17.0 SJÁLFSÁST EÐA EIGINGIRNI.
17.1 SJÁLFSÁHUGI.
17.2 FYRIRBÆRINU LÝST.
17.3 HÓPNARCISSUS.
17.4 SJÚKDÓMAFRÆÐI.
17.5 GILDISMAT.
Í grískri goðafræði greinir frá því að lagt var á Narkissos að hann skyldi verða ástfanginn af eigin spegilmynd. Hann horfði á þá mynd í tærri lind, uns hann veslaðist upp og varð að blómi því er nefnt er eftir honum. Í þessum þætti er ætlun mín að varpa ljósi á þá tilhneigingu mannsins að dást að sinni eigin ímynd, sem í sálfræði hefur verið nefnt á erlendu máli narcissism. Fyrst mun ég þó víkja að siðfræðilegum markmiðum, sem hrjá manninn og ég minntist á í fyrsta þætti erindaflokks míns.
Í nútímaþjóðfélagi er eigingirni litin hornauga. Okkur er kennt, að eigingirni sé synd, en ást á öðrum sé dyggð. Þessi kenning er samt í mikilli mótsetningu við reynslu okkar í þjóðfélaginu, þar sem þeirri reglu er fylgt að virkja eigingirnina, sem hinn eina sanna þjóðfélgsaflvaka. Hér er því munur á kenningu og því sem reynslan sýnir. Þetta má rekja til mannlegs eðlis og hugsunar, sem býður upp á slíkar þverstæður.
En gætum þess að líkja eigingirni ekki við sjálfsást, eins og oft hefur verið gert. Í Kalvínstrú er ekki litið svo á, að við getum öðlast neitt gott eða fagurt vegna eigin verðleika eða styrks. Við erum ekki álitin við sjálf. Sú kenning byggist raunverulega á sjálfsfyrirlitningu og hatri. Stundum bregður þessu viðhorfi fyrir í Lúterstrú, þegar hamingja mannsins er ekki álitin markmið lífsins, og maðurinn verður eins konar leiksoppur Guðs.
Kant var ekki hrifinn af sjálfsást og taldi manninn markmið í sjálfu sér, en ekki annarra tæki eða tól. Kant viðurkenndi þó, að maðurinn ætti að gera kröfu til lífshamingju, það væri að mörgu leyti skylda hans, vegna þess að heilsa og velferð einstaklingsins væri undirstaða þess, að geta uppfyllt hlutverk sitt. Hann taldi sjálfsást ekki siðferðilega dyggð heldur tilhneigingu mannlegs eðlis.
Siðferðismarkmið Kants bera einkenni þess, sem heildinni er fyrir bestu. Hann taldi hina æðstu hamingju fólgna í því að rækja siðferðilega skyldu sína. Við ættum að vera auðmjúk gagnvart siðferðilegum lögmálum. Framkvæmd siðferðislögmála og þar með hamingja einstaklingsins, er eingöngu möguleg í heildinni, þjóðinni eða ríkinu. Velferð ríkisins þurfti þó ekki að vera það sama og hamingja og velferð einstaklingsins. Kant taldi líkt og Freud, að mannleg náttúra hefði að geyma illt eðli, sem siðferðislögmálin yrðu að bæla niður svo að maðurinn yrði ekki eins og dýrið og þjóðfélagið stjórnlaust.
Margir hafa reynst vera á gagnstæðri skoðun. En sú kenning að sjálfsást sé slæm og útiloki ást á öðrum, hefur ekki takmarkast við heimspeki og guðfræði, heldur er hún boðuð á heimilum og í skólum, í kvikmyndum og bókmenntum. Verið ekki sjálfselsk er börnunum boðað kynslóð eftir kynslóð með óljósri skilgreiningu. Flestir telja það þýða að við eigum ekki að vera eigingjörn, tillitslaus og án umhyggju fyrir öðrum. En oft gengur boðskapurinn mun lengra, sjálfselska þýðir þá að gera ekki það sem við óskum okkur og hafa engar óskir andstæðar ríkjandi yfirvaldi, hvort sem það eru foreldrar, staðlar þjóðfélagsins, annað ytra vald eða innflutningur þess sem skyldur. “Vertu ekki sjálfselskur” er valdamikið tæki til að bæla gerðir, sem orsakast af innri öflum en ekki utanaðkomandi ástæðum og frjálsa þróun persónuleikans. Menn eiga þá að fórna öllu og þær gjörðir einar eru þá óeigingjarnar, sem þjóna ekki einstaklingnum, heldur einhverju utan hans.
Þessi mynd er nokkuð einhliða, því að auk kenningarinnar um að við eigum ekki að vera sjálfselsk, er hið gagnstæða boðað í nútímaþjóðfélagi. Hafðu eiginn hag í huga og gerðu það sem þér kemur best. Með því starfarðu til hagsbóta fyrir aðra. Eigingirnin er einmitt talin grundvöllur velferðarríkisins og á henni er samkeppnisþjóðfélagið byggt. Ef til vill er það undarlegt, að svo gagnstæðar kenningar skuli boðaðar í þjóðfélagi okkar, en það er engu að síður staðreynd. Menn ruglast því í ríminu. Heill persónuleiki stefnir varla í tvær áttir í senn. Í raun er þessi ruglingur ein ástæða hjálparleysis og vonleysis margra þjóðfélagsþegna.
