XX EÐLISEINKENNI PERFEKTIONISMA

20.0 SÍFELLT AÐ GERA BETUR.

20.1 VALDBOÐSHNEIGÐ.

20.2 BÆLING OG SIÐFERÐI.

20.3 VALDHNEIGÐ.

20.4 EIGNASÝKI, REIÐI O.FL.

20.0 SÍFELLT AÐ GERA BETUR.

Sá sem líður af perfektionisma er oft greindur, vel menntaður og í góðum efnum. Hann er stöðugt að reyna að gera betur, en gerir lítið úr því sem honum tekst. Það sem hann sækist eftir er upprunaleg viðurkenning foreldra eða þeirra sem í foreldrastað komu og síðar umhverfis, en um þá viðurkenningu var heldur lítið á sinni tíð.

Allir eru perfektionistar að einhverju marki. En margir eru illa haldnir fullkomnunaráráttu. Þeir þurfa að hafa alla hluti á sínum stað, segja rétt orð á réttum tíma, vera stundvísir, kunna allar hegðunarreglur og vera kurteisir. Þeir vinna skipulega, af dugnaði og harðfylgni, og sýna smáatriðum sérstaka kostgæfni, þar til þeir verða uppgefnir. Oft er mun meiri vinna lögð í verk en nauðsynlegt er. Perfektionistinn er stoltur af að vera hafinn yfir meðalmennskuna í þessum efnum. Þessi mikla, ódrepandi viðleitni og oft ósvikin afrek veita honum þó enga fróun eða ánægju. Hann er í raun vansæll. Þrátt fyrir unnin afrek og verður hann sífellt að gera betur. Hann vanmetur eigin afrek og gerir lítið úr þeim.

Hver þekkir ekki húsmóðurina, sem þrælar sér út við ræstingarstörfin, jafnvel þótt hún viðurkenni að þau séu óþörf. Ekki er hægt að þola neina óreglu, hvort sem það eru börnin, vinnan eða venjulegt ryk. Vinsamleg ráðlegging um slökun, er látin sem vind um eyru þjóta. Leggja verður sig allan fram og strita, án þess að því fylgi minnsta ánægja. Oft gerir velgefinn perfektionisti sér grein fyrir, að hann gengur of langt eða umfram það sem hann telur nauðsynlegt. Þá er gjarnan gripið til þess ráðs, að skýra vandann með því að venjulegir staðlar eigi ekki við hann, þeir séu fyrir venjulegt fólk en ekki hann. Perfektionistinn finnur til yfirburða sinna og lítur niður á þá sem ekki eru haldnir áráttunni. Þó öfundar hann venjulegt fólk af ósvikinni lífsánægju þess og hvernig aukið sjálfstraust og sjálfsálit vex með auknum afrekum.

Öll þessi viðleitni og streð leiðir til árangurs, ef það er metið eftir félagslegum og efnalegum stöðlum, enda er það markmið hans. En þótt öll þessi barátta leiði til góðrar þjóðfélagslegrar stöðu, ef svo má segja, kennir hann samt innra með sér tómleika og óánægju. Sumir halda því fram, að aðeins með slíkri baráttu og streði verði stórvirki unnin. Í því sambandi er vitnað til vísindamanna og listamanna. Þetta er að sjálfsögðu misskilningur. Streð og rembingur hefur ekki skapað Bach, Mozart eða Brahms. Öll svið eiga sína meistara, líka matargerð og skósmíði. Vissulega var mikil vinna lögð fram, þolinmæði og iðni, en verkið var alltaf unnið vegna þess sjálfs. Áhuginn fór ekki út fyrir það. Ef hugsað er um árangur og rembst er við, verður ávöxturinn annar og ófrjórri. Verk meistaranna veittu þeim sanna ánægju. Það á ekki við um verk perfektionistans. Hann telur sig ekki hafa nóg að gert og verði að gera betur. Verkið veitir honum því ekki sanna ánægju. Við bætum litlu við hæfileika okkar með því að berjast við að auka þá. Við njótum þeirra þá fyrst að fullu, er við metum þá rétt og slökum á. Þá koma jafnvel í ljós hæfileikar, sem perfektionistanum er gjarnt að breiða yfir með striti sínu og streitu.

Margt fólk gerir sér ekki ljóst, hversu mjög það er haldið af perfektionisma, einkum vegna þess að sjúkdómurinn er oft bundin við ákveðin áhugasvið. Þau svið eru persónubundin. Þau eru sjálfsögðu tengd metnaðinum, en þó einkum sjálfsmynd þeirri sem við viljum hafa, t.d. fyrirmyndarforeldri, maki, félagi, starfsmaður o.s.frv. eða þá að þau eru bundin við ákveðið viðfangsefni, t.d. kunnátta í ákveðnu tungumáli eða að leika á ákveðið hljóðfæri, svo einhver dæmi séu tekin.

