XXVI SÁ SEKI

26.0 SEKTARKENND.

26.1 ÓTTI VIÐ VANÞÓKNUN.

26.2 VÖRN GEGN VANÞÓKNUN.

26.3 HLUTVERK SEKTARKENNDAR.

26.4 SKORTUR Á SJÁLFSFYLGNI.

26.5 MEIRA UM SEKTARKENND.

26.0 SEKTARKENND.

Við finnum ekki ósjaldan til sektarkenndar. Um það efni var nokkuð rætt í VI. kafla um lögmálið, en hér verður það tekið frá örlítið öðru sjónarhorni. Sektarkennd fylgir óuppfylltum skyldum og má segja, að einn persónuleikinn á suðvesturhorninu þjáist af sektarkennd. Sumir eru ósparir á að láta sektarkennd skýrt og greinilega í ljós, en hjá öðrum má ráða í hana af hegðun þeirra, viðhorfum, hugsunum og viðbrögðum. Hér verður lauslega drepið á nokkur einkenni sem benda til sektarkenndar.

Við réttlætum oft þjáningar okkar með þeim röksemdum, að við eigum ekki betra skilið. Þetta getur verið óljóst í huga okkar og tilfinningin fyrir þessu óljós. Slík sektartilfinning getur tengst einhverju, sem litið er hornauga í samfélaginu svo sem hatri á foreldrum, sjálfsfróun, holdlegri ást til skyldra o.s.frv. En við getum einnig fengið sektarkennd af hinu minnsta tilefni. Ef einhver vill ná tali af okkur, getum við búist við ásökunum fyrir eitthvað sem við höfum gert. Ef einhver kemur ekki í heimsókn, spyrjum við sjálfa okkur, hvort við höfum móðgað hann eða sært. Ef eitthvað fer úrskeiðis, er þegar spurt hvort maður hafi ekki gert eitthvað rangt. Þótt aðrir hafi á röngu að standa og jafnvel sýnt misneytingu, er samt verið að ásaka sjálfan sig. Ef hagsmunaárekstur verður eða deilt um eitthvað, er tilhneiging til, án umhugsunar, að telja að aðrir hafi á réttu að standa. Dæmin má nefna fjölmörg.

Það er ekki langt á milli hinnar duldu sektarkenndar, sem sætir færis að sýna sig við minnsta tilefni og dulvitaðrar sektarkenndar, sem lýsir sér í þunglyndisköstum. Þá er um að ræða miklar og ýktar sjálfsásakanir. Þegar fólk er sífellt að réttlæta sig í eigin augum og annarra, án þess að tilgangurinn sé augljós, bendir það til sektarkenndar, sem halda verði í fjarlægð. Þá má ráða í sektarkennd ef menn óttast vanþóknun eða að upp um þá verði komið. Hefi ég áður minnst á Réttarhöldin eftir Kafka í þessu sambandi. Menn taka þá hverri athugasemd frá öðrum sem ásökun og á sérhvern annmarka eða kvíða er litið sem ófullkomnun eða kjarkleysi. Þörfin fyrir fullkomnun eða “perfektionismi” verður að verulegu leyti til vegna þarfar fyrir að komast hjá vanþóknun annarra.

Sumir veita því athygli, að þegar þá hendir ógæfa t.d. þeir tapa fé eða lenda í slysi, þá líður þeim betur, ef svo má segja þótt undarlegt megi teljast. Stundum haga menn hlutum þannig meðvitað eða ómeðvitað, að þeir beinlínis kalla fram mótdræg atvik. Af þessum ástæðum hefur því verið haldið fram, að menn væru með þessu að refsa sjálfum sér til að losna við sektarkennd. Hvað sem því líður, vitum við að margir þjást af mikilli sektarkennd, sem virðist þeim mikil ánauð.

En spyrja má, er sektarkenndin raunsönn? Margt bendir til að svo sé ekki. Sektarkennd er, líkt og minnimáttarkennd, ekki ætíð óvelkomin. Mönnum er ekki alltaf mjög í mun að losna við hana, þvert á móti. Sú tilhneiging, að vilja ekki losna við sektarkennd, gegnir því mikilsverðu hlutverki. Sársaukafullt er að sjá einlæglega eftir einhverju eða skammast sín fyrir eitthvað og ekki síður sársaukafullt að láta slíka tilfinningu í ljós við aðra. Flestir gera það alls ekki af ótta við vanþóknun. Á hinn bóginn er sektarkennd oft látin óspart í ljós.

Sjálfsásakanir, sem talist geta afleiðing sektarkenndar, eru oft órökrænar. Sjálfsásakanir og jafnframt yfirlýsingar um að maður eigi ekki skilið vinsamlegheit, hrós eða frama eru ýktar og óraunsæjar. Þá er viðkomandi sjálfur oft alls ekki sannfærður innst inni um eigin óverðugheit. Það sést best á því, að þrátt fyrir mikla sektarkennd, reiðist hann því eða þykir það leitt, ef aðrir sýna tilhneigingu til að taka sjálfsásakanir hans alvarlega.

