34.0 Inngangur.
34.1 Persónuleikaeinkenni hins fráhverfa.
34.2 Tilfinningar hins fráhverfa.
34.3 Gildi fráhverfunnar.
34.4 Hlutverk fjarlægðarinnar.
34.5 Æskuorsakir.
34.0 Inngangur.
Við höfum séð öfgar í þrjár áttir. Í 17. til 24. kafla er lýst, hvernig menn leitast við að ná tökum á lífinu, að verða öðrum fremri og valdameiri, og hefna sín á öðrum. Í 25. til 30. kafla er hinu gagnstæða lýst, hvernig menn sækjast eftir vinsældum og velvild, að vera góðir og hógværir og leita umfram allt eftir ástúð eða stuðningi í einu eða öðru formi, að vera elskuverðir en jafnframt ósjálfstæðir.
Í 31. til 33. kafla er lýst, hvernig menn sækja til vesturs til þess að forða sér frá því að vera gleyptir af norðri eða suðri, þ.e. hvernig þeir í raun firra sig ábyrgð gerða sinna, leitast við að verða meðaltal allra meðaltala og skella skuldinni á hið ytra. Þeir verða óáreiðanlegir og ekki það sem þeir sýnast. Lífið verður eitt allsherjar ferðalag úr einu í annað án þess að neitt sé skilið eftir.
Þessi flótti til vesturs er vel skiljanlegur þegar litið er til hinna öfganna í norðri og suðri. Í þeim má sjá, að það sem einum er æskilegt er öðrum fyrirlitlegt. Einn verður að geðjast öllum, annar að líta á alla sem fjandmenn. Einn reynir að komast hjá bardaga hvað sem það kostar, öðrum finnst bardaginn eðlilegur. Einum finnst hann óttasleginn og hjálparlaus, öðrum finnst slíkt fjarlægt. Einn reynir að nálgast mannleg gildi, annar lítur á lífið sem frumskóg. Ekkert af þessu er valið að vild, heldur knýjandi nauðsyn, ósveigjanlegt og ákvarðað af innri þörfum. Engin miðja er til að standa á.
Þegar öflin eru jafnvæg í gagnstæðar áttir, þegar um grundvallar-togstreitu gagnstæðra afla er að ræða og öflin eru jafnopin, hvorugt bælt á kostnað hins og gagnstæð gildismöt virt til jafns, þá mætti ætla að viðkomandi sveiflaðist á milli þessara öfga. Svo þarf þó ekki að vera. Norðan- og sunnanmenn leysa málið með því að lifa í öðru, en bæla hitt, svo sem lýst hefur verið í fyrri þáttum. Við getum aldrei fundið sjálf okkar og innri frið, ef við erum haldin markmiðum sem ganga í gagnstæðar áttir. Slík öfl geta aldrei myndað heild og því verður jafnvægi aldrei náð. Svo sem áður segir, eru leiðirnar til að leysa þetta vandamál í vestur eða austur. Þar sem vestrinu hefur áður verið lýst að nokkru verður nú vikið að austrinu.
Í þessum þætti er ætlunin að lýsa hinum fráhverfa. Þegar hér er rætt um fráhvarf er ekki átt við eðlilega þörf manna fyrir að vera í friði og einir með sér. Sérhver maður, sem tekur lífið og sjálfan sig alvarlega, vill stöku sinnum vera einn. Þar sem menning okkar er gegnsýrð af dýrkun á hinu ytra lífi, skilja fáir þessa þörf. Heimspekingar og trúarleiðtogar allra tíma hafa þó lagt áherslu á gildi einverunnar til þroska og lífsfyllingar. Þörf fyrir einveru, sem hefur innihald og tilgang, er þess vegna eðlileg. Sá, sem hér er rætt um, forðast á hinn bóginn djúpmið og sinn innri veruleik. Einsemd hans er ekki jákvæð. Hann verður stressaður, ef hann er í fjölmenni eða þarf að hafa persónuleg tengsl við fólk. Hann forðast því mannleg og félagsleg samskipti og býr í sinni eigin andlegu einsemd.
34.1 Persónuleikaeinkenni hins fráhverfa.
Einkenni hins fráhverfa eru svo sérkennileg, að halda mætti að hann væri sérstök manngerð. Augljósasta einkennið er fráhvarf eða firring gagnvart fólki almennt. Þetta er augljóst af því að hann leggur á það áherslu, en firring hans er þó ekki umfram þeirra manngerða, sem áður hefur verið lýst, til dæmis norðan- eða sunnanmanna. Segja má að sunnanmaðurinn breiði yfir þessi einkenni og hann verði bæði óttasleginn og hissa, þegar hann uppgötvar það, vegna þess að hann hefur ástríðufulla þörf fyrir nánd og tengsl við aðra og vill ekki trúa því að bil sé milli hans og annarra. Firring er aðeins vísbending um, að mannleg tengsl séu ekki sem skyldi, en þarf ekki á neinn hátt að tengjast manngerðum.