Sú kenning, að sjálfsást sé það sama og eigingirni og gagnstæða við ást á öðrum, hefur gegnsýrt heimspeki og guðfræði og er einnig í raun forsenda Freuds í kenningu hans um narcissisma. Það yrði of langt mál að rekja hér, og hefur litla þýðingu. Þó er rétt að geta þess, að Freud áleit, að því meira sem við snerum ást okkar að hinum ytra heimi, þeim mun minni ástar gætti til okkar sjálfra og gagnkvæmt. Ást er að hans dómi getuleysi til sjálfsástar, þar sem lífshvötinni er beint að hinu ytra.
En er það svo, að valið sé á milli ástar á sjálfum sér eða ástar á öðrum? Er sjálfsást það sama og eigingirni eða er hér um andstæður að ræða? Er sú eigingirni sem við þekkjum best allt í kringum okkur í raun umhyggja fyrir viðkomandi eða skortur á umhyggju?
Ef það er dyggð að elska náungann, þá leiðir af sjálfu sér að það er dyggð en ekki löstur að elska sjálfan sig. Mannkynið er líka ég. Elskaðu náungann eins og sjálfan þig, segir í Biblíunni, og gert er ráð fyrir ást og skilningi á sjálfum sér, sem ekki verði aðskilin frá ást og skilningi á öðrum. Að elska sjálfan sig er því óaðskiljanlegt frá því að elska aðra. Ekki aðeins aðrir, heldur og við sjálf erum andlag tilfinninga okkar og viðhorfa og þetta er í grundvallaratriðum samtengt. Ást á öðrum og ást á okkur sjálfum eru því ekki valkostir, þvert á móti þeir einir sem elska sjálfan sig geta elskað aðra. Hið ytra og hið innra verður ekki aðgreint að þessu leyti. Sönn ást er frjósöm og felur í sér þekkingu, umhyggju, virðingu og ábyrgð. Ást er ekki að vera snortinn af öðrum, hún er umhyggja fyrir þroska og hamingju hins elskaða, og byggt á eigin hæfni til ástar.
Það fær ekki staðist, eins og hin rómantíska ást er oft útlistuð, að við elskum aðeins einhverja eina manneskju og að það sé mikil heppni í lífinu að hitta þá persónu. Ekki er það heldur rétt, að ef við finnum þessa manneskju og elskum hana, leiði það til minni ástar á öðrum. Ást á aðeins einni manneskju er ekki ást, heldur eins konar samlífisfesting eða tenging. Að elska eigin fjölskyldu en hata aðrar, er ekki ást. Að elska einungis aðra er ekki heldur ást. Að vera sáttur við sjálfan sig og viðurkenna sig og líf sitt, er grundvöllur hamingju og þroska, grundvöllur innra frelsis.
En hvað má þá segja um eigingirnina, sem bersýnilega útilokar umhyggju á öðrum? Sá sem er eigingjarn, hefur einungis áhuga á sjálfum sér og eigin löngunum. Það veitir honum enga ánægju að gefa, aðeins að þiggja. Viðhorf hans til hins ytra heims er markað af því, hverju hann nær út úr honum eða hvernig hann getur hagnýtt sér hann. Hann hefur engan áhuga á annarra þörfum og virðir þær einskis. Hann getur ekki elskað og sér ekkert nema sjálfan sig og hvernig hann geti notfært sér aðra. En sannar þetta ekki að áhugi á öðrum og áhugi á sjálfum sér eru valkostir? Það væri svo, ef sjálfsást og eigingirni væru eitt og hið sama. En þarna liggur hundurinn eða réttara sagt villan grafin. Sjálfsást og eigingirni eru gagnstæður. Hinn eigingjarni elskar ekki sjálfan sig of mikið heldur of lítið. Í raun hatar hann sjálfan sig. Af því að hann skortir eigin viðurkenningu og umhyggju fyrir sjálfum sér, verður hann vonsvikinn, tómur og vantar sköpunarhæfni. Hann er óhamingjusamur í raun og hefur áhuga á því einu að hrifsa til sín þá fullnægju, sem hann sjálfur kemur í veg fyrir að hann öðlist. Hann virðist bera umhyggju fyrir sjálfum sér, en er raunverulega að hylja eigið getuleysi til að bera umhyggju fyrir raunsjálfi sínu. Freud hélt að eigingjarnir menn væru narcissistar, eins og þeir hefðu snúið ást sinni á öðrum að sjálfum sér. Vissulega getur eigingjarn maður ekki elskað aðra, en hann getur heldur ekki elskað sjálfan sig.
Það sem hér hefur verið sagt má rökstyðja með ýmsu móti. Þeir sem stoltir eru af óeigingirni sinni eru alloft óhamingjusamir, þreyttir, niðurdregnir og hugmyndasnauðir, og eiga við andlega erfiðleika að etja. Hinn “óeigingjarni” óskar einskis sjálfum sér til handa en lifir einungis fyrir aðra, að eigin sögn og er stoltur af því að álíta sjálfan sig ekki mikilvægan. Hann undrast samt sem áður, að þrátt fyrir alla þessa “óeigingirni”, er hann óhamingjusamur og að tengsl hans við aðra nákomna eru ófullnægjandi. Hann vill í raun lækna allt nema “óeigingirnina.” En “óeigingirnin” er óaðskiljanlegur hluti vandans. Hann er í raun getulaus til að elska og njóta nokkurs. Hann er undir niðri fjandsamlegur lífinu og undir yfirborði “óeigingirninnar” er dulin sjálflægni á háu stigi. Hann getur því aðeins orðið skapandi persónuleiki að hann losni við “óeigingirnina.”
