XXII EÐLISEINKENNI HEFNDARSIGURS

22.0 EINKENNI HEFNDARINNAR.

22.1 MARKMIÐ OG FORM HEFNDARSIGURS.

22.2 UPPRUNI.

22.3 HLUTVERK.

22.4 VALKOSTIR.

22.5 HEILUN.

22.0 EINKENNI HEFNDARINNAR.

Trúarhöfundar mannkyns hafa varað við hefndinni og jafnvel hefur okkur verið boðað að bjóða hina kinnina þegar löðrungur er gefinn. Við vitum undir niðri að í þessu er fólgin viska, en ekki er hún auðskilin. Er ekki verið að gera kröfu til hins ómögulega? Er hefndin ekki almennt talin réttlætanleg viðbrögð einstaklinga og þjóða? Er hún ekki innbyggð í refsikerfi þjóðanna? Almennt er viðurkennd mannleg þörf fyrir að hefna sín. Að láta reiði sína í ljós hreinsar andrúmsloftið og kemur í veg fyrir hún verði innibyrgð. Skaðlegt er að bæla reiði og kunn eru heilsusamleg áhrif þess, að létta á henni með því að láta hana í ljós eða upplifa hana.

En er ekki einhver leið á milli þess annars vegar að láta í ljós reiði og hins vegar að bæla hana? Vissulega getur verið heilsusamlegt og þroskandi að verða var við reiði sína og ýgi út í aðra eða umheiminn. Með því er stigið fyrsta skrefið í þá átt að losna við hana. Vissulega er kleift að láta í ljós réttmæta reiði, í réttu vægi við tilefnið, reiði sem gýs upp en sefast um leið og hún er látin í ljós. Viðkomandi hefði getað stjórnað skapi sínu, en velur fremur þann kostinn að láta reiðina í ljós. En í vissum tilvikum er reiðin bæld og verður óafvituð eða hún heltekur persónuleikann í heild sinni. Í þeim tilvikum verður viðvörun trúarhöfundanna skiljanlegri. Ég lýsti einmitt í síðasta þætti hefndarsigri sem sjálfstæðum þætti í persónuleikanum, hefndarviðhorfinu sem getur myndast gegn lífinu yfirleitt. Hefndarsigurinn verður þá ástríða.

Hefndin er venjulega ósjálfráð viðbrögð við mikilli og óréttmætri þjáningu, sem viðkomandi verður fyrir eða hópur manna, sem hann samsamar sig. Hún gerist eftir að skaðinn er skeður og er því í raun ekki vörn við aðsteðjandi ógn. Hefndin er full af grimmd og losta og virðist óseðjanleg, eða hafa að minnsta kosti ofsafenginn styrk. Talað er um óslökkvandi hatur og að menn þyrsti í hefnd. Blóðhefndin þekkist víða um heim og er talin heilög skylda. Venjulega verður hefndin að vera stærri en tilefnið. Við þekkjum þetta úr fornsögunum. Hefndin er einmitt víða talin halda þjóðfélaginu í skefjum.

Hvers vegna er hefndin svona ástríðuþrungin? Býr hún yfir einhvers konar töframætti? Með því að koma þeim fyrir kattarnef, sem ódæðisverkið framdi, er ódæðið með einhverjum dularfullum galdri að engu gert. Sagt er að glæpamaðurinn hafi greitt sína skuld og með refsingunni er eins og hann hafi afdrýgt glæpinn. Einhvers konar töfraviðgerð hefur farið fram á glæpnum. Ef einhver gerir á hluta okkar að ófyrirsynju, erum við e.t.v. ekki í rónni fyrr en við höfum svarað með þyngra höggi en við urðum fyrir og takist það, finnst okkur dæmið jafnað og við verðum sáttari. Við vitum reyndar öll innst inni að öll erum við jöfn og því kann einhvers konar innbyggður afréttari að vera fólginn í þessu. Jafnvel þótt við getum ekki komið í veg fyrir þann skaða, sem aðrir gera okkur, þá er oft fólgin í óskinni um hefnd tilraun til hreingerningar og að nota þannig einhvers konar fjölkynngi til að bæta fyrir skaðann. Ekki ósvipað á sér stað í sambandi við öfund. Þegar menn taka þannig réttlætið í eigin hendur, eru þeir að taka að sér verk, sem guð eða þjóðfélagið sinnir ekki. Hefndarstundin, dagur reikningsskilanna, er mikil stund, ekki síst vegna sjálfsupphafningarinnar, sem henni fylgir.

Hefndarþörf manna er mjög mismunandi. Við vitum að margir Búddistar og kristnir menn eru ekki hefnigjarnir. En hver þekkir ekki manninn, sem vill að þjófnum sé þunglega refsað, þótt hann hafi einungis stolið smámunum? Eða kennarann sem gefur þeim lágar einkunnir, sem hafa með einhverjum hætti sært hann eða móðgað? En hefnd getur verið skiljanlegri, t.d. þeim sem misstu sína nánustu í útrýmingarbúðum nasista.

