XXX HINN ELSKUVERÐI

30.0 STAÐA HINS ÓSJÁLFSTÆÐA.

30.1 ELSKUSKYLDAN.

30.2 VAL Á MAKA.

30.3 ÁST OG STOLT.

30.4 SAMSKIPTIN.

30.5 ÁTÖKIN.

30.6 ÚTLEIÐ.

30.0 STAÐA HINS ÓSJÁLFSTÆÐA.

Allar þær lýsingar á persónugerðum sem gerðar hafa verið í þessum þáttum eru lausnir á innri vanda mannsins eða eiga að vera það. Einnig hefur verið reynt að lýsa, hvernig maðurinn kemur sér í þennan vanda og skapar nýjan. Þær lausnir, sem ræddar hafa verið í allra síðustu þáttunum, virðast heldur ófullnægjandi. Þær hafa þá ókosti, sem felast í öllum lausnum, en virðast auk þess skapa meiri óhamingju en aðrar. Þjáningin er þó ekki meiri en í öðrum t.d. norðlægari lausnum, en hlutaðeigandi finnst hann oftar og umfram aðra vansæll þar sem þjáningin gegnir sérstöku hlutverki hjá honum. Þörf fyrir aðra og væntingar af þeim, gera hann ósjálfstæðan og þeim háðan. Það að vera háður öðrum, er alltaf slæmt og oft sársaukafullt, en í þessu tilviki þó sérstaklega ógæfulegt, vegna þess að tengsl hans við fólk eru tvíbent. Þess vegna er ástin í víðtækri merkingu þess orðs, ástarlíf, kynlíf, hjálp, aðstoð, stuðningur og viðurkenning, það eina sem gefur lífi hans gildi og innihald. Þar sem ástarlíf og kynlíf gegna mikilvægu hlutverki í lífi hans, verður í þessum þætti reynt að skyggnast inn í þau viðhorf. Þótt um vissa endurtekningu sé að ræða, gefst tækifæri til að sjá skýrar þessa meginþætti heildarpersónuleikans.

Ástarlíf gefur þessum manni (eða konu) von um sérstaka fullnægju. Ást er aðgöngumiði að Paradís, þar sem sorg og sút er úr sögunni. Einmanaleiki er horfinn, tilfinning engin fyrir að vera týndur og ráðvilltur, engin sektarkennd eða minnimáttarkennd og ábyrgð þarf ekki að taka á sjálfum sér. Engin barátta er lengur við harðan og kaldan heim, sem honum finnst hann vera lítt fær um að slást við. Í staðinn lofar ástin vernd, stuðningi, blíðu, hvatningu, samúð og skilningi. Hann fær þá tilfinningu fyrir að vera einhvers virði. Hann fær meiningu og innihald í líf sitt, verður frelsaður og sáluhólpinn. Engin furða er að hann skiptir fólki í tvo hópa, þá sem eiga og þá sem ekki eiga, ekki peninga eða stöðutákn, heldur maka í einhverri mynd.

Svo sem sjá má af þessari lýsingu, liggur ást þessa manns aðallega í því að vænta þess að vera elskaður. Sálfræðingar hafa haft á reiðu alls konar skýringar á þessu fyrirbrigði og kallað þetta festingu eða sníkjulíf, Freudistar “oral erotic” og vissulega er þetta viðhorf í forgrunni. Ekki má þó gleyma að áhuginn er engu síður í að elska aðra en að vera elskaður. Ástin þýðir, eins og sagt var í síðasta þætti, að týna sér eða sökkva sér í meira eða minna upphafnar tilfinningar. Í ástinni er hann uppnuminn, uppljómaður, og jafnframt sameinast hann annarri manneskju, andlega og líkamlega. Í þeirri sameiningu leitar hann þeirrar einingar, sem hann finnur ekki í sjálfum sér.

Þessi ástarlöngun á sér dýpri rætur. Annars vegar er löngun til að gefast upp, losna við sjálfan sig með því að falla fyrir öðrum. Hins vegar er löngun eftir einingu. Dýpt þeirrar tilfinningar verður ekki skilin nema átta sig á orsökum hennar. Löngun til einingar er ein meginviðleitni mannkyns. Var um það fjallað í síðasta þætti. Þessi viðleitni fær eflda merkingu, þegar um er að ræða einstakling sem er skiptur innra með sér. Löngun til að gefa sig einhverju stærra en við erum, er t.d. kjarnaviðhorf margra trúarbragða. Þótt sú uppgjöf, sem við ræðum í þessum þáttum sé skrípamynd hinnar heilbrigðu, hefur hún ekki síður sama vald yfir viðkomandi. Þetta sést ekki aðeins í ástarlöngun viðkomandi, heldur í mörgu öðru, t.d. í tilhneigingu til að týna sér í tilfinningum, táraflóði, tónlist, fögru landslagi, sektarkennd, eða í þörf fyrir algleymi í kynferðislegri fullnægju og að falla í svefn. Jafnvel getur komið til löngun eftir dauða, sem lokaslokknun sjálfsins.

Ef við skyggnumst ögn dýpra sjáum við að áhugi á ástinni byggir ekki eingöngu á væntingum um fullnægju, frið og einingu, heldur er ástin einnig leið til að láta eigin sjálfsmynd rætast eða raungera hana, ef svo má segja. Í ástinni getur viðkomandi framkallað og þróað svo sem á verður kosið, hina elskuverðu eiginleika sjálfsmyndarinnar. Með því að vera elskaður öðlast hann æðstu viðurkenningu þessara eiginleika sjálfsmyndarinnar.

