XXIV LÍFI DAUÐINN

24.0 AÐ VERA ÖÐRUM ANDSNÚINN.

24.1 VIÐHORF HINS ÁREITNA.

24.2 INTERMESSO.

24.3 TILRAUN.

24.4 HELSÝKI.

24.0 AÐ VERA ÖÐRUM ANDSNÚINN.

Við höfum í undanförnum þáttum skoðað manngerðir, sem einkennast af narcissus, perfektionisma, hefndarsigri og sadisma. Við getum sagt að heildarviðhorf þeirra sé viss árásarhneigð eða viðleitni til að snúast gegn öðrum. Sá, sem hefur gagnstæð viðhorf, vill geðjast fólki og trúir að það sé “gott”. Hann verður undrandi, er hann rekst á hið gagnstæða. Hins vegar gerir sá árásarhneigði ráð fyrir, að aðrir séu fjandsamlegir og hann hafnar því algerlega að svo sé ekki. Honum finnst lífið barátta allra gegn öllum. Hann er mjög tregur til að viðurkenna undantekningar frá þessu og gerir það með fyrirvara.

Viðhorf hans eru oftast ekki augljós, og hann sýnir yfirbragð fágaðrar kurteisi, sanngirni og góðs félaga. Hann getur sýnt sveigjanleika sem segja má að sé yfirborðslegt sambland af uppgerð og sönnum tilfinningum. Hann vill gjarnan að aðrir telji hann “góðan náunga”. Vissulega getur verið um raunverulega góðvild að ræða, en það varir aðeins á meðan að enginn vefengir, að hann hafi yfirhöndina. Þörf fyrir velþóknun og blíðu er þannig notuð í þjónustu árásarhneigðarinnar. Sá sem vill sýna góðvild og geðjast öðrum, þarf ekki að gera sér upp sérstaka ásýnd, þar sem gildi hans eru í samræmi við góða siði og þjóðfélagslega æskilega og kristilega hegðun.

Þessar þarfir eru þvingandi og ráðast af kvíða, sem býr í undir vitundinni, þótt ótti sé aldrei viðurkenndur né sýndur. Öllu er beint í þá átt að vera, verða eða virðast vera harðgerður og sterkur. Þarfir hans ráðast einkum af tilfinningu fyrir því, að hinir hæfu komist af, eins og Darwin taldi, að hinir sterku tortími hinum veiku. Menningin ákvarðar hvaða eiginleikar stuðli að því að menn “komist áfram”, eins og kallað er. Í öllu falli er meginlögmálið harðlynd hyggja að eigin “hagsmunum” og eltingaleikur við þá. Þess vegna verður meginþörfin sú, að hafa vald yfir öðrum.

Aðferðirnar til að ná valdi eru með ótal tilbrigðum. Um beina valdbeiting eða óbeina getur verið að ræða, svo sem með ýktri umhyggjusemi eða því að leggja skuldbindingar á aðra. Viðkomandi vill e.t.v. vera sá, sem ræður á bak við tjöldin. Nota má vitsmunina til að nálgast valdið, meðal annars með því að trúa á að öllu verði stjórnað með rökhyggju, framsýni og fyrirhyggju. Valdformið fer eftir upplagi og hæfileikum viðkomandi. Að hluta til er alltaf um að ræða samruna gagnstæðra tilhneiginga. Ef viðkomandi er til dæmis á flótta frá lífinu og hneigist til að draga sig út úr því, þá forðast hann alla beina valdbeitingu sem myndi færa hann of nærri öðrum. Ef þörf ástúðar og velvildar er einnig fyrir hendi, verður valdbeitingin með óbeinum hætti, t.d. þeim að vilja ráða bak við tjöldin.

Á sama tíma er jafnan þörf fyrir að skara fram úr, ná árangri, velgengni, virðingu eða viðurkenningu í einhverju formi. Að hluta til er sóst eftir valdi, sem árangur og virðing veita í samkeppnisþjóðfélagi okkar. Ytri viðurkenning og stuðningur veita tilfinningu fyrir styrk og yfirburðum. Hér er það, eins og þegar um er að ræða aðrar tilhneigingar, svo sem að sækjast eftir ástúð og velvild, að þungamiðja sálarlífsins, liggur utan við okkur sjálf. Staðfesting eða viðurkenning frá öðrum er aðeins breytileg. Hvað sem breytileikanum líður er hinn ytri stuðningur eftir sem áður jafn tilgangslaus og lítils virði. Að fólk undrast það að velgengni dragi ekki úr öryggisleysi þess, sýnir sálfræðilegt þekkingarleysi. Að fólk skuli búast við þessu, sýnir hve virðing og velgengni er stór þáttur innri mælikvarða.