Stundum er talað um sadisma, sem er óheppilegt hugtak. Þá er áherslan á þeirri ánægju sem fólgin er í valdi til að lítillækka aðra og láta þá þjást. Ástríða og losti þurfa ekki er að vera bundin við kynferðislegar athafnir. Þar sem hefndin er meginaflgjafi sadisma, verður að telja orðið hefnd og hefndarsigur heppilegra.

22.1 MARKMIÐ OG FORM HEFNDARSIGURS.

Það er hægt að skaða aðra og særa með ýmsu móti. Í því sambandi má tala um þrenns konar markmið. Í fyrsta lagi að lítillækka aðra, gera þá hlægilega, skapa með þeim sektarkennd og minnimáttarkennd, gera þá háða sér og láta þá þjóna sér, bera sigurorð af þeim, sem skaðað hafa mann og hlakka yfir sigrinum. Í öðru lagi að hagnýta aðra, nota þá til að koma því til leiðar sem maður vill, gera takmarkalausar kröfur til þeirra, leika á þá og gabba. Í þriðja lagi að ergja og skaprauna öðrum, eyða gleði þeirra, stríða þeim og valda þeim vonbrigðum, og virða að vettugi óskir, langanir, þarfir, vonir og metnaðarmarkmið þeirra.

Viðkomandi getur verið sér meðvitaður um, að einstök viðbrögð og athafnir séu litaðar hefnd. Vitund um það er hins vegar upplifuð sem réttlát refsing, fullkomlega rökrétt svar eða viðbrögð við þeim skaða eða rangindum, sem hann varð fyrir. En fæstir gera sér grein fyrir þeirri miklu hefndarþörf, sem í þeim býr og hversu ósjálfráð hún er, jafnvel þótt öðrum megi vera sú þörf augljós. Við eigum e.t.v. erfitt með að trúa, að hefnigjarn maður viti ekki hvað hann gerir öðrum. Samt sem áður sjá flestir, sem haldnir eru ríkri hefnigirni, sjálfan sig alls ekki þannig, heldur eins og þeim finnst þeir ættu að vera. Það kostar því jafnan nokkra vinnu og sjálfskoðun, að átta sig á eigin hefnigirni.

Hefndarmarkmiðum er náð með mismunandi hætti. Til hægðarauka og í samræmi við það skipulag, sem þessir þættir eru settir fram og byggja á, er rétt að skipta þeim í þrjá flokka. Í fyrsta lagi opna og árásargjarna hefnd, sem er hefnd þeirra er telja sig hafa yfirburði yfir aðra með völdum og virðingu. Í öðru lagi hefnd þeirra, sem sækjast eftir velþóknun og ást eða þola illa vanþóknun. Í þriðja lagi hefnd þeirra, sem draga sig frá fólki og inn í eigin skel, hefnd intróvertanna. En gleymum aldrei, að hreinræktuð manngerð fyrirfinnst ekki, allar eru að einhverju marki blandaðar.

Sá opni og árásargjarni sýnist óheftur og hömlulaus. Hann ræðst hiklaust að öðrum og hagnýtir sér þá. Hann er venjulega stoltur af þessari hæfni sinni, þótt hann, eins og áður er að vikið, upplifi ekki hefndareinkenni athafna sinna. Honum kann að finnast að hann sé einfaldlega heiðarlegri og hreinskilnari en aðrir og sé aðeins að útdeila réttlæti, að sjálfvirðing hans verði ekki særð án þess að því sé svarað og refsað. Um þennan mann var ítarlega rætt í síðasta þætti.

Þá víkur að hinum velviljaða. Hann fer með meiri leynd í þessum efnum og notar óbeinni aðferðir. Þjáningin er óspart notuð, þó dulvitað sé eða án þess að hann verði þess var, og með henni lætur hann aðra fá sektarkennd. Áherslan er lögð á þjáninguna og skírskotað til meðaumkunar og fórna. Á þessum dulvitaða grunni eru gerðar kröfur. Lögð er minni áhersla á réttlæti, en hjá þeirri manngerð sem áður var nefnd, en kosið að upplifa sig sem sérlega góðan mann, sem sé stöðugt misnotaður af öðrum og þeir fari illa með hann. Hefndin er ekki veikari eða áhrifaminni í þessu tilviki en hinum, og svo einkennilegt sem það er, virðist hún aðeins vera á kostnað viðkomandi sjálfs.

Hefnd þess sem lifir á flótta er af augljósum ástæðum ekki stórbrotin í sniðum. Meira er um aðgerðarleysi en athafnir. Þögull, en með áhrifamiklum hætti angrar hann aðra. Hann hlustar ekki á þá, virðir ekki þarfir þeirra og gleymir óskum þeirra. Hann lætur þá hafa á tilfinningunni að þeir trufli með því að segja aldrei lofsyrði eða sýna ástúð, heldur draga sig inn í eigin skel andlega og líkamlega.