30.1 ELSKUSKYLDAN.

Þar sem gildi ástarinnar er svona mikið fyrir þann mann, sem til umfjöllunar er í þessum þætti, gefur auga leið, hve mikilvægt er að vera elsku verður. Sá eiginleiki hefur einstakt gildi og ákvarðar eigið sjálfsmat. Ræktun elskuverðra eiginleika hófst þegar í æsku og varð því meiri nauðsyn, sem aðrir urðu mikilvægari fyrir sálarfriðinn. Því meira, sem hinir elskuverðu eiginleikar eru ræktaðir, þeim mun meira verður bæld hvers konar ýgi og þættir er stefna til yfirburða, valds og virðingar. Elskuverðir eiginleikar verða því þeir einu, sem viðkomandi er stoltur af, en vegna hógværðarþarfarinnar er því stolti haldið niðri. Hann er þó alltaf viðkvæmur fyrir gagnrýni eða ef hann er dreginn í efa að þessu leyti. Ef örlæti hans og umhyggjusemi er ekki virt eða skapraunar öðrum, verður hann djúpt særður. Þar sem elskuverðir eiginleikar eru það eina, sem hann metur að verðleikum í sjálfum sér, metur hann sérhverja höfnun þeirra sem allsherjar höfnun á sér. Því óttast hann höfnun mjög. Höfnunin er honum ekki aðeins missir þeirra væntinga, sem hann hafði gert sér í tengslum við aðra manneskju, heldur tilfinning fyrir að vera yfirgefinn og einskis verður.

Lítum á skyldur þessa manns, sem þessir elskuverðu eiginleikar leiða til. Hann ætti ekki einungis að vera fullur samúðar, heldur og fullkomlega skilningsríkur. Hann ætti aldrei að særast, þar sem hann ætti að sýna endalausan “skilning og víðsýni”. Ef hann finnur sig særðan, sem að sjálfsögðu orsakar þjáningu, getur það valdið sjálfásökunum um þröngsýni og eigingirni. Afbrýði og öfundsýki ætti ekki vera til. Slíkri skyldu verður þó aldrei framfylgt, þar sem óttinn við höfnun eða að vera yfirgefinn er auðvakinn. Hann telur alla árekstra sína sök og hann reynir að koma í veg fyrir þá. Hann hefði átt að vera stilltari, hugsunarsamari og fyrirgefa. Misjafnt er hvort hann finnur þessar skyldur sínar sem eigin eða frávarpar þeim á makann. Honum finnst hann vera að uppfylla væntingar makans. Honum finnst sér ætti að takast, hvað sem það kostar, að ná algerri einingu í ástarsambandinu og honum skal takast að fá hinn aðilann til að elska sig. Hann reynir að kalla fram ást hins aðilans með öllum ráðum. Markmið hans er alger eining og hamingja.

Þegar hann lendir í óforsvaranlegu ástarsambandi, sem hann ætti að láta sér skiljast að væri fyrir bestu að slíta, lítur hann, vegna eigin stolts, á þá lausn sem auðmýkjandi eða smánarlegan ósigur og gerir þá kröfu á sjálfan sig að láta sambandið takast. Á hinn bóginn er hann stoltur af hinum elskuverðu eiginleikum, þótt þeir séu byggðir á vafasömum grunni, og þeir verða grundvöllur falinna krafna. Þær kröfur eru um algera hollustu hins aðilans og fullnægju margra þarfa, eins og fjallað er um í fyrri þáttum. Honum finnst hann eiga rétt á að vera elskaður, ekki aðeins vegna umhyggjusemi sinnar, sem kann að vera raunhæf, heldur einnig vegna veikleika síns og hjálparleysis, þjáninga og fórnfýsi.

Hann verður því flæktur í skyldum og kröfum sem ganga í gagnstæðar áttir. Einn daginn er hann saklaus píslarvottur og ákveður að segja hinum aðilanum upp. Þá verður hann hræddur við eigin kjark, bæði til að krefjast einhvers fyrir sig sjálfan og að ásaka hinn. Hann óttast líka að missa hann. Þá sveiflast hann í hinar öfgarnar. Skyldur hans og sjálfsásakanir ná þá yfirhöndinni. Hann ætti ekki að reiðast neinu, hann ætti að stilla skap sitt, sýna meiri ást og skilning, allt sé yfirhöfuð honum að kenna. Á sama hátt sveiflast mat hans á makanum, sem stundum virðist aðdáanlegur og sterkur, stundum grimmur og ómannúðlegur. Allt verður eins og í þoku og ákvörðun er úr sögunni.

Þótt stofnun þannig ástarsambands sé alltaf á hæpnum grunni, þarf það þó ekki að leiða til stórslyss. Hann getur orðið hamingjusamur, ef hann eyðileggur ekki of mikið fyrir sér og finnur maka, sem er heilbrigðari eða hefur dálæti á veikleika hans og ósjálfstæði. Þótt slíkum maka finnist sú festing íþyngjandi á stundum, getur hann fundið til sín. Makinn getur fundið til styrkleika síns og öryggis, upplifað sig verndara, sem fái hollustu. Því getur sambandið tekist. Þegar hann finnur að makinn hefur dálæti á honum, ber umhyggju fyrir honum og verndar hann, verður það til þess að hann sýnir sína bestu eiginleika. Slíkt ástarsamband kemur samt sem áður í veg fyrir þroska og að hann leysi úr vanda sínum.

