XXVIII HINN HÓGVÆRI

28.0 ANDSTÆÐAR TILHNEIGINGAR.

28.1 MINNIMÁTTARKENND.

28.2 VÍTAHRINGIR.

28.3 BÖNN.

28.4 MEIRI BÖNN.

28.0 ANDSTÆÐAR TILHNEIGINGAR.

Sú hógværð, sem rætt er um í þessum þætti, er ekki sú hógværð hjartans, sem Páll postuli ræðir um, heldur hógværð minnimáttarkenndarinnar, en minnimáttarkennd er e.t.v. mesti skaðvaldur mannlegrar veru.

Öll samkeppni leiðir til kvíða sem vekur tilhneigingu til að forðast hana. Hvað orsakar þann kvíða? Ein augljós ástæða hans er sú, að ef við veitum metnaði okkar óhefta útrás, óttumst við að svarað verði í sömu mynt, að aðrir muni hefna sín. Ef við misbjóðum öðrum, lítillækkum þá, sigrum þá, þegar þeir óska sér sigurs, þá óttumst við undir niðri að ef til vill hafi þeir jafnríka ósk til að sigra okkur. Þó er þessi ótti engan veginn næg skýring á kvíðanum og þörfinni fyrir að forðast metnað og samkeppni, jafnvel ekki hjá þeim sem nær árangri og kemst áfram á kostnað annarra.

Slíkur ótti þarf ekki að leiða til hamla. Þvert á móti. Við getum blákalt reiknað með ímyndaðri eða raunverulegri öfund, metingi og illkvittni annarra og reynt að sjá við þessu til að vernda okkur gegn ósigri. Áður hefur verið lýst persónuleikum, sem óheft sækjast eftir völdum, virðingu og fjármunum, þeim mönnum, sem kæra sig kollótta um ástúð og velvilja annarra. Þeir vænta einskis frá öðrum, hvorki hjálpar né örlætis. Þeir vita, að þeir ná því sem þeir kæra sig um með einum saman styrk sínum og erfiði. Þeir notfæra sér aðra og sækjast eftir velvild þeirra að því marki, sem það þjónar viðleitni þeirra til að ná settu marki. Allur ótti hvetur þessa menn til frekari átaka til að ná enn meiri árangri og verða ósigrandi.

Á hinn bóginn eru margir í þeirri stöðu að vilja fara í tvær áttir, sem ekki samþýðast. Annars vegar er leiðin, ég, um mig, frá mér, til mín, þ.e. leið til yfirráða með valdi eða virðingu. Hins vegar er löngun til að hafa velvild annarra og vera elskaður af sem flestum. Margir eru því á milli heims og helju og standa milli metnaðarþarfar og ástúðarþarfar. Margir óttast metnað sinn og kröfur sem þeir vilja ekki viðurkenna að þeir hafi og þeir forðast alla samkeppni. Þeir óttast að missa ástúð og velþóknun annarra. Þarfirnar kunna að vera jafnsterkar, þ.e. metnaðarþörfin og þörfin fyrir velþóknun og vináttu. Dæmið verður þá ekki leyst. Við getum ekki gengið fram af fólki og ætlast samtímis til þess, að það sýni okkur velvild. Þó reyna menn að leysa þennan vanda.

Í fyrsta lagi reyna menn að leysa vandann með því að réttlæta metnað og þörf fyrir yfirburði og yfirráð. Réttlætingin er þá eins konar herkænska. Kröfurnar eru gerðar óumdeilanlegar, svo þær komi ekki í veg fyrir velvild og ást annarra. Þegar öðrum er sýnd óvirðing eða lítillækkun til þess að yfirbuga þá í hita samkeppninnar, þá telja menn sig hlutlæga. Ef hagnýta þarf aðra, trúa menn því sjálfir og telja öðrum trú um það, að þeir þarfnist aðstoðar þeirra og hjálpar. Þótt um heiðarlegt fólk sé að ræða, er fíngerður óheiðarleiki þarna undir niðri. Þarna er á ferðinni mikil þörf fyrir réttlætingu. Hér er ekki til að dreifa sannfæringu um að hafa rétt fyrir sér, heldur þörf fyrir að sýnast svo. Þeir telja sig hreinskilna í samskiptum og ekki raga við að sýna öðrum sannleikann, þótt niðurlægjandi sé fyrir þá. Slík sjálfsréttlæting er ómissandi í baráttunni við aðra og samskiptum við þá, en einnig þarf hennar við til að sýnast óskeikull í eigin augum.

Í öðru lagi liggur fyrir sú einfalda leið, að setja metnaði sínum takmörk, hamla á móti honum. Tvenns konar ótti skapast við metnaðinn, þ.e. annars vegar við árangursleysi og mistök og hins vegar við árangur og sigur. Skal fyrst vikið að þeim fyrrnefnda.

