23.0 VONLEYSI.
23.1 SADISMI.
23.2 ÁSTÆÐUR GRIMMDAR.
23.3 UPPLIFUN OG BÆLING.
23.0 VONLEYSI.
Við höfum séð í síðustu þáttum, að vonleysi leiðir oft til hins verra. Er því tímabært að ræða það sérstaklega. Við erum að jafnaði ánægð með lífið og njótum góðra hluta. Hamingjan er þó oft ýmsum skilyrðum bundin. Við verðum ýmist að fá að vera ein eða með öðrum, við verðum að vera virt eða að fá að ráða. Þetta væri gott og blessað, ef tilhneigingarnar væru ekki gagnstæðar. Við viljum að aðrir taki forystuna og leiðbeini okkur og við verðum því einnig gröm. Kona nýtur frama eiginmannsins, en öfundar hann einnig. Kona nýtur þess að halda samkvæmi, en allt verður að vera svo fullkomið að hún er örmagna þegar til samkvæmisins kemur. Þá sjaldan að hamingjan knýr dyra, er hún iðulega blandin margs konar ótta og særindum. Alls konar smáatvik og óhappatilviljanir fá óeðlilegt mikilvægi í huga okkar. Græskulaus gagnrýni veldur áhyggjum og hugarangri o.s.frv. Við erum því óhamingjusamari og óánægðari en aðstæður gefa tilefni til.
Þótt þetta sé slæmt, þá getur staðan samt versnað. Við getum þolað mikið mótlæti meðan enn er von. En lífsflækjurnar og hugurinn geta skapað okkur vonleysi. Því fjötraðri sem við erum í hringiðu samsara, þeim mun sterkari tökum getur vonleysi náð á okkur. Það getur verið djúpt á því. Við erum e.t.v. að skapa hugmyndir og skipuleggja betra líf. Ef ég aðeins væri giftur, hefði stærri íbúð, annan yfirmann, annan maka, væri aðeins eldri eða yngri, stærri eða minni o.s.frv. þá væri allt í lagi. Vissulega geta einhverjir slíkir þættir bætt líf okkar. Oftast eru þó slíkar vonir frávarp á innri erfiðleikum og við erum dæmd til vonbrigða. Við væntum margs góðs af ytri breytingum, en gleymum því um leið, að við flytjum sjálf okkur og eigin hug með okkur yfir í hina nýju stöðu. Vonir, sem byggja á hinu ytra eru að sjálfsögðu algengari meðal yngra fólks en eldra. Sjálfsskoðun hinna yngri er því ekki eins einföld og ætla mætti. Þegar fólk eldist og vonir taka að dvína, verður það fúsara að viðurkenna að hugsanlega sé orsakar þess eigin vandræða að leita hjá því sjálfu.
Þegar almenn vonleysistilfinning er óvituð, eru ýmsar vísbendingar sem gefa hana og styrkleika hennar til kynna. Það kunna að hafa átt sér stað atvik fyrr í lífi viðkomandi, sem sýni vonbrigði, meiri og langvinnari en efni stóðu til, þ.e. að viðbrögðin hafi ekki verið í eðlilegu vægi við ástæðuna. T.d. hefur viðkomandi upplifað mikla ástarsorg í æsku eftir að hafa verið hafnað, eða verið langt niðri eftir að vinur hans hafði svikið hann, honum sagt upp starfi eða hann fallið á prófi. Auðvitað geta legið sérstakar ástæður fyrir slíku þunglyndi og orsakasamhengið verið augljóst, en oft á það sér rætur í dýpra, í óvituðu vonleysi. Sérstakur áhugi á dauðanum og sjálfsvígshugmyndir geta bent til slíks dýpra vonleysis, jafnvel þótt viðkomandi hafi á sér yfirbragð bjartsýni. Óskammfeilni og tilhneiging til að taka ekkert alvarlega eða mikið kjarkleysi þegar erfiðleikar steðja að geta einnig verið vísbending um hið sama.
Bann eða viðnám við bata eða framförum á rætur að rekja til vonleysis. Innsýn þótt sársaukafull sé vísar veginn út. Hún verður samt sem áður aðeins til að skapa kjarkleysi og viljaleysi gagnvart því að ganga í gegnum þá erfiðleika, sem samfara er því að vinna sig fram úr vandamálinu. Það er eins og maður treysti sér ekki til að komast yfir ákveðna erfiðleika. Í raun og veru er hér um að ræða vonleysi um að ná árangri eða að innsýnin verði að gagni. Þannig getur innsýn sært og skapað ótta um að fara úr jafnvægi. Sá sem sífellt er að spá í framtíðina getur verið haldinn miklu vonleysi. Þótt á yfirborðinu kunni að líta svo út að um kvíða sé að ræða gagnvart lífinu almennt, að vera gripinn að óvörum, að gera mistök, o.s.frv., þá er öll framsýn lituð svartsýni. Sumir sjá allt slæmt en fátt gott. Að horfa fremur á dekkri hliðarnar en þær björtu, gæti bent til dýpra vonleysis. Skiptir þá ekki máli, hversu rækilega og skynsamlega það er réttlætt. Stöðugt þunglyndi getur verið hulið sjónum manna, vegna þess að allt gengur vel hjá hinum þunglynda. Hann kann að vera þægilegur og búa við góðan kost. En ef til vill tekur hann óratíma að komast í gang á morgnanna, að vakna til lífsins og sætta sig við það. Lífið er þá stöðugt basl, hann þekkir ekki annað og kvartar því ekki. Hann er alltaf í þungu skapi.
