XXXV HINN INNHVERFI – (Fyrri hluti)

35.0 Inngangur

35.1 Einkenni innhverfu

35.2 Mannleg samskipti

35.3 Ótti við áhrif annarra eða bönd

35.4 Andúð á breytingum

35.5 Ástæður þróunar

35.0 Inngangur.

Við lýstum í síðasta þætti hinum fráhverfa, þar sem viðkomandi dró sig í hlé frá samskiptum við aðra og lýsti sig áhugalausan. Ef honum tókst að ná og viðhalda því viðhorfi að sér væri sama, ollu innri andstæður honum ekki ama og hann náði ásýnd innri friðar. Í þessum þætti verður að mörgu leyti sama fyrirbrigði lýst, þó er sá munur á að ferillinn er genginn lengra án þess að hægt sé að tala um geðklofa (schizophreniu). Jafnfram verður lögð áhersla á umræðu um það, hvernig viðkomandi ekki er aðeins hverfur frá umhverfinu (fráhverfa) heldur inn í sig (innhverfa). Verður innri barátta hins innhverfa og þróun nánar skoðuð. Er þessi aðferð í sjálfu sér mjög róttæk og leyfir að viðkomandi lifi tiltölulega hnökralausu lífi. Þar sem við erum sljó fyrir því sem heilbrigt er, þá teljum við gjarnan slíka menn eðlilega.

Innhverfa getur haft jákvæða og uppbyggjandi merkingu. Margt eldra fólk, sem hefur gert sér ljóst innihaldsleysi og tilgangsleysi metnaðar og frama, sem hefur mildast með því að gera minni væntingar og krefjast minna og með því sleppa því sem engu máli skiptir, hefur orðið vitrara. Í mörgum trúarbrögðum og víða í heimspeki er mælt með því að við látum af veraldagæðum og gerum þau að aukaatriði í lífinu til þess að þroskast andlega og upplýsast. Gefa á bátinn persónulegan vilja, kynferðislegar óskir og girndir, kröfum um lífsgæði til að vera nær guði. Sleppa því sem er á hverfanda hveli fyrir hinu eilífa lífi. Láta lönd og leið persónulega áráttu og ánægju til að öðlast andlegt vald, sem blundar í öllum.

Sú lausn sem hér um ræðir er aftur á móti innhverfa, sem þýðir að verið er að semja frið með þeim hætti að lagt er á flótta frá innri andstæðum. Í trúarbrögðum og heimspeki er ekki mælt með leit að friði með þeim hætti að gefa viðleitni og baráttu upp á bátinn, heldur með því að eyða blekkingunni og beina huganum til æðri viðhorfa. Hinn innhverfi aftur á móti gefst upp í viðleitni sinni og baráttu og sættir sig við minna. Hann takmarkar sig og minnkar, hann sker lífið niður við trog og kemur í veg fyrir þroska sinn.

Munurinn á heilbrigðri innhverfu og þeirri, sem hér ræðir um er þó ekki eins mikill og ætla mætti, þar sem margt jákvætt fylgir þeirri síðargreindu. Hins vegar hefur hin heilbrigða ekki neikvæðar hliðar. Ef farið er í norður eða suður, er verið að sækjast eftir einhverju og viðkomandi leggur allt sitt í viðleitni sína, henni fylgja vonir, reiði og örvænting. Innhverfan býður hins vegar upp á líf í lágmarki, líf án árekstra eða sársauka, en líka án alls lífskrydds. Grunneinkenni innhverfu er takmörkun, eitthvað sem forðast skal, ekki er löngun til eða gert. Við erum öll eitthvað innhverf, en hér verður lýst þeim sem valið hefur hana sem meginlífstíl.

35.1 Einkenni innhverfu.

Þegar við höfum flutt okkur frá og fjarlægst innri átök verðum við áhorfendur að sjálfum okkur og lífi okkar. Með því drögum við úr innri spennu. Við verðum einnig áhorfendur annarra. Þetta verður eins og horfa á óspennandi leikrit. Þótt vefengja megi gæði áhorfsins, er þó oft um slyngan áhorfanda að ræða. Þótt við öflum þannig mikilvægrar myndar af sjálfum okkur og getum gert merkilegar sjálfsathuganir, breytir það venjulega engu, þar sem ekkert er raunupplifað. Ekkert gerist með því að horfa á sjálfan sig eingöngu. Við upplifum ekkert eða neitum að gera það og reynum óafvitað að viðhalda sömu viðhorfum. Við getum verið áhugasöm og haft mikla ánægju af sjálfsathugunum, en ekkert breytist. Sá innhverfi forðast umfram allt eitt, bæði hugrænt og tilfinningalega, það er að horfa framan í innri andstæður. Ef hann óvænt rekst á einhverja andstæðu í sjálfum sér, verðu honum órótt og venjulega leyfir hann ekki neitt slíkt að komast í snertingu við sig. Þá missir hann áhugann eða finnst andstæðurnar engar andstæður. Hann lítur ekki svo á, að um sé að ræða eigið líf, heldur líf sem hann horfir á og tekur ekki þátt í.

