigin tilfinninga. Tilfinning fyrir tilgangsleysi og tómleika tekur þá við. Viðkomandi missir áttir og lætur sig fljóta með straumnum. Þetta er náskylt úthverfunni, sem lýst var í 31.-33. þætti. Hin mótþróafulla innhverfa hefur í för með sér takmarkanir á lífinu, en hún er ekki vonlaus og viðkomandi hefur enn eitthvað til að lifa fyrir. En þegar menn missa sjónar á dýpt og sjálfsstjórn eigin lífs, getur hin neikvæða niðurstaða innhverfu orðið allsráðandi. Vonleysi og yfirborðsmennska tekur við, eins og um vesturátt sé að ræða. Um vonleysi var rætt í 23. þætti, en vel á við að rifja hann upp hér.

36.4 Um vonleysi.

Við höfum séð í síðustu þáttum, að vonleysi leiðir oft til hins verra. Er því tímabært að ræða það sérstaklega. Við erum yfirleitt ánægð með lífið og njótum góðra hluta. Hamingjan er þó oft ýmsum skilyrðum bundin. Við verðum ýmist að fá að vera ein eða með öðrum, við verðum að vera virt eða að fá að ráða. Þetta væri gott og blessað, ef tilhneigingarnar væru ekki gagnstæðar. Við viljum að aðrir taki forystuna og leiðbeini okkur og við verðum því einnig andvíg. Kona nýtur frama eiginmannsins, en öfundar hann einnig. Kona nýtur þess að halda samkvæmi, en allt verður að vera svo fullkomið að hún er örmagna þegar til samkvæmisins kemur. Þá sjaldan að hamingjan knýr dyra, er hún iðulega blandin margs konar ótta og særindum. Alls konar smáatvik og óhappatilviljanir fá óeðlilegt mikilvægi í huga okkar. Græskulaus gagnrýni veldur áhyggjum og hugarangri o.s.frv. Við erum því óhamingjusamari og óánægðari en aðstæður gefa tilefni til.

Þótt þetta sé slæmt, þá getur staðan samt versnað. Við getum þolað mikið mótlæti meðan enn er von. En lífsflækjurnar og hugurinn geta skapað okkur vonleysi. Því fjötraðri sem við erum í hringiðu samsara, þeim mun sterkari tökum getur vonleysi náð á okkur. Það getur verið djúpt á því. Við erum e.t.v. að skapa hugmyndir og skipuleggja betra líf. Ef ég aðeins væri giftur, hefði stærri íbúð, annan yfirmann, annan maka, væri dálítið eldri eða yngri, stærri eða minni o.s.frv. þá væri allt í lagi. Vissulega geta einhverjir slíkir þættir bætt líf okkar. Oftast eru þó slíkar vonir frávarp á innri erfiðleikum og við erum dæmd til vonbrigða. Við væntum margs góðs af ytri breytingum, en gleymum því um leið, að við flytjum sjálf okkur og eigin hug með okkur yfir í hina nýju stöðu. Vonir, sem byggja á hinu ytra eru að sjálfsögðu algengari meðal yngra fólks en eldra. Sjálfsskoðun hinna yngri er því ekki eins einföld og ætla mætti. Þegar fólk eldist og vonir taka að dvína, verður það fúsara að viðurkenna að hugsanlega er orsakar þess eigin vandræða að leita hjá því sjálfu.

Þegar almenn vonleysistilfinning er óvituð, eru ýmsar vísbendingar sem gefa hana og styrkleika hennar til kynna. Það kunna að hafa átt sér stað atvik fyrr í lífi viðkomandi, sem sýnir vonbrigði, meiri og langvinnari en efni stóðu til, þ.e. að viðbrögðin hafi ekki verið í eðlilegu vægi við ástæðuna. T.d. hefur viðkomandi upplifað mikla ástarsorg í æsku eftir að hafa verið hafnað, eða verið langt niðri eftir að vinur hans hafði svikið hann, honum sagt upp starfi eða hann fallið á prófi. Auðvitað geta verið sérstakar ástæður fyrir slíku þunglyndi og orsakasamhengið verið augljóst, en oft á það sér dýpri rætur, í óvituðu vonleysi. Sérstakur áhugi á dauðanum og sjálfsvígshugmyndir geta bent til slíks dýpra vonleysis, jafnvel þótt viðkomandi hafi á sér yfirbragð bjartsýni. Óskammfeilni og tilhneiging til að taka ekkert alvarlega eða mikið kjarkleysi þegar erfiðleikar steðja að geta einnig verið vísbending um hið sama.