Óttinn við mistök, árangursleysi eða ósigur er óttinn við lítillækkun. Sérhver mistök verða meiri háttar slys. Ef einhver veit ekki það sem hann á að vita, telur hann sig verða hlægilegan. Atvik, sem fæstir tengja við ósigur eða telja að hafi með ósigur að gera, vekja hugblæ ósigurs hjá viðkomandi, þar á meðal að fá slaka einkunn, vera synjað um starf, hafa ekki staðið sig í viðtali eða að halda vellukkað heimboð. Í stuttu máli allt sem ekki uppfyllir ýtrustu væntingar. Sérhver höfnun skapar fjandsamleg viðbrögð, sé litið á þau sem ósigur og lítillækkun.

Slíkur ótti magnast verulega, ef viðkomandi er hræddur um að aðrir hlakki yfir ósigri hans, vegna þess að þeir viti um metnað hans. Hann óttast aðra meira en sjálfan ósigurinn, eftir að hafa sýnt að hann hafi áhuga á að keppa að einhverju, og vilji raunverulega ná árangri. Með því að dylja slíkan áhuga finnst honum sem árangursleysi eða mistök gætu verið fyrirgefin, og frekar kallað á samúð en fjandskap. En hafi hann sýnt áhuga á árangri, er hann um leið umkringdur fjandmannahjörð, sem ógnar honum og bíður eftir að leggja hann að velli, sýni hann veikleika eða mistök.

Útkoman verður þannig mismunandi eftir því, um hvers konar ótta er að ræða. Ef óttinn er við mistök, reynir hann allt hvað hann getur til að forðast slíkt. Hann kvíðir t.d. prófum ef dæmi er nefnt eða að koma fram opinberlega og hann undirbýr sig rækilega fyrir viðfangsefni sitt. Ef óttinn snýst hins vegar um það að aðrir verði varir við metnað hans, verður annað uppi á teningnum. Innri kvíði leiðir þá til þess, að hann lætur sem hann hafi ekki áhuga og hann sýnir enga viðleitni. Þannig getur ótti, sem er sama eðlis leitt til ólíks atferlis. Annar rembist eins og rjúpan við staurinn, en hinn aðhefst ekkert til þess að sýna að hann kæri sig kollóttan um viðfangsefnið.

Venjulega verða menn ekki varir við eigin kvíða, en sjá aðeins afleiðingarnar. Þeir geta t.d. ekki einbeitt sér við viðfangsefnið, gefast fljótt upp eða sýna önnur þreytumerki sem hamla. Menn geta látist vera áhugalausir og latir, klætt sig illa eða vanrækt sig. Þá er talið öruggara að gera ekki það sem mann langar til og heilræðið er: “Ég held mig til hlés, er hógvær og umfram allt ekki áberandi”. Að vera áberandi á einhvern hátt er einmitt einkenni flestrar samkeppni. Sá sem forðast samkeppni leggur því áherslu á hið gagnstæða. Þá fylgja menn hefðbundnum háttum og siðum, halda sig fjarri sviðsljósinu og reyna að vera ekki öðruvísi en aðrir.

Með þessari tilhneigingu telja menn sig leiða hjá sér alla áhættu. Þarflaust er að benda á, að þetta viðhorf gerir lífið fátæklegra og dregur úr möguleikum. Sannleikurinn er sá, að séu kringumstæður ekki þeim mun hagstæðari, öðlast menn fátt taki þeir ekki áhættu eða sýni viðleitni.

En víkjum nú að óttanum við árangur eða sigur. Hann er fólginn í því að menn óttast öfund annarra og kunni því að verða af velþóknun þeirra. Þetta á við um hvers konar samkeppni. Stundum vita menn af þessum ótta, en yfirleitt ekki. Við segjum t.d. að við getum ekki fengist við eitthvað, af því að einhver náinn gerir það einnig. Þetta kann að stafa af óljósum ótta um að missa vin eða vini, ef árangur næst á ákveðnu sviði. Þessi ótti er oft bældur, og kemur þá fram í hömlum.

Hömlurnar koma fram með ýmsu móti, t.d. í leik, þegar viðkomandi er nálægt sigri, og eitthvað kemur til sem gerir honum það ómögulegt. Og þegar hann hefur eitthvað mikilvægt að segja eða fram að færa, þá gerist það með þeim hætti, að hik og lágur rómur kemur því ekki til skila. Hann hrósar öðrum fyrir það, sem hann hefur sjálfur unnið að mestum hluta. Hann talar gáfulega við suma en heimskulega við aðra. Hann setur sig skör lægra til að þóknast viðmælanda sínum o.s.frv. Þótt þetta valdi honum armæðu og ruglingi sér hann enga leið til úrbóta. Það gerist ekki fyrr en hann fær nokkra innsýn í tilhneigingu sína til að sveigja af og hrökkva undan, og hann uppgötvar, að þegar hann talar við einhvern sér fávísari gerir hann sig heimskari eða spili hann við sér lakari spilar hann sjálfur verr, til að særa eða lítillækka ekki mótpartinn.