Ætla mætti perfektionistann mikið fyrir samkeppni. En allt hans kapp er í raun ekki til að vinna verk verksins vegna, heldur er það ósjálfráð viðbrögð við röngum mælikvarða á eigin getu. Hann hefur í raun lítinn áhuga á samkeppni vegna þess að hann er stöðugt knúinn til að slá sjálfum sér við í tilraun sinni til að fá eigin viðurkenningu, sem aldrei verður fengin. Þar sem þetta leiðir til firringar frá öðrum hafa margir perfektionistar tilhneigingu til að velja sér verksvið, þar sem hver og einn vinnur sér, en ekki í hópvinnu. Þannig velur hann sér umhverfi, þar sem hann keppir við sjálfan sig og þvingar sig áfram og er samt stöðugt óánægður. Hann getur með þessum hætti falið að nokkru leyti fyrir sjálfum sér, hve miklar kröfur hann gerir til sjálfs sín.

Mannleg samskipti eru perfektionistanum erfið að því leyti, að hann á erfitt með að halda nánum tengslum við aðra. Hann er aðlaðandi og kurteis, en náinn innileiki sem felst í ástúð elskenda er honum erfiður. Af því að perfektionistinn er alltaf að keppast við að afreka, verða honum ekki léttbær venjuleg samskipti, gleði í samskiptum vina, þörf fyrir nálægð og frjáls tjáning tilfinninga. Slík samskipti byggjast á viðurkenningu á sjálfum sér og öðrum. En óvissa hans um eigið sjálftraust grefur undan þeim. Hann leitar því eftir sviðum, þar sem frammistaða hans er mælanleg, eins og í vinnu, íþróttum eða þjóðfélagslegri stöðu, vegna þess að honum var ekki veitt verðug viðurkenning í æsku.

Hann heldur áfram að leggja sig fram og berjast, eins og hann hafði gert í æsku, í þeirri von að hann öðlist fulla viðurkenningu. Hann lítur á lífið eins og kapphlaup. Honum finnst innileg, náin og gagnkvæm mannleg samskipti bindandi, eitthvað sem dreifir athyglinni frá því að hann geti haldið fullri ferð. Ef hann stöðvar bardagann, til að njóta mannlegra samskipta, náttúrufegurðar eða einhvers annars vekur það með honum ótta um ósigur í keppninni.

Svo sem oft hefur verið sagt áður, sækist hann eftir fullri viðurkenningu foreldra eða þeirra, sem komu í foreldrastað. Þessi eftirsókn kemur í veg fyrir, að hann geti látið sér líða vel og notið mannlegra samskipta. Skortur á sjálfstrausti og sjálfsáliti kemur í veg fyrir að hann hætti baráttunni. Hann óttast að tími og fé sem notað er til annars en kapphlaupsins, muni kosta ósigur og alla von um viðurkenningu. Honum finnst aðrir sóa tímanum í ekki neitt, þar sem hann sér engan árangur hjá þeim.

Hvort sem við segjum, að öll barátta perfektionistans sé til að ná valdi yfir umhverfinu og finna til yfirburða eða segjum ástæðuna vera skort á sjálfstrausti eða tilhneigingu til að gera lítið úr sjálfstrausti, skiptir ekki máli. Hvað er orsök og hvað afleiðing gildir einu. Þarna er vítahringur, þar sem hvor þátturinn eflir hinn stöðugt. Í sálfræði er orsökin oft einnig afleiðing, svo undarlegt sem það er. Að gera stöðugt lítið úr sjálfum sér og ásaka sig spillir fyrir sjálfsnautn. Forsenda þess að lækna sig af perfektionisma er að læra að virða sjálfan sig og eigin getu. Ein merkilegasta staðreynd perfektionismans er sú, að þrátt fyrir öll afrekin, fylgir honum ekki sjálfstraust.

Perfektionismi er innan ætta eða fjölskyldna, mann fram af manni af augljósum ástæðum. Þjóðfélagslega er hann talinn æskilegur. Við erum þjóð framkvæmda, afreka og baráttu og allir eiga að leggja sig fram. Menningararfur okkar virðist hvetja til perfektionisma. Öllum finnst dugnaður lofsverður og því er innri tómleiki og vansæla, sem erfitt er að sjá oft hulinn undir yfirborði afreka. Þá leggur menntunarkerfi okkar áherslu á perfektionisma. Samkeppnin er þar í öndvegi og lítið gert úr þeim, sem ekki standa sig. Þeirri tilfinningu er lætt inn, að við séum ekki nógu góð. Börn eru látin fá sektarkennd, ef þau gera eitthvað sér til ánægju, sem ekki virðist hafa tilgang í menntakerfinu. Þá verður sífellt að gera enn betur til að bægja sjálfsásökunum frá o.s.frv.