Þó að uppruni vonleysis sé jafnan ómeðvitaður, getur tilfinning fyrir honum verið meðvituð. Maður getur haft tilfinningu fyrir dómsdegi eða horft á lífið með uppgjafarhugarfari, og búist við miður góðu, fundist erfitt að umbera lífið. Maður getur tjáð sig heimspekilega og talað um að lífið sé harmleikur og að heimskingjar einir láti blekkjast hvað varðar mannleg örlög sem ekki verði umflúin. Svo lamaðir geta menn verið af vonleysi, að venjulegir erfiðleikar sýnast óyfirstíganlegar hindranir.
Hugsuðir allra tíma hafa lagt megináherslu á mikilvægi þess að nálgast eigið Sjálf og örvæntinguna sem fylgir því að vera ekki í tengslum við Sjálfið. Maðurinn örvæntir um að geta ekki orðið hann sjálfur. Um þetta má lesa í ritum um Búddisma og existentialisma, og fjölmörgum öðrum ritum.
Vonleysi orsakast af því að maðurinn flækist í neti eigin markmiða og sjálfsímyndar. Það má rekja til þeirrar örvæntingar að hann getur ekki orðið heill í sál sinni og hjarta, orðið hann sjálfur. Manninum finnst hann flæktur í neti eða lokaður í gildru, sem hann losni aldrei úr. Sérhver tilraun til lausnar leiðir einungis til þess að dýpra er sokkið, og maðurinn fjarlægist sjálfan sig enn meira. Endurtekin reynsla eykur vonleysið. Hæfileikar og gáfur leiða ekki til árangurs, vegna þess að orkunni er dreift víðsvegar eða þegar skapa á eitthvað, koma erfiðleikar til sögunnar, sem valda því að hætt er við frekari viðleitni. Þetta gildir um ástir, hjónabönd, vináttusambönd o.s.frv., sem stranda hvert á fætur öðru. Slík endurtekning mistaka, er eins hrellandi og það er tilraunarottum sem hoppa sífellt inn í fæðuop en finna sér til vonbrigða eintómar hindranir.
Það er vonlaust að ætla sér að gerast sín eigin ímynd. Sennilega er sú viðleitni helsta orsök vonleysis. Þegar við sjáum ófullkomleika okkar, finnum við til nokkurs vonleysis. Við örvæntum um að ná nokkurn tíma þeim árangri, sem við stefnum að og fyrirlítum okkur fyrir árangursleysið. Við spyrjum sjálf okkur: Náum við nokkurn tíma viðunandi árangri í ástarlífi eða vinnu? Við þetta bætist að andleg þungamiðja er flutt úr okkur sjálfum til hins ytra, t.d. litið er til útkomu en ekki efnis máls, skoðanir annarra skipta meira máli en eigin o.s.frv. Við hættum að vera primus motor í eigin lífi. Við missum trúna á sjálf okkur sem manneskjur og á eigin þroska. Við gefumst upp, viðhorf sem enginn tekur þó eftir. Afleiðingin er andlegur dauði. Eins og Kierkegaard segir: “Út af því er ekki gert mikið veður, því heimurinn spyr síst um Sjálfið, þar sem jafnvel er talið vafasamt að veita því athygli að við höfum það. Hættan stóra, að týna eigin Sjálfi, gerist þegjandi og hljóðalaust, eins og ekkert sé. Öllum öðrum missi, svo sem handleggs, fótleggs, fjármuna, eiginkonu eða annars er vissulega veitt athygli.”
Þegar vonleysi er annarsvegar, gerir einföld hughreysting, þótt einlæg sé, lítið gagn. Fyrst verðum við að finna, hvort og hversu mikið vonleysi hrjáir okkur. Þá er næst að átta sig á því, að vonleysið er afleiðing eigin hugarflækja, eigin viðhorfa, einhvers sem er ekki hið ytra heldur innra. Staðan er vonlaus svo lengi sem núverandi staða helst og er talin óbreytanleg. Erfiðleikarnir kunna að vera miklir, en það sem gerir okkur vonlaus er eigið viðhorf okkar til þess. Ef við t.d. breytum kröfum okkar á lífið, er ástæðulaust að vera vonlaus.
Það er skilaboð trúarhöfundanna til okkar að við getum breyst og fundið okkur sjálf. Þau þvingandi markmið, sem við búum okkur til, eru ekki við sjálf, heldur koma utan frá. Við getum breytt þeim og áttað okkur á innihaldsleysi þeirra og uppruna. Róttæk breyting er alltaf möguleg. Er það margendurtekið stef í þessum þáttum.
Ég hefi áður rætt um viðnám, en það nefnast þau öfl í manninum, sem vilja halda stöðu hans óbreyttri. Í manninum býr gagnstætt afl, sem hvetur til þroska og frelsis. Þegar það er öflugra, veitir það styrk til að þola þann sársauka, sem öllum þroska fylgir. Það gerir manninum kleift að taka áhættuna af því að yfirgefa fyrri viðhorf, sem veita öryggiskennd, og hverfa til hins óþekkta, nýrra viðhorfa til sjálfra sín og annarra. Maðurinn þarf sjálfur að vilja fara þessa leið. Það er einmitt þetta afl, sem vonleysið lamar.