Annað einkenni nátengt innhverfu er metnaðarleysi og andúð á viðleitni. Flestir keppast við að ná einhverju eða afla einhvers eða þjást undan hömlum sem koma í veg fyrir að þeir öðlist eitthvað. Þetta gildir ekki um hinn einhverfa. Hann hafnar bæði viðleitni og árangri. Hann gerir lítið úr hæfni sinni eða afneitar henni og sættir sig við minna. Sannanir um hið gagnstæða hrófla ekki við honum, jafnvel frekar angra hann. Ef hann kemst ekki hjá að uppgötva hæfileika, verður hann óttasleginn. Einnig getur hann farið þá leið, að skrifa bækur, mála eða semja tónlist í ímyndun sinni og losna þannig bæði við viðleitni og áreynslu. Hann getur fengið góðar og frumlegar hugmyndir, en að skrifa kostar frumkvæði og vinnu við að vinna úr hugmyndum sínum og skipuleggja þær, svo ekkert er ritað. Hann bíður eftir innblæstri. Hann er mjög snjall í að finna sér ástæður fyrir því aðgerðarleysi sínu. Andúð á viðleitni getur bókstaflega náð til alls starfs. Hann frestar þá einföldum hlutum, eins og bréfaskriftum, bókalestri, verslunarerindum o.s.frv. eða gerir þetta hægt, án löngunar með innra viðnámi og hann verður þreyttur áður en hann hefst handa við stærri verk.

Stefnumörkun og skipulagning fyrirfinnst ekki hjá hinum einhverfa. Hvað hugsar hann sér að gera úr lífi sínu? Hann hefur aldrei spurt sig slíkrar spurningar og fleygir henni frá sér, eins hún komi honum ekki við. Markmið hans eru takmörkuð og neikvæð, að losna við eitthvað. Heiðríkja hugans er þó markmið, að vera laus við vandamál og vandræði. Allar væntingar eiga að uppfyllast án áreynslu og erfiðleika. Aðrir ættu að sjá um það. Öll vinna vex honum í augum. Honum finnst sjálfsathugun góð og gild, en viðleitni til breytinga er honum á móti skapi.

Kjarni einhverfu er takmörkun óska. Við höfum áður rætt um takmörkun óska hjá öðrum manngerðum, t.d. hinum hógværa gagnvart sigri. Einnig höfum við rætt um óákveðni gagnvart eigin óskum, t.d. hjá þeim sem ákvarðar óskir sínar við það sem hann ætti að óska, t.d. af tillitssemi við umhverfi. Innri óskir eru þá óljósar vegna innri skyldna. Hinn innhverfi aftur á móti trúir því, vitað og óvitað, að best sé að óska einskis og vænta einskis. Hér getur svartsýni jafnframt verið á ferðinni, viðhorf um að lífið sé alla vega tilgangslaust og ekkert sé nægilega girnilegt til að það launi sig að elta ólar við það. Oftast er þó um að ræða óljósar væntingar, sem ekki ná að leiða til ákveðinna og lifandi óska. Ef ósk eða áhugi hefur að geyma nægilegt líf til að komast í gegnum “mér er sama” múrinn, fjarar slík ósk fljótt út og hið slétta yfirborðsviðhorf, að ekkert skipti máli eða ætti að skipta máli, tekur við á ný. Slíkt löngunarleysi getur tekið bæði til einkalífs og atvinnu, t.d. ósk eftir frama, annarri atvinnu, hjónabandi, húsi, bíl eða öðrum eignum. Uppfylling slíkra óska getur þó legið eins og mara á viðkomandi, í raun orðið til að sniðganga þá einu ósk sem hann hefur, að vera ekki truflaður. Þessi takmörkun óska er nátengd þeim grunneinkennum, sem nefnd hafa verið. Hann getur því aðeins verið áhorfandi að eigin lífi að hann hafi engar sterkar óskir. Hann getur ekki sett sér markmið án þess að hafa óskir. Engar óskir engin viðleitni. Krafan verður því að lífið ætti að vera auðvelt, án áreynslu og sársauka. Enginn ætti að ónáða viðkomandi.

