XXVII HINN VINSAMLEGI

27.0 ANDSTÆÐUR.

27.1 UNDANLÁTSEMI OG LÍTILLÆTI.

27.2 PERSÓNULEIKALAUSN.

27.3 LAUSN Í ÖÐRUM.

27.0 ANDSTÆÐUR.

Rætt var um góðmennið í 25. þætti sem heildarpersónuleikalausn. Óhjákvæmilegt er að ræða í heild þau viðhorf, sem þar komu fram, þótt reynt verði í þessum þætti að beina athyglinni sérstaklega að hinum vinsamlega, sem skoða verður sem sérstakan persónuleikaþátt. Rétt er að byrja á að rifja upp þau heildarviðhorf, sem hafa verið til umræðu frá og með 17. þætti og skoða málin á ný í því ljósi. Við áttum okkur þá betur á andstæðunum og sérstaklega þeim persónuleika, sem fjallað er um í þessum þætti.

Í 17. til 24. þætti ræddum við um narcissus, perfektionista og þann sem haldinn er hefndarsigri, kvalalosta og dauðasýki. Hvaða viðhorf vegsama þessir menn og hvaða viðhorf fyrirlíta þeir? Hvað rækta þeir með sér og hvað bæla þeir? Þeir leitast fyrst og fremst við að ná tökum á ytra umhverfi, skara fram úr eða sýna yfirburði með einhverjum hætti. Þeir reyna að ráðskast með fólk, hagnýta sér það, ná valdi yfir því og gera það háð sér. Þessi tilhneiging lýsir sér einnig í væntingum gagnvart öðrum. Hvort sem um er að ræða aðdáun, virðingu eða viðurkenningu sem sóst er eftir hjá öðrum, hafa þeir annað hvort áhuga á að aðrir líti upp til sín eða séu sér undirgefnir.

Þessir menn eru stoltir af hæfni sinni til að fást við hið óvænta og eru sannfærðir um að þeir geti það. Allt ætti að vera þeim kleift. Þeir verða að vera herrar eigin örlaga. Hvers konar hjálparleysi er fyrirlitið. Þeir eru hið fullkomna stolta sjálf, ef svo má að orði kveða. Með viljastyrk og skynsemi eru þeir skipherrar á eigin sálarskútu. Þeir viðurkenna lítt, að með þeim blundi ómeðvituð öfl eða öfl sem ekki séu undir stjórn. Að sjá gagnstæður í eigin persónuleika, raskar ró þeirra svo að um munar. Sama gildir um sérhvern þann vanda, sem ekki verður leystur þegar í stað. Þjáning er álitin vansæmd og falin. Þessir menn viðurkenna gjarnan stolt sitt, en eru tregir til að viðurkenna að þeir stjórnist af skyldum. Ekkert ætti að segja þeim fyrir verkum. Þeir reyna að telja sér trú um, að þeir setji sér sín eigin lög og framfylgi þeim. Þeim finnst verra að finna til hjálparleysis gagnvart sjálfum sér en öðrum.

Þær manngerðir, sem við höfum fjallað um í tveim síðustu þáttum og fjöllum um í þessu og næstu þáttum, leggja áherslu á gagnstæðar tilhneigingar. Þeir sem eru þessarar manngerðar mega ekki vitandi vits finna til yfirburða gagnvart öðrum eða sýna slíkar tilfinningar í framkomu. Þvert á móti hafa þeir tilhneigingu til að vera öðrum undirgefnir, vera háðir þeim og friðmælast við þá. Mest ber á hinu gagnstæða viðhorfi gagnvart hjálparleysi. Þeim er ekki illa við hjálparleysi, rækta það frekar og ýkja óafvitað. Þeim líður illa, þegar þeir eru í yfirburðastöðu, fá aðdáun eða viðurkenningu. Þeir sækjast eftir stuðningi og hjálp, vernd og ást.

Þetta gildir einnig í eigin viðhorfi gagnvart sjálfum sér. Gagnstætt þeim persónuleikum, sem við fyrst nefndum, lifa þeir síðargreindu sífellt við tilfinningu fyrir mistökum, að eitthvað hafi misheppnast eða eigin skyldur hafi ekki verið uppfylltar, að hlutirnir hafi brugðist eða séu misheppnaðir og því er stöðugt búið við sektarkennd, minnimáttarkennd og sjálfsfyrirlitningu. Sjálfsásökunum og sjálfsfyrirlitningu er frávarpað, þannig að mönnum finnst aðrir ásaka þá eða fyrirlíta þá. Afleiðingin er sú, að allri tilfinningu fyrir yfirburðum, sjálfsfegrun, stolti og ofmetnaði er afneitað og úthýst. Hverskyns stolt er sett undir strangt og víðtækt bann. Því er ekki vitandi vits fundið til stolts, því er afneitað og því útskúfað. Þessir menn yfirbuga og undiroka þannig sjálfa sig, þeir brjóta sig niður og halda sér í skefjum. Þeir eru laumufarþegar án nokkurra réttinda. Á sama hátt er bældur allur metnaður, hefndarsigur og tilhneiging til að afla sér betri stöðu og hagnaðar. Í stuttu máli, þeir leysa eigin innri andstæður með því að bæla öll þau viðhorf, sem hafa að geyma yfirburði, sigur, völd og virðingu. Þeir gera í staðinn að eigin viðhorfum þær tilhneigingar, sem lúta að hvers konar sjálfsafneitun.