Mikið er unnið við það að menn sjái, að vonleysi er vandamál, sem hægt er að leysa. Þetta getur skipst á, t.d. bjartsýni eftir innsýn og síðan svartsýni eða vonleysi, þegar tekur að nálgast aðra innsýn og þannig koll af kolli. En taka má vonleysið til athugunar í hvert skipti sem tilefni gefst. Þegar menn sjá, að breyting er möguleg, dregur úr vonleysinu. Frumkvæði og viðleitni til þroska eflist, þótt veik sé í fyrstu. Styrkleiki þroskaaflanna eykst eftir því sem menn sjá og finna eigin fjötra og þegar þeir fá forsmekk af því, hvernig er að finna sig frjálsan. Við erum aðeins vonlaus svo lengi sem við álítum okkur vera það.
23.1 SADISMI. (Sadismi: Ánægja af að valda öðrum sársauka; eftir de Sade markgreifa (1740-1814))
Sá sem haldinn er miklu vonleysi reynir að komast einhvern veginn af. Ef sköpunarhæfni hans hefur ekki verið sköðuð um of, getur hann reynt að sætta sig við stöðu sína og snúið sér að því sviði, sem sköpunarhæfnin nýtur sín helst. Hann getur sökkt sér í félagslíf eða trúarhreyfingu eða í vinnu. Vinna hans er nytsamleg, því þótt ekki sé mikið líf í honum, hefur hann engra persónulegra hagsmuna að gæta. Aðrir aðlaga sig lífsviðhorfi sínu, hætta að efast um það, þótt þeir leggi litla merkingu í það, og reyna aðeins að uppfylla skyldur sínar. Þeir verða vélrænir, gefa frá sér alla alvarlega viðleitni, halda sig við yfirborðið og reyna að ná einhverri ánægju, finna sig í tómstundastarfi, máltíðum, drykkju eða kynlífi eða þeir láta reka og brotna smátt og smátt niður. Þá geta hinir vonlausu orðið skemmdarvargar. Þeir gera þá samtímis tilraun til endurreisnar með því að lifa í gegnum aðra. Hér kemur fram merking sadismans.
Nauðsyn að særa aðra, þarf ekki að vera sadismi. Lífsbaráttan getur verið með þeim hætti, að óhjákvæmilegt sé að særa andstæðinga og jafnvel samherja. Einnig getur fjandskapur beinlínis verið viðbrögð við ótta eða sársauka. Þótt viðbrögðin séu frá hlutlægu sjónarmiði ekki í réttu vægi við tilefnið, getur það þó verið svo frá huglægu sjónarmiði. Hér blekkja menn sig gjarnan, því þeir vilja réttlæta eigin sadisma. Í síðustu þáttum hefur verið lýst fólki, sem virtist berjast fyrir lífi sínu. Þótt þeir sem eru í samfélagi við þetta fólk særist eða skaðist, er það ekki beinlínis ásetningur þess. Geta slíkar athafnir því ekki kallast sadismi. Þótt um fjandskap og árásargirni sé að ræða, vantar illkvittnina, og þá er ekki um að ræða meðvitaða eða ómeðvitaða ánægju af að særa aðra.
Við skulum nú virða fyrir okkur viðhorf, sem einkennandi eru fyrir sadisma. Augljósust eru þau í fari þeirra, sem hömlulaust sýna sadistísk einkenni gagnvart öðrum, hvort sem þau eru meðvituð eða ekki. Þegar talað er um sadista er átt við þann, sem sýnir skýlaus sadistísk viðhorf til annarra.
Sumir vilja undiroka aðra og hneppa þá í fjötra. Einkum á þetta við þegar maki á í hlut. Fórnarlambið verður að vera undirlægja ofurmennis, handbendi eða verkfæri, sem ekki eru einungis forboðnar óskir, tilfinningar eða eigin frumkvæði, heldur má hann ekki gera kröfur á herra sinn. Þessi tilhneiging getur verið með þeim hætti, að verið sé að móta og mennta fórnarlambið. Þetta getur haft jávæðar hliðar hjá foreldrum gagnvart börnum eða kennara gagnvart nemendum eða í ástarsambandi ef annar aðilinn er eldri eða þroskaðri. Mikil illska kemur upp ef undirtyllan gefur til kynna að hún ætli sína leið, eigi vini eða eigin áhugamál. Oftlega verður drottnarinn þá heltekinn afbrýðisemi og notar hana sem píningarvopn. Það einkennir sadistísk samskipti sem þessi, að vald yfir fórnarlambinu skiptir meira máli en líf sadistans. Hann vanrækir starf sitt, leiðir hjá sér samskipti við aðra, sem hann gæti haft af ánægju eða hag, frekar en að veita hinum aðilanum sjálfstæði.
Aðferðir, sem notaðar eru við að halda hinum aðilanum föngnum, eru háðar litlum breytingum og mótast af persónuleika aðilanna. Sadistinn veitir gagnaðilanum aðeins nægilega mikið til þess að honum finnist sambandið viðunandi. Hann uppfyllir vissar þarfir hans, en naumast meira en bráðnauðsynlegt er sálarlega séð. Hann leggur áherslu á þau einstöku gæði, sem hann veiti, að það gæti enginn veitt slíkan skilning, stuðning, eða myndi yfirleitt vilja sitja uppi með gagnaðilann. Hann gefur í skyn, að betri tímar séu í vændum, meiri ást, hjónaband, bættur fjárhagur eða betra viðmót. Stundum bendir hann á þörf sína fyrir hinn aðilann og skírskotar til hans á þeim grundvelli. Þessi herkænska er áhrifarík, þrátt fyrir að vera drottnunargjörn og niðrandi, þar sem hún einangrar þolandann frá öðrum. Auðvitað er ekki kleift að skilja samband aðilanna án þess að líta einnig til einkenna hins aðilans, en það verður að bíða seinni þátta. Oft er það maður, sem vill geðjast fólki og óttast að standa einn. Einnig getur verið um að ræða að hann hafi bælt eigin sadistískar tilhneigingar svo rækilega, að hann er af þeim sökum hjálparlaus. Því verður gerð nánari skil síðar.
