XXXIII TÓMTHÚSMAÐURINN

33.0 SKORTUR Á INNRI REYNSLU.

33.1 FRÁVARP OG VITSMUNAHYGGJA.

33.2 TÓMLEIKI.

33.3 VANRÆKSLA.

33.4 FYRIRSTAÐA.

33.5 LÍFSÓTTI.

33.0 SKORTUR Á INNRI REYNSLU.

Áður hefur verið á það minnst, að átökin milli norðurs og suðurs, leiði annað hvort til þess, að í aðra áttina sé haldið og hin áttin bæld, en séu þessar áttir í nokkru jafnvægi, haldi menn í vestur eða austur. 8. þáttur fjallar um vesturátt, svo og tveir síðustu þættir. Í þessum þætti er gerð enn ein atrennan að vesturáttinni, jafnframt því sem drepið er á nokkur atriði, er snúa fremur að austuráttinni. Þótt sumum finnist þessi þáttur snerta þá lítið, getur hann orðið þeim gagnlegur síðar. Ég nefni þátt þennan tómthúsmanninn, ekki í merkingu þess manns, sem lítil jarðarafnot hefur, heldur býr við innri tómleika. Verður hér rætt um það vandamál, að innri reynsla er ekki upplifuð. Í staðinn kemur tómleiki og tilgangsleysi. Tómthúsmaðurinn getur ekki nálgast sinn innri mann, upplifað hann og þess vegna ekki breytt sínum innri viðhorfum.

Öll reynum við að komast hjá að verða vör við ákveðnar tilfinningar, tilhneigingar, árekstra og viðhorf í sjálfum okkur. Fer það eftir persónugerð hvers og eins, hver þessi óafvituðu atriði eru. Sá sem t.d. heldur sjálfum sér niðri, hefur óafvitaðan áhuga á að vita ekki um kosti sína. Sá sem þarf að halda öðrum í fjarlægð hefur óafvitaðan áhuga á að vita ekki af þörf sinni fyrir blíðu og ástúð o.s.frv. Hér er um að ræða sálfræðileg atriði, sem eru til umræðu í viðkomandi þáttum. Sú vöntun á upplifun á innri reynslu, sem í þessum þætti verður rædd, snýst hins vegar um það þegar innri reynsla er hulin þykkri þoku. Meðvitundin er í heild sinni minni en ella.

Slík vöntun á innri reynslu er ekki eingöngu bundin við tilfinningalífið, þ.e. tilfinningu fyrir sársauka, gleði, von, vonbrigðum eða því sem manni líkar eða mislíkar. Hún tekur einnig til hugsunar, vilja, óska, meiningar, starfs. Í stuttu máli, um er að ræða að lifa í þoku. Ekki er aðeins um að ræða firringu frá Sjálfinu, heldur frá allri innri reynslu svo sem stolti, sjálfsfyrirlitningu, sigri og ósigri, særindum, blekkingum. Jafnvel reiði, þótt hún sé sýnd svo ekki verður um villst, er jafnvel ekki upplifuð sem slík.

Heimur innri reynslu er samt sem áður ekki horfinn. Draumar sýna t.d. innri átök, örvæntingu og tilraunir til lausnar, en vitundin upplifir ekki þessa innri reynslu. Engu líkara er en að viðkomandi hafi snúið baki við sínu innra lífi, eins og það sé hulið þoku, lokað af með loftþéttri stálhurð. Hurðin gæti einnig verið úr gleri, svo kleift sé að sjá hvað er á seyði, án þess að upplifa það. Þokan er ekki alltaf jafnþykk, henni getur stundum létt, en aðra tíma verið mjög þétt. Afleiðingin getur verið óraunveruleikatilfinning. Skyndilega og án fyrirvara geta særindi, missir, listaverk, eða eitthvað annað komist í gegn og skapað viðbrögð. Sum svið geta verið þokuminni en önnur, eins og náttúran eða tónlist.

Þótt vöntun innri reynslu sé óáberandi og átakalaus, er hér samt sem áður á ferðinni mikilvægt fyrirbrigði. Margir þættir almenns eðlis eru orsakir vöntunar á innri reynslu og má segja, að hún sé að mörgu leyti óháð þeim áttum, sem lýst er í þessum þáttum. Afleiðingarnar eru margþættar. Fyrst er að nefna starfræn viðbrögð, sem koma í staðinn fyrir innri tómleika, svo sem frávarp og hugsun eða vitsmunahyggja. Verður vikið að þeim í næsta kafla, og síðar að tilfinningu fyrir kvíða, tómleika og tilgangsleysi, sem einnig er afleiðing þessa reynsluskorts.