17.1 SJÁLFSHAGSMUNIR.
Hinn raunverulegi sjálfsáhugi snýr að því að þroska getu okkar sem manna. Eins og við verðum að þekkja aðra og skilja þarfir þeirra til að geta þótt vænt um þá, verðum við að þekkja sjálf okkur til að skilja hagsmuni Sjálfsins og hvernig þeim verður þjónað. Við getum blekkt okkur um hina raunverulegu sjálfshagsmuni okkar, ef við vitum ekkert um sjálf okkur og raunverulegar þarfir okkar.
Oft eru sjálfshagsmunir skilgreindir sem gagnstæða þessa. Þá eru þeir taldir sama og eigingirni, sagðir vera áhugi á efnislegum gæðum, valdi og virðingu, frama og afrekum. Í stað dyggðar verða sjálfshagsmunir að siðferðilegum lesti.
Menn hafa t.d. gert sig að tæki velferðar og tækniþjóðfélagsins, safnað peningum, ekki til eigin ánægju eða til að eyða þeim, heldur til að spara, fjárfesta og verða fjárhagslega farsælir og fullnægja metnaði. Persónuleg hamingja og lífnautn er lögð til hliðar til að “komast áfram í lífinu” eins og það er kallað. Menn sjá ekki hina raunverulegu lífshagsmuni og niðurstaðan verður sú, að menn lifa í sjálfsafneitun og hugsa um sjálfshagsmuni, þ.e. viðkomandi heldur að hann sé að þjóna sjálfshagsmunum, þegar peningar og frami eru áhugamálin. Menn týna sjálfum sér í þessari leit að “lífsins gæðum”, en sinna ekki hinum mikilvægu möguleikum, sem í þeim búa. Margir hafa þó snúið sér frá gloríu og glamri og séð eigin þroska sem mikilvægara markmið, mikilvægara en að reyna stöðugt að skara fram úr öðrum.
Minnumst þess, sem ég hefi áður bent á, að ef við samsömum okkur einhverju hefur það vald yfir okkur, ef við slítum það úr tengslum við okkur, höfum við vald yfir því. Ef við teljum Sjálf okkar vera ímynd okkar eða eign, eða að vera eins og aðrir óska að við séum, þá tekur slíkt viðhorf völdin af okkur. Ef við teljum okkur ekki aðeins vera sál og líkami, heldur maki og börn, hús og lausafé, forfeður og vinir, vinna og orðstír ásamt bankareikningi, þannig að vaxi þetta, þá vöxum við einnig, en ef minnkun verður, þá verðum við niðurdregin, þá erum við fjarri sjálfum okkur. Með því að eltast af áhuga við frægð og frama erum við að gera okkur að verslunarvöru, þ.e. við höfum aðeins áhuga á sjálfum okkur sem verslunarvöru, sem þarf að seljast á hæsta verði á markaðnum. Allt þetta verður frá okkur tekið fyrr eða síðar, en Sjálfið aldrei. Hvers virði er að öðlast allan heiminn, ef við með því glötum sál okkar.
Með þessu er ekki verið að gagnrýna samkeppni- og velferðarþjóðfélagið að því leyti, að rangt sé að eltast við eiginhagsmuni, heldur er verið að vekja athygli á þekkingarleysi okkar um hagsmuni sjálfra okkar. Ekki er verið að gagnrýna eigingirni, heldur benda á vöntun á ást og viðurkenningu á sjálfum okkur. Nútímamaðurinn finnur vel innhaldleysi þessa þjóðfélagseltingarleiks eftir valdi, virðingu og peningum. Þessi dýrkun á frægð, frama, árangri, stolti og metnaði, hefur engum veitt fullnægju nema síður sé. Við verðum aldrei ánægð fyrr en við erum við sjálf. Lengi má lifa í ímyndun sinni og hugmyndum, og æsa sig upp og firrast, á meðan það endist, til að forðast eigið Sjálf eða spyrja sjálfan sig, hverjir séu í raun hagsmunir okkar. Mörgum finnst að allt sem þeir geri sé tilgangslaust. Það mun þeim finnast svo lengi sem þeir trúa á árangur, afrek og frægð. Við eigum að hætta þessu og eyða orkunni í að lifa lífinu. Um leið og við komum auga á raunhagsmuni okkar, getum við nálgast Sjálfið og sleppt öðru.
17.2 FYRIRBÆRINU LÝST.
Flestir ef ekki allir geta fundið í sér narcisstiskan kjarna, sem erfitt er að hrófla við. Segja má, að fyrirbærið lýsi sér einkum í því að enginn munur er gerður á hinum ytra og innra heimi. Ungbarnið gerir ekki mun á innra og ytra heimi, eini veruleiki þess er barnið sjálft, líkami, þarfir, skynjanir og snerting. Segja má, að barnið hafi ekki sérstakan áhuga á hinum ytra heimi, þar sem hann hefur ekki orðið til fyrir því sem veruleiki. Fyrir þeim, sem haldinn er miklum narcissus, er hinn ytri heimur ekki veruleiki, af því að hann hefur hætt að vera það, þ.e. heimur hugans verður hinn ytri veruleiki. Hér er því um gagnólík fyrirbæri að ræða, hjá barninu annars vegar og narcissus hins fullvaxna hins vegar.