Að lokum nýtur viðkomandi ekki náðum árangri, og finnst hann jafnvel ekki vera hans eigin reynsla, eða hann gerir lítið úr honum, og telur hann heppni eða vegna aðfenginnar hjálpar. Eftir að ná miklum árangri eða góðum sigri, verður hann oft miður sín og dapur, að nokkru leyti vegna ótta, en ekki síður vegna vonbrigða, sem hann viðurkennir ekki vitandi vits. Árangurinn er alltaf minni en væntingar hans og skal nú að því vikið.

28.1 MINNIMÁTTARKENND.

Staðan er þá þannig, að rík og þvingandi löngun er til að verða fyrstur í kapphlaupinu, en samtímis er jafnrík hneigð til að halda aftur af sér. Þetta gerist um leið og byrjað er á einhverju eða framfarir verða. Ef eitthvað er vel gert eða verður árangursríkt, bregst það í næsta skipti. Hverri framför fylgir afturför. Ef við viljum ná besta árangrinum en höfum jafnframt miklar hömlur gagnvart slíkum árangri, þá gerum við sama hlutinn ýmist vel eða illa. Þetta endurtekur sig stöðugt á nýjan leik og viðkomandi finnst hann berjast vonlausri baráttu við yfirþyrmandi ofurefli.

Hömlur verða með ýmsum hætti. Metnaðurinn getur verið bældur svo gjörsamlega, að viðkomandi gerir ekki tilraun til neins. Einnig gæti hann gert eitthvað, en ekki náð að einbeita sér eða koma því í framkvæmd. Þá getur hann gert eitthvað mjög vel, en ekki viðurkennt sýnilegan árangur. Að lokum getur hann náð einstökum árangri, en virt einskis, og jafnvel fundist að hann hafi engum árangri náð.

Forðast má samkeppni á margan hátt. Ein mikilvæg aðferð er sú, að skapa í ímyndun sinni slíka fjarlægð á milli raunverulegs eða ímyndaðs samkeppnisaðila, að öll samkeppni sýnist út í bláinn og er þar með þurrkuð úr vitundinni. Þetta má gera með því að setja keppinautinn á hærri stall eða sjálfan sig á lægri, þannig að sérhver tilraun til samkeppni eða hugsun um hana sýnist ómöguleg eða hlægileg. Að gera lítið úr sjálfum sér má koma til leiðar með ýmsu móti, það má t.d. hlaða aðra hrósi, til að okkar eigin “stóri” hlutur verði ekki áberandi eða gera lítið úr eigin verki til að forðast öfund annarra. Gæta verður að því, að viðkomandi hefur litla hugmynd um að hann meti sig of lítils. Hann heldur raunverulega að aðrir hefðu gert betur, að árangur sinn hafi verið tilviljun eða að hann geti ekki endurtekið það sem hann hefur gert. Hann getur líka bent á misfellu í verkinu, að það hafi tekið langan tíma og reynt þannig að láta líta svo út sem árangurinn sé enginn. Ef hann fær heimskulega spurningu, hneigist hann til að líta á það sem eigin heimsku, geti hann ekki svarað þeim. Ef hann les grein, sem honum finnst undir niðri vera óskiljanlega, hefur hann tilhneigingu til að halda fremur að eigin heimsku sé um að kenna að hann skilur ekki greinina en að hugsa sjálfstætt og gagnrýna hana. Í þessu sambandi telur hann, að hann hafi hlutlægt og gagnrýnt viðhorf til sjálfs sín.

Þessi maður lítur á eigin minnimáttarkennd sem staðreynd. Hann heldur jafnvel mjög ákveðið fram gildi hennar. Þótt hann kvarti og þjáist undan minnimáttarkenndinni, meðtekur hann ekkert sönnunargagn sem getur afsannað hana. Honum finnst hann þá ofmetinn eða hafa blekkt aðra. Kona telur sig ekki aðlaðandi, þótt hún sjái hið gagnstæða í spegli og hve menn dragast að henni. Maður getur verið sannfærður til fertugs, um að hann sé of ungur til að framfylgja ákveðnu metnaðarmáli, en eftir fertugt finnst honum hann of gamall til þess. Hól er meðtekið sem skjall eða talið stafa af annarlegum ástæðum og getur þannig bakað reiði.

Minnimáttarkenndin er einn mesti skaðvaldur mannkyns, en hún hefur ákveðnu hlutverki að gegna og þess vegna er henni viðhaldið og hún varin og vernduð. Með því að gera lítið úr sér í eigin huga og setja sig skör lægra en aðrir er metnaði haldið í skefjum, og dregið úr kvíða, sem metnaðinum og samkeppninni fylgir.

Þess ber að gæta, að minnimáttarkennd veikir okkur, því með því að gera lítið úr okkur, drögum við úr sjálfstrausti okkar. Til þess að ná árangri er ákveðið lágmark af sjálfstrausti nauðsynlegt, hvort sem menn ætla sér að matreiða ákveðinn rétt, selja vöru, verja eigin skoðun eða hafa góð áhrif á vini og vandamenn.