33.1 FRÁVARP OG VITSMUNAHYGGJA.

Telja verður það mikinn annmarka að hafa ekki vitund um innri reynslu. Ekki aðeins verður viðkomandi minna lifandi, heldur spillir það einnig daglegum störfum hans. Ef við missum sjónina náum við ekki áttum. Sama gildir um innri blindu. Sá sem missir sjónina finnur venjulega aðrar leiðir til að rata. Sá sem blindur er á innri reynslu, verður einnig að finna aðrar leiðir og hann gerir það ósjálfrátt. Mikilvægust slíkra aðferða er að breyta áherslunni frá hinu innra til hins ytra. Venjulega kærum við okkur kollótt um mun á innra og ytra lífi, því að um samofna þætti er að ræða. Á sama hátt og innra líf birtist okkur, þegar athyglinni er beint frá hinu ytra, eins og í hugleiðslu eða draumum, verður hið ytra allsráðandi, þegar hið innra líf er myrkvað. Ef um er ræða slíka almenna og einhliða áherslu á hið ytra, tölum við um útvarps eða frávarpslíf.

Slíkt líf einkennist í stórum dráttum af eftirfarandi: Innri starfshættir eða ferli eru upplifuð, eins og þau séu á milli manna. T.d. finnur viðkomandi ekki að hann fyrirlíti sjálfan sig, en sér hinsvegar merki þess, að hann fyrirlíti aðra eða að aðrir fyrirlíti hann. Eigin óskir og þvingandi kröfur á hann sjálfan dofna, en í staðinn koma raunverulegar og ímyndaðar væntingar annarra. Væntingar annarra eru þá jafn þvingandi og eigin skyldur, þ.e. hann verður að uppfylla þær eða snúast gegn þeim. Hann er það sem aðrir hugsa eða halda um hann. Frægð og frami verður eina mælistikan á gildi hans. Með slíku framsali til annarra á eigin frumburðarrétti breytist áherslan frá því að vera yfir í að sýnast. Þá gildir rétt hegðun, að gegna sínu hlutverki rétt, líta vel út, í stuttu máli það hlutverk sem hann gegnir og áhrif hans á aðra. Kvíði kemur upp, fari eitthvað úrskeiðis í þessari sýningu. Þessi umskipti, frá því að vera yfir til að sýnast, þýðir, að hann getur gert allt, logið, stolið, svikið, verið lauslátur, svo lengi sem það ekki kemst upp. Góðar gætur á öðrum eru stundaðar af nauðsyn og ræktaðar sem fágætur kostur.

Ef við verðum vör við tilfinningar okkar, óskir, ótta, trú, gildi o.s.frv. getum við náð áttum í lífinu. Ef þessi innri reynsla á hinn bóginn dofnar, höfum við engar viðmiðanir. Væntingar annarra eða almennt hvers konar reglur, siðir og venjur koma þá í staðinn sem viðmiðanir. Þá er haldið fast í þessar leiðbeiningar eða leiðarljós. Ella finnst honum hann þá vegvilltur og eins og týndur og verður kvíðinn og skapstyggur. Hann getur t.d. orðið kvíðinn og áhyggjufullur við aðstæður, þar sem hann veit ekki hvers vænst sé af honum.

Sumir eru í stöðugri leit að kerfi eða boðskap, er veiti meiningu í líf þeirra eða stefnu, er veiti leiðsögn. Leitað er leiðsagnar vegna eigin frumkvæðisleysis. Gjarnan er trúað á boðskap eða reglukerfi, litið er upp til þess og viðkomandi tileinkar sér það, sem hluta af sér. Oftrú verður þannig á andlegri stefnu eða boðskap. Ennfremur eru formúlur oft settar í reglukerfi til að fara eftir eða láta stjórna sér. Einnig kemur til trú á töfralykil eða patentformúlu. Aðalsjónarmiðið er að láta ytri atriði eða tilbúna skynsemi stjórna lífsstefnu sinni, geta ekki tekið eigið líf í eigin hendur, en lifa samkvæmt þessum atriðum og fylgja þeim eins stranglega og kostur er. Þá er einnig algengt að menn samsami sig starfi sínu, stofnun, félagsskap, yfirmönnun, vinnureglum, lögum o.s.frv., þannig að sjálfstæði eða lífsstefna hverfur. Einnig kemur til svo sem áður er getið, að fylgt er siðaboðskap, almenningsáliti, allri reglu, “skyldu”, erfðavenju, öllu skipulagi, valdstiga, metorðastiga, “sögulegum staðreyndum”, “örlögum”. Hér kemur einnig til öfgafullur íþrótta og heilsuræktaráhugi, sálfræðilestur, að ekki sé talað um sálfræðilegt skipulag.