Oft hafa verið til valdamenn, sem haldnir voru miklum narcissus. Sem dæmi mætti nefna marga keisara Rómverja, Hitler, Stalín og ótal fleiri. Þeir öðluðust algert vald, orð þeirra voru lög. Litlar takmarkanir voru fyrir því sem þeir gátu gert. Þeir gerðu sig að guðum í lifanda lífi, en einangruðu sig jafnfram frá mönnum. Þessi einangrun skapaði ótta, allir urðu óvinir, sem aftur þýddi að sýna þurfti enn meira miskunnarleysi. Narcissus þessara manna fékk staðist vegna þess að þeir gátu beygt umheiminn undir vald sitt. Þeir gátu í skjóli hins algera valds fengið þá aðdáun og virðingu, sem var þeim nauðsynleg. Geðveiki þessara manna var því raunhæf að vissu marki. Psychosis er geðsjúkdómur sem felst í algjörum narcissus. Þá eru slitin öll bönd við veruleikann og lifað algerlega í eigin heimi. Viðkomandi er þá oft eitthvert mikilmenni eða guð, t.d. Kristur, Napoleon o.s.frv.
En lítum á raunhæfari dæmi, sem við þekkjum sjálf úr daglega lífinu. Við þekkjum margan manninn, sem er mjög upptekinn af sjálfum sér, talar mikið um sjálfan sig og eigin afrek. Oft krefst þetta fólk óskiptrar athygli annarra. Það sér ekki að annarra tími, er ekki þess eigin tími. Þótt þeim sé sýnt fram á, að raunveruleikinn sé annar, breytist ekkert, þar sem ekkert mark er á því tekið. Gagnrýni annarra er tekin sem illgirni og árás. Svipað gæti gerst ef narcisstískur maður verður hrifinn af konu, sem svarar ekki ástleitni hans. Hann hefur þá ríka tilhneigingu til að trúa því ekki, að konan elski hann ekki. Hann hugsar gjarnan sem svo: “Hún hlýtur að elska mig, þar sem ég elska hana svo mikið” eða “ég gæti ekki elskað hana svona mikið, ef hún elskaði mig ekki líka.” Hann gæti réttlætt áhugaleysi konunnar með því, að hún elskaði hann þó óafvitað eða hún væri hrædd við eigin ástareld til hans, hún vildi prófa hann, kvelja hann o.s.frv. Narcisstískur maður skynjar illa að veruleiki annarra sé frábrugðinn hans eigin veruleik.
Lítum á önnur dæmi. Kona ver löngum tíma fyrir framan spegil til að snyrta hár sitt og andlit. Hún er ekki aðeins hégómagjörn, hún er með líkama sinn og fegurð á heilanum. Í raun er líkami hennar hinn eini þekkjanlegi veruleiki. Önnur kona er ímyndunarveik. Hún er einnig mjög upptekin af líkama sínum, ekki til að fegra hann, heldur vegna þess að hún óttast veikindi. Í fyrra tilvikinu má segja að sjálfímyndin sé jákvæð en í því síðara neikvæð. Það skiptir litlu máli, í báðum tilvikum er sama narcisstíska áráttan, þ.e. að vera upptekinn af sjálfum sér, en áhugalaus fyrir hinum ytra heimi.
Sagt hefur verið að siðferðileg ímyndunarveiki sé lítið betri. Í því tilviki er viðkomandi ekki hræddur um að verða veikur eða um að deyja, heldur um að verða sekur. Slíkar manneskjur hafa stöðuga sektarkennd vegna þess sem þeir telja sig hafa gert rangt, synda sem þeir hafa drýgt o.s.frv. Þótt þeim sem álengdar standa og viðkomandi finnist hann vera sérlega samviskusamur, siðsamur og umhyggjusamur gagnvart öðrum, er staðreyndin samt sú, að hann hefur aðeins áhuga á sjálfum sér, eigin samvisku og því sem aðrir segja um hann o.s.frv. Narcissus hinna ímyndunarveiku, sjúkdómahræddu eða samviskuveiku er sama eðlis og narcissus hins hégómagjarna, einungis ekki eins augljós. Hinn neikvæði narcissus skapar þunglyndi og sjálfsásakanir.
Gott er að sjá hið narcisstíska viðhorf í eftirgreindri sögu. Rithöfundur hittir vin sinn og talar lengi við hann um sjálfan sig. Síðan segir hann. Nú hefi ég lengi talað um sjálfan mig. Við skulum tala um þig. Hvernig leist þér á síðustu bókina mína? Hér er á ferðinni maður, sem er mjög upptekinn af sjálfum sér og veitir öðrum ekki athygli, nema sem bergmáli af sjálfum sér. Slíkir menn geta verið hjálpsamir og vinsamlegir, af því að þeim líkar að sjá sjálfan sig í því hlutverki. Öll orkan fer í að dást að sjálfum sér, fremur en að horfa á hlutina frá sjónarhóli þeirra, sem þeir eru að hjálpa.
Hvernig er hægt að þekkja narcisstískan mann? Þegar við rekumst á mann, sem er mjög ánægður með sjálfan sig. Honum finnst sem hann vera að segja eitthvað mjög mikilvægt, þótt það sé lítilfjörlegt eða nauðaómerkilegt. Hann hlustar yfirleitt ekki á aðra, og hefur ekki áhuga á því. Ef hann er kænn, reynir hann að dylja þessa staðreynd með því að spyrja spurningar eða sýnast hafa áhuga. Hann er mjög svo viðkvæmur fyrir gagnrýni. Hann afneitar því að gagnrýnin sé réttmæt eða hafi nokkuð gildi eða hann reiðist eða fær þunglyndiskast. Þótt undarlegt megi virðast, er þetta viðhorf stundum á bak við hógværð og hlédrægni. Hann dáist þá að hógværð sinni, slík þverstæða sem það er. Segja má að narcisstískt viðhorf feli alltaf í sér áhugaleysi fyrir hinum ytri veruleika. Narcissus er oft sjálfumglaður, með barnslegt sælubros, glampa í augum og talar mikið.
