XXIX HINN ÓSJÁLFSTÆÐI

29.0 ALGLEYMI.

29.1 HEILBRIGÐI.

29.2 LEIT AÐ ÖRYGGI OG VERND.

29.3 INNRI ÁREKSTRAR.

29.4 FULLNÆGJA EÐA VANSÆLA.

29.0 ALGLEYMI.

Við vitum að margir nota þjáninguna til að ná ákveðnum markmiðum. En af hverju er fólk reiðubúið til að leggja svona mikið í sölurnar? Svo virðist sem örlæti í notkun þjáningar og tilhneiging til að komast hjá því að ná tökum á lífinu, stafi af þeirri áráttu að gera sig veikari í stað sterkari, vansælan frekar en hamingjusaman. En þar sem þessi tilhneiging eða árátta er gagnstæð almennum hugmyndum um mannlegt eðli, hefur þetta reynst hin mesta ráðgáta.

Lengi var rætt um svokallaðan masochisma, sem upprunalega merkti kynferðislega óra og afbrigðilega hegðun, þar sem menn ná kynferðislegri fullnægingu í gegnum þjáningu, meðal annars með því að vera barðir, píndir, nauðgað, hlekkjaðir og lítillækkaðir. Freud sá strax skyldleikann við tilhneigingu manna til þjáningar án nokkurra kynferðislegra markmiða. Hann talar m.a. um siðferðislegan masochisma, þegar menn berja sífellt á sjálfum sér með sjálfsásökunum, mistökum og slysum. Þar sem augljóst er að kynferðislegur masochismi hefur kynferðislega fullnægju að markmiði, hefur sú fljótfærnislega ályktun verið dregin, að öll þjáning ráðist af óskinni um fullnægju, þ.e. að menn óski þess að þjást.

Við megum ekki rugla saman þjáningu manna og tilhneigingu til þjáningar. Þótt þjáning sé til staðar merkir það ekki endilega tilhneigingu til þjáningar og enn síður að viðkomandi njóti hennar. Flest öll þjáning hefur ekkert með vilja til þjáningar að gera, heldur er hún aðeins afleiðing innri árekstra og baráttu, ekki ósvipað og við þjáumst ef við fótbrjótum okkur. Þjáningin kemur þá án tillits til viljans og engin fullnægja fylgir henni. Kvíði almennt eða vitund um vaxandi mun á getu og árangri, tilfinning fyrir að vera fastur í eigin neti, særindi vegna móðgana eða sjálfsfyrirlitning eru þjáning af þessu tagi.

En lítum á þjáningu, sem ekki er þessa eðlis. Þótt þjáningin sé í þessu tilviki meiri en ástæða gefur tilefni til og viðkomandi virðist vilja þjást, að hann snýr jafnan gæfu í ógæfu og virðist ekki vilja losna við þjáninguna, þá verður samt sem áður að líta til þess hlutverks sem þjáningin hefur fyrir viðkomandi.

Dæmi um þetta má nefna að með sjálfsásökunum er hægt að komast hjá ásökunum annarra og forðast má samkeppni með því að gera lítið úr sér o.s.frv. Hér er um varnarhætti að ræða. Þjáning er líka notuð, eins og áður var drepið á, til að öðlast ýmislegt, fá kröfum fullnægt og réttlæta þær. Öðrum er ætlað að uppfylla kröfur og óskir, sem viðkomandi þorir ekki að setja fram vegna eigin hamla og hjálparleysis. Aðrir eiga þannig að vera ábyrgir fyrir lífi hans, þótt það gangi þvert á sannfæringu hans um að aðrir veiti honum ekkert. Hann þvingar þá til þess með þjáningunni. Þjáningin er þannig notuð til að leita sér aðstoðar, hjálpar eða ástúðar o.s.frv. Þjáningin gegnir líka því hlutverki að vera dulbúin en árangursrík ásökun á aðra.

Þótt við sjáum gildi þjáningar af því sem hér er sagt, er ráðgátan þó ekki leyst. Því er ósvarað hvers vegna þarf að þjást meira en nauðsynlegt er vegna framangreindra markmiða og hlutverks þjáningar. Af hverju þarf að ýkja þjáninguna, sökkva sér í tilfinningar hjálparleysis, óhamingju og vansælu? Ekki er til að dreifa eðlilegu vægi milli vansælunnar, ef svo má segja, og raunverulegs mikilvægis þeirra atvika sem voru orsök vonbrigðanna. Smávægileg mistök eða árangursleysi verða meiri háttar ósigur, smáhindranir verða óyfirstíganlegir erfiðleikar. Af hverju er þjáningin ýkt með þessum hætti?

Af slíkri þjáningu virðist enginn auðsjáanlegur ávinningur fyrir viðkomandi, engin vitni eru að þjáningunni, enga samúð er að fá, enginn sigur er fenginn með því að koma vilja sínum fram. Sagt hefur verið, að með því t.d. að verða að engu í eigin mati, þ.e. með hliðsjón af andstæðunum sigri eða ósigri, hverfi yfirburðir eða minnimáttarkennd sem tilvist. Með því að gera sig að engu, verði hið særandi atvik ekki lengur raunverulegt, sárindin eða þjáningin eru deyfð. Með þessu er magni breytt í gæði. Sársauki verður þannig deyfður með ýktri þjáningu. En þessi skýring svarar samt sem áður ekki þeirri spurningu, af hverju þjáning geti veitt fullnægju.

