XV SJÁLFSSKOÐUN AÐFERÐIR

15.0 HUGTENGSLA AÐFERÐ.

15.1 VIÐURKENNING VIÐHORFA.

15.2 BREYTING INNRI ÞÁTTA.

15.3 ÞÁTTUR ANNARRA.

15.4 SKYNDISKOÐUN.

15.5 SKIPULÖGÐ SJÁLFSKOÐUN.

15.6 TÍMI OG SKRIF.

15.0 HUGTENGSLA AÐFERÐ.

Sjálfsskoðun er tilraun til þess að vera samtímis athugandi og það sem athugað er. Meginviðfangsefni hennar eru þrjú: Í fyrsta lagi, að upplýsa um sinn innri mann, eins vel og hreinskilningslega sem verða má. Í öðru lagi að verða var við hin dulvituðu öfl og áhrif þeirra á líf okkar. Í þriðja lagi, að efla getu okkar til að breyta þeim viðhorfum, sem hefta þroska, styrk og frelsi okkar og standa í vegi fyrir að við upplifum eigið Sjálf.

Upplýsingar um innri manninn má fá með svokallaðri hugtengsla aðferð. Henni má beita með ýmsum hætti. Ef athugað er, t.d. í hugleiðslu, hvaða efni kemur í hugann, sérstaklega ef ekkert er undanskilið eða bælt í hugleiðslunni og einnig skoðað í hvaða röð efnið birtist, þá er þar um að ræða kjörið efni til sjálfsskoðunar. Allt sem kemur í hugann er athugað, jafnvel þótt það virðist smámunir, út í hött, samhengislaust, órökrænt, vanhugsað og óviðeigandi, truflandi eða lítillækkandi. Nauðsynlegt er að leggja áherslu á, að með orðinu allt, er bókstaflega átt við allt. Ekki aðeins óljósar eða sundurleitar hugsanir, heldur einnig hugmyndir og minningar, nýskeð atvik og löngu liðin, hugsanir um okkur sjálf og aðra, svo og viðbrögð, trúmál, siðfræði og stjórnmál, listir, óskir og áætlanir um framtíðina, alls konar hugarburð og að sjálfsögðu drauma. Mjög mikilvægt er að upplifa þær tilfinningar sem fylgja þessu efni, eins og kæti, væntumþykju, vonir, sigur, vonleysi, létti, grun, reiði o.s.frv. Vert er að leggja sérstaka áherslu á, að ef við höfum tilhneigingu til að bæla eða vísa frá okkur efni, hugsun eða tilfinningu, þá er það einnig athugunarvert.

Hugtengsla aðferðin er frábrugðin venjulegum hugsanavenjum í því, að við erum hreinskilnari og höldum engu upp í erminni. En hún er stefnulaus, þar sem mikilvægt er að lofa öllu að koma í hugann, til hvers sem það kynni að leiða. Því verður að krefjast einlægni og heiðarleika við þessa aðferð og vera ákveðinn í að skoða eigin vandamál.

Eins og ég sagði áður eru draumar sjálfsagt úrvalsefni á þessum vettvangi. Bæði er gott að skoða drauma beint, efni þeirra og innihald og einnig mikilvægt að nota hér hugtengsla aðferðina á þann hátt að athuga hvað kemur ósjálfrátt í hugann í sambandi við þá. Gefur það venjulega góða leiðsögn. Þá er það af mörgum talin góð aðferð við drauma að leika þá út. Samsamar maður sig þá einstökum persónum og hlutum í draumnum og talar fyrir hönd þeirra og sér þannig, hvaða hlutverki þeir gegna. Einhverjum finnst ef til vill langsótt að gerast ákveðinn hlutur og tala fyrir hönd hans, en annað kemur fljótlega í ljós ef reynt er.

Hugtengsla aðferðin reynist ekki vel í stjörnufræði eða stjórnmálum, þar sem krefjast verður rökhugsunar. En aðferðin reynist góð til að skilja tilvist, mikilvægi og merkingu dulvitaðra markmiða, viðhorfa og tilfinninga. Við megum samt ekki búast við kraftaverki. Við skulum ekki halda að um leið og við léttum eftirliti og stjórn á rökrænni hugsun, komi í ljós allt það sem við óttumst eða fyrirlítum. Við getum verið viss um, að ekki kemur í ljós meira en við þolum hverju sinni. Aðeins hugmyndir, sem eiga rætur að rekja til bældra viðhorfa og tilfinninga, koma í ljós, ekki ósvipað og í draumum, þar sem þær birtast í breyttu formi eða táknum. Óvæntir þættir geta síðar birst með miklum átökum, en það gerist venjulega ekki fyrr en töluverð vinna hefur verið lögð í könnun þess efnis og það nálgast hina daglegu vitund. Bældar tilfinningar geta birst í formi gamalla minninga. Þótt ekki gerist kraftaverk, er kleift að skoða starfsemi hugans og ráða hina duldu merkingu, sem undirvitundin lætur okkur í té.