Báðir, sadistinn og masochistinn (sjálfspíslaraðilinn) eru svo háðir hvor öðrum. Það vekur reiði og fjandskap með þeim, þótt bælt sé. Ef sadistinn hefur þörf fyrir að vera frjáls og ófjötraður reiðist hann því að þurfa að veita hinum aðilanum mikla hugsun og orku. Þar sem hann gerir sér ekki ljóst, að hann hefur sjálfur ofið þessi nánu bönd, ásakar hann hinn aðilann fyrir að halda sér föstum eða hanga utan í sér. Þegar hann vill í slíkum tilvikum koma sér burt, er frekar á ferðinni ótti og reiði en hótunaraðferð gagnvart hinum aðilanum.
Ekki stefna allar sadistískar tilhneigingar að því að færa einhvern í fjötra. Önnur tilhneiging er fólgin í því að leika á tilfinningar líkt og hljóðfæri. Sá sem einskis væntir af eigin lífi, getur verið gagntekinn af leiknum. Hann veit þá, hvenær á að sýna áhuga og hvenær áhugaleysi. Sadistinn er þá ofurnæmur gagnvart viðbrögðum hins aðilans. Hann sér þau fyrir og er vel á verði. Hann veit hvað vekur kynferðislega löngun og hvað slekkur á henni. Afleiðingarnar sem leikurinn hefur fyrir hinn aðilann, eru honum óviðkomandi. Þetta er sá leikur að laða að sér og hrinda frá sér, heilla og hrella, lyfta upp og níða niður, skapa gleði og sorg.
Þriðja einkennið er að hagnýta sér hinn aðilann. Hagnýting þarf ekki að vera merki um sadistískar tilhneigingar. Hún getur verið liður í hagnaðarþörf. Hagnaður kemur einnig við sögu, þegar um sadisma er að ræða, oft byggður á blekkingu og í engu vægi við þær tilfinningar og geðhrif, sem í spilinu eru. Það sem máli skiptir er sú sigurtilfinning að hafa hag af öðrum. Einkenni sadisma birtist í þeim tækjum sem notuð eru við hagnýtinguna. Hinn aðilinn verður þá beint eða óbeint að uppfylla stöðugt meiri kröfur, ella er hann lítillækkaður og látinn finna til sektarkenndar, ef hann verður ekki við kröfunum. Sadistinn finnur alltaf ástæður fyrir að vera óánægður eða beittur ranglæti og að gera meiri kröfur af þeim ástæðum. Þótt kröfum sé fullnægt er þakklæti aldrei sýnt og kröfunum er oft ætlað að særa mótaðilann og sýna honum, hvað til hans friðar heyri. Kröfurnar geta verið um efnisleg gæði, kynferðisþarfir, aðstoð við að koma einhverjum áfram í þjóðfélaginu. Þær geta verið um sérstaka tillitssemi, fórnfýsi, takmarkalausa þolinmæði. Í raun hefur efni krafnanna ekkert með sadisma að gera. Það sem bendir til sadisma er sú vænting, að lífsförunauturinn eigi með ráðum og dáð að fylla líf, sem er tilfinningalega tómt. Þörfin fyrir að lifa á tilfinningalífi annars, eins og blóðsuga, er óvituð, en á rætur að rekja til þarfar fyrir að hagnast á öðrum.
Eðli hagnýtingar kemur betur í ljós, þegar við áttum okkur á því að því fylgir samtímis tilhneiging til að láta aðra verða fyrir vonbrigðum. Rangt væri að segja, að sadistinn vildi aldrei gefa, hann getur undir vissum kringumstæðum verið örlátur. Einkenni sadisma er ekki níska, heldur miklu frekar dulvituð viðleitni til að svekkja aðra, eyða gleði þeirra, angra þá og valda þeim vonbrigðum. Ef lífsförunauturinn er ánægður eða gleðst yfir einhverju, verður sadistinn með einhverjum hætti að spilla því. Ef makinn horfir vonglaður til samfundar við lífsförunaut sinn tekur hann því fálega. Ef makinn vill njóta líkamlegs ástarsambands er honum sýnt kuldalegt viðmót og kyndeyfð. Hvorki athöfn eða athafnaleysi er hér nauðsynlegt. Aðeins með því að varpa drunga sínum yfir aðra, kemur hann þeim í þungt skap.
