XXXII ÚTMAÐURINN

32.0 FRÁVARP.

32.1 ÚTVARPSLÍF.

32.2 SJÁLFSKOÐUN OG TENGSL.

32.3 AÐ SÆKJAST EFTIR ENGU.

32.4 YFIRBORÐSLEGT LÍF.

32.5 UMHVERFIÐ.

32.0 FRÁVARP.

Áður hefur verið á það bent, að innri átök milli norðurs og suðurs, leiði til þess að menn leiti inn eða út eða í austur og vestur. Í síðasta þætti var haldið í vesturátt og verður því framhaldið í þessum þætti. Einnig var þar rætt um tilfinningu fyrir misneytingu og píslarvætti. Bent var á, að vitund manna um þessa tilfinningu væri mjög mismunandi. Þrjár ástæður standa einkum í vegi fyrir að menn öðlist næga vitund um þetta viðhorf. Í fyrsta lagi ótti við að láta reiði og haturshug í ljós, sem afleiðingu slíkra misneytingartilfinninga. Í öðru lagi stolt af að sýna ósæranleika og í þriðja lagi stolt af eigin þolgæði. Viðkomandi upplifa þá ekki eigið stolt, skyldur, sjálfsásakanir o.fl. Horft er út ekki inn.

Í 8. þætti, sem nefnist “Út vil ek”, var rætt um þetta sama efni, þjáningu, frávarp, útvarp, o.s.frv. Var þar rætt um grundvallaratriði vesturáttarinnar, eins konar undirbúningsþáttur þessa efnis. Frávarp eða útvarp er aðferð okkar til að upplifa viðhorf, tilhneigingar, gildi, þarfir og öfl egósins og sjálfsins utan við okkur, eins og þetta hitti okkur utan frá. Hið ytra getur verið fólk, hlutir, náttúran, örlögin eða yfirnáttúruleg öfl. Tilgangurinn með þessu er margþættur. Við getum t.d. frávarpað eigin skyldum til að telja okkur trú um að við séum frjáls og sjálfstæð, til að forðast kvíða, sjálfsásakanir eða leggja grundvöll krafna.

Svo annað dæmi sé tekið, getur maður haft þörf fyrir að vera sanngjarn og skilningsríkur. E.t.v. upplifir hann það ekki svo, heldur finnur sig óánægðan með sjálfan sig, þegar hann er í viðurvist annarra, sem honum finnst vera sanngjarnir og sem hann dáist að. Hann hefur þannig frávarpað eigin skyldu á þá og dáist að árangri þeirra. En ef þessu dáða fólki mistekst að uppfylla þessa staðla, geta viðbrögð hans verið allt frá vonbrigðum til harðrar gagnrýni. Sjálfsásökunum og ávítum sem hann gæfi sjálfum sér, ef hann viðurkenndi skyldurnar sem eigin, er þannig frávarpað. Þess ber að gæta, að slíkt frávarp er allt annars eðlis en krafa um sanngirni annarra á grundvelli eigin veikleika og hjálparleysis.

Maður getur verið illa undirokaður af innri skyldum en sífellt fundist vera illa með sig farið og upplifað raunverulega misneytingu á grundvelli strangleika, stífni eða fullkomnunaráráttu annarra. Hann er þannig aðgerðarlaus viðtakandi frávarpaðra skyldna. Sama getur gilt um þroskaöfl. Ef viðkomandi skapar eitthvað af eigin elju og dugnaði en þakkar það öðrum t.d. aðstoðarmanni, virðir hann ekki eigið verk en dáist að verkum annarra.

Sunnanmaðurinn finnur sig gjarnan þiggjanda góðs eða ills, er hann hefur frávarpað. Norðanmaðurinn beinir fyrirlitningu sinni, reiði, blíðu, ást og aðdáun út. Þetta sést skýrast, þegar fjandskapur gagnvart sér sjálfum vegna óuppfylltra skyldna, er ekki fundinn hið innra heldur beint út og fundin reiði út í aðra, sem taldir eru hafa staðið í vegi. Þess ber að gæta, að slík reiði og hefnd er annars eðlis en hrein hefndarþörf og sigur yfir öðrum. Önnur óljós uppákoma getur komið upp hjá narcisstísku fólki, þegar sjálfsást þess er frávarpað, og það telur sig búa yfir ást og velvild til annarra. Slíkt fólk segist ekki skilja, hvernig hægt sé að hafa ást á sjálfum sér en telur sig þó búa yfir ást og velvilja gagnvart öðrum. Þess ber að gæta, að hér er ekki á ferðinni suðvestanást.