Hinn innhverfi er sérstaklega umhugað um að tengjast engu að því marki að hann þarfnist þess. Ekkert ætti að vera honum það mikilvægt að hann gæti ekki verið án þess. Það væri í góðu lagi að láta konu falla sér í geð, landslag, vissir drykkir, en ekki verða háður þeim. Um leið og hinn innhverfi verður þess var að staður, persóna eða fólk er honum það mikilvægt, að sársaukafullt væri að missa það, dregur hann sig tilfinningalega í hlé. Engin önnur manneskja ætti nokkru sinni að finna að hún væri honum nauðsynleg eða ganga út frá sambandi sem gefnu. Ef hann fær grun um að slíkt viðhorf sé við líði, hefur hann tilhneigingu til að draga sig í hlé.

35.2 Mannleg samskipti.

Hið neikvæða viðhorf hins innhverfa, þ.e. áhorfandaviðhorf og takmörkun óska, tekur einnig til mannlegra samskipta. Það einkennist af fráhverfu, þ.e. tilfinningalegri fjarlægð frá öðrum. Hann nýtur tímabundinna tengsla eða tengsla sem einkennast af fjarlægð, en náin tilfinningatengsl myndar hann ekki. Hann ætti ekki að tengjast neinum það mikið að hann þarfnist félagsskapar hans, hjálpar hans eða kynmaka við hann. Létt er að viðhalda slíkri fráhverfu, þar sem hann ólíkt öðrum væntir einskis, hvorki góðs né ills af öðrum. Jafnvel í nauð hvarflar ekki að honum að biðja um hjálp. Á hinn bóginn getur hann sjálfur verið hjálpsamur, þ.e.a.s. ef það kostar engin tilfinningatengsl. Hann vill ekki og væntir ekki þakklætis.

Hlutverk kynlífs er mismunandi. Stundum er kynlíf eina brúin til annarra. Þá stundar hann hverfult kynlíf, bakkar út úr því fyrr eða síðar. Kynlíf ætti að hans mati ekki að “úrkynjast” í ást. Honum er algerlega ljós þörf sín að tengjast engum sterkum böndum. Hann getur einnig talið að ástæðan fyrir slitum á sambandi sé sú að hann hafi svalað forvitni sinni. Hann telur að forvitni og þörf fyrir tilbreytni hafi verið orsök þess að hann nálgaðist konu og þar sem hann hafi nú öðlast þessa nýju reynslu veki hún ekki forvitni hans eða áhuga lengur. Viðbrögð hans við hinu kyninu eru þau sömu og við landslagi eða hópi fólks. Af því að hann hefur kynnst því, vekur það ekki lengur áhuga hans eða forvitni og hann snýr sér að einhverju öðru. Þetta er meira en réttlæting fyrir fráhverfu. Hann hefur vitandi vits fylgt eftir áhorfandaviðhorfi sínu af meiri samkvæmni en aðrir og það getur stundum gefið þá fölsku mynd að um sé að ræða þörf fyrir lifa lífinu lifandi.

Í öðrum tilvikum bægir sá innhverfi allt kynlíf frá lífi sínu. Hann lokar fyrir allar óskir í því efni. Hann fær jafnvel ekki kynferðislegar hugmyndir eða ímyndanir og jafnvel þótt svo væri, getur kynlíf hans eingöngu verið fólgið í misheppnuðum hugarórum. Samband hans við aðra verður þá í raun á grunvelli fjarlægs en vinsamlegs áhuga.

Þegar sambandið er varanlegt, verður hinn innhverfi auðvitað einnig að viðhalda fjarlægð í því. Í þessu tilliti er hann andstæðan við sunnanmanninn, sem hefur þörf fyrir náin tengsl við makann. Aðferðin við að viðhalda fjarlægðinni getur verið breytileg. Hann getur útilokað kynlíf sem of náin tengsl fyrir varanlegt samband og fullnægt kynferðisþörfum sínum með ókunnugum. Á hinn bóginn getur hann takmarkað sambandið við kynlíf eingöngu og ekki deilt annarri reynslu með makanum. Hann getur verið mjög tillitssamur gagnvart makanum í hjónabandi, en aldrei rætt náið um sjálfan sig. Hann getur lagt áherslu á að eyða verulegum tíma á sjálfan sig eða fara einn í ferðalag. Hann getur takmarkað samskiptin við sumar helgar eða ferðalög.

Taka verður fram, að þótt hinn innhverfi óttist tilfinningatengsl við aðra, þá getur hann haft jákvæðar tilfinningar. Hann getur einmitt haft miklar og djúpar tilfinningar gagnvart sér og umhverfi, en þessar tilfinningar verður að halda innan eigin helgidóms. Þær eru einkamál hans og koma ekki öðrum við. Í þessu tilliti er hann ólíkur norðanmanni, sem einnig er firrtur tilfinningalega, en hefur þjálfað sig til að hafa ekki jákvæðar tilfinningar. Hann er líka ólíkur að því leyti að hann kærir sig ekki um að lenda í árekstrum eða reiði annarra. Aftur á móti er sá hefnigjarni fljótur til reiði og telur baráttu hluta af sínu náttúrlega eðli.