Bann eða viðnám við bata eða framförum á rætur að rekja til vonleysis. Innsýn, þótt sársaukafull sé, vísar veginn út, en getur samt sem áður orðið til að skapa kjarkleysi og viljaleysi gagnvart því að ganga í gegnum þá erfiðleika, sem samfara er því að vinna sig fram úr vandamálinu. Það er eins og maður treysti sér ekki til að komast yfir ákveðna erfiðleika. Í raun og veru er hér um að ræða vonleysi, um að ná árangri eða að innsýnin verði að gagni. Þannig getur innsýn sært og skapað ótta um að fara úr jafnvægi. Sá sem sífellt er að spá í framtíðina getur verið haldinn miklu vonleysi. Þótt á yfirborðinu kunni að líta svo út að um kvíða sé að ræða gagnvart lífinu almennt, að vera gripinn að óvörum, að gera mistök, o.s.frv., þá er öll framsýn lituð svartsýni. Sumir sjá allt slæmt en fátt gott. Að horfa fremur á dekkri hliðarnar en þær björtu, gæti bent til dýpra vonleysis. Skiptir þá ekki máli, hversu rækilega og skynsamlega það er réttlætt. Stöðugt þunglyndi getur verið hulið sjónum manna, vegna þess að allt gengur vel hjá hinum þunglynda. Hann kann að vera þægilegur og búa við góðan kost. En ef til vill tekur hann óratíma að komast í gang á morgnana, að vakna til lífsins og sætta sig við það. Lífið er þá stöðugt basl, hann þekkir ekki annað og kvartar því ekki. Hann er alltaf í þungu skapi.

Þó að uppruni vonleysis sé jafnan ómeðvitaður, getur tilfinning fyrir honum verið meðvituð. Maður getur haft tilfinningu fyrir dómsdegi eða horft á lífið með uppgjafarhugarfari, og búist við miður góðu, fundist erfitt að umbera lífið. Maður getur tjáð sig heimspekilega og talað um að lífið sé harmleikur og að heimskingjar einir láti blekkjast hvað varðar mannleg örlög sem ekki verði umflúin. Svo lamaðir geta menn verið af vonleysi, að venjulegir erfiðleikar sýnast óyfirstíganlegar hindranir.

Hugsuðir allra tíma hafa lagt megináherslu á mikilvægi þess að nálgast eigið sjálf, atman og örvæntinguna sem fylgir því að vera ekki í tengslum við sjálfið. Maðurinn örvæntir um að geta ekki orðið hann sjálfur. Um þetta má lesa í ritum um Búddisma og existentialisma, og fjölmörgum öðrum ritum.

Vonleysi orsakast af því að maðurinn flækist í neti eigin markmiða og sjálfsímyndar. Það má rekja til þeirrar örvæntingar að hann getur ekki orðið heill í sál sinni og hjarta, orðið hann sjálfur. Manninum finnst hann flæktur í neti eða lokaður í gildru, sem hann losni aldrei úr. Sérhver tilraun til lausnar leiðir einungis til þess að dýpra er sokkið, og maðurinn fjarlægist sjálfan sig enn meira. Endurtekin reynsla eykur vonleysið. Hæfileikar og gáfur leiða ekki til árangurs, vegna þess að orkunni er dreift víðsvegar eða þegar skapa á eitthvað, koma erfiðleikar til sögunnar, sem valda því að hætt er við frekari viðleitni. Þetta gildir um ástir, hjónabönd, vináttusambönd o.s.frv., sem stranda hvert á fætur öðru. Slík endurtekning mistaka, er eins hrellandi og það er tilraunarottum sem hoppa sífellt inn í fæðuop en finna sér til vonbrigða eintómar hindranir.