32.1 ÚTVARPSLÍF.

Öll reynum við að frávarpa, þegar við stöndum frammi fyrir innri ógnun og reynum að forðast eigin ábyrgð. Sumir hlutar persónuleikans eru e.t.v. frávarpaðir, en aðrir upplifaðir sem eigin gildi. Í þessum þætti ræðum við um frávarp sem lífstíl og kalla mætti útvarp. Hér er ekki aðeins um magnmun að ræða, heldur verða markmið og gæði önnur, þ.e. hér eru á ferðinni sjálfstæð og sérstæð persónuleikaeinkenni. Þetta fólk, sem lifir utan við sjálft sig, virðist aðallega verða fyrir aðgerðarlausu frávarpi, en engin kröftug viðbrögð eru sýnd. Þetta fólk er gegnsýrt af útvarpinu. Þetta fólk er sanngjarnt, skilningsríkt og gengur yfirleitt vel í lífinu, ef svo má segja, ef miðað er við viðurkennda þjóðfélagsstaðla, en það missir af kjarna málsins, því sem máli skiptir í lífinu. Það missir af sjálfu sér.

Segja má, að þetta fólk sé gegnsýrt af frávarpi, það heldur aftur af tilfinningum sínum, deyfir þær, og dregur úr allri útgeislun Sjálfsins eða sálarinnar, heldur henni í skefjum og verður ópersónulegt, sýnir ekki þann mann, sem það hefur að geyma. Norðanmenn má segja að sækist eftir ákveðnum gildum, þ.e. styrkleika, sunnanmenn leggi mikið upp úr gildi ástarinnar, austanmenn sækist eftir sjálfstæði og frelsi, en þetta vestanfólk virðist ekki sækjast eftir ákveðnum gildum. Ekki er þó hægt að fullyrða, að það sé vantrúað á einlægni og heiðarleika manna, en það er ekki jákvætt í þeim efnum. Með því að deyfa tilfinningarnar og svipta sig sambandi við sjálfan sig, er það firrt frá eigin innra lífi, hvort sem um er að ræða sjálfsáhuga eða annað líf. Viðhorfið er athugandans, en ekki áhugi á eigin innra lífi eða að kryfja sjálfan sig til mergjar. Ef það ómak er tekið á sig, virðist lítill árangur verða, þrátt fyrir mikla vinnu. Þótt margt gerist í sálarlífi þess við slíka athugun, er ekki um að ræða nálgun að Sjálfinu. Það hefur áhuga á efninu og skilningi, en þar sem lífsháttur þess er útvarpslíf, kemst það ekki nær sjálfu sér.

Lífstíll slíkra manna einkennist af velgengni í lífinu og árangri miðað við ytri þjóðfélagsstaðla. Hvort sem þeir eru giftir eða ógiftir eiga þeir ótal “vini” og þjóðfélagssambönd. Þeir blanda gjarnan saman persónulegum tengslum í vinnu og í öðrum félagsskap. Þeir hafa tilhneigingu til að sameina persónuleg og félagsleg tengsl vinnunni. Yfirmaður hefur samband við einkaritarann utan vinnutíma eða nemandi við kennara utan kennslutíma. Sambandið er þó oft yfirborðslegt og ekki náið.

Þegar litið er á allt æviskeiðið kemur í ljós, að viðkomandi er tengdur fáum vinum frá fyrri skeiðum. Þeir gleymast. Þó sakna vinirnir hans ekki né hann þeirra og ekki eru gagnkvæmar heimsóknir. Eitt megineinkennið er að hann fer í gegnum lífið án þess að skilja eftir sig tilfinningaleg spor. Þessi margbreytni persónulegra tengsla, en lítil tryggð við menn eða staði fortíðarinnar, er athyglisverð í ljósi þess, hve hann steypir sér þó djúpt í hvert sinn. Einn daginn gæti hann hitt stúlku, næsta dag sofið hjá henni og þriðja daginn kynnt hana í fjölskyldunni. Hann gæti hegðað sér, eins og hann væri giftur eftir fyrsta daginn. Þessi ákafi og slit á tengslum getur fylgt þátttöku í félögum, klúbbum, námskeiðum og þess háttar. Þá er farið úr einum hóp í annan og jafnan tekin upp einkenni þess hóps, sem hann tilheyrir hverju sinni. Sumum finnst þeir vera margar persónur, eins og kameljón, en engum þeir sjálfir.