Sá sem hefur ríka tilhneigingu til að gera lítið úr sjálfum sér dreymir gjarnan að samkeppnisaðilar skari fram úr honum eða öllu fremur að hann eigi óhægt um vik, eitthvað sé honum fjötur um fót eða að hann búi við eitthvað óhagræði. Undir niðri vill hann fremur af tvennu illu vera sigraður en sigra.

Gæta verður sérstaklega að því, að við gerum minnst úr þeim hæfileikum og kostum, sem við viljum helst búa yfir eða hafa í ríkari mæli en aðrir. Af því sést einmitt hlutverk minnimáttarkenndarinnar að bæla metnað og draga úr samkeppni. Ef metnaðurinn og framaþörfin er t.d. á sviði vitsmuna, er lítið gert úr gáfum, ef hún er á sviði ástar, er gert lítið úr útliti og persónutöfrum. Mikilvægt er að átta sig á þessu, því með athugun á því sviði þar sem tilhneiging til minnimáttarkenndar og gervihógværðar er í fyrirrúmi, sjáum við í hendingskasti hvar metnaðurinn liggur.

28.2 VÍTAHRINGIR.

Til þessa hefur umfjöllunin um minnimáttarkennd ekkert haft að gera með raunverulega minnimáttarkennd. Við höfum einungis rætt afleiðingar þess að sveigja af, halda aftur af sér og forðast samkeppni og frama. En tengist minnimáttarkenndin ekki raunverulegum göllum og ófullkomleika? Í raun er minnimáttarkenndin afleiðing raunverulegs og ímyndaðs ófullkomleika. Minnimáttarkenndin er sambland tilhneigingar að gera lítið úr sér og viðurkenningar á ófullkomleika. Þótt minnimáttarkenndin þurfi þannig ekki að vera vísbending um að við séum minni máttar í raun, er hér mjótt mundangshófið milli ímyndunar og veruleika.

Þegar allt kemur til alls getum við ekki blekkt sjálf okkur algerlega, þótt við getum bægt úr vitund okkar og bælt ákveðnar tilhneigingar. Við vitum undir niðri um metnað okkar og jafnvel andfélagslegar tilhneigingar okkar, sem fela þarf og bæla, einnig að við erum ekki einlæg og sönn í viðhorfum okkar, að hin ytri ásýnd og tilbúningur er annað en það sem kraumar undir niðri. Óljós vitund um þetta misræmi og ósamkvæmni er mikilsráðandi ástæða minnimáttarkenndar. Þetta gildir þótt við viðurkennum aldrei ljóslega ástæður þessarar mótsagnar, af því þær eiga uppruna sinn í bældum tilhneigingum og hvötum. Við viðurkennum ekki þennan uppruna, en búum okkur til ástæður fyrir minnimáttarkenndinni, sem sjaldan er hin raunverulega ástæða hennar aðeins réttlæting.

Önnur ástæða er fyrir því, að okkur finnst minnimáttarkenndin vera bein afleiðing einhvers ófullkomleika. Vegna metnaðar höfum við búið okkur til hugmyndir um eigið gildi og mikilvægi. Við komumst ekki hjá að bera saman raunárangur við væntingar um árangur, fullkomleika og frama. Við þennan samanburð virðast raunveruleg afrek, möguleikar og geta vera lítil og léleg.

Heildarniðurstaðan af þessari tilhneigingu til að sveigja af, halda sig til baka og forðast metnað, sýnir að gengi okkar verður ekki eins gott og það ætti að vera, miðað við möguleika og hæfni. Aðrir virðast fara fram úr okkur, eiga betri frama, ná meiri árangri. Þetta á ekki aðeins við í hinu ytra lífsgæðakapphlaupi. Með aldrinum verður mönnum, ljósari munurinn á getu og möguleikum annars vegar og árangri og afrekum hins vegar. Þeim finnst gáfur sínar og hæfileikar, hverjir sem þeir eru, fara til spillis, að þeir staðni í þroska sínum, þ.e. þroskist ekki með tímanum, eins og eðlilegt er. Þessi þróun veldur sjálfsóánægju sem er raunhæf og í samræmi við þetta misræmi. Carl Gustav Jung hefur skýrlega bent á vandamál manna um fertugt, þ.e. að þeir séu þá oft staðnaðir í þroska sínum.

Mismunur á getu og árangri kann að stafa af ytri ástæðum, en mismunurinn, sem hér er rætt um, stafar af innri árekstrum og andstæðum. Með því að hafa vitund um eigin metnað og sjá að árangur verður aldrei í samræmi við væntingar vegna þeirra hamla og annarra þátta, sem ég hefi rakið, verður raunin sú, að við gerum mistök eða okkur gengur ekki eins vel og vera ætti. Misræmi getu og árangurs, sem bein afleiðing raunverulegs árangursleysis eykur aftur verulega þá minnimáttarkennd sem fyrir er. Manninum finnst hann ekki aðeins vera minni máttar, hann er í raun minni en hann gæti verið. Afleiðing þessa er afdrifarík, þar sem með þessu er lagður raunhæfur grundvöllur undir minnimáttarkenndina.