Annað einkenni, sem talið er sérstaklega eiga við hinn fráhverfa, er firring frá eigin sjálfi, þ.e. ónæmi fyrir tilfinningalegri reynslu, óvissa um hvað hann sé, elski, hati, þrái, voni, óttist, reiðist, trúi. Slík firring er almenn og margur er án tengsla við sjálfan sig, eins og fjarstýrð flugvél sem er úr tengslum við stjórnandann. Hinn fráhverfi getur verið dauðyfli eða líflegur, starfað án þess að líf sé í honum, en getur einnig haft ríkt tilfinningalíf. Svo margbreytileg er þessi manngerð. Firring er því ekki eingöngu bundin við hinn fráhverfa. Það sem fráhverfar manngerðir hafa sameiginlegt, ef svo má segja, er allt annað. Það er hæfileikinn til að vera áhorfandi, að horfa á sjálfan sig með hlutlægum áhuga, eins og verið sé að skoða listaverk. Besta lýsingin á hinum fráhverfu er, að þeir hafi sama viðhorf til sjálfs sín og þeir hafa gagnvart lífinu almennt, þ.e. viðhorf áhorfandans. Þeir eru þess vegna oft úrvals skoðendur á því sem fram fer innra með þeim. Til dæmis skilja þeir vel eigin drauma og tákn.
Það sem hér skiptir máli er innri þörf fyrir að aðskilja sig tilfinningalega frá öðrum. Nánar til tekið eru þeir ákveðnir í því, meðvitað eða óvitað, að tengjast ekki öðrum tilfinningalega með neinum hætti, hvort sem er í ást, baráttu, samvinnu eða samkeppni. Þeir draga eins konar töfrahring í kring um sig, sem enginn má komast í. Þess vegna má segja að þeir komist af við fólk, þótt með yfirborðslegum hætti sé. Þessi þvingandi árátta verður augljós við kvíðaviðbrögð þeirra, þegar einhver kemst inn á þá.
Kostir og þarfir, sem þessir menn skapa með sér, einkennast af þessari fráhvarfsþörf. Þörfin fyrir að vera sjálfum sér nógur er áberandi. Jákvæð tjáning þessarar þarfar er að vera úrræðagóður. Norðanmaður hefur tilhneigingu til að vera úrræðagóður, en hugarfarið er annað. Honum er það forsenda fyrir baráttu hans í fjandsamlegum heimi og til að sigra aðra. Hugarfar hins fráhverfa er eins og hjá Robinson Kruso. Hann verður að vera úrræðagóður til að komast af. Öðruvísi getur hann ekki bætt upp einangrun sína.
Önnur vafasamari leið til að vera sjálfum sér nógur er að takmarka þarfir sínar meðvitað eða óvitað. Tilhneiging í þessa átt er skiljanlegri, ef við minnumst grundvallarmarkmiðisins að tengjast engum og engu þannig, að ómissandi verði. Það myndi setja fráhvarfið í hættu. Hinn fráhverfi getur til dæmis notið margra hluta, en ef nautnin er undir öðrum komin, velur hann frekar að sleppa henni. Hann hefur ánægju af því að eyða stöku sinni kvöldstund með vinum, en forðast samkomur og félagsstarfsemi. Á sama hátt forðast hann samkeppni, eftirsókn eftir virðingartáknum eða að sigra. Hann hefur tilhneigingu til að takmarka mat og drykk og hafa lífsvenjur, sem eru þess eðlis, að lítinn tíma og krafta þarf í fjáröflun til að viðhalda þeim. Honum getur sárnað eigin veikindi, þar sem hann álítur þau lítillækkandi fyrir sig, enda þvinga þau hann til að vera öðrum háður. Hann vill gjarnan afla sér sjálfur upplýsinga og þekkingar frá fyrstu hendi fremur en hafa eftir það sem aðrir hafa sagt, t.d. erlendis vill hann heyra og sjá sjálfur. Þetta viðhorf gæti gert hann sjálfstæðan, ef það gengi ekki of langt, eins og að neita að spyrja til vegar í erlendis þar sem hann ratar ekki.
Einveran er knýjandi nauðsyn. Einnig er þörf fyrir einveru og einkalíf almennt. Hann er eins og sá er býr í hótelherbergi og hefur stöðugt á ytri húninum miðann um að vera ekki ónáðaður. Jafnvel er litið á bækur sem innrásaraðila eða eitthvað sem kemur að utan. Sérhver spurning um hans persónulega líf verður honum áfall. Hann hefur tilhneigingu til að hylja sig með leyndarhjúp.