Oft virðist vera mótsögn, annars vegar í sektarkennd, sem látin er í ljós og hins vegar þeim skorti á hógværð, sem ætti að fylgja sektarkenndinni. Á sama tíma og menn segja sig óverðuga, gera þeir hið innra með sér kröfu til tillitssemi og aðdáunar. Þeir vilja ekki meðtaka hina minnstu gagnrýni. Það sem gerist er að menn telja sjálfsásakanir heiðarlega sjálfsgagnrýni. Viðkvæmni fyrir gagnrýni getur verið dulin á bak við þá trú, að hægt sé að taka gagnrýni, aðeins ef hún er látin í ljós á vinsamlegan og uppbyggilegan hátt. En þessi trú er aðeins yfirskynið eitt og stangast á við staðreyndir. Við augljóslega vinsamlegri gagnrýni, er jafnvel brugðist með reiði, því slík ráðlegging hefur að geyma gagnrýni á einhverri ófullkomnun.

Ef sektarkennd er þannig skoðuð og reynt hvort hún sé sönn eða ósvikin, verður ljóst, að flest það sem sýnist vera sektarkennd, er einhvers konar kvíði eða vörn gegn kvíða. Betra þykir að samviskan ráði en hræðsla ein. Margur maðurinn, sem lætur sem hann sé eiginkonu sinni trúr vegna samvisku sinnar, óttast aðeins eiginkonuna. Menn óttast afleiðingar gerða sinna frekar en hitt, að ósvikin innri samviska sé á ferðinni. Menn óttast refsingu, hefnd eða að verða yfirgefnir og þessi ótti er ýktur og jafnframt óljós. En hvers eðlis sem óttinn er, beinist hann að sama marki, Hann er ótti við hvers konar vanþóknun. Ef óttinn við vanþóknun jafngildir sannfæringu, má segja að menn óttist að séð verði í gegn um þá eða komið verði upp um þá.

Ótti við vanþóknun er algengur. Þótt menn séu vissir með sjálfa sig og þykist ekki láta skoðanir annarra hafa áhrif á sig, geta þeir sem best verið mjög viðkvæmir fyrir vanþóknun, gagnrýni, ásökunum eða að séð verði í gegn um þá.

26.1 ÓTTI VIÐ VANÞÓKNUN.

Svo sem lýst hefur verið á sektarkennd að nokkru leyti rót sína að rekja til kvíða. Við erum jafnan háð almenningsáliti, sem við oft samsömum eigin dómgreind. Almenn viðkvæmni fyrir vanþóknun breytist samt ekki, þótt við losnum við sektarkennd, t.d. vegna þess að við upplýsum okkur sjálf. Þannig er sektarkennd afleiðing en ekki orsök ótta við vanþóknun. Rétt er því að ræða sérstaklega um ótta við vanþóknun

Þessi óeðlilegi ótti við vanþóknun getur verið gagnvart yfirleitt öllum mönnum eða tekið einungis til vina, þótt erfitt sé stundum að gera greinarmun á vinum og óvinum. Fyrst er óttinn gagnvart hinum ytra heimi. Hann er tengdur vanþóknun annarra að meira eða minna leyti, en getur einnig flust inn í eigin hugarheim. Því meira sem það gerist, þeim mun minna máli skiptir ytri vanþóknun í samanburði við innri vanþóknun eða eigin sjálfsásakanir.

Þessi ótti getur tekið á sig margskonar myndir. Stundum finnst mönnum þeir sífellt vera að ergja aðra eða ónáða. T.d. þora þeir ekki að synja boði, vera ósammála, hafa uppi kröfur eða aðhafast neitt, sem ekki fellur inn í viðurkennda þjóðfélagsstaðla, eða vera áberandi á einhvern hátt. Eins og áður sagði finnst sumum þeir vera undir grun og óttast að fólk sjái í gegn um þá eða að komið verði upp um þá. Jafnvel þegar viðkomandi finnur, að hann fellur öðrum í geð, er samt tilhneiging til að draga sig í hlé til að koma í veg fyrir að séð verði í gegn um hann og honum hafnað. Þetta getur komið fram í tregðu til að láta aðra vita nokkuð um einkahagi hans eða í óeðlilegri reiði við meinlausri spurningu er varðar hann. Hann telur spurninguna tilraun til að njósna um einkamál hans. Þetta getur komið fram í draumi um að manni sé þröngvað til játninga og kvíðaviðbrögðum við því. Vil ég minna á bókina Réttarhöldin eftir Kafka, en hún er m.a. lýsing á þessari martröð.

Ef sektarkennd veldur ekki ótta við vanþóknun, þá má spyrja af hverju sá er sektarkennd hefur, óttast svo mjög um að upp um sig verði komið og vanþóknun annarra. Meginástæða ótta við vanþóknun liggur í þeim mismun, sem annars vegar er á milli ytri ásýndar eða þess sem Jung kallaði Persóna, þ.e. þeirrar hliðar sem viðkomandi sýnir sjálfum sér og öðrum, og hins vegar hinna bældu tilhneiginga, sem liggja að baki ásýndarinnar.