En hvernig sýnir sig hin ósjálfráða þörf fyrir hefndarsigur, þ.e. hvernig lýsir sér árátta og óviðráðanleiki þessarar ástríðu? Utanfrá séð virðist fátt geta haldið aftur af þeim, sem þráir hefnd, frekar en alkóhólista sem ákveðinn er að detta í það. Sérhver rökræða er tilgangslaus, því rökhyggja hefur ekkert málið að gera. Ekki virðist heldur skipta máli, hvort aðstæður leyfi eða séu viðeigandi. Skynsemi kemst ekki að. Ekki er hugsað um afleiðingarnar fyrir hann sjálfan eða aðra. Ekkert hefur aðgang að honum frekar en þeim, sem haldnir eru blindri ástríðu. Þessu hefur verið vel lýst í fjöldamörgum skáldritum, ekki síst þar sem öfund og afbrýði ráða. Þótt áhugi manns á annarri konu, sé löngu horfinn og að einungis hafi verið um að ræða smávægilega athygli, getur eiginkonan kvalið mann sinn í blindri reiði, þ.e. afbrýði sem að mestu er byggð á særðu stolti. Og hún getur haldið þessu áfram gegn betri vitund, þannig að hjónabandið er sett í alvarlega hættu.

Hefndarþörfin er ekki bundin við ákveðin atvik og aðstæður, heldur getur reynst leiðandi ástríða til lífstíðar, þannig að allt verður henni undirorpið, meðal annars sjálfsáhugi og eigin hagur. Allir vitsmunir og orka eru þá virkjaðir að einu markmiði, hefndarsigri. Lifað er fyrir dag reikningsskilanna. Eins og áður er sagt, hefur þetta verið gott yrkisefni fyrir mörg skáld. Hefndin er þá drifkraftur lífsins. Í fyrstu hefur hún snúið að öðru foreldranna, en síðar verður hún ákvörðunaratriði í öllum mannlegum samskiptum, sem eitthvað vara.

Ástríða og óstjórnleiki hefndarþarfarinnar sjást greinilega á því, hversu gengið er yfir skynsemi, hamingju, metnaðarmarkmið og lífið sjálft. Ráðgátan sem áður var getið um, hefnd hins velviljaða, skýrist með þessu að örlitlu leyti, því að hefnd hins opna og árásargjarna er einnig að öllu leyti á kostnað Sjálfsins. Á hinn bóginn leiðir af þessu, ef viðkomandi getur ekki hefnt sín, að hann missir svefn, verður skapvondur, þreyttur eða þunglyndur. Hann getur fengið höfuðverk, magaverki o.s.frv. Ekki skiptir þá máli, af hverju hann gat ekki hefnt sín. Aðstæður geta hafa komið í veg fyrir það eða aðrar hömlur.

Stundum er augljóst samband á milli hefndar, sem ekki hefur tekist að láta í ljós og einkenna, sem síðar koma í ljós, eins og þegar menn vakna upp um miðja nótt fullir reiði. En hömlur geta einmitt ruglað okkur í ríminu í þessu efni. Ef við erum stolt af að taka öllu með jafnaðargeði, þá verðum við e.t.v. ekki vör við hefndarþörfina. Ef við höfum sett bann á hefnd, af því að viljum vera hin góðu, sanngjörnu, víðsýnu eða skynsömu, getum við einmitt blekkt okkur í þessu efni. Því verður að athuga málið gaumgæfilega.

Eitt séreinkenni hinnar ósjálfráðu ástríðuþarfar hefndarinnar er það sem kalla mætti bann við framför eða bata. Í stuttu máli er um að ræða það sem við öll höfum upplifað, að eftir að okkur hefur farið fram og við náð árangri, kemur gjarnan afturför. Þetta á við flestan lærdóm, og einkanlega sjálfskoðun. Ef við verðum vör við að hafa nálgast Sjálfið meira, finnum til meiri vináttu, samúðar og þakklætis, sjáum að við höfum verið hugdjörf, höfum meiri ánægju af lífinu, þá getur allt snúist skyndilega til verri vegar. Gömlu einkennin koma á ný, við verðum örvæntingafull og huglaus eða hefndarþörfin brýst út á ný. Margar ástæður liggja til slíkrar þróunar. Ein þeirra er að sérhvert jákvætt skref grefur undan hefndarþörfinni, sem aftur skapar kvíða og tilfinningu fyrir að við séum að láta af hendi eitthvað verðmætt, sem við megum ekki án vera. Við viljum ekki missa nautnina og því lífi, sem hefndinni fylgir.

Þetta getur gerst afar dulvitað. Við reynum að semja við sjálf okkur. Við veljum viðfangsefni sjálfskoðunar, svo dæmi sé nefnt, sem tryggja betri hefndarsigur, áhrifameiri hefnd án kostnaðar fyrir okkur sjálf, er fylgir stilling, jafnvægi og hugarró. Við fáum t.d. áhuga á að losna við ástartilhneigingar, tilfinningu fyrir að vera réttlaus, losna við sjálfsfyrirlitningu, yfirleitt allt sem veikir okkur í baráttunni við umhverfið. En við erum hins vegar áhugalaus um að draga úr kröfum okkar eða tilfinningu fyrir að vera misnotuð af öðrum. Við höldum áfram að frávarpa og líta á aðra sem misgerðarmenn. Við viljum e.t.v. ekki skoða samskipti okkar við aðra. Við viljum einungis vera laus við ónæði af slíkum athugunum.

