XXXI PÍSLARVOTTURINN

31.0 MISNEYTING.

31.1 UPPLIFUN MISNEYTINGAR.

31.2 HORFT ÚT, EKKI INN.

31.3 ERFIÐLEIKAR.

31.4 HEILDARVIÐHORF.

31.5 FÓRNARLAMB SUÐVESTANÁTTAR.

31.6 ÞJÁNING FÓRNARLAMBSINS.

31.0 MISNEYTING.

Í þessum þætti og þeim næsta blása vestanvindar. Áður hefur verið á það minnst, að menn fari í vestur og austur, þegar í norðri og suðri eru öfl, sem eru svipuð að styrkleika. Öflin í norðri og suðri bæta hvort annað upp, rekast á og togast á, og menn leita í vestur og austur. Togstreita milli austurs og vesturs er svipuð að eðli, þ.e. öfl reynast vera svipuð í báðar áttir, þegar vel er að gætt, sem bæta hvort annað upp, togast á eða rekast á. Er best að ræða þetta efni ekki frekar á þessu stigi, heldur halda ferðinni áfram. Skýrast þá málin sjálfkrafa.

Þegar hér er fjallað um misneytingu er átt við það algenga fyrirbrigði, þegar fólk hugsar og talar langtímum saman um þær misgjörðir og mein, sem aðrir gera því, hvort sem það eru yfirmaður, maki, vinir, að ekki sé talað um þegar harmsagan er rakin til foreldra. Með sama hætti getur fólk fundið sig vera fórnarlömb stofnana eða örlaganna almennt.

Efni slíkra kvartana er margbreytilegt. Áherslan getur verið á ranglæti örlaganna. Sumir eru sannfærðir um að öllum líði betur en þeim, allir eru að gera það gott nema ég. Aðrir fá betri vinnu, meiri laun, klukkur þeirra ganga rétt og bíllinn bilar aldrei, annarra sorgir eru óverulegar. Sérstaklega getur áherslan verið á það óréttlæti, sem aðrir gera viðkomandi. Hann er samvinnuþýður, duglegur, afkastamikill, hjálpsamur og skilningsríkur, hann hefur í raun gert meira en hægt var að ætlast til af honum, en honum er sýnd ósanngirni. Aðrir eru ekki þakklátir, veita ekki aðstoð, virða hann ekki og sýna ekki lágmarkskurteisi. Aðrir gagnrýna og ásaka og gera honum upp ætlanir, sem voru víðs fjarri. Honum finnst hann hagnýttur og blekktur. Allir ætla sér að hafa eitthvað út úr honum og ætlast í raun til hins ómögulega af honum og láta hann fá sektarkennd, ef hann uppfyllir ekki væntingar þeirra. Áherslan getur verið á vonsvik hvers konar, þeir svekkja hann, áreita og halda honum niðri. Þeir eyða gleði hans og setja hindranir á leið hans að árangri eða frama. Þeir öfunda hann af velgengni hans eða hverju skrefi sem hann tekur fram á við. Þeir lítillækka hann, hafa hann útundan, fyrirlíta hann, vanvirða hann. Þeir svíkja hann og blekkja. Ofsóknarbrjálæði er skammt undan.

Efni þessarar reynslu er í sjálfu sér ekki merkilegt athugunarefni, heldur hitt hversu algengt þetta er og hve það gerist í ríkum mæli. Við kunnum að hafa og höfum í raun upplifað margt sambærilegt við þetta. Við höfum öll lent í því að vera misnotuð, við höfum öll verið blekkt og vonsvikin. Við höfum átt slæma reynslu af og til í lífinu, ekki síst í æsku. Slík reynsla tilheyrir þjáningu mannkyns, sem við verðum að játa og þola. Slík reynsla á að hjálpa okkur til að sýna meiri þolinmæði, skilja betur og þroska með okkur samúð með öðrum.

Því meiri sem innri árekstrar eru í persónuleika okkar, þeim mun dýpri er þessi reynsla og magnaðri. Þeim mun meiri munur verður á ytra áreiti, og tilfinningalegum viðbrögðum. Margir, sem skiptir eru í sálarlífinu, bjóða með hegðun sinni upp á tillitsleysi annarra og misneytingu, án þess að verða þess varir. Ef við erum hlýðin, hjálpsöm og sáttfús, getum við í grandaleysi boðið upp á að troðið sé á okkur. Ef við erum skapstygg og hrokafull, ýtum við öðrum frá okkur. Ef við sýnum eigin ögrandi hegðun ekki varurð, upplifum við e.t.v. aðeins höfnunina eða að við séum smánuð, án þess að við teljum okkur eiga það skilið. Þetta atriði getur leitt til þess, að raunveruleg misneyting verður tíðari en ella.