Sú hugtengsla aðferð, sem ég hefi hér lýst, getur verið misjafnlega erfið. Sumum reynist örðugt að stíga yfir vissa þröskulda og fara inn á bannsvæði. Aðrir vilja ekki taka áhættu og þurfa að hafa allt á sínu valdi. Þeir vilja ekki sleppa beislinu fram af sér, hafi þeir ekki fyrirfram vissu um hvað muni birtast og til hvers það muni leiða. Enn má nefna þá, sem treysta lítt dómgreind sinni og hafa ekki eigin skoðanir. Þeir eru ekki vanir að hafa eigin frumkvæði, en þreifa fyrir sér í umhverfinu til að vita, hvers sé vænst af þeim. Hugsanir sínar telja þeir góðar og gildar ef þær njóta viðurkenningar annarra, en vondar og rangar, ef þær mæta vanþóknun. Þar sem slíkum mönnum er aðeins kunnugt hvernig þeir eigi að bregðast við hlutunum, verða þeir ráðvilltir, þegar þeir vilja tjá sinn innri mann. Þeir verða óöruggir og tekur það sárt að finna í sér það, sem hlýtur vanþóknun annarra. Þá má enn nefna þann, sem er í fjötrum innri andstæðna. Hann getur hafa glatað allri hæfni til að velja eigin stefnu og þarf utanaðkomandi stuðning. Ýmis svið, sem farið er inn á geta auk þessa valdið sumum kvíða.

Þannig geta ýmsar hindranir leitt til þess, að erfitt er að vera hreinskilinn. En við megum ekki gleyma því, að í þeirri sjálfskönnun, sem ég hefi verið að lýsa, erum við ein með sjálfum okkur og höfum því fátt að óttast, síst af öllu það sem er utanaðkomandi. Við megum heldur ekki gleyma því, að okkar eigin þroski og hamingja er að veði. En þó að auðvelt virðist að tjá sjálfan sig gagnvart sjálfum sér, er það erfitt í raun, svo erfitt að það verður sjaldan eða aldrei fullkomlega gert. Við sleppum úr eða gleymum, sumt varir aðeins augnablik í huga okkar og smáatriðum er sleppt af því að við teljum þau ekki skipta máli.

15.1 VIÐURKENNING VIÐHORFA.

Næst liggur fyrir að horfa í hreinskilni á vandann, öðlast innsýn í hann og viðurkenna þætti, sem áður voru dulvitaðir. Hér er ekki aðeins á ferðinni skilningur, heldur og tilfinningaleg upplifun. Upplýsingar, sem við öflum um sjálf okkur, verða að síast inn í okkur öll. Þær verður að finna með öllum líkamanum, jafnvel fyrir neðan mitti. Innsýn getur bent á bældan þátt í okkur, t.d. þegar maður fullur hógværðar finnur að hann fyrirlítur fólk yfirleitt. Við getum fundið, að viðhorf, sem var áður að nokkru þekkt er nú víðtækara og öflugra en okkur grunaði. Maður vissi t.d. að hann væri metnaðarfullur, en grunaði ekki að metnaðurinn var með öllu ákvarðandi ástríða í lífi hans og hafði að geyma þörf fyrir hefndarsigur yfir öðrum.

Erfitt er að spá fyrirfram um áhrif innsýnar inn í eigin vandamál. Sólskin getur haft bæði skaðleg og góð áhrif. Innsýn getur verið sársaukafull og einnig léttir. Við höfum að vísu rætt þetta áður í þættinum um skilninginn, en ekki sakar að rifja upp nokkur atriði í þessu sambandi.

Margar ástæður geta legið til þess, að innsýn verði léttir. Minnstu máli skiptir, að innsýn er oft ánægjuleg, andleg reynsla, t.d. að sjá ástæður þess sem áður var ekki skilið. Að viðurkenna sannleika er í sjálfu sér alltaf léttir. Þetta gildir einnig um bernskuminningar, ef þær leiða til skilnings á þróun núverandi vanda. Þá getur innsýn inn í blekkingar, sem viðhorf hefur að geyma, lokið upp fyrir viðkomandi raunverulegum tilfinningum hans. Þegar mönnum er frjálst að láta í ljós reiði, fyrirlitningu, ótta eða gremju eða annað, er var bælt og rauntilfinning kemur í stað lamandi hamla, hefur verið tekið mikilvægt skref í sjálfsleit. Þá kemur mönnum oft hlátur í huga og þeir finna til frelsistilfinningar. Gildir þá einu þótt það sem uppgötvað var sé talið óæskilegt, eins og þegar maður sér að hann vill jafnan stjórna öðrum. Innsýnin leiðir til þess, að ekki er lengur nauðsynlegt að hamla því, að rauntilfinningar séu látnar í ljós.

Þegar bælingunni hefur verið létt af, verður maðurinn frjáls til aðgerða, en hafði verið í blindgötu á meðan viðhorf eða tilfinningar voru bældar. Á meðan hann fann ekki til fjandskapar síns virkaði hann aðeins klaufalegur í samskiptum við aðra og gat ekkert gert við honum. Engin leið var að skilja orsökina eða vita hvenær fjandskapurinn var réttlætanlegur og enn síður að draga úr honum eða leysa hann upp. Ef bælingunni er lyft og maður finnur fjandskap sinn, þá má fyrst líta á hann og síðan leita hvað særði mann, en á það hefur maður einnig verið jafnblindur og á sjálfan fjandskapinn. Þar sem möguleiki skapast á að gera eitthvað í málinu, verður innsýnin léttir. Jafnvel þótt breyting þegar í stað sé erfið er framtíðarleiðin vörðuð. Þetta gildir einnig, þótt fyrstu viðbrögð séu særindi og ótti.