22.2 UPPRUNI.

Hvað veldur því, að hefndarsigur verður slík þvingandi nauðsyn? Í raun væri jafngilt að spyrja, hvað geri fjandskapinn svo vægðarlausan að hann eiri engu. Fjandskapurinn er augljós. Af hverju nær hann slíku taki á manninum. Af hverju er hann svo eftirsóttur, að maðurinn ver hann með öllum ráðum? Til þess að öðlast skilning á þessu, verðum við að svara ýmsum spurningum, til dæmis hver sé uppruni reiðinnar, hvaða jákvætt gildi hefndin hafi, hvaða aðrar leiðir séu kleifar fyrir manninn og í hvernig hugarástandi sá sé, sem fullur er af hefndarreiði. Víkjum fyrst að upprunanum.

Hefndarreiði á sér þrjár uppsprettur: sært stolt, frávarp sjálfshaturs og lífsöfund, (sem nefnd er Lebensneid á þýsku).

Stolt er sjálfsmat, sem vakið hefur verið upp og byggist á ímynduðum yfirburðum fremur en raunverulegum kostum. Því meira sem persónuleikinn í heild sinni hvílir á slíku stolti, þeim mun viðkvæmari er viðkomandi í raun fyrir særindum. Skiptir þá ekki máli, hversu hann reynir að leyna þessari staðreynd fyrir sér með yfirbragði ósæranlegs stolts. Hann finnur gjarnan til lítillækkunar og svarar með hefndarviðbrögðum. Þau kunna síðan að verða bæld, þannig að einungis einstök skapstyggðarviðbrögð komi fram í vitundinni. Honum getur fundist hann svo mjög lítillækkaður af mörgum ástæðum, að í honum býr án þess að hann geri sér grein fyrir því, suðupottur hamslausrar heiftar. Sérhver vonbrigði vegna hinna miklu krafna hans (sjá II. þátt), sérhvert virðingarleysi sem honum er sýnt eða skortur á þakklæti, sérhver skoðanamunur, sérhver óhagstæður samanburður við aðra, sérhver bón eða samúð honum veitt er endalaus keðja af tilefnum til lítillækkunar. Allt þetta verður eldsneyti nýs hefndarsigurs.

Frávarp sjálfshaturs er fólgið í því að upplifa eigin innri niðurrifsviðhorf og ætlanir, eins og þær komi frá öðrum. Aðrir hata mig, fyrirlíta mig, saka mig um ósanngirni, draga mig niður, áreita mig og hrella. Í stuttu máli; aðrir koma í veg fyrir að ég njóti lífsins. Ef lífsreynslan er þessi, er ekki nema rökrétt að örvæntingar og hefndarviðhorf skapist gagnvart öðrum.

Þrátt fyrir tilfinningu fyrir misneytingu, sem stafar af særðu stolti og frávarpi sjálfshaturs, er haldið ríkt í hvorutveggja. Það er eins og tilfinningin sé ósjálfrátt ræktuð, því að hefndarsigurinn kallar á réttlætingu, hafi á annað borð verið stofnað til hans. Menn geta haldið áfram að réttlæta reiði sína með “góðum og gildum ástæðum”, ef svo má segja. Þetta er vítahringur og orsakir reiðinnar verða í þeirri stöðu, að verja verður þær með öllum ráðum.

Fjandskapurinn getur átt sér dýpri rætur, og orsök hans getur verið vonleysi gagnvart lífinu. Í síðasta þætti er rætt um almenn huglæg viðhorf til hefndarsigurs. Við það má bæta að vonleysi þarf ekki að leiða til hefndarsigurs. Vonleysi getur leitt til flótta og uppgjafar og þá til hins gagnstæða, minnkun hefndarreiðikasta. En oftar leiðir vonleysi til hefndarþarfar. Það getur gerst af tvennum ástæðum. Önnur er hefndaröfund, sem stafar af því að finna sig útilokaðan. Vegna eigin hugarflækju getur einstaklingurinn verið útilokaður frá því lífi, sem vert er að lifa, frá gleði, hamingju, ást, sköpunargleði og þroska. Raunhæf leið til að bregðast við slíkri ógæfu er að athuga eigin annmarka og hindranir. Á meðan sú leið er lokuð, verða viðbrögðin órökrænar kröfur. Honum finnst þá, án þess að hafa um það beina vitund, að hann eigi rétt á betra lífi, að ósanngjarnt sé að hið góða og eftirsóknarverða komi ekki til hans. Í biturleik sínum finnst honum aðrir betur settir en hann. Af hverju skyldu þeir vera það? Stolt hans er sært. Þeir lítillækka hann með því að flíka eigin hamingju framan í hann. Að upplifa lífið með þessum hætti orsakar ekki aðeins hefndarreiði, með löngun ríkjandi til að eyða gleði annarra, heldur veldur það sérstöku kaldlyndi og tilfinningaleysi, sem kæfir samúð með þjáningum annarra. Hedda Gabler eftir Henrik Íbsen er góð lýsing á slíku kaldlyndi hefndarinnar.