32.2 SJÁLFSKOÐUN OG TENGSL.

Hjá þeim, sem ríka tilhneigingu hafa til frávarps, getur hvati til sjálfskoðunar komið þannig fram, að þeim finnist þeir vera að gera slíkt til að öðlast þekkingu á öðrum, hjálpa þeim til undirbúnings að félagslegu starfi o.s.frv. Við skyldum jafnan gæta þess, að um frávarp getur verið að ræða þegar við teljum okkur vera að gera eitthvað eða forðast eitthvað vegna annarra. Allt tal um vandamál annarra, slúður um annað fólk, að því er virðist af umhyggju fyrir því og tal um eigin vandamál, sem sýnist heils hugar, en er í raun til að komast hjá að horfast í augu við sjálfan sig og eigin ábyrgð, er þessu marki brennt.

Miklar væntingar eru oft bundnar við fólk, sem frávarpar mjög. Það hefur oft mikla getu og hæfileika. Þó er eins og aldrei rætist úr þessum væntingum, eitthvað vanti. Vegna þess hve lifandi það er, örvandi og áhugavekjandi, dragast aðrir, sem eru aðgerðarlitlir að því. Þeir sækja í örvun, en finna að dýpt vantar. Hvorugur aðili vill þó slíta sambandinu og eins konar pattstaða myndast. Einnig dragast að þessu fólki þeir, sem sjá í því áhuga þess og þjónustulund, að þarna er á ferðinni “góður maður” eða “góð kona”, og þeir sjá fram á samband við fólk sem sýnir mikla tillitssemi. Kröfur þeirra koma þó brátt í ljós og sambandið getur orðið óþolandi. Reyni aðilar eigi að síður að gera það þolanlegt, kann ytra borð slíks sambands að virðast tiltölulega hnökralaust og jákvætt.

Mörg tilbrigði eru í tengslum þessa fólks við aðra. Fer það eftir ýmsu, svo sem eðliseinkennum, uppruna og bakgrunni, hæfileikum o.s.frv. Sameiginleg einkenni eru þó mörg. Eitt er augljóst: Mörg sambönd við annað fólk eru mynduð, þau virðast náin, en eru sjaldan varanleg. Þótt miklar væntingar séu bundnar við fullnægjandi samband, verður aldrei neitt úr því. Þegar viðkomandi hefur horfið á braut, skilur hann ekki eftir sig neina eftirsjá annarra.

Engir erfiðleikar virðast vera í vinnu. Erfiðleikar geta þó komið fram gagnvart yfirmönnum og samverkamönnum, en ekki sjálfri vinnunni. Stöðu og launahækkanir og vinna á sama stað, benda til að vinnan sé fullnægjandi. Aðrir gefa þá umsögn, að starfsmaðurinn sé góður. Ef viðkomandi er í vinnu hjá sjálfum sér, virðast vandamálin fá, ef persónuleg tengsl eru undanskilin. Rannsókn leiðir þó í ljós skýringu á þessu vandræðaleysi í vinnu. Viðkomandi er afkastamikill, framleiðir mikið og er fengsæll, en ekki skapandi í starfi. Afköstin verða töluverð vegna skjótra viðbragða við ytri óskum og öðru því sem þeim er falið eða fyrir þá lagt, vegna áhuga þeirra á að vera til þjónustu reiðubúnir og hversu háðir þeir eru ytra árangri og hrósi. Þetta getur kostað tíma, yfirvinnu umfram aðra, vinnu um helgar, enda árangur meiri.

Ef fram kemur ákveðinn ásetningur um að ná árangri, t.d. í námi eða vinnu, mætti ætla að um jákvæðan áhuga á efninu væri að ræða. En svo er ekki. Hér ráða ferðinni ytri væntingar, óskir fjölskyldu, von um metorð o.s.frv. Þessum mun á afköstum annars vegar og skapandi starfi hins vegar mætti líkja við tregðulögmálið, þ.e. lögmál Newtons um að hlutir standi kyrrir eða breyti ekki hreyfingu sinni eða stefnu nema við utanaðkomandi áorkan. Sá sem lifir útvarpslífi er starfssamur og framleiðinn, en er virkjaður af ytri öflum, hann sýnir litla eigin sjálflægni og frumkvæði. Lítið er um að nýju lífi sé blásið í verkið, svo sem gerist hjá skapandi fólki.