Hinum fráhverfa rennur í skap ef aðrir ganga að honum vísum eða taka hann fyrir sjálfsagðan hlut. Honum finnst að með því sé traðkað á sér. Venjulega vill hann vinna, sofa og borða einn. Gagnstætt hinum vinsamlega vill hann ekki upplifa reynslu með öðrum, aðrir gætu ónáðað hann eða truflað. Jafnvel þegar hann hlustar á tónlist, gengur með öðrum eða talar við aðra, kemur nautnin eða ánægjan af sambandinu síðar, eins og þegar litið er til baka eftir á að hyggja.
Þörf fyrir að vera sjálfum sér nógur og fyrir að lifa í einveru eða einn með sér þjónar aðalþörf hans, þ.e. þörfinni fyrir algert sjálfstæði. Hann álítur sjálfstæði sitt hafa jákvætt gildi og vissulega hefur sjálfstæðið visst gildi. Því hvað sem líður annmörkum eða ófullkomleika, er hinn fráhverfi ekki sjálfvirkt vélmenni, sem aðlagar sig að ríkjandi siðum og hugsunarhætti. Þar sem hann neitar í blindni að vera sammála, jafnframt því sem hann heldur sig frá allri samkeppni og stendur utan við hana, verkar það á aðra sem hann hafi heilsteypta skapgerð, sé heill. Villan liggur í því að líta á sjálfstæði sem markmið í sjálfu sér og hann gætir ekki að því að gildi sjálfstæðisins er undir því komið, þegar allt kemur til alls, hvað gert er við það. Sjálfstæði hans, eins og allt hið fráhverfa fyrirbrigði, sem það er hluti af, hefur að geyma neikvæða afstöðu eða réttara sagt hið sjálfstæða viðhorf hans er neikvætt. Hið svokallaða sjálfstæði er sú afstaða hans að verða ekki fyrir áhrifum, þvingaður, bundinn eða skyldaður.
Þörfin fyrir sjálfstæði er þvingandi og gerir ekki greinarmun. Hún sýnir sig í ofurviðkvæmni gagnvart öllu sem sýnist þvingun, áhrif, skylda o.s.frv. Styrkleiki þessarar viðkvæmni er góð mælistika á styrkleika fráhvarfsins. Mismunandi er, hvað teljist innilokun eða þvingun. Þrýstingur á líkamann frá hálsmáli eða hálsbindi, belti, armbandsól eða skóm er gjarnan fundinn. Að byrgja útsýni getur valdið innilokunarkennd. Að vera í göngum eða námu getur valdið kvíða. Innilokunarkennd verður ekki eingöngu skýrð að fullu með viðkvæmni í þessa átt, en hún er allavega bakgrunnur hennar. Langtímaskuldbindingar verður að forðast ef mögulegt er, að undirrita samning, leigumála í meira en ár er erfitt, að giftast er erfitt. Fyrir hinn fráhverfa er gifting ótrygg staða, allavega vegna hins nána mannlega sambands, þótt þörf fyrir vernd eða trú á að makinn muni laga sig að sérkennum hans kunni að draga úr áhættunni. Oft grípur hinn fráhverfa ótti eða skelfing fyrir giftingu. Hinn ósveigjanlegi tími er alltaf fundinn sem þvingun. Sá vani að vera alltaf fimm mínútur of seinn getur haldið frjálsræðisblekkingunni við. Stundaskrár eru ógnvænlegar. Hinn fráhverfi tekur ekki strætisvagn á áætluðum tíma heldur bíður þess næsta.
Ef væntingar eru gerðar til hins fráhverfa, annað hvort að hann geri eitthvað eða hegði sér á einhvern ákveðinn hátt, vekur það upp í honum andúð og uppreisnarhug. Gildir einu hvort slíkar óskir séu berlega látnar í ljós eða taldar vera til staðar. Hann vill til dæmis gjarnan gefa gjafir eins og gerist og gengur, en gleymir afmælis- eða jólagjöfum af því að við þeim er búist. Honum er ógeðfellt að fylgja viðurkenndum hegðunarreglum eða viðurkenndum gildum. Hann fylgir slíkum reglum til að forðast árekstra við umhverfið, en í huga sér hafnar hann slíkum viðteknum reglum og stöðlum. Þá er rétt að geta þess, að ráð annarra lítur hann á sem yfirráð eða stjórnun á sér og veldur það mótstöðu hjá honum, jafnvel þótt ráðleggingarnar séu í samræmi við óskir hans. Í þessu tilviki getur viðnám hans verið tengd meðvitaðri eða óvitaðri ósk um að láta aðra verða fyrir vonbrigðum eða skaprauna þeim.
