16.0 HUGARFAR OG REGLUR.
16.1 DÆMI.
16.2 GLÍMAN VIÐ VIÐNÁM.
16.3 RÆTUR VIÐNÁMS OG BIRTING ÞESS.
16.4 AÐ YFIRVINNA VIÐNÁM.
16.5 TAKMARKANIR SJÁLFSKÖNNUNAR.
16.0 HUGARFAR OG REGLUR.
Það ætti að vera auðvelt að tjá sjálfan sig fyrir sjálfum sér. Enginn er þar til að gagnrýna, misskilja, rangfæra eða andmæla. Og ekki ætti að vera lítillækkandi að segja sjálfum sér frá því sem manni finnst niðurlægjandi. Þó er þar nokkuð sem torveldar og meginhindrun sjálfstjáningar er eiginn innri maður. Sérhver hefur tilhneigingu til að látast ekki sjá vissar staðreyndir eða hafa þær að engu, til að viðhalda eigin ímynd. Segja má því að enginn eigi létt með að nálgast frjáls hugartengsl. Þess vegna er gott að minnast þess af og til, að við erum sjálfum okkur verst og vinnum gegn eigin hagsmunum, þegar við höfnum eigin hugsun eða tilfinningu. Ábyrgðin er okkar eigin, enginn er til að geta í eyðurnar eða kanna hvað á vantar. Slíkt skiptir ekki hvað síst máli um tjáningu tilfinninga.
Í þessu sambandi ber að minnast tveggja lífsreglna. Önnur er sú að reyna að tjá þær tilfinningar sem við raunverulega höfum, en ekki þær sem okkur finnst að við ættum að hafa samkvæmt almennum þjóðfélagsstaðli eða okkar eigin. Við ættum að gera okkur grein fyrir muni á sönnum tilfinningum og þeim sem við höfum tamið okkur vegna ytri aðstæðna. Við ættum því oftar að spyrja sjálf okkur hvað okkur finnist í raun og veru. Hin lífsreglan er að tjá tilfinningar sínar eins frjálslega og mögulegt er. Það er ekki auðvelt og virðist fáránlegt þegar við erum særð vegna ómerkilegrar eða smávægilegrar misgerðar. Það getur verið erfitt að átta sig á því hvernig við getum tortryggt eða hatað einhvern náinn. Við getum viðurkennt minniháttar gremju, en okkur finnst ógnvekjandi að finna þá reiði, sem raunverulega býr undir. Minnumst þess, að fátt er eins hættulaust og könnun sannra tilfinninga. Miklu gildir að viðurkenna og finna fullan styrk tilfinninganna.
Bældar tilfinningar verða aldrei knúnar fram með valdi. Við getum aðeins kannað þær tilfinningar sem við náum til. Við upplifum gjarnan magn tilfinningarinnar smátt og smátt, þ.e. fyrst finnum við tilfinninguna, en heild hennar kemur oftast í ljós smám saman í tímans rás. Við veitum sjálfum okkur frelsi í smá skömmtum til að finna það sem okkur raunverulega finnst. Og spyrja má hvort það eigi ekki við um alla þróun í frelsisátt.
Mikilvægt er að rökræða ekki við sjálfan sig, þegar við stundum hugtengsl. Hugsun og rök eiga við eftir á. Kjarni hugtengslaaðferðar er að allt gerist sjálfkrafa. Við megum aldrei leita lausnar með því að reyna að reikna orsakirnar út. Lausnin liggur oft ljóst fyrir seinna, löngu eftir að við erum hætt að leita hennar, ef til vill eftir að við höfum gert margar árangurslausar tilraunir og gefist upp á leitinni. Sama gildir um þann sem lætur hugann reika frjálst, en reynir jafnframt samtímis að skilja hugtengslin. Orsök þeirra vinnubragða getur meðal annars verið óþolinmæði, þörf fyrir að sanna fyrir sjálfum sér snilli sína eða ótti við að láta hugsun og taumlausar tilfinningar koma í ljós. Innrás hugsunarinnar truflar þá slökun sem er nauðsynleg fyrir hugtengslaaðferð. Auðvitað getur viðkomandi boðið sjálfkrafa í grun ákveðna meiningu hugtengsla. Þannig er ekki algjörlega útilokað, að sjálfstjáning og hugsun geti samt sem áður farið saman, einstaka sinnum. En við skyldum hafa það fyrir reglu, að reyna að greina þessa þætti að. Við skyldum hafa í huga orð Jónasar E. Svavár, er hann yrkir:
afleiðingarnar
leita orsakanna
meðal tækifæranna
Ef aðskilnaður er þannig gerður milli hugtengsla og skilnings, hvenær hættum við þá með hugtengslin og reynum að skilja? Um þetta gilda engar reglur. Svo lengi sem hugsanirnar reika, er enginn sérstakur tilgangur í því að fanga þær af ásettu ráði. Þær hætta sjálfkrafa fyrr eða síðar vegna einhvers sem reynist áhrifameira en þær. Þær geta t.d. stöðvast vegna þess, að viðkomandi gerist forvitinn að vita, hvað þær merki eða einhver tilfinning getur gripið hann, sem gefur vísbendingu um skýringu á einhverjum vanda. Hugarreik getur stöðvast vegna eigin viðnáms eða að viðkomandi hefur tæmt viðfangsefnið að svo stöddu. Tíminn getur verið naumur og viðkomandi langar að skilja það sem hann hefur ritað niður, svo eitthvað sé nefnt.