27.1 UNDANLÁTSEMI OG LÍTILLÆTI.

Lítum nánar á þann persónuleika, sem hér er til umfjöllunar. Hann forðast ákaflega allt stolt, sigur og yfirburði. Þetta sýnir sig á margan hátt, meðal annars með ótta við að vinna sigur í leik. Þegar viðkomandi verður þess var, að hann hefur náð yfirburðastöðu í leik eða er á undan andstæðingi sínum, gerir hann einhver mistök, missir boltann, leikur af sér eða missir af þeim leik, sem tryggði sigur. Auðvitað er áhugi fyrir hendi til að vinna eða verða fyrstur, en þor og kjark brestur. Þótt viðkomandi verði sjálfum sér reiður fyrir mistökin, endurtekur þetta sig ósjálfrátt og viðkomandi kann engin ráð til að koma í veg fyrir það.

Nákvæmlega sama viðhorf sýnir sig við aðrar aðstæður. Einkennandi er fyrir viðkomandi að verða þess ekki var, að hann er í sterkri stöðu eða að honum er ekki fært að notfæra sér slíka stöðu. Forréttindi verða að ábyrgð. Oft veit hann ekki af afburðaþekkingu sinni og honum er ekki kleift að notfæra sér hana á réttu augnabliki. Hann er úti á þekju, þegar réttur hans og réttindi liggja ekki ljóst fyrir, t.d. á heimili eða í vinnu. Jafnvel þegar hann ber fram fullkomlega eðlilega ósk, finnst honum sem hann sé að hagnýta sér aðra á óviðeigandi hátt. Hann heldur því aftur af sér eða biður í afsökunartón með sektarkennd. Hann er jafnvel hjálparlaus gagnvart fólki, sem er honum raunverulega háð og getur ekki varið sig, þegar það meiðir hann í umgengni. Það er ekki undarlegt þó að hann sé því fólki auðveld bráð, sem vill hagnýta sér hann. Hann er varnarlaus, verður þess var síðarmeir. Þá bregst hann við með mikilli reiði út í sjálfan sig og þann, sem hagnýtti sér hann.

Þessi ótti við sigur í stórvægilegri hlutum en leikjum, tekur til hvers konar árangurs, lofs annarra og að vera í sviðsljósi. Hann óttast ekki aðeins alla opinbera framkomu, heldur kemur og til að þegar hann nær árangri í einhverju, getur hann ekki skrifað það á sinn reikning eða viðurkennt sig vegna þess. Hann verður óttasleginn, gerir lítið úr árangrinum eða telur það heppni. Í síðargreinda tilvikinu finnst honum það hafa gerst, en ekki að hann hafi gert það. Öfugt vægi er milli ytri árangurs og innra öryggis. Endurtekinn árangur eykur ekki á öryggiskennd, heldur kvíða. Þekkt er t.d. meðal listamanna, tónlistarmanna eða leikara, að boði er hafnað vegna þessarar skelfingar.

Þá er öll hugsun, tilfinning og hegðun, sem er áberandi, djörf, frek eða óskammfeilin, sett í algert bann. Óafvitað en kerfisbundið er aukið á minnimáttarkennd og komið í veg fyrir allt sem teljast má hrokafullt, montið eða áberandi. Hann gleymir því sem hann veit, hvað hann hefur afrekað, öllu því góða sem hann hefur gert. Hann álítur það hroka að stjórna eigin málum og lífi, að fólk vilji þekkjast boð hans, að aðlaðandi stúlku líki við hann. Ef hann nær einhverjum árangri, er það vegna heppni eða blekkinga. Honum finnst jafnvel djarft að hafa eigin skoðun eða sannfæringu og lætur því gjarnan undan, án frekari umhugsunar, ef einhverju er haldið nógu sterklega fram við hann. Eins og vindhani lætur hann undan gagnstæðum áhrifum. Lögmæta og eðlilega staðhæfingu eða fastheldni á eigin skoðun telur hann óskammfeilið, einnig að svara fyrir sig, verði hann fyrir óréttmætum ákúrum, að gefa fyrirskipanir eða biðja um launahækkun, hirða um eigin rétt við samningsgerð eða leita lags við æskilega persónu af gagnstæðu kyni.

Ef eigin kostir og afrek eru viðurkennd óbeint, er ekki um tilfinningalega reynslu að ræða. “Vinir mínir telja mig góðan lögfræðing”, “nemendur hafa sagt mér, að ég sé góður kennari, en það er ekki rétt hjá þeim”. Sama gildir um eigin fjárhag. Þessir menn hafa ekki tilfinningu fyrir að eiga það fé, sem þeir hafa aflað. Ef þeir eru ríkir, upplifa þeir sjálfa sig samt sem áður fátæka. Sérhver athugun eða sjálfskoðun sýnir óttann sem liggur að baki þess konar ofurhógværð. Hann kemur í ljós um leið og þeir lyfta höfði.