En lítum á málið, þegar viðbrögðin eru sterkari við misgjörðum annarra en efni standa til. Ef kröfur okkar eru ógrundaðar (2. þáttur), kröfur á sjálf okkur, þ.e. harðstjórn skyldunnar er óhæfileg (3. þáttur), ef stolt okkar og metnaður er yfirþyrmandi (4. og 5. þáttur), sjálfsásakanir óheflaðar (6. þáttur) eða sjálfsfyrirlitning óbærileg (7. þáttur), þá verðum við oftar og dýpra særð en efni standa til. Minniháttar atburðir, svo sem beiðnir annarra, aðrir þiggja ekki boð okkar, ágreiningur um óskir okkar og skoðanir, verða þá að harmsefni.

Stundum kemur þó engin ögrun utan frá og viðkomandi veit að staða hans í lífinu er tiltölulega hagstæð. Samt sem áður finnst honum illa með sig farið og hann kvartar. Honum hættir þá kannski til óafvitað að afbaka raunverulegar aðstæður, þ.e. hann rangfærir þær, til þess að svo virðist að hann sé samt sem áður fórnarlambið. Þetta sýnir, að tilfinning fyrir misneytingu er ekki alltaf huglæg viðbrögð við erfiðleikum lífsins. Einhver innri ómótstæðileg nauðsyn fær viðkomandi til að upplifa tilveruna með þessum hætti.

Allt framangreint í heild sinni leiðir oft til þess að mönnum finnst illa með sig farið. Þegar talað er um að finnast illa með sig farið, þá er átt við þá víðtæku reynslu að finna sig fórnarlamb, þá tilfinningu, sem er víðtækari og meiri en efni standa til eða áreitnin gefur tilefni til. Hér getur beinlínis verið um lífstíl að ræða, lífstíl píslarvotts.

Sú tilfinning að finnast illa með sig farið getur átt sér ýmsar orsakir og verður því að leita að henni einstaklingsbundið. Þeim, sem ásakar sjálfan sig, án þess að vita það, og án þess að þekkja víðtæki og veldi sjálfsásakana, finnst aðrir ásaka sig. Þeim, sem er óseðjandi í leit að viðurkenningu, finnst ósamkomulag eða skortur á aðdáun oft vera lítilsvirðing við sig. Þeim, sem gerir óafvitað miklar kröfur á sjálfan sig, finnst aðrir beita sig þvingunum. Hann veit lítið um eigin óskir og skoðanir. Slíkir einstaklingsbundnir þættir verða að skoðast sérstaklega. En mikilvægt er að sjá skóginn fyrir trjánum, sjá heildarmyndina og þar með bakgrunn þessara tilfinninga. Verður nú að því vikið.

31.1 UPPLIFUN MISNEYTINGAR.

Vitund um misneytingu er breytileg, sem í sjálfu sér er undrunarefni. Hverjar sem ástæður misneytingar eru, er hlutverk hennar jafnan að gera aðra ábyrga eða kringumstæðurnar fyrir rangstöðu í eigin lífi. Þar sem í þessu felst óafvitaður áhugi á að draga fram að illa sé með sig farið, mætti ætla að menn upplifðu misneytinguna vitandi vits. Þessu er hins vegar ekki alltaf þannig farið því stundum hafa menn hag af því, að verða ekki misneytingarinnar varir.

Þar sem misneyting veldur jafnan reiði og fjandskap, getur viðkomandi óttast að láta slíkan haturshug í ljós og það fjaðrafok sem hann gæti leitt til. Það getur því verið hagkvæmt að vita minna um misneytinguna. Óafvitað er þá frekar haft í huga að fjarlægja orsakir reiði og fjandskapar en að bæla misneytingartilfinninguna. Í öðrum tilvikum getur verið um að ræða stolt í ósæranleika og því um líku, sem leiðir til bælingar þessara tilfinninga. Ekkert ætti að gerast og því gerist ekkert, sem viðkomandi hefur ekki frumkvæði að eða vald yfir. Þá getur komið til stolt í þolgæði og því að umbera allt með jafnaðargeði. Viðkomandi ætti þá að vera svo sterkur, enginn ætti að geta sært hann. Hann ætti þá að geta sætt sig við allt. Ótrufluð heiðríkja hugans er þá í fyrirrúmi. Þegar hann særist, honum er hafnað eða hann lítillækkaður, og það snertir stolt hans, þá er slíkt bælt.