Þegar viðkomandi finnur sig standa á veikum grunni, gagnvart sjálfum sér, öðrum og örlögunum, þegar um er að ræða að hann finni sig léttvægan eða lítilfjörlegan, á valdi annarra, þurfa að geðjast þeim, njóta velþóknunar þeirra eða vera í vörn og forðast áhrif þeirra, vera háður mati og ástúð þeirra, eða þegar tilfinning er fyrir að stýra ekki eigin skipi og aðrir látnir taka ábyrgðina og ákvarðanir, eða eins og gott og illt komi utan frá, og maður sé leiksoppur örlaganna, dæmdur og vænti kraftaverks án þess að þurfa að veifa hendi, og þegar hann hefur tilfinningu fyrir að ekki sé hægt að njóta neins nema með öðrum eða að frumkvæði þeirra eða hvatningu, þá má spyrja hvernig beri að skilja allan þennan veikleika? Svarið er, að þessi veikleiki er ekki staðreynd. Það sem mönnum finnst vera veikleiki, er einungis tilhneiging til veikleika. Hvernig bregðast menn við gagnvart þessu?

Við höfum áður rætt um hvernig ýkjur fá sljóvgað og geta leitt til ánægju og vellíðunar, eins og í masochistískum kynórum. En ánægja og fullnægja sem fæst með því að sökkva sér í vansælu, er eins konar viðleitni til að týna sér sjálfum í því sem stærra er, með því að leysa upp persónuleikann, losna við egóið með öllum andstæðum, vafa, sársauka, takmörkunum og einangrun.

Nietzsche talaði um frelsi frá “principium individuationis”. Hann áleit “díonysíska” tilhneigingu eina af grundvallartilhneigingu mannkyns gagnstætt “apollonian” tilhneigingu, sem gengur í átt til þess að ná tökum á lífinu. Hér er um að ræða tilhneigingu til að upplifa algleymi, sem hefur tíðkast að fornu og nýju í öllum þjóðfélögum. Slíkt gerist í tónlist, dönsum, trúarlegri leiðslu, mat og drykk, kynlífsreynslu, á kjötkveðjuhátíðum, með algjörri frjálsræðisupplifun trúarsöfnuða, vímugjafaneyslu o.s.frv. Við skiljum masochisma betur í þessu ljósi.

Í algleymi öðlumst við ánægju og vissa fullnægju, með því að týna okkur, hvort sem er á þann hátt að falla þreytt í svefn eða neyta vímugjafa. Auðvitað er meginmarkmið áfengisneyslu meðal annars að losa hömlur og svæfa sorg og sút, að ekki sé minnst á kvíða. En tilgangur neyslunnar er fullnægja í algleymi, að yfirgefa sjálfan sig. Allir hafa upplifað algleymi í sambandi við tilfinningalega reynslu, í ástarsambandi, fögru umhverfi, tónlist, kynmökum eða í baráttu fyrir málstað. Af hverju er þessi viðleitni svo almenn?

Þótt lífið veiti hamingju, er þar óhjákvæmilega mikið um sorgarboð. Við eldumst, veikjumst og deyjum. Við erum ófullkomin og einangruð, með takmarkaðan skilning, náum skertum árangri og njótum hans ekki til fulls. Við erum einangruð, af því við erum sjálfstæð eining, aðskilin frá öðrum og umhverfinu. Tilhneigingin til algleymis og að yfirgefa sjálfan sig er einkanlega viðleitni til að bæta úr einstaklingsbundinni takmörkun og einangrun. Í Uphanisödum er rætt um árnar sem sameinast hafinu og týna nafni og lögun. Með því að renna saman við stærri heild, getum við að vissu marki yfirstigið takmarkanir okkar. Með því að verða að engu, verðum við hluti af sköpunarverkinu. Þessu fylgir nokkur huggun og fullnægja, sem mörg trúarbrögð gefa fyrirheit um. Með því að týna egóinu verðum við eitt með Guði og náttúrunni. Sama gildir ef við samsömum okkur málstað, þá sameinumst við stærri heild.

Þjóðfélagið leggur fremur áherslu á gagnstætt viðhorf, sem metur meira sérkenni einstaklingsins. Menning okkar leggur áherslu á að við séum aðskilin frá hinni ytri veröld. Ekki er aðeins lögð á þetta áhersla, heldur gert að metnaðarmáli. Menn eru hamingjusamir, ef þeir þroska eigin getu, ná valdi á sjálfum sér og umheiminum, eru skapandi. Lögð er áhersla á hinn sérstæða persónuleika. Sú gagnstæða tilhneiging, sem við höfum hér rætt um, og miðar að því að brjóta skel einstaklingshyggjunnar og eyða takmörkunum og einangrun, á samt jafndjúpar rætur í mannlegu eðli. Hún freistar okkar sem möguleg fullnægja. Því eru viðhald og þroski persónuleikans annars vegar og fórn hans hins vegar, markmið sem stefnt er að til lausnar á mannlegum vanda.

29.1 HEILBRIGÐI.

Við höfum rætt um tilhneigingu til lausnar frá sjálfum sér, einkum á þann hátt að samsama sig einhverju stærra, t.d. persónu, maka eða leiðtoga, eða með tilhneigingu til dulrænu, mikils svefns eða því að vera viljalaust verkfæri á valdi annars. Slíkt veitir möguleika til að láta í ljós vörn, jafnframt því að vera sjálfsafsal. Hvort sem við gefum okkur á vald annarri persónu eða örlögunum, eða leiðum yfir okkur hvers konar þjáningu, virðist fullnægjan vera fólgin í afnámi hins einstaklingsbundna egós. Við erum ekki lengur gerendur, verðum viljalausir hlutir.