Hluti myndarinnar er mikil þörf fyrir að hagnýta sér aðra, leika á þá og nýta fyrir sig sjálfan. Sérhver staða eða tengsl er metin miðað við það hvernig hægt er að hagnast, hvort sem um er að ræða peninga, virðingu, sambönd eða hugmyndir. Sjálfur er viðkomandi sannfærður um, vitað eða óvitað, að allir hugsi á þann hátt, að það sem gildi sé að ná meiri skilvirkni en aðrir í þessum efnum. Ræktun þessara hæfileika er gagnstæð þeim, er sækist eftir blíðu og velvild. Hann verður harður og ákveðinn, eða a.m.k. hefur þá ásýnd. Hann telur tilfinningar væmið fyrirbrigði, hvort sem það eru hans eigin eða annarra. Ást gegnir almennt litlu hlutverki hjá honum. Hann verður auðvitað ástfanginn, nýtur ástaratlota og eignast maka. Það sem skiptir hann þó máli, er að velja girnilegan, aðlaðandi maka, sem nýtur þjóðfélagslegrar virðingar eða er nægilega ríkur til að hann geti bætt eigin stöðu. Hann sýnir ekki tillitssemi. Hann álítur að aðrir hugsi aðeins um sjálfan sig. Hann telur heimskulegt eða sýndarmennsku að hugsa ekki fyrst og fremst um eigin hag. Honum er þvert um geð að viðurkenna hvers konar ótta og gerir róttækar ráðstafanir til að ná tökum á honum.

Sá, sem sækist eftir blíðu og velvild, hefur tilhneigingu til að friðmælast. Hinn árásargjarni gerir allt til að vera góður bardagamaður. Hann er vökull og næmur. Hann er beittur og hvass í rökræðum og kemur rökræðum gjarnan af stað til að sýna fram á, að hann hafi rétt fyrir sér. Honum líkar vel, ef hann snýr baki að veggnum og orrusta er óumflýjanleg. Hann er jafnan tilbúinn til að ásaka aðra. Sektarvitund skiptir hann ekki máli. Þegar sá er friðmælist lýsir sig sekan, er hann að vísu ekki jafnan sannfærður um sekt sína, en hann verður samt að friðmælast nauðugur viljugur. Á sama hátt er hinn árásargjarni ekki sannfærður um, að aðrir hafi rangt að mæla. Hann gengur aðeins út frá því, að hann hafi rétt fyrir sér, því hann þarfnast grundvallar, sem hann getur í fullri vissu staðið á, eins og her sem þarf öruggan stað til að geta hafið árás. Að viðurkenna mistök, þegar það er ekki alveg óhjákvæmilegt, virðist honum ófyrirgefanleg uppljóstrun eigin veikleika, jafnvel hrein heimska.

Í samræmi við það viðhorf að þurfa að berjast gegn meinfýsnum heimi, verður hann að þroska með sér næmni fyrir sérstæðri tegund raunsæis. Hann er aldrei svo einfaldur að hann sjái ekki hjá öðrum einkenni metnaðar, græðgi, fávisku eða annars sem gæti hindrað hann í að ná eigin markmiðum. Staðreyndin er líka sú, að slíkir eiginleikar eru algengari í samkeppnisþjóðfélagi okkar en velsæmi og háttprýði og því getur hann réttlætt sig með því að vera aðeins raunsær. Í raun er hann einskorðaður í viðhorfum eins og sá er sækist eftir ástúð og velþóknun, þótt þar sé um gagnstæðu að ræða.

Ein hlið raunsæisins liggur í þeirri áherslu, sem hann leggur á framsýni og skipulagningu. Eins og góður skákmaður vegur hann og metur hverja stöðu, möguleika sína, styrkleika andstæðingsins og hugsanlegar gildrur. Þar sem hann er nauðbeygður til að koma sínu fram og sýnast sterkur, kænn eða eftirsóttur, reynir hann að þróa með sér hæfni og nauðsynleg úrræði til þessa. Þrótturinn og greindin, sem hann leggur í verk sitt, gerir hann venjulega að virtum starfsmanni eða árangursríkan við eigið fyrirtæki. Hann virðist því hafa áhuga á vinnu sinni eða því sem hann er að gera, en það er villandi, þar sem vinna fyrir hann er aðeins meðal eða tæki til að koma fram markmiðum. Hann hefur enga ást á því sem hann er að gera og hefur enga raunverulega ánægju af því, enda er það í samræmi við tilhneigingar hans að útiloka tilfinningar úr lífi sínu.

Útilokun tilfinninga hefur tvíþætt áhrif. Annars vegar er það hagkvæmt, þar sem árangur fæst með því að gera sig að velsmurðri vél og framleiða sífellt þau verðmæti, sem færa meiri völd og virðingu. Tilfinningar gætu þá orðið þrándur í götu. Þær gætu hugsanlega beint honum að verki, sem gæfi minna tækifærishagræði. Þær gætu leitt hann af leið frá þeirri tækni, sem hann notar á leið sinni til frama. Þær gætu ginnt hann frá verki sínu og freistað til að njóta náttúru eða listar eða félagskapar vina í stað þess sem aðeins má nota fyrir eigin tilgang. Á hinn bóginn hefur sá tilfinningakuldi, sem skapast við að tilfinningar eru kæfðar, áhrif á gæði vinnunnar, allavega dregur hann úr sköpunarmætti.