35.3 Ótti við áhrif annarra eða bönd.

Eitt megineinkenni hins innhverfa sem réttlætir sérstakan kafla er ótti hans við áhrif, þrýsting, þvinganir og hvers konar bönd. Þetta er grundvallaratriði í innhverfunni. Jafnvel áður en hann tekur þátt í persónulegu sambandi við aðra eða tekur þátt í félagsskap, getur hann óttast varanleg bönd. Hann getur þegar byrjað að spyrja sig, hvernig hann geti losað sig úr sambandinu. Fyrir hjónaband getur þessi ótti nálgast örvæntingu.

Breytilegt er hvað sá innhverfi telur þvingun. Það getur verið hvers konar samningur, leigumáli eða skuldbinding til lengri tíma. Það getur verið líkamleg þvingun, jafnvel flibbi, belti eða skór. Það getur verið takmörkun á útsýni. Hann getur reiðst væntingum annarra eða því sem aðrir gætu vænst af honum, eins og jólagjöfum, bréfum eða greiðslu reikninga á ákveðnum tíma. Þetta getur náð til stofnana, umferðarreglna, siðvenja eða íhlutun stjórnvalda. Hann berst ekki gegn þessum hlutum, þar sem hann er ekki góður baráttumaður, en hann gerir innri uppreisn og getur vitað eða óafvitað skapraunað öðrum á sinn eigin aðgerðarlausa hátt, með því að svara ekki og gleyma.

Viðkvæmni hans fyrir þvingun er tengd aðgerðarleysi hans og takmörkun óska. Þar sem hann er mótfallinn því að sér sé haggað, getur honum fundist væntingar annarra um, að hann aðhafist eitthvað sem þvingun, jafnvel þótt það sé augljóslega honum sjálfum til hags. Vegna takmörkun óska óttast hinn innhverfi eða hefur ástæðu til óttast, að einhver sem býr yfir sterkari óskum en hann geti auðveldlega vegna ákveðni sinnar þvingað hann eða þröngvað til að gera eitthvað. Hér er líka frávarp á ferðinni. Þar sem hann upplifir ekki eigin óskir eða langanir, finnst honum sem hann láti undan óskum annarrar manneskju, þegar hann í raun fylgir því sem hann vill helst sjálfur. Honum finnst að þar sem hann sé í tómrúmi ryðjist óskir annarra inn á hann, annað hvort raunóskir, meintar óskir eða eigin frávarpaðar óskir.

35.4 Andúð á breytingum.

Andúð á breytingum og sérhverju nýju er fylgifiskur innhverfu, þótt það sé breytilegt eins og önnur einkenni. Þeim mun meira sem dáðleysi ríkir, þeim mun frekar óttast viðkomandi þá áhættu og áreynslu, sem sérhverri breytingu fylgir. Hann vill miklu frekar óbreytt ástand, hvort sem um er að ræða vinnu, líferni eða maka, heldur en breytast. Honum dettur ekki í hug að hann gæti bætt ástandið, t.d. breyta skipulagi lífernis, heimilis, gefa sér meiri frítíma, vera hjálpsamari í erfiðleikum maka o.s.frv. Ástæða þessa er einfaldlega sú, að hann væntir einskis og hann hefur ekkert frumkvæði til breytinga. Hann álítur hlutina óbreytilega. Fólk er bara svona gert, lífið er svona, þetta eru örlögin. Hann kvartar ekki vegna aðstæðna, sem flestum þættu óbærilegar og líkist að því leyti píslarvottinum eða hinum elskuverða, sem áður hefur verið lýst. Líkingin er þó aðeins á yfirborðinu. Ástæðurnar eru ólíkar.

Flestar manngerðir eru tregar til breytinga og sama gildir auðvitað um hinn innhverfa. En vegna hins innbyggða viðhorfs um óbreytileika, er hinn innhverfi mótfallinn sjálfri hugmyndinni um breytingu. Hann dregur sig út úr lífinu, hafnar allri viðleitni, hefur engar óskir og skipuleggur ekkert. Hann telur því aðra óbreytilega, eins og hann sjálfan. Þótt hann tali um þróun og þroska og virði hugmyndina sem slíka meinar hann ekkert með því. Sjálfskoðun ætti í einu vetfangi að leysa málin í eitt skipti fyrir öll. Hann viðurkennir ekki þróun, að nauðsynlegt sé að sjá vandamálin frá sífellt nýjum sjónarhóli, sjá samhengi í nýju ljósi, sjá nýjar merkingar, áður en kleift er að uppræta og breytast innan frá.