Þótt menn þjáist meir en þá grunar, af því að þeir eru ekki sáttir við sjálfa sig, fyrir alla þá uppgerð, sem þeir verða að sýna, verða þeir engu að síður að halda uppi vörnum fyrir þessi látalæti af öllum mætti. Ástæðan er sú, að ásýndin ver þá gegn kvíða. Þegar við sjáum, að það sem fela þarf myndar grundvöll óttans við vanþóknun, skiljum við betur, að þótt sektarkennd minnki, heldur óttinn engu að síður áfram að vera viðloðandi. Meira þarf að breytast. Einfaldlega er það óheiðarleiki persónuleikans, sem er ábyrgur fyrir óttanum við vanþóknun, og það er þessi óheiðarleiki, sem mönnum stendur ógn af að verði uppgötvaður.

Hver er uppistaða þess sem halda skal leyndu? Í fyrsta lagi að fela allt sem kalla mætti ýgi, áreitni, fjandskap og reiði. Einnig alla hefnd, öfund og löngun til að lítillækka o.s.frv. svo og allar leyndar kröfur á aðra. Í stuttu máli, viðkomandi vill ekki standa á eigin fótum. Hann vill ekki hafa frumkvæði að því sem hann æskir að ná og öðlast, heldur lifa með einhverjum hætti á öðrum, með valdi yfir þeim, með því að hagnýta þá eða með því að öðlast blíðu og ást og gefa sig öðrum á vald, svo eitthvað sé nefnt. Ef fjandskapur eða kröfur eru uppgötvaðar, kemur til kvíði, ekki vegna sektarkenndar, heldur vegna þess að hann sér að möguleikar hans á stuðningi eru í hættu.

Í öðru lagi vill hann fela, hve honum finnst hann veiklunda, öryggislaus og hjálparvana, hve lítið hann getur látið til sín taka og hversu kvíðinn hann er. Þess vegna byggir hann upp ásýnd styrkleika. Það leiðir aftur af sér, að því meira sem hann horfir til styrkleika og byggir stolt sitt á því, þeim mun meir verður sjálfsfyrirlitning hans. Hann finnur ekki aðeins hættuna af eigin veikleika, heldur finnst honum allur veikleiki, sinn og annarra, fyrirlitlegur. Hann flokkar undir veikleika sérhverja ófullkomnun, hvort sem um er að ræða að vera húsbóndi á eigin innra heimili, erfiðleika á að komast yfir eigin innri takmarkanir, að þurfa að þiggja hjálp annarra og hafa kvíða. Þar sem hann fyrirlítur slíka veikleika í sjálfum sér og heldur að aðrir muni fyrirlíta hann að sama skapi, ef þeir vissu um þessa veikleika hans, gerir hann örvæntingarfullar tilraunir til að fela þá. Alltaf varir þó ótti við að séð verði í gegnum hann fyrr eða síðar. Kvíðanum er því ekki eytt.

Sektarkennd og sjálfsásakanir, sem henni fylgja, eru því ekki orsök heldur afleiðing ótta við vanþóknun. Sektarkenndin er einnig vörn gegn þessum ótta. Verður nú að því vikið.

26.2 VÖRN GEGN VANÞÓKNUN.

Hvernig er sektarkennd vörn gegn ótta um vanþóknun? Með tvennum hætti. Hún kallar á viðbrögð huggunar frá öðrum og hylur raunvandan móðu, ef svo má að orði komast. Þetta sést best með einföldu dæmi. Einhver ásakar sig upphátt fyrir vanþakklæti. Aðrir sem hlusta á segja ásökunina ómaklega og veita huggun. Við sjálfsskoðun kemur í ljós þörf fyrir að hagnýta sér aðra. Ásökuninni var dulvitað ætlað að beina athyglinni frá þeirri hneigð. Með sjálfásökunum beinum við gjarnan athyglinni frá kjarna málsins og okkur sjálfum, að einhverju öðru, sem við höfum oft lítið vald yfir. Við útvegum okkur einnig jákvæðar undirtektir og huggun með því að fá annað fólk til að álykta gegn fullyrðingum okkar. Sjálfsásakanir auka sjálfsvirðinguna, jafnvel þó enginn sé viðstaddur, því að þær ganga út frá hvössum siðferðisstaðli, þar sem við ásökum okkur fyrir yfirsjónir eða galla sem öðrum yfirsést. Við erum þess vegna dásamlegar manneskjur. Ásakanirnar eru líka léttir, af því þær snerta ekki kjarna málsins eða ástæður sjálfsóánægjunnar. Þær halda þar með leyndum dyrum opnum gagnvart þeirri skoðun, að við séum nú ekki svo slæm, þegar öllu er á botninn hvolft.