30.2 VAL Á MAKA.

Við skulum taka þann valkostinn, að makinn veljist ekki með þeim hætti, sem lýst var. Við tökum betur eftir þeim samböndum, þegar aðilarnir kvelja hvorn annan. Hér er ekki átt við kynmök sérstaklega. Þessi sambönd geta verið milli foreldra og barna, kennara og nemanda, leiðtoga og fylgismanns, yfirmanns og undirmanns, milli vina o.s.frv. Þar sem ástarsamböndin eru fyrirferðarmest, skulum við halda okkur við þau. Einnig kemur til, að höfum við orðið þessa vör í ástarsambandi, er auðvelt að koma auga á það í öðrum samböndum, þótt ský hollustu og skylduréttlætingar svífi yfir vötnunum.

Val á maka byrjar venjulega ógæfulega. Varla er hægt að tala um val. Sá sem við ræðum hér um verður heillaður, uppnuminn eða gagntekinn af vissum persónuleikum. Fellur fyrir þeim eins og slegið gras. Hann dregst ósjálfrátt að manneskju af sama eða gagnstæðu kyni, sem verkar á hann sem sterkari eða með meiri yfirburði. Sá aðili þarf ekki alltaf að vera heilbrigður. Hann getur t.d. fallið fyrir eða orðið ástfanginn af konu (eða manni) sem er sjálfstæð og dregur sig frekar frá mannlegum tengslum og samskiptum. Slíkri manneskju verður lýst síðar, er við ræðum um austrið. Ekki er lakara að hún sé vel stæð, í góðri stöðu, fræg eða hafi sérstaka hæfileika. Einnig getur komið til narcissus, fullur sjálfsvissu eða kona full hefndarsigurs, sem þorir að gera kröfur og hefur ekki áhyggjur af hroka sínum eða móðgunum.

Margar ástæður liggja til þess, að hann verður hrifinn af slíkum persónum. Hann ofmetur þær, því þær virðast hafa eiginleika, sem hann ekki aðeins saknar biturt í sjálfum sér, heldur fyrirlítur sig einnig fyrir að hafa ekki. Sjálfstæði, að vera sjálfum sér nógur, að vera sannfærður um yfirburði sína, að vera djarfur í að útdeila hroka sínum og ýgi. Aðeins slíkir sterkir, yfirburða persónuleikar, eins og hann sér þá, geta uppfyllt þarfir hans og yfirtekið hann.

Hvað er það sem sérstaklega veldur slíku uppnámi eða fjötrum? Meginástæðan er bæling þeirra markmiða og mynda, sem lýst hefur verið í þáttum 17 til 24, þ.e. viðleitni til hvers konar ýgi, yfirburða, metnaðar, virðingar og valds. Viðkomandi bælir þessar tilhneigingar og vill jafnvel ekki kannast við þær. Stolt og tilhneiging til yfirráða eru honum framandi. Þvert á móti upplifir hann hinn undirokaða, hjálparlausa hluta sálarlífsins sem eigin kjarna. Þar sem hann þjáist undan afleiðingum þessa minnkunnarferlis, finnst honum mjög æskileg hæfnin til að ná tökum á lífinu með því að lyfta sér upp og breiða úr sér, vera harðskeyttur og metnaðarfullur. Hann ímyndar sér, að gaman væri að vera vægðarlaus og óbilgjarn og leggja heiminn að fótum sér, en þar sem sá eiginleiki er utan seilingar hans, hrífst hann af honum hjá öðrum. Hann frávarpar þessum tilhneigingum og dáist að þeim í öðrum. Stolt og hroki annarra snerta hann því mjög. Hann veit ekki, að hann getur leyst upp þessar andstæður í sjálfum sér, en reynir heldur að leysa þær með ást. Með því að elska stolta persónu, sameinast henni og lifa í gegnum hana, tekur hann þátt í að ná tökum á lífinu án þess að gera það beint sjálfur. Þegar hann uppgötvar síðar, að átrúnaðargoðið stendur á brauðfótum, virðist hann missa áhuga, því hann getur þá ekki lengur frávarpað eigin stolti á það.

Þá kemur það einnig til, að þeir sem hafa tilhneigingar í suðurátt, þ.e. þeim sem lýst er í þáttum 25 til 30, eru að hans mati ekki áhugaverðir kynmakar. Þeir geta verið vinir, því að í þeim finnur hann meiri samúð, skilning og umhyggju en í öðrum. En þegar samskiptin eiga að vera náin, þá verður hann afhuga, fær andúð á makanum. Hann sér endurspeglast í makanum sinn eigin veikleika og fyrirlítur hann þess vegna fyrir það eða honum gremst sú sýn. Hann óttast líka að tengjast slíkum maka, og tilhugsunin að þurfa að vera sterkari aðilinn, skýtur honum skelk í bringu. Það neikvæða tilfinningalega viðhorf getur gert honum ómögulegt að meta að verðleikum kosti slíks maka.

Ekki er gott að fullyrða, hvaða gagnstæðir eiginleikar nákvæmlega hafi mest áhrif á þann, sem hér er til umræðu. Þeir sem haldnir eru hefndarhroka, hafa oft mikil áhrif á hann, þótt ástæða væri fyrir hann að óttast þá einkum vegna þess hve þeir sýna stolt sitt áberandi. Meira máli skiptir þó, að þeir eru líklegri til að skjóta undan honum stolt hans eða sprengja það burt úr honum, ef svo má að orði komast.