Hann getur vitandi vits álitið innhverfu visku. Oftast er hún þó ómeðvituð þótt hann kannist við ýmsar hliðar hennar. Hann finnur t.d. hvað hann er viðkvæmur fyrir ytri þrýstingi. Innhverfa er þó í grundvallaratriðum samkvæm sjálfri sér, heildarlausn á innri vanda.

35.5 Ástæður þróunar

Eins og áður hefur verið reifað (í 34. þætti), er heildarlausn á innri árekstrum milli norður og suðurs fengin með því að halda í austur. Við fyrstu sýn virðist hinn innhverfi fyrst og fremst hafa lagt metnað sinn fyrir róða. Einmitt þetta er það sem honum sjálfum finnst og hann telur lykil að allri þróuninni. Æviferill hans virðist einnig oft staðfesta þetta hugboð, þ.e. hann virðist hafa áberandi breyst að því er tekur til metnaðar. Á unglingárum hefur hann afrekað margt, sem kostað hefur áræði, þrótt og hæfni. Hann hefur verið úrræðagóður, komist yfir efnalega erfiðleika og skapað sér stöðu í lífinu. Hann hefur sýnt metnað í skóla, verið ofarlega í einkunn og gengið vel í pólitískum deilum. Að minnsta kosti hefur hann lifað lífinu lifandi og haft áhuga á ótal hlutum á ákveðnu tímabili á unglingsárum. Hann getur hafa gert uppreisn gegn þeim siðvenjum sem hann hefur alist upp við og haft hug á að afreka ýmislegt í framtíðinni.

Síðan tekur við tímabil erfiðleika, kvíða og lægðar. Hann getur hafa orðið fullur örvæntingar um mistök eða ógæfulega stöðu sem hann hefur leiðst út í vegna uppreisnartilhneiginga sinna. Eftir þetta virðist lífsmynstrið fletjast út. Almennt er álitið, að hann hafi róast og aðlagast þjóðfélaginu, komist úr þessu flugi niður á jörðina. Þetta þykir flestum eðlilegt en sumir aðrir bera ugg í brjósti um hag hans, því hann virðist jafnframt hafa misst lífsþrótt og áhuga á mörgum hlutum. Hann virðist hafa sætt sig við minni hlut en hæfileikar hans og möguleikar gefa tilefni til. En hvað gerðist? Ýmis ólukka, óhöpp eða erfiðleikar geta vissulega klippt á vængi manna. En aðstæður hins innhverfa voru ekki nægilega óhagstæðar til að réttlæta þessa niðurstöðu. Því hefur einhver andleg rimma verið ákvarðandi. Þó vitum við um marga sem lent hafa í innri erfiðleikum og komst út úr þeim jafnréttir. Breytingin á hinum innhverfa er því ekki aðallega vegna mikilla innri árekstra, heldur vegna þeirrar aðferðar sem hann notar til að öðlast frið með sjálfum sér. Það sem gerðist var að hann fann fyrir innri árekstrum og leysti þá með því að draga sig í hlé. Hann reyndi að leysa málið með þessum hætti og gat aðeins leyst það með þessum hætti vegna forsögu sinnar. En við skulum fá ljósari mynd af eðli þess að draga sig í hlé með þessum hætti.

Lítum fyrst á aðalárekstrana milli norðurs og suðurs. Ef önnur áttin er ofan á, býr hin bæld undir. Aftur á móti ef innhverfa ræður ríkjum, verður myndin gagnvart þessum öflum önnur. Hvorug áttin, norður eða suður, er þá bæld. Ekki er erfitt að sjá þetta og viðkomandi hefur vitund um það. Þó er það svo að önnur hvor áttin er nær vitundinni eða er sterkari, ef svo má segja. Innhverfan er því mismunandi, eftir því hvort er í fyrirrúmi, norður eða suður. Stundum er þó slíkt jafnvegi að ekki verður sagt að önnur áttin ríki meir en hin eða yfir hinni.

Norðanvind má sjá í því, að viðkomandi hefur háar hugmyndir um hvað hann gæti gert í ímyndun sinni eða að hann hefur draumóra um kosti sína. Vitandi vits finnst honum oft hann hafa yfirburði yfir aðra, sem getur sést í ýktum myndugleika í framkomu. Honum finnst hann vera sitt eigið stolta sjálf. Þeir eiginleikar sem hann er stoltur af, gagnstætt norðanmanni, eru í þjónustu innhverfunnar. Hann er stoltur af stillingu sinni, sjálfstæði og vera sjálfum sér nógur. Einnig hve hann fyrirlítur allan þrýsting og samkeppni. Hann getur verið meðvitaður um kröfur sínar og sett þær fram með áhrifaríkum hætti. Innihald þessara krafna er þó öðru vísi af því að þær stafa að þörf að vernda eigin fílabeinsturn. Honum finnst hann eiga rétt á því að aðrir séu ekki að ryðjast inn í einkalíf hans, að aðrir eigi ekki að vænta neins af honum eða trufla hann, að hann sé undanþeginn að þurfa að hafa fyrir lífinu og taka á sig ábyrgð. Norðanáttin getur einnig sýnt sig með óbeinum hætti svo sem að njóta orðstírs eða sína uppreisnargirni.