Sama gildir um skilning á hugtengslum. Röð þeirra og samtvinnun getur verið endalaus. Þess vegna er ekki hægt að gefa neinar reglur um merkingu einstakra atriða fyrir hina ýmsu einstaklinga. Mikið byggist á útsjónarsemi, árvekni og einbeitingu. Þegar við hættum hugtengslum og förum yfir það sem við höfum ritað niður til að skilja það, breytum við um aðferð. Í stað þess að verða aðgerðarlausir móttakendur þess, sem upp kemur, verðum við athafnasöm. Skynsemin verður ráðandi og rökhyggjan kemur til sögunnar á ný. Erfitt er að lýsa nákvæmlega æskilegu viðhorfi, þegar reynt er að skynja tilgang hugtengslaaðferðar. Að minnsta kosti eiga starfshættirnir ekki að leiða út í hugsunaræfingu. Þá væri betra að tefla skák, ræða um stjórnmál eða ráða krossgátur. Hún getur þóknast hégómagirndinni og sannað yfirburði heilastarfseminnar en það leiðir ekki til neins raunverulegs skilnings á manninum sjálfum. Slíkar tilraunir hafa þá hættu í för með sér að álíta slíkt framfarir, sem viðkomandi getur orðið sjálfsánægður með, að hann viti allt um sjálfan sig, þegar í raun ákveðin atriði hafa verið kortlögð án þess að það snerti hann.
Hinar öfgarnar, hin tilfinningalega innsýn ein sér, eru þó miklu mikilvægari. Ef ekkert frekar er að gert, er slíkt verklag ekki heldur æskilegt, því að með því erum við að missa úr greipum okkar mikilvæga þræði, þótt óljósir séu. Slík tilfinningaleg innsýn getur orðið til þess, að við tökumst á við ýmis tilfinningabönd, sem halda okkur eða hjálpa okkur út úr lamandi hjálparleysisástandi. Í stað þess að framleiða vísindalegt meistaraverk, ættum við láta skilninginn stjórnast af eigin áhuga. Við ættum að eltast við það sem vekur athygli hjá okkur eða forvitni og sérstaklega, ef það slær okkur tilfinningalega. Ef við erum nægilega sveigjanleg til að láta stjórnast af sjálfssprottnum áhuga, getum við verið viss um, að velja ósjálfrátt þau efni, sem á þeim tíma eru aðgengilegust til skilnings og tengjast því vandamáli sem verið er að fást við. En þótt ráðist sé á það efni, sem minnst mótstaða er gegn hjá viðkomandi, þýðir það alls ekki að um enga mótstöðu sé að ræða.
Þá ber að geta að reynslan sýnir, að hverju sinni getum við einungis tileinkað okkur eina mikilvæga innsýn. Ef við ætlum að gera meira, er það til skaða og við sjáum einungis grynnra, ef við ætlum að sjá víðara. Mikilvæg innsýn þarfnast tíma og óskiptrar athygli, ef hún á að festa rætur og við ætlum að tileinka okkur hana.
Stundum vekur ekkert í hugtengslunum áhuga. Við sjáum aðeins óljósa möguleika, en ekkert sem eykur skilning. Hið gagnstæða á sér einnig stað, og eitt stakt atriði getur vakið upp mörg önnur áhugaverð. Oft er gott að skrifa niður þær spurningar, sem í hugann koma og láta þeim ósvarað. Síðar, þegar farið er yfir þær, getur skyndilega orðið breyting. Það sem áður voru möguleikar, fær nú ákveðna merkingu og taka má spurningarnar fyrir af alvöru.
Dulin hætta leynist, sem vert er að minnast á. Aldrei ætti að viðurkenna annað en það sem við raunverulega trúum. Við kynnum að hneigjast til að meðtaka alla “slæma” hluti um okkur sjálf og telja það viðnám, ef hik verður á. Fremur en það ættum við að túlka skilning okkar sem tímabundinn og reyna ekki að sannfærast um að sú túlkun sé rétt. Kjarni sjálfsskoðunar er sannleikur og honum ætti einnig að fylgja þegar við föllumst á eða höfnum túlkun okkar. Við getum reyndar aldrei komið í veg fyrir túlkun, sem leiðir afvega eða er óraunhæf, en það skyldi ekki vaxa okkur í augum. Ef við gefumst ekki upp og höldum áfram með réttu hugarfari, mun farsælli leið opnast fyrr eða síðar eða okkur verður ljóst, að við erum á blindgötu og lærum af reynslunni. Okkur er því mikilvægt að fylgja eigin áhuga og jafnframt að samþykkja aðeins það sem við erum sannfærð um.
16.1 DÆMI.
Mikilvægt er við sjálfsskoðun að týnast ekki í ýmis konar smáatriðum. Sá sem hefur athugað sjálfan sig og öðlast nokkra innsýn í sjálfan sig, ætti að gefa gaum að því, hvernig það sem hann hefur séð, birtist á ýmsum sviðum, hverjar afleiðingar þess eru og hvaða þættir persónuleikans eru orsökin. Best er að skýra þetta með dæmi, þótt það hljóti alltaf að einfalda málið verulega. Ekki er heldur mögulegt að lýsa tilfinningareynslu. Því er óhjákvæmilegt, að dæmið verði einhliða og myndin full vitsmunleg.