Skal nú vikið að öðru sjónarhorni þessa máls, sem kalla mætti valdboðshneigð.

20.1 VALDBOÐSHNEIGÐ.

Þar sem perfektionismi er í eðli sínu þörf fyrir að ná vald á sjálfum sér og umhverfinu, er ekki úr vegi að líta á eðli hins ytra valds. Eins og hið innra vald bælir niður innri tilfinningar, svo bælir hið ytra vald niður tilfinningalegt frjálsræði.

Ólíkt er saman að jafna t.d. sambandi kennara og nemanda við samband eiganda og þræls. Þó er um yfirvald að ræða í báðum tilvikum. Áhugi nemanda og kennara beinist venjulega í sömu átt. Kennarinn er ánægður, ef hann verður nemandanum að liði. Ef honum mistekst það, eru mistökin ekki síður hans en nemandans. Eigandi þræls vill á hinn bóginn notfæra sér hann, svo sem verða má. Því meira sem hann fær út úr honum, þeim mun ánægðari verður eigandinn. Þrællinn reynir af fremsta megni að verja hagsmuni sína og hamingju. Þarna verða hagsmunaárekstrar. Það sem er öðrum til hagsbóta er á kostnað hins. Hlutverk yfirburða er einnig ólíkt í þessum dæmum. Kennarinn er að hjálpa undirsáta sínum, en eigandinn að hagnýta sér hann. Því meira sem nemandinn lærir, þeim mun skemmra verður bilið milli hans og kennarans, þ.e nemandinn líkist kennaranum æ meir og bilið leysist upp af sjálfu sér. Þegar um hagnýtingu er að ræða, eykst fjarlægðin með tímanum. Milli kennara og nemanda ríkir oft ástúð og þakklæti, kennarinn er nemandanum fordæmi og fyrirmynd, sem hann vill líkjast. Í hinu tilvikinu ríkir fjandskapur, sem er bældur og sem stundum snýst upp í aðdáun.

Að snúa fjandskap upp í aðdáun hefur þann tvíþætta tilgang að fjarlægja sársaukafulla og hættulega haturskennd og að draga úr lítillækkun. Ef sá sem stjórnar mér er svona fullkominn og dásamlegur, þá er engin skömm að hlýða honum. Ég get ekki orðið jafningi hans, þar sem hann er svo miklu sterkari, vitrari, betri o.s.frv. Niðurstaðan verður sú, að hatrið eykst jafnt og þétt, svo og ofmatið og aðdáunin. Þegar um er að ræða nemanda og kennara, þá minnkar aðdáunarþörfin í réttu hlutfalli við aukinn styrk nemandans eða eftir því sem hann nálgast kennarann í getu og þekkingu.

Hver er þá munurinn á þessum ólíku gerðum yfirvalds? Er það eðlismunur eða stigsmunur? Ef til vill er um stigsmun að ræða þar sem magn verður að gæðum. Í sambandi eiganda og þræls, er um hag þrælsins að ræða að því er tekur til fæðu og verndar, til þess að hann geti unnið fyrir húsbónda sinn. Það er heldur ekki nema þegar tengslin milli nemanda og kennara eru sem best, að um enga andstöðu eða fjandskap er að ræða. Um mörg millistig er að ræða, svo sem milli starfsmanns og vinnuveitanda, föður og sonar, eiginkonu og eiginmanns. Hins vegar mætti segja, að eðlismunur sé á milli yfirvalds, sem byggist á hreinu ytra valdi og hinu sem byggist á mati, þ.e. aðdáun, en hér erum við að ræða um það, hvernig við gerum ytri aðdáun að innra valdi. Yfirvald þarf ekki að vera persóna eða stofnun, sem segir: Þú verður að gera hitt eða þetta eða þér ekki leyft að gera þetta, heldur eins og við höfum verið að ræða um innra yfirvald undir merkjum skyldu og samvisku.

Lengi hefur frelsi meðal annars verið talið fólgið í því að vera laus við hið ytra vald, sem ekki væri samboðið frjálsum manni. Barátta þjóða og stétta hefur gengið út á þetta og margur sigurinn unnist. Leyfi til að hegða sér eftir eigin geðþótta og samvisku, að láta eigin skynsemi, eðli og vilja ráða, hefur jafnan þótt æskilegur kostur. Þannig er viðurkennt að frelsið sé eftirsóknarvert. En hvað ef samviskan verður meiri harðstjóri en allt ytra yfirvald? Ef fyrirskipanir samviskunnar eru ekki byggðar á eigin siðferði? Samviskan ríkir harðar yfir okkur af því við teljum fyrirskipanir hennar komnar frá okkur sjálfum. Hvernig er hægt að gera uppreisn gegn sjálfum sér?