Þegar mismunur verður óbærilegur á milli metnaðar og hins fátæklega veruleika þarf að grípa til “lækninga”. “Lækningaaðferðin” ef nefna má svo, er oft fólgin í því, að í stað markmiða, sem ná má, komi mikilfenglegar hugmyndir ímyndunaraflsins. Gildi hugmyndanna er augljóst. Þær bæta upp óþolandi tilfinningu fyrir að vera ekki neitt. Í eigin ímyndun geta menn verið mikilvægir án þess að lenda í samkeppni og taka áhættu árangursleysis. Með því móti má byggja upp hugmyndir um mikilleik langt umfram hið mögulega og raunhæfa. Þessi blindgata draumóra og stórhugmynda um sjálfan sig er hættuleg, þótt hún hafi kosti umfram hinn beina veg.

Allir venjulegir menn hugsa sig einhvern tíma dásamlegri eða mikilvægari en raunhæft getur talist. En hjá flestum verða þetta eins konar huglægar skrautsýningar, sem ekki eru í raun teknar alvarlega. Hitt er verra, þegar menn telja sig vera Japanskeisara, Napoleon eða Krist og hafna öllum rökum um hið gagnstæða. Sá maður skilur ekki, að hann er sjúklingur á geðveikrahæli. Ef honum er sýnt fram á, að hugmyndir hans séu óraunhæfar, telur hann aðra hafa rangt fyrir sér, þeir séu vísvitandi að niðra hann og særa. En eru ekki margir staddir einhvers staðar milli þessara öfga?

Heilbrigð manneskja verður vör við ýkjur ímyndunaraflsins og tilhneigingu sína að gera meira úr sér en efni standa til. Henni finnst það venjulega einungis broslegt. En gætum að því, að þótt við höfnum slíkum draumórum sem óraunhæfum, hafa þeir sama tilfinningarlega gildið fyrir okkur og hinn geðveika, annars kæmu slíkar hugmyndir ekki til. Þær hafa hjá báðum, hinum veiklaða og hinum heilbrigða, hlutverki að gegna. Þótt slíkar hugmyndar séu veikburða og brothættar, geta þær engu að síður verið sú undirstaða, sem sjálfsmatið byggir að einhverju leyti á, og þá verður að halda fast í þær.

Hættan er fólgin í því, að þegar vegið er að þessum hugmyndum utan frá, geta þær hrunið og öll undirstaðan. Upp frá því getur svo farið, að hún verði ekki endurreist. Höfnun frá hinu kyninu getur t.d. leitt til óöryggis og tilhneigingar til hlédrægni af ótta við ósigur, bæði í samskiptum við það, og á öðrum sviðum. Viðkomandi kemst ekki hjá því, að verða þess var í smáu og stóru, að fjölmörg atvik eru ekki í samræmi við blekkingar ímyndunaraflsins. Menn geta því sveiflast, að eigin mati, á milli þess að vera miklir og einskis virði. Hér er um að ræða manía depressiva, geðhvörf eða geðlæti, sem eru oflæti og þunglyndi á víxl. Slík sveifla getur gerst á skemmri tíma en mínútu. Samtímis því að viðkomandi er sannfærður um einstakt gildi sitt, undrast hann að nokkur skuli taka hann alvarlega. Á sama tíma og honum finnst hann vesæll og í rusli, er hann æfur þeim, sem telur hann vera hjálpar þurfi. Hann er eins og sá sem er sár um allan líkamann og hljóðar við minnstu snertingu. Auðvelt er að særa hann. Honum finnst hann fyrirlitinn, vanræktur eða lítilsvirtur og viðbrögðin verða hefndarsigur, sem að sjálfsögðu er í réttu hlutfalli við tilefnið.

Þetta er vítahringur. Hugmyndir um eigin mikilleik veita huggun og kjark og þannig nokkurn stuðning, þótt einungis sé ímyndaður. Þessar hugmyndir auka samt sem áður tilhneiginguna til að sveigja af, aðgerðarleysis eða að draga sig inn í eigin skel, sem aftur eykur á innri reiði og kvíða. Munurinn verður sífellt meiri milli draums og veruleika. Auðvitað getur það gerst, að viðkomandi geri eitthvað jákvætt í málum sínum. Það eflir sjálfstraustið og þörfin fyrir draumóra minnkar.

Árangursleysi hvers konar, að vera eftirbátur annarra, hvort sem um er að ræða atvinnu, hjónaband, öryggi, hamingju, leiðir til bældrar öfundar. Þeim mun meira sem þessi öfund er bæld, verður henni frávarpað á aðra. Viðkomandi óttast þá öfund annarra, þegar hann telur sig eiga eitthvað umfram þá. Þessi kvíði getur orðið svo afgerandi, að honum finnst hann óöruggur, ef eitthvað gott hendir hann, svo sem ný vinna, viðurkenning, auðæfi eða farsæld í ástarmálum. Þetta getur leitt til aukinnar tilhneigingar til að vilja ekki öðlast neitt eða afreka neitt.

