XXV GÓÐMENNIÐ

25.0 HEILDARVIÐHORF.

25.1 HIN BÆLDU VIÐHORF.

25.2 ÁSTIN.

25.3 VALKOSTIR.

25.0 HEILDARVIÐHORF.

Í síðustu 8 þáttum hefi ég lýst svæðinu frá vestnorðvestri og norður úr. Í næstu þáttum er ætlunin að fara yfir svæðið frá vestri til suðurs. Sjást þá skýrar þeir árekstrar og átök, sem verða á milli norðurs og suðurs, ef svo má segja. Við hlaupum gjarnan þarna á milli án þess að finna grundvöll í okkur sjálfum. Áður en ég tek einstaka þætti til athugunar með sama hætti og ég hefi gert í síðustu þáttum, er nauðsynlegt að átta sig á svæðinu í heild, svo og innri átökum í því sambandi. Það heildarviðhorf, sem hér er lýst nær frá vestsuðvestri til suðurs. Hávestri verður að lýsa sérstaklega, enda liggur það mitt á milli norðurs og suðurs. Um er að ræða sérúrræði, sem leitað er til, þegar norður og suður ná jöfnum styrkleika. Hávestri var lýst að nokkru leyti í VIII. þætti “Út vil ek”.

Við ræðum því fyrst um manngerð, þar sem hið almenna viðhorf hefur orðið ráðandi, að koma til móts við aðra. Þetta er gert til að einfalda framsetninguna, en ekki rætt þá um gagnstæðar eða aðrar tilhneigingar sömu manngerðar. Gagnvart öðrum hafa verið ræktuð viðhorf, skapaðar vissar þarfir og einkenni, einnig hefur komið til ákveðinn kvíði, viss viðkvæmni og hömlur og síðast en ekki síst sérstakt gildismat. Með því að lýsa þessu svona ákveðið, verður ósamþýðanleiki eða ósættanleiki grundvallarviðhorfanna skýrari, t.d. milli norðurs og suðurs.

Sá sem vill aðlaga sig öðrum, hefur yfirleitt þörf fyrir velþóknun og ástúð, sérstaklega félaga, þ.e. vin, ástvin, maka, sem á að uppfylla allar væntingar hans og taka ábyrgð á öllu. Meginverkefnið verður þá að ráðskast með þennan félaga. Þetta viðhorf verður þvingandi, án greinarmunar, og kvíði og örvænting fylgir því, ef markmiðin ná ekki fram að ganga. Ekki skiptir máli, hversu mikils virði þessir “aðrir” eru fyrir viðkomandi eða tilfinningar hans gagnvart þeim. Þarfirnar geta lýst sér með ýmsu móti, en þær snúast yfirleitt um þörf fyrir návist annarra og að tilheyra einhverju eða einhverjum á einhvern hátt. Vegna þess hve þessar þarfir eru þvingandi, ofmetur þessi manngerð þá eiginleika sína, sem hún telur geðfellda og æskilega, svo og sameiginleg áhugasvið og hagsmuni. Þessi manngerð vanmetur þá þætti sem leiða til aðskilnaðar. Þetta dómgreindarleysi gagnvart öðrum stafar ekki af þekkingarskorti, heimsku eða skort á athygligáfu, heldur helgast af þörfum viðkomandi. Honum finnst umhverfið ógnandi veröld. Þeir sem byrsta sig, verða þá mjög ógnandi og því er nauðsynlegt að halda velþóknun þeirra. Í stuttu máli, þessi manngerð verður að falla öðrum í geð, vera eftirsótt og elskuð. Hún verður að finna sig velkomna og meðtekna, viðurkennda og virta, aðrir eiga að þarfnast hennar, hún verður að vera öðrum mikilvæg, sérstaklega einni manneskju. Hana verður að vernda og annast um og henni verður að hjálpa og leiðbeina.

Þegar mönnum er bent á, að hér sé á ferðinni þvingandi þörf eða árátta, er því gjarnan svarað til, að þessar óskir séu aðeins náttúrulegar og eðlilegar. Auðvitað er það rétt, svo langt sem það nær. Öllum finnst gott að öðrum líki við þá, að tilheyra einhverju, að vera hjálpað o.s.frv. Villan liggur í því að halda, að allur þessi eltingaleikur við ástúð og velvild sé ekta og einlæg, þegar aðallega er um að tefla óseðjandi þörf fyrir öryggi, þ.e. hið hreinræktaða er í minnihluta.