Við megum ekki gleyma því, að í stað ytra yfirvalds ríkir gjarnan ónefnt ósýnilegt yfirvald, dulbúið sem heilbrigð skynsemi, almenningsálit, að vera normal o.s.frv. Það krefst einskis nema hins augljósa. Þegar segir í kókauglýsingu “alveg einstök tilfinning”, er verið á lúmskan hátt að gefa ákveðið í skyn og sama gildir um önnur dulbúin tilmæli í þjóðfélagi okkar. Við erum heilaþvegin án þess að vita af því. Þetta yfirvald er áhrifaríkt og lúmskt, þar sem engan grunar að um fyrirskipanir sé að ræða, sem fylgja þurfi. Þegar um ytra yfirvald er að ræða, vitum við hvaðan skipunin kemur og við getum gert uppreisn gegn henni. Við þroskum með því hugrekki og sjálfstæði. Jafnvel þegar um innra yfirvald er að ræða, vitum við hver skipunin er og hvaðan hún kemur. En þegar um ósýnilegt ytra yfirvald er að ræða, þá er hvorki fyrirskipandi og fyrirskipun sýnileg. Óvinurinn er ósýnilegur og ekkert til að gera uppreisn gegn.

Sá, sem sérstaklega sækist eftir valdi, skiptir mönnum og stofnunum gjarnan í hópa eftir því, hvort þeir hafi vald eða ekki. Sóst er eftir valdi valdsins vegna og öllu fórnað fyrir það. Hann fyrirlítur þá sem ekki búa yfir valdi í einhverri mynd. Hann hagnýtir sér þann, sem lætur undan valdi. Þótt undarlegt megi virðast, þá getur fjandskapur gegn yfirvaldi og uppreisn gegn valdi einmitt verið valdtilhneiging. Til nánari skýringar má rétt aðeins minnast á það hvernig valdtilhneiging lýsir sér með þessum hætti. Stundum er valdtilhneigingin það bæld að hún birtist ekki nema í óvenjulegum undirlægjuhætti. Stundum er uppreisnin allsráðandi gegn öllum og öllu, jafnvel þótt það sé gegn eigin hagsmunum og um engar yfirráðatilhneigingar annarra að ræða. Stundum er þetta tvíþætt, þ.e. gerð er uppreisn gegn sumu yfirvaldi, en beygt af fyrir öðru. Fer það þá eftir ýmsu, svo sem styrkleika yfirvalds og fjarlægð frá viðkomandi, hvort um uppreisn er að ræða eða ekki.

Þeir sem berjast gegn yfirvaldi sýna oft mikið sjálfstæði í verki. Þessir menn berjast af innri styrkleika að því virðist heilsteyptri baráttu gegn þeim öflum sem standa í vegi fyrir sjálfstæði og frelsi. Ekki er þó allt sem sýnist. Við vitum hvernig pólitískar hreyfingar geta barist gegn einræði, en breyst í enn vera alræði komist þær til valda.

Sá sem er valdhneigður virðist ekki hafa á móti aðstæðum, sem takmarka frelsi. Hann virðist taka örlögunum, ef svo má að orði komast, hlýða yfirboðara og viðskiptalögmálum. Stöðugt er leitað að kerfi eða boðskap, sem veitir meiningu í líf viðkomandi eða stefnu, sem veiti leiðsögn. Trú er ríkjandi á boðskap eða reglukerfi, litið er upp til þess og það tileinkað hlutaðeigandi sem hluti af honum. Oftrú á andlegri stefnu eða boðskap er ríkjandi. Formúlur eru settar í reglukerfi til að fara eftir eða stjórnast af. Oft er trú á “töfralykil” eða “patentformúlu”. Viðkomandi verður að láta ytri atriði eða tilbúna skynsemi stjórna lífstefnu sinni og getur ekki tekið líf sitt í eigin hendur, en í staðinn er lifað í gegn um þessi atriði og þeim fylgt svo stranglega sem kostur er.

Þetta getur gengið það langt, að á allt er litið sem óhjákvæmileg örlög. Styrjaldir teljast þá örlög og að ein þjóð ríki yfir annarri. Sama á við um árekstra og yfirráð manna. Örlögin eru þar að verki og þjáningin verður aldrei minnkuð frá því sem verið hefur. Fortíðin er dýrkuð. Það, sem verið hefur, verður að eilífu.

Í raun birtist hér gamla þemað um baráttuna milli frelsis og ófrelsis, hvort skyldur og markmið eigi að stjórna okkur eða við þeim. Að sækja út í óvissuna og sleppa hækjunum kostar jafnan kvíða.