Þessir norðanvindar bera ekki í sér neinn þrótt, því að hinn innhverfi hefur látið af metnaði í þeim skilningi að hann hefur gefist upp á allri viðleitni til að ná metnaðarfullum markmiðum. Hann er ákveðinn í að vilja þau ekki eða reyna að ná þeim. Jafnvel þótt hann geti gert eitthvað skapandi, gerir hann það samt sem áður með ólyst og andúð á því sem umheimurinn vill og virðir. Þetta er einkum einkenni á hinum uppreisnargjörnu, innhverfu mönnum. Enn síður vill hann gera eitthvað framsækið og árásargjarnt í þágu hefndar eða sigurs. Hann hefur látið frá sér alla viðleitni til að ná tökum á lífinu. Í samræmi við innhverfu sína hefur hann ólyst á þeirri hugmynd að gerast leiðtogi, hafa áhrif á eða ráðskast með fólk.

Á hinn bóginn ef sunnanvindar blása með hinum innhverfa, þá hefur hann tilhneigingu til að hafa lítið álit á sjálfum sér. Hann getur verið feiminn og fundist hann sé ekki mikils virði. Viss viðhorf svo sem að vera næmur á þarfir annarra eiga rót sína að rekja til sunnanvinda. Hinn innhverfi getur einmitt eytt miklum tíma í að hjálpa öðrum eða þjóna málstað. Hann er oft varnarlaus gagnvart ágengni og árásum og ásakar sjálfan sig fremur en aðra. Hann getur lagt sig fram við að særa aldrei tilfinningar annarra. Hann getur verið hlýðinn, þó ekki eins og í sunnanmanni til að öðlast ástúð og elsku, heldur til að komast hjá árekstrum við aðra. Honum getur fundist, að væri ekki sú fjarlægð til staðar gagnvart öðrum, sem hann hefur myndað, myndu aðrir valta yfir hann.

Hvort sem um er að ræða norðan- eða sunnanvinda er hjá hinum innhverfa meira um viðhorf að ræða en virka eða öfluga áráttu. Leit að ást, sem gefur sunnanáttinni ástríðuþrunginn einkenni, er ekki til staðar, þar sem hinn innhverfi er staðráðinn í að vilja og vænta einskis frá öðrum og mynda ekki tilfinningatengsl við aðra.

Við skiljum nú betur þýðingu þess að draga sig í hlé frá átökum milli norðurs og suðurs með því að hverfa frá öðrum (fráhverfa) og inn í sig (innhverfa). Þegar andstæður norðurs og suðurs eru teknar úr sambandi, hætta þær að plaga viðkomandi. Ekki er verið að bæla eða útiloka þessi öfl, eins og norðan og sunnanmenn gera, heldur er verið að gera þau óvirk. Hinn innhverfi gerir þau óvirk með því að gefa á bátinn alla viðleitni til metnaðar. Hann verður þó eins og aðrar manngerðir að vera sín eigin ímynd, sem þýðir að skyldur og stolt ráða ríkjum hjá honum eins og öðrum, en hann hefur hætt við að sýna viðleitni til að gera hana raunhæfa í verki.

Sams konar tilhneiging til óvirkni gildir hjá hinum innhverfa að því er snýr að raunsjálfinu (atman). Hann vill vera hann sjálfur, en með því að setja frumkvæði sínu skorður, með því að setja hömlur á óskir og viðleitni, setur hann raunsjálf sitt einnig í herkví. Hann leggur áherslu á að vera, bæði gagnvart sjálfsímyndinni og raunsjálfinu, ekki á að öðlast eitthvað eða þroskast. En sú staðreynd að hann vill þó enn vera hann sjálfur veitir honum heimild til að viðhalda frelsi í eigin tilfinningalífi og að því leyti er hann minna firrtur en aðrir. Hann getur haft miklar og sterkar tilfinningar fyrir trú, list, náttúru, þ.e. einhverju ópersónulegu. Þótt hann leyfi sér ekki að blanda geði við fólk tilfinningalega, getur hann þó oft upplifað tilfinningar og sérstakar þarfir annarra.