24.1 VIÐHORF HINS ÁREITNA.

Hinn áreitni virðist hömlulaus. Hann virðist geta sett fram óskir sínar og fylgt þeim eftir, gefið fyrirskipanir, látið reiði í ljós, varið sig o.s.frv. Samt sem áður er hann bældur og fullur af hömlum ekki síður en sá, sem friðmælist og sækist eftir velþóknun annarra. Samkeppnisþjóðfélagið leynir okkur þessu. Hömlur hans búa á tilfinningasviðinu. Vinátta, ástúð, skilningur og samúð eru ekki hans sterka hlið. Hann getur ekki notið hluta, sem ekki miðast við eigin hagsmuni. Hann lítur á það sem tímasóun.

Hann telur sig sterkan, heiðarlegan og raunsæjan. Allt er það rétt séð frá hans eigin sjónarmiði. Ef horft er á forsendur hans er sjálfsmat hans rökrétt. Vægðarleysi verður styrkleiki, tillitsleysi verður heiðarleiki og framkvæmd eigin markmiða raunsæi. Viðhorf hans til heiðarleika eru að hluta fengin með því að horfa til uppgerðar og sýndarmennsku annarra. Hann sér til dæmis að stjórnmálamenn hafa í raun lítinn áhuga á málefnum, menn gera sér upp tilfinningar, og að vinsemdin er ekki öll þar sem hún er séð. Viðhorf hans verða þess vegna þau að máttur sé jafngildi réttar. Burt með tilfinningasemi og fyrirgefningu.

Hinn áreitni hafnar raunverulega raunsamúð og raunvináttu á sama hátt og hann hafnar sýndarmennskunni í þessu tilliti. Hann veit þó um muninn, því hann þekkir einnig vináttu sem byggist á innri styrk. En hann telur það ekki þjóna hagsmunum sínum að gera mun í þessu efni. Bæði viðhorfin álítur hann ókosti með tilliti til baráttunnar fyrir að skara fram úr.

Af hverju hafnar þessi maður hinum mildari mannlegu hliðum? Af hverju hefur hann ímugust á ástúð hjá öðrum? Af hverju fyrirlítur hann þann sem sýnir samúð, að því er hann telur á röngu augnabliki? Tilfinningar hans til þessa eru þó blendnar. Þótt hann fyrirlíti slíkt, er hann engu að síður ánægður með slíka framkomu, þar sem hann getur þá betur fylgt eftir eigin markmiðum. Slíkur maður dregst að þeim, sem friðmælast og sækjast eftir velþóknun, á sama hátt og þeir dragast að honum. Allar þessar öfgar stafa af því, að hann verður að berjast við hinar veikari tilfinningar í sér sjálfum. Með veikari tilfinningum er átt við raunverulega ástúð, meðaumkun og því um líkt, þ.e. þarfir, staðla og tilfinningar þess sem sækist eftir ástúð og velvilja.

Hann fær útrás fyrir veikari hliðina, þ.e. ást og velvilja með aðdáun eða viðurkenningu. Með viðurkenningu fær hann þá staðfestingu á sjálfum sér, sem hann þarf, en einnig þá viðbótartálbeitu eða möguleika að fá velþóknun annarra, sem hann getur svarað í sömu mynt. Þannig verður virðingarþörfin lausn á andstæðunum og sú tálsýn, sem bjarga á öllu og keppt er að. Fyrir hinn áreitna er samúðartilfinning eða sú skylda að vera “góður maður” og einnig það að þurfa að friðmælast eða sækjast eftir velþóknun annarra, ósamþýðanlegt þeim lífstíl, sem hann hefur byggt upp. Slíkt myndi skekja grundvöll hans. Að þurfa að horfa framan í gagnstæðar tilhneigingar þvingaði hann til að sjá ósættanlegar þverstæður í sér sjálfum og eyðileggja það andlega skipulag sem hann hefur fóstrað, skipulag einingar. Afleiðingin er sú að bæling “veikari” tilhneiginga magnar hinar áreitnu og gerir þær að enn meiri krefjandi nauðsyn. Hann finnur ekki neitt meðalhóf ef svo má segja til að fylgja.

Eina leiðin til að leysa andstæðurnar er sú, að honum finnst, að bæla með öllu gagnstæða hlið í persónuleikanum, þá sem honum finnst vera veikari. Hjá öðrum myndi þetta vera öfugt. Þar er ást og velvilji talin sterkari hliðin, en heimspeki frumskógarins sú veikari og því bæld með sama hætti. Vandinn er þegar ekki verður gert upp á milli hliðanna og í hvoruga áttina verður farið. Þá er brugðið á það ráð, annað hvort að sækjast eftir því að verða “ekkert” eða lagt á flótta. Verður það betur rætt síðar.