Fyrstu viðbrögð innsýnar geta verið sársaukafull fremur en léttir. Innsýn getur verið ógnun eða viðbrögð við henni veiking sjálfstrausts og vonleysi. Viðkomandi er þá ekki tilbúinn til að gefa á bátinn vissar kröfur á lífið, en þær ráðast af markmiðum og viðhorfum hans. Vegna þess hve viðhorfin og markmiðin eru mjög svo þvingandi nauðsyn, verða kröfur til lífsins ósveigjanlegar. Sá sem t.d. þráir völd, getur látið þægindi, ánægju, hitt kynið, vini og allt það sem venjulega gerir líf eftirsóknarvert, lönd og leið, en völdin verður hann að fá. Á meðan hann er ákveðinn í því að gefa ekki eftir þessa kröfu, verða efasemdir á gildi hennar aðeins til að skaprauna honum eða gera hann óttasleginn. Slík óttaviðbrögð verða með honum, þegar innsýn leiðir í ljós að markmiðið er óæskilegt og það kemur í veg fyrir að hann nái öðrum markmiðum, sem eru honum mikilvæg, eða að hann geti losað sig við ókosti eða þjáningu.

Kvíði sem kemur fram við slíka innsýn, er viðbrögð við þeirri framtíðarsýn, sem upp rennur fyrir okkur og felur í sér að við verðum væntanlega að breyta einhverju í grundvallarviðhorfum okkar, ef við ætlum að ná því að verða frjáls. En þættir sem breyta þarf eru rótfastir og að okkar áliti mikilvægir meðan við þurfum að kljást við okkur og aðra. Við erum þess vegna hrædd við breytingar. Ef okkur finnast slíkar breytingar fráleitar, þótt nauðsynlegar séu til að öðlast frelsi, þá grípur okkur vonleysi. Neikvæð viðbrögð við innsýn, þurfa þó ekki að vera síðasta orðið við vandanum. Þau vara stutt og mönnum léttir, þeim verður brátt ljóst að breyting er möguleg. Segja má, að hver sem viðbrögðin verða við innsýn, sé fólgin í henni áskorun um breytingu og jafnframt röskun á því jafnvægi, sem fyrir er. Við erum að eltast við markmið á kostnað annarra raunverulegri og sannari innri óska.

Ekki má heldur gleyma því, að markmið okkar og viðhorf mynda heild í persónuleika okkar, þannig að hver þáttur er tengdur öðrum. Ekki verður einum þætti breytt án þess að áhrifa gæti áheildina. Einangruð innsýn er því ekki til. Auðvitað getum við hætt eftir ákveðinn þátt og t.d. gert okkur ánægð með árangurinn, sem fengist hefur, en sérhver innsýn, hversu smávægileg sem hún er, gefur sýn inn í nýjan vanda vegna tengsla við aðra þætti. Innsýn getur þannig verið umrót og raskað jafnvæginu. Því ósveigjanlegri sem heildin er, þeim mun minni breytingar verða þolaðar og því meira, sem innsýn snýr að grundvellinum, þeim mun meiri verður kvíðinn og viðnámið. Þörfin fyrir status quo er jafnan rík.

15.2 BREYTING INNRI ÞÁTTA.

Þá er næst að snúa sér að því að breyta þeim þáttum, sem standa í vegi fyrir þroska og frelsi. Hér er ekki aðeins um að ræða mikla breytingu í hegðun og athöfn, eins og hæfni til að koma fram opinberlega, heldur í skapandi vinnu, samvinnu, kyngetu, og góðu skapferli. Er þetta árangur þess að leggja niður markmið og viðhorf. Í raun eru þetta ekki breytingar, heldur árangur breytinga, sem eiga sér stað innra með okkur. Við verðum raunsærri gagnvart sjálfum okkur og öðrum, metum okkur nær sanni, fáum áhuga á starfi, hugrekki og tökum stefnu, sem er sífellt nær okkur, finnum þungamiðjuna liggja í okkur sjálfum, en ekki í umhverfinu, væntum minna af öðrum og ásökum þá síður, verðum einlægari vinir og skiljum fólk betur og vanda þess.