Önnur umskipti, sem ekki hafa minni þýðingu, eru frá því að vera yfir í að hugsa. Í Zen Búddisma segir: Lífið er ekki vandamál, sem við leysum, heldur reynsla, sem við upplifum. Því fjarlægari sem innri reynsla er okkur, þeim mun óhlutbundnari og sértækari verður hugsunin. Því minna líf sem er í okkur hættir okkur fremur til að verða eins konar hugsunarvél. Ef við tengjumst ekki umhverfi okkar, verður hin huglæga vitsmunahyggja hinn eini raunverulegi sannleikur. Þörf okkar fyrir yfirburði gerir framsýni og alvisku að brýnni nauðsyn.

Viljinn getur öðlast sjálfstætt líf rétt eins og hæfileikinn til að hugsa. Aðskilinn frá öllum veruleik og samhengi við líf viðkomandi, ferðast viljinn til ótrúlegra ævintýralanda og verður að eins konar töfravilja. Trú á ofurmátt og töfravald hugans á sér annan uppruna, en henni er viðhaldið og hún er efld, ef innri reynsla verður ekki upplifuð.

33.2 TÓMLEIKI.

Auk þess, sem hér hefur verið rakið, leiðir vöntun á vitund um innri reynslu til kvíða, sem felst einkum í tómleikatilfinningu eða tilfinningu fyrir tilgangsleysi og þýðingarleysi. Sú tilfinning þarf ekki að vera meðvituð. Hvort sem hún er það eða ekki, er hún engu að síður ógnvekjandi. Skilja má heimspekinga, sem halda því fram, að kvíði sé í grundvallaratriðum ótti við að vera ekkert (Kierkegaard) eða vera ekki til (Tillich). Þótt varla verði viðurkennt, að ótti við tilvistarleysi sé grundvallarorsök alls kvíða, er hann samt sem áður ein hinna dýpri grundvallarorsaka kvíða.

Þessi ótti við innihalds og tilgangsleysi getur birst með ýmsu móti. Á beinan hátt eins og þjakandi tilfinning fyrir líkamlegum tómleika, að vera gagntekinn tilfinningu fyrir þýðingarleysi og leiðindum lífsins, með ótta við dimmu og að vera einn, í draumum með martröð, sem sýna þennan ótta við einmanakenndina. Oft birtist þessi ótti ekki, en kemur í ljós, þegar skoðaðar eru tilraunir til að flýja hann. Hér er um margan máta að ræða, sem áður hefur verið drepið á, svo sem að vera þvingaður til að starfa sífellt eða vera í erilsömu starfi, þannig að ekki má draga andann til þess að verða ekki var við tilfinningu fyrir tilgangsleysi. Einnig með því að vera aldrei einn, með því að borða og drekka. Blind eyðileggingarhvöt getur verið afleiðing þess að viðkomandi verður var við tilgangsleysi lífsins.

Vitund um slíkan missi eða tómleika er undir ýmsu komin, sem rétt er að ræða. Til að byrja með er augljóst að við getum aðeins misst af okkar eigin dýpt, ef við höfum verið vakandi eða lifandi áður, jafnvel í stuttan tíma. Við höfum e.t.v. á unglingsárum leikið okkur af hug og hjarta, í íþróttum eða öðru. Síðar hefur svo eitthvað komið upp á, sem valdið hefur tilfinningalegum dauða. Þannig finnum við mun á meiningarfullu lífi og tómu. Við erum e.t.v ekki alltaf jafn lifandi. Við þekkjum muninn á því að skynja fegurð náttúrunnar aðeins lauslega eða upplifa hana tilfinningalega. Við vitum, hvenær við erum skapandi og hvenær við störfum undir þrýstingi. Sama gildir um margt miður heilbrigt fólk. Tími hinna lifandi augnablika er þá sjaldgæfari og tengist vafasömum gildum, svo sem æsandi upplifun vegna valds, sigurs eða sadistískrar viðleitni.