Þessi þörf getur verið svo brýn, að allt sem aðhafst er beinist að því að fullnægja henni. Vissir hæfileikar, einkenni og viðhorf eru þróuð, sem móta persónuleikann. Sumt af því mætti kalla aðlaðandi eða geðþekkt. Viðkomandi verður næmur á þarfir annarra, innan þeirra marka, sem hann skilur tilfinningalega. Þó að ólíklegt sé til dæmis að hann beri gott skynbragð á óskir þeirra, er draga vilja sig í hlé eða frá öðrum og síðar verður vikið að, þá er hann að sama skapi mjög vakandi fyrir þörf annarra fyrir samúð, hjálp, velþóknun o.s.frv. Hann reynir oft sjálfkrafa að upplifa væntingar annarra, eða það sem hann heldur að séu væntingar þeirra, að því marki að hann missir sjónar á eigin tilfinningum. Hann gerist ósíngjarn, fórnar sér, gerir ekki aðrar kröfur en takmarkalausar óskir um ástúð. Hann gerist hlýðinn, ofurtillitssamur, innan þeirra marka, sem honum er kleift, þakklátur og örlátur. Hann er blindur fyrir þeirri staðreynd, að innst inni ber hann litla umhyggju fyrir öðrum. Hann hefur jafnvel tilhneigingu til að telja þá sem hræsnisfulla og eigingjarna. En hann sannfærir sig óafvitað um að honum líki við alla, að allir séu góðir og indælir og þeim sé treystandi. Það viðhorf leiðir aftur til mikilla vonbrigða og eykur öryggisleysi hans.

Þessir eiginleikar eru ekki eins mikils virði og honum sýnist þeir vera, einkum vegna þess að hann athugar ekki eigin tilfinningar og metur stöðuna ekki sjálfstætt. Hann veitir öðrum óspart það, sem hann væntir frá þeim og honum verður það mikið áfall, ef það bregst.

Samhliða eru ræktaðir eiginleikar, sem einnig skarast við áðurgreinda. Hér er átt við tilhneigingar til að komast hjá deilum, reiði annarra og samkeppni. Hann hefur tilhneigingu til að setja sig skör lægra en aðrir, sérstaklega að hreykja sér ekki yfir aðra og gefa þeim eftir sviðsljósið. Hann friðmælist, er sáttfús og vitandi vits vill hann engum illt. Ósk um hefnd og sigur er svo rækilega bæld, að hann jafnvel undrast sjálfur, hve hann er talhlýðinn og laus við langrækni. Í því samhengi er nauðsynlegt að líta á tilhneigingar hans til að taka sökina á sig. Án tillits til eigin raunverulegra tilfinninga, hvort honum finnst hann sekur eða ekki, ásakar hann sjálfan sig frekar en aðra. Hann hefur tilhneigingu til að rannsaka sjálfan sig eða afsaka sig, þrátt fyrir að gagnrýnin sé greinilega óréttmæt.

Frá þessum viðhorfum er skammt í beinar hömlur. Þar sem öll ýgi er bönnuð, koma hömlurnar til skjalanna, þegar halda þarf fast fram staðhæfingum, gagnrýna, gera kröfur, gefa fyrirmæli eða hafa áhrif á aðra og keppa að metnaðarfullum markmiðum. Þar sem lífshættir viðkomandi snúa yfirleitt að öðrum, koma hömlurnar einnig í veg fyrir, að hann geri eitthvað fyrir sjálfan sig eða njóti sjálfur einhvers. Þetta getur gengið svo langt, að öll reynsla verður meiningarlaus sé hún ekki upplifuð með öðrum, hvort sem er máltíð, sýning, tónlist eða náttúrufegurð. Þarflaust er að segja, að slík takmörkun á því að njóta, gerir lífið ekki aðeins fátæklegra, heldur eykur það enn frekar á ósjálfstæði.

Hann gyllir gjarnan fyrir sér þessa eiginleika sína. Hann telur sig t.d. vera góðan mann, óeigingjarnan, vinsamlegan, o.s.frv. En hann hefur önnur viðhorf til sjálfs sín. Eitt er tilfinning fyrir veikleika og hjálparleysi, “aumingja ég tilfinning”. Hann finnur sig á flæðiskeri, þegar hann verður að taka frumkvæði sjálfur. Þetta hjálparleysi er að hluta raunverulegt. Sú tilfinning, að geta ekki undir neinum kringumstæðum barist fyrir málstað sínum og hagsmunum eða keppt, leiðir til veikleika. Auk þess viðurkennir hann þennan veikleika bæði fyrir sjálfum sér og öðrum. Oft er það notað í varnarskyni eða við málaleitan. “Þú verður að elska mig, vernda mig, fyrirgefa mér, þú mátt ekki yfirgefa mig, af því að ég er svo hjálparlaus eða á svo bágt.”

Önnur einkenni eru vegna tilhneigingar hans til að setja sig öðrum skör lægra og sýna undirgefni. Hann telur gefið, að aðrir séu honum fremri, þeir séu unaðslegri, gáfaðri, betur menntaðir, meira virði en hann. Þessa tilfinningu má raunverulega rekja til þess, að hann skortir einurð og festu, sem leiðir til minni getu. En jafnvel á þeim sviðum, þar sem hann er óumdeilanlega hæfur, leiðir minnimáttarkenndin oft til þess að hann telur aðra sér hæfari, þótt svo sé ekki í raun. Þegar hann er í viðurvist annarra sem eru drjúglátari og vissari í sinni sök, verður mat á eigin verðleikum enn minna. Jafnvel þegar hann er einn með sjálfum sér, hneigist hann til að vanmeta ekki aðeins eigin verðleika, hæfileika og getu, heldur og eigin efnislegar og veraldlegar eignir.