Innsýn ein sér getur haft í för með sér breytingu, ef hún er upplifuð tilfinningalega. Segja mætti, að ekkert hafi breyst við innsýn inn í bældan fjandskap. Fjandskapurinn er þarna, aðeins vitundin um hann er breytt. Mikill munur er þó á því, hvort viðkomandi vissi aðeins, að hann væri uppskrúfaður og tilgerðarlegur, þreyttur, illur í skapi af engu tilefni eða hann veit um ákveðinn fjandskap, sem orsakaði þessi einkenni vegna þess að hann var bældur. Þegar hann uppgötvar fjandskapinn verður hann breyttur maður og samskiptin við fólk hljóta að batna. Uppgötvunin verður hvatning til að rannsaka eðli fjandskapar, draga úr hjálparleysi gagnvart hinu óþekkta. Önnur dæmi má nefna, til dæmis, ef bæld tilfinning fyrir lítillækkun er séð og skilin, leiðir það ósjálfrátt til vinsemdar. Ef ótti við mistök er viðurkenndur er með því dregið úr honum og viðkomandi eflist og treystir sér til að taka áhættu sem hann áður hefur dulvitað forðast.

Innsýn og breyting virðast því haldast í hendur. En því er alls ekki alltaf að heilsa. Þrátt fyrir innsýn, er stundum barist harkalega gegn breytingu. Oft upphefst mikil barátta, t.d. þegar við verðum að hverfa frá eða draga úr hinum þvinguðu lífskröfum okkar, til þess að við getum notið krafta okkar óskiptra til þroska. Þá eru síðustu kraftarnir oft notaðir til að sýna fram á, að breytingar séu ónauðsynlegar eða ómögulegar. Sama gildir ef við stöndum frammi fyrir andstæðum eða árekstrum og verðum að taka ákvörðun. Ekki á þetta við um öll átök eða andstæður. Ef viðkomandi þarf bæði að hafa vald yfir öðrum og jafnframt geðjast þeim, verður ekki hægt að velja milli þessara andstæðna. Þegar bæði markmið hafa verið greind, fær viðkomandi betri tök á samskiptum við sjálfan sig og aðra og þá dregur úr styrkleika beggja markmiða eða hann dvín með öllu.

Hik getur komið á okkur þegar við ákvörðum, hvort við eigum að endurskoða viðhorf okkar vegna innsýnar. Oft eiga sér stað innra með okkur átök á milli kröfu til efnislegra gæða annars vegar og hugsjóna hins vegar. Stundum er skoðanaleysi á yfirborðinu en hugsjónir undir niðri eða þeim afneitað, þegar þær birtast, eða öfugt, óskir um peninga og virðingu hafa verið bældar, en á hinn bóginn haldið fast við hugsjónir eða þá að stöðugt víxlast á breytingar milli skoðanaleysis og hugsjóna. Þegar menn verða varir við slík átök, er ekki nægilegt að sjá þau og skilja afleiðingar þeirra. Eftir að vandinn er að fullu skýrður, verður að taka afstöðu. Taka verður afstöðu til þess, hvort taka á hugsjónirnar alvarlega og hve þáttur efnislegra gæða á að vera stór.

Þau viðfangsefni, sem ég hefi hér lýst eru samtvinnuð. Sjálfsathugun ryður veginn fyrir innsýn og innsýn ryður veginn fyrir breytingar. Hvert skref gildir og hefur áhrif á það næsta. Markmiðið er breyting. Sjálfsþekking er ekki fyrir innsýnina eina, heldur fyrir innsýn til þess að við getum endurskoðað, breytt og náð tökum á tilfinningum, markmiðum og viðhorfum. Við skulum ekki ætla að slíkt takist í einu vetfangi eða án fyrirhafnar. Við verðum sjálf að vinna að eigin þroska, aðrir veita einungis aðstoð. Þótt verkið sé erfitt og vegurinn langur og strangur, þá er ávinningurinn ómetanlegur. Erfitt er að vera hreinskilinn, en hreinskilni er mikil blessun er veitir frelsi. Sama gildir um innsýn og breytingu. Það kostar staðfestu, sjálfsögun og mikla baráttu að fást við sjálfskönnun, en hún er í raun ekki frábrugðin öðrum öflum í lífinu, sem hjálpa okkur til þroska. Það færir okkur aukinn styrk, er við höfum komist yfir þá erfiðleika, sem á vegi okkar verða.

15.3 ÞÁTTUR ANNARRA.

Það er hverjum þungbært að sjá að hann hafi verið að eltast við hugarburð eða tálsýn alla sína ævi. Að allt hafi verið eftirsókn eftir vindi. Sú innsýn krefst róttækra breytinga. Stundum er þá freistandi að loka augunum og reyna að halda jafnvæginu. Innsýnin festir þá ekki rætur og sá hagur, sem hægt er að hafa af henni, fer veg allra veralda.

Að álíta sig mikilvægan er allt annað en að taka sjálfan sig alvarlega. Alvöruleysi gagnvart sjálfum sér er oft réttlætt með ósíngirni eða að hlægilegt sé að hugsa um sjálfan sig. Þetta áhugaleysi á sjálfum sér er einn meginþröskuldur sjálfsskoðunar.