Viðhorf til misneytingar eru mismunandi. Þegar viðhorf þau eru í fyrirrúmi, sem liggja frá vestri til suðurs og lýst hefur verið í 25. til 30. þætti, þá er reiði og fjandskapur bældur. Þá er þróað með sér dulið stolt, sem felst í því að þjást í siðlausum heimi. Ef um er að ræða persónuleika í norðurátt, sem lýst var í 17. til 24. þætti, er svarað beint með hreinni reiði, siðferðilegri vandlætingu og hefndarhug. Ef um er að ræða fólk sem siglir í austur og síðar verður lýst í 34. til 36. þætti, þá stilla menn upp heimspekilegri og fjarrænni afstöðu til málsins. Þeir ganga út frá því, að fólki sé ekki treystandi og því sé rétt að draga sig í hlé.

Þrátt fyrir þessa fjölbreytni eru ákveðin einkenni alltaf viðvarandi. Mönnum finnst misneytingin raunveruleg. Menn eru ekki aðeins fórnalömb, heldur saklaus fórnarlömb. “Mér er misgert”. Fólk er ósanngjarnt, óþakklátt, kröfuhart, hrokafullt og með fordóma, og þess vegna er tilfinning fyrir misneytingu eðlileg. Menn geta tíundað þá atburði, þar sem þeim var gert mein, í æsku eða síðar. Jafnvel þótt menn hafi viðurkennt með sjálfum sér að orsakir þessarar tilfinningar fyrir misneytingu sé í mörgum tilvikum að leita í særðu stolti eða frávarpi eigin misneytingar, breytir það samt sem áður engu. Haldið er stíft í viðhorfið og slík einangruð innsýn grefur lítið undan fyrirbrigðinu í heild sinni. Tilfinning fyrir að vera fórnarlamb annarra eða kringumstæðna helst óbreytt. Menn viðurkenna e.t.v. að viðbrögð þeirra við misneytingu séu ýkjur, en annað gerist ekki. Hér sést að um er að ræða að hafa hag af því að leita orsakanna í hinu ytra, ekki innra með sér. Leynt og ljóst er lögð áhersla á hversu ósanngjörn og óverðskulduð hlutskipti hafa fallið viðkomandi í skaut. Eigin dyggð og réttlæti, hreinleiki og góðleiki eða sanngirni, skera í augun gagnvart gagnstæðum eiginleikum, framkomu og meðferð frá annarra hendi.

Mönnum finnst þeir upplifa misgerðir annarra, án þess að þeir hafi gefið neitt tilefni til eða aðhafst nokkuð. Hér er ekki átt við að aðgerðarleysi þýði hjálparleysi. T.d. eru norðanmenn jafnan ekki fúsir til viðurkenna slíkt. Þeir eru ákveðnir í, með árvekni sinni og skipulagningu, að koma í veg fyrir að þeim verði gert mein. Þeir hefna skjótt harma sinna. Þegar því talað er um aðgerðarleysi er átt við þá tilfinningu viðkomandi, að misneytingin hafi ekkert með hann að gera, hún komi eins og þruma úr heiðskíru lofti, óvænt eins og skyndilegt óveður eða farsótt. Afleiðing þess verður sú, að öllu afli er beint út á við í baráttu við vágestinn, bera hann af sér, friðmælast við hann eða draga sig í hlé frá honum.

31.2 HORFT ÚT, EKKI INN.

Sá sem vill taka þetta misneytingarviðhorf til athugunar með sjálfsskoðun, verður fyrst að kanna, að hve miklu leyti, eigið stolt, kröfur, sjálfsásakanir, sjálfsfyrirlitning o.s.frv. hefur leitt til þessarar upplifunar. Leiði það ekki til árangurs, er betra að reyna að öðlast skilning með því að snúa sér að fyrirbrigðinu í heild sinni. T.d. ef viðkomandi er mæddur og vonsvikinn, getur hann séð sambandið milli eigin stolts eða óraunhæfra krafna og þessa viðhorfs. Ef honum finnst hann fyrirlitinn, getur hann e.t.v. séð samhengi við eigin sjálfsfyrirlitningu. En hann upplifir e.t.v. ekki þessar kröfur eða sjálfsfyrirlitningu sem sína reynslu í þessu sérstaka tilviki, heldur aðeins sem rökfræðilega afleiðingu eða fjarlægt orsakasamhengi. Slík sýn hefur lítið gildi þar sem viðurkenning hugarins ein og sér, er ekki viðurkenning tilfinninganna. Hann stendur í kviksyndi og upplifir ekkert raunhæft. Hann játar aðeins vitsmunalegt gildi þessara þátta.