Með þessum fyrirvara skulum við ímynda okkur mann, sem hefur komist að raun um, að við vissar aðstæður, þegar hann vildi taka þátt í umræðum, þegir hann af ótta við gagnrýni. Ef hann leyfir þessari uppgötvun að festa rætur í sér, byrjar hann e.t.v. að furða sig á þeim ótta, sem þarna er að verki, þar sem hann stafar ekki af raunverulegri hættu. Hann undrast e.t.v. þennan mikla ótta, sem bæði hindrar hann í að tjá hugsanir sínar, og kemur í veg fyrir að hann hugsi skýrt. Hann gæti velt því fyrir sér, hvort þessi ótti sé meiri en metnaður hans. Einnig gæti hann séð, að þessar hömlur eru óheppilegar í starfi, þar sem framkoman varðar miklu.
Setjum svo að þetta leiði til þess að hann fái áhuga á vandamálinu. Þá reynir hann að sjá hvort hann eigi ekki við svipaða erfiðleika að stríða á fleiri sviðum og þá með hvaða hætti. Hann athugar samskipti sín við konur. Er hann of feiminn að nálgast þær, vegna þess að þær kynnu að finna eitthvað athugavert við hann. Hvað með kynlíf? Var hann einu sinni um tíma getulaus, vegna þess að hann gat ekki sætt sig við mistök? Er hann tregur til að fara í samkvæmi? Kaupir hann dýrar vörur til að aðrir álíti hann ekki of sparsaman? Er hann örlátur til að sýnast? Hversu viðkvæmur er hann fyrir gagnrýni? Er nægilegt að minnast á óframfærni hans eða feimni til að særa hann? Er hann særður, þegar konan hans gagnrýnir klæðnað hans eða er honum órótt, þegar hún hrósar öðrum í þessu tilliti?
Slíkar athuganir gefa til kynna, hversu miklir og víðtækir erfiðleikar hans eru í þessu tilliti og hvernig þeir lýsa sér. Hann athugar nánar áhrif þessa á líf hans. Hann veit um hömlur á mörgum sviðum. Hann er ekki ákveðinn maður. Hann gerir mikið til að uppfylla annarra vonir og óskir og er því sjaldan hann sjálfur, þ.e. hann er of mikið að leika hlutverk hins góða og geðþekka. Þetta veldur innri reiði gagnvart öðrum, því þeir virðast stjórna honum og hann minnkar í eigin áliti.
Þá reynir hann að leita að þeim þáttum, sem valda þessum erfiðleikum. Hvað var það sem olli ótta hans við gagnrýni. Hann minnist þess, að foreldrar hans veittu honum strangt uppeldi. Hann var oft skammaður og honum leið illa þess vegna. En hann verður einnig að hugsa til allra veiku hliðanna í persónuleika sínum sem í heild gerðu hann háðan öðrum og leiddu síðar til þess að álit annarra á honum varð honum mjög mikilvægt. Ef hann getur svarað öllum þessum spurningum, þá verður sú staðreynd, að hann sé hræddur við gagnrýni ekki lengur einangruð innsýn, heldur sér hann samhengi þessa þáttar eða tilhneigingar við heildarbyggingu persónuleikans.
Að rannsaka sjálfan sig með þessum hætti getur verið rétt, ef þess er gætt, eins og áður segir, að láta rannsóknina ekki verða beinlínis vitsmunalega þraut, þó tímabil slíkra umþenkinga geti verið æskilegt engu að síður. Maður ætti að líta á uppfinningar sínar, eins og fornleifafræðingur sem finnur einstök brot úr hlut og veltir honum fyrir sér, þar til heildarmyndin liggur skýrt fyrir í huga hans. Sérhver nýr þáttur, sem viðkomandi viðurkennir, er eins og leitarljós, sem lýsir upp svæði í persónuleika hans, sem áður voru myrkvuð. Fer ekki hjá því að hann sjái þau, ef hann aðeins hefur áhuga á að viðurkenna sjálfan sig. Áríðandi er að flýta sér ekki um of. Hafa ber í huga, að ný innsýn þýðir nýtt yfirráðasvæði, sem gott er að þétta sig vel á til að tryggja hámarkshagnað. Einnig er mikilvægt að hætta ekki um leið og erfiðleikar minnka, heldur halda áfram.
Það er gott að vita, að hverju helst ber að leita, en jafnan ætti að leita að því, sem áhugi er á og vilji til að hafa frumkvæði að. Ætti að viðurkenna þá staðreynd í eitt skipti fyrir öll, að við erum lifandi verur, knúin áfram af þörfum og óskum. Og við ættum að kasta fyrir róða þeirri skoðun að hugur okkur starfi jafnfullkomlega og vel smurð vél. Það er meira um vert að grandskoða hvert atriði sem við rekumst á heldur en heildarumfangið. Þau atriði, sem kunna að týnast, leita okkar síðar, þegar við erum reiðubúin að mæta þeim.