Vitund okkar um eigin tómleikatilfinningu er einkum undir því komin, hversu vel okkur tekst að flýja hana. Við getum viðhaldið svo mörgum félagslegum tengslum, verið í svo mörgum félögum, nefndum, átt svo marga vini, farið svo oft í síðdegisdrykkju eða mat, í verslanir, tiltektir og hreingerningar á heimili, þurft að sinna svo miklum viðskiptum, að við höfum ekki vitund um það, hversu meiningarlaust þetta allt er í raun fyrir okkur.

Að lokum verðum við að athuga, hvort viðkomandi hefur vitað eða óafvitað áhuga á eða hag af að verða var eða ekki var við vöntun á innri reynslu. Vill hann vera lifandi eða er hann hræddur við það? Er hann stoltur af djúpum tilfinningum og hjartans sannfæringu? Er hann stoltur að vera hafinn yfir þarfir, ástríður og skoðanir? Í því tilviki myndi hann telja sig lausan við “tilfinningasemi”, “væmni”, vera “yfirvegaðan”, “stóískan”, “hlutlægan”, “ópersónulegan” eða “óháðan”.

Sú þjáning, sem fylgir innri tæmingu, að kvíða undanskildum, lætur jafnlítið yfir sér og sjálft fyrirbrigðið, þ.e. hún lýsir sér í meiri eða minni tilfinningu fyrir að vanta eitthvað, að vera að týna einhverju eða sakna einhvers, einhverri djúpri þrá eða meðaumkun, samúð eða óánægju. Þótt við skiljum vel ástæður fyrir þessu tiltölulega mikla áhugaleysi, getum við samt sem áður undrast það, ef við horfum á málið í víðara samhengi, vegna þess að þessi truflun varðar grundvöll tilvistar okkar. Það þýðir, þegar allt kemur til alls, að lifa ekki, að missa af, ekki þessum eða hinum þættinum, eins og frama eða kynlífi eða eignum, heldur lífinu sjálfu. Hvað sem við gerum, græðum, gott, vont eða hlutlaust, líður lífið fram hjá okkur, við erum útilokuð frá því.

33.3 VANRÆKSLA.

Í 17. til 30. þáttar ræddi ég norðrið og suðrið. Þar kom víða fram, hversu samofnar þessar áttir eru. Má gera ráð fyrir, að ef önnur áttin er opin þá sé hin bæld, en styrkleikinn venjulega svipaður. Sama gildir um austur og vestur nema hve þær áttir eru enn samofnari og því erfiðara að skilja þær að. Þetta kom fram í 30. þætti í því, að sá sem illa telur með sig farið, ásakar aðra (vestur), en hefur meðaumkun með sjálfum sér (austur). Í 31. þætti var lýst hvernig útmaðurinn skapar óteljandi tengsl (vestur), en er laustengdur öllum (austur). Í þessum þætti var rætt um frávarp (vestur), en einnig vitsmunahyggju (austur). Meginstefna þessara þriggja þátta er samt sem áður að leggja yfirgnæfandi áherslu á vestrið. Í þessum kafla verður einungis rætt um afleiðingar vanrækslu í æsku, sem bæði getur valdið því, að farið er eftir atvikum í vestur eða austur. Verður vestrið aðallega haft í huga.

Sá sem á erfitt með að mynda náin tengsl við aðra, fer úr einu sambandi í annað, vegna þess að sérhver þeirra hefur litla þýðingu fyrir hann og sá sem erfitt á með að finna sjálfan sig (vestur), er kvíðinn og einmana, en heldur fólki samt sem áður í fjarlægð (austur). Hér getur vanræksla í æsku verið orsakavaldur. Ástæður geta verið skilnaður frá foreldrum af ýmsum ástæðum. Vanrækslan getur orsakast af hverju því, sem firrir barnið hluta í blíðu foreldra.

Erfitt er að átta sig á vanrækslu, þar sem átt er við viðsjált fyrirbrigði og tómt, því um er að ræða vöntun eða skort. Því er jafnerfitt að eiga við það á fullorðinsárum. Ef barnið fær ekki tækifæri til að tengjast náið öðru hvoru foreldri sínu, sem gefur því tækifæri til að finna að það sé eitthvað sérstakt og einhvers virði, verða tilfinningar þess tómlegar, óvissar eða daufar. Það finnur ekki eigið mikilvægi og fær ekki hæfileika til að hafa samúð með öðrum. Tengsl barnsins við aðra og sig sjálft verða grunn. Þar sem vöntun er eitthvað óáþreifanlegt, þar sem það sem skorti er ekki þekkt, á fólk erfitt með að átta sig á eigin erfiðleikum í þessu sambandi. Það veit ekki hvað gerðist, ekkert gerðist, eitthvað vantar.