Í öðrum þætti ræddum við um hógværð og ekki hvarflaði að mér, að ræða þyrfti mun á heilbrigðri hógværð, sem byggir á innsýn og skilningi og þeirri hógværð minnimáttarkenndarinnar, sem þar var lýst. Hér er aftur spurning, hvort menn geti ekki ruglast í ríminu. Er ekki eitt megininntak þessara pistla sá boðskapur, að til þess að við verðum frjáls, þurfum við að sjá innihaldsleysi viðhorfa og markmiða, grafa undan egóinu og helst losna við það? Hvað er þá óheilbrigt við að gefa sig hinu stóra á vald? Er ekki sagt, að með því að nálgast atman, færumst við nær Brahman, sem er allt. Er ekki einmitt heilbrigt að sleppa takmörkunum einstaklingseðlisins og sameinast heildinni? Er óheilbrigt að týna sjálfum sér í tónlist, náttúru, skáldsögu eða kynmökum? Vitum við ekki að hugsunin býr til takmarkanirnar og landamærin og að þessi landamæri eru ekki veruleiki heldur hugarburður?

Hér er eins og fyrri daginn grundvallarmunur á, eins og plús einn og mínus einn eru gagnstæður, en hafa sameiginlega töluna einn. Fullnægja, sem felst í að losna við hið einstaklingsbundna sjálf eða egóið og leitað er eftir vegna minnimáttarkenndar, öryggisleysis eða kvíða og þjáningar, er annars eðlis en t.d. trúarleg reynsla. Sá sem sækist eftir algleymi á þessum forsendum nær jafnan ekki þeirri fullnægju, sem hann sækist eftir, því að undir niðri er áherslan enn á sérstæði viðkomandi. Um er að ræða að bæla eða afneita öðrum helmingi viðhorfa og markmiða og lifa í hinum. Á sama tíma og viðkomandi verður viljalaust verkfæri, ætlast hann til að heimurinn aðlagist honum. Á sama tíma og hann finnur sig í fjötrum, vill hann hafa vald yfir öðrum. Báðar tilhneigingarnar í gagnstæðar áttir eru það sterkar, að engin millilausn fæst nema lifa í gegnum aðra, þannig að annar þátturinn er frávarpaður á þá.

Þörfin fyrir algleymi sem sprettur af ótta, takmörkunum og einangrun mannsins er sammannleg. Hins vegar er sá sem hér er miðað við í eigin fjötrum og reynir að losna úr þeim með því að gleyma sjálfum sér. Algleymi er ekki alltaf þess eðlis. Okkar maður getur ekki helgað sig einu eða neinu, engum málstað né elskað aðra persónu. Uppgjöfin er aðgerðarlaus, ef svo má segja, verið er að losna við sjálfan sig til þess að losna við sjálfan sig. Sá sem helgar sig málstað eða elskar aðra manneskju sýnir merki styrkleika en ekki veikleika. Þegar um er að ræða að losna við sjálfan sig í stærri heild, svo sem í listum, hugleiðslu, trúarlegri upplifun o.s.frv., er um að ræða uppbyggingu manneskjunnar, en ekki niðurrif á persónuleikanum, upplyftingu, lífsgleði og lífsfyllingu. Í þeim manni sem við ræðum um, er hið gagnstæða að gerast. Þá er verið að losna við allt án tillits til gildis þess og því fylgir meiri kvíði og óhamingja. Þótt leitað sé að fullnægju, fylgir þeirri leit ótti og sársauki. Grundvallarmunurinn er hér á eins og áður, hvort markmiðið ræðst af veikleika eða styrkleika. Munur er á sókn og vörn eða að sjá heildina og sig hluta af henni eða að vilja hverfa og verða að engu. Einnig er hér á sá grundvallarmunur, að annars vegar er áhugi á algleymi, hins vegar knýjandi nauðsyn, ekki frjáls vilji.

Að fá innsýn inn í hið algilda, og sjá hvernig hugurinn býr til takmarkanir og skapar þjáningu og að finna að allt er ein heild, það er annars eðlis en sú uppgjöf og algleymi, sem við ræðum hér. Með þeirri innsýn verður vitund okkar um veruleikann skýrari og við finnum elsku til alls. Þá sjáum við innihaldsleysi viðhorfa okkar og markmiða, sem gerir okkur frjáls. Við verðum sterk. Leiðin sem þessi þáttur fjallar um, gerir okkur stöðugt veikari.

Menning okkar veitir mörg tækifæri til óheilbrigðs sjálfgleymis, með vímugjöfum og miður hollri afþreyingu hvers konar. Hins vegar eru færri tækifæri fyrir venjulegan mann til uppbyggilegs algleymis, ef svo má segja. Kirkjan veitir ekki mikið á þeim vettvangi. Menning okkar krefst þess að sérhver standi á eigin fótum, haldi á sínu og berjist fyrir því. Sá sem hefur velferð heildarinnar að leiðarljósi, er sniðgenginn og verður hálfgerður utangarðsmaður.

Sá sem helgar sig einhverju málefni eða einbeitir sér að einhverju verkefni, t.d. skrifar grein eða gerist kórfélagi, verður með því hluti af stærri heild. Slíkt er gert af frjálsum vilja og gildir um það verk, sem hann tekur þátt í hverju sinni. Hann gengur til verksins af styrk og eflist við það. Hans innra sjálf, atman, fær meiri útrás eða eðlilega tjáningu. Hann er nær sjálfum sér. Sem hluti af heild finnur hann sig og heildina eitt.