Ýmislegt í hinu ytra daglega lífi truflar alla jafnan meira eða minna sjálfsskoðun okkar. Við því er ekkert að segja. Slíkar truflanir förum við létt með, ef við tökum til við lausn vandamála þegar þau ber að höndum og snúum okkur síðan aftur að því sem frá var horfið. En þá er spurningin hvort sjálfsskoðun er fremur list en vísindi? Þetta er skilgreiningaratriði. Ekki þarf þó neina sérstaka hæfileika til að stunda sjálfsskoðun. Hæfni manna er eigi að síður misjöfn á hinum ýmsu sviðum. Á það við um sálfræði sem flest annað. Áhugi, frumkvæði og hreinskilni við sjálfan sig skiptir miklu máli. Gildir það ekki einmitt ekki um flest sem við aðhöfumst? Hugarfarið er kjarni málsins.
16.2 GLÍMAN VIÐ VIÐNÁM.
Við sjálfskönnun eru leyst úr læðingi tvö gagnstæð öfl sem með okkur búa. Annars vegar aflið, sem öllu vill halda óbreyttu, einkum viðhorfum og myndum, sem við gerum af okkur og veruleikanum, og reynir að viðhalda því gerviöryggi, sem því fylgir. Hins vegar afl þroskaviðleitninnar, sem öðlast vill innra frelsi og styrk með því kasta fyrir róða því sem afl óbreytileikans vill. Af þessum ástæðum getur sjálfskönnun aldrei verið vitsmunarannsókn, sem við erum ósnortin af. Vitsmunirnir eru alltaf tækifærissinnar, eins og í kvæðinu, sem ég áður vitnaði til. Þeir eru teknir í þjónustu þess, sem okkur finnst áhugavekjandi á hverjum tíma. Þeim öflum, sem standa gegn frelsinu og reyna að viðhalda óbreyttu ástandi, er sífellt ógnað af sérhverri innsýn, sem er þess umkomin að skemma eða skaða þá blekkingarbyggingu sem fyrir er. En einmitt þegar þessum öflum er ógnað, reyna þau að koma í veg fyrir framþróun með einum eða öðrum hætti. Þau birtast sem viðnám. Þetta viðnám er ekki bundið við sjálfsskoðun, því að lífið sjálft býður jafnan upp á, að byggingunni sé skekið. Til dæmis fáum við ekki allar kröfur okkar uppfylltar og við verðum vonsvikin, ef þær eiga sér ekki stoð í veruleikanum. Aðrir taka ekki undir sjálfsblekkingar okkar um eigin getu eða ágæti og við særumst. Slíkar ógnanir geta haft jákvæð áhrif, en viðbrögðin geta líka verið annað hvort kvíði eða reiði og aukin áhersla á þann lífsstíl, sem fyrir var.
Erum við þá eins hjálparvana og margir vilja vera láta gagnvart þessu viðnámi. Svarið við spurningunni veltur á þeirri trú, sem við höfum á mannlegu eðli. Ef við erum ekkert nema egoið og okkur er stjórnað af óræðum öflum og hvötum, svo sem Freud vildi vera láta, er ekki von á góðu. Ef við hins vegar trúum á innra Sjálfið, hvort sem við köllum það Kristseðli, Atman eða Búddanáttúru, þá horfir málið öðru vísi við. Ef við höfum trú á jákvæðum öflum, sem komi okkur til þroska, þá veltur allt á styrkleika þessara afla. Árangur sjálfskönnunar er þá háður styrkleika blekkingaraflanna annars vegar og styrkleika Sjálfsins til að eiga við blekkinguna hins vegar. Var þetta reyndar rætt í þættinum, Sjálfskönnun Markmið. En við megum samt sem áður ekki gera lítið úr viðnáminu.
Styrkur viðnámsins, ljós eða dulinn, ræður því að hve miklu leyti við erum hjálparvana gagnvart viðnáminu. Oft getum við orðið vör við viðnámið með einum eða öðrum hætti, en iðulega læðist það að okkur í dularbúningi. Þá vitum við ekki að um viðnám er að ræða, verðum áhugalaus, aðgerðarlítil eða kjarklaus. Við verðum auðvitað hjálparlaus gagnvart óvini, sem ekki er aðeins ósýnilegur, heldur teljum við hann ekki vera til. En það er meginástæða þess, að við verðum ekki viðnáms vör, að egoið snýst til varnar, ekki aðeins þegar okkur verða ljósar miklar staðreyndir, svo sem duldar kröfur okkar á lífið, sjálfsblekkingar eða þegar gerviöryggi okkar er sett í hættu, heldur einnig þegar við nálgumst vandamálin úr fjarlægð. Við erum þá eins og fólk, sem ekki aðeins óttast illviðri, heldur fyllist kvíða um leið og það sér óveðursský. Erfitt er að veita slíku viðnámi athygli, vegna þess hve fjarlægðin er mikil frá vandamálinu og viðnámið kemur til leiks löngu áður en tekið er á efninu og tilfinningar tengdar því bærast. Verður því ekki komist hjá aðeins nánari umræðu um ástæður viðnáms og vísbendingu eða birtingu þess.