Hin ástæða þess, að vonleysi getur aukið á hefndarreiði, er að skuldinni fyrir eigin mistök og bágindi er skellt á aðra. Forsendurnar eru þær sömu og öfundar, sem er vangeta til að axla ábyrgð á þeim ágöllum eða ófullkomleik, sem myndast hefur. “Þeir” hafa eyðilagt allt fyrir mér og því verður ekki bjargað. Ef ég fer í rusl, er það “þeim” að kenna. “Þeir” ættu að finna til sektar vegna þessa eða borga fyrir það með einum eða öðrum hætti. “Þeir” eru oft upprunalega foreldrar viðkomandi. En meðan innri staða er óbreytt, er viðhorfið upplifað með sama hætti gagnvart kennurum, vinnufélögum, yfirmönnum, maka, þjóðfélaginu eða lífsaðstæðum. Hér er enn vítahringur á ferðinni. Með því að þetta viðhorf stafar af óhæfni til að gera eitthvað jákvætt fyrir sjálfan sig, þá lamar það einnig viðleitni í jákvæða átt, þar sem öll orkan fer í eigin niðurrifsviðhorf. Og það sem meira er, mjög freistandi er þá að vera “öryrki” í þessum efnum, ef svo má að orði komast. Ef viðkomandi batnaði og framfarir yrðu, myndi hann ekki getað framvísað reikningnum á aðra.

22.3 HLUTVERK.

Hvað telst jákvætt við hefndarsigur? Hvert er huglægt gildi hans? Hvaða þarfir uppfyllir hann? Hverjar eru forsendur hans, hvers vegna telst hann ekki aðeins réttmætur, heldur og nauðsynlegur og æskilegur?

Með hefndarsigri verndum við okkur gegn fjandskap utan frá og innan frá. Skal það útlistað í fáum orðum. Þegar hefndarsigur er eins konar nauðhyggja verður grunnkvíðinn jafnan mikill. Grunnkvíði er tilfinning fyrir að vera einangraður og hjálpalaus í fjandsamlegum heimi. Sá sem haldinn er hefndarsigri upplifir fjandskap annarra ekki aðeins sem möguleika, heldur raunveruleika. Hann er óafvitað eða ekki, sannfærður um að ekki megi treysta öðrum, að vináttuvottur þeirra sé aðeins fals til þess að notfæra sér hann eða lítillækka, draga hann niður eða vængstífa. Hann væri því heimskur væri hann ekki á verði og efldi styrk sinn til varnarbaráttunnar. Hann verður alltaf að vera viðbúinn að svara fyrir sig og slá til baka. Honum finnst vissara að undirbúa árás og vera fyrri til. Ef hann hefur vitund um þetta viðhorf, ver hann það á þeim forsendum, að um sjálfshagsmuni sé að ræða. Í raun hefur hann engan áhuga á sjálfum sér, áhuginn snýr aðeins að varnarháttunum. Þeir eru honum ekki aðeins mikilvægir, heldur að hans mati raunsæi. Að slaka á vörnum eða láta af tortryggni er þá hrein heimska.

Áður var á það minnst, að frávarp sjálfshaturs væri ein af uppsprettum hefndarreiði. Þegar betur er að gáð, sjáum við frekari þörf fyrir sjálfsvernd. Hefndarreiði, sem beint er að öðrum, er eins konar öryggisventill, til verndar gegn sjálfseyðileggingu. Ég ræddi í VI. og VII. þætti um sjálfsásakanir, sjálfshatur og sjálfsfyrirlitningu. Maðurinn getur ásakað sjálfan sig, fyrirlitið og kvalið í svo ríkum mæli, að reynst getur honum hættulegt. Þessi viðhorf geta beinlínis gert að engu allt andlegt frelsi og hamingju, þótt ekki sé beðið líkamlegt tjón. Maðurinn upplifir þá misgjörð, sem hann gerir sjálfum sér, eins og hún komi frá öðrum. Með því að bregðast þess vegna við gegn öðrum með hefndarsigri, verndar hann sig ósjálfrátt. Þetta samband á milli sjálfshaturs og hefndarsigurs sést greinilega á því hjá sumum, að eftir að þeir hafa ásakað aðra og iðrast þess, snúast þeir gegn sjálfum sér með skaðlegum hætti. Ef sá, sem haldinn er hefndarsigri er uppvís að dómgreindarleysi eða lygum, snýst hann gjarnan gegn þeim sem svo “háskasamlega” afhjúpaði hann. Hins vegar hverfur áráttan til hefndarsigurs, ef mönnum verða ljósar þær sjálfsásakanir og sú sjálfsfyrirlitning, sem undir býr.