Enn eitt einkenni mannsins, sem hér er reynt að lýsa, er ósjálfstæði og það hversu háður hann er öðrum. Þetta orsakast m.a. af því að meta sjálfan sig eftir áliti annarra. Sjálfsálit rís eða fellur eftir þeirri velþóknun og annarri viðurkenningu sem honum er sýnd. Sérhver höfnun verður honum því meiriháttar áfall. Ef einhver kemur ekki í heimsókn, þegar honum er boðið, getur hann vitandi vits tekið því skynsamlega, en samkvæmt rökum þeirrar innri veraldar, sem hann lifir í, fellur eigin álitsvog niður í núll. Þannig má segja að hvers konar gagnrýni, höfnun eða brotthlaup annarra, boði að hætta sé á ferðinni og hann gerir það sem í hans valdi stendur til að endurheimta álit þess, sem þannig hefur ógnað honum. Hann getur aðeins boðið hina kinnina.

Gildismat verður samkvæmt þessu. Þau gildi, sem hann metur mikils eru í átt til góðleika, samúðar, ástar, örlætis, ósíngirni, hógværðar. Á sama hátt eru honum andsnúin metnaður, kaldlyndi, harðýðgi, ósvífni, valdafíkn o.s.frv., þótt hann dáist að þessu í laumi, því þetta eru tákn fyrir styrk.

Þetta eru grunnatriði þeirra viðhorfa, sem liggja frá vestsuðvestri til suðurs. Ómögulegt er að lýsa þeim í einu orði. Í heild sinni búa viðhorfin til dæmis bæði yfir tilhneigingum til að koma til móts við aðra, geðjast þeim eða að falla fyrir þeim. Allur lífsstíllinn felst þá í þessum viðhorfum. Skipta má þessu í einstaka þætti, svo sem gert verður í næstu köflum. Má segja að megin skiptingin liggi eins og frá vestnorðvestri til norðurs í öryggisleysi (perfektionismi) og minnimáttarkennd (narcissus).

Ef komið er til móts við aðra, ef sýnd er undanlátsemi, er öryggið tryggt. Viðkomandi verður þá ekki fyrir skaða ef hann lagar sig að öðrum. Ef sóst er eftir ást og vináttu, er verið að hressa upp á eigið sjálfsmat með því að verða hluti af öðrum. Viðkomandi má sín þá einhvers, vinni hann ást og hug annars. Þannig er ást og vinátta á sama öxli og narcissus. Að laga sig að öðrum til öryggis er þá á sama öxli og perfektionismi, sem er aðlögun að stöðlum. Aðlögun og ást eru í þessum þætti tekin saman sem heildarviðhorf, að vera góður, þar sem það myndar í heild sinni gagnstæðu við það sem lýst var í 17. til 24. þætti, það er ýgi og ágengni hvers konar og er menn tileinka sér kosti, sem þeir ekki hafa. Góðleikanum fylgir á hinn bóginn þvingandi hógværð, eins og síðar verður að vikið.

25.1 HIN BÆLDU VIÐHORF.

Við skiljum aldrei til fulls, hversu ósveigjanleg þessi viðhorf eru og hversu fast er haldið í þessi markmið, nema við gerum okkur grein fyrir hinum víðtæku og afgerandi gagnstæðu tilhneigingum, sem bældar eru. Við skulum því líta dálítið á bakhlið myndarinnar.

Margskonar tilhneigingar til reiði og árásargirni búa undir niðri. Gagnstætt ofurumhyggju ljúfmennisins, kemur í ljós kuldi og áhugaleysi fyrir öðrum, þrjóska, óafvitaðar tilhneigingar til að hagnýta sér aðra og lifa á þeim, hneigðir til að stjórna öðrum og ráðskast með þá, þrotlaus þörf fyrir að skara fram úr og að njóta hefndarsigurs. Auðvitað eru þessar bældu hneigðir margs kyns og misjafnar að magni. Að hluta til hefur óheppileg reynsla í æsku valdið þeim. Þær hafa þá e.t.v. verið látnar óspart í ljós á einhverju æviskeiði, en síðar bældar. Þessar tilhneigingar hafa sífellt eflst síðar á ævinni, vegna seinni reynslu, en menn verða meira eða minna fyrir sífelldum fjandskap, auk þess sem bælingin veldur vítahring, sem stöðugt eflir innri fjandskap, svo sem lýst hefur verið í þáttunum um kvíða. Ekki má gleyma því, að ef menn ætla sér að vera “góðir menn og ljúfir”, þá bjóða þeir heim þeirri hættu, að yfir þá sé gengið og þeir hagnýttir af öðrum. Að vera háðir öðrum, setur menn líka í þá hættu að verða viðkvæmir fyrir vanrækslu, höfnun og lítillækkun hvers konar, í hvert sinn sem ekki er látin í té sú ást og blíða, sem krafist er.