Algleymi vímunnar, sem við fjöllum um í þessum þætti, er gagnstæðs eðlis. Þörfin fyrir slíkt algleymi á sér rætur í átökum persónuleikans við sjálfan sig. Ætlunin er ekki að þjást, en engu að síður verður þjáning það sem greitt er með. Sú fullnægja, sem sóst er eftir er fólgin í því að hverfa, verða ekki að neinu, gleyma sér til að gleyma sér.

Skiljanlegt er að sá sem er fullur af hömlum, minnimáttarkennd og innri árekstrum, leiti til algleymis í einni eða annarri mynd. Kleift er að komast hjá því að hverfa alveg með því að upplifa algleymi í skömmtum, t.d. í eigin hugarheimi eða kynmökum eða með því að detta í áfengisdrykkju af og til, án umtalsverðs skaða, því önnur svið svo sem vinna eða heimili geta eftir sem áður verið farsæl. Algengt er að menn séu fyrirmyndar starfsmenn, en láti eftir sér einhvers konar athafnir, sem veita nautn og algleymi. Þó er það gjarnan svo, að sá ótti og þau innri átök, sem valda þessari tilhneigingu gegnsýra einnig þessar athafnir og koma í veg fyrir að þeirra sé notið.

29.2 LEIT AÐ ÖRYGGI OG VERND.

Við höfum rætt um tilhneiginguna til að ná algleymi og losna við sjálfan sig, eigin takmarkanir og innri árekstra. Einnig má segja að reynt sé að lifa í hluta af sjálfum sér, jafnframt því að þurrka hinn hlutann út, þ.e. með því að lifa af meira öryggi í hluta af sér um leið og sýnt er fram á markleysi hins hlutans. Sömuleiðis má segja, að markmið þessarar tilhneigingar, sem einnig geta verið heilbrigð og almenn, sé fullnægja. Er ekki of mikil einföldun að segja, að þessi tilhneiging hafi það að markmiði að losna við sjálfan sig? Erum við ekki sí og æ að leita eftir fullnægju eða losa okkur við kvíða, án þess að gera okkur grein fyrir því?

Fullyrðingar um að sumir vilji þjást, séu ekki hamingjusamir nema hafa áhyggjur af einhverju, án þess þó að vera píslarvottar o.s.frv., eru byggðar á fölskum grunni. Meginhvatinn til að við viljum losna við sjálf okkur er einmitt að með því er losnað við kvíða og fengið visst öryggi. Lítum á þetta.

Við ræddum í öðrum þætti tilhneigingu til að gera lítið úr sér, finna sig óaðlaðandi, óverulegan, getulausan, heimskan og lítils virði. Hér er um að ræða gagnstæðu við narcissus, sem ýkir þessi gæði sín á gagnstæðan hátt. Narcissus finnur sig til í allt, geta allt, perfektionistinn að hann eigi að geta náð tökum á öllu, en sá sem við ræðum hér um hefur tilhneigingu til að segja: Ég get ekki. Narcissus vill vera miðpunktur athygli annarra, perfektionistinn finnur til yfirburða vegna eigin staðla, en vinur okkar lætur lítið á sér bera, telur sig hornreku.

Þá kemur til hin tilhneigingin, þ.e. að vera öðrum háður. Okkar maður er háður öðrum á annan hátt en narcissusinn og perfektionistinn. Narcissus þarfnast annarra vegna þess hve honum er nauðsynleg athygli og aðdáun þeirra. Perfektionistinn, sem leggur áherslu á að vera sjálfstæður, er háður öðrum, vegna þess hve öryggi hans byggist á undirgefni við væntingar hans eða þeirra. En hann blekkir sig með því að telja sig óháðan öðrum og verður hissa og særður, sé honum bent á það. Bæði narcissus og perfektionistinn ætla sér ekki að vera öðrum háðir, þótt þeir séu það. Þeim sem hér um ræðir eru það lífsnauðsynjar að vera öðrum háður. Honum finnst ekki hægt að lifa án samveru, velvildar, ástar og vináttu annarra, fremur en súrefnisins sem hann andar að sér.

Til þess að einfalda málið köllum við þennan annan aðila maka, hvort sem um er að ræða maka, ástmög, systkini, húsbónda, vin, lækni eða hóp manna, fjölskyldu eða trúarflokk. Hann getur lítið gert sjálfur og væntir alls frá “maka” sínum, hvort sem um er að ræða ást, árangur, virðingu, umhyggju eða vernd. Þrátt fyrir hógværð og lítillæti, eru væntingar hans miklar. Hann bindur sig öðrum án þess að átta sig á því, að “makinn” getur ekki uppfyllt þessar væntingar. Hann viðurkennir ekki takmarkanir sambandsins. Ástríða hans er óseðjandi í allt sem tengist athygli og blíðu. Viðhorf hans til örlaganna er hið sama og hann finnur sig hjálparvana leikfang gagnvart þeim. Honum finnst hann dæmdur og getur ekki hugsað sér að taka örlögin í sínar eigin hendur.

Þessar tilhneigingar byggjast engu að síður á sama gruni og hinar narcissku og perfektionisku. Í stuttu máli: Upplifi barn andsnúið umhverfi og verði fyrir fjandsamlegu viðmóti annarra, svo það fái ekki af eigin frumkvæði látið í ljósi tilfinningar sínar, óskir og skoðanir, er aðþrengt, einangrað og hjálparlaust í fjandsamlegum heimi, finnur það leið til að kljást við umhverfið, til að tryggja öryggi sitt og andlegt jafnvægi. Ein leiðin er að belgja sig út og gylla eigin verðleika, önnur að fylgja stöðlum í einu og öllu. Tilhneiging til að losna við sjálfan sig er enn ein leiðin.