Eitt hlutverk hefndarsigurs er að lagfæra og endurreisa sært stolt. Hér situr sjálfsvernd einnig í fyrirrúmi. Mörgum er stoltið ekki aðeins litrík fjöður í hattinum, heldur sjálfur lífsgrundvöllurinn. Ef stoltið er sært illa, getur viðkomandi hrunið saman. Hann bægir þeirri hættu frá með því að bregðast hart gegn misgjörðarmanninum. Þeim varnarháttum fylgir því meiri þvingun sem mat viðkomandi er háðara öðrum. Þessu er oft lýst í skáldsögum. Ef maður eða kona er særð af aðila gagnstæðs kyns og ætlar að jafna um hann, en tekst ekki, t.d. vegna þess að hinn aðilinn sýnir ekki áhuga, þá getur viðkomandi maður eða kona auðveldlega fallið fyrir hinum. Þetta finnur og veit sá, sem haldinn er hefndarsigri. Hann veit um þá hættu, sem fylgir því ef honum mistekst að eigin mati að ná fram hefndum og jafna leikinn. Sumir fara í meiðyrðamál og fá orð dæmd “dauð og ómerk” og andstæðinginn dæmdan í sektir. Þar með tekst þeim að endurreisa stolt sitt. Ella finnst þeim þeir vera minni menn, sem aðrir fyrirlíti.

Af því að hæfnin til að hefna sín er svona mikilvæg fyrir suma, verður hún á ný andlag stolts. Auðvitað segja engir hreint út, að þeir séu stoltir af eigin hefndarsigri, heldur gylla það með ýmsum hætti. Menn eru stoltir af að vera “hreinskilnir” eða “segja eins og þeim býr í brjósti”, af að vera “réttlátir” og “óhræddir”. Sumum er það heilög skylda, að láta engum líðast að móðga sig án þess að hann “fái að finna fyrir því”. Þess konar skylda er ein ástæða brenglunar á siðferðisgildum. Allt sem tilheyrir hefndarsigri er þá heiðarlegt, sterkt og raunsæi, en á hinn bóginn leiða svo margar ástæður til þess, að vinsamlegheit eru álitin uppgerð eða hinn örláti er álitinn ginningarfífl.

Svo sem sjá má af því sem rakið hefur verið, er hlutverk hefndarinnar fyrst og fremst að vernda viðkomandi. En ekki er það næg skýring á hinni þvingandi nauðsyn, sem einkennir hefndina. Þegar við finnum með okkur sjálfum, að um þvingandi markmið er að ræða, getum við verið viss um, að undir því býr kvíði sem tengir þörf fyrir einhvers konar öryggi. En hefndin hefur önnur auðkenni, sem fram koma í huga og verki. Má þar nefna spennu, ástríðu, örvun eða einhvers konar losta og trylling. Til öryggis förum við eftir umferðarreglum eða kaupum okkur tryggingu, en ekki er slíkur gjörningur æsandi. Þessi ástríðu- eða vímueinkenni, stafa af von um hefndarsigur.

Svo sem oft hefur verið rætt á hefndarsigur sér margar ástæður. Oft er um að ræða lítillækkun í æsku, sem gerð var af gáleysi eða ásetningi. Síðar kemur svo til reynsla, sem upplifuð er sem lítillækkun vegna eigin stolts. Allt þetta getur vitað eða óafvitað leitt til löngunar til að sigra misgjörðarmenn sína. Ef vonleysi situr í fyrirrúmi um að geta skapað uppbyggilegt líf, getur sigurinn orðið það eina markmið, sem manni finnst þess virði að berjast fyrir. Þetta getur haft á sér afar góðkynjað yfirbragð, og ekki að sjá né finna hefndarvott í vitundinni. Öskubusku dreymdi um að hún yrði sú útvalda. Móðir, systir og félagar áttu að fá að sjá, hversu blindir þeir höfðu verið á yfirburða góðleik hennar og fegurð. Hún ætlaði ekki að bera kala til þeirra og í mikilleika eigin örlætis hugðist hún gerast velgjörðarmaður þeirra. “Ég mun sýna þér” og óskin um að lyfta sér upp í ögrandi sigri, getur einmitt verið aðaldriffjöðrin í metnaði, leit að virðingu, afrekum eða kynferðislegum sigurvinningum. Sigurþörfin er einmitt hluti hefndarinnar, sem áður er lýst. Að hafa vald, að lítillækka, að hagnýta sér, að svekkja og klekkja á, þýðir sigur.

Tvær ástæður liggja til þess, að sigurvonin verður svona heillandi. Í fyrsta lagi þegar einhver er að mestu útilokaður, óæskilegur, fyrirlitinn, misnotaður og svekktur, á sama tíma og honum finnst í ímyndun sinni að hann eigi rétt á allri jarðarinnar dýrð, hlýtur honum að finnast æskilegt og veita sér þá fullnægju að snúa hlutverkunum við. E.t.v. getur ekkert annað en sigur komið hinu botnlausa stolti hans á réttan kjöl. Í öðru lagi er tilfinningareynslan, upplyftingin, örvunin honum ómetanleg, þar sem vera kann að hann hafi engar aðrar raunverulegar tilfinningar. Þess vegna er slíkur maður ófús til að afsala sér hefndinni, þar sem hún hefur svo mikið tilfinningalegt gildi.