Svo langt getur þetta gengið, að viðkomandi finnst hann jafnvel ekki ráða eigin för í lífi sínu. Honum finnst sem lífi sínu sé stjórnað utan frá, af ytri öflum. Hér getur hreinlega verið um að ræða það fyrirbrigði, að innri reynsla sé ekki upplifuð, sem oft sýnir sig í tilfinningu fyrir innri tómleika, sífelldri svengdartilfinningu, allri sýn og öllum kröftum er beint út á við. Þótt hann sé í vitund sinni sannfærður um, að himnaríki eða helvíti sé að finna hið innra, finnst honum það ekki í raun og hann lifir ekki eftir þeirri kenningu. Honum finnst undir niðri allt gott eða vont koma utan frá. Hann býst við að lausn vanda hans eða fullnægju sé að finna í hinu ytra; með ást, félagsskap, árangri, afrekum, völdum eða virðingu. Þar sem hann hefur enga tilfinningu fyrir eigin gildi, þarf staðfesting þess að koma með velþóknun eða virðingu annarra. Á meðan áhuginn beinist út á við, getur hann ekki, þrátt fyrir góðan ásetning, haft áhuga á eigin erfiðleikum. Hann hefur aðeins áhuga á því, hvað aðrir halda um hann eða hvernig hann getur notfært sér aðra. Skiptir þá ekki máli hvernig aðrir eru notaðir, t.d. með þokka, persónutöfrum, friðmælgi, hughrifum, hótunum eða valdbeitingu.

Sá sem ekki upplifir eigin tilfinningar, eigin hugsanir, eigin gerðir, finnur sig aldrei ábyrgan fyrir sjálfum sér og lífi sínu. Allir erfiðleikar stafa þá frá öðrum. “Þeir” halda honum niðri, vanvirða hann, hagnýta sér hann, þvinga hann. Því verður að beina allri orku út á við, ekki aðeins til að öðlast hið góða, heldur til að koma í veg fyrir hið illa og hefna sín, koma aftan að öðrum. Lífsstíllinn verður þá eitt allsherjar frávarp. Horft er út, aldrei inn.

Þegar við skiljum þetta frávarpslíf með þeim afleiðingum sem því fylgja, þá sést að tilfinning fyrir misneytingu er aðeins hluti þess. Því verður taka til sjálfskoðunar slíkt frávarpslíf í heild sinni, ef vænta á árangurs. Slíkt líf er afleiðing innri tómleika eða skorts á upplifun eigin innri reynslu, þegar menn hafa ekki tilfinningu fyrir eigin þungamiðju í sjálfum sér og þeim finnst þeir ekki vera ákvarðandi fyrir eigið líf. Hér er um að ræða firringu frá innra sjálfi eða atman, þ.e. afleiðing firringarinnar. Slíkur lífstíll fær hlutverki að gegna, þar sem hann kemur í veg fyrir að horft sé framan í eigin vandamál, jafnvel að áhugi verði fyrir þeim. Frávarpslíf í þessum skilningi verður eins konar miðflóttalíf, sem einkennist af virkum og jafnvel hamstola aðgerðum til að forðast eigið Sjálf. Þeim mun meira sem viðkomandi getur í eigin huga lagt áherslu á ósanngirni, áreitni og grimmd annarra, þeim mun frekar getur hann komist hjá að líta í eigin barm, á eigin særanleika, harðstjórn þeirra krafna, sem hann gerir á sjálfan sig, hvernig hann stöðugt misbýður sér. Ábyrgð á eigin Sjálfi verður þannig án meiningar í huga hans.

Misneyting verður með þessum hætti allsherjarvörn gegn því, að horfa framan í eigin viðhorf eða eigin innri árekstra. Þetta skýrir, af hverju fólki finnst það ekki aðeins vera fórnarlömb, heldur óviðráðanlega þvingað til þeirrar afstöðu. Viðkomandi finnur sig ekki aðeins auðveldlega lítillækkaðan vegna eigin innri stöðu, heldur hefur hann ákveðinn, óafvitaðan hag af því að leggja áherslu á og ýkja slíka lítillækkun. Þess vegna er misneytingin sambland hugaróra og veruleika. Um er að ræða upplifun raunverulegrar misneytingar, hvort sem boðið er upp á hana eða ekki og einnig kemur til misneyting, sem búin er til af litlu tilefni, og sýnist raunhæf fyrir þann sem þjáist. Þjáningin verður ekki í réttu vægi við tilefnið og getur verið óafvituð og liggur djúpt í vitundinni. Ef orðum Voltairs um tilveru guðs væri breytt, mætti segja, að ef misneyting væri ekki gerður hlutur, yrði að búa hana til.