Það er því að vissu leyti rangt hjá Carl Gustav Jung, þegar hann leggur áherslu á, að lækning sé fólgin í því einu að viðurkenna gagnstæðurnar í okkur. Við getum séð þær, en erfitt er að viðurkenna þær. Með því að sjá andstæðurnar erum við vissulega á réttri braut til heilunar. Við horfum þá framan í það sem við venjulega forðumst. En það sem Jung mat ekki nógsamlega er hin þvingandi nauðsyn þessara markmiða. Við höfum öll tilhneigingu til að sækjast eftir ástúð og velþóknun eða sýna áreitni á víxl. Þegar þessar tilhneigingar verða þvingandi nauðsyn, verður engin heild fengin með því að upplifa þær báðar, hvorki í senn né til skiptis. Tvær óæskilegar gagnstæðar stærðir lagðar saman, verða aldrei ein samræmd heild. Það er ekki nema með því að grafa undan báðum, sjá innihaldsleysi þeirra og skaða og leysa þær upp, að samræmd heild skapast.

24.2 INTERMEZZO.

Ég hefi áður sagt, að það væri löng vegferð frá hinum bjarta narcissus, sem dáist að mynd sinni, til hins dökkleita perfektionista, sem samsamar sig við staðla sína og hinsvegar til þess, sem lifir fyrir hefnd og sigur. Engu að síður hafa þeir margt sameiginlegt, svo sem ég hefi verið að rekja í þessum þætti. Hreinræktað frelsi og sjálfstæði, sem laust er við hagnýtingarmarkmið eða valdaáráttu, felur í sér ást á lífinu. Við eigum síðar eftir að ræða nánar um ást og velvild sem markmið. Áður en ég lýk við þessa þætti um viðleitni okkar til yfirburða og sný mér í “suðurátt”, verð ég að ræða örlítið nánar um hatur á lífinu og ást á dauðanum.

Að þekkja sjálfan sig felst í því að öðlast vitsmunalega og tilfinningalega innsýn í leynda þætti sálarlífsins. Slíkt tekur venjulega mörg ár fyrir þann, sem losna vill við ákveðin einkenni og allt lífið fyrir þá, sem vilja öðlast sjálfan sig. Marx sagði eitthvert sinn, að þótt sá þekkti þyngdarlögmálið, sem væri staddur ósyndur í djúpu vatni, drukknaði hann samt. Kínverskt máltæki segir: Að lesa lyfseðil læknar engan. Flestir finna litið til þeirrar vanlíðan sem þeir raunverulega búa við, þess lífsótta sem blundar, ótta við framtíð og til þeirra leiðinda og innihaldslausu einhæfni sem stöðugt nagar. Ekki stoðar að álasa foreldrum eða umhverfi. Það jafngildir því að vilja ekki horfa framan í eigin vanda og taka ábyrgð á sjálfum sér.

Við lærum að aðlaga okkur að þjóðfélaginu. Ef við aðhöfumst eitthvað, hegðum okkur eða höfum hugsanir eða tilfinningar, sem ekki falla inn í hið almenna mynstur, setur það okkur í verri stöðu. Við erum gjarnan það sem ætlast er til af okkur. Ef við ætlum að vera við sjálf, tökum við þá áhættu að öðlast ekki frama og jafnvel að þurfa að þola vissa einangrun. Þjóðfélagskerfið elur fólk upp í því að líta á titla, stöður og þess háttar, til marks um hæfni manna. Á meðan þessum táknum er viðhaldið í samfélaginu þorir venjulegt fólk ekki að spyrja sjálft sig, hvort keisarinn sé í fötum. Að lifa lífinu hefur sitt gildi, hlutir og eignir hafa lítið gildi. Í nútímaþjóðfélögum er sérstakt samband milli narcissus og óska almennings. Sumir vilja vera í snertingu við frægt fólk, af því að lífið er svo tómlegt og leiðinlegt. Fjölmiðlar lifa á því að selja frægð og þannig verða allir ánægðir, narcissus, fólkið og fjölmiðlarnir. Ég hefi áður rætt um græðgi og eiginhagsmuni. Óseðjandi græðgi í mat, drykk, kynlíf, eignir, frægð og frama, hefur ekkert með eiginhagsmuni að gera.

Meginið af þeim hefndarsigri sem ég hefi lýst á uppruna sinn í narcissus með einum eða öðrum hætti eða er í tengslum við hann. Andlag hefndarsigursins er alltaf annað fólk, en ekki dauðir hlutir. Að lítillækka aðra eða særa er almennara en sadismi sem beinlínis beinist að líkama manna. Sálræn þjáning er þó oftast verri en líkamleg. Þeir eru margir kunnáttumennirnir í því að nota rétta orðið eða látbragðið til að angra og lítillækka aðra sakleysislega. Slíkur sadismi er áhrifaríkur ef hann er viðhafður í annarra augsýn.