Við höfum áður rætt um tilfinningu þessa fólks fyrir misneytingu og hvernig því finnst óhamingjan koma utan frá, eins og þruma úr heiðskíru lofti, það sé eins og saklaust fórnarlamb. Sjálfsskoðun er erfið, þar sem viðkomandi þolir engar tilfinningar, sem ekki er kleift að frávarpa. Hann gerir því allt til að deyfa þessar tilfinningar, með því t.d. að gleyma sér í starfi eða leik, eða með því að þróa með sér viðhorf athugandans. Viðhorf athugandans er sérstakt einkenni. Við sjálfsskoðun hættir viðkomandi til að gefa kerfisbundna og nákvæma lýsingu af lífshlaupi sínu, án þess þó að ásaka neinn, þ.e. á undarlega fjarrænan hátt, eins og um sé að ræða áhugaverða greinargerð um annan mann. Með því að rekja fyrir sjálfum sér eða öðrum atburði nákvæmlega í tímaröð, eins verið sé að ræða einhvern óviðkomandi annan mann og fullur sjálfsánægju þvo hendur sínar, eins og málið komi honum ekki sjálfum náið við, getur viðkomandi komist hjá raunhæfri sjálfsskoðun með frávarpi.

Ef frávarp er mikið, gengur sjálfsskoðun hægt fyrir sig. Allt er framkvæmt samkvæmt reglunum, en lítið vinnst. Vonbrigði og vonleysi eru mestu fjendur sjálfskoðunar. Verði menn þess varir og viti að þeir frávarpa gjarnan, geta þeir betur ráðið í og fyrirbyggt endaleysur í þessum efnum. Undanbrögð verða þá minni og auðveldara að henda reiður á sjálfsflóttanum. Þá er frekar kleift að fylgja eftir áhugaverðum atriðum, sem upp koma í sjálfsskoðun.

Einkenni mikils útvarpslífs er einhæfni og sjálfvirkni, eins og fylgt sé tölvustýrðu forriti. Þetta sést með ýmsu móti, þótt utanaðkomandi gæti haldið að viðkomandi lifði litríku og efnismiklu lífi. Hann hefur ferðast mikið, á marga og fjölbreytta vini, unnið við marga hluti. Frá þessu er skýrt með tilbrigðalausri röddu án áherslna, rétt eins og allt sé jafnmikilvægt. Eins og öll gildi séu útflött. En mikill kvíði getur sett allt úr skorðun, þá er eins og vírus komist í forritið. Útþynning gilda gerir persónuleikann fátæklegan. Þetta einkennir viðhorf hans til gagnstæðra viðhorfa. Þegar hann á skipti við einhvern einn, á hann ekki í erfiðleikum, en sé um hóp að ræða, stendur hann gjarnan utan við hópinn og samband hans við aðra meðlimi ristir ekki djúpt og ef deilt er, gerist hann gjarnan sáttasemjari. Þegar hann lendir í deilum eða innri árekstrum, reikar hugurinn burt. Þó er ótti við árekstra e.t.v. ekki meiri en annarra, þetta er aðeins hans aðferð að fást við þá. Hann gerir það með því að aðhafast ekki, hafa enga meiningu, standa ekki fyrir neinu. Þetta reynist honum hentug og þægileg aðferð í samræmi við lífstíl hans. Í draumum getur þetta viðhorf komið fram. Hann gæti þá verið áhorfandi að leik á sviði, þar sem leikendum er stjórnað af einhverjum utan sviðs. Leikendur geta verið klæddir svörtu og hvítu o.s.frv.

Sjálfsskoðun þess sem frávarpar mikið er jafnan langdregin í fyrstu, þ.e. í fyrstu gengur lítið. Síðar getur slík sjálfsskoðun aftur á móti orðið hröð. Það er eins og komið sé að hindrun, til dæmis fljóti, sem viðkomandi er staðráðinn í að komast yfir. Engin brú yfir fljótið er þó í augsýn. Hann horfir upp strauminn og skellir sér svo út í. Oftast kemst hann hundblautur að bakkanum hinum megin og stundum neyðist hann til að klöngrast til baka.