Leggja verður áherslu á þörfina fyrir að skara fram úr, sem að vísu er almenn hjá okkur, vegna hinna nánu tengsla hennar við fráhvarfsþörfina. Tengsl fráhvarfs og yfirburða kemur fram í orðinu “fílabeinsturn” eða orðunum “það er kalt á toppnum”. Enginn getur heldur verið einangraður til lengdar nema vera annað hvort andlega sterkur og úrræðagóður eða finna sig einstaklega mikilvægan. Þetta samband kemur skýrlega í ljós þegar eitthvað hefur grafið undan tilfinningunni fyrir eigin mikilvægi hjá hinum fráhverfa, annað hvort vegna mistaka eða innri, andlegra erfiðleika. Þá á hann erfitt með að standa einn og sækist gjarnan eftir stuðningi og vernd.
Slík sveifla getur átt sér stað á unglingsárum. Hann kann að hafa átt fáa en góða vini, lifað einangruðu lífi og kunnað vel það, en ímyndað sér framtíð, þar sem hann skaraði fram úr eða sýndi einstök afrek. Síðar hafa svo þessir draumar beðið skipbrot, er veruleikinn reyndist annar. Honum gekk e.t.v. vel í skóla fyrst, en lenti svo í alvarlegri samkeppni, sem hann dró sig út úr. Fyrstu tilraunir til ástarsambanda mistókust. Honum varð ljóst, er hann varð eldri að draumar hans urðu ekki að veruleika. Fráhvarf varð því óbærilegt og tilhneiging til mannlegra samvista og samskipta, heltók hann. Hann þráði kynmök og hjónaband. Hann var tilbúinn til að lúta sérhverri vanvirðingu eða auðmýkingu, aðeins ef hann fengi ást. Þegar hann svo síðar kemst yfir þetta niðurbrot, léttir honum og hann snýr aftur til fyrri hátta, þ.e. hann vill þá lifa einn og njóta þess. Þá kemur í ljós, að einangrun var alltaf í raun það sem hann þráði.
Þessi þörf hins fráhverfa fyrir yfirburði hefur sérstök einkenni. Hann forðast samkeppni og baráttu og vill ekki skara fram úr í raun með því að leggja sig allan fram. Honum finnst frekar, að eigin innri fjársjóðir hans ættu að uppgötvast án fyrirhafnar af hans hálfu. Aðrir ættu að finna hinn dulda mikilleika hans án þess að hann þurfi að gera neitt til þess. Hann dreymir um dulda fjársjóði. Hugmyndir hans eru að hluta til raunhæfar, því að hinn duldi fjársjóður merkir líka hug hans og tilfinningar, sem hann vakir yfir innan töfrahringsins.
Þessi tilfinning fyrir yfirburðum lýsir sér í því tilfinningalega viðhorfi, að hann sé eitthvað sérstakur, einstakur. Þetta er bein afleiðing þeirrar löngunar að finna sig aðskilinn og aðgreindan frá öðrum. Honum finnst hann eins og tré, sem stendur á hæð og allt um kring er lægri skógur. Þegar suðurmaðurinn spyr: “líkar honum við mig?” og norðanmaðurinn spyr: “”hversu sterkur andstæðingur er hann?” eða “get ég notað hann?”, spyr austmaðurinn: “Truflar hann mig?” eða “Ætlar hann að reyna að hafa áhrif á mig eða láta mig í friði?” Pétur Gautur sagði í leikriti Íbsens: “Vertu sjálfum þér nógur.”
34.2 Tilfinningar hins fráhverfa.
Tilfinningalíf hins fráhverfa hefur ekki ákveðinn farveg eins og hjá öðrum manngerðum, sem lýst hefur verið. Fjölbreytileikinn í einstökum tilvikum er meiri, sérstaklega vegna átakanna milli norðurs og suðurs. Tilhneiging til jákvæðra markmiða, í suðurátt svo sem til ástúðar, návistar og ástar eða í norðurátt til að skara fram úr, yfirráða og komast af, togast á og er lík að styrkleika. Markmið hans verða því neikvæð. Hann vill ekki taka þátt, ekki þurfa neins, ekki leyfa öðrum að hafa áhrif á sig eða ganga í skrokk á sér. Þannig má segja, að tilfinningalíf hans mótist af þeim löngunum, sem hann hefur veitt leyfi til að lifa innra með sér innan þessa neikvæða ramma. Það er því ekki hægt að gefa nema takmarkaða lýsingu á þeim tilhneigingum, sem teljast eðlislægur hluti hins fráhverfa hugarfars.
Tilhneiging til að bæla allar tilfinningar eru fyrir hendi, jafnvel að afneita tilvist þeirra. Höfnun tilfinninga tekur einkum til tilfinninga gagnvart öðru fólki og gildir jafnt um ást og hatur. Hún er rökrétt afleiðing þess að halda sér í tilfinningalegri fjarlægð frá öðrum, því að mikil ást eða hatur, sem væri meðvituð myndi annað hvort færa hinn fráhverfa í of mikla návist við aðra eða hann myndi lenda í árekstrum við þá. H.S. Sullivan hefur talað um “vélræna fjarlægð” í þessu samhengi.