Hvað sem þessari sjálfsminnkun veldur, er henni viðhaldið með öflugu banni við að yfirstíga þær takmarkanir, sem viðkomandi hefur sett sér. Hann ætti að vera ánægður með lítið. Hann ætti ekki að vilja berjast fyrir meiru. Sérhver ósk, viðleitni eða tilhneiging til að leita eftir meiru, finnst honum að bjóða örlögunum byrginn á hættulegan og ofdirfskufullan hátt. Hann ætti ekki að bæta útlit sitt eða heilsu, með megrun eða heilsurækt eða með því að klæða sig betur. Alls ekki að öðlast framfarir með sjálfsskoðun, nema hann neyðist til. Hann finnur almennt ekki tíma til slíks. Hér er ekki átt við ótta við að takast á við ákveðin vandamál, heldur eitthvað sem yfirleitt heldur honum ósjálfrátt frá slíku. Þótt hann sé sannfærður um gildi sjálfskoðunar, finnst honum það eigingirni að eyða tíma fyrir sjálfan sig.

Það sem hann álítur eigingjarnt er jafnvíðtækt og það sem hann álítur áberandi, djarft og frekt. Eigingirni felur í sér, að hans mati, allt sem einungis er fyrir hann sjálfan. Hann er fær um að njóta margra hluta, en álítur eigingjarnt að njóta þeirra einn. Hann finnur ekki hve undirokaður hann er af slíkum bönnum og telur það aðeins “eðlilegt” að vilja deila gleði með öðrum. Í raun er honum sá kostur einn nauðugur að deila ánægju og gleði með öðrum. Hvort sem er máltíð, tónlist, náttúran, missir allt slíkt lit, ef ekki er deilt með öðrum. Hann getur ekki eytt fjármunum á sjálfan sig. Níska á sjálfan sig getur verið yfirþyrmandi. Er það sláandi þegar tekið er mið af miklu örlæti hans við aðra. Þegar hann fer yfir mörkin og eyðir fé á sjálfan sig, jafnvel þótt það sé í alla staði skynsamlegt, verður honum órótt. Sama gildir um notkun á tíma og kröftum. Hann getur ekki lesið í frítíma sínum, nema það sé nytsamlegt fyrir vinnu hans. Hann finnur sér ekki tíma til að sinna persónulegum áhugamálum, nema rétt inn á milli skyldustarfa. Hann hefur ekki hirðu á persónulegum eigum, nema með einhvern annan í huga, sem virðir það. Hann vanrækir útlitið, nema þegar hann á stefnumót eða fer í boð, og þá er það annarra vegna gert. Á sama hátt eyðir hann mikilli orku og tíma í að hjálpa öðrum, en er bundinn í báða skó, þegar kemur að honum sjálfum.

Þótt mikill fjandskapur búi í honum, getur hann látið hann í ljós því aðeins að hann sé í tilfinningalegu uppnámi. Annars er hann af ýmsum ástæðum hræddur við að berjast og við hvers konar ágreining við aðra. Sumpart stafar þetta af því, að hann hefur afvopnað sjálfan sig og er því ekki vel búinn til bardaga. Hann hræðist það, að aðrir verði honum fjandsamlegir. Hann gefur því eftir, “skilur” og fyrirgefur. Þetta skilst betur af því sem síðar verður sagt um mannleg tengsl hans. Þá hefur hann sett bann á alla ýgi. Hann getur því illa sýnt að honum mislíki við einhvern eða barist fyrir hugmynd eða málstað. Vitandi vits getur hann ekki erft neitt við neinn til lengdar eða borið óvild eða kala til neins. Hefndarsigur verður þannig óvitaður og einungis látinn óbeint í ljós eða á dulinn hátt. Hann getur ekki skammað aðra svo mikið beri á eða gert kröfur til þeirra. Hann á erfitt með að gagnrýna aðra, álasa þeim eða ásaka, þótt réttmætt kynni að vera. Hann getur jafnvel ekki sett fram hnyttna, kaldhæðnislega og meinlega athugasemd um aðra í græskulausu gamni.

Ef við drögum þetta saman, er um að ræða bönn við öllu sem er áberandi, djarft, frekt, eigingjarnt eða hefur fólgna í sér ýgi. Ef við gerum okkur grein fyrir því í smáatriðum, hversu víðtæk þessi bönn eru, þá hafa þau lamandi áhrif á öll umsvif viðkomandi, alla útvíkkun eða útþenslu og sókn eftir valdi og virðingu. Ennfremur alla hæfni hans til að berjast fyrir eigin hagsmunum, verjast ágengni annarra og gæta eigin hagsmuna. Þetta gildir því um allt það sem nauðsynlegt er fyrir þroska hans og sjálfsvirðingu. Bönnin og sjálfsminnkunin hefur þannig að geyma eins konar samdráttarferil, sem skerðir andlegan vöxt.