Algengt er að einstakur narcisstískur þáttur búi í persónuleikanum. Narcissusinn felst þá í heiðri manns eða sæmd, gáfum, vitsmunum eða greind, fegurð eða einstökum fegurðarþáttum, hugrekki, snilli. Narcissus getur jafnvel tekið til getu, sem við erum allajafnan ekki stolt af, t.d. hæfileika til að vera hræddur til að fyrirbyggja hættu. Viðkomandi aðhæfir sig þá þessari hlið persónuleikans. Viðkomandi er þá heilinn, frægðin, auðurinn, samviskan o.s.frv. Ef hinum sérstaka þætti er ógnað, er voði á ferðinni. Sá sem er eigurnar þolir e.t.v. vel ógnun við virðingu sína, en sé eignum hans ógnað, er það á við ógnun við líf hans. Sá sem þarf að vera gáfaður kemst í vont skap, ef hann segir eitthvað heimskulegt. Því sterkari tök sem narcissus hefur á okkur, þeim mun síður viðurkennum við mistök eða réttmæta gagnrýni. Menn geta þá orðið öskuvondir vegna móðgana annarra og dæma þá tilfinningasnauða, óupplýsta o.s.frv.
Enn flækir það málið, að narcissus felst ekki aðeins í sjálfsímyndinni, sem dáðst er að, heldur og í ýmsu sem tengist persónunni. Þekking okkar, hugmyndir okkar, húsið okkar, vinir okkar, börnin okkar, verður að andlagi narcisstískra tilhneiginga. Börnin verða fallegustu börnin eða gáfuðustu í samanburði við önnur. Þetta er mjög algengt og þykir jafnvel eðlilegt. Því yngri sem börnin eru, þeim mun ákveðnara er þetta viðhorf. Ást foreldranna er oft að verulegu leyti ást á barninu sem framlengingu á þeim sjálfum. Ást milli karls og konu hefur og oft fólginn í sér narcisstískan þátt. Þá dáist til dæmis karlmaðurinn að konunni fyrir eiginleika, sem henni eru eignaðir, af því að hún er orðin hluti af honum.
17.3 HÓPNARCISSUS.
Narcissismus er árátta, sem getur bæði orðið áköf og þrálát, jafnvel líkt og þörfin fyrir kynmök eða að lifa. Þessi árátta getur jafnvel orðið sterkari en þessar þarfir. Í venjulegum manni, þar sem þessi árátta verður ekki svona sterk, er jafnvel að finna narcisstískan kjarna, sem virðist ómögulegt að uppræta. Var því ekki nema eðlilegt, að Freud teldi fyrirbrigðið nánast ólæknandi? Vegna þrákelkni þessarar áráttu mætti ætla, að hún gegndi einhverju líkamlegu hlutverki og við getum einmitt spurt, hvernig fær einstaklingurinn lifað án þess að líkamlegar þarfir, óskir og þrár, séu orkuríkar. Til að lifa af, verður mannkynið að leggja áherslu á eigið mikilvægi umfram aðrar skepnur. Annars gætum við ekki varið okkur gegn öðrum, unnið fyrir lífsviðurværi og barist fyrir því að komast af eða gera kröfur á umhverfið. Segja mætti, að sjónarmið andlegrar innsýnar um afnám egósins, setji okkur í hættu í hinum daglega heimi, þar sem markmiðið er að komast af. Náttúran varð að gefa okkur skammt af narcissus til að við kæmumst af, einkum og sér í lagi þar sem náttúran bjó manninum ekki hvatir og tæki, sem dýrin hafa. Dýrin velta ekki fyrir sér þessu vandamáli, heldur framkvæma samkvæmt eðli sínu. Við höfum á hinn bóginn glatað miklu af hinu náttúrulegu eðli og látið narcissus grípa okkur í staðinn.
Um leið og við viðurkennum, að narcissus gegni líkamlegu hlutverki, ef svo má segja, til að við komumst af, kemur upp önnur spurning. Leiðir öfgakenndur narcissus ekki til þess að menn verði ónæmir fyrir öðrum, og geti ekki dregið úr þörfum sínum og kröfum, til þess að samvinna við aðra sé kleif? Er narcissus ekki andþjóðfélagslegur og óheilbrigður? Vafalaust er það einnig, ella væri ég ekki að skrifa þetta niður. Þannig getur narcissus verið andstæður markmiðinu að komast af, því að til þess þurfum við að skipuleggja okkur í hópa og vinna saman. Flest ef ekki allt sem við gerum er hópvinna og við gætum aldrei varist utanaðkomandi hættum, nema vinna saman sem heild.
Þótt við segðum, að narcissus væri nauðsynlegur til að komast af og á sama tíma ógnun við það markmið, gætum við sagt, að narcissus væri hagkvæmastur að því marki, sem hann samrýmist þjóðfélagssamvinnu. Samt erum við á hættubraut. Narcissus einstaklinga er oft breytt í hópnarcissus, þannig að fjölskyldan, þjóðin, kynstofninn, trúarbrögðin, verða þá markmið hans í stað narcissus einstaklinga. Orkan sem felst í narcissus er þá notuð í þágu þjóðernisrembings eða trúarofstækis. Skal hér nánar að því vikið.