Þetta merkir ekki endilega að tilfinningar séu bældar utan félagslegra samskipta. Tilfinningar geta verði lifandi á öðrum sviðum, svo sem á sviði tónlistar, bóka, dýra, náttúru, lista, fæðu o.s.frv. Þó getur það einnig gerst, að maður sem býr yfir djúpum og ástríðufullum tilfinningum geti ekki bælt eitt tilfinningasvið eingöngu, hann verði að bæla allar tilfinningar. Listamenn sem heyra til fráhverfrar manngerðar, og hafa sýnt þegar þeir eru skapandi að þeir hafi djúpar tilfinningar sem þeir geti látið í ljós, hafa upplifað það t.d. á unglingsárum að vera tilfinningadauðir eða afneitað tilfinningum alfarið. Skapandi tímabil hafa komið í lífi þeirra eftir að þeir lentu í hrakförum í sambandi við náin mannleg tengsl eða samskipti og þeir hafa í framhaldi af því mótað sér lífsmynstur hins fráhverfa viðhorfs, þ.e. skapað fjarlægð gagnvart öðrum eða tekið upp einangrað líf. Vera kann að sú staðreynd, að þeir nú í öruggri fjarlægð frá öðrum, geti létt á og tjáð miklar tilfinningar, sem ekki tengjast mannlegum samskiptum, merki að afneitun tilfinninga upphaflega hafi verið nauðsyn til að öðlast hið fráhverfa lífsmynstur.
Önnur ástæða þess, að bæling tilfinninga er mun víðtækari en í tengslum við mannleg samskipti liggur í þeirri nauðsyn að vera sjálfum sér nógur. Sérhverja ósk, löngun, áhugi eða ánægja, sem gæti gert hinn fráhverfa háðan öðrum, er litið á sem svik innan frá og meðhöndluð eftir því. Það er eins og prófa þurfi hverjar kringumstæður út frá mögulegum missi frelsis, áður en tilfinningar eru látnar að fullu í ljós. Sérhver ógnun um að vera öðrum háður verður til þess að viðkomandi dregur sig inn í skelina. Ef hann er hins vegar öruggur með umhverfið í þessu tilliti getur hann notið tilfinninga að fullu. Hér er á ferðinni viturleg sjálfsögun ef forsendur eru skoðaðar. Óttinn við að vera ánægjunni háður eða að hún ræni hann frelsinu gerir hann að meinlætamanni. Ekki ósvipað og ofdrykkjumaður heldur sig frá víni.
Af þessum sökum kemur ekki á óvart, að mikilvægt sé fyrir andlegt jafnvægi hins fráhverfa að geta sjálflægt látið í ljósi tilfinningar sínar á einhverjum sviðum. Skapandi hæfileikar geta þannig á vissan hátt bjargað. Ef útrás þeirra hefur verið hömluð, en einhver lífsreynsla, svo sem sjálfskoðun, leysir þá úr læðingi, hefur það ótvíræð heilsusamleg áhrif á hinn fráhverfa, svo það líkist kraftaverki. Varla getur það þó talist lækning, því grundvöllur persónugerðarinnar er óbreyttur, en býður upp á ánægjulegra og frjálsara líf.
Því meiri stjórn sem tilfinningar eru undir, þeim mun líklegra er að áhersla sé lögð á vitsmunalífið. Væntingarnar eru þá að allt sé hægt að leysa með skynseminni, hyggjuvitinu, eða dómgreindinni. Þá er eins og þekkingin ein á eigin vandamálum sé nægjanleg til að leysa þau, rökhyggjan ein geti leyst öll heimsins vandamál.
Af því sem sagt hefur verið um mannleg tengsl og samskipti hins fráhverfa, er ljóst að náið og varanlegt samband setur lífstíl hans í hættu, nema hann finni maka, sem er jafn fráhverfur og hann og virði þörf hans fyrir fjarlægð eða aðlagi sig þessum þörfum. Ef fjarlægðarþörf hans er fullnægt, getur hann viðhaldið varanlegri tryggð gagnvart makanum. Hann getur líka hellt sér í sambönd, sem vara stutt. Þau eru brothætt, koma og fara og lítið þarf til að hann slíti þeim. Kynmök geta verið honum mjög mikilvæg sem brú til annarra. Hann nýtur þeirra, ef þau vara stutt og trufla ekki lífstíl hans. Honum finnst að þau ættu að takmarkast, ef svo má segja, við það afmarkaða svæði sem þeim er ætlað. Á hinn bóginn gæti hann hafa ræktað með sér slíkan tilfinningakulda, að hann verði ekki yfirunninn. Algerlega ímynduð sambönd koma þá í stað raunverulegra.