Sú manngerð, sem við ræðum hér um getur ekki sýnt einurð, áræði, ýgi eða breitt úr sér án þess að brjóta eigin bönn. Ef þau eru brotin, kostar það sjálfsásakanir og sjálfsfyrirlitningu. Að öðrum kosti verður hann óeirinn eða fær sektarkennd. Ef sjálfsfyrirlitning er í fyrirrúmi, getur óttinn orðið hlægilegur. Þar sem maður af þessari gerð finnur sig svo smáan og óverulegan, geta viðbrögð hans við því að reyna að stíga út fyrir hin þröngu takmörk, sem hann hefur sett sér, valdið ótta við að verða að athlægi. Ef þessi ótti er meðvitaður, er honum venjulega frávarpað. Öðrum þætti hlægilegt, ef hann tæki þátt í umræðum, sækti um starf eða sýndi þann metnað að skrifa eitthvað. Þessi ótti er þó aðallega ómeðvitaður. Í það minnsta gerir hann sér ekki ljóst, hversu djúp áhrif óttinn hefur á hann. Hér er þó um að ræða mikilvægan þátt, sem heldur honum niðri. Þær manngerðir, sem við ræddum um í 17. til 24. þætti, geta aftur á móti sýnt hvers konar frekju og ágengni án þess að það hvarfli að þeim að þær séu hlægilegar.

Þar sem öll viðleitni til að gera eitthvað fyrir sjálfan sig er þannig takmörkuð, er honum frjálst að gera allt fyrir aðra. Meira að segja liggja innri skyldur hans í þá átt. Hann ætti að vera til hins ýtrasta hjálpsamur, örlátur, tillitssamur, skilningsríkur, samúðarfullur, sýna ást og fórnfýsi. Í huga hans eru ást og fórnfýsi samtvinnuð. Hann ætti að fórna öllu fyrir ást. Ást er fórnfýsi.

27.2 PERSÓNULEIKALAUSN.

Til þessa má segja, að skyldur og bönn séu í samræmi, en fyrr eða síðar koma þó í ljós gagnstæðar tilhneigingar. Við skyldum ætla, að þessi manngerð hafi andstyggð á ýgi, árásarhneigð, hroka eða hefndarsigri í öðrum. En afstaðan er tvíbent. Hún hefur andstyggð á þeim, en dáist að þeim líka leynt og ljóst. Hún gerir það án greinarmunar, þ.e. án þess að gera greinarmun á sönnu sjálfstrausti og holum hroka, raunstyrkleika og eigingjörnum ruddaskap. Þetta er skiljanlegt, því þar sem þessi manngerð þjáist undan hinni þvinguðu hógværð, dáist hún undir niðri að þeim eiginleikum, sem hana vantar eða eru henni ekki tiltækir. En þetta er ekki öll skýringin.

Dýpra í persónuleikanum leynast gildi gagnstæð þeim, sem lýst hefur verið. Þessi viðhorf blunda í manninum og hann dáist að þeim tilhneigingum í öðrum, sem hann verður svo rækilega að bæla í sjálfum sér. Hann þvær hendur sínar af öllu stolti og allri ýgi, en dáist að þessum eiginleikum í öðrum. Þetta er meginorsök ósjálfstæðisins, sem síðar verður sérstaklega lýst í sjálfstæðum þætti.

Gagnstæðurnar verða greinilegastar, þegar hin andstæðu öfl eru ekki í góðu jafnvægi. Þá ætlar hann öðrum þræði að vera algerlega óttalaus eða hagnýta sér allt og alla, svara öllum fullum rómi, sem móðga hann. Hann fyrirlítur þá allt hugleysi, óákveðni og hlýðni eða skyldur við aðra. Hann er á milli heims og helju. Hann ásakar þá sjálfan sig fyrir að vera eitthvað og svo fyrir að vera ekki eitthvað. Hann hafnar beiðni vinar og finnst hann vera fyrirlitlegur og verður við bóninni og finnst hann heigull. Ef hann segir manni til syndanna, verður hann óttasleginn og finnur sig ekki elskuverðan.

Á meðan viðkomandi sér ekki eigin andstæður og tekst ekki að leysa þær upp, verður hann að bæla þær tilhneigingar sem snúa að ýgi og árásargirni, valdi og virðingu, sem aftur veldur því, að sýna verður vinsemd og velvild. Kerfið verður þannig fast, þannig að ekki verður við því hróflað.

Sú mynd sem við fáum af þessum persónuleika er, að viðkomandi haldi sjálfum sér niðri til þess að komast hjá útþenslu eða ýgi. Ennfremur heldur hann sér í eigin hlekkjum, þar sem hann er alltaf tilbúinn til að ásaka og fyrirlíta sjálfan sig. Hann verður gjarnan óttasleginn og eyðir mikilli orku í að eyða kvíða og ótta og öðrum neikvæðum tilfinningum. Þróun persónuleika í þessa átt skilst betur, ef hugað er að myndun hans á yngri árum.