Spyrja mætti, hvort hjálp annarra sé ekki mikilvæg við sjálfsskoðun. Athuganir annarra þurfa ekki að vera betri en okkar eigin. Við erum með sjálfum okkur alla daga, en aðrir ekki. Sérfræðingar vita margt um djúpsálarfræði, en Freud hefur sagt að meginerfiðleikar í sálkönnun séu ekki skilningur, heldur viðnám viðkomandi og hindranir. En getum við yfirstigið eigin hindranir? Í raun stendur sjálfskönnun og fellur með svarinu. Ekki sér augað sjálft sig. Samanburðurinn er ekki réttur, því að hluti persónuleikans, Sjálfið, hefur forgönguna, ef svo má að orði komast. Hvernig til tekst, fer að sjálfsögðu eftir stöðugleika hindrananna eða viðnámsins sem ryðja þarf úr vegi og styrkleika þess afls, sem það á að gera. Hindranir og viðnám verða rædd í næsta þætti og svarað spurningunni, að hve miklu leyti það sé kleift, frekar en hvort það sé kleift.

Vafalaust erum við eins vel til þess fallin og aðrir að skoða eigin hegðun. Við getum skoðað hana í samskiptum við annað fólk og höfum óþrjótandi tækifæri í samskiptum við aðra að skoða viðbrögð okkar og gerðir. Spurningin er aðeins, hve vel við nýtum þau tækifæri sem okkur gefast til þess. Það er erfitt viðfangsefni að meta eigin hlut, þegar spenna er á milli okkar og annarra. Í venjulegum samskiptum, þar sem aðrir eru uppfullir af eigin sérkennilegheitum, hættir okkur til, jafnvel þótt við séum einlæglega ákveðin í að athuga okkur hlutlægt, að kenna öðrum um þá erfiðleika og árekstra, sem upp koma. Okkur hættir til að líta á okkur sjálf sem saklaus fórnarlömb og telja okkur sýna réttmæt viðbrögð gagnvart ósanngirni. Við föllum kannski ekki í þá freistni að ásaka aðra fullum hálsi, en játum ef til vill með hálfum huga að við höfum verið skapstygg, uppstökk, ónákvæm og jafnvel ósanngjörn. Við lítum í laumi á slík viðhorf, sem réttlát og viðeigandi viðbrögð við móðgunum annarra. Því frekar sem við teljum óþolandi að horfa á eigin galla, þeim mun hættara er við, að við verðum af þeim ávinningi sem við fengjum af því að viðurkenna okkar hlut. Samskonar hætta er fólgin í því, ef okkur hættir til að ýkja í hina áttina, með því að hvítþvo aðra og sverta okkur sjálf.

Þá er það svo að markmið okkar og viðhorf ganga venjulega þvert á sjálfshagsmuni okkar, ekki aðeins vegna þess að tengslin við aðra verði síður ánægjuleg, heldur vegna óánægju með sjálf okkur. Þessu gleymum við gjarnan í samskiptum við aðra. Við höldum að við högnumst með því að vera öðrum háð eða óháð, með því að hefna okkar, sigra aðra o.s.frv. og því viljum við síður viðurkenna fyrir sjálfum okkur skaðsemi gjörða okkar.

Þó að það sé ekki auðvelt, er þó hverjum manni fært að yfirvinna þá tilfinningalegu erfiðleika, sem fólgnir eru í eigin athugun á eigin hegðun og viðbrögðum gagnvart öðrum. Þetta gildir þótt umræddir erfiðleikar séu teknir inn í myndina. Þetta hefur margsinnis verið sýnt og sannað og tel ég með öllu óþarft að rekja þær sannanir hér. Hitt er annað mál, að kunningi eða góður vinur getur veitt stuðning og hjálp og dregið úr þeirri einangrun, sem menn finna oft til í eigin sjálfsathugun. Gott er að ræða athuganir og niðurstöður við aðra, ef þess er kostur, en að stunda sjálfsskoðun einn og óstuddur er erfið leið. En það eykur sjálfstraust að komast einn og óstuddur að niðurstöðum um sjálfan sig og sigrast á viðhorfum og markmiðum. Sá árangur sem þannig næst, ristir líka dýpra og festir betri rætur en ella. Enginn tileinkar sér neitt eins rækilega og það sem hann uppgötvar sjálfur einn og óstuddur.

15.4 SKYNDISKOÐUN.

Árangursríkt getur verið að skoða sjálfan sig við einstök tækifæri. Flestir gera það, er þeir reyna að kanna, hvaða hvatir hafi legið að baki gerðum þeirra og tilfinningum. Sá sem verður ástfanginn af fallegri eða auðugri stúlku getur spurt sig, hvort hégómaskapur eða peningar hafi átt þar sinn þátt. Sá sem ekki tekur mark á dómgreind sinni og gefur eftir í deilu við vin sinn, gæti spurt sig, hvort hann hafi gefið eftir af því að hann væri sannfærður um léttvægi þess efnis eða atriðis, sem um var deilt eða af því að hann óttaðist deilur við vin sinn. Fólk hefur alltaf skoðað sig með þessum hætti. Oft getur eitthvert einstakt einkenni, svo sem höfuðverkur, kvíði eða ótti við að koma fram leitt til slíkra skyndi eða tækifærissjálfskoðana. Sterkur draumur, gleymska eða skyndireiði af litlu tilefni, gæti verið hvati til slíkrar skoðunar, til þess að reyna að finna ástæðuna fyrir því sem gerðist.