Í þessu sambandi er vert að athuga, að vörn gegn vanþóknun getur einmitt verið gagnstæðan við sjálfsásakanir. Perfektionisminn gegnir sem sé sama hlutverki, þ.e. að sjá alla gagnrýni fyrir og koma í veg fyrir hana, vera alltaf réttstæður, hafa alltaf rétt fyrir sér og vera fullkominn í hvívetna, svo að engin gagnrýni geti sært mann. Um perfektionisma er fjallað í 19. og 20. þætti. Það viðhorf krefst þess, að viðkomandi hafi rétt fyrir sér í smáatriðum. Annars er sú hætta fyrir hendi, að allt sem viðkomandi aðhefst sé rangt. Að vera annarrar skoðunar, jafngildir þá gagnrýni. Sama gildir einnig um þá, sem fara beint í vestur. Þar er um að ræða gerviaðlögun. Þá er gengist upp í því að vera “normal” í eigin og annarra augum eða að öllu leyti eins og umhverfið ætlast til. Í þessu fólki býr mikill ótti við vanþóknun annarra og að séð verði í gegn um það.

Ein leið til að komast hjá vanþóknun felst í því að gera sér upp vanþekkingu, veikindi og hjálparleysi. Sumir stunda þá kænskulist, að gerast órökrænir og barnslegir til að leggja áherslu á, að þeir skuli ekki teknir alvarlega. Þeir geta líka neitað að taka sjálfan sig tilfinningalega alvarlega. Ef hjálparleysi dugar ekki til að afsaka sig, geta veikindi gert það. Velþekkt er að veikindi geti þjónað því hlutverki að koma sér hjá erfiðleikum. Jafnframt geta veikindin þjónað þeim tilgangi að koma í veg fyrir að viðkomandi geri sér grein fyrir að ótti hindri hann í að taka á vandanum eins og vera ber. Þannig getur smámagaveiki afsakað aðgerðarleysi, veitt fjarvistarafsökun og menn þurfa þá ekki að horfast í augu við eigið hugleysi.

Þá er mikilvæg vörn gegn vanþóknun sú velþekkta aðferð að gera sig að fórnarlambi. Með því að þjást undan öðrum verður komist hjá ásökunum fyrir eigin tilhneigingar til að hagnýta sér aðra. Með því að líta á sig sem vanræktan er hægt að komast hjá ásökunum um að vilja eigna sér aðra og láta þá þjóna sér. Ef manni finnst aðrir ekki hjálpsamir, er hægt að komast hjá því að sjá eigin tilhneigingar til að knésetja þá. Þessari tækni, sem fjallað er um í 12. þætti um suðvestanáttina, verða gerð nánari skil síðar. Hér er um að ræða áhrifaríkan varnarhátt. Hann má nota til að komast hjá ásökunum samtímis því að ásaka aðra.

26.3 HLUTVERK SEKTARKENNDAR.

Við höfum áður rakið, að sektarkennd þjóni þeim tilgangi að vernda viðkomandi gegn ótta við vanþóknun og að fá huggun eða viðurkenningu á því, að hann sé ekki eins slæmur og hann telji sjálfur. En mikilvægasta hlutverk sektarkenndar er samt sem áður að fyrirbyggja, að menn sjái nauðsyn breytinga eða öllu fremur að sektarkenndin komi í stað breytinga. Við eigum erfitt með að breyta okkur innan frá, eftir að vissum þroska er náð. Við sjáum ekki nauðsyn á breytingum auk þess að viss viðhorf koma til vegna kvíða. Við óttumst breytingar og reynum að komast hjá því að horfast í augu við nauðsyn þeirra. Ein aðferðin til að komast hjá breytingum er að halda það í laumi, að með sjálfsásökunum sé hægt að sleppa við breytingar. Þetta er algengt í daglegu lífi. Ef við sjáum eftir að hafa gert eitthvað eða okkur hefur mistekist eitthvað, viljum við eftir á bæta eða breyta þeim viðhorfum okkar, sem leiddi til verknaðarins, en sökkvum okkur ekki í sektarkennd. Ef við á hinn bóginn sökkvum okkur í sektarkennd sýnir það að við flýjum það erfiða viðfangsefni að breyta okkur. Það er einmitt mun einfaldara að fyllast iðrun en breyta sér. Þetta skyldum við muna næst, er við fyllumst iðrun.

Önnur aðferð til að komast hjá því að sjá nauðsyn breytinga er eins konar vitsmunahyggja, sem felst í því að gera vandamálið að vitsmunalegu vandamáli, draga fram vitsmunalegu hliðina á því og taka það vitrænum tökum. Margir fá mikla vitsmunalega fullnægju í því að afla sér sálfræðilegrar þekkingar eða mannþekkingar, meðal annars þekkingar á sjálfum sér. En hér er látið staðar numið. Hin vitsmunalega þekking er síðan notuð sem vernd eða skjöldur, sem kemur í veg fyrir að nokkuð sé tilfinningalega upplifað og að menn geri sér ljóst, að breytingar sé þörf. Það er eins og menn horfi á sjálfa sig og segir sem svo: Þetta er áhugavert.