Ef hópur ætlar að lifa af, grípur hann gjarnan til narcissus, sem þannig hefur félagslegt hlutverk. Hvort hópurinn lifir af, byggist að verulegu leyti á því, að meðlimirnir telji mikilvægi hópsins meira en þeirra eigin. Sérstaklega kemur þetta fram í þeirri trú, að hópurinn hafi réttara að mæla eða yfirburði miðað við aðra, svo sem stjórnmálaflokkar eða fótboltafélög. Ef svo væri ekki, væri minni orka lögð í að þjóna hópnum eða fórna sér fyrir hann. Öðru máli gegnir, ef hópurinn er eingöngu til að þjóna meðlimum sínum burtséð frá öðrum, t.d. skákklúbbur eða ferðaklúbbur. Hvað sem því líður, virðist svo sem narcissus sé nauðsynlegur hópum sem einstaklingum.
Oft hefur verið leikinn sá leikur af forystumönnum ríkja, þegar þjóðfélagið hefur verið fáttækt af nauðsynjum, að veita þegnunum narcisstíska fullnægju með sigrum gegn óvinaþjóðum. Fyrir þann, sem er fjárhagslega og menningarlega fátækur, er narcisstískt stolt sem fólgið er í því að tilheyra ákveðnum hópi, oft hin eina og stundum raunhæfa uppspretta ánægju. Þegar lífið er ekki eftirsóknarvert og býður ekki upp á möguleika til þroska eða áhugaverð viðfangsefni, er góður jarðvegur fyrir narcissus, bæði meðal einstaklinga og þjóða. Ekki þarf lengra að líta en til Þýskalands Hitlers, kommúnistaríkjanna eða suðurríkja Bandaríkjanna í dag, þar sem lágstéttirnar, sem litlar vonir gera sér um breytingu, fá fullnægju í útþaninni sjálfsímynd. Aðdáunarvert er þá að vera af arískum ættum, í flokknum eða hvítur, svo haldið sé við áðurgreind dæmi.
Við sjáum betur hópnarcissus en einstaklingsbundinn. Sá sem segði: “Ég og mín fjölskylda erum aðdáunarverð, við erum góð og vel gefin, siðsöm og hrein, en aðrir eru heimskir og óheiðarlegir”, væri varla álitinn með öllu mjalla. Ef hins vegar ræðumaður, sem talar til fjöldans, talar svona um eigin þjóð eða trúarbrögð, er honum hrósað fyrir föðurlandsást eða ást á Guði. Aðrar þjóðir eða trúarsamfélög eru að sjálfsögðu ekki sammála, en innan hópsins hefur verið kynnt undir narcissus og þar sem margir verða sammála, verða ummælin sanngjörn. Það sem meiri hlutinn álítur sanngjarnt, verður sanngjarnt. Sanngirni hefur þannig ekkert með skynsemi að gera, heldur aðeins samdóma álit.
Vísinda og tæknihyggja nútímans hefur að nokkru grafið undan hinum félagslega narcissus. Vísindin krefjast hlutlægni og raunsæi, þ.e. að sjá hlutveruleikann, eins og hann kemur fyrir, en ekki afbakaðan af óskum eða ótta mannanna. Vísindahyggjan krefst hógværðar gagnvart hinum hlutlæga veruleika og uppgjöf vona um alvisku og almætti. Þörf fyrir gagnrýni, tilraunir, sannanir og efahyggju, er einkenni vísindaviðhorfs nútímans sem verður eins og mótvægi gegn narcissískum viðhorfum. Margir vísindamenn eru einnig humanistar. Ekki má þó gleyma því, að vísindin hafa skapað nýtt viðfang fyrir narcissus, þ.e. tæknina. Maðurinn hefur getað nælt sér í narcisstískt stolt yfir að hafa gert hluti, sem engan hefur áður dreymt um, svo og að geta eyðilagt allan heiminn. Kóperníkus og Kant hjuggu í narcissus mannkynsins með því að sýna manninum fram á, að hann sé ekki nafli alheimsins.
17.4 SJÚKDÓMAFRÆÐI.
Alvarlegustu afleiðingar narcissus er afbökun eða brenglun á dómgreind. Narcissus tengist einhverju, sem mikið gildi hefur fyrir viðkomandi, það er gott, fallegt eða gáfulegt o.s.frv. Ekki er um að ræða hlutlægt mat, heldur það sem er ég eða mitt. Gildismatið er því fordómafullt og hlutdrægt, en þó réttlætt með einum eða öðrum hætti, en slík réttlæting er blekkjandi. Þegar um er að ræða ölvaðan mann, sem grobbar, er blekkingin augljós. Við sjáum að maðurinn talar yfirborðslega og margtyggur staðhæfingar sínar, þótt látbragð hans og raddblær gefi til kynna, að hann sé að segja mjög mikilvæga og áhugaverða hluti. Huglægt finnst honum hann vera í sjöunda himni, en í raun hefur hann andlega belgt sig út. Hann þarf alls ekki að vera leiðinlegri en aðrir sem fullir eru sjálfsaðdáunar. Ef hann hefur hæfni og gáfur, getur hann komið með áhugaverðar hugmyndir og þótt hann meti þær mikils sjálfur, þarf hann ekki að hafa á röngu að standa. Segja má, að narcisstískir menn hafi jafnan tilhneigingu til að hafa hátt gildismat á eigin gerðum og þá skipta hin raunverulegu gæði ekki máli. Ef um er að ræða neikvæðan narcissus, er hið gagnstæða uppi á teningnum. Slíkir menn hafa tilhneigingu til draga úr eigin gildismati og dómgreindin er jafnbrengluð.