Foreldrar eru önnum kafnir, fá fóstrur, börn eiga ekki að trufla þá fullorðnu, börnin eru send í burtu og fá það “besta” að mati foreldra, en eru vanrækt. Barn þarf að finna að einhverjum sé annt um sig og að einhver standi að baki sér í lífsbaráttunni. Eðli málsins samkvæmt hættir mönnum til að sjást yfir afleiðingar þess þegar skortir á að veita barninu athygli. Afleiðingarnar geta orðið þær, að því finnist allir ókunnugir, það sjálft einnig, það fær tómleikatilfinningu, enginn hlustar á það, tjáskipti vantar. Tómleikinn getur hafa gefið öryggi á sinn hátt á sinni tíð. Síðar kynnist það mörgum, en á enga vini í raun, því þykir undir niðri ekki vænt um neinn.

Tengslin geta verið eins og milli leikara og áhorfenda. Barnið gat unnið hylli með góðri hegðun og afrekum, oft með því að reyna að afreka það ómögulega til að ná athygli annarra, en náin tengsl og gagnkvæmur áhugi myndaðist ekki. Barnið lærir að vænta aðeins hylli en ekki blíðu og hlýju. Á fullorðinsárum er haldið áfram að vinna hylli vina og kunningja með afrekum, góðri framkomu og sýndarumhyggjusemi. Þá er lært að nota aðra með aðferðum sem hvetja þá til að sýna sér áhuga og samúð. Viðkomandi lítur á umhverfið með því markmiði að hafa af því eigin hag. Eins og áður hefur verið lýst, rásar hann á milli eins og annars til að finna sig lifandi, þótt aðeins sé um stundarfróun að ræða. Hinum dýpri þörfum er ekki sinnt. Frægar kvikmyndastjörnur skipta oft um maka. Með því að skapa hlutverk er kleift að samsama sig einhverju. Ef maður er ekki neitt, er eina ráðið að vera einhver annar. Eins og Öskubuska er beðið eftir viðurkenningu frá einhverjum, sem breytt gæti lífi viðkomandi.

Sá sem þannig er vanræktur á erfitt með að finna sjálfan sig og mynda tengsl við aðra, hann lætur reka án þess að vita, hvað hann vill fá út úr lífinu. Einnig er hægt að fara þá leið, sem nánar verður lýst í næstu þáttum (austur), að leitast við að öðlast sjálfstæði og vera sjálfum sér nógur. Þá er hægt að leggja ofmat eða ofuráherslu á þætti eins og kynlíf með því að breyta þörf fyrir innileika og ástúð í kynferðislega löngun og leggja áherslu á hana. Þar sem þörfunum var ekki fullnægt í æsku, verður þeim aldrei fullnægt. Áhersla á holdleg kynmök útilokar jafnframt tilfinningatengsl, sem nauðsynleg eru til að veita kynlífinu innihald. Ástin verður þannig meiningarlaus. Hlaupið er úr einu sambandi í annað og alltaf er vonast eftir að næsta samband veiti viðkomandi það sem hann “vantar”. Með þessu er gefin í skyn sú falska ímynd, að viðkomandi sé tilfinningaríkur, þótt tilfinningaleg fullnægja sé alls ekki til staðar. Af því að kynlífið er náin athöfn, gefur það falska mynd af nánu sambandi.

Oft gerist það, að persónur, austur og vestur, tengjast og giftast. Fjarlægðin háir báðum, á sinn hvorn háttinn þó. Dáist þá hvor að lífstíl hins. Báðir vænta að hinn brjóti niður vegginn milli þeirra. En þegar það gerist ekki, sem oft tekur mörg ár að uppgötvast, ásaka þau hvort annað og grafa undan hvoru öðru. Hvort lítur þá á hinn sem þann er hafi eyðilagt líf sitt.