Ég hefi áður minnst á það, að margur er álitinn stórmenni, ef hann hefur verið sigursæll, en geðveikur eða glæpamaður ef hann tapar. Sadisminn er umbreyting á getuleysi til upplifunar á almætti, trúarbrögð andlegra krypplinga. Að upplifa algert vald yfir öðrum eða almætti sjálfs sín, skapar þá blekkingu að verið sé að yfirstíga takmarkanir mannlegrar tilvistar, sérstaklega fyrir þann, sem er sviptur lífi sköpunar og gleði.

Sadistinn verður ekki skilinn, ef við einangrum hann frá persónuleikanum sem heild. Sadistinn vill ná tökum á umhverfinu og hafa stjórn á lífinu. Fórnarlambið verður þess vegna að búa yfir gæðum lífsins. Þetta greinir sadistann frá þeim sem öllu vill eyða og hefur ást á dauðanum, ef svo má segja og lýst verður hér á eftir. Kalla mætti það helsýki (necrophilia). Sá sem er helsjúkur vill koma öðrum fyrir kattarnef, þurrka þá út, eyða sjálfu lífinu. Sadistinn aftur á móti, þarf líf fyrir sína hvöt, til að geta beitt valdi sínu og til að angra aðra og skemma fyrir þeim. Sadistinn þarf því fórnardýr, sem hann getur leikið sér með. Hinn helsjúki eyðir fórnarlambi sínu.

Sadistinn er hræddur við alla óvissu, allt sem í raun er óvænt og þvingar hann til sjálflaginna og upprunalegra viðbragða. Hann óttast lífið, því það er óvisst og verður ekki fyrirfram ráðið. Annað einkenni sadistans er hugleysi og undirlægjuháttur, þótt það hljómi eins og þverstæða. Sadistanum finnst innst inni hann vera getulaus, lífið fari á mis við hann, valdalaus. Hann reynir að bæta sér þetta upp með valdi yfir öðrum, með því að breyta þeim ormi, sem hann álítur sig vera, í guð. Jafnvel þótt sadistinn fái völd, þá þjáist hann engu að síður af þessu getuleysi. Hann getur pínt aðra, en verður samt sem áður áfram, ástlaus, einangraður og óttasleginn maður, sem þarfnast æðra valds, sem hann getur beygt sig fyrir. Fyrir þá sem gengu næst Hitler, var foringinn, æðsta valdið. Fyrir Hitler sjálfan voru það örlögin, lögmál þróunarinnar.

Þessi þörf fyrir að beygja sig fyrir öðru á rætur í svokölluðum masochisma. Sadismi og masochismi eru samtengd fyrirbrigði, andstæður hegðunarlega séð, en samt sem áður tvö andstæð einkenni sama grundvallarfyrirbrigðis, tilfinningu fyrir minnimáttarkennd og getuleysi. Bæði sadistinn og masochistinn þurfa annað fólk til að veita sér fyllingu, ef svo má segja. Sadistinn gerir annan mann að framlengingu á sér. Masochistinn gerist framlenging annars. Báðir sækjast eftir samlífi við hinn, því hvorugur hefur sína eigin þungamiðju í sjálfum sér heldur hinum. Sadistinn þarfnast fórnarlambs. Því er oft talað um sadomasochistisk einkenni, þótt annað einkennið sé meira áberandi í sumum.

Ég minntist á það áðan, að hefndarsigurinn bæri í sér mörg einkenni narcissus, sem hefði þróast áfram og sama á við mikið af sadismanum. Þróun perfektionismans er alltaf nokkuð dekkri. Þetta byggist á því, að sjálfmyndin er alltaf líflegri og lífvænlegri en staðlarnir. Staðlar eru fjær okkur. Sjálfsmyndin er nær okkur en markmiðin. Markmiðin eru dauðari og einkenni hinnar línulöguðu rökvísi. Sá t.d. sem dáist að hærra settum en fyrirlítur lægra setta er að hugsa í stöðlum. Ef barnið fær enga hvatningu, ekkert sem reynir á hæfileika þess, ef einkenni æskunnar eru leiðindi og gleðileysi og enginn hlustar á barnið eða svarar því, getur slíkt umhverfi leitt til sérstakra persónuleikaeinkenna síðar, sem gefur dekkri mynd en við sjáum hjá narcissus. Hinn reglusami og rökvísi eignasafnari er einmitt sú manngerð, sem getur leitt til þeirrar helsýki, sem ég ætla mér að reyna að lýsa örstutt í lokakafla þessa erindis.

Ég hefi sífellt verið að færa mig norðar í þessum þáttum og norðar í kuldann verður naumast haldið eða nær pólnum, svo þýðingu hafi fyrir venjulegt fólk. Sumir kunna að telja mig kominn út úr kortinu, en þeim til huggunar læt ég staðar numið og held í næstu þáttum beint til suðurs. Sést þá gagnstæðan og mótvægi þess, sem ég hefi verið að lýsa í síðustu 8 þáttum. Vilhjálmur Stefánsson, landkönnuður, sagði, að hann hefði jafnan talið tímabært að snúa heim, er hann var farinn að finna til kynhrifa af viðmóti mjög svo óaðlaðandi og ógirnilegra kvenna. Áður en ég lýk þessu og held til suðurs vil ég segja frá merkri tilraun og lýsa í örstuttu máli því sem kalla má helsýki (necrophilia).