Það er hughreysting að eiga maka eða vin, einkum þegar heimurinn er álitinn óáreiðanlegur, kaldur, svikull og hefnigjarn. Að finna sig hjálparlausan og háðan þeim heimi er sama og finna sig varnarlausan, þegar hætta er á ferðum. Þá eru eðlileg viðbrögð að halla sér að einhverjum og viss trygging í því að drekkja eigin persónuleika eða sameina hann annarri persónu. Smáþjóð sem býr við aðsteðjandi hættu, tryggir öryggi sitt með því að afsala sér eiginn rétti og sjálfstæði til valdameiri og árásarhneigðari þjóðar. Hún veit þó, að sjálfstæði sínu fórnar hún ekki vegna ástar á þeirri stærri. Í mannlegum samskiptum blekkja menn sig á þann hátt að álíta sig sýna öðrum hollustu, vináttu og ást. Þó er ekki um neina ást að ræða og þeir trúa raunverulega ekki á hana. Það sem gerist undir merki hollustu og ástar er festing. Verið er að halla sér að öðrum til að draga úr kvíða. Því er öryggið ótraust og ótti um að verða yfirgefinn og hafnað er fyrir hendi. Öll vinsamleg atlot veita því öryggi, en áhugi “makans” á öðrum, fyrir eigin vinnu eða ef áhugaleysi hans kemur upp, vekur upp kvíða á ný.

Með því að gera lítið úr sér öðlast maður öryggi þess hæverska og lítt áberandi. Öryggi fæst með því að gera sig óverulegan, óaðlaðandi og óáberandi, alveg eins og öryggi má fá með því heilla aðra með einstökum hæfileikum. Sá sem sækist eftir öryggi með því að láta lítið á sér bera, hegðar sér eins og músin, sem heldur sig í holunni, af ótta við að kötturinn éti hana, komi hún út. Afleiðingin verður að viðhorf til lífsins verður hjá viðkomandi hið sama og hins réttlausa laumufarþega sem reynir að vekja ekki athygli á sér. Að vera óáberandi verður þá þvingandi nauðsyn og kvíði kemur upp er viðkomandi lendir í sviðsljósi, t.d. er boðin stöðuhækkun. Hann verður óttasleginn, þegar hann vill láta skoðanir sínar í ljós í samræðum, og gerir það allavega í afsakandi tón. Hann klæðir sig í lítt áberandi fatnað og hefur mikla sannfæringu fyrir að hann “skipti ekki máli”. Hann verður órólegur, ef honum er hrósað fyrir gott starf. Hann gerir lítið úr því og fær því litla fullnægju út úr afrekinu. Skapandi starf verður erfitt, því að þar þarf að tjá sig, skoðanir og tilfinningar sínar. Hann þarf því einhvern til að halda í höndina á sér og hvetja sig til slíks.

Vegna þessa músarholusjónarmiðs kemur kvíði upp sjaldnar en ella, þar sem lífið er skipulagt með þeim hætti, að það veki ekki kvíða. Viðkomandi dregur sig sjálfkrafa í sína skel. Tækifæri eru ekki notuð. Setið er í annars flokks stöðum, sem eru fyrir neðan getu og hæfni, undir alls konar yfirskyni. Engar kröfur eru gerðar og sneitt er hjá samskiptum við fólk, sem gæti orðið að liði, árangur og afrek eru ekki upplifuð.

Viðkomandi veit varla af þessari tilhneigingu til að gera lítið úr sér eða gera sig óáberandi. Hann verður einungis var við afleiðingarnar. Hann heldur sig þannig að eðlisfari, að hann hati að vera áberandi og kæri sig ekki um frama. Hann hefur sjálfsagt hugmynd um, að hann sé haldinn minnimáttarkennd, en telur þá kennd fremur afleiðingu en orsök þess að hann sveigir sífellt af og beitir sér aldrei. Hún er undarleg þessi ósk um að vilja ekki standa á eigin fótum, taka ekki ábyrgð á sig en sækjast eftir vernd. Hér er þó verið að losa sig við kvíða, reyna að glíma við erfiðleika lífsins, sérstaklega hætturnar eða það sem álitið er hættulegt.

29.3 INNRI ÁREKSTRAR.

Sá lífsstíll, sem hér hefur verið að lýst, skapar óhjákvæmilega innri átök og árekstra. Viðkomandi fyrirlítur sig fyrir veikleika sinn. Þjóðfélag okkar hvetur ekki til hjálparleysis og ósjálfstæðis sem æskilegs markmiðs, þótt svokölluð hógværð sé í hávegum höfð. Þá er fylgispekt og hollusta, hvort sem er í hjónabandi eða stjórnmálum, einnig mikils metin. Því geta þetta talist æskilegir eiginleikar. Ekkert æskilegt stöðutákn fylgir þó þessu viðhorfi. Viðkomandi sækist heldur ekki eftir hjálparleysi, heldur aðeins eftir því að vera óáberandi og öðrum háður til að öðlast öryggistilfinningu. Veikleikinn er því óhjákvæmileg afleiðing, en þó óæskileg að mati viðkomandi. Það er hættulegt að sýna veikleika í fjandsamlegum heimi. Sú fyrirlitning sem menn sýna veikleika almennt, veldur því að viðkomandi fyrirlítur einnig eigin veikleika.