Vítahringurinn gæti verið eitthvað á þessa leið: Sóst er eftir völdum, virðingu eða auðæfum. Því fylgir kvíði, fjandskapur og skert sjálfstraust. Aukin ásókn í yfirburði, sem aftur leiðir til aukins kvíða og fjandskapar. Viðleitni verður til að forðast samkeppni og tilhneiging til að gera lítið úr sér. Árangursleysi verður og mistök, mismunur á milli getu og árangurs. Aukin tilfinning og þörf til yfirburða ásamt öfund. Auknar stórhugmyndir og ótti um öfund annarra. Aukin tilfinningasemi með endurnýjaðri og aukinni tilhneigingu til að forðast samkeppni. Aukinn fjandskapur og kvíði sem kemur vítahringnum af stað á ný o.s.frv.

Það er ekki víst að þetta sé nákvæmlega eins og lýst hefur verið, en þannig gæti það hafa verið hjá einhverjum. Öfgarnar sýna hið væga skýrar og skýra betur eigin vandamál okkar. Sá sem ánetjast þeim vanda, sem ég hefi verið að lýsa, er óhamingjusamur maður, sem ekki sér neina leið frá vanda sínum. Þótt aðrir sem utan við standa geti séð hvað er að gerast og þann vítahring, sem ég hefi verið að lýsa, finnst þolandanum hann vera fjötraður. Í draumi getur þetta verið kjallari með mörgum dyrum og þótt einhverjar dyr opnist er komið í enn annað í myrkt herbergi sem er læst. Á sama tíma finnst honum aðrir ganga úti í sólskini. Enginn skilur þetta ástand nema hann skynji hið lamandi vonleysi, sem það felur í sér.

Sumir, sem eru í þessari stöðu, taka það til bragðs að draga sig úr mannlífinu eða sýna yfirborðsbjartsýni. Það getur verið erfitt fyrir utanaðkomandi að sjá, að undir yfirborðinu leynist mannleg vera sem þjáist, sem finnst hún útilokuð frá öllu sem gerir lífið eftirsóknarvert, veit að jafnvel þótt hún fái það sem hún vill, geti hún ekki notið þess. Þegar maður veit um þetta vonleysi er ekki vandi að skilja ýgi og illkvittni þessarar manneskju. Sá sem er útilokaður frá allri hamingju, þarf bókstaflega að vera engill, ef hann á ekki að hata þann heim, sem honum finnst hann ekki tilheyra.

Vonleysi og öfund eru samtvinnuð fyrirbæri. Hér er ekki um að ræða öfund af sérstöku tilefni, heldur öfund til allra sem eru öruggari, njóta meira jafnvægis, hamingju, eru hreinni og beinni, og hafa meira sjálfstraust. Vonleysið, sem staðfestir eigin smæð, magnar minnimáttarkenndina, sem aftur eykur öfundina. Hvort sem viðkomandi finnur til vonleysis síns eða ekki, réttlætir hann það. Hann skellir skuldinni á sjálfan sig eða aðra eða hvoru tveggja. Ásökunum er beint að öðrum, örlögunum, aðstæðunum, ákveðnum manneskjum, foreldrum, kennurum, yfirmönnum o.s.frv. Kröfurnar á umhverfið verða þannig skiljanlegar. Viðhorfið er þetta: Úr því að þið eruð ábyrg fyrir þjáningum mínum, er skylda ykkar að hjálpa mér og ég hefi rétt á að vænta hjálpar ykkar. Að því leyti sem hann leitar orsakanna í sjálfum sér, telur hann sig ekki eiga betra skilið.

Auðvitað ásakar hann aðra ekki að ástæðulausu, þar sem honum hefur ekki verið sýnt réttlæti, einkum í æsku. En mistök hans eru fólgin í því að ekkert jákvætt kemur í stað ásakana. Þess í stað eru blindar ásakanir án greinarmunar, jafnvel á þá sem reyna að hjálpa honum. Á hinn bóginn getur hann e.t.v. ekki ásakað þá sem skaða hann hve mest.

Hefndarreiðin er alltaf bæld í þessum mönnum. En umfram allt magnar hún flækjuna og vandann. Tilfinningar vonleysis, beiskju og vonbrigða heltaka sálina. Þannig hefur metnaðurinn, sem upphaflega átti að lyfta sálinni og víkka persónuleikann, leitt til hins gagnstæða. Metnaðurinn snýst alltaf að lokum upp í andhverfu sína. Í lok 4. þáttar um metnaðinn voru sögð þessi sömu orð, en þar er einmitt tæpt á þeirri þróun, sem ég hefi hér lýst. Ég vil í þessu sambandi minna á kvæði Steins Steinars, “Í draumi sérhvers manns”, sem lýsir snilldarlega þessari þróun í hnotskurn.

28.3 BÖNN.

Í undanförnum þrem þáttum hafa verið raktar skyldur góðmennisins, hins seka og hins vinsamlega, en skyldurnar eru einkum það sem háir þessum manngerðum, skyldur eins og fullkomnun, siðvendni, reglusemi, samviskusemi og ábyrgð. Einnig koma til bönn, svo sem við skoðunum og áreitni og sterkari stöðu. Bönnin þjá fyrst og fremst hinn hógværa og þau síðastgreindu eiga einnig við hann.