24.3 TILRAUN.

Ég ætla lýsa tilraun, sem gerð var við Yale háskólann árið 1963. Til þátttöku í tilrauninni, sem sögð var til rannsóknar á námi og minni, var auglýst eftir 40 körlum á aldrinum 20 til 50 ára. Umsækjendurnir komu úr mörgum stéttum þjóðfélagsins, póstmenn, kennarar, sölumenn, tæknimenn og úr fleiri almennum starfsstéttum. Sumir höfðu grunnskólanám, aðrir háskólanám. Hver þátttakandi fékk 4,50 dollara greidda fyrir þátttökuna. Dollarinn var mun verðmætari þá en nú. Greiðslan var alls óháð því hver niðurstaða yrði af rannsókninni, hún var einungis fyrir þátttökuna.

Í hverri tilraun var þátttakandi og “fórnarlamb”. Einn þátttakandi og annað “fórnarlamb” tóku þátt í hverri tilraun. Tilraunin var fólgin í því að þátttakandinn gaf “fórnarlambinu” raflost. Því var haldið leyndu fyrir þátttakandanum, að raflosti var ekki til að dreifa. Þátttakendur voru fyrst upplýstir um samband náms og refsingar og sagt að lítið væri vitað um það vegna skorts á rannsóknum. T.d. væri ekki vitað, hversu mikið raflost væri best til náms, hvort máli skipti, hver gæfi raflostið eða veitti refsinguna, hvort kennarinn ætti að vera eldri eða yngri en nemandinn o.s.frv. Síðan var því haldið fram, að verið væri að safna saman alls konar fólki og hefðu sumir tekið að sér að vera kennarar en aðrir nemendur. Markmiðið væri að upplýsa, hvaða áhrif mismunandi fólk hefði hvert á annað, sem kennarar eða nemendur og hvaða áhrif refsing hefði á námið í þessu sambandi.

Síðan var þátttakendum sagt, að þeir yrðu beðnir um að vera annað hvort kennarar eða nemendur og þeir spurðir, hvort þeir kysu fremur. Þá var dregið um þá ákvörðun, hvor ætti að vera kennari og hvor nemandi í tilrauninni. Fyrirfram var búið að ganga frá málinu við “fórnarlambið”, báðir miðarnir höfðu áritað orðið “kennari”. Síðan fóru kennari og nemandi hvor í sitt herbergið. Nemandinn var bundinn niður í eins konar rafmagnsstól. Útskýrt var fyrir þátttakandanum að böndin á nemandanum væru til að koma í veg fyrir of miklar hreyfingar, þegar hann fengi raflost. Þannig gæti hann ekki komist burt. Rafloststæki var sett á úlnliði nemandans og þátttakandanum sagt að það tengdist rafloststæki í næsta herbergi.

Þá var þátttakandanum sagt, að hann skyldi láta nemandann fá raflost, hvert skipti sem hann gæfi rangt svar. Jafnframt var þátttakandanum sagt að auka styrkleika raflostsins um eitt stig við hvert rangt svar nemandans. Hann átti einnig að tilkynna styrkleika spennunnar, áður en hann veitti raflostið. Þetta var gert til að þátttakendum væri ljós vaxandi styrkur raflostanna.

Nemandinn var undirbúinn þannig, að ákveðið var hvaða svör hann gæfi. Prófið gekk út á orðasamstæðu og svarað með því að rétta fram spjöld. Yfirleitt voru þrjú röng svör á móti einu réttu. Ekkert heyrðist frá nemanum og hann mótmælti ekki fyrr en spennan varð 300 volt. Við þá spennu barði hann í þilið við hlið sér þar sem hann sat. Þátttakandinn heyrði það. Þegar þessari spennu var náð, hætti nemandinn að nota spjöldin. Ef þátttakandinn sagðist ekki vilja halda áfram tilrauninni, brást sá er tilrauninni stjórnaði við með hvatningarorðum til að halda þátttakandanum við efnið. Var það einnig skipulagt og stigmagnandi. Fyrst: Haltu áfram. Annað: Tilraunin krefst þess að þú haldir áfram. Þriðja: Það er algerlega nauðsynlegt að þú haldir áfram. Fjórða: Þú hefur ekkert val, þú verður að halda áfram. Ef það fyrsta dugði ekki var annað notað o.s.frv. Ef fjórða dugði ekki var tilrauninni hætt. Rödd stjórnanda tilraunarinnar var ákveðin en kurteis. Byrjað var upp á nýtt með hvatningarnar í hvert sinn, sem þátttakandinn færðist undan að hlýða.