32.3 AÐ SÆKJAST EFTIR ENGU.

Við höfum séð að allir þeir persónuleikar, sem lýst hefur verið, sækjast eftir einhverju, ást, góðleika, aðdáun, styrk, frelsi, sjálfstæði o.s.frv. Á bak við viðleitnina eru alltaf einhver markmið, sem í sjálfu sér eru heilbrigð, eðlileg og nauðsynleg, en verða óheilbrigð, af því að þau hafa tök á okkur, stjórna okkur, en við ekki þeim. En hverju leitar sá eftir, sem við nú ræðum um?

Sú staðreynd, að mikið af þessu fólki siglir í gegnum lífið án þess að tekið sé eftir því, fer úr einu sambandi í annað án þess að skilja eftir sig söknuð, bendir til þess að það slægist ekki eftir neinu, ekki ást, sjálfstæði, að ná tökum á lífinu o.s.frv. Viss festa fylgir gildismati þeirra persónuleika, sem við höfum hingað til rætt um eða ræðum um síðar. Norðanmenn trúa á afl hlutanna og styrkleika sinn, sunnanmenn telja ástina hafa mest gildi, austmaðurinn mælir með frelsi sem lífsmarkmiði. Þessi þemu endurtaka sig sífellt í lífi og heimspekiviðhorfum þessa fólks og það sækist eftir þessum lífsgæðum.

Vestmaðurinn eða útmaðurinn fellur á hinn bóginn ekki undir framangreinda flokkun. Mætti halda að hann sæktist eftir öllu eða að vera allt. Á vissan hátt á þetta þó við alla, sem sækjast eftir upphefð með einhverjum hætti. Vestmaðurinn sækist á hinn bóginn ekki eftir neinu gildi, hann sækist í þeim skilningi ekki eftir neinu, ætlar ekki að vera neitt, er nafnlaus laumufarþegi og trúir ekki á nein gildi, lætur sig engu skipta og hefur þær skoðanir sem henta hverju sinni. Hann vantar dýpt, siðferðisþroska og sjálflægni. Hið innra Sjálf eða atman er þó á lífi, sjálfsáhugi getur vaknað og Sjálfið komið fram, eins og eftir langa fangelsisvist.

Í stuttu máli: Útmaðurinn frávarpar bæði starfsemi egósins og hinum heilbrigðari tilhneigingum Sjálfsins. Um er að ræða lífsstíl, þar sem slakað er á innri spennu. Útmaðurinn myndar tengsl við marga og er starfssamur, en lífið er ekki upplifað, sköpun, sem byggir á eigin áhuga og starfi, vantar. Lítill áhugi er á sjálfsskoðun og mikil tregða er og viðnám gegn innsýn og undanbrögð eru viðhöfð. Þótt útmaðurinn hafi sömu tilhneigingar og aðrir til viðhorfa í norður, suður og austur, fellur hann samt sem áður ekki undir þessar persónuleikalausnir.

Eftir hverju sækist útmaðurinn fyrir sjálfan sig og aðra? Hann virðist sækjast eftir að vera ekkert, að komast hjá snertingu við eigið Sjálf og dýpri persónulegum tengslum við aðra. Tengsl hans við aðra eru grunn og sömuleiðis er upplifun hans á lífinu og sjálfum sér lítil. Hann leggur ekki áherslu á að ná tökum á sjálfum sér, öðrum og lífinu eins og norðanmaðurinn, á ást eða vera hluti af öðrum, eins og sunnanmaðurinn eða að halda heilindum sínum, sjálfstæði og frelsi, eins og austmaðurinn. Svo virðist sem útmaðurinn, sem lifir utan við sjálfan sig, sé sjálfstæð persónuleikalausn. Markmið hans er að vera ekkert, óþekktur laumufarþegi í tilverunni.

32.4 YFIRBORÐSLEGT LÍF.

Þeim mun fjarlægari sem við erum Sjálfi okkar, þeim mun innantómari og tilgangslausari verður frelsi okkar. Með því að flýja frá innri árekstrum, frá virku lífi, frá virkum áhuga á þroska okkar, hættir okkur til að fjarlægjast dýpri tilfinningar okkar. Tilfinning fyrir tilgangsleysi skapar innri tómleika, sem aftur kallar á stöðuga afþreyingu. Ef við erum stefnulaus og sýnum ekki viðleitni til neins, heldur berumst með straumnum, ef við krefjumst þess að lífið sé auðvelt, án sársauka, árekstra eða mótstöðu, getur lífið spillt okkur, sérstaklega þegar fallið er fyrir freistingu peninga og frama.