Ef viðkomandi yrði var við brenglun á eigin dómgreind, yrði árangurinn ekki svo slæmur. Hann myndi e.t.v. hlægja að rangtúlkun sinni, en slíkt er sjaldgæft. Venjulega er viðkomandi sannfærður um, að um rangfærslu sé ekki að ræða, og hann telur að dómgreind sín sé hlutlæg og raunhæf. Þetta leiðir aftur til brenglunar á hæfni til að hugsa og dæma, því hæfni er sífellt skert, þegar viðkomandi fæst við sjálfan sig og það sem hans er. Dómgreindin er einnig afbökuð gagnvart því, sem ekki er hans eða hann á ekki. Hinn ytri heimur (ekki ég) verður þá hættulegur, siðlaus og óæðri. Viðkomandi ofmetur sig og sitt, en vanmetur allt þar fyrr utan. Dómgreind og hlutlægni fer þá veg allrar veraldar.
Hættulegri eru viðbrögð gagnvart gagnrýni á hinar narcisstísku festingar. Venjulega verðum við ekki reið, þegar eitthvað sem við höfum gert eða sagt er gagnrýnt, ef gagnrýnin er sanngjörn og ekki fjandsamleg. Narcissus bregst hins vegar við af mikilli heift þegar hann er gagnrýndur. Hann lítur á gagnrýnina sem fjandsamlega árás, þar sem hann getur ekki ímyndað sér, að hún sé réttlát. Við skiljum enn frekar hina miklu reiði, ef við lítum til þess, að narcissus er ótengdur heiminum og er því einn og óttasleginn. Þessi einmanaleiki og ótti er ein orsök narcisstískrar útþenslu. Ef hann er heimurinn, er enginn heimur utan hans, sem getur ógnað honum. Ef hann er allt, er hann ekki einn. Þess vegna finnst honum tilveru sinni ógnað, þegar narcisstískur þáttur í honum er særður. Þegar hann hefur enga vörn gegn ótta sínum og eigin andlegri útþenslu, missir hann stjórn á skapi sínu. Einkum gerist þetta vegna þess, að hann getur ekkert raunhæft gert til að draga úr ógninni og vernda öryggi sitt, nema eyðileggja gagnrýnina og jafnvel gagnrýnandann eða sjálfan sig.
Hinn valkosturinn, ef ekki er brugðist við með reiði vegna særðs narcissus, er þunglyndi. Narcissus samsamar sig við hinn huglæga og útþanda heim sinn. Hin ytri heimur er honum ekki vandamál, vegna þess að hann er heimurinn, veit allt og getur allt. Ef hann særist, sem hann hlýtur alla jafnan að gera af mörgum ástæðum, og hann hefur ekki efni á að reiðast, verður hann þunglyndur. Hér förum við að skilja hinn manía depressíva, eins og það kallast á útlensku, eða æði þunglyndi, sem einnig hefur verið kallað geðlæti. Þar sem hann er ótengdur heiminum og hefur engan áhuga á honum, er hann ekkert og enginn, enda hefur hann að engu leyti þroskað sitt eigið Sjálf. Þegar narcissus er helsærður, svo að honum verður ekki lengur viðhaldið, hrynur egóið niður í þunglyndisástand. Þegar sjálft “égið” er dáið, er ástæða til að syrgja fyrir þann, sem ekkert annað hefur til að halla sér að.
Er það þá furða, að hinn narcisstíski einstaklingur reyni að forðast það að verða særður og finni ýmsar leiðir til þess? Hann getur aukið sinn narcissus, þannig að enginn ytri gagnrýni eða mistök geti veikt stöðu hans. Með öðrum orðum, hann eykur narcissus til að verjast ógninni. Viðkomandi reynir þá t.d. að lækna þunglyndi sitt með enn stærri andlegum sjúkdómi, þar til við tekur, það sem kallað er psychosis, geðveiki, þar sem viðkomandi lifir algerlega í eigin heimi.
Önnur leið er ánægjulegri fyrir viðkomandi, en hættulegri öðrum. Hún er að beygja hinn ytri heim undir sín eigin sjónarmið, þ.e. að láta hinn ytri veruleik aðlagast sjálfsímyndinni. Hugvitsmaðurinn, sem heldur að hann hafi uppgötvað eilífðarvélina, er dæmi þessa. Mikilvægari er þó sú lausn að fá samþykki annarra, en mörg hjónaböndin og vináttuböndin hvíla á því. Stundum fæst samþykki milljóna manna, svo sem dæmið um Hitler sýnir. Hann var mjög narcisstískur og fékk milljónir manna til að dást að eigin sjálfsímynd. Þegar honum mistókst drap hann sig. Ótal önnur dæmi mætti nefna um einræðisherra, sem læknuðu eigin narcissus með því að aðlaga heiminn að honum. Öll gagnrýni er þá kæfð. Heilbrigð dómgreind verður hin versta ógnun. Segja má að geðveiki þeirra hafi gert þá árangursríka. Árangurinn gaf þeim aftur vissu og frelsi, sem meðalmaðurinn dáði. Auðvitað þarf mikla hæfileika til að beygja heiminn svo að fótum sér.