20.2 BÆLING OG SIÐFERÐI.

Áður hefur verið rætt um bælingu. Markmið, þörf eða viðleitni kann að verða bæld, ef viðkomandi álítur önnur mikilvægari markmið, aðra þörf eða viðleitni í hættu. Metnaður getur þannig verið bældur, af því að viðkomandi vill vera óeigingjarn. Metnaður getur líka verið bældur í öryggisskyni, til að styggja ekki þá sem stuðnings er leitað til. Margar aðrar ástæður leiða til bælingar, eins og rakið er í þáttum X. og XI. um kvíða. Við höfum ríka áráttu til að halda við markmið okkar, hvað sem það kostar. Við verðum að vera eitthvað, eins og það er nefnt og þar er hundurinn grafinn. Aldrei er hægt að sleppa neinu, því þó að það leiði til meiri vellíðan, kostar það einnig kvíða óvissunnar og fleira mótlæti. Það er að sækja út í óvissuna að afklæðast persónuleikanum til að öðlast sjálfan sig, að velja hið innra fyrir hið ytra. Við hökkum í sama kunnuglega farinu til að forða okkur frá þeim grunnkvíða, sem fylgir því að sleppa þeim markmiðum, sem við teljum líföryggi okkar byggjast á.

Við teljum okkur trú um, að við bælum hið slæma. Það er okkar mat. En við bælum það sem ekki hæfir þeirri ásýnd, sem við teljum okkur þurfa að hafa gagnvart öðrum. Allt er bælt, sem ekki hæfir ásýndinni. Við sýnum með ásýndinni það sem við álítum “gott” og því er það sem bælt er “vont” eða “lakara”. En við megum ekki gleyma því, að við bælum ekki aðeins hið “slæma”, “andþjóðfélagslega”, “eigingjarna”, heldur einnig sjálfsprottnar óskir, tilfinningar, sjálfstæða dómgreind o.s.frv. Með því að bæla græðgi, bælum við einnig með því eðlilegar óskir. Eiginleikar, sem mikið gildi hafa fyrir okkur, eru einnig bældir, vegna þess að þeir ógna ásýndinni. Segja má, að perfektionisminn bæli ekki aðeins það sem hæfir ekki ásýndinni, heldur einnig allt það, sem kemur í veg fyrir viðhald ásýndarinnar. Svo lengi sem við verðum að vera óskeikul, snúumst við gegn sjálfum okkur.

Þótt siðferðilegir staðlar sumra merki ekkert annað en að hafa siðferðilega ásýnd, er of mikið sagt, að þeir séu ekkert annað en ásýnd, því þeir eru hegðunar og tilfinningastaðlar, sem við teljum hafa mikið gildi og við viljum almennt fylgja. Ásýndin líkist þessum stöðlum, en raunsiðferði er hluti Sjálfsins, þ.e. okkar innsta kjarna. Það er engin tilviljun, að fullkomnunaráráttan ber keim af viðurkenndum siðferðisstöðlum þjóðfélagsins. Að öðrum kosti myndi hún ekki ná tilgangi sínum. En hún er engu að síður eftiröpun siðferðis, en ekki raunsiðferði. Verið er að falsa eða líkja eftir raunverulegu siðferði.

Gervisiðferðið kemur í veg fyrir að raunverulegt siðferði fái að þroskast. Siðferðisstaðlar sem myndast hafa undir streitu og ótta til að kaupa sér frið verða aldrei annað en innra form, sem aftur skapar innri mótþróa eða uppreisn. Hann er t.d. vinsamlegur fólki, en óvitað finnst honum slík framkoma byrði. Þá fyrst þegar hann hefur losað sig við þessi þvingandi vinsamlegheit, getur hann farið að velta því fyrir sér, hvort hann vilji í raun vera vinsamlegur í annarra garð.

Fullkomnunaráráttan býr yfir ýmsum siðferðilegum vandamálum, sem eru ekki þau sömu og við venjulega berjumst við eða teljum okkur hafa. Vandamálið liggur raunverulega í óheiðarleika og hroka og þeirri grimmd, sem skyldukerfinu fylgir gagnvart okkur og öðrum. Við erum í raun ekki ábyrg fyrir þessum markmiðum, þar sem við gátum ekki komið í veg fyrir tilvist þeirra og að yrðu hluti af okkur. En við verðum að gera okkur grein fyrir þessum markmiðum, ekki vegna þess að við eigum að bæta þau, heldur vegna þess að við þjáumst undir þeim. Þau koma í veg fyrir þroska og góða sambúð við aðra og skapa innri tvöfeldni. Þótt atlaga að þessum uppgerðarstöðlum setji menn úr jafnvægi og sé sársaukafull, fylgir því ríkuleg uppskera og mikill léttir að vera laus undan stöðlunum. William James sagði, að það væri jafnmikill léttir að losa sig við blekkingar, eins og fá þeim fullnægt. Meiri er sá léttir að losna við þær.