Vandamálið getur verið, að upplifa sjálfan sig sem sjálfsaman, ef svo má segja, þ.e. að upplifa sig sem geranda eða frumkvöðul sem samsamar sig við eigin getu og hæfileika, að vera það sem maður gerir. Ef hæfileikar og geta verða eitthvað annað og fjarlægt, eitthvað fyrir aðra að meta og nota, ef við erum það sem aðrir ætla okkur að vera eða æskja að við séum, hættum við að upplifa sjálf okkar. Pétur Gautur reyndi að uppgötva Sjálf sitt og fannst það vera eins og laukur, lag eftir lag með engum kjarna. Ef við erum í vafa um, hver við séum og látum skoðanir annarra ráða, þá kemur fé og frami í stað sannrar tilfinningar fyrir eigin veruleik. Þá verðum við háð öðrum og leikum það hlutverk, sem við teljum vinsælast og í sem mestu samræmi við væntingar annarra. Ef ég er annað en geta mín, er Sjálfið komið á útsölu.

Sá sem fjarlægist sjálfan sig, er eins konar miðflóttamaður, missir dýpt og styrk eigin tilfinninga. Í viðhorfi sínu til annarra gerir hann engan greinarmun. Allir geta verið “ágætismenn” og “góðir náungar”, en gleymdir um leið og þeir eru úr augsýn. Enginn áhugi er lengur til staðar, engin tengsl myndast. Með sama hætti getur skemmtun orðið grunn. Kynmök, matur, drykkur, slúður um aðra, leikir og umtal um stjórnmál, verða að verulegu leyti inntak lífsins. Tilfinning fyrir því sem máli skiptir hverfur. Áhugi verður yfirborðslegur. Sama gildir um eigin skoðanamyndun og mat. Í staðinn er haldið fram þeim skoðunum, sem upp á teningnum eru hverju sinni samkvæmt almennri skoðun umhverfisins. Mikið er hugsað um, hvað aðrir hugsi. Þannig hverfur trú á sjálfan sig, og á nokkuð gildi.

Yfirborðslegt líf tekur á sig ýmis form. T.d. er hægt að leggja áherslu á leiki og skemmtanir. Slíkt gæti litið út sem lífslöngun, þar sem svo virðist sem eftir einhverju sé sóst. En markmiðið er ekki í þessu tilviki að sækjast eftir ánægju, heldur að bæla þjakandi tilfinningu fyrir tilgangsleysi og tómleika með einhverri afþreyingu. Þetta má finna hjá öllum stéttum þjóðfélagsins. Skiptir ekki máli, hvort skemmtun er sótt í síðdegisboð eða saumaklúbba. Að safna frímerkjum, að borða úti, að fara í leikhús og kvikmyndahús, allt er þetta í góðu lagi, á meðan það verður ekki aðalinnihald lífsins. Sama gildir um að horfa á sjónvarp eða lifa í dagdraumum, þótt ekki sé það félagsleg athöfn. Ef skemmtun er félagsleg, er tvennt forðast: að vera einn og alvarlegar umræður. Breitt er yfir skoðanaleysi með “umburðarlyndi” eða “víðsýni”.

Yfirborðslegt líf getur tekið á sig það form, að áhersla er lögð á tækifærisupphefð og orðstír. Hér liggur einnig að baki ósk um þægilegt líf með því að eiga nóg af peningum. Að hluta er það þörf fyrir að lyfta sjálfsvirðingunni með gervimeðölum, sjálfsvirðingu sem engin er. Með því að lyfta sjálfum sér í annarra augum, er sjálfsforræðinu fórnað. Maður skrifar bók, af því að hún gæti selst, maður kvænist vegna peninga, maður gerist félagi í pólitískum flokki, sem líklegur er að veita honum eitthvert hagræði. Í félagslífi er minni áhersla lögð á skemmtun, en meiri á upphefð, að tilheyra einhverri merkilegri klíku eða þekkja háttsett eða frægt fólk, fara á dýra staði o.s.frv. Eini staðallinn er þá að vera vel tilhafður og fínn, að sleppa og verða ekki uppvís að einhverju eða festur niður á neinu.