33.4 FYRIRSTAÐA.

Að loknu þessu innskoti um vanrækslu í bernsku er rétt að líta til þeirra erfiðleika sem upp koma við sjálfsskoðun, þegar innri reynslu vantar, svo sem við áður ræddum. Hér kemur einkum tvennt til, sem veldur því að við lendum í sjálfheldu eða blindgötu. Í fyrsta lagi viðhöldum við frávarpi og vitsmunahyggju, eins og áður hefur verið rætt um. Það þýðir að við sjálfsskoðun höldum við áfram með þessa varnarhætti. Okkur hættir þá til að vænta þess að leysa vandamál okkar með því að þekkja ástæðuna fyrir þeim, þ.e. með því að skoða þau og tala um þau, oft með því að tala um aðra og erfiðleika þeirra. Við væntum þess einnig að komast yfir erfiðleikana frá degi til dags með viljastyrknum einum saman. Einhver óskhyggja blundar um að við verðum frjáls. Flúið er frá tómleikatilfinningunni.

Í öðru lagi skilur okkur frá innri reynslu, sá veggur sem kemur í veg fyrir að nokkur innsýn komist í gegn. Það sem er fundið og upplifað gildir, ekki það sem er eingöngu skilið. Að átta sig vitsmunlega á einhverju er aðeins fyrsta skrefið og það hefur ekkert gildi, ef það skapar engin tilfinningaleg viðbrögð. Við verðum að finna innri átök, upplifa sjálfsfyrirlitninguna, upplifa hve tengsl okkar við allt eru lítil. Á meðan við erum fjarlæg okkur sjálfum, fáum við e.t.v. örstutt tilfinningaleg viðbrögð, en allt lokast aftur. Við getum rætt vandamálin skynsamlega og af tungulipurð og jafnvel á áhugavekjandi hátt, en það getur verið mjög blekkjandi og þessi sýndaráhugi dvínar skjótt. Yfirborðslegar viðhorfsbreytingar geta átt sér stað, en þær eru oft ekki í vægi við þá vinnu, sem við leggjum í verkið.

Auðvitað er mikilvægt að viðurkenna þessa hindrun. Það er ekki alltaf auðvelt, því myndin getur brenglast vegna hins vitsmunalega áhuga og skilnings á vandanum, sem ekki hefur verið upplifaður tilfinningalega. Þessi hindrun er augljós, þegar áhuginn dvínar jafnskjótt og vandinn birtist, þegar víðtæku og stöðugu frávarpi er beitt, ekkert lát er á ofáti, viðkomandi getur ekki verið einsamall o.s.frv. Draumar geta sýnt þessa hindrun, sem dauðar styttur, tóma ramma, tóm herbergi, að týna sjálfum sér og í öðrum martröðum, svo sem áður var drepið á.

Nauðsynlegt er að viðurkenna snemma þessa hindrun, því ella er hætt við að viðkomandi verði ringlaður og missi kjarkinn við sjálfskoðun, árangur verði lítill sem enginn og sífellt verið að blekkja sig með sýndarárangri. Viðurkenning á þessu getur þó komið of snemma. Erfitt er að horfast í augu við tilvistarleysið og innri tómleika, komi ekkert í staðinn, ef svo má segja. Viss sjálfsþekking er nauðsynleg og ákveðin tengsl við sjálfan sig. Þekking á norður suður tilhneigingum er þá mikilvæg. Þótt innsýn sé aðeins vitsmunaleg, er æskilegt að menn hafa hugmyndir um þau öfl, sem eigast við í sálarlífi þeirra. Þó verður að vera skýrt, að afgerandi munur er á vitsmunalegum skilningi og tilfinningalegri upplifun, milli þess að tala mál hugar eða hjarta. Þar kann að vera munurinn á málgleði og einlægni.

Sá sem hefur þannig öðlast vissan innri styrkleika, grundvöll til að standa á, er væntanlega tilbúinn til að horfast í augu við tómleikann. Hann getur þá orðið sér vitandi um, hversu mikil þessi tilfinning fyrir tilgangsleysi eða meiningarleysi lífsins er. Þá getur birst löngun til að komast til lífsins, þótt varfærnisleg sé. Hér birtist þó tvenns konar ótti, sem er ótti við sjálfan tómleikann og ótti við að komast til lífsins. Þessi ótti er fyrir hendi, þótt viðkomandi sé leiður á tilfinningasljóleika sínum. Hann hefur deildar meiningar, þótt öðrum finnist yfirborðslíf óæskilegt, munur sé á að hjara eða lifa og að æskilegt sé að upplifa innri reynslu.