Þessu fyrirbrigði hefur verið lýst í ótal skáldsögum. Samskiptin hefjast þá gjarnan með einhverri grófri móðgun, misgerð eða atlögu af hálfu þess sem er fullur hefndarhroka. Sá elskuverði svarar gjarnan gremjulega í fyrstu og vill ná sér niðri á misgjörðarmanni sínum, en verður nær samtímis svo hrifinn, að hann fellur fyrir honum eins og slegið gras. Hann fellur ástríðufullt, eins og glataður og eftir það hefur hann ekki áhuga á öðru en að vinna ástir þessa aðila. Með því leggur hans sig næstum í rúst. Þess vegna er móðgandi hegðun oft upphaf slíkrar sambúðar. Þetta þarf þó ekki að vera svo opið og augljóst, þetta getur einnig atvikast með fíngerðari og lymskulegri hætti. Sennilega er þó fáheyrt að upphaf slíkrar sambúðar hefjist ekki með þessum hætti. Hið móðgandi atferli getur komið fram í áhugaleysi eða hrokafullri tregðu, í því að veita öðrum athygli, með háðslegum athugasemdum eða gríni, að finnast lítið til um þá hæfileika, sem makinn venjulega heillar aðra með, svo sem með starfi, þekkingu eða fegurð. Þetta eru móðganir, af því að þær eru teknar sem höfnun og höfnun er móðgun fyrir þann, sem er stoltur af því, hve vel honum tekst að láta aðra hafa áhuga eða ást á sér í einhverri mynd. Þetta skýrir hvers vegna hann fær svo mikinn áhuga á þeim, sem fara í austurátt og lýst verður síðar. Þeir geta verið fáskiptir, kuldalegir og gefa lítt kost á sér og það er einmitt tekið sem móðgandi höfnun.

30.3 ÁST OG STOLT.

Sú staðhæfing, að hinn elskuverði sækist eftir þjáningu, er röng, þótt segja megi að í henni felist sannleikskorn. Eins og lýst hefur verið, hefur þjáningin visst gildi fyrir hann og hann dregst ósjálfrátt að móðgandi framkomu eða höfnun. Misskilningurinn liggur í því að tengja þetta saman í orsakasamband og telja að hann lendi í þessu vegna þarfar fyrir þjáningu. Ástæðan liggur í hinu, svo sem lýst hefur verið, að hann verður hrifinn af persónuleikum, sem eru ákveðnir, hrokafullir og móðgandi, jafnframt því sem hann hefur tilhneigingu til að gefa sig á bátinn. Hann vill afsala sér andlega og líkamlega en getur það því aðeins, að stolt hans sé brotið á bak aftur. Hin upphaflega móðgun leiðir ekki til þessarar fléttu vegna þess að hún særi hann, heldur opnar möguleika á að gefa sig upp, losna við sjálfan sig. Carmen logaði öll af ást, ef hún var ekki elskuð.

Til að gefa sig ástinni fullkomlega á vald, verður að losna við stoltið. Ást og sönn hógværð fara saman. Hér er á ferðinni ýkt mynd af því sem venjulega gerist, þegar ást er annars vegar. Þannig skiljum við líka þá persónuleika, sem leita í norður og lýst var í 17. til 24. þætti. Ótti þeirra við ást ákvarðast ómeðvitað af þeirri staðreynd, að gefa verður stoltið upp á bátinn, ef ástin á að vera í fyrirrúmi. Stoltið er andsnúið ást. Þeir þarfnast ástar lítið og forðast hana eins og hættu. Sá sem við ræðum í þessum þætti, lítur á ást sem lausn á innri vanda, nánast lausn á flestu og lífsnauðsyn. Þegar stolt þeirra, sem áður voru nefndir, er brotið á bak aftur, verða þeir einnig gjarnan ástríðufullir þrælar ástarinnar.

Þetta einkenni ástarsambands hins elskuverða kemur skýrast fram í kynlífi með gagnstæðum aðila, sem haldinn er hefndarhroka. Vegna þeirra þátta, sem búa í báðum og lýst hefur verið, verða andstæðurnar sterkar og sambandið helst því oft í lengri tíma. Narcissusinn og sá sem dregur sig í hlé, þ.e. fer í austurátt, verða gjarnan þreyttir á þeim kröfum, sem gerðar eru til þeirra og slíta oft sambandinu eftir stuttan tíma. Sadistminn festir sig frekar við fórnardýrið. Þá er einnig mun erfiðara fyrir hinn elskuverða að losa sig úr sambandinu við þann, sem haldinn er hefndarhroka. Vegna eigin veikleika er hann ófær til slíks eins og vatnaskipið er til siglinga í stórsjó. Hann getur hafa komist vel af í lífsins ólgusjó til þessa, en í slíku ástarsambandi kennir hann allra veikra þátta, sem fyrirfinnast í eigin persónuleika.

Hér á eftir fer lýsing á slíku ástarsambandi milli hins elskuverða, sem við köllum hér eftir “hún” og þess sem haldinn er hefndarhroka, sem við köllum “hann”. Þótt þetta hafi ekkert að gera með kynskiptingu, er þó algengara, að konan en karlinn sé hinn elskuverði aðili. Þó þarf það alls ekki að vera.

30.4 SAMSKIPTIN.

Það fyrsta sem sker augun er hversu altekin konan er af sambandinu. Makinn verður miðpunktur lífs hennar. Allt snýst um hann. Skap hennar er háð því, hvort afstaða hans til hennar er jákvæð eða neikvæð. Hún þorir ekki að gera neitt á eigin vegum til að missa ekki af samvistum við hann. Hún hugsar um það eitt að skilja hann og hjálpa honum. Öll hennar viðleitni beinist að því að uppfylla væntingar hans. Hún óttast aðeins að hann gerist andsnúinn henni og yfirgefi hana. Önnur áhugamál hennar verða því að víkja. Vinna hennar gefur henni lítið innihald ef hún tengist ekki makanum. Þetta á bæði við starf, sem hún hefur áhuga á og annað skapandi starf, þar sem hún hefur náð árangri. Auðvitað situr það síðastnefnda fremur á hakanum.