Þessi sérkenni hins fráhverfa koma fram við sjálfskoðun. Annars vegar er honum illa við slíka innrás í eigið sálarlíf, en hann er oft áhugasamur um að skoða sjálfan sig og verður heillaður af að finna og sjá hið flókna ferli eigin sálarlífs, sem opnast við slíka skoðun. Hinir listrænu eiginleikar drauma geta vakið forvitni hans og áhuga, svo og þau hugtengsl, sem hann óvart finnur. Hann fyllist vísindalegri gleði þegar hann fær staðfestingu á grun eða hugmynd, en hann þvingar sig aldrei í neina átt, sem hann hefur ekki fyrirfram rannsakað eða séð fyrir um afleiðingar á. Hann talar jafnvel um að sjálfskoðun geti verið hættuleg, þótt hann sé allra manna best brynjaður gegn þeim áhrifum, sem slíkt getur haft í för með sér. Ellegar hann hafnar blint öllu því sem ekki fellur inn í hugmynd hans um hann sjálfan eða lífið almennt. Honum finnast sérstaklega andstyggilegar allar breytingar, sem hann kann að þurfa að gera á eigin persónuleika, þótt auðvitað vilji hann gjarnan losna við það sem þjáir hann eða truflar. Hann er jafn áfjáður í að skoða, eins og hann er óafvitað ákveðinn í að vera óbreyttur. Megin ástæðan fyrir þessu viðhorfi er auðvitað, hversu mótfallinn hann er því að verða fyrir áhrifum. Hann vill hafa sjálfskoðun í hæfilegri fjarlægð, þ.e. láta hana ekki hafa áhrif á sig.
Hin mikla vörn sem hinn fráhverfi tekur upp, sé á fráhverfu hans ráðist, er áberandi og sérstakt einkenni hins fráhverfa. Fráhverfan er honum mikils virði, jafnvel höfuðatriði. Öllum athugasemdum frá öðrum um einangrun hans, er kurteislega hafnað og í sjálfskoðun er tilfinningaviðbrögðum ekki fylgt eftir eða persónulegt samband við aðra skoðað. Sá sem á öryggi sitt undir fjarlægð frá öðrum, verður jafnan önugur eða reiður við umræðu um fjarlægðaráráttu hans. Hann lítur á sjálfstæði sitt sem kost og hefur fyrirlitningu á allri hjarðmennsku. Honum er almennt illa við að ganga í félagsskap sem krefst ekki eingöngu þátttökugjalds, heldur raunþátttöku. Ef hann lendir í slíkum félagsskap, forðar hann sér fljótt, eins og hann eigi lífi sitt að launa. Val á milli ástar og sjálfstæðis er auðvelt, sjálfstæðið er valið án hiks. Öllu skal fórnað fyrir sjálfstæðið. Ytri gæði og innri gildi eru yfirgefin vitandi vits og ósk, sem gæti spillt sjálfstæðinu, er afneitað eða bæld.
34.3 Gildi fráhverfunnar.
Þar sem fráhverfan er varin af svo miklu afli gefur auga leið, að hún hlýtur að hafa mikið huglægt gildi. Hún verður ekki skilin nema mönnum sé þetta ljóst. Eins og við höfum áður séð, hefur sérhvert viðhorf jákvætt, huglægt gildi fyrir viðkomandi. Sá sem fer í suður vill til dæmis vingast við umhverfið og sá sem fer í norður komast af í samkeppnisþjóðfélagi. Með því að mynda skil á milli sín og annarra, öðlast menn viss heilindi eða heilleika og heiðríkju hugans. Auðvitað eru öll þessi viðhorf meira eða minna æskileg og nauðsynleg, en þegar þau verða þvingandi, stirð og skilyrðislaus og útiloka hvert annað, þá er vanþroski á ferðum.
Gildi fráhverfu er mikið. Í austurlenskri heimspeki er mælt með því að menn hverfi frá mannlegum samskiptum, hugleiði og leiti þannig eftir andlegum þroska og æðri verðmætum. Við getum ekki samjafnað slíkri viðleitni við fráhverfu. Þá er fráhverfan valin, ef svo má segja, sem besta leið til sjálfsþroska og tekin upp af mönnum, sem gætu ef þeir vildu, haft annan lífstíl. Sú fráhverfa, sem hér um ræðir, er ekki valin, heldur þvingaður varnarháttur, eini valkosturinn sem lífstíll. Engu að síður hefur hinn fráhverfi sama hag að sækja, þótt það sé reyndar ýmsu öðru háð. Þrátt fyrir miklar eigin andlegar beyglur, getur hinn fráhverfi viðhaldið vissum heilleika eða heilindum. Slíkt er óþarfi í þjóðfélagi, sem almennt er heiðarlegt og vinsamlegt. En í þjóðfélagi, þar sem mikið er um uppgerð, lævísi, öfund, grimmd og græðgi, þarf sterkan persónuleika til að halda heilindum sínum. Fjarlægð frá öðrum hjálpar allavega til að viðhalda þeim. Þar sem öll innri átök ræna viðkomandi innri friði, veitir fráhvarf frá öðrum vissa friðsæld, sem þó er háð þeirri fórn sem færa þarf. Til viðbótar veitir fráhvarf viðkomandi færi á frumlegri hugsun og eðlislægum tilfinningum, þ.e.a.s. ef allt tilfinningalíf hefur þá ekki verið þurrkað út innan þess hrings, sem hinn fráhverfi hefur dregið. Að lokum má benda á það, að allir þessir þættir ásamt tilhneigingu til íhugunar og áhuga á umheiminum og þar sem minna verður um truflandi áhrif, leiða til þess að skapandi hæfileikar, ef viðkomandi hefur slíka, eru þroskaðir og látnir í ljós. Fráhverfa er þó ekki skilyrði fyrir skapandi hæfileikum, en getur skapað góða möguleika til að viðkomandi fái notið eigin skapandi hæfileika.