Ekkert gerist, nema horfst sé í augu við raunveruleikann. Þess vegna er nauðsynlegt að horfast í augu við tilgangsleysið og tilvistarleysið, að upplifa tilfinningu tómleikans, ella gerist ekkert. Slík innsýn er skilyrði þroska. Sumir nota orðið tóm eða tómleiki, aðrir tilgangsleysi eða sambandsleysi. Hér er um að ræða allt frá óljósum, fljótandi tilfinningum fyrir tilgangsleysi og sambandsleysi til upplifunar þess, hversu litla þýðingu lífið hefur fyrir viðkomandi. Viðkomandi kann að efast um raunverulegan áhuga sinn á starfi sínu, hann getur haft af því áhyggjur, hve leiðindi sækja oft að honum og hve áhugi hans dvínar skjótt með tómleikakennd og óyndi. Hann finnur sig gersamlega án tengingar við nokkuð, ekki hafa samúð með neinu, ekki með sjáfum sér. Slík upplifun er hrikaleg. Það er eins og lífið hverfi á braut, eins og að missa grundvöllinn, eins og að vera týndur í þoku tilvistarleysisins.

Slík reynsla, ef hún kemur þegar við erum undir það búin að veita henni viðtöku, er mjög uppbyggileg. Við komumst í gegnum vegginn og að kjarna sjálfs okkar, við nálgumst okkur. Við byrjum að gera okkur grein fyrir, að tómleikinn er ekki óbreytileg staðreynd, að það er lifandi kjarni í okkur sem vill lifa og sækist eftir meiningu og tilgangi. Við verðum fyrst að viðurkenna að tengsl við fólk og hluti eru of hæpin, óekta eða varasöm, til þess að eitthvað raunverulegt og ekta geti vaxið. Slík orð hafa sínar takmarkanir, því þau eru á vitsmunalegum grunni, en hér er um mál hjartans að ræða. Upplifun tómleika og sambandsleysis er svo gagnstæð skilningi okkar á lífinu, að jákvæð viðbrögð eru óhjákvæmileg.

Slík upplifun verður okkur skýrari, þegar við berum hana saman við viðhorf J. P. Sartre, sem leggur áherslu á að horfast í augu við tilgangsleysið. Hann viðurkennir, að til að taka slíkt skref þurfi meira en meðalhugrekki. En hann sér ekki að tómleikatilfinningin er afleiðing annars og þar með breytanleg. Skoðun hans er sú, að lífið sé tilgangslaust og betra sé að gera sér ekki grillur um það og best sé að forðast afleiðingar þess og eftirköst með því að horfast í augu við tilgangsleysið.

33.5 LÍFSÓTTI.

Annar ótti sem stendur í vegi fyrir tilfinningaupplifun, snýr að þeirri væntingu að komast til lífs. Þessi ótti verður skiljanlegur, þegar litið er til þess að deyfing vitundarlífsins hefur ákveðnu hlutverki að gegna. Með því komumst við hjá því að sjá þverstæður, misræmi og blekkingar í sálarlífi okkar eða almennt séð að horfa framan í óreiðuna. Þannig er mögulegt að vinstri hönd viti ekki hvað sú hægri gerir. Við verðum þá kannski ekki vör við, að gerðir okkar samræmast ekki alltaf þeim heiðarleik og þjóðfélagsviðhorfum, sem við þykjumst hafa, að við notum fólk okkur til framdráttar o.s.frv. Í stuttu máli vitundarleysi verndar blekkingar og óafvitaða uppgerð.

Slík deyfing er einnig allsherjarvernd gegn allri sársaukafullri reynslu. Ef sú reynsla er athuguð nánar, rekumst við á þennan og hinn þáttinn, t.d. innri andstæður, sjálfsfyrirlitningu, sjálfsásakanir, við uppfyllum ekki eigin skyldur eða kröfur á okkur sjálf, kröfur okkar á aðra eða vonbrigði. Við forðumst alla þessa reynslu. Ástæður þess að slík reynsla er óþolandi er m.a. tilhneiging til að ætla sér að geta allt, vera almáttugur og vita allt. Svo virðist sem samband sé á milli vöntunar á innri reynslu annars vegar og óafvitaðrar þarfar fyrir ótakmarkaðan mátt hugans hins vegar. Því fjarlægari sem við erum innri reynslu, þeim mun meira höldum við í trú okkar á getu okkar til allra hluta. Hin hlið þessa máls er svo ótti við hjálparleysi. Hjálparleysi er þá ekki aðeins upplifað sem lítillækkun og vanvirða, heldur skekur það grundvöll okkar.