Sjálfsásakanir gegna einnig því hlutverki að koma í veg fyrir að ásaka aðra, af því að mönnum finnist öruggara að taka á sig sökina. Hömlur á því að gagnrýna og ásaka aðra efla tilhneigingar til sjálfsásakana. Slíkar hömlur eiga sér venjulega langa sögu. Barn sem alið er upp í umhverfi eða andrúmslofti ótta og haturs, og setur skorður á eigið sjálfsmat, ber djúpt í sér tilfinningu ásakana gagnvart umhverfinu, en getur samt sem áður ekki látið þær í ljós. Ef ógnun er mjög þrúgandi, þorir barnið jafnvel ekki að verða þessara tilfinninga vart, þ.e. í vitundinni. Slíkur ótti stafar að hluta til af ótta við refsingu en ekki síður af ótta við að missa velþóknun og ástúð, sem er svo nauðsynleg. Þessi viðbrögð eru raunhæf, því foreldrar sem slíkt andrúmsloft skapa, geta venjulega ekki tekið gagnrýni. Menningin leggur líka áherslu á, að foreldrar séu óskeikulir. Þeirra er valdið og þeim ber að hlýða.

Þegar mannleg samskipti eru háð valdboði verður tilhneiging til að banna gagnrýni, svo að ekki verði grafið undan valdinu. Um opinbert bann getur verið að ræða að viðlagðri refsingu, en einnig getur verið um að ræða mun áhrifaríkara bann með þögninni eða á siðferðilegum forsendum. Gagnrýni er þannig kæfð, ekki aðeins vegna tilfinningasemi foreldranna, heldur einnig vegna þess að í menningu okkar er boðað, að ekki sé við hæfi að gagnrýna foreldra, sem aftur veldur því, að börnum finnst að með gagnrýni séu þau að drýgja synd. Ef barnið gerir uppreisn gegn þessu, kemur aðeins bakslag og meiri sektarkennd. Sé um mikla ógnun að ræða fyrir barnið, þá þorir það ekki að sýna reiði eða fjandskap og smátt og smátt dirfist það ekki að hugsa til þess, að foreldrarnir hafi á röngu að standa. Einhver hefur þó samt sem áður rangt fyrir sér og því er sú niðurstaða nærlæg, að úr því að foreldrar hafi alltaf á réttu að standa, hljóti barnið að hafa á röngu að standa. Þessi þróun gerist ekki vitsmunalega, heldur tilfinningalega. Hún gerist ekki með hugsun heldur af ótta.

Þannig byrjar barnið að finna til sektarkenndar, nánar til tekið það þróar með sér tilhneigingu til að leita og finna frekar galla eða rangstöðu hjá sjálfu sér. Það vegur ekki og metur bæði sjónarmiðin eða lýtur hlutlægt á málavöxtu. Sjálfsásakanir geta þannig leitt til minnimáttarkenndar í stað sektarkenndar. Þarna getur verið um stigsmun að ræða, sem gerir þó eðlismun, magn verður gæði. Þetta fer eftir siðferðishugmyndum umhverfisins. Stúlka, sem sett er á lægri skör en systir hennar en sættir sig við þá óréttlátu meðferð af ótta einum saman, getur bælt með sér þær ásakanir, sem hún ber til annarra. Í stað þess telur hún sér trú um, að hin óréttláta meðferð sé réttmæt, þar sem hún sé minna virði en systirin (ekki eins falleg eða vel gefin) eða hún getur álitið að hún sjálf sé slæm stúlka. Í báðum tilvikum tekur hún sökina á sjálfa sig, í stað þess að gera sér grein fyrir að henni er gert rangt til.

Þessi viðbrögð þurfa ekki að vera varanleg. Viðhorfin geta breyst, ef þau eiga sér ekki of djúpar rætur, meðal annars við breytingu á umhverfi eða komi aðrir til, sem virða barnið og styðja það tilfinningalega. Eigi slíkar breytingar sér hins vegar ekki stað, helst við tilhneigingin til að breyta ásökunum í sjálfsásakanir og verður sterkari. Reiði út í heiminn vex af mörgum ástæðum og jafnframt óttinn við að láta reiðina í ljósi. Þar kemur til óttinn við að séð verði í gegn um mann og að aðrir séu jafnviðkvæmir í því tilliti.

26.4 SKORTUR Á SJÁLFSFYLGNI.

Þótt sögulegar ástæður viðhorfs séu þekktar, nægja þær ekki til að skýra viðhorfið. Meginspurningin er, af hverju er viðhorfið við líði í dag? Nokkrar ástæður eru fyrir því, að fullorðinn maður á erfitt með að gagnrýna og ásaka aðra.