Hann hefur upphaflega leyst innri árekstra og togstreitu með því að taka stefnuna til móts við fólk, ef svo má segja. Hann snerist ekki gegn því. Narcissus fékk aðdáun í æsku og því lyftir hann sér upp, perfektionistinn var alinn upp undir ströngum stöðlum og sá er haldinn er hefndarsigri fékk slæma meðferð, var hagnýttur og lítillækkaður. Sá sem tekur stefnuna í átt til annarra, þ.e. vill geðjast öðrum, hefur oft alist upp í skugga einhvers, t.d. bróður eða systur, sem tekin var fram yfir hann, foreldris, sem aðrir dáðust að. Umhverfið var varasamt og skapaði ótta. Ástúð var fáanleg, en hún kostaði hlýðni og undirgefni. Barnið fékk e.t.v. sektarkennd, ef það sýndi foreldri ekki ástúð og umhyggju. Margar svipaðar kringumstæður geta hafa verið, sem ómögulegt er að gefa tæmandi lýsingu á.

Í mörg ár getur uppreisnarósk hafa blundað í barnssálinni samhliða þörf fyrir ástúð, sem að lokum hefur svo leitt til ákvörðunar um að bæla eigin fjandskap og gefa baráttuandann upp á bátinn. Þörfin fyrir ástúð hafði vinninginn. Skapvonskuköst hurfu og viðkomandi varð geðfelldur og hlýðinn, lærði að láta sér líka vel við alla og halla sér að þeim sem hann óttaðist mest og hjálparvana dást að honum. Hann varð ofurviðkvæmur fyrir fjandsamlegu andrúmslofti, varð að friðmælast og jafna allan ágreining. Þar sem mikilvægt varð að vinna aðra á sitt band, ræktaði hann með sér eiginleika, sem gerði hann vinsælan, velþóknanlegan og elskuverðan.

Stundum á unglingsárum komu til uppreisnartímabil, sem voru samtvinnuð miklum og þungum metnaði. En aftur á ný voru allar tilhneigingar til ýgi og upphefðar lagðar á hilluna fyrir ást og vernd. Framhaldsþróun var svo undir því komin, hversu mikil bæling var á uppreisnartilhneigingum og metnaði og hversu fullkomin sveifla var tekin í átt til undirgefni og ástúðar.

Sá vinsamlegi maður, sem við fjöllum um í þessum þætti, hefur leyst þarfir og markmið á þroskaferlinum með því að fegra eigin sjálfsmynd. Sú fegrun getur aðeins gerst með ákveðnum hætti. Hin fegraða sjálfsmynd hans hefur að geyma elskuverða eiginleika, svo sem óeigingirni, góðleika, örlæti, hógværð, göfuglyndi, samúð. Að vera hjálparvana, þjást undan óréttlátum heimi og píslarvottur er einnig hluti af hinni fegruðu sjálfsmynd. Gagnstætt þeim, sem lifir fyrir hefndarsigur, er megináhersla lögð á tilfinningar, tilfinningar gleði og þjáningar, tilfinningar ekki fyrir einstaklingum, heldur mannkyni, list, náttúru og alls konar gildum. Að hafa djúpar tilfinningar er hluti sjálfsmyndarinnar.

Skyldur, sem leiða af þessari sjálfsmynd, verða ekki uppfylltar nema að efla þá tilhneigingu sjálfsafneitunar, sem orðið hefur til við þessa persónuleikalausn. Hann verður því að þróa með sér tvíbent viðhorf til eigin stolts. Hinir göfugu og elskuverðu eiginleikar gervisjálfsins eru þau einu gildi, sem hann hefur, og þess vegna kemst hann ekki hjá að verða stoltur af þeim. Hann telur það sjálfsagðan hlut, að hann sé öðrum siðferðilega fremri. Þótt hann afneiti eigin stolti og þótt það sjáist ekki í framkomu hans, kemur stoltið fram með óbeinum hætti, þ.e. svo sem stolt sýnir sig venjulega, í særanleika, aðferðum til að bjarga andlitinu, með því að koma sér hjá ýmsu o.s.frv. Á hinn bóginn liggur í eðli málsins, að sjálfsmynd göfugleika og elsku getur ekki vitandi vits fundið til stolts. Því verður að gera gagnstæðar ráðstafanir til að þurrka allt stolt út. Þannig verður til eigið minnkunarferli, sem áður var nefnt, sem gerir hann smáan og hjálparvana. Hann gæti ekki samsamað sig við hið stolta, dýrlega sjálf. Hann getur aðeins upplifað sig sem hið niðurbeygða fórnarlamb. Hann finnur sig ekki aðeins sem smáan og hjálparvana, heldur og sekan, óæskilegan, óvelkominn eða óelskuverðan, heimskan og óhæfan. Hann er undirsáti og samsamar sig við aðra sem eru undirokaðir. Þannig má segja, að útilokun stolts úr vitundinni sé hluti af persónuleikalausninni.