Þegar talað er um að þessar tilhneigingar séu bældar, þá er átt við að þær séu almennt óvitaðar. Í öllu falli hefur hann svo mikinn hag af því, að eigin mati, að verða þeirra ekki var, að hann vakir sífellt yfir því að hvorki hann né aðrir verði þeirra varir. Fjandsamlegar tilfinningar og útrás þeirra myndi setja í hættu þá þörf að geðjast að öðrum og láta aðra geðjast að sér. Auk þess myndu hvers konar ýgi og ákveðni í sambandi við eigin hagsmuni verka á hann sem eigingirni. Hann myndi fordæma slíkt hjá sjálfum sér og þar af leiðandi finnast sem aðrir myndu fordæma það einnig. Hann hefur ekki efni á slíkri fordæmingu, þar sem sjálfsálit hans er of mikið komið undir velþóknun annarra.

Bæling allrar ýgi, metnaðar, hefndar og ágengni hefur öðru hlutverki að gegna. Hér er á ferðinni tilraun til að eyða innri árekstrum og átökum og skapa í staðinn tilfinningu fyrir einingu, heilleika. Löngun eftir einingu er ekki dularfull, hún stafar af þeirri raunhæfu nauðsyn að þurfa að starfa í lífinu, en slíkt er með öllu ómögulegt, ef maður er sífellt rekinn í gagnstæðar áttir, að ekki sé talað um þann hrylling sem jafngildir því að vera hlutaður í tvennt. Að leggja áhersluna á eitt tilhneigingasvið og bæla allt sem ekki hæfir í þá mynd, er í raun dulvituð tilraun til að skipuleggja persónuleikann. Hér er því á ferðinni ein megin tilraunin til að leysa eigin innri átök.

Þannig liggja fyrir tvenns konar hagsmunir af því að setja hömlur á alla ýgi, þ.e. lífsmátinn væri í hættu og hin tilbúna eining myndi tvístrast. Því er það, að þeim mun sterkari og eyðileggjandi sem ýgin er, þeim mun nauðsynlegri verður bælingin og öll útilokun ýginnar. Þegar ýgin er sterk, snýr viðkomandi öllu við og lætur líta svo út sem hann vilji ekkert fyrir sjálfan sig, hafi engar óskir, hann synjar aldrei óskum eða tilmælum annarra, honum líkar alltaf vel við alla, hann heldur sig til baka o.s.frv. Með öðrum orðum: tilhneigingar til að vera ljúfur og geðþekkur eru styrktar. Þær verða meir þvingandi og framkvæmdar án greinarmunar.

Þrátt fyrir þessar dulvituðu tilraunir verður hinum bældu hneigðum auðvitað ekki bægt frá eða komið í veg fyrir að þær komi í ljós. En það gerist með þeim hætti sem samsvarar heildarbyggingu persónleikans. Viðkomandi gerir þá kröfur, “af því að hann á svo bágt” eða í laumi stjórnar hann undir yfirskyni “ástar”. Uppsafnaður fjandskapur, sem er bældur, getur birst sem óróleiki, allt frá tilviljunarkenndri skapstyggð eða önuglyndi til þess að missa stjórn á skapi sínu. Slík reiðiköst, þótt þau hæfi lítt mynd blíðu og mildi, finnast viðkomandi sjálfum samt sem áður fullkomlega réttlætanleg. Samkvæmt forsendum hans hefur hann líka á réttu að standa. Þar sem hann veit ekki að kröfur hans á aðra eru miklar og eigingjarnar, getur hann ekki komist hjá því að finnast stundum sem illa sé með sig farið og að hann einfaldlega þoli þetta alls ekki lengur. Að lokum, ef hinn bældi fjandskapur verður að hamslausri heift, geta því fylgt ýmis konar líkamleg einkenni, svo sem höfuðverkur eða magaveiki.