Ein ástæðan er skortur á sjálfssprottinni sjálfsfylgni, ef svo má að orði kveða. Flest eigum við auðvelt með að verja skoðanir okkar, þegar deilt er, vísa á bug óréttmætum ásökunum annarra, áreitni og áleitni, andmæla svikum og vanrækslu, hafna boði, ef við kærum okkur ekki um það eða aðstaðan leyfir að verja skoðanirnar að öðru leyti. Við látum í ljósi gagnrýni, ásökum aðra og höfnum þeim, ef við viljum svo við hafa. Við getum varist og sótt án óeðlilegrar taugaspennu og þrætt meðalveginn milli ýktra sjálfsásakana eða óeðlilegrar ýgi gagnvart öðrum, þ.e. án óréttmætra og heiftarlegra árása á umhverfið. Sumir geta samt sem áður ekki ratað þetta meðalhóf. Til þess þarf að vera laus við dulvitaðan fjandskap og hafa tiltölulega öruggt sjálfsmat.

Þegar þessa sjálfssprottnu sjálfsfylgni vantar, er afleiðingin tilfinning fyrir veikleika og varnarleysi. Maður sem veit, þótt hann hafi ekki leitt hugann að því, að hann getur bæði sótt og sýnt sjálfsfylgni og varið sig, ef því er að skipta, finnur sig sterkan. Sá sem hefur tilfinningu fyrir því að hann geti þetta ekki, finnur sig máttvana. Við skráum innra með okkur, líkt og í minni tölvu, hvort við höfum hætt við röksemd af ótta einum saman eða af skynsamlegum ástæðum, hvort við höfum meðtekið ásökun vegna eigin veikleika eða af réttlætiskennd, jafnvel þótt við í þessum tilvikum blekkjum vitundina. Slík veikleikakennd er stöðug skapraun. Okkur verður þungt í skapi, ef við getum ekki varið málstað okkar eða látið í ljósi gagnrýni.

Önnur mikilvæg hindrun nátengd grunnkvíðanum, sem áður hefur verið ræddur, kemur í veg fyrir gagnrýni og ásakanir á aðra. Ef hinn ytri heimur er álitinn fjandsamlegur og maður finnur til hjálparleysis gagnvart honum, þá virðist það glannaskapur að skaprauna fólki. Þá liggur fyrir margræddur ótti um vanþóknun eða að minnsta kosti að missa blíðu og stuðning annarra í einni eða annarri mynd. Viðkomandi heldur að tengsl annarra við hann, séu jafnbrotgjörn og hans eigin. Hann telur því hættu á að verða hafnað algerlega, ef hann skapraunar öðrum. Hann heldur einnig að aðrir séu jafnhræddir og hann sjálfur við að séð verði í gegn um þá og þeir gagnrýndir. Þess vegna meðhöndlar hann þá jafn mjúklega og hann ætlast til að þeir meðhöndli hann.

Hvenær lætur sá ásakanir sínar í ljós, sem haldinn er mikilli sektarkennd? Þegar örvænting grípur hann, t.d. þegar hann telur sig ekki hafa neinu að tapa, honum verði hafnað hvort sem er. Þetta getur gerst þegar vinsemd hans er hafnað. Hann getur hellt úr skálum reiði sinnar í einni allsherjargusu eða í smærri skömmtum á lengri tíma. Hann meinar það sem hann segir og væntir að aðrir taki hann alvarlega, en vonar samt sem áður að þegar þeir sjái hversu mikil örvænting hans er, muni þeir fyrirgefa honum. Jafnvel þótt engin örvænting sé í spilinu, getur svipuð uppákoma orðið, ef ásakanir varða þá menn sem hann hatar vitandi vits og hann væntir einskis góðs frá.

En ekki er alltaf slík einlægni í spilinu. Ef hann heldur að séð verði í gegn um hann eða hann á von á ásökunum, getur að hans mati árás verið besta vörnin. Slíkar árásir eru gerðar blint, þ.e. ekki liggur fyrir sannfæring um réttmæti þeirra. Þær eru gerðar til að forðast yfirvofandi hættu, tilgangurinn helgar meðalið. Þótt ásakanirnar hafi raunhæfan grunn eru þær ýktar og fjarstæðukenndar. Undir niðri trúir viðkomandi ekki á þær, býst jafnvel ekki við að þær verði teknar alvarlega og undrast jafnvel, ef svo er gert, t.d. ef aðrir fara að rökræða ásökunina eða láta í ljós særindi.

Þannig er þverstæðan í persónuleikanum. Ekki er kleift að gagnrýna, þó viðkomandi sé fullur af ásökunum á aðra. Þær ásakanir sem látnar eru í ljós hafa óraunsætt yfirbragð, eru óbeinar eða með öðrum hætti, sem gerir viðkomandi kleift að vita ekki af þeim. Þær koma óvart og er beint að öðrum en þeim sem ætlunin er að ásaka eða að kringumstæðum eða örlögum yfirleitt. Einnig er þjáningin notuð til að ásaka aðra. Þegar lítill ótti er við að ásaka aðra er sagt sem svo: “sjáðu hvað þú lætur mig þjást”. Með slíkri ásökun má einnig ávinna sér samúð og jafnvel blíðu, eða í öllu falli einhverjar sárabætur. Þegar fólk er sífellt að ásaka sjálft sig eða aðra, er það milli heims og helju og býr við óvissu um hvort gagnrýnin sé réttmæt. Þegar maður veit, að sumar ásakanir hans orka tvímælis verður hann óviss um hvort ásakanir annarra séu réttmætar. Hann er á hálum ís.