Sérstök hvatning var í því fólgin, að spyrði þátttakandi, hvort vænta mætti að nemandinn yrði fyrir varanlegu líkamlegu tjóni, þá svaraði sá er tilrauninni stjórnaði: Þótt raflostin séu sársaukafull, valda þau engum skemmdum á líkamanum, haltu áfram. Þessari hvatningu var, ef nauðsynlegt þótti, fylgt á eftir hinum fjórum. Þá var enn önnur sérstök hvatning fólgin í því, að segði þátttakandinn, að nemandinn vildi ekki halda áfram, svaraði stjórnandinn: Hvort sem nemandinn vill eða ekki, verðurðu að halda áfram, þar til hann hefur lært allar orðasamstæðurnar rétt. Þessari hvatningu var einnig, ef nauðsynlegt þótti, fylgt á eftir hinum fjórum.

Ég væri ekki að rekja þessa ítarlegu lýsingu á tilrauninni, sem ég hefi þó reynt að stytta, ef ég hefði ekki orðið undrandi á niðurstöðunum. En hverjar voru niðurstöðurnar? Margir þátttakendur sýndu einkenni taugaveiklunar meðan tilraunin fór fram, sérstaklega þegar þeir veittu nemandanum öflug raflost. Í mörgum tilvikum var spennan afar mikil. Þátttakendur sáust svitna, titra, stama, bíta í varirnar, stynja og stinga nöglunum í hold sitt. Þetta var almennt einkenni frekar en undantekningar. Sérstakt merki spennunnar voru reglubundin taugaveikluð hlátursköst. Af 40 þátttakendum létu 14 í ljós taugaveiklaðan hlátur eða bros. Hláturinn var þó algerlega óviðeigandi og fáránlegur. Þrír þátttakenda fengu fullkomin og óviðráðanleg hlátursköst, í einu tilviki svo magnað að hætta varð tilrauninni. Þátttakandinn, sem var 46 ára sölumaður alfræðiorðabókar, varð mjög vandræðalegur yfir þessari óæskilegu og óviðráðanlegu hegðun sinni. Í viðræðum eftir á lögðu þátttakendur mikla áherslu á, að þeir væru ekki haldnir sadisma og að hláturinn þýddi alls ekki að þeir nytu þess að gefa fórnarlömbum sínum raflost.

Gagnstætt því sem búast mátti við, hætti enginn þátttakenda áður en að 300 volta raflostsstiginu kom. Það var þá að fórnarlambið byrjaði að berja í vegginn og hætti að svara valkvæðum spurningum kennarans. Aðeins fimm þátttakendur neituðu að hlýða skipunum stjórnenda tilraunanna, þegar komið var yfir 300 volt. Fjórir þeirra veittu eitt raflost til viðbótar, tveir hættu við 330 volta stigið og einn við hvert stig 345, 360 og 375 volt. Þetta eru alls 14 eða 35% þátttakenda, sem neituðu að hlýða stjórnanda tilraunanna.

Þeir, sem hlýddu stjórnandanum, gerðu það mjög stressaðir, ef svo má segja. Þeir sýndu samskonar ótta og þeir sem ekki hlýddu. Þegar hámarksraflost hafði verið veitt nemendum og stjórnandinn lét hætta tilrauninni, stundu margir þátttakenda feginsstunu og sýndu önnur merki að þeim hefði létt. Sumir hristu höfuðið, augljóslega í eftirsjá. Sumir voru rólegir meðan tilraunin stóð yfir og sýndu aðeins óveruleg merki spennu.

Niðurstöður tilraunanna hafa þótt merkilegar fyrir þær sakir, að 26 þátttakendur, sem lært höfðu frá barnæsku, að siðlaust sé að meiða aðra gegn vilja þeirra, hlýða fyrirmælum án valdboðs. Þá hefur þótt merkileg sú spenna, sem fylgdi tilrauninni. Þátttakendur hætta ekki samkvæmt eigin samvisku, þeir halda áfram og viðbrögðin verða taugaspenna og mikið álag. Einn athugandi segir svo:

“Ég veitti athygli verslunarmanni, þroskuðum og upphaflega í jafnvægi, sem kom inn í tilraunastofuna brosandi og öruggur. Innan 20 mínútna var hann kominn með viprur í andlit og farinn að stama og nálgast að falla tilfinningalega saman. Hann togaði stöðugt í eyrnasnepilinn og néri höndunum saman. Einu sinni þrýsti hann hnefanum á enni sitt og muldraði: “Ó guð, láttu okkur hætta þessu”. Samt hélt hann áfram að hlýða orðum stjórnanda tilraunarinnar. Hann hlýddi allt til enda hennar.”

Ég læt mönnum að öðru leyti eftir að draga ályktanir af þessari athyglisverðu tilraun.