Önnur mannleg tengsl eru vanrækt. Hún getur jafnvel vanrækt heimili og börn. Vináttusambönd eru ræktuð meira og minna sem uppfylling, ef hann er ekki viðstaddur. Þátttaka í öðru er látin víkja, þegar hann birtist. Makinn grefur líka gjarnan undan öðrum samböndum til að gera hana háðari sér. Hún fer að horfa á vini sína og kunningja með hans augum. Hann lítilsvirðir traust hennar á fólki og vekur með henni eigin grunsemdir um hið gagnstæða. Þannig missir hún fótfestu og verður sífellt ósjálfstæðari. Auk þess minnkar áhugi hennar á sjálfri sér. Hún getur sökkt sér í skuldir og sett eigin orðstír, heilsu og virðingu í hættu. Alltaf er verið að hugsa um hann, markmið hans, að hjálpa honum.

Vandinn í sambúðinni getur byrjað þegar í upphafi, en stundum er eins og þau séu samstiga, hann hefur valdið, hún gefur eftir. Hann gerir kröfur, hún uppfyllir þær. Eins og áður var vikið að, getur hún því aðeins gefið sig að stolt hennar hafi verið brotið á bak aftur og þar bregst honum ekki bogalistin. Fyrr eða síðar verða þó árekstrar á milli þessara tveggja persónuleika, sem að verulegu leyti eru gagnstæður. Meginárekstrarnir snúast um ágreiningsefni er varða ástartilfinningarnar og ástina. Hún krefst ástar, blíðu og nálægðar. Hann er sárlega hræddur við jákvæðar tilfinningar. Hann telur jafnvel vansæmandi að láta þær í ljós. Honum finnst það hræsni, þegar hún er að fullvissa hann um ást sína. Vissulega er í þessu sannleikskorn, því við vitum að um er að ræða þörf fyrir að losna við sjálfan sig og sameinast honum fremur en raunást á honum. Hann kemst ekki hjá að snúast gegn tilfinningum hennar og þar með henni sjálfri. Þetta veldur því að henni finnst hún vanrækt og sér misboðið. Það veldur aftur kvíða, sem eflir festingu hennar við hann.

Aðrir árekstrar eiga sér stað. Þótt hann beiti öllum ráðum til að gera hana háða sér, finnst honum þessi festing skelfileg og fráhrindandi. Hann er hræddur við eigin veikleika og fyrirlítur þann veikleika í henni. Þetta er henni önnur höfnun, sem aftur skapar meiri kvíða og festingu. Kröfur hans eru þvingandi fyrir hana og hann verður að ráðast að henni til að halda eigin tilfinningu fyrir yfirburðum. Hjálpsemi hennar særir stolt hans af að vera sjálfum sér nógur. Í raun skilur hún hann varla, þrátt fyrir einlægar tilraunir í þá átt. Í skilningi hennar felst einnig mikið af því að afsaka hann og fyrirgefa honum, því henni finnst eigin viðhorf bæði góð og eðlileg. Hann skynjar, að hún finnur til eigin siðferðilegra yfirburða og það verður honum hvatning til að rífa niður uppgerðina og ásýndina. Samræður þeirra um þessi efni leiða til lítils, enda finnst báðum þau hafa rétt fyrir sér. Þá fer hún að sjá hann sem rudda og hann hana sem siðferðilegan smámunasegg. Auðvitað gæti þetta niðurrif uppgerðarinnar hjálpað báðum, ef það væri gert jákvætt og uppbyggjandi. En þar sem það gerist venjulega með háðsglósum, særir það aðeins og gerir hana óöruggari og ósjálfstæðari.

Varla þarf að fara í grafgötur um, hvort þessir árekstrar leiði til þess að þau hjálpi hvoru öðru. Vissulega mætti hann verða mýkri og hún harðari. En viðhorf þeirra halda þeim í heljargreipum innan þess vítahrings sem birtir hið versta í báðum, og leiðir einungis til gagnkvæmrar tortímingar.

Vonbrigðin, hrellingarnar og takmarkanirnar, sem hún verður að sæta verða misjafnlega grófar. Eins og þegar köttur leikur sér að mús, er hér ýmist verið að nálgast og hafna, festa og slíta. Ánægjulegum kynmökum er fylgt eftir með grófri misgerð, ánægjulegri kvöldstund með gleymsku á stefnumóti, laðaður er fram trúnaður og hann síðan misnotaður meinlega gegn henni. Hún reynir kannski að tefla sama taflið, en er of bæld til að það takist vel. Hún er of fíngert hljóðfæri til að spila á, því ásláttur hans kemur henni til að örvænta. Og þegar hann er í góðu skapi fyllist hún misskilinni von um að allt verði gott á ný. Honum finnst hann eiga rétt á að gera ótal hluti án þess að hún eigi rétt á að spyrja. Hann krefst hvers konar aðstoðar frá henni og að þarfir hans séu virtar. Tíminn er skipulagður eftir hans þörfum. Áhugi beggja á að snúast um frama hans og metnað, hvort hann vill félagsskap. Henni ber að stilla skap sitt, þegar hann er í ólund o.s.frv.