Kant hélt því fram, að við hefðum þá einu afdráttarlausu skyldu, að breyta ætið þannig, að við gætum fallist á að forsendur verka okkar verði almenn lög. Kant áleit þannig siðferðið koma innan frá og við ættum ekki að brjóta þau lög, sem við viljum að aðrir fari eftir. Menn eigi ekki að gera upp á milli sjálfra sín og annarra. Kant vildi að hver maður grundvallaði breytni sína á eigin skynsemi. Fólk vissi almennt hver skylda þess væri. Við þurfum því ekki að láta aðra segja okkur fyrir verkum, ákveða, hvað sé rétt og hvað rangt.

20.3 VALDHNEIGÐ.

Ef við tölum um hinn dæmigerða perfektionista, sem samsamar sig sínum vitsmunalegu og siðferðilegu stöðlum, þ.e. telur sig ná þeim og lítur niður á aðra þess vegna, þá mætti bæta þessari lýsingu við til nánari útskýringar:

Hann telur sig ráða við innri erfiðleika eða hefur hemil á þeim með vilja sínum. Hann býr þó yfir ótta við aðstæður, sem hann hefur ekki vald yfir. Hann er fyrirmynd og öðrum allt. Allir gallar og veikleiki verða að hans mati að hverfa og lagfærast þegar í stað með gáfum einum og viljakrafti. Hann telur jafnan að innsýn inn í vandann eigi ein að nægja til breytinga. Hann telur, að hann hefði aldrei átt að verða fyrir áhrifum af umhverfi eða æsku eða gera mistök síðar. Hann hugsar rétt, hefur réttar skoðanir og tilfinningar. Hann gerir aldrei mistök í neinu, sem hann á annað borð reynir við. Hann hefur oftrú á skynsemi en fyrirlitningu á tilfinningum. Hann hefur fyrirlitningu á öllu, sem ekki er gáfað eða hefur fulla dómgreind. Hann dáist að styrkleika og myndarskap, en fyrirlítur veikleika. Hann tekur á sig ábyrgð og áhættu.

Augljóst er af þessari lýsingu og því sem áður hefur verið rakið, að þessi maður leggur áherslu á að ná valdi yfir sjálfum sér og af því leiðir einnig að hann gerir annað hvort að horfa út og ná einnig valdi á umhverfinu með beinum hætti eða dregur sig í hlé og reynir að vera birgur, drjúgur og sjálfum sér nógur. Við skulum í þessum þætti líta út, því að síðar í þessum þáttum mun ég ræða introversion eða flóttaleiðir.

Til þess að ná valdi á umhverfinu, þá kemur til skipulags og rökhyggja, því hugsun er einkenni perfektionistans. Hann er framsýnn, forspár, hefur skipulagsgáfu, sér fyrir alla óvissu og sýnir stjórnsemi. Hann telur alla rökhugsun og reglu æskilega og honum skjátlast aldrei og hefur alltaf rétt fyrir sér. Hann er að eigin mati rökfastur, leiðandi og sannfærandi. Hann er gjarnan rökfimur og þykist skyggnast inn á dýpri svið lögmála og reglna. Hann kemur á reglu og festu og öryggi. Hann veldur viðfangsefnum og er raunsær og afkastamikill. Hann vill í raun ráða eða ríkja yfir öðrum, en telur sig gera það vegna skyldu, umhyggju, ábyrgðar, sem getur verið rétt að vissu leyti.

Menn sjá af þessu, að stutt er frá perfektionista skyldunnar yfir í valdsmanninn. Í stað þess að ná tökum á sjálfum sér, horfir valdsmaðurinn út og reynir að ná taki á öðrum. Hvort sem um perfektionista er að ræða eða hreinan valdsmann, er það skortur á sjálfstrausti, sem ræður ferðinni. Hræðsla við eigin getuleysi. Við skulum líta á nokkur dæmi um það, hvernig þetta getur birst út á við.

Með því að reyna að ná valdi á umhverfinu, þá eru tengslin losuð við aðra og reynt að styrkja eigin stöðu. Þrátt fyrir allt þetta tal, megum við ekki missa sjónar af því að vald er náttúruleg viðleitni, eins og öll þau markmið sem ég ræði í þessum þáttum. T.d. geta menn verið sterkari en aðrir, haft meiri hæfni, gáfur, siðferði, þroska, visku o.s.frv. og menn get barist til valda fyrir málstað, fjölskyldu eða stjórnmál, vísindalega niðurstöðu eða trúarlegu viðhorfi. En munurinn er alltaf þessi. Er viðleitnin til valda markmið, sem hefur tök á okkur og við samsömum okkur við eða gerum við okkur grein fyrir að markmiðið er aðeins innihaldslaus hugarburður, sem við höfum yfirráð yfir og látum þjóna okkur. Kemur valdið frá hinu innra Sjálfi og er það byggt á styrkleika eða kemur það utan frá, ef svo má segja og byggist á veikleika? Hefur það tök á okkur eða við á því? En tökum nú dæmi um valdþörf.