Bann við að hafa eigin sannfæringu eða skoðanir, felst í því meðal annars að meta skoðanir sínar lítils eða taka þær ekki alvarlega og jafnvel undrast, ef aðrir gera það. Þessir menn eiga erfitt með að láta tilfinningar eða skoðanir sínar í ljós. Réttmæt staðhæfing eða sjálfsvörn er talin fífldjörf, t.d. að svara aðdróttunum eða aðfinnslum. Ekki má vera þóttafullur. Eins og sá seki, ásakar hann sjálfan sig frekar en aðra og rannsakar sjálfan sig vegna ásakana. Hann kemur með afsökun eða biðst afsökunar, en rannsakar ekki eigin tilfinningar, skoðanir eða mat, t.d. hvað snertir sekt eða sakleysi. Hann metur annarra skoðanir meir. Öll áleitni er honum bönnuð, óvild í garð annarra, aðfinnslur, árekstrar eða særingar, skop eða lítillækkun.

Þegar um er að ræða bann við að vera í sterkari stöðu, sérstaklega að notfæra sér aðstöðu, skapa hvers kyns forréttindi kvíða og ábyrgðarkennd. Þá ríkir óvissa undir þeim kringumstæðum, þegar eigin réttur eða réttindi eru ekki klár eða skýrt skilgreind, t.d. á heimili eða vinnustað. Jafnvel réttmæt ósk eða beiðni verkar eins og reynt sé að hagnast á viðkomandi eða hafa gagn af honum. Ekki er þá beðið um hlutina eða gefin skipun nema í afsakandi tón og með sektarkennd. Hömlur eru á að gefa fyrirskipanir. Erfiðleikar að synja erindi. Um er að ræða hjálpar og varnarleysi gagnvart fólki, sem er háð viðkomandi eða á undir hann að sækja.

Þá er framhleypni, heimtufrekja eða áleitni bönnuð. Markmiðið er að vera kröfulítill, hæverskur, hófsamur, þakklátur og fágaður í framkomu. Vera eins og mús í holu sem óttast að kötturinn éti sig.

Þá kemur til bann við óskum, þ.e. að taka eigin óskir ekki alvarlega og undrast, ef aðrir gera það. Réttmæt beiðni eða ósk er talin of djörf, t.d. að panta mat, biðja um lán, gæta réttar síns við samningsgerð, nálgast aðlaðandi persónu hins kynsins. Einnig að meta lítils eigin tíma, vinnu eða óskir.

Bann við sjálfstæði tengist öllu, sem er einungis manni sjálfum til hagsbóta, hamingju og þroska, eða uppfyllir aðeins eigin óskir. Bann er við að nota tíma og krafta fyrir sig einan og jafnan skal hjálpa öðrum fremur en sjálfum sér. Smáþúfa verður að fjalli, þegar vænst er að viðkomandi geri eitthvað fyrir sjálfan sig. Sparað er við sjálfan sig fjárhagslega og aldrei keypt það dýrasta eða besta. Bann er við að viðurkenna eignir, nema í mesta lagi óbeint, ekki tilfinningalega. Hirða við eigur sínar og sjálfan sig verður byggð á annarra áliti og kröfum. Ekki hægt að njóta fólks, náttúru, lista, skemmtunar, áhugamála, matar, drykkjar o.s.frv. nema með öðrum í persónutengslum, ástarsambandi eða öðru, er gefur neyslunni lit eða þýðingu. Sjálfsmat er algerlega háð annarra áliti. Gagnrýni, höfnun, synjun (t.d. á boði) verður stórslys. Hræðsla við leti og að nota ekki tíma, tækifæri o.s.frv. til þræla sér út fyrir gloríuna.

28.4 MEIRI BÖNN.

Hógværðin sem hér er til umfjöllunar er afleiðing sjálfsfyrirlitningar, svo sem rætt hefur verið, en sjálfsfyrirlitning fékk umræðu með öðrum hætti í 7. þætti, er fjallaði um virðinguna. Er gott að skoða hann í þessu samhengi. Með því að sjá bönnin, verður ljósar, að óyfirstíganlegar hindranir eru í veginum fyrir því að halda frekar í norður. Suður verður eina áttin, sem kleift er að halda í, og það er einmitt mikið gert, svo sem rætt verður í næstu þáttum. Það sem veldur þessu eru einkum eftirfarandi bönn.

Bann við yfirburðum og sigri. Öfugt vægi er milli árangurs og afreka, gengis annars vegar og innra öryggis hins vegar. Bann er við öllu, sem telst of dirfskufullt. Yfirburðir eru ekki fundnir tilfinningalega eða að minnsta kosti ekki sýndir. Nauðsyn er að vera númer tvö eða þrjú, því yfirburðir eru óþolandi. Ég hefi áður rætt um ótta við að sigra í leik eða keppni. Kvíði kemur upp, ef hætta er á sigri, þótt ekki finnist ósk um beint tap. Varast ber að láta bera á sér eða vera áberandi yfirleitt, t.d. að vera vel eða áberandi klæddur. Viðkomandi þorir varla að koma fram opinberlega af ótta við að vera hlægilegur. Ótti eru almenn viðbrögð við aðdáun, viðurkenningu, hyllingu, frægð, hrósi og stolti.