Þegar menn því hjakka sífellt í því fari, að aðrir fari illa með þá og fyllast reiði og hefnigirni vegna misneytingar, gætu þeir spurt sjálfan sig: Hefurðu nálgast vandamál í sjálfum þér og ertu að reyna að komast hjá að upplifa það?

31.3 ERFIÐLEIKAR.

Í stað þess að eyða tíma í að réttlæta eigin ásakanir á aðra, er einmitt rétt að telja eigin tilfinningu fyrir misneytingu vísbendingu um að upp sé komin þörf hjá okkur fyrir að forðast upplifun á eigin aðsteðjandi vanda. Ef menn sýna slíkum tilfinningum varurð, geta þeir með skjótum hætti nýtt sér þetta og séð, að um eigin varnarhætti er að ræða. Á hinn bóginn reiðast menn uppástungu um sjálfskoðun á meðan þeir viðurkenna ekki með sjálfum sér þessa varnarhætti. Yfirmaðurinn hefur verið ósanngjarn, konan skilningslaus, vinurinn ósvífinn o.s.frv. og því ætti hann ofan á allt það sem honum er rangt gert til að lítillækka sig með eigin sjálfskoðun og breytingu? Slík viðbrögð sýna aðeins áhugaleysi á því, að bæta úr eigin vanda. Reiði vegna slíkrar tillögu má dylja undir yfirskyni kurteislegrar áhugasemi á uppástungunni, en ekkert kemst inn til skila og ekkert breytist.

Þegar við sjáum að tilfinning fyrir misneytingu er tjáning eins konar miðflóttalífs og vörn gegn því að horfa framan í eigin vanda og bera ábyrgð á honum og gerðum sínum, þá getum við séð að fyrirbrigðið hefur mikið gildi sem tæki til sjálfsþroska. Stöðug tilfinning fyrir misneytingu tryggir þroskastöðnun. Hún er eins konar stálhurð sem lokar öllum aðgangi að viðurkenningu á eigin vanda. Á hinn bóginn getur slík tilfinning einmitt orðið tæki til að komast að vandanum og kljást við hann.

Ef tilfinning fyrir misneytingu er þannig notuð til sjálfskoðunar, getur hún orðið mjög hjálpleg. Þá bætir hún þegar mannleg samskipti. Tengsl við aðra verða betri, þegar viðkomandi sér að aðrir geta ekki gefið honum það, sem hann einn getur gefið sjálfum sér og hann getur ekki gert aðra ábyrga fyrir því, sem hann einn ber ábyrgð á.

Þegar við finnum að við sjálf erum ábyrg fyrir eigin lífi, verður tilfinningin sterkari fyrir Sjálfinu, atman. Þótt erfitt sé að horfast í augu við erfiðleika, fáum við meiri tilfinningu fyrir heilleika og að lifa lífinu lifandi. Við verðum minna upptekin af hvað aðrir séu, geri eða geri ekki. Við getum þá betur beint áhuga okkar og afli að sjálfum okkur til uppbyggilegrar sjálfskoðunar.

Við upplifum jafnan erfiða tíma og förum úr skorðum, er við nálgumst Sjálf okkar. Fyrst sjáum við erfiðleika okkar eins og í fjarlægð sem möguleika eða líklegar hugmyndir, en ekki alveg raunverulegar, eins og það varði líf okkar. Síðar upplifum við erfiðleikana og byrjum að réttlæta þá eða fordæma, með þeim árangri að við erum verr sett en áður. Úr innri átökum dregur aðeins smátt og smátt að því leyti sem við fáum áhuga á því, hvernig við erum og hættum að einblína á, hvernig við ættum að vera. Um leið og við nálgumst eigið Sjálf eða það birtist, höldum við uppi vörn fyrir stolti, skyldum og kröfum og því kerfi, sem lýst var í fyrstu þáttunum og okkur getur fundist sem okkur fari aftur og ástandið versni. Samt sem áður er slíkt ójafnvægi jákvætt og uppbyggilegt, af því að við erum að leita í þroskaátt, í átt þar sem við finnum sjálf okkur og sjálfsþroska.