Veikleiki þessarar persónuleikalausnar liggur í tvennu. Annars vegar kemur til minnkunarferill sá, sem lýst hefur verið. Með því að fela eigin kosti og getu erum við að syndga gegn sjálfum okkur. Hins vegar verður bann við allri útþenslu persónuleikans, þ.e. bann gegn ýgi, áreitni og upphefð o.s.frv. til þess, að viðkomandi verður hjálparvana bráð sjálfshaturs. Sjálfsásakanir verða miskunnarlausar. Viðkomandi sér varla samband sjálfsásakana við þann hrylling, sem hann upplifir, hann finnur aðeins að hann er óttasleginn og eirðarlaus. Hann veit að hann hefur tilhneigingu til að ásaka sjálfan sig, en án þess að skenkja því þanka heldur hann að sjálfsásakanirnar séu merki samviskusemi og heiðarleika við sjálfan sig.

Hann finnur e.t.v. að hann er of viljugur að meðtaka ásakanir annarra og gerir sér þess aðeins grein seint um síðir, að þær eru ekki á rökum reistar. Hann sér að hann á auðveldar með að ásaka sjálfan sig en aðra. Þegar hann er gagnrýndur játar hann sjálfkrafa svo fljótt á sig sök eða mistök, að hann gefur skynseminni ekkert færi á að staðreyna gagnrýnina. Hann veit ekki að hann er að beita sjálfan sig misneytingu og gera lítið úr sér. Enn síður veit hann í hve miklum mæli hann gerir það. Þetta getur komið fram í draumum, hann er þá ofsóttur og píndur í draumum.

Við sjálfsskoðun er hættan sú að slíkir menn berji sjálfan sig niður, þegar þeir sjá í sér gagnstæðar tilhneigingar, eins og fjandskap, þörf fyrir að hagnýta aðra, kvíða o.s.frv. Ástandið versnar þá gjarnan í byrjun. Þó skyldi ekki ályktað sem svo, að sjálfshatur og sjálfsfyrirliting sé meiri í þessum persónuleikum en öðrum eða verri viðureignar. Munurinn er aðeins sá að okkar persóna er hjálparlausari gagnvart sjálfsásökunum en aðrar manngerðir. Svo sem lýst var í 17. til 24. þætti, þá hafa þær manngerðir t.d. önnur ráð til að beina sjálfshatri frá sér. Hann reynir samt sem áður að forða sér frá sjálfshatri með því að uppfylla skyldur og halda bönn. Einnig notar hann ímyndunaraflið til að hjálpa sér við að fegra myndina og gera hana óljósari.

Hann getur samt sem áður ekki sneitt hjá sjálfsásökunum með því að þykjast hafa á réttu að standa. Með því myndi hann brjóta bann við hroka og sjálfbirgingshætti. Hann getur heldur ekki hatað og fyrirlitið aðra fyrir það sem hann hafnar í sjálfum sér, því hann verður umfram allt að vera skilningsgóður og fyrirgefa. Ásakanir á aðra og sérhver fjandskapur gagnvart öðrum myndi frekar gera hann óttasleginn en öruggan, vegna þess að öll ýgi, áreitni og árásargirni er bönnuð. Hann þarfnast annarra mikið og reynir því að forðast ágreining. Einnig er til þess að líta, að hann er ekki góður baráttumaður. Á það bæði við í viðskiptum hans við aðra, sem og við sjálfan sig. Hann er jafnvarnarlaus gagnvart eigin ásökunum, sjálfsfyrirlitningu, hvers konar sjálfsmisþyrmingu og árásum annarra. Hann meðtekur þær allar liggjandi. Hann meðtekur dóm sinnar eigin harðstjórnarskyldu. Það leiðir aftur til minnkandi rauntilfinningar fyrir sjálfum sér.

27.3 LAUSN Í ÖÐRUM.

Sá sem er í þeirri stöðu, sem að framan hefur verið lýst, þarfnast sjálfsverndar. Sjálfsminnkunin gegnir ekki aðeins því hlutverki að koma í veg fyrir gagnstæðar tilhneigingar, heldur og að minnka sjálfshatur. Var það rætt í síðasta þætti, hvernig reynt er að sefa eða taka broddinn úr sjálfsásökunum. “Þú segir rétt, þetta var ekki gott hjá mér, ég er svoddan asni, þetta eru allt mín mistök” og með því að vera afsakandi og hálfiðrandi, verður það til að samúð kemur frá öðrum eða að aðrir reyna að draga úr þessum sjálfásökunum. Sama gildir þegar verið er að leggja áherslu á hjálparleysi. Með því að ýkja sektarkennd eða hjálparleysi finnst mönnum þeir létta á þessum kenndum.

Einnig má draga úr innri spennu með frávarpi. Þá finnst mönnum aðrir ásaka sig, tortryggja sig, vanrækja sig, halda sér niðri, fyrirlíta sig, hagnýta sig og misnota eða sýna sér grimmd. Slíkt aðgerðarlaust frávarp er þó ekki áhrifaríkt í þessu sambandi og spillir mannlegum tengslum, sem er bagalegt fyrir þessa manngerð.

Þrátt fyrir slíka varnarhætti er hann þó í ótryggri stöðu. Hann þarf eitthvað meira til að tryggja hugarró sína. Jafnvel á þeim tímum, þegar sjálfshatri er haldið í skefjum, finnst honum allt sem hann gerir sjálfur eða fyrir sjálfan sig meiningarlaust, eigin sjálfsminnkun hans gerir hann óöruggan. Hann fylgir því gömlu venjunni, hann leitar eftir öðrum til að styrkja innri stöðu og veita sér tilfinningu fyrir því að hann sé meðtekinn eða viðtekinn, að aðrir þarfnist hans, líki við hann, elski hann, virði hann. Lausn hans liggur í öðrum.