Það sem hann krefst á að vera sjálfsagt. Ekkert þakklæti er sýnt, en nöldrað þegar ekki er orðið við óskum hans. Hann lýsir yfir ómyrkur í máli, að hann sé ekki sá sem geri kröfur, heldur sé hún nánasarleg og tillitslaus og kunni ekkert að meta. Þannig finnist honum þetta vera svo. Hann þurfi að þola alls konar misgerðir. Á hinn bóginn er hann glöggur á kröfur hennar, sem honum finnast sjúklegar. Þörf hennar fyrir blíðu, tíma eða félagsskap sé þrúgandi, þörf hennar fyrir kynlíf sé dekur. Þegar hann svo bakar henni vonbrigði, sem hann gerir ósjálfrátt af ástæðum, sem liggja í honum sjálfum, eru það í huga hans engin vonsvik. Ekki sé rétt að virða þarfir hennar, þar sem hún ætti að skammast sín fyrir að hafa þær. Tækni hans við að angra hana er háþróuð. Að eyða gleði með því að vera fúll, láta hana finna að hún sé óvelkomin og óæskileg, með því að draga sig í hlé andlega og líkamlega. Skaðlegast er þó hið stöðuga fyrirlitningar og vanvirðingarviðhorf hans til hennar, sem er þó erfitt fyrir hana að höndla. Hvort sem hann virðir hana eða ekki, lætur hann sjaldan í ljós að hún hafi hæfileika eða kosti. Hann fyrirlítur hana fyrir veikleika, tvöfeldni og óákveðni. Þar sem hann þarf að frávarpa eigin sjálfshatri, finnur hann að öllu, bendir ágalla og gerir lítið úr henni. Ef hún þorir að gagnrýna hann á móti, er þeirri gagnrýni hafnað með steigurlæti og hún talin hefnigjörn.

Mestu tilbrigðin eru þó að finna í kynlífinu. Kynlífið er kannski eina samband þeirra, sem fullnægju veitir. Ef hann á hinn bóginn er hamlaður á kynferðissviðinu, svekkir hann hana einnig á þessu sviði. Hún finnur þá enn frekar til þess, þar sem hann getur almennt ekki veitt blíðu og kynmök eru því eina fullvissa hennar um að hann elski hana. Hann getur einnig notað kynmök til að gera lítið úr henni. Hann getur gert henni ljóst, að fyrir hann sé hún ekkert nema kynvera. Hann getur daðrað og haft kynmök við aðrar konur og látið í það skína, að hún sé ekki eins aðlaðandi eða kynþokkafull og þær. Kynmök geta verið lítillækkandi, þar sem þeim fylgir engin blíða og vegna sadistískra viðhorfa.

Viðhorf hennar gagnvart þessari misneytingu eru full af þverstæðum. Hér er um þróun að ræða með meiri og meiri innri árekstrum. Til að byrja með er hún hjálparvana, eins og hún hefur jafnan verið gagnvart ágengu og freku fólki. Hún gat aldrei staðið fast á sínum hlut og snúist til raunhæfrar gagnsóknar. Að láta eftir og sveigja af hefur jafnan verið henni auðveldari leið. Þar sem hún hefur tilhneigingu til að finna til sektarkenndar, viðurkennir hún undir niðri margar ásakanir hans, sérstaklega þar sem þær hafa sannleikskorn að geyma.

Hlýðni hennar verður nú stórvirkari og breytist að eðli. Hér er ekki aðeins á ferðinni þörf fyrir að geðjast og friðmælast, heldur kemur til löngun til allsherjaruppgjafar. Þetta getur hún, eins og áður er lýst, því aðeins að stolt hennar hafi verið brotið niður. Þannig vinnur hluti af persónuleika hennar með honum. Hann ætlar augljóslega, þó óafvitað sé, að brjóta niður stolt hennar og hún hefur dulda tilhneigingu til að verða við því og fórna stoltinu. Þetta getur skýrlega komið fram í kynmökum. Í dýrslegum losta lítillækkar hún sig eða lætur hann misbjóða sér. Stundum eru þetta einu tækifærin, sem hún hefur til að fá fullnægju. Þetta getur einnig lýst sér í hugarórum og draumum.

30.5 ÁTÖKIN.

Þörfin fyrir að gera lítið úr sér getur verið dulbúin, en sýnir sig þó á margan hátt, svo sem í ákefð hennar við að hvítþvo hann og taka á sig sökina fyrir misgerðir hans eða í þjónkun og tillitssemi við hann. Hún verður þessa ekki vör, þar sem hún telur þessa tillitssemi vera hógværð og ást eða hógværð í ást. Þörfin fyrir að liggja flöt fyrir honum er venjulega bæld, nema í kynmökum. Þörfin er þó til staðar og kallar á málamiðlun, sem fólgin er í því að láta gera lítið úr sér án þess að verða þess vör. Þetta skýrir af hverju hún tekur ekki eftir ósvífinni framkomu hans, þótt öðrum sé hún ljós. Ef hún verður þess vör, tekur hún ekkert mark á því og upplifir það ekki tilfinningalega og kærir sig kollótta. Ef einhver vinur hennar vekur athygli hennar á þessu og hún er jafnvel sannfærð um hann hafi rétt að mæla og sjái umhyggjusemi hans, verður það þó aðeins til að skaprauna henni. Slík athugasemd hlýtur að gera það, þar sem hún snertir hennar eigin innri andstæður. Stundum gerir hún þó árangurslausar tilraunir til að brjótast út úr stöðunni. Aftur og aftur rifjar hún upp móðganir hans og lítillækkandi viðhorf í von um að það hjálpi henni að taka afstöðu gegn honum. Aðeins eftir margar og ítrekaðar tilraunir verður hún þess vör sér til undrunar, að þær leiða til einskis.