Það er vonlaust að ætla sér að gerast sín eigin ímynd. Sennilega er sú viðleitni helsta orsök vonleysis. Þegar við sjáum ófullkomleika okkar, finnum við til nokkurs vonleysis. Við örvæntum um að ná nokkurn tíma þeim árangri, sem við stefnum að og fyrirlítum okkur fyrir árangursleysið. Við spyrjum sjálf okkur: Náum við nokkurn tíma viðunandi árangri í ástarlífi eða vinnu? Við þetta bætist að andleg þungamiðja er flutt úr okkur sjálfum til hins ytra, t.d. litið er til útkomu en ekki efnis máls, skoðanir annarra skipta meira máli en eigin o.s.frv. Við hættum að vera primus motor í eigin lífi. Við missum trúna ásjálf okkur sem manneskjur og á eigin þroska. Við gefumst upp, viðhorf sem enginn tekur þó eftir. Afleiðingin er andlegur dauði. Eins og Kierkegaard segir: “Út af því er ekki gert mikið veður, því heimurinn spyr síst um sjálfið, þar sem jafnvel er talið vafasamt að veita því athygli að við höfum það. Hættan stóra, að týna eigin sjálfi, gerist þegjandi og hljóðalaust, eins og ekkert sé. Öllum öðrum missi, svo sem handleggs, fótleggs, fjármuna, eiginkonu eða annars er vissulega veitt athygli.”

Þegar vonleysi er annars vegar, gerir einföld hughreysting, þótt einlæg sé, lítið gagn. Fyrst verðum við að finna, hvort og hversu mikið vonleysi hrjáir okkur. Þá er næst að átta sig á því, að vonleysið er afleiðing eigin hugarflækja, eigin viðhorfa, einhvers sem er ekki hið ytra heldur innra. Staðan er vonlaus svo lengi sem núverandi staða helst og er talin óbreytanleg. Erfiðleikarnir kunna að vera miklir, en það sem gerir okkur vonlaus er eigið viðhorf okkar til þess. Ef við t.d. breytum kröfum okkar á lífið, er ástæðulaust að vera vonlaus.

Það er skilaboð trúarhöfundanna til okkar að við getum breyst og fundið okkur sjálf. Þau þvingandi markmið, sem við búum okkur til, eru ekki við sjálf, heldur koma utan frá. Við getum breytt þeim og áttað okkur á innihaldsleysi þeirra og uppruna. Róttæk breyting er alltaf möguleg. Er það margendurtekið stef í þessum þáttum.

Ég hefi áður rætt um viðnám, en það nefnast þau öfl í manninum, sem vilja halda stöðu hans óbreyttri. Í manninum býr gagnstætt afl, sem hvetur til þroska og frelsis. Þegar það er öflugra, veitir það styrk til að þola þann sársauka, sem öllum þroska fylgir. Það gerir manninum kleift að taka áhættuna af því að yfirgefa fyrri viðhorf, sem veita öryggiskennd, og hverfa til hins óþekkta, nýrra viðhorfa til sjálfra sín og annarra. Maðurinn þarf sjálfur að vilja fara þessa leið. Það er einmitt þetta afl, sem vonleysið lamar.

Mikið er unnið við það að menn sjái, að vonleysi er vandamál, sem hægt er að leysa. Skipst getur á, t.d. bjartsýni eftir innsýn og síðan svartsýni eða vonleysi, þegar tekur að nálgast aðra innsýn og þannig koll af kolli. En taka má vonleysið til athugunar í hvert skipti sem tilefni gefst. Þegar menn sjá, að breyting er möguleg, dregur úr vonleysinu. Frumkvæði og viðleitni til þroska eflist, þótt veik sé í fyrstu. Styrkleiki þroskaaflanna eykst eftir því sem menn sjá og finna eigin fjötra og þegar þeir fá forsmekk af því, hvernig er að finna sig frjálsan. Við erum aðeins vonlaus svo lengi sem við álítum okkur vera það.