Þá verður að nefna þá sérstöku tegund sadisma, að smána aðra og lítillækka. Sadistinn er sérfræðingur í að koma auga á galla og takmarkanir annarra, finna veikar hliðar þeirra og benda á þær. Hann hefur innsýn í það, hvar aðrir eru viðkvæmir og veikir fyrir og hvar særa má þá. Hann notar þessa innsýn miskunnarlaust til að gagnrýna og niðurlægja. Það er oft réttlætt með heiðarleik eða hjálpsemi. Hann efast um hæfni eða heilindi annarra, vegna þess að hann hefur gert lítið úr þeim í eigin ímynd. Að finna galla annarra verður ástríða hjá honum. Hann sér ekki aðeins raunverulega galla, heldur frávarpar hann oft eigin göllum á aðra og byggir upp mál gegn þeim. Ef hann hefur til dæmis með eigin hegðun komið einhverjum í uppnám, sýnir hann þegar samúð með honum eða jafnvel fyrirlitningu á tilfinningalegu jafnvægisleysi hans. Ef makinn er ekki algerlega hreinskilinn við hann, eftir að hafa verið hótað, er hann sakaður um leynd eða lygar. Makinn er ásakaður fyrir að vera honum háður, þótt einmitt hann sjálfur hafi gert allt til að svo mætti verða. Þannig er grafið undan hinum aðilanum, ekki aðeins með orðum heldur og með alls konar látæði, sem sýnir fyrirlitningu hans.
Þegar sadistinn fær ekki útrás tilhneiginga sinna eða þegar dæmið snýst við og hann verður sjálfur fyrir yfirdrottnun, hagnýtingu eða fyrirlitningu, fær hann ofsafengin reiðiköst. Í ímyndun hans finnst engin kvöl nógu stór fyrir misgjörðarmanninn. Ef þessi reiðiköst eru bæld, leiðir það til óðagots eða líkamlegra truflana vegna innri spennu.
23.2 ÁSTÆÐUR GRIMMDAR.
Hverjar eru ástæður þessarar miklu grimmdar. Sú fullyrðing, að sadistískar tilhneigingar eigi rætur að rekja í afbrigðilegum kynhvötum, á ekki við rök að styðjast. Allar tilhneigingar okkar koma fram í kynlífinu, sadisminn einnig. Sama gildir um vinnulag og göngulag. Örvun og ástríða þarf ekki að vera kynferðisleg. Sadistísk spenna og kynferðisleg fullnæging eru ekki af sama toga.
Börn geta til dæmis verið miskunnarlaus við dýr og fá vissa spennu eða fullnægju út úr því. Því hefur verið haldið fram, að sadismi eigi sama uppruna, aðeins sé um fágun að ræða. Sadismi hins fullorðna er þó allt annars eðlis. Sadismi hefur mörg einkenni, sem finnast ekki í barnslegri grimmd. Barnsleg grimmd er einfalt svar við kúgun eða lítillækkun. Barnið hefnir sín á þeim sem minna mega sín. Sadismi er flóknari og á sér margbrotnari orsakir. Þær orsakir sem gera sadisma varanlegt og margbreytilegt fyrirbrigði grimmdar, eru ekki til hjá barninu.
Enginn elur með sér sadisma, búi hann ekki í eigin lífi við djúpa tilfinningu tilgangsleysis, tómleika og vonleysis. Sá, sem ekki tekst að láta rætast úr lífi sínu, verður óhjákvæmilega fjandsamlegur umhverfinu, sérstaklega ef honum tekst ekki að draga sig í hlé eða út úr lífinu, ef svo má að orði komast. Honum finnst hann að eilífu útilokaður eða sigraður. Hann hatar lífið og allt það jákvæða, sem það hefur að bjóða. Hann hatar það fullur öfundar eins og sá sem ekki fær það sem hann girnist. Þetta er bitur öfund manns, sem finnst lífið ganga fram hjá sér. Hann finnur ekki að aðrir eiga einnig sínar sorgir. Honum finnst þeir sitja að krásunum á meðan hann hungrar, þeir elski, njóti, séu heilsuhraustir, tilheyri einhverju. Hamingja þeirra og barnalegar væntingar og ánægja fara í taugarnar á honum. Úr því að hann er ekki hamingjusamur og frjáls, því skyldu þeir þá vera það. Hann verður því að spilla þeirri gleði, sem hann getur ekki fyrirgefið að þeir njóti. Þó er þessi tilhneiging til að svekkja aðra og auðmýkja óafvituð. Tilgangurinn er að flytja eigin þjáningar yfir á aðra. Ef þeir eru sigraðir og lítillækkaðir eins og hann, mildast eigin vanlíðan, hugarangur og óhamingja. Hann er þá ekki sá eini sem er þjakaður og kvalinn.
Annað, sem notað er til að draga úr nagandi öfund, er aðferðin: “vínberin eru súr”, sem alþekkt er og margir láta blekkjast af. Öfundin er oft grafin svo djúpt, að maðurinn telur fjarstæðu að hann beri hana í brjósti. Hann beinir athyglinni að hinu sársaukafulla, þungbæra og ljóta í lífinu. Þannig fær biturleiki hans útrás og hann sannar fyrir sjálfum sér, að ekki sé misst af neinu. Stöðug leit hans að mistökum og göllum annarra er að hluta til sprottin af þessu. Hann tekur t.d. vel eftir að einhver líkamshluti fagurrar konu er ekki fullkominn. Þegar hann kemur inn í herbergi, kemur hann auga á það húsgagn, sem samræmist ekki öðrum. Hann tekur vel eftir minnstu mistökum í annars góðri ræðu. Það sem aflaga fer í lífi annarra, verður veigamikið í huga hans. Hann segist e.t.v. vera glöggur á ófullkomleika annarra, en sannleikurinn er sá að hann mænir eingöngu á misbrestina, en tekur ekki eftir öðru.