Þörfin fyrir að gefa sig upp á bátinn skapar þörf fyrir að fegra makann. Þar sem hún getur aðeins sameinast þeim, sem hún hefur afhent stolt sitt, þarf hann að vera hinn stolti en hún hin niðurbrotna. Áður var minnst á hve dramb hans heillaði hana í upphafi. Þótt þessi hrifning dofni í tímans rás, fegrar hún hann með fínni hætti. Hún sér hann e.t.v. skýrar síðar, en hún sér ekki heildarmyndina í raun fyrr en eftir að hún er farin frá honum. Gylling kann þó enn að haldast að einhverju leyti. Hún telur t.d. að þrátt fyrir erfiðleika hans, hafi hann mikið rétt fyrir sér og viti margt betur en aðrir. Þörfin annars vegar fyrir að fegra hann og hins vegar að gefa sjálfa sig upp haldast hér í hendur. Hún hefur eytt sínu persónulega Sjálfi að því marki að sjá hann, aðra og sjálfa sig með augum hans. Þetta síðastnefnda gerir henni einmitt mjög erfitt um vik að slíta sambandinu.

Hingað til hefur allt gengið honum í vil. En hér verða straumhvörf, sem þó eru langdregin. Sá vinningur sem hún hugðist næla sér í fellur henni ekki í skaut. Lítillækkun hennar var tæki til að ná því markmiði, að finna eigin innri einingu með því að afsala sjálfri sér og sameinast honum. Til þess að hún öðlist þessa fullnægju, þarf hann að veita þessari ástaruppgjöf viðtöku og endurgjalda ást hennar. En hér nákvæmlega bregst hann. Hann er einmitt nauðbeygður til þess, svo sem lýst hefur verið í 21. og 22. þætti. Þótt hún láti sig engu skipta hroka hans og dramb og láti sér jafnvel vel líka, óttast hún og reiðist sárlega höfnun hans og hvernig hann sveltir hana með beinum eða óbeinum hætti kynferðislega og svíkur hana um ást og blíðu.

Í henni búa nú tvær andstæður. Annars vegar er löngun til sáluhjálpar og stolt hennar, sem gerir kröfu til að hún eigi og skuli geta látið hann elska sig og hins vegar er tilhneiging til að slíta sig lausa. Eins og flest fólk á hún ekki létt með að hætta við markmið, sem hún hefur fórnað miklu til að ná. Viðbrögð hennar við misneytingu hans verða því kvíði og örvænting, væntingar að nýju og þrátt fyrir sannanir um hið gagnstæða, hangir hún í því haldreipi, að sá dagur renni upp, er hann muni elska hana.

En hér koma í ljós árekstrar, fyrst snöggir en síðar dýpri og varanlegri. Annars vegar gerir hún örvæntingafullar tilraunir til að bæta sambúðina. Fyrir henni er það hrósverð viðleitni til að rækta sambandið, en frá hans sjónarmiði aukin fjötrun. Bæði hafa á vissan hátt rétt fyrir sér. En þau missa sjónar af kjarna málsins, sem er barátta hennar fyrir hinu algóða. Hún er að reyna að geðjast honum og uppfylla væntingar hans, sjá sína eigin galla, horfa fram hjá ruddaskap hans og reiðast ekki, skilja og slétta yfir. Hún áttar sig ekki á, að viðleitni hennar þjónar röngu markmiði og hún telur hana jafnvel til “framfara”. Á sama hátt heldur hún venjulega ranglega, að honum fari einnig fram.

Hins vegar fer hún að hata hann. Fyrst er hatrið bælt, því útrás þess gerði vonir hennar að engu. Síðar kemur það til vitundar af og til leiftursnöggt. Hún fer að reiðast meðferðinni, þótt hún hiki við að játa það fyrir sjálfri sér. Hefndartilhneigingar koma nú í ljós. Hún fær reiðiköst, þar sem hin sanna reiði hennar kemur í ljós, án þess þó að hún sjái hversu sönn sú reiði er. Hún verður gagnrýnin og ekki eins viljug að láta hann hagnýta sig. Þessar hefndar og reiðitilhneigingar koma óbeint fram, í kvörtunum, þjáningu, píslarvætti, aukinni festingu. Hefndin kemur inn í markmið hennar. Hefndin leyndist alltaf undir yfirborðinu en breiðist nú út eins og eldur í sinu. Þótt hún þrái elsku hans, verður það nú að mestu með hefndarsigur að markmiði.

Þetta er að öllu leyti óheppilegt fyrir hana. Að vera skiptur í slíku örlagamáli veldur sannri óhamingju. Þar sem þetta hefndarmarkmið er óafvitað, bindur það hana enn fastar við hann, þar sem við bætist annar hvati til að vinna að “farsælli lausn”. Ef henni nú tekst að ná ástum hans, sem gæti gerst, ef hann er ekki of harður og hún snýst ekki um of gegn sjálfri sér, nýtur hún ekki ávaxtar erfiðis síns. Sigurþörf hennar og stolti er fullnægt og hún missir áhugann. Hún getur verið þakklát, virt þá ást sem henni er látin í té, en nú finnst henni það of seint. Í raun getur hún ekki elskað, eftir að stolti hennar hefur verið fullnægt.

Ef þessi viðleitni ber á hinn bóginn ekki árangur og ekkert breytist, getur það orðið til þess að hún snúist gegn sjálfri sér og þurfi að fara í gagnstæðar áttir. Þar sem hugmynd hennar um að afsala sér missir gildi sitt og hún verður þess vör, að hún láti of mikið ganga yfir sig, láti of mikla misneytingu líðast, finnst henni hún vera hagnýtt og fyrir það hatar hún sjálfa sig. Hún tekur að átta sig á því, að “ást” hennar er í raun sjúkleg festing, hvaða orð sem hún annars notar um það. Þetta er heilbrigð viðurkenning, en fyrst eru viðbrögðin sjálfsfyrirlitning. Til viðbótar kemur til að hún fordæmir eigin hefndartilhneigingar og hatar sjálfa sig fyrir þær. Loks ásakar hún sjálfa sig fyrir að geta ekki framkallað ást hans.