Þegar litið er til þess, sem rakið er hér að framan, er ljóst að spyrja má sig margra góðra spurninga, finni maður til sektarkenndar. Ég hefi bent á það í 6. kafla um lögmálið, að sektarkennd kemur fyrst og fremst af því að við uppfyllum ekki eigin innri kröfur um þá sjálfsímynd, sem við viljum vera eða ættum að vera, innri skyldur og markmið. Til viðbótar má spyrja. Hvert er hlutverk sjálfsásakananna? Koma þær til vegna ótta við vanþóknun? Eða sem vörn gegn þeim ótta? Eru þær vörn gegn því að ásaka aðra? Erum við ekki með sjálfsásökunum að komast hjá því að sjá okkur eins og við erum, sætta okkur við það og sjá nauðsyn grundvallarbreytingar?

26.5 MEIRA UM SEKTARKENND.

Menn hafa sektarkennd af ótal ástæðum. Þeir hafa sært einhvern, verið lúalegir, nískir, óheiðarlegir, eyðilagt fyrir öðrum, hafa verið latir, óstundvísir, ekki stundað heilsurækt, ekki klætt sig rétt, misskilningur hefur verið þeim að kenna, ekki hlustað nægilega vel o.s.frv. Viðkomandi getur endalaust velt vöngum yfir því, hvað hann hefði átt að segja, gera eða ekki gera. Tilgangslítið er að lýsa innihaldi slíkra hugleiðinga. Hægt er að velta því fyrir sér klukkustundum saman, hvað viðkomandi sagði, hvað aðrir sögðu, hvort slökkt hafi verið á eldavélinni eða dyrum læst og tjón hafi orðið. Sjálfsásakanir eru algengari en menn vilja vera láta. Menn eru t.d. almennt viðkvæmir fyrir gagnrýni eða vanþóknun annarra. Mikið er á sig lagt til að gera ekki mistök og vera löghlýðinn. Ótti við gagnrýni stafar oft af vondri samvisku. Að játa syndir sínar er talið göfugt.

Það er almenn skoðun, að menn fái sektarkennd, ef brotin eru bönn eða siðferðilegir staðlar, sem viðurkenndir eru af umhverfinu eða þjóðfélaginu, sem viðkomandi lifir í, og að sektarkenndin sé sú sársaukafulla reynsla eða trú, að slíkt brot hafi átt sér stað. En sumir fá sektarkennd af því að hjálpa ekki vini sínum í vandræðum eða af því að halda fram hjá makanum, en aðrir ekki. Því verður að bæta við, að hin sársaukafulla reynsla sektarkenndar varðar brot á þeim stöðlum, sem hver einstaklingur viðurkennir. Er sektarkennd þá sönn tilfinning? Ef fyrir liggur alvöruósk um að bæta sig, er það vísbending um sanna tilfinningu. Hvort slík ósk er fyrir hendi fer að miklu leyti eftir mikilvægi staðalsins fyrir viðkomandi og hagnaði þeim, sem hann telur sig hafa af broti á honum. Þegar staðlarnir taka aðeins til ásýndar sem þjónar ákveðnum tilgangi, hefur brot á þeim ekkert með sektarkennd að gera, heldur fölsun eða eftirlíkingu sektarkenndar.

Ofurviðkvæmni fyrir gagnrýni stafar venjulega af því, eins og áður er rakið, að munur er á þeirri ásýnd fullkomnunar, sem við viljum hafa og þeim ókostum og göllum, sem að baki búa. Þar sem ásýndin þarf að standast, veldur allt sem gefur tilefni til að vefengja hana ótta og skapraunar okkur. Auk þess eru staðlar fullkomnunarinnar bundnir stolti, gervistolti sem kemur í stað raunverulegrar sjálfsvirðingar. Menn eru stoltir af stöðlum sínum og finna gjarnan til yfirburða vegna þeirra. Mönnum er því lítillækkun í gagnrýni.

Sjálfsásakanir eru óhjákvæmileg afleiðing þess að þurfa að virðast fullkominn. Ef mikilvægt er fyrir einhvern að vinna skák, verður hann reiður við sjálfan sig, ef hann leikur afleik. Ef einhver þarf að koma vel fyrir sjónir í viðtali, verður hann reiður við sjálfan sig, ef hann gleymir að minnast á eitthvað, sem hann hefði getað slegið sér upp á. Hann skammar sig einnig eftir á fyrir að hafa ekki minnst á þetta atriði. Að sýna fullkomnun er því mikilvægt. Ef það bregst er hætta á ferðum. Menn ásaka sig fyrir að setja þau markmið í hættu, sem mikilvæg eru þeim persónulega.