Margt það sem maður af þessari gerð aðhefst, hefur því tvíþættan tilgang. Þegar hann t.d. gerist undirgefinn, er hann að minnsta kosti að komast hjá árekstrum og á þann hátt að skapa eindrægni, sátt og samlyndi með öðrum, en jafnframt getur verið um að ræða leið til að þurrka út öll merki þess að hann vilji skara fram úr. Þegar hann lætur aðra hafa hag af sér, er það oft tjáning á undanlátsemi, eftirlæti eða hlýðni og “góðleika”, en hér getur einnig verið á ferðinni leið til að komast frá eigin ósk um að hagnýta aðra. Til að eyða þessari undanlátsemi og “góðleika” verður að skoða báðar hliðar málsins í réttri röð. Síðustu átta þættir um ýgi hvers konar, koma því að góðu haldi í þessu sambandi og koma að þessu leyti í réttri röð. Ekki dugir það eitt að gefa ýgina frjálsa, þótt mönnum létti við slíkt, heldur verður að eyða henni samtímis “góðleikanum”. Því þótt mönnum sé léttir af að gefa ýgi sinni frjálsan tauminn, getur það haft slæmar afleiðingar, ef slíkt frelsi er markmið í sjálfu sér. Alltaf verður að fylgja á eftir, vinna við báðar hliðar málsins, þau markmið sem stangast á. Að öðrum kosti verður ekki um heilun að ræða. Við nálgumst ekki Sjálfið öðruvísi.

25.2 ÁSTIN.

Við skulum skoða, hvaða þýðingu ást og kynlíf hefur fyrir þá manngerð, sem við ræðum um. Þeim manni sem er af þessari gerð finnst ástin stundum það eina, sem vert sé að eltast við og lifa fyrir. Líf án ástar virðist lágkúrulegt, tilgangslaust og tómt. Ást er sú tálsýn, sem reynt er að fanga, en öðru bægt frá. Fólk, náttúran, vinna eða skemmtun hvers konar eða áhugamál missa gildi sitt, nema kryddað sé með ástarsambandi. Þetta er ekki ríkara meðal kvenna en karla, þótt sumir haldi að svo sé. Um er að ræða órökræna þvingandi nauðsyn, sem ekkert hefur með karlmennsku eða kvenleika að gera.

Ef við skiljum uppbyggingu persónuleikans hjá þessari manngerð, sjáum við af hverju ást gegnir svo ríku hlutverki hjá henni, við sjáum “system i galskapen”. Vegna hinna gagnstæðu hneigða, sem að framan er lýst, getur ástin gegnt því hlutverki að öllum markmiðum verði náð. Hún gefur vonir um, að þörfinni fyrir velþóknun og ástúð verði fullnægt á sama tíma og hún gerir kleift að stjórna og hafa vald yfir öðrum. Kleift er að sýna undirgefni og á sama tíma skara fram úr, t.d. með því að halda óskiptri athygli makans. Kleift er að upplifa alla ýgi á réttlátan og saklausan, jafnvel aðdáunarverðan hátt, á sama tíma og hægt er að láta í ljósi alla þá aðlaðandi og ástvekjandi eiginleika, sem viðkomandi hefur öðlast eða upp á að bjóða. Ennfremur kemur það til, að þar sem hann veit ekki, að eigin annmarkar og þjáning á rót sína að rekja til innri átaka í honum sjálfum, vekur ástin von sem lækningu alls: Ef hann aðeins finnur einhvern, sem elskar hann, verður allt gott. Auðvitað eru þessar vonir út í loftið, en við verðum að skilja rökin og þann hugsunarhátt, sem að baki liggur og er meira eða minna óafvitaður.

Hann hugsar sem svo: “Ég er hjálparlaus og máttvana. Á meðan ég er einn í þessum fjandsamlega heimi, verður þetta hjálparleysi mitt hætta og ógnun. Ef ég finn einhvern sem elskar mig umfram aðra, fæ ég vernd. Hann mun skilja mig og veita mér það sem ég þarfnast, án þess að ég þurfi nokkurs að biðja eða útskýra. Í raun verður veikleiki minn kostur, því að hann mun elska hjálparleysi mitt og ég get reitt mig á styrk hans. Það frumkvæði, sem mig vantar fyrir sjálfan mig, mun ég öðlast ef ég geri hlutina fyrir hann eða geri hlutina fyrir mig, af því að hann vill það.”

Allt þetta er að hluta hugsun, að hluta tilfinningar og að hluta óafvitað. Hann hugsar ennfremur: “Það er ófært fyrir mig að vera einan. Ég nýt einskis, deili ég ánægjunni ekki með öðrum. Meira en það, ég finn mig sem týndan, kvíðafullan. Þótt fara megi einn í kvikmyndahús eða sitja heima við lestur bókar á laugardagskvöldi, er það lítillækkandi, af því að það gæti verið vísbending um að enginn vildi vera með mér. Ég verð því að haga svo til að vera aldrei einn, hvorki á laugardagskvöldi né á nokkrum öðrum tíma. Ef ég fyndi ástvin, myndi hann frelsa mig frá þessum hryllingi. Ég yrði aldrei einn. Allt sem nú er meiningarlaust, hvort sem er að laga málsverð, vinna eða horfa á sólarlagið, yrði gleðigjafi.”