Þá getur yfirborðslegt líf tekið á sig það form, að vera vel aðhæft vélmenni. Ósviknar hugsanir og tilfinningar eru þá farnar lönd og leið og persónuleikinn verður eins og útflattur. Slíkur maður gerir öllum til hæfis og tileinkar sér staðla þeirra og viðhorf. Honum finnst, hann hugsar, gerir og trúir því, sem ætlast er til og umhverfið álítur rétt. Tilfinningadauðinn er hér greinilegri en í áðurgreindum persónum. Hann virðist ekki þjást af kvíða, þunglyndi né öðrum vandræðum, en það er eins og hann vanhagi um eitthvað, vanti eitthvað.

32.5 UMHVERFIÐ.

Við höfum lýst fólki, sem heldur sig við yfirborðið, hefur ekki áhuga á innri málefnum, heldur aðeins hinum ytri, sem bundin eru við fé og frama. Heimur innri árekstra, ástríðna og tilfinninga býr þó undir niðri, svo sem draumar þess sýna. Það er eins og það lífi í tveim heimum, en sé umhugað um að forðast sinn innri mann. Um er að ræða flótta frá hinu innra persónulega lífi til hins ytra. Þessi truflun hefur ekki þótt merkileg eða vakið áhuga manna, þar sem hún fellur vel inn í þjóðfélagslega staðla og er þess vegna lítt áberandi.

Markaðsþjóðfélagið á hér nokkra sök. Markaðurinn er dómsstóll að því er viðskiptagildi vörunnar snertir. Sölugildið er ofar notagildinu og sama gildir um mannfólkið. Fólk metur sig eftir sölu og vinsældagildi. Gildismatið er hið sama á persónuleikamarkaðinum og vörumarkaðinum, viðskiptagildið gengur fyrir notagildinu. Árangur og frami er verulega undir því kominn, hvernig viðkomandi tekst að selja sig á markaðinum, þ.e. selja sig sem persónuleika, sem glaðlegan, heilbrigðan, ákveðinn, ábyrgan, metnaðarfullan o.s.frv. Þá skiptir máli, hvaða fjölskyldu viðkomandi tilheyrir, í hvaða félagssamtökum hann er og hvort hann þekkir rétta menn. Með því að selja persónuleika sinn, án þess að geta og þekking ráði úrslitum, verður sjálfsmatið háð viðskiptagildi vörunnar, sem verið er að selja. Fylgja verður almenningsáliti og tísku.

Skólakerfið leggur áherslu á metnað og hæfni til að aðlaga sig að öðrum og öðru. Í blöðum, tímaritum, sjónvarpi, kvikmyndum og auglýsingum sjá menn fyrir sér hina árangursríku í mörgum tilbrigðum. Þar kemur fram fyrirmynd, sem apa ber eftir. Fólk reynir að líkjast þessum fyrirmyndum og tileinkar sér lífsstaðla þeirra. Því verður það óhjákvæmileg afleiðing, að menn meta sig mikils, ef þeir eru árangursríkir ella verðlausir. Þetta ofmat á umhverfinu skapar meira öryggisleysi en í fljótu bragði verður metið. Ef við metum okkur ekki eftir þeim gæðum, sem við höfum heldur eftir árangri á markaðinum, þar sem skilyrðin breytast sífellt, verður sjálfsálitið ótraust og þarfnast sífelldrar staðfestingar frá öðrum. Því er sífellt keppst eftir árangri og ef árangur verður ekki sem erfiði, eykst öryggisleysi og minnimáttarkennd.

Ekki er aðeins viðkomandi sjálfur heldur og annað fólk metið eftir viðskiptagildi, meðal annars hversu árangursríkt og aðlaðandi það er. Gildi fólks er metið eftir mælikvarða viðskipta í þjóðfélaginu. Því er sá sem þroskar persónuleika sinn og sérkenni álitinn skrýtinn. Markmiðið er að vera “normal” og þurrka út persónuleikann, vera án Sjálfsins. Þegar Sjálfið hverfur verða tengslin við aðra yfirborðsleg. Allir taka sama þátt í baráttunni fyrir árangri. Allir eru á sama báti, en þó einir, hræddir við að mistakast, tilbúnir að geðjast. Ekkert hlé er á milli þátta í þessum leik.