Því eflist þörf hans fyrir aðra svo um munar. Við skiljum af hverju ást hefur svona mikið gildi fyrir þessa manngerð. Hér er orðið ást notað sem samnefnari fyrir alls konar jákvæðar tilfinningar, svo sem samúð, blíðu, stuðning, þakklæti, kynferðislega ást eða að finna sig velkominn, viðtekinn og virtan. Um ástarsamband verður fjallað í sérþætti síðar er við ræðum mannleg samskipti þessarar manngerðar.

Narcissus eða perfektionisti þarfnast annarra til staðfestingar á eigin virðingu eða valdi og vafasömum gildum. Þeir þarfnast annarra, einnig sem öryggisventils fyrir eigið sjálfshatur. En þessar manngerðir hafa greiðari aðgang að eigin getu og afli, hæfileikum og kostum, þær njóta meiri stuðnings af eigin stolti en sú manngerð sem við fjöllum um hér. Þær þarfnast því ekki annarra jafnbrýnt og í jafnríkum mæli og okkar manngerð.

Megineinkenni væntinga okkar manns af öðrum skýrist af eðli og magni þessarar þarfar fyrir aðra. Sá sem lifir fyrir hefndarsigur væntir hins versta nema hann hafi sannanir um hið gagnstæða. Intróvertinn sem er á flótta (um hann rætt síðar) býst hvorki við góðu né vondu. En okkar maður býst jafnan við góðu. Svo lítur út á yfirborðinu sem hann hafi óbilandi og óbifanlega trú á grundvallargóðsemi mannkyns. Rétt er að hann er opnari og skynjar betur en aðrir geðfellda eiginleika annarra, en af því að væntingar hans eru þvingandi getur hann með engu móti gert greinarmun. Hann gerir ekki greinarmun á sannri vináttu og eftirlíkingunni eða hreinni uppgerð. Sé honum sýndur hlýleiki og áhugi lætur hann gjarnan blekkjast. Til viðbótar segja innri skyldur honum að hann eigi að láta sér líka vel við alla og ekki að vera með tortryggni gagnvart öðrum. Þá kemur og til ótti hans við fjandskap og mögulegan ágreining eða árekstur við aðra, sem veldur því að honum yfirsést, hann bægir frá sér, gerir lítið úr, eða að hann útskýrir til hins gagnstæða upplag eins og lygar, sviksemi, hagnýtingu, grimmd og launráð.

Þegar hann rekst á slíkar tilhneigingar í öðrum verður hann alltaf jafnundrandi. Hann neitar í fyrstu að trúa því að ásetningurinn hafi verið að blekkja, lítillækka eða hagnýta. Þótt oft sé illa með hann farið og honum finnist það enn oftar, breytir það ekki þessum grunnvæntingum. Jafnvel þótt bitur reynsla hafi kennt honum að einskis góðs sé að vænta af ákveðnum manni eða hópi manna, heldur hann samt áfram, meðvitað eða ómeðvitað, að búast við því. Vinir hans geta orðið gáttaðir á þessu, einkum ef þessi blinda tekur hygginn mann, sem býr yfir góðri mannþekkingu. Tilfinningalegar þarfir víkja þannig staðreyndum til hliðar. Því meira sem hann væntir af öðrum, þeim mun fremur hefur hann tilhneigingu til að fegra þá. Hann hefur því ekki rauntrú á mannkyninu, heldur eins konar Pollyönnuviðhorf, sem valda honum oft vonbrigðum og gera hann enn óöruggari gagnvart öðrum.

En hvers væntir hann af öðrum? Í fyrsta lagi að vera meðtekinn og viðurkenndur. Hann þarfnast slíkrar viðurkenningar í hvaða formi sem til reiðu er, svo sem athygli, velþóknun, þakklæti, ástúð, samúð, ást, kynlíf o.s.frv. Með samanburði má gera þetta skýrar: Í okkar menningu finnst sumu fólki það mikils virði ef það aflar mikils fjár. Okkar maður metur hins vegar gildi sitt á mælikvarða ástarinnar, þ.e. notað í framangreindri merkingu yfir hvers konar form viðurkenningar. Hann er eins mikils virði og aðrir þarfnast hans, líkar við hann, elska hann o.s.frv.

Hann þarfnast mannlegra samskipta og félagsskapar, af því að hann þolir ekki einveru nema skamma stund. Hann finnur sig týndan, rétt eins og hann hafi orðið viðskila við lífið. Þessi sársaukafulla tilfinning er aðeins þolanleg svo lengi sem sjálfsniðurlæging er takmörkuð. Um leið og sjálfsásakanir og sjálfsfyrirlitning verður svæsin, getur tilfinningin fyrir að vera týndur orðið skelfileg og þá kemur til hamstola þörf fyrir félagsskap annarra.