Rétt er að bera þessa hæfni hins innhverfa saman við tilfinningalíf sunnanmannsins. Hann setur jákvæðum tilfinningum sínum engar hömlur, þvert á móti ræktar hann þær. Hann ýkir þær jafnvel og falsar, þar sem þær þjóna ástúðar- eða ástarmarkmiði hans, þ.e. að falla fyrir öðrum, týna sjálfum sér í tilfinningum og finna einingu með því að sameinast öðrum. Hinn fráhverfi vill halda tilfinningum sínum stranglega í lokuðu einkahólfi hjarta síns. Hugmynd um að sameinast öðrum er honum framandi. Hann vill vera hann sjálfur, en hefur óljósar hugmyndir um hvað það þýðir og er ruglaður hvað það snertir, án þess að gera sér grein fyrir því.

Það er þessi óvirkni sem er einkenni innhverfunnar og gefur henni neikvæða og kyrrstæða mynd. En enginn lifir í eintómri neikvæðni. Spyrja mætti hvort hinn innhverfi hefði engin jákvæð gildi. Eru það aðeins friður og ró? Vissulega, en slík gildi hafa engu að síður neikvæðan lit. Norðanmaðurinn vill ná tökum á lífinu og sunnanmaðurinn ást og vináttu. Hefur hinn innhverfi engin slík jákvæð gildi? Hann eins og aðrir breytir þörfum í kosti, svo sem telur hann dáðleysi sitt kost þar sem hann sé yfir samkeppni hafinn og í stað aðgerðarleysis eða skorts á viðleitni kemur fyrirlitning á brauðstriti í sveita síns andlits. Þótt þessi gildi séu léttvæg er þó að finna önnur sem ekki er svo létt að hafna og sem hafa raunverulega þýðingu fyrir hann. Þessi gildi eru sjálfstæði og frelsi. Frelsi sem gildi er mjög skiljanlegt frá hinum innhverfa séð. Öll tenging eða festing hindrar frelsi. Sama gildir um þarfir. Að vera háður þörfum sínum gerir okkur jafnframt auðveldlega háða öðrum. Ef við sinnum ákveðnu málefni, takmarkar það getu okkar til að sinna öðrum áhugamálum. Við sjáum að viðkvæmni gagnvart þvingun er eðlileg hjá þeim sem vill vera frjáls.

Hinn innhverfi ver frelsi sitt til hins ýtrasta. Vilja menn ekki almennt frelsi? Verða ekki allir lystarlausir á að starfa undir þrýstingi? Verða menn ekki litlausir og líflausir ef þeir eru sífellt að uppfylla væntingar annarra? Er æskilegt að vera eins og allir aðrir, meðaltal allra meðaltala? Hann hatar alla reglumennsku og þolir ekki að sjá dýr í búri. Hann elskar að gera það sem hann langar til að gera, þegar hann langar til.

Lítum á það síðastgreinda, að frelsi þýði fyrir hinn innhverfa að gera það sem honum sýnist, þegar honum dettur það í hug. Hér er á ferðinni ágalli. Ef hinn innhverfi frystir óskir sínar, veit hann ekki hvað hann vill í raun. Í staðinn gerir hann ekkert eða jafngildi þess. Þetta angrar ekki hinn innhverfa, þar sem hann sér frelsi fyrst og fremst í ljósi þess að vera ekki truflaður af öðrum, hvort sem það er fólk eða stofnanir. Þessi afstaða er honum mikilvæg. Hugmynd hans um frelsi er neikvæð, frelsi frá ekki frelsi til og það viðhorf heillar hann andstætt öðrum manngerðum. Sunnanmaðurinn er frekar hræddur við frelsi, því hann þarfnast nálægðar og tengsla. Norðanmaðurinn þarf að ná tökum á hinu og þessu og fyrirlítur því slíka frelsishugmynd.

Hvaða nauðsyn veldur slíkri þörf fyrir frelsi. Nauðsynlegt er að líta aðeins aftur á sögu þess fólks, sem leysa sín persónuleikavandamál með innhverfu. Í loftinu lá þvingun og ógnun, sem barnið gat ekki gert opinbera uppreisn gegn, annað hvort af því að hún var svo sterk eða óhöndlanleg. Fjölskylduumhverfið getur hafa verið svo náið, tilfinningatengslin svo þétt, að þau komu í veg fyrir einstaklingsþroska og viðkomandi bjó jafnvel við yfirvofandi ógnun um að hann yrði brotinn niður. Honum var e.t.v. veitt ástúð, en með þeim hætti að honum hlýnaði ekki um hjartarætur, heldur hryllti frekar við. Um getur hafa verið að ræða eigingjarnt foreldri, sem engan skilning hafði á þörfum barnsins, en gerði miklar kröfur um að barnið skildi það og veitti því tilfinningalegan stuðning. Eða um hafi verið að ræða foreldri með miklar skapsveiflur, sem veitti ástúð aðra stundina eða skammaðist og barði hina stundina, án ástæðu sem barnið skildi. Í stuttu máli getur umhverfið hafa gert duldar eða ljósar kröfur um að barnið aðlagist því á einn eða annan hátt og hótað að kaffæra það og ekki tekið nægilegt tillit til þess sem einstaklings, að ekki sé talað um að hvetja til persónulegs þroska.