Þekking á manninum sjálfum, sem vestræn menning hefur um aldir haft í hávegum og talið til dyggða, er stuðli að hamingju og góðum lifnaðarháttum, hefur að miklu leyti þróast í sálfræðiþekkingu sem miðar að því að stýra sjálfum sér og öðrum í markaðssamkeppninni, í félags og stjórnmálum, í auglýsingaskyni o.s.frv., allt í því skyni að koma sér eða öðrum “áfram” í þjóðfélaginu, eins og það er kallað. Í skólum er nemendum ætlað að læra eins mikið af alls konar fróðleik og upplýsingum og þeir geta torgað, en engum tíma er varið til sjálfstæðrar hugsunar eða hugleiðingar um lífið og tilveruna. Mikill áhugi er nú á dögum fyrir þekkingu á sama tíma og tortryggni og fyrirlitning eru í fyrirrúmi gagnvart “ónytsamlegri” hugsun, sem “aðeins” snertir sannleiksleit og ekkert markaðsgildi hefur.

Eðli þessara viðhorfa býður upp á þá staðreynd, að engin dýpri eða varanleg tengsl myndast við sjálfan sig eða aðra. Hin varanlegu gæði eru fólgin í því að hafa breytileg viðhorf. Lögð er áhersla á þau gæði, sem best eru seljanleg á hverjum tíma. Ekkert eitt sérstakt viðhorf er ræktað, heldur aðeins þau gæði sem fljótlega geta fyllt upp innri tómleika. Þau verða því ekki venjuleg gæði, heldur hlutverk, gervigæði, sem hægt er að skipta á, ef annað gerist æskilegra. T.d. er virðuleiki æskilegur, stundum traustleiki, og þá er látið sýnast svo. Hver leikur þetta hlutverk skiptir engu máli. Ekki er verið að sækjast eftir heiðarleika, heldur því sem fæst út úr umhverfinu. Sérhvert varanlegt viðhorf getur fljótlega rekist á þarfir umhverfisins. Ef við höfum einhver sérkenni, sem eru í andstöðu við hlutverkið sem umhverfið ætlar okkur, verður að þurrka út þau sérkenni, ekki hlutverkið.

Útmaðurinn er ekki afkvæmi 18. og 19. aldar, heldur nútímans. Vörumerkið varð fyrst mikilvægt á síðustu öld. Sá sem vill komast “áfram” verður aðlaga sig og falla inn í hin stóru fyrirtæki og hæfnin til að leika það hlutverk, sem væntingar standa til, er þá meginkostur. Innri tómleiki, tilgangsleysi og innihaldsleysi lífsins, vélvæðing einstaklingsins, allt leiðir til óánægju. Fólk leitar þá ósjálfrátt að meiri lífsgæðum og öðrum áhugaverðari markmiðum, svo sem að koma sjálfu sér til meiri þroska.

Mýmargar sannanir eru fyrir því, að sá sem fallið hefur fyrir ytra áhrifavaldi og afsalað sér eigin sjálfstæði, hefur tilhneigingu til að láta hið ytra umhverfi koma í stað eigin innri reynslu. Trú á eigin reynslu, traust á eigin athugun, hugsun og dómgreind, en ekki á því sem ytri áhrifavaldur eða umhverfi þrýstir upp á okkur og telur vera sannleikann, leiðir til sjálfstæðrar sannfæringar og stendur nær Sjálfinu. Við lútum lágt valdi hins nafnlausa markaðar, frama, almenningsáliti. Vandamálið felst í skeytingarleysi um okkur sjálf, að við höfum misst tilfinningu fyrir mikilvægi og sérkenni okkar sem einstaklinga. Við höfum gert okkur að verkfæri markmiða utan við okkur, og við lítum á okkur sem verslunarvöru, höfum fjarlægst sjálf okkur. Í staðinn þorum við ekki að treysta eigin dómgreind.

Við erum eins og hjörðin. Við trúum því að vegurinn sem við fylgjum leiði til einhvers, af því að allir aðrir eru á sömu braut. Á meðan við teljum að markmið og leiðir standi utan við okkur, leitum við utan við okkur að fullnægju sem aldrei finnst. Við leitum að lausnum og svörum alls staðar annars staðar en þau er að finna, þ.e. í okkur sjálfum. Ákvörðunin liggur hjá okkur. Við getum tekið sjálf okkur, líf okkar og hamingju alvarlega. En það þarf kjark og þor til að vera við sjálf og fyrir okkur sjálf.