Sama gildir um tilfinningu fyrir misneytingu. Hana verður að skoða gaumgæfilega. Ekki nægir að gera það af hálfum hug. Enginn finnur sjálfan sig samtímis því að hlaupa á brott frá sjálfum sér. Við getum ekki öðlast áhuga á sjálfum okkur og erfiðleikum okkar, á meðan við gerum, meðvitað eða ómeðvitað, ytri hluti ábyrga fyrir þeim. Ef við notum eigin innsýn í sjálf okkur til að skilja, hagnýta eða breyta öðrum, stöndum við í stað. Við getum óafvitað reiðst því að það séum við sem eigum að breyta okkur á sama tíma og okkur finnst aðrir gera okkur lífið erfitt. Við getum drepið tímann á dreif og farið í hringi en vaknað við þá staðreynd, að innri breytingar séu í engu samræmi við viðleitni og fyrirhöfn okkar, af því að óþekkt öfl koma í veg fyrir að innsýn nái að festa rætur. Þegar við svo loks uppgötvum þessi duldu öfl og skilgreinum þau, getur mikill og verðmætur tími hafa farið til spillis.

Við getum líka hafa öðlast mikilvæga innsýn, sem bætir samskipti okkar við aðra og síðan misst áhugann. Við erum ánægð með þann árangur sem við höfum náð. Margir missa áhuga og hafa lítið eigið frumkvæði eða afl til að takast á við sjálfan sig til þroska og betra lífs, þegar spori hinna ytri erfiðleika hvetur ekki til áframhaldandi sjálfskoðunar.

31.4 HEILDARVIÐHORF.

Tilfinning fyrir misneytingu er almennari en margan grunar. Þótt fyrirbrigðið sé ekki augljóst, er mikilvægt að greina merki þess, sérstaklega tilhneigingu til frávörpunar eða útvörpunar innri átaka. Hér er um það að ræða, að snúist er gegn öðrum með hefndarhug, ýginni er beint út á við og tilraun gerð til þess að gera aðra að “vondum mönnum”. “Þeir”, ekki viðkomandi, eiga skilið refsingu og ósigur.

Ef við notfærum okkur þessa innsýn getum við fljótt séð nokkrar innri ástæður fyrir slíkri misneytingartilfinningu. Stolt okkar, órökrænar kröfur okkar, ótta við sjálfsásakanir og samband óttans við tilhneigingu til að ásaka aðra, þörf okkar fyrir að nota aðra sem blóraböggul vegna þess að við uppfyllum ekki þær innri skyldur og staðla, sem við setjum okkur eða erum ekki sú sjálfsmynd, sem við höfum sett okkur. Þegar við leitum eftir þessum leiðum, hverfur tilfinning fyrir misneytingu að verulegu leyti.

Vegna frávarps og miðflóttatilhneiginga er innri reynsla ekki upplifuð. Nauðsynlegt er að rekja samband misneytingartilfinningar við innri þætti. Slík sambönd hafa samt sem áður litla merkingu fyrir okkur, á meðan við lokum okkur frá innri reynslu. Ef við finnum ekki þetta samband, verður innri reynsla annarleg, kynleg eða dularfull. Þegar tilfinning fyrir misneytingu hefur örlítið minnkað, er þarflegt að kynna sér eigin tilhneigingar til útvarpslífs almennt, þ.e. hvernig við lifum fyrir, í gegnum eða á móti öðrum. Með því minnkar firringin. Þegar við smátt og smátt finnum okkar eigið gildi, raunvonir okkar og áhugaefni, ótta og reiði og sjáum á sama tíma hversu eigið líf ákvarðast af öðrum, þá förum við e.t.v. að velta því fyrir okkur, hvað við séum. Við sjáum þá betur, hvað við erum sjálf lítill þáttur í okkar eigin lífi, hversu lítið við stjórnum í raun eigin ferð. Þessi forvitni er byrjun á áhuga fyrir okkur sjálfum og leit að okkur sjálfum.

Í þessu sambandi er ekki aðeins nauðsynlegt að sjá einstök tré, heldur og skóginn fyrir trjánum. Tilfinning fyrir misneytingu er þáttur í að lifa lífinu utan við sjálfan sig. Hún er allsherjarvörn okkar gegn því að horfast í augu við sjálf okkur og vandamál okkar.

31.5 FÓRNARLAMB SUÐVESTANÁTTAR.

Um píslarvætti suðvestanáttarinnar verður að ræða sérstaklega. Ef skilgreina ætti suðvestanmanninn í fáum orðum mætti segja, að hann þrái hjálp, ást og stuðning hvers konar og finnst jafnframt hann sífellt verða fyrir misneytingu.