Þótt með þessum aðferðum megi leiða hjá sér öfund og draga úr fjandskap, veldur þetta viðhorf gildislækkunar stöðugum vonbrigðum og óánægjutilfinningu. Ef hann á t.d. börn, hugsar hann um byrðar og skyldur sem því fylgir. Ef hann á engin börn, finnst honum sem hann hafi verið sviptur mikilvægustu lífsreynslu, sem mönnum býðst. Ef hann hefur ekki kynmök, finnst honum hann afræktur og telur hreinlífið hættulegt. Ef hann hefur kynmök finnst honum hann niðurlægður og hefur skömm á þeim. Ef hann hefur tækifæri til að fara ferðalag, er hann þjakaður af óþægindunum. Ef hann getur ekki ferðast, finnst honum skömm að þurfa að dvelja heima. Þar sem ekki hvarflar að honum, að ástæðunnar fyrir hinni stöðugu óánægju sé að leita í honum sjálfum, finnst honum, að hann hafi rétt til að vekja athygli annarra á því, hversu þeir bregðist honum og gera sífellt meiri kröfur, sem aldrei geta veitt honum fullnægju, þótt efndar væru.
Hin beiska öfund, tilhneiging til að draga úr gildi hlutanna og sú óánægja sem í kjölfarið fylgir, skýrir nokkuð ýmsar sadistískar tilhneigingar. Þá skilst betur af hverju sadistinn þarf að svekkja aðra, valda þjáningu, finna galla og gera kröfur. En með þessu er hvorki skýrður hinn mikli eyðileggingarmáttur né hin hrokafulla sjálfsréttlæting. Til þess þarf að virða vonleysið. Til að forðast endurtekningar vísa ég til þess, sem sagt er um þetta í tveim síðustu þáttum mínum. Hvernig vítahringir örvæntingar og sjálfshaturs verða til og aukast sjálfkrafa. Sjálfshatrinu og hefndinni er beint út. Hann getur ekki séð að ástæðurnar liggja í honum sjálfum, ekki utan við hann. Aðrir hafa eyðilagt líf hans og þeir skulu gjalda fyrir það. Hefndarsigurinn deyðir alla samúð og fyrirgefningu. Ekki er hægt að finna til samúðar eða fyrirgefningar gagnvart þeim, sem eyðilagt hafa líf manns.
Til viðbótar því, sem áður er sagt, skal enn eitt áréttað sérstaklega. Við höfum séð, að sadistinn hellir úr skálum reiði sinnar í blindri hefnd, af því að hann telur sig útilokaðan og dæmdan. Hann reynir að lina eigin þjáningar með því að láta aðra þjást. Þetta er þó aðeins skýring að hluta til og lýsir ekki þeirri ástríðu sem heltekur sadistann. Hann hlýtur að sjá mikilvægan vinning í viðleitni sinni. Hvernig getur hinn vonlausi maður haft von um vinning? Hagnað, sem hann sækist eftir af svo miklum krafti? Sannleikurinn er sá, að huglægt séð má slægjast eftir vinningi.
Með því að niðurlægja aðra, dregur hann ekki aðeins úr eigin sjálfsfyrirlitningu, heldur öðlast jafnhliða tilfinningu fyrir yfirburðum. Með því að móta annarra líf, fær hann auk örvandi tilfinningu fyrir valdi yfir þeim, meiningu í líf sitt, sem eins konar uppbót. Þegar hann hagnýtir aðra tilfinningalega, verður hann sér úti um tilfinningalíf í gegnum lífsreynslu annarra, ef svo má segja, sem dregur úr eigin tilfinningu hans fyrir tómleika og innhaldsleysi. Þegar hann ber sigurorð af öðrum öðlast hann sigurlyftingu, sem dylur eigið vonleysi og ósigur. Þörfin fyrir hefndarsigur verður þannig meginmarkmið, sem allt afl er lagt í.
Öll þessi viðleitni seður hungur hans eftir örvun og æsingu. Heilbrigður maður, sem er í góðu jafnvægi, þarf ekki á slíku að halda. Því þroskaðri sem hann er, þeim mun minna sækist hann eftir örvun. Hins vegar er tilfinningalíf sadistans innihaldslaust. Allar tilfinningar hans nema reiði og sigur, hafa verið kæfðar. Hann er svo rækilega dauður, að hann þarf þessa skörpu örvun til að finna sig lifandi.
Síðast en ekki síst veita áðurgreind samskipti við aðra sadistanum styrkleikatilfinningu og stolt, sem auka dulvitaða kennd hans fyrir eigin almætti. Honum finnst upphafning í því að gera það við aðra sem honum þóknast. Því má ekki gleyma, sem rætt var í síðasta þætti, að sadistanum finnst hann hjálparvana, ef hann getur ekki látið aðra þjóna sér. Tilfinning styrkleika og stolts er þó fátækleg uppbót. Hún er það aðeins af því, að raunverulegur styrkleiki og sjálfsálit stóðu ekki til boða.
Þegar við sjáum eðli þessa hagnaðar, sjáum við að engin þverstæða er fólgin í því að segja að vonlaus maður leiti hamstola að einhverju. En það er ekki meira frelsi eða meiri sjálfsfullnæging sem hann væntir að finna. Ástæður vonleysisins eru óbreyttar og hann reiknar ekki með að geta breytt því. Hann sækist því eftir uppbót eða einhverju sem kemur í staðinn.