Þá kemur það til, sem áður hefur verið minnst á, að hræðslan við að aðrir sjái að ásýndin sé ekkert nema ásýnd, getur leitt til þess að ásaka sjálfan sig til að koma í veg fyrir að aðrir geri það. Aðrir sjá þá, að honum sé alvara og veita þannig huggun. Þessa tækni má gjarnan sjá hjá börnum. Sá sem ásakar sig þannig, getur samt orðið öskuvondur, ef hann síðan er gagnrýndur. Þá getur sóknin orðið besta vörnin og sá seki ræðst þá á aðra. Stundum er þó hræðslan við að gagnrýna aðra það mikil, að menn taka sökina á sig.

Margar ástæður eru til þess að við erum reið út í aðra. Við væntum mikils af öðrum og okkur þykir illa með okkur farið, ef ekki er orðið við væntingum okkar. Við erum háð öðrum en reiðumst því samt að vera bundin. Okkur hættir til að ýkja kosti okkar og réttlæta okkur. Við erum misskilin, vanvirt og gagnrýnd með óréttmætum hætti. Með því að ásaka aðra, komumst við hjá að skoða sjálf okkur. Við erum alsaklaus, en illa með okkur farið, okkur er gert illt o.s.frv.

Á sama hátt eru margar ástæður til þess, að við bælum þessar ásakanir okkar á aðra. Við erum hrædd, við erum öðrum háð, þurfum vernd þeirra, hjálp og skoðanir. Við verðum að sýnast skynsöm eða setja upp vitsmunalega ásýnd. Þannig getur reiði hlaðist upp innra með okkur. Hún getur orðið að hættulegri tímasprengju, sem aftur leiðir til þess að nota verður sífellt meira afl til að halda henni í skefjum. Þá koma sjálfsásakanir að góðu haldi. Þessi þörf fyrir að halda aftur af sér og gagnrýna ekki aðra, veldur því að erfitt er að meta aðra á gagnrýninn hátt og eykur því á hjálparleysi gagnvart þeim. Þessi aðferð, að beina ásökunum á aðra, að sjálfum sér, er byggð á því “heimspekiviðhorfi” að einhvern verði að ásaka, ef eitthvað mótdrægt gerist.

Ef menn ætla sér að vera óskeikulir, geta þeir alltaf vænst mistaka. Undir niðri óttast þeir því sífellt mistök. Þeir eiga erfitt með að taka mótlæti með jafnaðargeði. Þeir vilja ekki viðurkenna, að lífið sé óútreiknanlegt, að það sé hættuspil, fullt af heppni og óheppni, ófyrirsjáanlegum erfiðleikum, áhættu og flækjum. Sumir halda að lífið sé útreiknanlegt og að hægt sé að ná valdi yfir því. Þeir telja því, að einhver eigi sök, ef eitthvað fer úrskeiðis. Með því móti er mögulegt að komast hjá þeirri hræðilegu upplifun, að lífið sé óútreiknanlegt og enginn nái valdi yfir því. Ef slíkir menn hættu að ásaka aðra, yrðu þeir að ásaka sjálfan sig.

Greinilegt er að þær tilhneigingar, sem lýst er að framan, eiga ekkert skylt við sektarkennd. Hér er um uppgerð og fölsun að ræða. Við skyldum athuga þá ásýnd, sem við setjum upp, ímyndina sem við viljum vera og teljum okkur vera og þörf okkar fyrir fullkomnun. Við skyldum hafa gát á því, þegar við bregðumst illa við gagnrýni. Með því að hamast við að vera fullkomin, forðumst við að sjá veiku hliðarnar. Þegar sífellt er verið að bæta samviskuna, fara yfir liðna atburði til að skoða, hvort maður hafi gert nokkuð misjafnt og leita stuðnings vegna þess að maður sé ekki svo slæmur þegar á allt er litið, þá er verið að horfa fram hjá vandanum. Verið er að bjarga andlitinu. Sá sem raunverulega vill bæta sig, eyðir ekki tíma í sjálfsásakanir. Hann finnur, að ekkert vinnst með sjálfsásökunum. Hann gerir eitthvað uppbyggilegra, reynir að skilja og breyta. Margir skamma aðeins sjálfan sig.

Við þurfum að sjá, að við erum að krefjast hins ómögulega af sjálfum okkur. Við verðum að sjá, að markmið okkar og metnaður eru formið eitt. Við þurfum að svipta hulunni af ásýndinni og sjá hvernig við raunverulega erum á bak við hana. Vandamálið liggur í strangri og ósveigjanlegri þörf fyrir fullkomnun. Við verðum að sjá afleiðingar þessarar þarfar. Við verðum að skoða viðbrögð okkar við gagnrýni. Við verðum að skilja ástæðurnar sem valda þörfinni fyrir fullkomnun og viðhalda henni. Við verðum að skilja hlutverk þarfarinnar. Við verðum að sjá hinn raunverulega siðferðilega vanda. Þetta er allt erfiðara en sú venjulega leið okkar að velta okkur upp úr sektarkennd, en gefur vonir um þroska og breytingu til batnaðar.