Hér er þó á ferðinni eigið sjálfsniðurrif, því viðkomandi er staddur í þeim vítahring, að þarfnast sífellt meiri örvunar. Eltingaleikurinn eftir sigri kæfir einnig lífsuppsprettuna, ef svo má að orði komast. Þetta er þróun sem gerist lymskulega og án þess að hennar verði vart, fyrr en vaknað er upp við staðreynd hins tilfinningalega dauða og það verður þeim ráðgáta sem hlut á að máli.

Ef í öllu því sem við tökum okkur fyrir hendur, hvort sem er í ást, kynlífi, tengslum við börn, félagsstörfum, vinnu, þar sem sigurmarkmiðið er aðaldriffjöðrin, verður athöfnin eða tengslin aðeins tæki til að ná ákveðnu markmiði. Viðkomandi nýtur ekki sambandsins við börnin eða þroska þeirra. Hann hefur einungis áhuga á, að þau fullnægi metnaði hans. Hann ræktar ekki heimili sitt eða garð ræktunarinnar vegna, heldur til að sýnast öðrum. Ef hann skrifar ritgerð, missir hann áhuga á efninu um leið og hann blindast af mögulegum viðtökum eða brautargengi að loknu verki. Hann hættir að hafa ánægju af eigin leikni eða sköpun eða að hafa ánægju og gleði af að vera með vini, og skiptast áskoðunum við samræður. Í stuttu máli, einlægur áhugi á verki eða sjálfsprottnum tilfinningum í persónulegum samskiptum verður lítill og lágkúrulegur. Því öfgafylltri sem þessi þróun verður, þeim mun meira ber á því hve hin eina lifandi tilfinning er bundin upplyftingu vegna sigurvonar.

22.4 VALKOSTIR.

Hér að framan hefur verið lýst allmörgum þáttum, sem valda því, að hefndarsigur verður þvingandi nauðsyn. En við vitum, að kleift er að hafa sigur á innri öflum, ef aðrir jafn girnilegir valkostir eru í boði. Því má spyrja, hverjir eru valkostir þess manns, sem skynjar að lífstíll hefndarsigurs er auðnin ein. Tvær leiðir koma til greina.

Önnur leiðin horfir í aðra átt, þótt ekki sé hún frýnileg frá sjónarmiði þess, sem lifir fyrir hefndarsigur. Hún er fólginn í þeim viðhorfum að gefa eftir, vera sveigjanlegur, sýna undanlátssemi og vinsemd. Viðkomandi telur sig þá orðinn undirlægju eða undirmálsmann, hjálparlaust leikfang annarra. Ef hann er sviptur vopni hefndarinnar, muni aðrir ganga yfir hann og traðka á honum, og að hann verði fórnardýr eigin sjálfsfyrirlitningar. Þetta er að sjálfsögðu hræðileg tilhugsun fyrir þennan mann. Í samanburði við þennan valkost verður lífstíll hefndarsigurs honum girnilegri.

Þessi ótti er byggður á reynslu. Undir niðri eða af og til hefur maðurinn haft tilfinningu fyrir réttleysi. Hann getur hafa upplifað það að vera háður annarri manneskju, meðal annars í ástum og fundið til botnlausrar fórnarþarfar. Að minnsta kosti getur hann hafa skynjað geigvænlegan veikleika á bak við grímu eigin stærilætis og sjálfsvissu. Hann verður því að skoða þessar veikleikatilhneigingar og markmið og losa verulega um þær eða draga úr þeim, áður en hann getur ráðist til atlögu við tilhneigingar hefndarsigursins.

Ótti mannsins leiðir einnig af sérstökum hugsunarhætti, sem betra er að gæta að. Við erum ein heild og við getum því ekki breytt okkur nema heildstætt. Ekki er hægt að afklæðast hefndarsigrinum og standa eftir óbreyttur að öðru leyti. Tilhneigingum hefndarsigurs verður aðeins breytt sem hluta af heildarbreytingu. En maðurinn hugsar öðruvísi. Honum finnst hann ekki vera heild, heldur settur saman úr mörgum tilhneigingum og markmiðum, t.d. af hefndarmarkmiðum annars vegar og veikleikatilhneigingum hins vegar. Ef annar hlutinn er tekinn burtu, þá ræður hinn. Af þessum ástæðum er nauðsynlegt að sjá heildina, en ekki brot af heildinni. Gæta verður að dulvituðum áhuga á að aðgreina í huganum það sem samtengt er. Öll dulvituð markmið og tilhneigingar hafa sína gagnstæðu og ógerlegt er að losa sig við annan helminginn án þess að leysa hinn upp.

Hin heilbrigða leið, leiðin að okkur sjálfum, virðist stundum vandfundin og lítill áhugi hefur lengst af verið fyrir henni. Við þekkjum fólk, sem hefur mikinn styrk til að bera án þess að vera hefnigjarnt. Jafnvel þótt við sjáum útleið, eru viðbrögðin blendin. Við viljum gjarnan öðlast alla þá hagsbót og blessun, sem fylgir þroska og uppbyggilegu líferni, innri sálarfrið, innra frelsi og auðugra tilfinningalífi. Leiðin að þessum markmiðum virðist þó oft ekki auðfarin. Hún leiðir til mikillar vinnu, athugunar á eigin stolti, frávarpi og öðrum atriðum, sem snúa að mannlegum samskiptum. Lagt væri í slíka vinnu, ef ekki væru ljón á veginum, þ.e. ýmis fráhrindandi atriði.