Hinn tilfinningalegi hagur, sem um er að ræða, er fenginn með því að lifa í gegnum aðra. Sadistísk viðhorf eru fólgin í því að lifa í gegn um aðra með árásargjörnum og að verulegu leyti með eyðileggjandi hætti. Þetta er sú eina leið, sem sigraður maður telur sér fært að lifa. Það skeytingarleysi sem hann sýnir í eftirsókn sinni eftir eigin markmiðum stafar af örvæntingu. Hann telur sig engu hafa að tapa, allt að vinna. Þannig hefur sadismi að geyma jákvætt markmið og verður að líta á hann sem tilraun til að öðlast eins konar uppbót eða endurheimt. Ástæða þess að sóst er eftir þessu markmiði með svo ástríðuþrungnum hætti er sú, að með því að bera sigurorð af öðrum getur sadistinn linað eigin eymdartilfinningu fyrir ósigri.
23.3 UPPLIFUN OG BÆLING.
Sadismi er oftast óafvitaður. Það er undrunarvert, hversu mikill sadismi er upplifaður án þess að viðkomandi verði þess var. Sumir verða þess varir að fá einstaka sinnum löngun til að fara illa eða niðurlægjandi með einhvern veikari eða minni máttar eða verða varir við örvun eða æsingu, þegar þeir lesa um sadistískar athafnir eða hafa einhverja sadistíska hugaróra eða hugmyndir. En þessi leiftursýn, sem gerist stöku sinnum, heyrir til undantekninga. Flest sem viðkomandi gerir öðrum í daglegu líferni er að mestu óafvitað.
Tilfinningaleysi fyrir sjálfum sér og öðrum er ástæða þess að vandinn er hulinn móðu. Þar til henni hefur verið rutt úr vegi, verða eigin gerðir ekki upplifaðar tilfinningalega. Auk þess er réttlætingin sem á að fela hin sadistísku viðhorf oft nógu hugvitsamleg til að blekkja, ekki aðeins þann sem hefur hin sadistísku viðhorf, heldur og hina sem verða fyrir þeim. Við megum ekki gleyma því að sadismi er lokaáfangi á afvegaleið. Sú réttlæting sem notuð er, helgast af persónuleika viðkomandi.
Sá sem reynir að geðjast öllum, sýnir tillitsemi, ást og fórnfýsi, færir sambúðaraðilann óafvitað í fjötra undir óafvituðu yfirskyni ástar. Kröfur hans verða í samræmi við þarfirnar. Af því að hann er svo hjálparlaus, óttasleginn eða veikur, á makinn að gera þetta og hitt fyrir hann. Af því að hann getur ekki verið einn, ætti makinn sífellt að vera með honum. Hann ásakar með óbeinum hætti, þ.e. með því að sýna óafvitað, hversu aðrir valda honum þjáningu.
Sá opni og árásargjarni lætur sadistísk viðhorf ódulbúið í ljós. Ekki merkir það þó, að hann sé betur meðvitaður um þau. Hann hikar ekki við sýna óánægju, fyrirlitningu og að gera kröfur. Honum finnst gerðir sínar að öllu leyti réttlátar, en að hann sé einungis hreinskilnari en aðrir. Hann frávarpar á aðra virðingarleysi sínu og þeirri staðreynd að hann hagnýti sér þá. Hann hefur í hótunum og segir öðrum ómyrkur í máli hve gróflega þeir misnoti hann.
Sá sem vill vera laus við skyldur og bönd er einstaklega óáberandi þegar hann lætur sadisma sinn í ljós. Hann svekkir aðra á þögulan og kyrrlátan hátt, gerir þá óvissa og öryggislausa með því að vera sífellt reiðubúinn til að draga sig í hlé, með því að láta í ljós eða gefa vísbendingu um að þeir þrengi að honum eða trufli hann eða að vera þeirra sé þvingandi og með því að njóta þess í laumi að láta þá hlaupa á sig og gera sig að fíflum.
Sadismi getur snúist upp í andstæðu sína, orðið eins konar andhverfur sadismi. Þá gerist það, að viðkomandi óttast svo mjög tilhneigingar sínar, að hann snýr þeim við til að þær birtist hvorki honum né öðrum. Hann forðast allt sem líkist ágengni, árásarhneigð eða fjandskap og verður af þeim sökum haldinn hömlum bæði djúpt og víðtækt. Sérstaklega skal þó áréttað að slíkar hömlur eiga sér almennt víðtækari orsakir og að þörfin fyrir að sýna tillitssemi og góðmennsku hvers konar á sér aðrar og dýpri rætur, eins og síðar verður ítarlega vikið að. Rétt er þó að gefa örstutta lýsingu á þessu fyrirbrigði.
Sá sem forðast að leggja fjötra á aðra eða undiroka þá, er ófær um að skipa fyrir og enn síður að setjast í stöðu, þar sem hann tekst á hendur ábyrgð og leiðsögn. Hann er mjög varfærinn við að beita áhrifum sínum eða gefa ráð. Öll afbrýðisemi, jafnvel eðlileg, er bæld. Taka má eftir að viðkomandi fær höfuðverk, magaverk eða þess háttar einkenni, þegar ekki er farið að vilja hans.
Sá sem tekur upp andhverfu þess að hagnýta sér aðra, verður hið magnaðasta “góðmenni”. Hann þorir ekki að láta óskir í ljós, jafnvel ekki að hafa þær. Hann þorir ekki að gera uppreisn gegn misneytingu og jafnvel að finnast illa farið með sig. Hann hefur tilhneigingu til að álíta væntingar eða kröfur annarra rétthærri og mikilvægari en sínar eigin. Hann vill frekar sæta hagnýtingu sjálfur en fylgja eftir eigin hagsmunum. Slíkur maður er milli tveggja elda. Hann óttast tilhneigingar sínar til að hagnýta sér aðra, en fyrirlítur sjálfan sig fyrir óákveðni og hlédrægni, sem hann álítur kjarkleysi. Þegar hann er hagnýttur, sem að sjálfsögðu gerist, er hann eins og í gildru sem hann getur ekki leyst sig úr. Viðbrögð hans verða þá þunglyndi eða önnur starfræn einkenni.