En gera verður greinarmun á slíkri tilviljunarkenndri skoðun vegna einhvers ákveðins vandamáls, sem skyndilega kemur upp og kerfisbundinni vinnu við skoðun á sjálfum sér. Við skyndiskoðun er reynt að finna, hvaða þættir voru valdir að trufluninni og síðan að uppræta þá þætti. Hið breiðara markmið, að vilja vera hæfari til að fást við lífið almennt, getur líka verið til staðar, en er þó takmarkað við þann þátt, sem fengist er við. Segja má, að þá sé að litlu leyti sinnt miklu breiðari og dýpri ósk um að þroska hæfni sína og getu.

Miklu minni þekkingu þarf til slíkrar tækifærisskoðunar, oft dugar reynsluþekking, sem menn hafa öðlast af lífinu sjálfu, þ.e. án þess að hún hafi verið lærð af bókum eða af öðrum. Þó verður á vissan hátt að viðurkenna, að dulvituð öfl ráði ferðum okkar að nokkru. Ekki er nægilegt, að menn geri sig ánægða með tilbúnar skýringar á vandanum. Svo tekið sé dæmi af manni, sem orðið hefur óeðlilega æstur af því að leigubifreiðastjóri hefur platað hann um 100 krónur. Hann má ekki verða sáttur við þá skýringu, að þegar allt komi til alls, þá vilji menn almennt ekki láta hafa af sér fé. Ef tekið er annað dæmi, þá getur sá sem er þunglyndur ekki sætt sig við þá skýringu að það sé eðlilegt þar sem ástand heimsmála sé svona slæmt. Sá sem gleymir stefnumótum, má ekki skýra slíkan ávana með því að halda því fram, að hann hafi of mikið að gera til að muna eftir þeim.

Ýmis einkenni, sem ekki virðast sálræn má afgreiða mjög auðveldlega svo sem höfuðverk, magakveisu eða þreytu. Líta má á þessi einkenni frá gagnstæðum viðhorfum. Annars vegar að kenna um ytri aðstæðum, svo sem veðri, matarræði o.s.frv. án þess að telja að sálrænum ástæðum sé til að dreifa. Þá er innri veikleiki ekki þolaður. Hinar öfgarnar liggja í því að telja öll slík einkenni eiga sér sálrænar ástæður. Þá er ekki litið svo á, að þreyta stafi af yfirvinnu. Slíkt fólk telur, að ytri aðstæður hafi ekki áhrif á það. Það hafi sjálft komið einkennunum til leiðar og það sé því í valdi þess að fjarlægja þau.

Auðvitað er hinn gullni meðalvegur oftast einhvers staðar þarna mitt á milli. Við getum verið áhyggjufull vegna ástands heimsmálanna en það ætti frekar að hvetja okkur til dáða en gera okkur þunglynd. Við getum verið þreytt vegna yfirvinnu og lítils svefns. Líkamleg einkenni ætti jafnan ekki að rekja til sálrænna ástæðna fyrr en læknisfræðilegar skýringar hafa verið gefnar. En menn skyldu einnig líta á tilfinningalíf sitt og gæta að því, hvort sálrænar ástæður séu ekki einnig fyrir einkennunum.

Jafnan er freistandi að vera ekki hreinn og beinn við sjálfan sig og oft frestum við ákvörðun dulvitað, ef við sjáum erfiðleika framundan. Stigsmunur getur hér verið mikill og spurning um áherslur. Við skyldum ekki verða of bjartsýn um möguleika og árangur skyndisjálfsskoðunar. Innsýn er ekki auðveld og erfitt að rekast á eitthvað verulega verðmætt. Sá sem er verulega fjötraður í eigin sálarflækjum hefur tilhneigingu til að vonast eftir kraftaverki. En fullyrða má, að ekkert sem verulegu máli skiptir leysist með skyndisjálfsskoðun. Meginástæðan er sú að persónuleikinn er ekki samsafn einstakra þátta, heldur er sérhver þáttur hluti af órofa heild. Með skyndisjálfsskoðun finnast stöku sinnum tengsl hér og þar, og komist er til skilnings á þáttum sem koma okkur í gott eða þungt skap eða hafa viss einkenni. En til að breytast í grundvallaratriðum, er nauðsynlegt að vinna sig í gegnum heildargerðina og það verður aðeins gert á kerfisbundinn hátt.

Skyndisjálfsskoðun sem gerð er mjög lauslega, er því eðli máls samkvæmt ekki líkleg til víðtækrar sjálfsþekkingar. Innsýn er þá ekki fylgt nægilega vel eftir. Sérhvert vandamál, sem fram kemur, býður sjálfkrafa upp á enn annað. Ef þeir þræðir, sem í ljós koma, eru ekki raktir áfram verður sú innsýn sem fengist hefur mjög einangruð. Hún getur að vísu slakað á spennu og upplýst merkingu einstakra einkenna, en allt verður það tilviljunarkennt.