Veikleikinn verður því viðkomandi til sífelldrar skapraunar. Hann veitir því athygli, að hann stendur ekki fast á skoðunum sínum, hann þorir ekki að bera fram ákveðnar óskir, hann samþykkir, þegar hann vill frekar hafna, sér seint og síðarmeir, að einhver hefur verið andstyggilegur við hann. Hann hefur verið að friðþægjast og afsakað sig, þegar hann hefði átt að beita sér, með því að forðast erfiðleika hefur hann glatað tækifærum o.s.frv.

Sú þjáning sem veikleikinn veldur, leiðir til blindrar aðdáunar á hvers konar styrkleika. Í laumi er dáðst að þeim sem er ákveðinn og beinskeyttur. Bæði sá sem lýgur og blekkir og sá sem sýnir málefnalegt hugrekki njóta aðdáunar. Þá kemur ímyndunaraflið til sögunnar. Í eigin hugarheimi er mönnum sagt til syndanna, þeir eru þar fullkomnir elskhugar og ofurhugar. Slíkir hugarórar veita huggun, þótt þeir dýpki innri andstæður. Samskipti og sambúð við maka eru full af fjandskap. Nefna má þrjár orsakir þess:

Í fyrsta lagi væntingar gagnvart makanum, sem ekki fást uppfylltar. Væntingar um umhyggju og ástúð, hjálp o.s.frv. Slíkar væntingar getur makinn ekki uppfyllt, því þær eru svo miklar og makinn vill halda sínu sjálfstæða lífi. Vonbrigðin valda reiði, einkum þar sem viðkomandi sér ekki þessar miklu væntingar sínar. Hann sýnir heldur ekki spilin sín, heldur spilar sig hógværan og saklausan. Það er ekki hann sem hefur eigingjarnar og tillitslausar væntingar, heldur er hann vanræktur, blekktur, misnotaður af makanum. Viðbrögðin verða eins konar siðferðisleg hneykslun.

Í öðru lagi þótt viðkomandi telji, að “hann skipti ekki máli” er hann þó ofurviðkvæmur gagnvart vanvirðingu, lítillækkun eða vanrækslu annarra og reiðist slíku. Reiðina verður þó að bæla. Sá sem ekki skiptir máli gagnvart sjálfum sér, getur ekki fundist hann skipta máli gagnvart öðrum. Hann sér því ekki vináttu annarra, heldur verður bitur og innri átök eflast gagnvart þeim viðhorfum að þarfnast annarra á sama tíma og þeir eru hataðir.

Þriðja ástæða reiði er meira dulin. Af því að viðkomandi þolir ekki aðskilnað frá “makanum”, jafnvel ekki fjarlægð frá honum, finnst honum samt undir niðri að hann sé í hlekkjum. Honum finnst hann verða undir öllum kringumstæðum að samþykkja alla skilmála “makans”. Hann hatar undir niðri sitt eigið ósjálfstæði, lítur á það sem lítillækkun og er því í innri uppreisn gagnvart “makanum”, hversu tillitssamur sem hann er. Honum finnst “makinn” ráða yfir sér og að hann sé flæktur í kóngulóarvef, þar sem “makinn” er kóngulóin. Fjandskapur er þó ekki sýndur til að styggja ekki “makann”. Þess vegna er sú hætta ætíð á ferðum að reiðin blossi upp. Kvíðinn eykst sem aftur leiðir til meiri festingar o.s.frv. Vítahringur veldur því, að skilnaður verður alltaf mjög sársaukafullur. Átökin eru þannig jafnan milli ósjálfstæðis og reiði.

29.4 FULLNÆGJA EÐA VANSÆLA.

Þær tilhneigingar, sem hér hefur verið lýst, taka til allra þátta lífsins. Þær ákvarða lífstíl og hegðunarmynstur viðkomandi, hvernig hann lætur óskir sínar eða fjandskap í ljós og hvernig hann forðast erfiðleika. Einnig ráða þær öðru atferli hans, til dæmis að ná valdi yfir öðrum eða vera fullkominn. Þær ákvarða þá fullnægju, sem honum stendur til boða, þ.á.m. kynlíf hans.

Honum er til dæmis tamt að láta óskir sínar í ljós við aðra með því að benda á nauðir sínar vegna slæms ástands eða erfiðleika, hann sé í brýnni þörf fyrir tíma, fé, kynmök, áfengi eða hjálp af ýmsu tagi. “Þú verður að gera þetta fyrir mig, þar sem ég get það ekki eða á bágt með það.” “Þú hefur gert mér svo stóran grikk, að þú mátt til að gera eitthvað fyrir mig”. Á aðra eru lagðar strangar siðferðilegar skyldur. Eymdin og hjálparleysið er ýkt til að fá það sem sóst er eftir. Stór spurning er, af hverju slík herstjórnarlist er notuð, þar sem hún hættir smám saman að virka, þótt hún geri það stundum. Aðrir verða þreyttir á þessu og láta ekki spora sig þannig áfram. Ástæðan er sú, að viðkomandi er sannfærður um, vitað eða ómeðvitað, að hinn ytri heimur sé harður og óvinsamlegur og að öðrum er almennt ekki sjálflægt að láta hjálp í té. Hann telur sig fá það sem hann vill með þessu eina móti. Honum finnst líka að hann eigi engan rétt og þurfi því að réttlæta óskir sínar.