Hún verður vör við eitthvað af þessu sjálfshatri, en venjulega er því frávarpað á aðgerðarlausan hátt, þ.e. sú tilfinning hennar eykst hröðum skrefum, að illa sé með hana farið, hún verður píslarvottur. Þetta setur enn glufu í viðhorf hennar til hans. Aukinn fjandskapur sem stafar af að finna sig píslarvott, ýtir henni í burtu. En á sama tíma verður þetta sjálfshatur henni svo hræðilegt, að það kallar á blíðu hans og eflir um allan helming þann grundvöll sem til staðar er fyrir misneytingu hans á henni, þ.e. hún meðtekur meðferðina. Hann verður böðull sjálfseyðileggingar hennar. Hún neyðist til að vera lítillækkuð og kvalin vegna þess að hún fyrirlítur og hatar sjálfa sig.

30.6 ÚTLEIÐ.

Sá ferill, sem hér hefur verið lýst er langdreginn og átakamikill. Innra uppnám fer vaxandi. Von um fullnægju fjarar út. Reynt er af alefli að bæta sambúðina, hatrið brýst út og hefndin með sínum afleiðingum út og inn á við, þ.e. hún snýst jafnframt gegn sjálfri sér. Hið innra hugarástand verður óþolandi. Hún er komin að þeim vatnaskilum, þar sem hrökkva verður eða stökkva. Tvenns konar viðhorf ná tökum á henni. Skiptir miklu máli, hvort verður ofan á. Annað viðhorfið er að gefast upp, sem kynni að vera fýsileg lausn frá öllum árekstrum. Sjálfsvíg gæti hvarflað að henni og tilraun til þess gæti gerst. Hún gæti veikst eða kastað öllu siðferði fyrir róða. Hún gæti snúist heiftarlega gegn honum og meitt sjálfa sig meira en hann í leiðinni. Hún gæti misst áhuga á lífinu, orðið værukær, vanrækt útlit sitt og vinnu.

Hitt viðhorfið leiðir til heilbrigðis og beinist að því að koma sér út úr stöðunni. Stundum getur það, að sjá fyrir sér sjálfan sig fara í rusl, fært nægilegt hugrekki til slíks. Stundum ná bæði viðhorfin tökum á henni til skiptis. Leiðin út er mjög sársaukafull. Frumkvæði og styrkur er til þess sækja afl sitt til bæði heilbrigðra og óheilbrigðra innri þátta. Áhugi á sjálfum sér hefur vaknað. Aukin reiði verður gagnvart honum, sem stafar ekki einungis af meintri misneytingu, heldur því að finna sig svikna. Að hafa allan tímann verið að tefla tapað tafl særir stolt hennar. Hins vegar á hún í miklum erfiðleikum, hún hefur slitið sambandi við margt annað, ekki síst annað fólk. Hún er andlega skipt og henni óar við því að þurfa að standa á eigin fótum.

Að slíta sig lausa jafngildir því að lýsa sjálfa sig sigraða og enn eitt stoltið stendur í vegi þess. Hér verða hæðir og lægðir, tímabil er henni finnst hún fær um að yfirgefa hann og önnur er hún telur sig vilja láta bjóða sér allt fremur en að slíta sig lausa. Hér er í raun barátta einnar gerðar stolts gegn annarri, og hún stendur óttaslegin mitt á milli. Útkoman er ýmsu háð, þar sem flest býr í henni sjálfri, en einnig í heildarlífsstöðunni, t.d. er hjálp vinar mjög mikilvæg.

Takist henni á annað borð að slíta sig lausa, þá má spyrja hvort hún sigli ekki út úr slíku sambandi til þess eins að lenda í öðru sams konar? Verður hún á slíku varðbergi um tilfinningar sínar að henni hætti til að deyða þær allar? Þá verkar hún sem eðlileg, en er í raun dauðhrædd. Eða breytti hún sjálfri sér í grundvallaratriðum og kom út úr ferlinum sterkari manneskja? Allt þetta getur gerst. Sjálfskoðun veitir hér að sjálfsögðu mesta möguleika á að komast yfir þá erfiðleika og þætti í sjálfum sér, sem leiddi til þessarar neyðar. Með því að virkja nægilega heilbrigð öfl í þessari baráttu allri og þroskast af þjáningunni og með því að vera nægilega heiðarlegur við sjálfan sig og sýna viðleitni til að standa á eigin fótum, má ná langt í sókn til innra frelsis.

Sú sjúklega festing, sem lýst hefur verið í þessum þætti, er margbrotið fyrirbrigði. Engin einföld forskrift skýrir allt. Enginn einn þáttur veldur hér um. Sú mynd væri of einhliða. Hér er á ferðinni ferli, þar sem margir þættir koma til leiks til skiptis, eru mismikilvægir í tímans rás, efla hver annan eða standa gegn hver öðrum. Sérhver þáttur er mikilvæg skýring á heildarmyndinni, en skýrir þó ekki ástríðuna, sem ýmist logar eða brennur í glæðum. Engin ástríða er til án væntinga um fullnægju. Skiptir ekki máli á hvaða grundvelli slíkar væntingar eru byggðar. Ástríðuþátturinn verður ekki einangraður, er frekar skilinn í heildarbyggingu persónuleikans, annars vegar í áráttunni til að gefa sjálfan sig upp, týna sjálfum sér og hins vegar í þörf fyrir sameiningu, þ.e. að sameinast öðrum.