Valdþörf er fyrst og fremst til að bæta fyrir hjálparleysi og þann kvíða, sem því fylgir. Sumir hafa slíka andúð á hjálparleysi eða eigin veikleika, að þeir forðast aðstæður, sem flestum finnst sjálfsagðar, svo sem að þiggja leiðsögn, ráð eða hjálp. Þeir þola ekki að vera háðir öðrum eða umhverfinu. Þeir eiga erfitt með að samþýðast öðrum eða annarra skoðunum. Þessi uppreisn gegn hjálparleysi er ekki tilkomin allt í einu, heldur smátt og smátt. Því meiri sem hömlurnar eru, þeim mun minna getur viðkomandi beitt sér og því veikari sem hann verður, þeim mun frekar verður hann að forðast allt, sem hefur minnsta vott um veikleika.

Valdþörf er í öðru lagi til að koma í veg fyrir þá tilfinningu að teljast lítilfjörlegur. Þá byggja menn upp ósveigjanlega og óraunhæfa mynd af styrkleika, þannig að viðkomandi verður að ná þegar í stað tökum á öllum aðstæðum og uppákomum, hversu erfiðar, sem þær eru. Veikleiki er þá ekki aðeins hætta, heldur vansæmd. Í huga viðkomandi er fólk skipt í tvo hópa, sterkt fólk sem dáðst er að og veikt fólk sem er fyrirlitið. Hér kemur stoltið til sögunnar. Það sem álitið er veikleiki fær þá öfgakennda mynd, t.d. fyrirlítur hann fólk, sem er sammála honum, uppfyllir óskir hans, hefur hömlur eða ekki nægilegan hemil á tilfinningum sínum. Hann fyrirlítur þessa eiginleika í sjálfum sér. Honum finnst það lítillækkandi, ef hann verður að viðurkenna tilvist kvíða eða hamla í sér sjálfum og ef hann verður var við slíkt, heldur hann því leyndu. Hann fyrirlítur sjálfan sig fyrir að geta ekki náð tökum á slíku einn og sjálfur.

Einkenni valdþarfar tekur jafnan á sig þá mynd, sem sýnir gagnstæðuna við það valdleysi, sem mest er óttast. Valdafíkinn maður sækist eftir valdi yfir sér eða öðrum. Hann vill ekki að neitt gerist, sem hann hefur ekki haft frumkvæði að eða samþykkt. Hann leyfir e.t.v. öðrum að hafa fullt frelsi, en verður að vita hvað þeir gera og kemst í vont skap, ef einhverju er leynt. Þannig getur valdþörfin verið bæld, að bæði viðkomandi og aðrir eru sannfærðir um mikið frjálsræðisörlæti hans gagnvart öðrum. Margt, sem virðist forvitni, er dulin ósk um að ná valdi á kringumstæðum.

Sumir þurfa alltaf að hafa rétt fyrir sér og taka því fálega, ef þeim er sýnt fram á að svo er ekki, jafnvel þótt um smámuni sé að ræða. Að þurfa að vita meira en aðrir, er oft áberandi hjá þeim. Fólk sem er að öðru leyti áreiðanlegt, lætur sem það viti ýmislegt enda þótt það væri það því vansalaust að vita ekkert um málið. Stundum þarf að sjá fyrir og reikna út alla möguleika. Ekki má hætta neinu. Búa verður við fullkomið öryggi undir öllum kringumstæðum. T.d. má ekki láta tilfinningarnar eða ímyndunaraflið hlaupa með sig í gönur.

Annað viðhorf, sem hefur að geyma dulbúna valdþörf, er þörf fyrir að koma fram eigin vilja. Viðkomandi er þá skapraunað, ef ekki er gert nákvæmlega það sem hann væntir, og einnig á þeim tíma, sem hann væntir. Óþolinmæði er náskyld þessu viðhorfi til valds. Öll seinkun, bið, jafnvel eftir umferðarljósi, kemur viðkomandi í slæmt skap. Hann veit sjaldnast um hversu ríkt tak þetta stjórnsemisviðhorf hefur á honum. Honum finnst það ekki vera sínir hagsmunir að viðurkenna það eða breyta því, vegna þess hlutverks, sem það gegnir til verndar öryggisleysis og kvíða. Aðrir ættu ekki heldur að sjá þessa þörf, þar sem þá myndi hann missa velþóknun þeirra.