Þegar farin er þessi leið, neyðumst við til að vera mannlegri. Við verðum að leggja af hinn ímyndaða mikilleik okkar og sérstæði og játa að við erum venjulegt fólk, án forréttinda. Við erum hinn almenni maður, sem svo mörgum finnst lítið til um. Við verðum að viðurkenna eigin takmarkanir, ósigra, sorgir og bera ábyrgð á lífi okkar. Við eigum ekki að ætla okkur að taka ábyrgð á öðrum og bjarga þeim með ímynduðum stórhug, heldur byrja á því að fást við eigið líf. Þetta verkar stundum ógeðfellt og jarðbundið eða a.m.k. óæskileg lending. Við réðum engu um uppruna okkar eða umhverfi. Mannkynið er blandað, tilviljun ræður þeirri blöndu og einstaklingarnir eru líkir innan vissrar fjölbreytni. Við erum hluti af heildinni og í litlu frábrugðin hvert öðru. Þótt okkur finnist að við séum hvort tveggja í senn einstök og jafnframt samskonar, erum við hvorugt. Það þarf töluverð andleg umbrot til að leggja af hin gömlu gildi og viðurkenna að við séum bara venjulegt fólk. Sérstaklega til að sjá, að það að vera mannlegur sé æskilegt markmið til að keppa að. Þar til þetta rennur upp fyrir mönnum, er hin heilbrigða leið lokuð. Á meðan höldum við stíft í hefndina.

22.5 HEILUN.

Hefndarsigur er svo flókið fyrirbrigði, að varla verður ráðist beint gegn honum í einni atlögu. Margar og flóknar ástæður valda þessu og á meðan þær eru við líði, eru menn hefnigjarnir. Hefndarsigur er einkenni sem bendir til leyndrar brenglunar og viðheldur henni einnig. Þetta stafar af því að hefndin er lausn á innri vandamálum og heldur vissu jafnvægi í sálarlífinu. Þess vegna ríghöldum við í hefndina. Þess vegna er hún ein meginhindrunin á leið til þroska. Meðan hefndin ríkir hefur maðurinn hvorki vilja né hæfni til að glíma við hina leyndu truflun með uppbyggilegum hætti.

Hefndin hefur mikið huglægt gildi og þess vegna kemur hún í veg fyrir innsýn og breytingu. Með henni verða hinir jákvæðu og uppbyggilegu þættir okkar veikari. Hún gerir okkur fjarlægari sjálfum okkur. Ef krabbamein nær yfirhöndinni fækkar heilbrigðum vefjum. Viðhorf þess, sem haldinn er hefndarsigri gerir málið erfitt. Ef menn eru fjandsamlegir og ásaka aðra, verða þeir að gera eigin stöðu þannig, að ekki verði höggi á komið. Sá sem þarf að nota alla sína orku til baráttu út á við, getur ekki lagt sig í hættu með því að játa á sig mistök eða veikleika. Honum finnst hann jafnvel ekki gera mistök eða vera haldinn minnimáttarkennd. Allur vafi á þá lund er kæfður, tilfinningar hans gagnvart sjálfum sér verða bældar. Slíkur maður viðurkennir því aldrei að hann sé óraunsær, órökrænn, ekki samkvæmur sjálfum sér eða haldinn áráttu. Sjálfsréttlæting verður þannig nauðsynleg sjálfsvernd.

Ef menn þurfa að afneita öllum veikleika, neyðast þeir jafnframt til að afneita öllum jákvæðum tilfinningum gagnvart öðrum og lífinu, svo sem blíðu, ást, samúð, þakklæti, gleði. Hér er ein meginástæðan fyrir innri tómleika og leiðindum og því vonleysi, sem áður hefur verið rætt. Þessi eigingjarni tilfinningakuldi veldur því, að fjandskapurinn sýnist meiri en hann er í raun. Við myndum t.d. ekki telja það grimmd að stíga á skordýr. Grimmdin getur orðið lífstíll, sem hefur ekkert með tilfinningar eða fjandskap að gera. Verður nánar rætt um það í næsta þætti. Þá er hinn hefnigjarni afar sjálflægur, ekki síst vegna þess, að hann hefur slitið tilfinningatengsl við aðra. Vegna innri tómleika finnst honum ekkert eiga uppruna sinn í honum sjálfum. Tilfinningalömun veldur því að flestu er frávarpað á aðra. Manninum finnst aðrir fyrirlíta hann, þegar í raun hann gerir það sjálfur. Honum finnst aðrir trufla sig við verk sitt, þegar eigin hömlur eru að verki o.s.frv.

Hefndarsigurinn gerir viðkomandi þannig andlausan og ófrjóan og lokar leið til frekari þroska. Hefndarsigurinn skaðar hann sjálfan meira en aðra. Þótt hefndarsigur sé eyðileggjandi, er bæling hans þó sýnu verri. Markmiðið er því að opna honum leið og eyða honum.