Hann hugsar enn: Ég hefi ekkert sjálfstraust. Mér finnst aðrir alltaf hæfari, meira aðlaðandi eða hæfileikameiri en ég. Jafnvel það, sem ég hefi þó gert, skiptir ekki máli, af því að ég get ekki veitt mér viðurkenningu fyrir það. Ég gæti hafa verið að blekkja eða það gæti hafa verið heppni. Ég er að minnsta kosti ekki viss um að geta endurtekið það. Ef fólk þekkti mig í raun, myndi það á engan hátt hafa not fyrir mig. En ef ég fyndi einhvern sem elskaði mig eins og ég er og ég væri einhverjum öllum öðrum mikilvægari, væri ég einhver.”

Það er því ekki undarlegt að ást verði bæði tálbeita og tálsýn. Ekki heldur undarlegt að gripið sé til hennar í stað þess að reyna við hina langsóttu og erfiðu leið að breyta sér innan frá.

Auk þess líffræðilega hlutverks sem kynmök gegna, hafa þau það til síns ágætis að vera vottur um að einhver æski samfélags við viðkomandi. Því meiri tilhneigingu sem manngerð okkar fær til að draga sig út úr félagslífi eða vera ein sín liðs, af því að hún verður hrædd við að gefa tilfinningunum lausan tauminn eða því meira sem hún örvæntir um að fá ást, þeim mun meira kemur kynlíf í stað ástar. Kynlíf getur þannig virst eina leiðin til náins mannlegs sambands eða kynna. Þá verður kynlíf ofmetið, eins og ástin, sem lausn á öllum vanda.

Ást verður þannig rökleg niðurstaða þess lífsviðhorfs, sem manngerð okkar hefur. Skynsemin er í lagi og rökin eru snurðulaus, hvort sem þau eru vituð eða óvituð, en þau byggja á fölskum forsendum. Mistökin liggja í því að telja þörf fyrir ástúð og velvilja og allt sem því tilheyrir, hæfni til ásta. Ekki heldur eru ýgi, fjandskapur og aðrar árásagjarnar hneigðir, taldar með í dæminu. Verið er að vænta þess, að skaðlegar afleiðingar innri árekstra og átaka, sem ekki hefur fengist lausn á, verði fjarlægðar, án þess að neinu sé breytt í hinum innri þverstæðum. Þetta er almennt viðhorf, einkenni þessarar tilraunar til innri lausnar. Þess vegna er þessi tilraun óhjákvæmilega dæmd til að mistakast.

Um ást sem lausn má samt sem áður segja þetta. Ef sá maður sem við höfum hér fjallað um, er nógu heppinn og finnur maka eða félaga, sem hefur bæði styrkleika og vinsemd eða er persónuleiki, sem er að vissu leyti gagnstæða og hæfir því okkar manni sæmilega, getur þjáningin minnkað töluvert, þannig að okkar maður finnur sig bærilega hamingjusaman. Venjulega steypa honum þau mannlegu tengsl, sem hann væntir af himnaríki á jörð, í enn meiri andlega vanlíðan og óhamingju. Einnig eru líkur til að hann eyðileggi sambúðina með því að flytja með sér innri gagnstæður. Aðeins hagstæðustu skilyrði geta dregið úr erfiðleikunum og hugarangrinu. Aðeins og því aðeins að innri gagnstæður, árekstrar og átök séu leyst upp, stöðvast þessi óheillaþróun.

25.3 VALKOSTIR.

Við höfum nú fengið nokkra tilfinningu fyrir þeim heildarmun, sem er á milli norðurs og suðurs. Við búum öll við árekstra, bæði innri átök og átök við umhverfið. Hagsmunir okkar, óskir og sannfæring hljóta að rekast meira og minna á annarra vilja. Átök eru hluti af mannlegu eðli. Forréttindi mannsins byggjast á því, að hann á val og tekur ákvarðanir. Við verðum oft að taka ákvarðanir milli óska, sem leiða í gagnstæðar áttir. Við viljum t.d. vera ein, en viljum líka eyða stund með vini. Við viljum e.t.v. læra eitthvað tungumál, en einnig stunda tónlist. Óskir og skyldur geta rekist á. Við getum verið skipt milli óskar um að vera í sátt og samlyndi við aðra og sannfæringar, sem leiðir af sér að láta verður í ljós skoðun, sem er þeim andstæð. Við getum verið skipt annars vegar milli þeirrar skyldu að sinna maka og börnum og hins vegar að þurfa að stunda vinnu.

Eðli og tíðni slíkra árekstra fer eftir þeirri menningu, sem við lifum í. Ef siðmenningin er stöðug, siðir og venjur bundnar, fækkar valkostum. En aldrei hverfa þeir alveg. T.d. rekast oft á skyldur eða persónulegar óskir gagnvart skyldum við aðra. Ef menning og þjóðfélagshættir eru á miklu breytingarskeiði, fjölgar valkostum vegna þess að þá er gjarnan búið við margs konar gildismat. Í slíkum tilvikum getur viðkomandi hegðað sér í samræmi við væntingar samfélagsins eða farið sínar eigin leiðir, verið hópsál eða lifað sem einsetumaður, dýrkað frama eða fyrirlitið hann, haft trú á aga eða verið á móti honum o.s.frv.