Hugur barnsins hefur þannig í lengri eða skemmri tíma annars vegar verið bundinn við árangurslausar tilraunir til að öðlast ástúð og áhuga annarra og hins vegar reiðst þeim fjötrum sem það var reyrt í. Það leysir þessa árekstra með því að draga sig í hlé. Með því að skapa tilfinningalega fjarlægð milli þess og annarra, gerir það þessi átök óvirk. Það hefur ekki lengur þörf fyrir ástúð og vill ekki berjast. Sú ógnun er þá ekki lengur til staðar að það verði andlega sundurslitið af gagnstæðum tilfinningum gagnvart umhverfinu og tekst að komast á kjöl og komast af við það. Ennfremur með því að draga sig í hlé í sína eigin veröld, bjargar það sér sem einstaklingi frá því að valtað verði yfir það og Sjálf þess þurrkað út. Þessi fyrsta fráhverfa þjónar þannig tvíþættum tilgangi, þ.e. að halda eigin Sjálfi, en jafnframt hefur hún jákvæðan tilgang: að halda innra lífi ómenguðu. Frelsi úr fjötrum gefur möguleika á innra sjálfstæði.

Barnið verður þó að gera meira en að stífla tilfinningar sínar, hvort sem þær snúast um að vera með eða móti öðrum. Það verður að takmarka óskir sínar og þarfir, ef aðra þarf til að fullnægja þeim, svo sem þegar um er að ræða eðlislæga þörf fyrir skilning eða að deila reynslu með öðrum, einnig ef það óskar eftir ástúð, samúð eða vernd. Þetta hefur í för með sér víðtækar afleiðingar. Þetta þýðir að það verður að byrgja innra með sér alla gleði, sorg, sársauka og ótta. Það getur t.d. gert örvæntingafulla tilraun til að komast yfir ótta sinn við myrkur, hunda o.s.frv., án þess að aðrir viti um það. Það þjálfar sig sjálfkrafa í því að sýna enga þjáningu og jafnvel ekki finna hana. Það vill ekki samúð og hjálp, ekki aðeins vegna þess að það hefur ástæðu til að draga í efa einlægni slíkra tilfinninga, heldur þótt þær væru tímabundið látnar í té, þá eru þær orðnar að viðvörunarmerki fyrir fjötra í aðsigi. Ofan á allt þetta finnst því öruggara að láta engan vita að eitthvað skipti það máli, til þess að það verði ekki fyrir vonbrigðum með væntingar eða verði ekki notað og þannig ekki háð öðrum. Þannig byrjar takmörkun óska hjá barni, sem byrjar að þróa með sér innhverfu. Það veit að það vill ákveðin föt, leikfang eða kött, en segir það ekki. Smátt og smátt finnst því öruggast að hafa engar óskir. Þeim mun færri óskir, þeim mun öruggara er það í sínu skjóli og þeim mun erfiðara er fyrir aðra að ná tökum á því.

Afleiðingin er ekki enn innhverfa, en sáð hefur verið fræi hennar. Slíkt hefur í för með sér miklar hættur fyrir framtíðina. Enginn þroskast í tómarúmi, heldur í nálægð við aðra, hvort sem er í samlyndi eða ágreiningi við aðra. En staðan verður ekki óbreytt til lengdar. Nema að kringumstæður batni eykst innhverfan af sjálfu sér með sína vítahringi. Við höfum þegar nefnt einn hringinn. Til þess að viðhalda fráhverfu er nauðsynlegt að setja hömlur á óskir og viðleitni. Takmörkun óska hefur á hinn bóginn tvíþættar afleiðingar. Það gerir hinn innhverfa sjálfstæðari, en veikir hann. Það dregur úr lífsþrótti og eyðir tilfinningu fyrir stefnu í lífinu. Hann verður að vera enn frekar árvakur gegn áhrifum og afskiptasemi. Hinn frægi sálfræðingur Harry Stack Sullivan orðar það svo, að hann verði að smíða fjarlægðarvél.

Hér verður að láta staðar numið. Verður í næsta þætti haldið áfram að ræða einkenni, þróun og afleiðingar innhverfu og þá lokið við það efni.