Hvernig fjandskapur er látinn í ljós fer mikið eftir persónuleikagerð. Sá sem vill vera fullkominn, er sífellt að stanga aðra eða særa með eigin siðferðilegum og vitsmunalegum yfirburðum. Fjandskapur er líka látinn í ljós með þjáningu og hjálparleysi, að sýnast fórnardýr eða píslarvottur. Að fremja sjálfsmorð og láta eftir sig skrif þar sem öðrum er kennt um, er dæmigert. Hugarórar um lítillækkun þeirra, sem móðgað hafa viðkomandi eða hafnað, er eitt form slíks fjandskapar.

Fjandskapurinn er varnarháttur. Hér kemur sadismi til, einkum í eigin hugarórum. Sá sem er veikur og undirokaður, hlýtur að óska þess að aðrir fari að vilja hans. Hann þráir að hefna sín, láta aðra skríða fyrir sér. Sá sem er bældur og lítillækkaður, gerir aðra ábyrga fyrir þjáningum sínum. Hér er góður jarðvegur fyrir sadistískar tilfinningar.

Við reynum öll að horfa fram hjá erfiðleikum eða forðumst að horfa í augu við þá. Sama gildir um þann, sem við ræðum hér um, en hann lítur með sérstæðum hætti á erfiðleika, einkum forðast hann þá með sérstæðum hætti. Vegna hinnar þvingandi hæversku sem hann er haldinn og ósjálfstæðis og þeim flóknu afleiðingum, sem þessi viðhorf hafa í för með sér, virðist honum smáþúfur verða að fjöllum, sérstaklega ef hann á að gera eitthvað fyrir sjálfan sig eða hann stendur andspænis ábyrgð og áhættu. “Ég get ekki” eru fyrstu viðbrögð hans. Honum vex allt í augum. Hann getur því orðið fyrirfram þreyttur, hefur tilhneigingu til að fresta hlutunum eða verður veikur, t.d. ef próf er framundan eða deila við yfirmann. Hann frestar að fara til tannlæknis eða gera upp ágreiningsmál innan fjölskyldunnar. Hann vonar alltaf að hlutirnir lagist af sjálfu sér í stað þess að taka á þeim strax. Hann veikir sig enn frekar einmitt með því að forðast erfiðleikana, í stað þess að leita þeirrar eflingar, sem felst í að berjast við þá og leysa þá.

Svo sem áður hefur verið vikið að veldur þvingandi hógværð og ósjálfstæði því að viðkomandi skapar sér ímyndað mótvægi með miklum hugmyndum um sjálfan sig. Til þess að verða ekki sjálfsfyrirlitningu algerlega að bráð, verður hann að bjarga sér með þessum hætti. Þessir hugarórar taka nokkurn tíma og krafta frá viðkomandi.

Önnur mynd birtist, þegar viðkomandi er samtímis þessu haldinn svo óseðjandi metnaði, að honum er óþolandi annað en koma einhverju til leiðar eða afreka eitthvað sérstakt í raun. Hér er togað í gagnstæðar áttir. Metnaðurinn sporar hann áfram til afreka á sama tíma og hógværðin gerir hann hræddan við árangur. Viðkomandi leysir þá gjarnan málið með því að skella skuldinni á aðra, persónur eða kringumstæður, og afla sér þannig fjarvistarsönnunar. Kona skellir skuldinni á það að hún sé kona, hún geti ekki gert neitt skapandi vegna daglegra anna, hún sé of lítil eða ekki rétt vaxin til að verða leikkona, hún þoli ekki öfund annarra. Aðrir vilja ekki gera eitthvað vegna annarra fjölskyldumeðlima eða af því að þeir telja sig ekki hafa fengið nægan stuðning. Hér er góður jarðvegur fyrir ímyndunarveiki. Að afreka í ímyndun sinni, án þess að þurfa að reyna nokkuð á sig, hefur fólgið í sér töfraljóma og er allt annað en að sinna heiðarlegu starfi eða koma einhverju í verk, sem er bæði jarðbundið og kostar átök og áreynslu. Því er freistandi að halda við ímyndunina og afla sér fjarvistarsönnunar.

Ef hinn hógværi og ósjálfstæði sækist eftir valdi, þá notar hann þjáninguna og eigið hjálparleysi til að ná fram óskum sínum. Ef aðrir láta ekki að vilja hans, vita þeir sem er, að hann kemst í slæmt skap eða annað því um líkt. Ef um fullkomnunaráráttu er að ræða, geta slíkir menn velt sér upp úr sektarkennd og þjáðst þannig, til að draga úr sektarkenndinni, í stað þess að horfa framan í eigin galla og ókosti í því augnamiði að kljást við þá. Hér vantar innra frumkvæði. Þetta er líka viðurkennd leið í menningu okkar. Mönnum finnst refsing í mynd þjáningar, draga úr sekt. Í mörgum trúarbrögðum viðgengst að menn séu að pína sjálfan sig og refsa til að draga úr sekt sinni. Þetta kemur fram í ýmsu öðru formi og hinn hógværi og sjálfstæði notfærir sér ríkulega þessa aðferð, ef kalla má svo. Þó má segja, það sem áður hefur verið ítarlega rakið í þættinum “Hinn seki”, að ástæða þess, að menn taka fríviljugir á sig þessa refsingu og þjáningu, er einmitt ekki sönn sektarkennd, heldur þvingandi nauðsyn að sýnast fullkominn eða tilraun til að gera af sér mynd hins fullkomna.