Þrátt fyrir þann ávinning af fjarlægð frá öðrum, sem hér hefur verið drepið á, er hann þó ekki ástæða þess að fráhverfa er varin af svo miklu afli. Sá sem haldinn er mikilli fráhverfu, getur bókstaflega brotnað niður, lendi hann í of mikilli nálægð við aðra. Eðlileg tilhneiging er til þess að tengja slíkt atvik atburði sem á undan er genginn, t.d. framhjáhaldi maka eða erfiðleikum í vinnu. Auðvitað er slíkt skýring, en aðeins að hluta, enda verður fólk almennt fyrir ýmsum áföllum án þess að brotna niður. Í þessu sambandi er einkennandi að ekki er eðlilegt vægi milli tilefnis og afleiðingar. Fjarlægðin veitir öryggi, svo lengi sem hún varir, en kvíði kemur upp, hafi fjarlægðarvarnir lagst af. Þá býr hinn fráhverfi ekki lengur yfir tækni eða vopnum til kljást við umhverfið og lífið. Hann kunni aðeins að vera í fjarlægð og forðast lífið. Hin neikvæðu gæði fráhverfunnar gefur henni þannig sérstakan lit. Lendi hinn fráhverfi í erfiðleikum og geti ekki beitt fjarlægðarvél sinni, ef svo má segja, kann hann hvorki að elska eða slást, friðmælast né sýna hörku, sýna samvinnu eða segja öðrum fyrir verkum. Hann er jafn varnarlaus og dýr, sem aðeins getur varist hættu með því að flýja og fela sig. Þetta kemur fram í draumum. Hann er eins og miðaldaborg án varnargarða og varnarlaus gagnvart óvini. Því er kvíði gagnvart lífinu eðlileg afleiðing. Fjarlægðin er því allsherjarvörn, sem verður að halda fast í og verja með öllum ráðum. Aðrir varnarhættir, sem lýst hefur verið, eru að sjálfsögðu engu skárri í sjálfu sér, en þeir eru jákvæðir í þeim skilningi, að með þeim reynir viðkomandi að ná tökum á lífinu. Á hinn bóginn er hinn fráhverfi hjálparlaus í lífsbaráttunni og varnarviðhorfið verður áberandi.
34.4 Hlutverk fjarlægðarinnar.
Ástæða þess að fráhverfa er varin af svo miklu afli á sér einnig nánari skýringar. Þegar viðkomandi stendur frammi fyrir þeirri ógn, að veggurinn verði niður brotinn, kemur fram ótti hjá honum um hjarðmennsku, að verða drekkt í mannmergðinni, missa sérstæði sitt eða einstæði ef svo má segja, vera eitthvað sérstakt. Einnig getur verið ótti vegna eigin varnarleysis, við að vera ofurseldur ýgi og hagnýtingu annarra. Jafnvel ótti við að missa vitið. Hér er ekki átt við ótta um að ganga berserksgang eða gerast ábyrgðarlaus í athöfnum, heldur ótti við að klofna andlega. Hér nálgumst við schizophreníu eða geðklofa. Þetta kemur fram í draumum eða hugarórum. Með því að leggja af fráhverfuna, stendur viðkomandi frammi fyrir eigin innri andstæðum. Hér kemur einmitt fram tilhneiging og markmið fráhverfunnar, að forðast innri árekstra, forðast átökin milli norðurs og suðurs. Því verður fráhverfan ekki læknuð, fyrr en átökin milli norðurs og suðurs hafa lægt.