16.3 RÆTUR VIÐNÁMS OG BIRTING ÞESS.
Rætur viðnámsins liggja í ímynduðum hagsmunum okkar að viðhalda óbreyttu ástandi, þ.e. status quo. Að vísu vilja allir losna við ágalla, hindranir og þjáningu og meðan sá áhugi varir vilja allir breytast og það sem fyrst. Við viljum ekki viðhalda þessum einkennum heldur þeim viðhorfum sem við teljum að hafi mikið huglægt gildi fyrir okkur og við ímyndum okkur að bjóði upp á framtíðaröryggi og fullnægju. Það eru viss grundvallaratriði, sem við höldum fast í, nánar tiltekið hinar leyndu kröfur á lífið sjálft, t.d. krafa um ást, völd, sjálfstæði o.s.frv., tálsýnir um sjálf okkur og hin þröngu svið, þar sem við athöfnum okkur tiltölulega þægilega og frjálslega, áreynslulaust. Þessi grundvallaratriði byggjast á meginviðhorfum, sem nánari skil verða gerð í öðrum þætti.
Viðnám verður til af mörgum ástæðum, t.d. ágengni sársaukafullrar innsýnar eða breytingu á ytri aðstæðum. Viðnámið getur lýst sér í beinni baráttu gegn innsýn eða tilfinningalegum varnarviðbrögðum, svo og hömlum eða undanbrögðum. Þótt þetta virðist ólík viðbrögð, er raunverulega einungis um að ræða stigsmun á hreinskilni. Við verðum t.d. gjarnan kvíðin, skömmustuleg, með sektarkennd eða óróleg við það sem við uppgötvum í sjálfum okkur.
Viðnám getur lýst sér með því móti, að við hefjum ekki sjálfskönnun. Þetta getur hæglega farið fram hjá okkur, því enginn er til að benda okkur á það. Við getum kært okkur kollótt, þótt langur tími líði á köflum án þess að við finnum þörf fyrir sjálfskönnun, en þá getur verið um viðnám að ræða. En við skyldum sýna varúð, þegar við verðum skyndilega þunglynd, óánægð, skapvond, þreytt, óákveðin, kvíðin eða áhyggjufull og gera samt sem áður enga tilraun til að skýra stöðuna. Við verðum þá e.t.v. vör við, að við höldum okkur vitandi vits frá sjálfskönnun, þótt okkur sé fullkomlega ljóst, að með sjálfskönnuninni ættum við möguleika á að komast út úr vandanum og læra eitthvað á því. Við finnum afsakanir fyrir því, ef við gerum ekki tilraunina, og teljum okkur ef til vill eiga of annríkt, séum of þreytt eða tímann of nauman.
Þegar við stundum hugtengsl getur viðnám lýst sér í því, að við fáum ekkert út úr þeim. Við reynum e.t.v. að reikna út niðurstöðu í stað þess að láta hugann reika frjálst, hugsum um eitthvað annað eða verðum sljó og gleymum að taka eftir þeim hugrenningatengslum, sem birtast. Viðnám getur einnig valdið blindu á ýmis atriði eða við veitum þeim ekki athygli eða skiljum ekki þýðingu þeirra og mikilvægi, þótt við séum að öðru leyti hæf til þess. Við getum einnig leitað í rangar áttir.
Svo getur einnig átt sér stað, að við komumst að niðurstöðu, en með viðnámi í einhverri mynd, t.d. með hömlum og undanbrögðum, eyðileggjum við gildi hennar. Þá getum við, í stað þess að leysa upp viðhorf, talið að ákvörðun um að komast yfir erfiðleikana sé allt sem þurfi. Við fylgjum ekki eftir niðurstöðum okkar, heldur gleymum þeim, og okkur langar ekki til að gera neitt í málinu eða fáum okkur ekki til þess. Í stað þess að taka ákveðna afstöðu gerum við málamiðlun og rænum okkur þannig árangri af þeirri niðurstöðu sem fengist hefur. Þá finnst okkur sem við höfum leyst vandann, þótt við séum raunverulega langt frá lausn.
16.4 AÐ YFIRVINNA VIÐNÁM.
Hvernig má yfirvinna viðnám? Í fyrsta lagi er lítið hægt að aðhafast gegn því, sem ekki er tekið eftir. Fyrsta skrefið er því að veita því athygli, að viðnám sé fyrir hendi. Viðnám getur hæglega farið framhjá okkur, eins og reglan er, ef við erum ekki fúst til að sjá það. Viss viðnámsform eru vís til að fara fram hjá okkur, hversu árvökul sem við annars erum eða ákveðin. T.d. hættir okkur til að vera blind á vissa bletti, ef svo má segja og við gerum jafnan of lítið úr tilfinningum okkar. Mikið veltur á, því hve víðtækar og fastheldnar þessar hindranir eru og aflinu sem að baki býr. Venjulega er orsök hindrananna einfaldlega sú, að við séum ekki enn fær um að horfast í augu við ákveðnar staðreyndir. Ytri þekking skiptir ekki höfuðmáli, heldur hitt hvort við erum tilbúin eða undirbúin. Við þurfum t.d. að vinna mikið að okkar málum, áður en við erum tilbúin til að horfa framan í alla þá reiði, er býr með okkur. En blinda okkar á vissum sviðum læknast, ef við vinnum að því.