Þessi vitundarskortur um valdafíkn er oft áberandi í ástarsamböndum. Ef annar makinn uppfyllir ekki væntingar hins, ef hann er óstundvís, hringir ekki o.s.frv., finnst hinum aðilanum hann ekki sýna sér ást. Í stað þess að viðurkenna reiði sína vegna hlýðniskorts við óljósar eigin óskir, þá er slíkt skýrt sem sönnun um að makinn sækist ekki eftir honum. Þetta gerist gjarnan í fleiri mannlegum samböndum og veldur því, að mönnum finnst þeir ekki velþóknanlegir. Ég hefi áður bent á í 4. kafla (4.1), að hjákátlegt getur verið, ef t.d. kona getur ekki elskað mann með veikleika, vegna þess að hún fyrirlítur veikleika og heldur ekki “sterkan” mann af því að hún þarf alltaf að ráða. Þá er farið í að leita að hetju, afburðastyrkum manni, sem á sama tíma er svo veiklunda, að hann hikar ekki við að uppfylla allar óskir hennar.

Eitt valdformið er það, að samþykkja aldrei neitt, sem lagt er til eða þiggja ráð. Litið er á slíkt sem veikleika og því er gert uppreisn og snúist gegn utanaðkomandi tillögum. Þeir, sem haldnir eru slíku, leita alltaf gagnstæðrar skoðunar á málum af ótta við að þurfa að samþykkja. Heimurinn á þannig að laga sig að viðkomandi, en ekki öfugt. Ef við erum ófær um að afsala okkur og láta undan, getum við ekki elskað. Þannig fléttast valdabaráttan inn í ástúðarþörf okkar, en um hana hefur dálítið verið rætt í XII. kafla um suðvestanáttina. Henni verður gerð nánari skil frá öðru sjónarhorni síðar, en eitt viðhorf verður oft ekki skilið nema í tengslum við önnur.

Ástar og kynferðissamband hefur þann tilgang, ef við á annað borð tölum um tilgang, að viðhalda mannlífi hér á jörðu og stuðla að þróun mannsins. Enginn leiðir hugann að æðri tilgangi í hita ástarleiksins, heldur snýst hann um ólíka hluti, þótt mannverur séu í raun fjarstýrðar af þessum lögmálum náttúrunnar. Sófistarnir gömlu lögðu upp úr því, að lífhamingja fengist með því að vilja það óhjákvæmilega og þessi skoðun kemur einnig fram hjá D.T. Suzuki, en hann glímdi við koanið: Olnboginn beygist út. Mikill munur er á fjarstýringu alvaldsins og egósins. Ekki er heldur kleift að njóta fjarstýringar hinna æðri máttarvalda, fyrr en hin þrönga fjarstýring egósins hefur verið rofin. Egóistinn trúir á mátt sinn og megin og afneitar æðri máttarvöldum í hroka sínum. Hann telur sig ráða ferðinni. Því meiri sem tök egósins eru á okkur, þeim mun meiri róbótar verðum við og þröngsýnni. Sá sem ekki skynjar Tao er vesæll.

20.4 UM EIGNASÝKI, REIÐI O.FL.

Peninga og eignir má nota til að verjast bæði minnimáttarkennd og virðingarþörf, svo og hjálparleysi og getuleysi og þar með valdþörf. Um þetta hefur verið áður verið fjallað í VI. þætti, metnaðinum, síðast í undirkafla 4.1. og vísast til þess.

Einnig er rakið í upphafi undirkafla 4.2 um hefndarsigur, hvernig fjandskapur er alltaf fólginn í valdhneigð. Legg ég til að í þessu sambandi sé sá þáttur lesinn í heild, þ.e. IV. þáttur um metnaðinn. Er það góður undirbúningur undir næstu tvo þætti um hefndarsigur.

Perfektionismi er fyrsta stig í viðleitni okkar til að ná fullkomnun með því að ná taki á sjálfum okkur. Sú viðleitni tengist óhjákvæmilega þeirri áráttu að vilja ná taki á öðrum og umhverfinu, þ.e. þörf fyrir völd. Hugsunin er í eðli sínu valdatæki. Perfektionismi getur verið til staðar án valdafíknar. Hann hefur þá ekki þróast í þá átt. Perfektionismi getur hugsanlega verið staðbundinn og hann getur þróast í sjálfsásakanir, eins og síðar verður lýst og þá þróast hann í gagnstæða átt við völd, það er til hlýðni við utanaðkomandi staðla fyrst og svo persónur og umhverfi síðar. Mjótt er þarna mundangshófið.

Einnig er til valdsýki án perfektionisma. Sú valdsýki er af hinni þróuðu ætt hefndarsigursins, sem lýst verður í næstu tveimur þáttum. Eins og þetta kemur mér fyrir sjónir, stendur valdið kerfislega séð milli perfektionisma og hefndarsigurs. Verður því næst vikið að hefndarsigri, hvað hann sé og hvers eðlis.