Bann við sjálfsviðurkenningu er að viðurkenna ekki eigin hæfileika og kosti, nema í mesta lagi óbeint og ekki tilfinningalega. Sama á við um eignir. Áberandi er gleymska á það sem vel er gert, það sem viðkomandi veit og hefur afrekað, t.d. hið góða sem hann hefur látið af sér leiða. Gert lítið úr eigin afrekum, slíkt er óttast og talað um heppni eða “að það hafi verið tilviljun” o.s.frv. Viðkomandi kannast e.t.v. ekki við afburðaþekkingu eða hugsun og hann getur síst notað hana á réttu augnabliki. Eins og áður hefur verið sagt, metur viðkomandi sjálfan sig lítils og álítur aðra merkilegri en sig, þokkafyllri, gáfaðri, menntaðri, hæfari, getumeiri o.s.frv. Trú er engin á því, að aðrir geðjist viðkomandi, t.d. að nokkur aðlaðandi af hinu kyninu geri það. Sífelldur kvíði er og undanfærsla, sem óþægindum veldur. Varnaleysi gagnvart þeim, sem koma fram við viðkomandi eða meðhöndla hann móðgandi eða lítillækkandi. Finnst hann notaður og reiðist við þá uppgötvun.

Þá kemur til bann við öllum metnaði og að ganga með reisn, að þenja og breiða úr sér. Bann við að rjúfa þær takmarkanir, sem viðkomandi hefur sett sér. Þörf fyrir að vera lítilþægur. Bann við ósk um meira eða viðleitni til að ná því. Nauðsyn til að draga sig í hlé eða vera aftar en aðrir. Réttindalaus laumufarþegi í tilverunni. Allar óskir, viðleitni eða sókn eftir meiru, verkar sem hættuleg eða skeytingalaus áskorun eða storkun örlaganna. Hræðsla við að rétta úr sér líkamlega og andlega. Öll yfirhafning bönnuð, en í þess stað vesalmannleg og auðmjúk framkoma. Aðrar persónur, kringumstæður og jafnvel eiginn veikleiki notaður sem afsökun. Tækifæri eru látin ónotuð eða ekki tekið eftir þeim. Mýfluga verður að úlfalda, þegar viðkomandi stendur frammi fyrir áhættu, óvissu eða ábyrgð. Þá kemur upp þreyta, málinu frestað, fundið til veikinda eða önnur afsökun notuð. Lélegri staða réttlætt, þótt hún sé fyrir neðan getu og möguleika.

Í 23. þætti um lífskala fjallaði ég um vonleysi í öðru samhengi. Ég hefi líka rætt það í þessum þætti, þegar ég ræddi um lífsnauð. Vonleysi getur verið fólgið banni við bata, eins konar vonleysisdómur. Um er að ræða dulvitaða ákvörðun um að halda sér niðri, þ.e. von um bata eða árangur er bæld. Þá er absolut eða algjör bati eða frelsi oft notað sem viðmiðun eða markmið. Um er að ræða algera vantrú á að maður geti leyst eigin vandamál eða stjórnað sér og málum sínum. Viðleitni til að nota eigin getu eða hæfileika til að verða meiri persónuleiki er bönnuð. Alltaf er vonað að málin leysist af sjálfu sér á réttum tíma. Forðast er tengsl við aðra eða annað, sem gæti hjálpað viðkomandi. Ekki hægt að kanna sjálfan sig nema undir þrýstingi frá öðrum eða þegar viðkomandi lendir í verulegum vandræðum. Annars finnur hann ekki tíma til þess. Honum finnst það eigingirni að eyða tíma í sjálfan sig eða eitthvað heldur honum frá því að gera slíkt yfirleitt. Gleymska og óskýr hugsun hjálpa til. Vandamálin liggja á viðkomandi eins og mara, ógnandi og skapa tilfinningu um veikleika. Hann finnur sig óaðlaðandi, lítinn og getulausan, lítilfjörlegan, heimskan, einskis virði, hjálparvana leikfang í höndum örlaganna. Eins og dæmdur, getur enga möguleika eygt til að taka örlög sín í eigin hendur. Sannanir um bata ekki teknar gildar. Eigin veikleiki svo aftur notaður sem afsökun. Einnig geta aðrar kringumstæður, tími, ákveðnar persónur eða annað verið notað í sama skyni.

Þetta er mikil upptalning, sem gerð er í því skyni að menn sjái vandamálið í skýru ljósi. Erfitt er að komast hjá vissri endurtekningu. Freistingin er að halla sér í suðurátt og leysa vandamálin með þeim hætti. Verður í næsta þætti gerð grein fyrir því.