En hvernig getur öll þessi þjáning veitt fullnægju eða ánægju? Við megum ekki gleyma, að aðrar ánægju eða fullnægjuleiðir eru lokaðar. Sú ánægja sem fæst með því að beita sér, kljást við hlutina og sigra er útilokuð. Ef um slíkt er að ræða fylgir því kvíði, sem eyðileggur ánægjuna. Allt frumkvæði, sjálfstæð vinna og skipulagsbundið verk, sem ætlað er ákveðið markmið, er út úr myndinni. Vegna hógværðar er ekki hægt að njóta viðurkenningar eða árangurs. Hann getur aldrei helgað alla sína krafta ákveðnum málstað. Hann er líka of hræddur, tortrygginn og eigingjarn til að gefa sig viljugur og heilshugar einum eða neinum, málstað eða öðru.

Þótt aðrir séu ómissandi, hefur hann samt sem áður ekki efni á að hafa sjálflægan og einlægan áhuga á öðrum og vandamálum þeirra, þörfum, hamingju og þroska. Hann getur ekki gefið sig meira í ást en hann getur gagnvart málstað. Þess vegna eru möguleikar hans takmarkaðir á fullnægju í ást og kynlífi. Fullnægja fæst því aðeins eftir sömu leiðum og við höfum rætt, þ.e. með hógværð og ósjálfstæði. En þar rekumst við á vanda, því hógværð og ósjálfstæði veitir ekki eitt sér fullnægju. Hins vegar er vitað, að fullnægja fæst þegar þessi viðhorf eru framkvæmd til hins ítrasta. Í kynferðislegum hugarórum er viðkomandi þá algerlega ósjálfstæður í höndum “makans”, hann er leir í hans höndum, er lítillækkaður, pyntaður eða nauðgað, með því að týna sjálfum sér í “ást” eða í fórn, með því að afnema persónuleikann, alla sjálfsvirðingu, með því að drekkja einstaklingseðli sínu í lítilsvirðingu.

En eru þessir öfgar þá nauðsynlegar? Samlíf með “maka” er uppfullt af árekstrum og sársaukafullri reynslu. Engin nautn eða ánægja fæst af þessari reynslu og í raun er ekki sóst eftir henni, en hún er óhjákvæmileg afleiðing og jafn sársaukafull fyrir viðkomandi og alla aðra. Svo endurtekið sé, þá fyrirlítur viðkomandi sjálfan sig fyrir að vera ósjálfstæður, hann verður stöðugt fyrir vonbrigðum vegna væntinga sem ekki eru uppfylltar og honum finnst alltaf illa með sig farið. Þess vegna er eina leiðin að draga úr innri árekstrum með því að lifa í hluta persónuleikans og deyfa þjáninguna.

Þegar átökin eru á milli veikleika og styrkleika, milli þess að sameinast öðru eða beita sér sjálfum, milli sjálfsfyrirlitningar og stolts, verður aðferðin sú, að ýta til hliðar í eigin hugmyndaflugi, allri viðleitni í átt til styrkleika, stolts, sæmdar, sjálfsvirðingar en þess í stað að hverfa algerlega í átt til veikleika og ósjálfstæðis. Þegar hann hefur orðið á þennan hátt verkfæri í annars höndum, þegar hann hefur horfið sjálfur í eigin niðurlægingu, getur hann notið kynferðislegrar fullnægju. Með því að auka þjáningar sínar og hverfa í þær, ef svo má segja, gefast upp fyrir þeim, eru þær deyfðar. Sá sem veltir sér upp úr lítillækkun dregur úr þeim sársauka sem fylgir sjálfsfyrirlitningu. Reynslan verður þá ánægjuleg og seðjandi.

Hvernig er hægt að draga úr sársauka með ýkingu? Með þjáningu fæst enginn vinningur, enginn áhorfandi hrífst, engin samúð fæst, enginn sigur. Að viðurkenna mistök, ósigur, ókosti og galla er erfitt fyrir þann, sem hefur háar hugmyndir um sjálfan sig. Þegar sá sami verður að engu að eigin mati, hverfa andstæðurnar, sem eru veikleiki, styrkleiki, smæð, yfirburðir o.s.frv. Með því að ýkja eigin eymd og lítilsvirðingu, verður reynslan óraunverulegri og þannig er dregið úr þjáningunni. Hér er spilað á gagnstæðurnar og magni breytt í gæði. Hin ýkta þjáning verður eins konar vímugjafi. Fullnægjan felst í því að losna við sjálfan sig í eitthvað annað.

Við höfum áður talað um aðrar heilbrigðar hliðstæður, svo sem að týna sér í kynlífi, tónlist, málstað, trúarlífi eða náttúrunni. Hér er á ferðinni mannleg tilhneiging, sem er menningarlega og þjóðfélagslega viðurkennd til þroska. Sú tilhneiging, sem við höfum aðallega rætt í þessum þætti, þótt að formi til sé eins og sú fyrrgreinda, snýst í andhverfu sína, vegna tilhneigingar til veikleika og ósjálfstæðis. Orsakar þessarar tilhneigingar er að leita í persónuleikanum, sem leyfir enga aðra fullnægju en þá sem felst í að yfirgefa sjálfan sig og sjálfsvirðingu sína. Um er að ræða tilraun óttaslegins og einangraðs persónuleika til að ná tökum á lífinu og hættum þess með hæversku og ósjálfstæði. Með því að skilja persónuleikann skiljum við áráttuna. Þjáningin er afleiðing en ekki tilgangur hennar. Fullnægjan sem fæst er ekki í þjáningunni sem slíkri, heldur í því að gefa sig á vald lítilsvirðingar og eymdar.