Við höfum áður lýst því, hvernig aðrir notfæra sér hann vegna varnarleysis hans og áhuga á að hjálpa öðrum og fórna sér fyrir þá. Hvernig hann vegna lágs sjálfsmats á erfitt með að standa fyrir sínu máli. Hvernig hann tekur jafnvel ekki eftir slíkri misneytingu. Vegna sjálfminnkunar, sem lýst hefur verið í fyrri þáttum, t.d. 28. þætti, nær hann skemmra í raun án þess að aðrir standi í veginum. Eigin bönn leyfa honum ekki að viðurkenna það sem hann hefur þó umfram aðra.

Hann finnur til misneytingar, þegar óvitaðar kröfur hans eru ekki uppfylltar, t.d. þegar þakklæti er ekki sýnt þrátt fyrir viðleitni hans til að geðjast öðrum, hjálpa þeim og uppfylla væntingar þeirra. Viðbrögð við vonbrigðum eru þá gjarnan tilfinning fyrir ósanngirni annarra.

Mestu máli skiptir þó hvernig hann misbýður sjálfum sér, með því að gera lítið úr sér, með sjálfsásökun, sjálfsfyrirlitningu og þess háttar, sem öllu er frávarpað. Þeim mun meira sem hann misbýður sér á þennan hátt, þeim mun minna geta hagstæðar ytri aðstæður bætt úr. Í raun er ekki farið eins illa með hann og honum finnst, vegna þessarar eigin misneytingar. Samband er á milli eigin sjálfsásakana og sjálfsfyrirlitningar og tilfinningar fyrir misneytingu. Eins og áður var drepið á, ef viðkomandi finnst hann ekki hafa uppfyllt eigin ímynd, staðla eða skyldur, kemur upp tilfinning fyrir misneytingu og viðbrögðin eru að horft er út og aðrir gerðir að sökudólgum. Sú staða er svo varin til hins ýtrasta. Viðkomandi hættir hins vegar að finnast sér misboðið, þegar hann viðurkennir sinn þátt í stöðunni og getur litið á stöðuna raunhæft án sjálfsásakana.

Allar þessar ástæður vekja tilfinningu fyrir misneytingu. En við nánari skoðun kemur í ljós, að honum finnst sér ekki aðeins misboðið af einni eða annarri ástæðu, heldur leitar hann eftir þessari tilfinningu. Tilfinningin hefur þannig mikilvægu hlutverki að gegna. Hann fær með henni útrás ýgi sinnar og reiði og þeirra gagnstæðu norðantilfinninga sem í honum búa og lýst var í 17. til 24. þætti, án þess að hann verði þess var. Slík tilfinning gefur honum yfirburðarkennd, þyrnikórónu píslarvættisins. Hann getur verið fjandsamlegur öðrum á réttmætum grundvelli. Hann getur þannig dulbúið bældan fjandskap sinn. Tilfinning fyrir misneytingu er því einhver mesta hindrun til að sjá innri árekstra. Hún dvínar ekki fyrr en þessi innri átök, t.d. milli norðurs og suðurs er upplifuð í heild sinni.

Svo lengi sem þessi tilfinning fyrir misneytingu varir, viðheldur hún hefndarhug gagnvart öðrum, sem að mestu er óafvitaður og bældur, vegna huglægra gilda um velvilja, samúð, skilning, umburðarlyndi, miskunnsemi og fyrirgefningu. Slíkur hugur er andstæða göfuglyndis og góðleika. Ekki er kleift að vera elskuverður og hafa væntingar gagnvart þeim, sem maður hatar. Sá sem þannig er fjandsamlegur snýst ekki aðeins gegn öðrum, heldur sjálfum sér jafnframt. Þessi fjandskapur er því mjög skaðvænlegur fyrir suðvestanmanninn.

Þessi reiði og fjandskapur brýst stundum út, einkum þegar allar leiðir virðast lokaðar. Þótt slík útrás sé aðeins birting þess, sem honum finnst innst inni, afsakar hann sig venjulega eftir á með því að segjast hafa verið í of miklu uppnámi til að láta í ljós það sem hann meinti. Reiði og fjandskapur eru þó helst látin í ljós með þjáningu og tilfinningu fyrir misneytingu. Þjáningin gegnir því hlutverki að drekka í sig reiðina og gera aðra að sökudólgum. Það er eina leiðin til að ná sér niðri á þeim. Þetta veldur því að á yfirborðinu birtist barnalegt og bjartsýnt traust á fólki, en undir niðri búa alls konar grunsemdir og reiði.