15.5 SKIPULÖGÐ SJÁLFSKOÐUN.

Skipulögð sjálfsskoðun greinir sig frá skyndisjálfsskoðun að því leyti að í hana er lögð mikil og langvarandi vinna. Þá er ekki litið á einangraða innsýn eina og sér, heldur farið djúpt og ítarlega í málin. Vinnan er stöðug, þar sem innsýn er fylgt eftir. Þá er ekki látið nægja að taka upp þráðinn, þar sem hann gefst hverju sinni. Þegar innsýn er fylgt eftir lengra en auðvelt er, kemur í ljós viðnám eða mótstaða viðkomandi, og hann mætir alls konar óvissu og sárindum og við þessi gagnöfl verður hann að kljást. Það krefst annars viðhorfs en þegar um skyndisjálfsskoðun er að ræða. Þegar um hana er að ræða, þá er hvatinn venjulega það sem truflar og nauðsyn er að létta á honum. En þegar um skipulagða sjálfsskoðun er að ræða, er hvatinn að vísu ekki ósvipaður, en heildarmarkmiðið brennt þeim vilja, að viðkomandi tekst á við sjálfan sig, vilja til að þroska og taka á öllu því sem kemur í veg fyrir þroska. Það er viðhorf skilyrðislauss heiðarleika gagnvart sjálfum sér. Við getum aðeins fundið okkur sjálf að því marki, sem þetta viðhorf megnar að ná.

Auðvitað er munur á vilja og getu til að vera heiðarlegur. Við getum venjulega ekki staðið við heiðarleikamarkmið okkar. Það má þó vera huggun, að værum við alltaf opinská, falslaus og hreinskilin við okkur sjálf væri sjálfsskoðun ekki þörf og hæfnin til að vera heiðarlegur við sjálfan sig eykst eftir því sem meiri viðleitni er sýnd til þess. Við hverja fyrirstöðu, sem er yfirstigin, stækkar yfirráðasvæði Sjálfsins. Það hefur aftur í för með sér aukinn innri styrkleika til að fást við næstu hindrun.

Ekki er nóg að taka ákvörðun um skipulagða sjálfsskoðun, heldur er nauðsynlegt að afla sér þekkingar svipaðri þeirri sem ég hefi verið að lýsa í þessum þáttum mínum og verða kunnugt um þau öfl, sem í okkur búa. Draumaráðningar geta annars hæglega orðið fánýtar getspár, jafnvel þótt draumurinn sé augljós. Einfaldur draumur býður margar ólíkar lausnir. Ef eiginmann dreymir dauða konu sinnar, getur sá draumur merkt dulvitaðan fjandskap. Hann getur einnig merkt skilnaðarlöngun, en þar sem það skref verður af einhverjum ástæðum ekki tekið, birtist dauðinn sem eina mögulega lausnin. Einnig getur verið um að ræða dauðaósk, sem stafar af stundarreiði, sem bæld hefur verið. Lausnir vandamálanna verða því ólíkar eftir draumaráðningunni. Í þeirri fyrstu þyrfti að grafast fyrir um ástæður fyrir hatrinu og bælingu þess. Í þeirri annarri að svara spurningunni, af hverju önnur lausn var ekki fyrir hendi og í þeirri þriðju, þyrfti að rannsaka þær aðstæður sem valda reiðinni.

Ef skilningur hefur náðst á einhverju atriði, getur draumur verið staðfesting þess skilnings. Hann getur veitt skilning á eyðu sem lá fyrir hendi eða hann getur lokið upp nýju sviði. En ef myndin er óljós vegna viðnáms eða mótstöðu, er draumur ekki líklegur til að skýra málið. Hann getur líka gert það, en málið getur verið svo samofið viðhorfum, sem ekki hafa verið viðurkennd, að hann upplýsi ekkert, heldur auki aðeins á ruglinginn. Þessar bollaleggingar ættu þó ekki fæla menn frá því að reyna að ráða drauma sína. Villa getur legið í því að leggja svo mikla áherslu á drauma, að aðrar athuganir, sem hafa jafnmikið gildi, víki fyrir þeim. Einnig getur hið gagnstæða átt sér stað, þ.e. við viljum stundum ekki taka draum alvarlega af því að hann sé svo furðulegur, hrikalegur eða ýktur veruleiki. Við höfum þá oft gildar ástæður til þess að koma í veg fyrir að merking hans hafi áhrif á okkur. Þannig eru draumar mikilvæg upplýsingalind, en ein af mörgum.

Draumar gefa ekki mynd af tilfinningum og skoðunum, eins og um ljósmynd væri að ræða, heldur gefa þeir fyrst og fremst til kynna tilhneigingar. Að sjálfsögðu getur draumur upplýst ljósar en vökuvitundin um raunverulegar bældar tilfinningar okkar, t.d. ást, hatur, grun, söknuð o.s.frv. En draumar eru fremur einkennandi fyrir óskhyggju, eins og Freud benti á. Þetta þýðir ekki að draumur tákni ákveðna ósk eða eitthvað, sem við teljum æskilegt, óskhyggjan liggur frekar í því sem draumurinn gefur til kynna, en í efni hans, þótt skýrt sé. Draumar benda til viðhorfa okkar og þarfa og sýna oft tilraunir til lausnar á andstæðum, sem við erum haldin. Draumur sýnir leik tilfinningaaflanna, frekar en staðreyndir. Ef tveim gagnstæðum öflum í okkur lendir saman, getur útkoman orðið kvíðadraumur. Ef okkur dreymir einhvern, sem við alla jafna virðum og líkar vel við, en í drauminum birtist hann sem fyrirlitleg eða hlægileg persóna, skyldum við leita að þörf okkar fyrir að gera lítið úr honum, frekar en að komast að þeirri niðurstöðu, að draumurinn upplýsi okkur um leynda skoðun okkar á honum.