Okkur óar við því að horfast í augu við þá staðreynd, að mikið af því sem við aðhöfumst, gerum við ekki af frjálsum vilja, heldur af þvingandi nauðsyn. Við erum þess vegna ekki húsbændur á eigin heimili, hvað þá almáttug. Við ráðum ekki við erfiðleika okkar með viljakrafti eða töframætti þekkingarinnar. Við verðum að viðurkenna okkur með öll okkar mistök og getuleysi. Við verðum að sjá að kröfur okkar á umhverfið eru um margt órökrænar. Við erum að krefjast réttinda, jafnvel forréttinda, án þess að hafa neitt vald til að fylgja þeim eftir. Að upplifa andstæður sálarlífsins er sársaukafullt. Við verðum að beygja okkur og velja. Oft höfum við ekki val, en erum hjálparlaus, í ógöngum, sem við komumst ekki úr hvorki með valdi né galdri. Óttinn við að vera hlægilegur og getulaus, veldur því að við reynum að hafa sem minnsta vitund um raunverulegar staðreyndir. Ef við gefum ekki upp á bátinn trú á eigin töframátt, getur viljinn til að lifa verið svæfður af óttanum við getuleysi.

Þegar í okkur býr leyndur ótti við einhverja innri hættu, grípum við sjálfkrafa til einhverra ráða til að koma í veg fyrir kvíða eða draga úr honum. Að draga úr varurðinni eða vitundinni er í þessu tilliti víðtækasta vörnin. Eitthvert versta ráðið í þessu efni er að draga sig í hlé og aðhafast ekkert. Hér er á ferðinni reglan: “Ef ég reyni ekki, mistekst mér ekki”. Að halda þannig aftur af sér hefur í för með sér skaðlegar innri takmarkanir, sem fólgnar eru í tilhneigingu til að halda sér niðri eða þróa með sér víðtæk bönn gegn öllum óskum, sem ganga í útþensluátt, heilbrigðum og óheilbrigðum. Það jafngildir því að rækta með sér óafvitað tilfinningu fyrir “ég get ekki”, “ég hef engan rétt”, “mér er sama”. Slík viðhorf virðast fela í sér afsal trúar á almætti, en þau hjálpa þvert á móti til að viðhalda henni. Þau koma í veg fyrir að viðkomandi prófi þessa skoðun sína á þessari getu sinni eða alvisku og leyfa honum þannig að halda í hana.

Leiðin út úr þessum ógöngum er sú sama og leiðir okkur frá óttanum við tómleikann. Ekkert fæst, ekkert gerist, á meðan við leggjum á flótta frá innri erfiðleikum og eldraunum. Trúnni á að geta allt og þeim skaða sem hún veldur, er viðhaldið á dulbúinn hátt. Við verðum að upplifa allt sem okkur hefur fundist lítillækkun, niðurlæging og getuleysi. Við verðum að upplifa þá lítillækkun að ráða ekki lífi og dauða, að við erum háð lögmáli orsaka og afleiðinga, að óttast margt fólk og hluti, að skilja ekki allt þegar í stað, að þurfa að “sitja uppi með” ófullkomið fólk o.s.frv. Við verðum að upplifa að við óskum eftir því ómögulega. Við erum að berja hausnum við stein ómöguleikans. Síðan, ef við viðurkennum mannlegar takmarkanir okkar, getum við smátt og smátt meðtekið og upplifað sjálf okkur eins og við erum. Veggurinn milli okkar og innra lífs okkar hrynur. Eins og Kierkegaard sagði: Aðeins ef við viljum ekki hið ómögulega, öðlumst við leiftursýn af hinu mögulega, sem gefur okkur tilfinningu fyrir innra frelsi. Svo virðist sem við, föst á hjóli samsara, neyðumst til að fara í gegnum þann hreinsunareld, að upplifa innri ugg til þess að geta fundið leiðina að frelsinu og innri þroska.

Væntanlega finnst mörgum það sem sagt hefur verið í þessum síðasta kafla heldur dularfullt, torskilið og jafnvel fráleitt. Gott ráð við því er að leggja hann til hliðar og huga að honum síðar. Er nú tímabært að snúa sér að austuráttinni og þótt fyrr hefði verið.