Í stað þess að valda öðrum vonbrigðum eða hrella þá, verður honum yfirmáta umhugað um að bregðast ekki vonum annarra, að vera tillitssamur og örlátur. Hann gengur mjög langt í því að hliðra sér hjá því sem hugsanlega getur sært tilfinningar annarra eða lítillækkað þá. Af hyggjuviti sínu finnur hann eitthvað “gott” að segja, einhverja velviljaða athugasemd eða eitthvað þess háttar, sem eykur sjálfstraust viðmælanda. Hann tekur sjálfkrafa á sig sök og lætur ákaft í ljós afsakanir. Ef hann neyðist til að gagnrýna, gerir hann það eins mildilega og unnt er. Jafnvel þegar aðrir misbjóða honum, sýnir hann þeim ekkert nema “skilning”. Jafnframt er hann ofurnæmur fyrir lítillækkun, sem er honum óbærileg.
Þegar sadistískur leikur með tilfinningar annarra er djúpt bældur, getur það valdið tilfinningu fyrir getuleysi til að laða nokkurn að sér. Þrátt fyrir vitnisburð um hið gagnstæða, getur viðkomandi haldið í raun, að hann sé óaðlaðandi gagnvart hinu kyninu, og að hann verði að sætta sig við dreggjarnar. Minnimáttarkennd er annað orð yfir það, sem býr í vitund viðkomandi og er tjáning sjálfsfyrirlitningar. Það sem skiptir máli hér er, að hugmynd viðkomandi um að vera óaðlaðandi getur verið óvitað bakslag frá þeirri freistni að leika sér í þeim æsifengna leik að leggja undir sig og hafna. Þegar honum síðar verða ljósar þessar tilhneigingar, þá gerir hann sér grein fyrir hæfni sinni til að laða fólk að sér, en hann getur þá snúist gegn því með hneykslun og fyrirlitningu, þegar það tekur umleitanir hans alvarlega.
Þeim sem haldinn er andhverfum sadisma er áreynsla að vera með öðrum, þótt hann geri sér það ekki ljóst. Hann hefur tilhneigingu til að vera tilgerðarlegur og feiminn. Hann neyðist líka stöðugt til að leika hlutverk, sem er gagnstæða við eigin sadistískar tilhneigingar. Eðlilega telur hann að sér þyki vænt um fólk. Honum bregður því allnokkuð, þegar hann uppgötvar að hann hefur litla tilfinningu fyrir því eða í það minnsta er óviss um hverjar tilfinningar hann hefur gagnvart því. Þegar menn láta af uppgerð eða tilfinningum, sem þeir hafa gert sér upp, er þeim léttir. Við getum aldrei haft jákvæðar tilfinningar gagnvart öðrum eða verið velviljuð, fyrr en við sjáum uppgerðina og tilbúninginn og þær tilhneigingar sem undir búa og gerum gangskör að því að losa okkur við allan tilbúninginn.
Ég hefi rætt hér um sadisma. Hvað með masochisma? Um það efni verður síðar rætt ítarlegar, en ég ræddi það frá ákveðnu sjónarmiði í 7. þætti. Hugtakið er í raun út í hött, en í þessu samhengi má benda á þátt, sem máli skiptir. Sá sem er mjög hemlaður í að fylgja sínum hagsmunum eftir, þ.e. sá sem haldinn er andhverfum sadisma, er gjarnan misboðið og hann fær slæma meðferð. Af því að hann þjáist undir eigin veikleika dregst hann oft að þeim, sem eru sadistar, ódulið. Hann bæði dáist að þeim og hefur á þeim andstyggð. Sadistinn dregst að honum, þar sem hann finnur í honum viljann til að verða fórnarlamb. Þannig gerist hann sjálfur andlag hagnýtingar, vonbrigða og lítillækkunar. Auðvitað hefur hann ekki ánægju af slíkri misnotkun og hann þjáist undir henni. Sá ávinningur sem hann sér af sambandinu er fólgið í tækifæri til að upplifa eigin sadistískar tilhneigingar í gegnum annan, án þess að þurfa að horfast í augu við eiginn sadisma. Honum finnst hann vera saklaus og getur hneykslast siðferðilega. Jafnframt vonar hann að einhvern tíma nái hann yfirhöndinni yfir hinum sadistíska félaga og bera sigurorð af honum.
Rétt er að árétta, að kynferðislegur afbrigðileiki er tiltölulega sjaldgæft fyrirbrigði. Þegar um slíkt er að ræða, er á ferðinni allsherjarviðhorf gagnvart öðrum, sem fær útrás í þessum þætti mannlegrar reynslu. Þegar við lítum til þess, sem hér hefur verið sagt, verður ekki annað séð en að í þessum tilvikum sé erfitt að afneita tilhneigingum til sjálfseyðileggingar. Þegar við skiljum þær, sjáum við mannlegar þjáningar að baki því sem virðist ómannleg hegðun. Við sjáum örvæntingafullan einstakling, sem leitar uppbótar eða endurreisnar fyrir líf, sem hefur sigrað hann.