Sama gildir um leit í ranga átt. Erfitt er að sjá slíkt viðnám og langan tíma tekur að rekja sig til baka. En okkur má bjóða grun í slíkt viðnám, ef við veitum því athygli, að framfarir eru engar eða að við förum ævinlega í hringi þrátt fyrir mikla vinnu. Við ættum ekki að blekkja okkur og telja okkur trú um framfarir, sem engar eru, þótt það falli okkur betur. Viðnám getur einmitt lýst sér í slíku. Margt annað viðnám ættum við að sjá. T.d. ef við sjáum að við erum með stöðuga útreikninga í stað þess að láta vitundina starfa sjálfkrafa. Kjarkleysi eða vonleysi er ein tegund viðnáms, sem erfitt er að átta sig á. Þegar við finnum til slíks, ættum við að líta á það sem hvatningu til sjálfskönnunar en ekki sem óbreytanlega staðreynd.
Þegar við verðum viðnáms vör, ættum við sleppa öllum öðrum tilraunum til sjálfskönnunar og snúa okkur einvörðungu að lausn vandamáls viðnámsins. Kjarni málsins er sá, að það er tilgangslaust að ætla sér að komast í gegnum viðnámsmúrinn með afli eða þvinga sig til þess. Freud taldi það álíka tilgangslaust og að reyna að kveikja á ljósaperu, sem ekki getur logað á. Nauðsynlegt er að finna út hvar straumrofið er hvort það er í perunni, perustæðinu, örygginu, rofanum eða leiðslunni.
Tæknin við að eiga við viðnám felst í að nota hugtengslaaðferðina. En við allt viðnám er þarflegt að fara yfir þau atriði, sem fóru á undan hindruninni. Allnokkrar líkur eru fyrir að lykillinn liggi í því viðfangsefni, sem snert hefur verið á. E.t.v. er hægt að sjá, hvar farið er af leið og hindrunin byrjar. Oft er ekki kleift að leita þessa þegar í stað, þar sem viðkomandi fær sig ekki til þess. Þá er um að gera að þvinga sig ekki, heldur skrá hjá sér, við hvaða atriði þreyta eða óþægindi birtust og taka þar til við á ný í næsta skipti.
Þegar talað er um að nota hugtengslaaðferðina, er átt við að viðkomandi virði fyrir sér, hvernig hindrunin eða viðnámið lýsi sér og hugsanir eru látnar flæða frjálst um og í kringum það. Ef hann tekur eftir því, að hann hrósar sigri við allar túlkanir sínar og niðurstöður, þá ætti hann að taka þá niðurstöðu til frekari meðferðar með hugtengslaaðferðinni. Ef kjarkinn dregur úr honum við það, sem hann hefur orðið var við, þá ætti hann að athuga, hvort það stafi ekki af því að hann hafi tekið til meðferðar atriði eða viðhorf, sem hann vilji ekki og geti ekki breytt að svo stöddu. Ef hann á erfitt með að hefja sjálfskönnun, sem hann hefur þó þörf fyrir, ætti hann að minnast þess, er hann tók fyrir í könnun þar áður eða hvort eitthvað ytra atvik kynni að hafa orsakað hindrunina.
Viðnám, sem leiða má af ytri atvikum, er algengt í sjálfskönnun. Okkur finnst við oft verða fyrir móðgun, einhver sýni okkur ósanngirni eða lífið sjálft okkur andsnúið. Okkur hættir þá til að bregðast við með sárindum og reiði. Oft liggur ekki ljóst fyrir, hvort um var að ræða raunverulega eða ímyndaða áreitni eða misgjörð í okkar garð. Jafnvel þótt um raunverulega misgjörð væri að ræða, þarf hún ekki að kalla á slík viðbrögð. Ef við værum ekki viðkvæm fyrir því, sem aðrir gera okkur, gætum við oftar svarað misgjörð með vanþóknun og jafnframt samúð með misgjörðarmanninum eða að við svöruðum fyrir okkur í jafnvægi og af háttvísi, frekar en vera særð og reið. Það er miklu auðveldara að finna sig eiga rétt á að verða reiður, en að rannsaka nákvæmlega þann viðkvæma blett, sem særður hefur verið hjá okkur. Hagsmunum okkar er þannig best borgið, enda þótt enginn vafi leiki á því, að aðrir hafi verið grimmir, óréttlátir og tillitslausir.
Segjum, að maður hafi verið særður djúpt, er hann varð þess var, að konan hans var honum ótrú. Mánuðum saman kemst maðurinn ekki yfir þetta, þótt hann viti að þetta sé liðin tíð og konan geri allt til að bæta samband sitt við hann. Þau verða bæði vansæl yfir þessu og annað veifið stekkur maðurinn upp á nef sér og ásakar konuna. Margar ástæður gætu skýrt tilfinningar mannsins og hátterni hans án tillits til særinda vegna framhjáhaldsins. Stolt hans gæti hafa verið sært, t.d. vegna þess að konan skyldi geta bundist öðrum en honum. Það gæti verið honum ofraun að konan skuli hafa sloppið undan yfirráðum hans og stjórn. Hann gæti verið hræddur um að verða yfirgefinn. Hann gæti hafa verið óánægður með hjónabandið af ástæðum, sem hann vissi ekki um, en notað þetta augljósa tækifæri sem afsökun til að láta í ljós bælda gremju sína og hafa þannig í frammi hefndarráðstafanir. Hann gæti einnig hafa hrifist af annarri konu og reiðst þeirri staðreynd, að hún hefði frelsi sem hann hefði ekki leyft sér. Ef rannsakaðir væru allir þessir möguleikar, gæti ástandið á heimilinu ekki aðeins lagast verulega, heldur myndi hann öðlast meiri þekkingu á sjálfum sér. Ekkert slíkt gerist samt sem áður meðan hann gerir ekkert annað en halda fram rétti sínum til að reiðast. Niðurstaðan yrði sú sama, ef hann hefði bælt reiðina, þó að í því tilviki hefði orðið mun erfiðara fyrir hann að finna ástæður viðnámsins gegn því að hefja sjálfskönnun.