24.4 HELSÝKI.

Þjóðernissinnaður hershöfðingi í spænsku borgarastyrjöldinni, Millán Astray að nafni, hrópaði: “Lifi dauðinn” og síðar “niður með gáfur”. Var þessi upphrópun ekki síst fræg, vegna þess andsvars, sem hún fékk frá hinum spænska heimspekingi og háskólarektor Unamuno, er notaði þá í fyrsta sinn orðið “necrophilous” eða helsýki um persónuleikaeinkenni. Ekki er tóm til að rekja þessa sögu hér, en sálfræðingurinn Erich Fromm hefur sérstaklega kannað þessi einkenni og skrifað um það 500 blaðsíðna bók, sem heitir “The Anatomy of Human Destructiveness”, þar sem hann m.a. sálgreinir Hitler, Himler og Stalín. Helsýki hefur verið skilgreind sem ástríðufull þörf fyrir að dragast að öllu dauðu, rotnu og sjúklegu, að breyta öllu sem lifandi er í dautt, að eyðileggja eyðileggingarinnar vegna, að hafa sérstakan áhuga á öllu vélrænu og að hluta í sundur allt lífrænt.

Við munum úr Persaflóastríðinu og öðrum styrjöldum, að hermenn, sem létu sprengjurnar rigna úr flugvélum, voru þess varla varir að þeir væru að drepa eða limlesta þúsundir manna á örskömmum tíma. Manndráp höfðu engin áhrif á þessa menn. Áhugi þeirra snerist aðeins um meðhöndlun flókinna tækja og nákvæmar áætlanir. Þeir vissu að fólk dó og varð örkumla, en upplifðu það ekki tilfinningalega. Það kom þeim ekki við og hræðilegustu verk, sem menn fremja, fylgir engin sektarkennd. Litið er á þau, eins og tæknilega framleiðslu, þótt framleiðslan sé jafnan ekki augum litin. Útrýmingarbúðir nasista höfðu á sér verksmiðjusnið. Er það ekki lexía fyrir okkur hina, sem höfum sektarkennd út af smáyfirsjónum?

Helsýki hefur sterk einkenni þess að vera framahaldsþróun perfektionisma og valdsýki, enda eru skyldur og hugsun skipulagsbundin fyrirbæri ætlað til að ná taki á sér og umhverfinu. Eðli þessara þátta er kuldi og tilfinningaleysi. Perfektionistinn er líflaus og vélrænn, en hann þarf alls ekki að vera helsjúkur. Sadistinn þarf aðra manneskju, sem hann verður að hafa vald yfir. En þegar mannlegu tengslin eru rofin, kemur helsýkin til. Markmið hennar er að breyta öllu lífi í dauða, allt verður að eyðileggjast, jafnvel viðkomandi sjálfur. Óvinurinn er lífið sjálft.

Samhengi er milli annars vegar hins vélræna og líflausa og hins vegar skyldu, valds og auðssöfnunar. Áhuginn snýst frá lífinu, frá mannfólki, náttúrunni, hugmyndum, frá öllu lifandi og því breytt í hluti, þ.á.m. viðkomandi sjálfur. Gleði verður skemmtun og æsingur, ást og kynlíf verður að ástarvél. Lífið verður samsafn líflausra gervihluta. Lífsmarkmiðið verður það sem hin rökræna tækni hefur ákveðið. Allt verður sjálfvirkt, viðkomandi einnig. Tilfinningar eru ekki bældar, þær gufa upp, ef svo má segja. Tilfinningar eru ekki ræktaðar nema sem ástríður, þ.e. ástríður að sigra, vera fremri, eyðileggja og með því að æsa sig upp í kynlífi, hraða eða hávaða. Annað einkenni er að hegða sér á staðlaðan, venjubundinn og uppgerðarlegan hátt. Ekki er sóst eftir gæðum lífsins. Innihaldsríku og áhugaverðu starfi er fórnað fyrir starfi með tekjum og virðingu. Andleg gildi eru látin lönd og leið.

Helsjúkir menn eru hættulegir. Þeir eru kynþáttahatarar og hryðjuverkamenn. Þetta tilfinningalausa skeytingarleysi fyrir lífi og limum annarra er algengt og sumir hlakka yfir óförum annarra. Menn hafa gaman af að sjá slys, skoða aðstæður og ásigkomulag eftir slys. Rambókvikmyndirnar ganga út á tækni, fjöldaaftökur og gereyðileggingu verðmæta. Fólk hefur sérstaka nautn af þessu.

Ég vil að lokum leggja áherslu á, að það sem skilur helsýki frá sadisma er tilfinningaleysið og hið vélræna. Þegar helsýki er í fyrirrúmi þarf ekki beinlínis að kvelja aðra manneskju, heldur er um að ræða þörf fyrir að sjá dauða og eyðileggingu. Afleiðing hugsunar nær hér endimörkum, en hugsun bútar allt og hlutar í sundur. Hún ber í sér dauðann. Þar sem hún greinir allt í sundur, eins gert er í þessum þáttum, veitir hún ekki lífi í neitt. Þar koma tilfinningar og upplifun til. Stundum er nauðsynlegt að rífa niður til að geta síðar byggt upp.

Eins og ég hefi áður sagt, tel ég ekki þörf á að halda lengra í norður. Í næstu þáttum tek ég til skoðunar gagnstæðurnar við norðankuldann. Koma þá betur í ljós átök og árekstrar gagnstæðnanna, norðan og sunnan.