Þar sem slíkt val er jafn algengt og raun ber vitni, mætti ætla að innri átök í þessa veru séu algeng. En staðreyndin er sú, að fólk verður ekki vart við þau og engin skýr ákvörðun er tekin. Flestir láta reka og leyfa tilviljun að ráða stefnu. Þeir vita óljóst hvar þeir standa. Gerð er málamiðlun án þess að vita það. Menn eru ósamkvæmir sjálfum sér án þess að vita það. Hér er átt við venjulegt fólk. Hverjar eru þá forsendur þess að átta sig á gagnstæðum sem þessum og taka ákvarðanir um þær.

Við verðum í fyrsta lagi að vita um óskir okkar, sérstaklega hverjar tilfinningar okkar eru. Líkar okkur við ákveðna manneskju eða höldum við að okkur líki við hana, af því að búist er við því. Erum við í raun sorgmædd, ef ákveðinn vinur okkar deyr eða er það í raun aðeins hálfshugar. Höfum við áhuga á að læra eitthvað eða á starfinu eða er hér einungis um að ræða að við sækjumst eftir frama eða virðuleik. Oft er erfitt að svara svona einföldum spurningum, þ.e.a.s. við þekkjum ekki tilfinningar okkar og óskir.

Þar sem innri átök snúast um sannfæringu, viðhorf og siðferðisgildi, er eigið gildismat forsenda þess að geta þekkt þau. Aðfengin viðhorf, sem ekki eru hluti af okkur, hafa ekki styrkleika til að leiða til innri átaka eða geta veitt leiðsögn við ákvarðanatöku. Slík viðhorf eru yfirgefin og önnur viðtekin við hinu minnstu áhrif. Ef við t.d. höfum tileinkað okkur þau viðhorf, sem mest er hampað í umhverfi okkar, þá koma aldrei til innri átök við okkar eigin innri hagsmuni. Ef sonur hefur aldrei dregið í efa vísdóm þröngsýns föður, verður ekkert um innri átök, þegar faðir hans vill að sonurinn fari í starf, sem sonur hefur sjálfur litlar mætur á. Kvæntur maður, sem fellur fyrir annarri konu en eiginkonu á við innri átök að stríða. En ef hann hefur enga sannfæringu um þýðingu hjónabandsins, þá lætur hann reka í þá átt, sem fyrirstaðan er minnst í það skipti, í stað þess að standa til auglitis við valkostina og taka ákvörðun í eina eða aðra átt.

Jafnvel þótt við sjáum gagnstæðu sem slíka, verðum við að vera reiðubúin til láta af öðrum hvorum valkostinum. En hæfileiki til að afsala sér með skýrum hætti og vitandi vits er sjaldgæfur. Tilfinningar okkar og viðhorf eru í þvælu. E.t.v. eru fáir, þegar til kastanna kemur, nógu öruggir og hamingjusamir, til að vera tilbúnir til að afsala sér einhverju.

Þá er nauðsynlegur vilji og hæfni til að taka ábyrgð á eigin ákvörðunum. Þetta felur í sér að viðurkenna rangar ákvarðanir og vilja til að taka afleiðingunum án þess að skella skuldinni á aðra. Um er að ræða þessa tilfinningu: “Þetta er mitt val, mín gjörð”. Hér er á ferðinni meira sjálfstæði og innri styrkur en fólk hefur almennt nú til dags.

Þar sem innri átök hafa kverkatak á okkur mörgum, án þess þó að við höfum vitund um þau, hættir okkur til að líta aðra þá öfundar og aðdáunaraugum, sem lifa snurðulausu lífi, án þess að vera haggað eða lenda í neins konar umróti. Þetta geta virst sterkir persónuleikar, sem hafa skapað sér eigið gildismat eða menn sem hafa öðlast heiðríkju hugans, af því að í tímans rás hafa átök, árekstrar og þörf fyrir ákvörðunartöku hætt að koma þeim í uppnám. Hin ytri ásýnd getur þó verið blekkjandi. Oftar en ekki er það andúð, tækifærismennska eða aðlögun að ríkjandi siðum og hugsunarhætti, sem veldur því að þetta fólk, sem við öfundum, er ófært um að horfast í augu við gagnstæðurnar eða reyna að taka ákvörðun á grundvelli eigin sannfæringar. Af þessum ástæðum hefur þetta fólk látið sig fljóta með straumnum eða látið ginnast af stundarhagnaði.

Að upplifa gagnstæður vitandi vits getur verið erfitt, en engu að síður kostur. Því meira sem við horfumst í augu við eigin gagnstæður og leitum eigin lausna, þeim mun meira innra frelsi öðlumst við og styrk. Aðeins með því að vilja bera hitann og þungann, getum við nálgast það æskilega markmið að vera skipherrar á eigin skipi. Falskur friður, sem á rót sína að rekja til sljóleika og deyfðar, er alls ekki eftirsóknarverður. Slíkt gerir okkur aðeins veikgeðja og auðvelt fórnarlamb ytri áhrifa.