Við skyldum ekki skamma sjálf okkur eða skaprauna vegna viðnáms. Auðvitað er það ekki skemmtilegt, að við sjálf skulum skapa hindranir andstæðar hagsmunum okkar eða á leið okkar til þroska. Við okkur er ekki að sakast, hvorki um tilvist viðnámsins eða styrk þess. Sá lífsstíll, sem viðnáminu er ætlað að vernda, hefur verið tæki okkar til að takast á við lífið, þegar önnur ráð hafa brugðist. Því verðum við að gera ráð fyrir öflum, sem vilja viðhalda þessum lífsstíl. Rökrétt er að líta á þessi öfl sem sjálfgefin. Við ættum að virða þau sem hluta af okkur, en ekki þar með samþykkja þau eða falla fyrir þeim, heldur viðurkenna þau sem lið í lífsþróun okkar. Slíkt viðhorf er ekki aðeins réttlátt gagnvart sjálfum okkur, heldur skapar það betri grundvöll til að fást við viðnámið. Ef við ráðumst á það með fjandsamlegum hætti til að brjóta það niður, þá öðlumst við ekki þá þolinmæði og þann vilja, sem nauðsynlegur er til að skilja það. Ef tekið er á viðnámi með þeim hætti og með því hugarfari, sem hér hefur verið lýst, er góður möguleiki til þess, að það verði skilið og yfirunnið, þ.e.a.s. ef það er ekki sterkara en viljinn til þroska.
16.5 TAKMARKANIR SJÁLFSKÖNNUNAR.
Aðeins stigsmunur er á viðnámi og takmörkunum. Viðnám, ef það er nógu öflugt, getur orðið að takmörkunum. Sérhvert atriði, sem dregur úr eða lamar frumkvæði okkar til að takast á við sjálf okkur, hefur að geyma takmörkun á sjálfskönnun. Skal nú vikið að því sérstaklega.
Víðtæk eða djúp uppgjafartilfinning hefur í för með sér takmörkun á sjálfskönnun. Menn geta verið svo flæktir í eigin vandamálum og helteknir svo miklum kvíða, að þeir verði vonlausir um að komast út úr erfiðleikunum. Allir finna einhvern tíma á ævinni fyrir einhverju vonleysi. Það vonleysi getur lýst sér í tilfinningu fyrir tilgangsleysi eigin lífs eða lífsins yfirleitt. Þetta getur gengið svo langt, að menn verði stoltir yfir að telja sig ekki hafa blindað sig eins og aðrir fyrir þessari staðreynd. Þeir taka þá þessari staðreynd með stóískri ró og vænta ekki lífs er veiti þeim meiri tilgang eða innihald. Slíkt vonleysisviðhorf getur líka falist á bak við lífsleiða, eins og hjá Heddu Gabler í leikriti Íbsens. Slíkt vonleysi getur einnig legið á bak við vantrú á einlægni eða heiðarleika manna, gildi í lífinu eða að hafa ekki markmið til að stefna að. Þetta gildir einnig um fólk, sem virðist vera góðir félagar og er fyrir mat, drykk og kynlíf. En þetta fólk ristir ekki djúpt og trúir ekki að lífið hafi merkingu. Líf þess verður yfirborðslegt.
Önnur takmörkun getur verið fólgin í of árangursríkum lífsstíl, ef svo má segja. Sá sem sækist eftir völdum og tekst að ná þeim telur væntanlega ábendingu um sjálfskönnun hlægilega. Gildir þetta þótt líf viðkomandi sé byggt á sandi. Ég held t.d. að sjálfskönnun hafi verið Stalín eða Hitler mjög fjarlæg, þótt ekki hefði þeim veitt af henni. Sama gildir ef þörf fyrir sjálfstæði er magnað. Þá draga sumir sig inn í sína skel eða fílabeinsturn og líður sæmilega í þeim afmarkaða heimi. Slíkur árangursríkur lífstíll verður til við samtvinnun ytri og innri aðstæðna. Að því er tekur til innri aðstæðna, þá má ein tilhneiging ekki ganga of mikið í berhögg við aðra. Enginn er þó svo, að hann beri í brjósti tilhneigingu í aðeins eina átt, þ.e. að aðrar tilhneigingar séu þurrkaðar út. Enginn er slík straumlínulaga vél einstefnuaksturs, en menn geta reynt að nálgast slíkt. Þá þurfa ytri aðstæður að leyfa slíkan lífsstíl eða einstaklingsþróun. T.d. getur fjárhagslega sjálfsstæður maður hæglega dregið sig í sinn fílabeinsturn. Sá sem lítil fjárráð hefur, getur einnig dregið sig inn í sína skel, ef hann takmarkar fjárþarfir sínar nægilega. Sumir nota þjóðfélagsaðstæður og vinna ævilangt að því að afla sér valda eða virðingar.