Innri spenna vegna reiði og hefndarhugar getur orðið mikil. Ekki er því undarlegt að viðkomandi verði uppstökkur. Hann þarf velvilja annarra og hagstætt umhverfi. Þrátt fyrir hömlur getur hann lifað ánægjulegu lífi með því að lifa fyrir aðra, fyrir málstað o.s.frv. eða týnt sér í því að vera nytsamlegur, hjálplegur og fundið sig þannig eftirsóttan. Ef eitthvað óvænt kemur fyrir hann, getur hann þó brotnað niður, innri spenna orðið honum ofviða. Ásakanir á aðra brjótast þá út, sjálfshatrið kemur til vitundar hans og örvænting heltekur hann.

31.6 ÞJÁNING FÓRNARLAMBSINS.

Allir þjást af árekstrum innri andstæðna. Suðvestanmaðurinn þjáist undir hlekkjum sem koma í veg fyrir að hann breiði úr sér og sýni yfirburði, áleitni og ýgi, undan sjálfsmisneytingu og tvöfeldni gagnvart öðrum. Þessi þjáning er ekki sett á svið til að heilla neinn. Til viðbótar hefur þjáningin hlutverki að gegna. Þjáningin verður grundvöllur krafna, t.d. um athygli, umhyggju og samúð. Hún er aðferð til að láta ýgi í ljós. Hvernig getur sá, er engan vill særa, gert öðrum slíkt mein? Hann er dragbítur á umhverfinu, en gerir sér það ekki ljóst, af því að þjáningin afsakar hann. Með þjáningunni ásakar hann aðra og afsakar sjálfan sig um leið. Þjáningin afsakar ekki aðeins kröfur og skapvonsku heldur fyrirbyggir hún ásakanir annarra. Með þjáningunni getur hann krafist skilnings annarra. Ef aðrir gagnrýna eru þeir tilfinningalausir. Allt sem hann gerir ætti að vekja samúð og hjálpsemi annarra.

Með þjáningunni útvegar hann sér fjarvistarsönnun. Hann getur afsakað af hverju hann gerir ekki meira úr eigin lífi og sækist ekki eftir metnaðarfullum markmiðum. Hann forðast metnað og sigur, en langar í hann samt. Þjáningin getur þannig vitað eða óafvitað hjálpað honum að bjarga andlitinu og möguleikanum um einstök afrek er viðhaldið í eigin huga. Dularfullur krankleiki heldur honum niðri.

Þjáningin getur jafnvel leitt til hugleiðinga um að brotna niður. Þetta getur birst sem andleg, líkamleg eða siðferðileg hrörnun eða að verða of gamall fyrir eitt eða annað. Hann finnur að eitthvað dregur hann niður. Hann finnur til dulvitaðrar löngunar til sjálfseyðileggingar. Löngun til að gefa allt upp á bátinn getur orðið sterk og að losa sig þannig út úr erfiðleikunum, losna við alla baráttu, gagnstæðar skyldur o.s.frv. Með aðgerðarleysi getur hann látið eyðileggingaröflin ná tökum á sér.

Að brotna algerlega niður og falla saman er fyrir honum sigur. Hann deyr þá af völdum þeirra, sem illa með hann fóru og setur þá jafnframt í skömm. Þjáningin verður aðalsmerki göfuglyndis. Því skyldi hann lúta svo lágt að taka þátt í lágkúrulegum og grófum hráskinnsleik refanna. Hann ætti að fyrirgefa og hverfa af sviðinu á hljóðlátan hátt með þyrnikórónu píslarvottsins.

Ljóst er að þjáningin hverfur ekki nema gjörbreyting verði á grundvallarviðhorfum. Hógværðin og þörfin fyrir að geðjast öðrum verkar, þrátt fyrir hæpinn grundvöll, eðlilegri og mannlegri en ýgi, hefnd og hroki. Tvöfeldni þessara manna getur þó reitt aðra til reiði, en samt sem áður þarfnast þeir fyrst og fremst samúðar og skilnings. Eitt bindi í “Harmasögu ævi minnar” eftir Jóhannes Birkiland heitir “Ömurlegasta hörmungartímabil allrar minnar ævi”. Lýsir titillinn vel þessu magnaða fyrirbrigði, sem borið er á borð, eins og ekkert sé eðlilegra og sjálfsagðara.