Þegar val snýst um grundvallarviðhorf í lífinu, er erfiðara en ella að horfast í augu við kostina og velja. En séum við nægilega lifandi, er ekki ástæða til að örvænta um að við séum ekki fær um valið. Menntun gæti hjálpað okkur í þessu skyni, hjálpað okkur að verða sjálf okkar meira vör og þroska eigin sannfæringu og lífssýn, en menntunarkerfið í landinu býður ekki upp á slíkt. Með því að átta sig á mikilvægi þeirra þátta sem valið hefur að geyma, getum við öðlast háleit markmið, sem veitir okkur leiðsögn í lífinu.

Við höfum fengið nokkra innsýn í þá veröld sem býr í frá vestri til norðurs annars vegar og frá vestri til suðurs hins vegar. Hér er um heildarviðhorf að ræða, sem stangast að verulegu leyti á. Gagnstæðurnar milli þessara svæða verða miklu stærri og dýpri en aðrar gagnstæður. Venjulega er valið milli tveggja kosta, sem flestum er kleift án meiri háttar andlegs erfiðis. Þegar á hinn bóginn kemur að vali milli þeirra heildarviðhorfa, sem ég er að lýsa, reynist málið mun erfiðara. Flestir eiga ekkert val, því um persónuleikamótun er að ræða.

Vitund um þessi viðhorf og gagnstæður eru mismunandi. Erfitt er að skýrgreina eitthvað sem vitað og annað dulvitað. Venjulegar gagnstæður, sem menn standa frammi fyrir, eru þó venjulega vitaðar. Heildarviðhorfin eru venjulega að mestu leyti óvituð eða dulvituð. Venjulegar gagnstæður sjá menn án aðstoðar. Heildarviðhorfin eru meira og minna bæld og fólk bregst við með viðnámi og mótstöðu þegar það ætlar sér að gera sér ljós heildarviðhorf sín.

Venjulegar gagnstæður bjóða upp á val milli tveggja möguleika, þar sem báðir valkostir eru æskilegir eða milli skoðana, sem gildi hafa fyrir viðkomandi. Þess vegna er mögulegt að taka ákvörðun, jafnvel þótt erfið sé og afsala sér einhverju í samræmi við ákvörðunina. Þegar um hin þvingandi heildarviðhorf er að ræða, hættir valið að vera frjálst. Þá er mönnum ýtt af jafnsterkum öflum í gagnstæðar áttir og í hvoruga áttina vill viðkomandi fara. Ákvörðun er því ómöguleg. Málið er strandað og engin úrlausn í augsýn. Eina lausnin er því að skoða heildarmarkmiðin og einstök markmið og leysa þau upp. Þetta þýða gerbreytt grundvallarviðhorf gagnvart sjálfum sér og öðrum. Hefi ég áður lýst aðferðum og verklagi við slíkt, einkum í þáttum XIII til XVI.

Hin gagnstæðu heildarviðhorf eru því sársaukafull. Erfitt er að sjá þau. Þau gera viðkomandi hjálparlausan og þau brjóta Sjálfið niður. Því er rík ástæða til að óttast þau. Með þetta í huga skiljum við betur tilraunir okkar til heildarlausna, sem dæmd eru til að mistakast.

Síðar verður nánar rætt um þessar og aðrar heildargagnstæður, ef svo má kalla þær. Einnig afleiðingu þess, að þær eru ekki leystar upp. Við eyðum kröftum okkar út í loftið eða í eftirsókn eftir vindi, meðan við getum fátt gert heilshugar. Óákveðnin nagar okkur og gerir okkur máttlaus. Við náum ekki árangri vegna innra álags og við verðum oft tómlát og aðgerðarlaus. Við skynjum ekki viðhorf Sjálfsins, sem eitt veitir okkur afgerandi leiðsögn.

Uppgerðarást og uppgerðargóðleiki er siðleysi, sem byggist á öryggisleysi eða minnimáttarkennd. Uppgerðaráhugi og þekking sem menn þykjast hafa, yfirskyn heiðarleika og réttlætis, allt er þetta mótsögn við raunverulega sjálfshagsmuni. Að gera sér upp þjáningu til að ná kröfum sínum fram eða telja sig hafa hæfileika, sem ekki eru til staðar, eitrar fyrir viðkomandi og allt umhverfi. Óáreiðanleiki, sem hin dulvituðu heildarviðhorf valda, svo og ábyrgðarleysi, hefur ómældan kvíða í för með sér. Svona mætti lengi telja og verður síðar rætt ítarlegar. Fyrst verðum við þó að sjá suðrið í betra ljósi og andstæðurnar skýrar. Verður það gert í næstu þáttum.