Þörf fyrir félagsskap verður meiri þegar litið er til þess, að einmanaleiki er honum sönnun þess að hann sé ekki æskilegur eða eftirsóttur og það er skömm eða smán, sem halda verður leyndri. Það er vanvirða að fara einn á tónleika, í leikhús, í frí, að vera einn síns liðs yfir helgi, þegar aðrir eru í félagsskap. Þetta lýsir því, hversu sjálfstraust hans er háð því, að einhverjum sé á einhvern hátt annt um hann. Hann þarfnast annarra einnig til þess að tilgangur sé í því sem hann er að gera og hann fái lyst á því. Vinur okkar þarf einhvern sem hann getur orðið að liði eða hjálpað, kennara til að læra fyrir, viðskiptavini, sem geta treyst á hann.

Auk alls þessa þarfnast hann aðstoðar og hjálpar og það meira en lítið. Sjálfum finnst honum hjálpin innan skynsamlegra marka, sem stafar að hluta til af því að hjálparþörfin er honum ómeðvituð og að hluta af því að hann beinir athyglinni að einstökum hjálparbeiðnum, eins og þær væru einangraðar og einstakar: hjálp til að fá vinnu, tala við þessi yfirvöld, fara í búðir, eða að fá peninga lánaða o.s.frv. Ennfremur er sérhver ósk um hjálp, sem hann verður var, réttmæt að hans mati vegna hinnar miklu þarfar, sem að baki liggur. En í raun vill hann að allt sé gert meira og minna fyrir hann. Aðrir ættu að taka frumkvæðið, hjálpa honum við verk hans, taka ábyrgð, gefa meiningu í líf hans, taka líf hans yfir svo hann geti lifað í gegnum þá.

Þegar við sjáum þessar þarfir og væntingar, verður ljóst hvílíkt vald ástin hefur á honum. Hún er ekki aðeins tæki til að draga úr kvíða. Án hennar hefur hann og líf hans ekkert gildi né tilgang. Ást er því eðlislægur hluti af þessari persónuleikalausn. Fyrir honum er ástin jafnnauðsynleg og súrefnið er andardrættinum. Hann telur að lausnin komi aðeins utan frá, ekki innan frá. Óskir hans verða að kröfum, óskir um ást, ástúð, skilning, samúð og hjálp. Honum finnst að hann verðskuldi þessa hluti, hann eigi þá skilið.

Á hverju byggir hann þessar kröfur og hvernig kemur hann þeim fram? Með því að gera sig þægilegan, skilningsríkan og nytsamlegan, með því að vera heillandi, hlýðinn, tillitssamur og viðkvæmur gagnvart óskum annarra, alltaf til reiðu, hjálpsamur, fórnandi. Hann ofmetur að sjálfsögðu það sem hann gerir fyrir aðra. Hann er blindur á þá staðreynd, að hinn aðilinn kæri sig e.t.v. ekkert um alla þessa athygli hans og örlæti. Hann veit ekki að eigin óskir búa að baki þessari hegðan og hann athugar ekki þá óskemmtilegu og óþægilegu eiginleika sem hann hefur. Fyrir honum eru þetta allt vinsamlegheit, sem hann væntir að fá endurgoldin.

Aðra grundvöllun krafna verður að telja meiri þvingun fyrir aðra og skaðlega fyrir hann sjálfan. Af því hann er einmana, skyldu aðrir vera heima. Af því að hann þolir ekki hávaða, ættu aðrir að læðast um. Áherslan er hér á þörf og þjáningu. Þjáningin er óafvitað notuð til að þjóna kröfunum. Það veldur því að eigið frumkvæði til að komast yfir erfiðleikana er ekki notað og einnig að þjáningin verður óvart ýkt. Þetta merkir þó ekki að þjáningin sé sett á svið. Fremur er um að ræða, að hann verði að sanna fyrir sjálfum sér á fullnægjandi hátt, að hann eigi rétt á að orðið sé við kröfum hans. Hann verður að finna, að þjáning hans sé svo einstök og mikil, að hann eigi rétt á hjálp. Ferillinn veldur því að hann finnur ákafar til þjáningarinnar en ella, þ.e. ef hún hefði ekki óvitað öðlast hernaðargildi fyrir hann.

Þá grundvallar hann kröfur sínar á þjáningunni í þeirri merkingu, að illa sé með hann farið. Sá grundvöllur er óafvitaður og mjög skaðlegur. Honum finnst sem aðrir eigi að bæta sér það sem þeir hafi gert honum rangt til. Hér liggur hefndarsigur undir niðri. Um þessa þjáningu verður sérstaklega rætt í öðrum og síðari þætti.

Mörgum finnst að þessi persónuleikalýsing kunni að vera afar ýkt, og eiga við fáa. Svo er þó ekki. Þessi manngerð er mjög algeng. Þótt við séum ekki svona og um öfga sé að ræða, þá hjálpar lýsingin okkur til að skynja þessa þætti í sjálfum okkur. Ef þeir eru grynnri eða mildari er samt sem áður auðveldara að koma auga á þá og sjá grundvöll þeirra, þegar við sjáum öfgafulla þróun hjá öðrum.