Sumir hafa flokkað narcissus í góðan og vondan. Þegar menn eru stoltir af vinnu sinni eða afrekum, t.d. smíðum sínum eða ritstörfum, þá er narcissusinn bundinn við afurð viðkomandi og fær visst jafnvægi í áhuganum á verkinu eða efninu, sem hann er að vinna úr. Þarna helst narcissus sjálfkrafa í lágmarki, vinnan verður tengd veruleikanum og heldur honum því innan vissra marka. Margt skapandi fólk er narcisstískt. Sé narcissus af vondri gerð, á hann ekkert skylt við það sem viðkomandi gerir eða framleiðir, heldur eitthvað, sem hann hefur, t.d. líkama, útlit, heilsu, peninga o.s.frv. Hið vonda í þessum narcissus liggur í því, að ekkert skapandi á sér stað hjá viðkomandi, sem heldur honum í skefjum. Ef ég er mikill vegna einhverra gæða, sem ég hefi, en ekki vegna þess sem ég geri, þarf ég ekki að tengjast neinum eða neinu. Ég þarf bókstaflega ekkert að gera. Til að viðhalda eigin ímynd um mikilleik, fjarlægist ég smátt og smátt raunveruleikann. Ég verð að auka narcissusinn til að vernda mig frá þeirri hættu sem felst í því að upplýst verði um nýju fötin keisarans. Sá sem afrekar, veit að aðrir afreka með sama hætti, þótt hann meti eigin afrek stærri. En sá sem ekkert afrekar, kann ekki að meta annarra afrek og verður þess vegna að einangra sig enn frekar í eigin sjálfsskapaðri dýrð.
Sömu sjúkdómseinkenni lýsa sér í hópnarcissus sem í einstaklingsbundnum. Þau eru skortur á hlutlægni og dómgreind. Hálfsannindi og blekkingar ráða ríkjum. Hversu ofmat ekki Hitler styrkleika Þjóðverja. Þrátt fyrir gáfur sínar, sá Hitler ekki veruleikann hlutlægt, því þörfin fyrir að ríkja og sigra yfirgnæfðu veruleik herstyrks og loftslags. Hópnarcissus þrífst eins og sá einstaklingsbundni á yfirburðum hópsins. Aðrir eru óæðri, minn hópur er sá eini sem trúir á réttan guð og þar sem okkar guð er sá eini rétti, fara aðrir til helvítis. Okkar þjóð er hin útvalda, telja gyðingar. Hinir svörtu eru óæðri, telja hvítir. Þegar hópnarcissus er særður, verða viðbrögðin svipuð. Menn sturlast, ef fáni er óvirtur. Ef láta verður af hendi landskika, er hefndin nærri o.s.frv. Helst þarf að útrýma andstæðingnum, ef um stórt sár er að ræða, annars verður sárið ekki grætt.
Eitt atriði enn verður að minnast á í sambandi við hópnarcissus, en það er tilhneiging hópsins til að samsama sig við leiðtogann. Leiðtoginn er dáður af hópnum, sem frávarpar eigin narcissus á leiðtogann. Um leið og hópsálin fellur fyrir leiðtoganum, er narcissmanum, sem undir býr, frávarpað á leiðtogann. Þá stækkar fylgismaðurinn eftir því sem leiðtoginn stækkar. Mjög narcisstískir menn eru því upplagðir í þetta hlutverk leiðtogans. Leiðtoginn er þá sannfærður um mikilleik sinn, efast aldrei og hefur því aðdráttarafl fyrir narcisstíska eiginleika þeirra, sem falla fyrir leiðtoganum. Hinn léttgeggjaði leiðtogi verður því árangursríkur, þar til dómgreindarleysi hans leiðir hann til mistaka, en alltaf eru til reiðu hæfileikaríkir, léttgeggjaðir, narcisstískir menn, sem fullnægja þörfum fjöldans fyrir útrás á eigin narcissus.
17.5 GILDISMAT.
Fyrir þann sem er alvarlega haldinn narcissus, er aðeins einn veruleiki, hans eigin hugsanir, tilfinningar og þarfir. Hinn ytri heimur er ekki skynjaður hlutlægt. Sé narcissus á háu stigi, er hann geðveiki og viðkomandi hefur þá rofið tengsl sín við umheiminn og dregið sig inn í sína skel. Hann skynjar ekki hlutveruleikann eins og hann er, heldur eins og hann ákvarðar hann samkvæmt eigin huglægum viðhorfum. Ef hann bregst við heiminum á annað borð, þá bregst hann við honum í samræmi við eigin viðhorf og tilfinningar. Narcissus er þannig gagnstæða hlutlægni og dómgreindar og þar með ástar.
Narcisstísk viðhorf koma í veg fyrir að hlutveruleikinn sé skynjaður hlutlægt og takmarkar þannig dómgreindina. Narcissus er andstæða raunverulegrar ástar, eins og áður hefur verið drepið á. Í narcisstískri ást, hefur hvorugur aðilinn áhuga á hinum í raun, nema sem hluta af sér. Til að um ást geti verið að ræða, verður hvor aðilinn að upplifa sig sjálfstætt og geta opnað sig gagnvart hinum og mynda þannig einingu. Þannig krefst ástin að vissu leyti aðgreiningar.
Trúarbrögðin hafa sameinast um þann boðskap, að markmið mannsins sé að uppræta eigin narcissus. Hvergi er þetta þó eins skarplega boðað og í Búddismanum. Búdda taldi að maður gæti ekki losnað við þjáninguna, nema að hann vaknaði, gerði sér grein fyrir eigin blekkingum og sæi veruleikann, veruleika sjúkdóma, elli, dauða og ómöguleika þess að fullnægja eigin græðgi. Sá sem hefur uppljómast er laus við narcissus. Við getum sagt, að aðeins ef maður getur losað sig við blekkingar egósins, aðeins ef hann getur sleppt þeim ásamt öðrum græðgimarkmiðum, aðeins þá er hann opinn fyrir heiminum og í rauntengslum við hann. Markmið mannlegs þroska í sálfræði, er það sama og andlegir leiðtogar mannkynsins hafa boðað með sínum hætti. Hugtök geta verið mismunandi, en eðli reynslunnar sem um er rætt er eitt og hið sama.