En hversu árangursríkur sem slíkur lífsstíll er, verður hann alltaf hindrun til þroska eftir leið sjálfskönnunar, einfaldlega vegna þess að viðkomandi telur lífsstílinn eða tilhneiginguna of verðmæta fyrir sig til að verða dregin í efa. Þau markmið, sem stefnt er að í sjálfskönnun, til dæmis að losa sig við viðhorf eða láta þau ekki hafa tök á sér finnast honum ekki áhugaverð, þar sem þau öfl heilbrigðis, sem höfðað er til, eru of lítilmagna.
Þriðja takmörkunin, sem nefna má eru þær tilhneigingar, sem kalla mætti niðurrifsöfl gagnvart sjálfum sér og öðrum. Hér er átt við reiði og fjandskap út í lífið með einum eða öðrum hætti. Biturleiki út í lífið og hefndarþörf getur verið svo grunnaður í persónuleikann, að hin jákvæðari öfl megi sín lítils. Ef sigur yfir öðrum er mikilvægara en jákvæðar gjörðir um eigið líf, verður sjálfsskoðun varla árangursrík. Ef gleði, hamingja, ástúð og nálægð við fólk er metin sem fyrirlitleg linka og smámennska, getur verið erfitt að komast í gegn um hina hörðu skel.
Fjórða takmörkunin snýr að Sjálfinu gagnstætt egoinu, sem nefna má Kristseðli, Búddanáttúru, Atman eða öðrum nöfnum. Þetta sem við í raun finnum, viljum, trúum og ákveðum, þegar ytri og innri tilbúningi er sleppt. Þetta er kjarni sálarinnar, sem vegna blekkinga okkar er oft erfitt að ná til. Sjálfið hefur verið sljóvgað og það sefur, þótt það sé til staðar. Með hvarfi þess hverfur sjálfsvirðing, frumkvæði og hæfni til að taka ábyrgð á eigin gerðum. Hin ytri blekking gerir okkur eins og fjarstýrðra flugvél. Auðvitað getum við náð til kjarna sálarinnar þótt vandi sé um að segja hversu erfið sú leið sé. Við höfum að verulegu leyti glatað eigin þungamiðju og okkur er stjórnað af öflum hið innra og ytra. Sumir aðlagast umhverfinu, og verða eins og sjálfvirkar vélar. Þeir eru oft hjálpsamir og þjóðfélagslega nytsamlegir, en þegar þungamiðjan hvílir utan við viðkomandi, þá hefur hann oft ekki erindi sem erfiði. Hann getur orðið stefnulaus eða hið gagnstæða, látið stjórnast af árangursríku markmiði, eins og áður var vikið að. Tilfinningar, hugsanir og gerðir geta verið ákvarðaðar af útblásinni ímynd af sjálfum sér. Hann er þá ekki samúðarfullur, af því að raunverulega sé hann þannig, heldur af því að það er hluti af ímynd hans. Hann velur sér ákveðna vini og áhugamál, af því að ímynd hans þarfnast þessara vina eða áhugamála.
Að lokum minni ég á það, að ef við teljum okkur trú um að allt sé rétt, gott og óbreytanlegt, má varla búast við frumkvæði til breytinga. Allir, sem fást við sjálfskönnun, vita að sú sannfæring er til hindrunar. Í þessu efni skiptir viljinn og viðleitnin mestu máli.
Takamarkanir og hindranir, sem hér hefur verið lýst, hafa áhrif á sjálfskönnun, ef þær koma ekki að öllu leyti í veg fyrir hana. Þær geta eyðilagt sjálfskönnun með ósýnilegum hætti, þegar hún er framkvæmd af takmörkuðum heiðarleika. Þá getur verið um einhliða áherslu að ræða á vissum sviðum, en lokað fyrir innsýn til annarra þátta og þetta getur haldist í stað þess að úr því dragi. Ekkert svið í persónuleikanum er einangrað frá öðrum og ekkert svið verður skilið nema í samhengi við heildina. Einhliða skoðun einstakra þátta verður þannig jafnan yfirborðsleg.
Á það verður einnig að leggja áherslu, að styrkleiki einstakra þátta breytist sífellt við sjálfskönnun, enginn einn þáttur hefur sama styrk stundinni lengur. Með hverju skrefi nálgumst við raunsjálf okkar, við verðum nær öðrum, vonbetri og minna einangruð og fáum með því aukinn áhuga á lífinu, meðal annars aukinn áhuga á eigin þroska.
Spyrja mætti, hvort sjálfskönnun verði nokkurn tíma lokið. Verða ekki alltaf einhver óleyst vandamál? Að sjálfsögðu er ekkert til sem heitir fullkomin sjálfskönnun. Því meiri innsýn sem við öðlumst, þeim mun frjálsari verðum við. Fullkominn maður er alls ekki æskilegt markmið. Lífið er barátta, þróun og þroski og sjálfskönnun er eitt af mörgu sem getur hjálpað í leit okkar. Auðvitað er árangur mikils virði, en viðleitnin er þó enn mikilvægari og hefur ómetanlegt gildi. Minnumst þess að öll vandamál mannsins eru innri vandamál hans sjálfs.