Þannig verður ljóst, sem ekki var í fyrstu, að fráhverfan er hluti af heildardæminu, þ.e. meginátökum í sálarlífinu og ætlað að vernda viðkomandi frá þeim átökum. Gátan er leyst, ef við sjáum að fráhverfan er vernd gegn átökum norðurs og suðurs. Við verðum að muna, að þótt annað hvort grundvallarviðhorfið til suðurs annars vegar (lýst í kafla 25-30) eða norðurs hins vegar (lýst í kafla 17-24) sé ríkjandi, blundar hitt undir niðri. Þetta kemur skýrlegast fram hjá hinum fráhverfa. Þessar gagnstæður koma fram í lífshlaupi hans. Áður en hann verður fráhverfur hefur hann bæði gengið í gegnum tímabil hógværðar og góðmennsku annars vegar og ýgi og uppreisnar hins vegar. Gildi hans eru gjarnan gagnstæð. Hann metur alltaf frelsi og sjálfstæði mest allra gilda, en stundum metur hann öðru meira góðleika, samúð, örlæti, fórnfýsi og eða hann sveiflast skyndilega yfir í frumskógaheimspeki miskunnarlausra eiginhagsmuna. Hann verður kannski ringlaður vegna þessara gagnstæðna, en með smá réttlætingu afneitar hann þessum viðhorfum sem ósamrýmanlegum. Hann á sér alltaf skjól í fráhverfunni.
Hinn fráhverfi er ekki mikið fyrir að taka til skoðunar samband sitt við aðra og honum er illa við að sjá framan í eigin innri andstæður. Með því að sjá forsendur hans, hefur þetta áhugaleysi augljósar skýringar. Svo lengi sem hann er í fjarlægð frá öðrum, er óþarft að ómaka sig til þess að skoða þær og þær trufla hann ekki. Ekki þarf að leggja á sig þann kvíða sem fylgir sjálfskoðun á eigin innri andstæðum, því fráhverfan leysir málið. Frá henni verður ekki hvikað. Hann sér ekki að hann getur aldrei vaxið eða þroskast andlega í tómarúmi.
Meginástæða þess, að hinn fráhverfi forðast samskipti við fólk, er að með því kemst hann hjá því að verða var við eigin innri andstæður. Hér er um að ræða róttæka og áhrifamikla vörn gegn því að þessi innri öfl leysist úr læðingi. Það er gamalt ráð til að skapa sátt og eindrægni með sjálfum sér að forðast að horfa framan í vandann. En þetta er engin lausn. Þvingandi löngun helst óbreytt fyrir nálægð annars vegar og til valda, yfirburða og hagnýtingar á öðrum hins vegar, og hún heldur áfram að hrella og lama hinn fráhverfa. Enginn innri raunfriður eða frelsi næst nokkru sinni svo lengi sem innri gagnstæður eru til staðar.
34.5 Æskuorsakir.
Hér hefur verið rætt um það gagn sem hinn fráhverfi telur sig hafa af því að mynda fjarlægð milli sín og annarra, um orsakir þess og hlutverk fráhverfunnar. Ef litið er til æskuára getur höfnun með einu eða öðru móti hafa stuðlað að þeirri einangrun sem hér hefur verið lýst. Barnið nýtur ekki viðurkenningar, heldur er litið á það sem óæskilegan einstakling eða byrði, af því leiði óþægindi eða það sé til vandræða. Fólk sem orðið hefur fyrir slíkri höfnun hefur tilhneigingu til að særast, verða biturt og jafnvel fjandsamlegt og þvingar þannig aðra ósjálfrátt til að hafna því eða afneita. Það verður sniðgengið og fær minni vinsemd frá öðrum en ella. Það verður óöruggt gagnvart öðrum og sjálfsgagnrýnið, sem leiðir til sektarkenndar. Ofdrykkja á sér oft þessar rætur. Barn getur af ýmsum ástæðum verið óvelkomið í heiminn eða síðar. Þá getur foreldri verið fullt af hatri gagnvart sínu foreldri, sem aftur lendir á barninu. Barn getur verið byrði, ef foreldrar geta ekki lengur búið saman. Barnið fær ekki blíðu og því er ekki sýndur áhugi.
Ef sár vegna höfnunar í æsku opnast af einhverjum ástæðum, fyllist viðkomandi sjálfsgagnrýni og gerist fjandsamlegur við aðra og vantreystir þeim, sérstaklega þeim sem næst honum standa. Hér er vandi á ferðum og erfitt að komast yfir erfiðleikana. Fyrsta skrefið er að draga úr sjálfsgagnrýni og viðurkenna sjálfan sig. Einnig er nauðsynlegt að viðurkenna “innra barn fortíðarinnar”, þörfina fyrir að hafna öðrum og að sýna fjandskap. Takmarka þarf útrás þessara tilhneiginga. Einnig þarf að reyna að þroska þá hæfileika, sem viðkomandi finnur að hann býr yfir. Þessi leið er löng og ströng, kostar kvíða og þolraunir. Það getur því reynst vel að hafa góða leiðarlýsingu og áttavita með í farteskinu.