Annað atriði sem vert er að minnast á, er að við skiljum ekki draum fyrr en getum tengt hann við það sem olli honum eða var hvati hans. T.d. er ekki nóg að finna í draum þörf fyrir að lítillækka eða hefna okkar almennt. Alltaf verður að spyrja um hvað hafi verið kveikjan að draumnum, við hverju var draumurinn að bregðast. Ef þetta samband er uppgötvað, getum við lært mikið um þá reynslu, sem við upplifum sem ógnun eða móðgun og þau dulvituðu viðbrögð, sem af því stafa.

Einhliða áhersla á drauma er varasöm. Önnur varasöm aðferð við sjálfskönnun er það sem kalla mætti leiftursóknaraðferðina. Hvatning til að horfa heiðarlega í eigin barm kemur venjulega til vegna þess að hamingja eða hæfni er hömluð af einhverjum augljósum ástæðum svo sem vegna þunglyndis, þreytu, kvíða, svefnleysis, verkleiða, feimni o.s.frv. Þá snúa menn sér oft að vandanum með leiftursókn. Reynt er að finna hvaða dulvituðu þættir séu orsakavaldar án þess að þekkja heildarmynd eða uppbyggingu persónuleikans. Ágætar spurningar koma þá væntanlega í hugann en lítið meira en það. Ef um verkhömlur er að ræða, gæti viðkomandi spurt sig, hvort hann sé of metnaðargjarn eða hvort hann hafi í raun áhuga á því verki sem hann fæst við eða hvort hann lítur á það sem skyldu, sem hann gerir uppreisn gegn. Síðan kemst hann ekki lengra með könnunina og kemst að þeirri niðurstöðu að sjálfskönnun gagni ekki.

Leiftursókn er jafnan vont verklag, ekki síst í sálfræðilegum efnum. Við eigum við mannlegar tilfinningaflækjur að stríða með margþættum viðhorfum sem ganga þvert á hvert annað, ótta og ímyndanir. Verkhömlur eru ein afleiðing alls þessa, og sá sem heldur, að hann losni við þær með einfaldri aðgerð, byggir á óskhyggju. Í raun er sú óskhyggja á ferðinni að vilja losna við vandann án þess að þurfa að hrófla við neinu í sjálfum sér. Okkur líkar yfirleitt ekki að þurfa að horfast í augu við þann sannleik, að hinir ytri erfiðleikar stafi af því, að eitthvað sé í grundvallaratriðum rangt í samskiptum okkar við sjálf okkur og aðra.

Auðvitað vill viðkomandi losna við vandræði sín og ekki skyldi hann láta sem hann hefði ekki áhuga á því eða útiloka þau úr huga sér, en betra er að fara þá leið að hafa vandann bak við eyrað, ef svo má segja, sem svæði sem væntanlega verði rannsakað. Hann verður að þekkja sjálfan sig æði vel áður en hann getur öðlast þekkingu á vanda sínum. Eftir því sem sú sjálfsþekking eykst sér hann, ef hann er vökull, smátt og smátt þá þætti, sem felast í vandanum.

Vandann má kanna með því að athuga sveiflur eða breytileika í tíðni hans eða birtingu. Einkennin eru ekki alltaf jafnsterk. Fyrst áttum við okkur ekki á því, hvað veldur slíkum sveiflum. Við höldum gjarnan, að ástæðurnar séu svo sem engar, heldur liggi þær í eðli vandans. Þannig er því venjulega ekki farið. Ef nánar er gætt að, sjáum við þátt hér og þar, sem leiðir til hins betra eða verra. Þegar við höfum öðlast nasasjón af eðli þeirra þátta, sem valda þessum sveiflum, skerpist athygli okkar, sem aftur leiðir til þess að við öðlumst smátt og smátt heildarmynd af stöðunni.

Ekki er nóg að kanna það sem mest ber á í fari okkar. Við verðum að nota hvert tækifæri til að kynnast okkur sjálfum. Flest fólk veit lítið um sjálft sig og kynnist aðeins smátt og smátt í hve mikilli vanþekkingu það hefur lifað. Tækifæri gefast til að kynnast sjálfum sér og við munum sjá þessi tækifæri og nota þau, ef við viljum á annað borð kynnast þessum undarlega náunga, sem lifir lífi okkar. Þá sjáum við okkur til undrunar, að við erum skapvond án sýnilegrar ástæðu, getum ekki tekið ákvarðanir, vorum óþægileg án þess að ætla það, höfum misst matarlyst á einhvern dularfullan hátt, borðum yfir okkur, komum okkur ekki til að svara bréfi, höfðum martröð, urðum særð eða okkur fannst gert lítið úr okkur, við gátum ekki borið fram ósk eða gagnrýni. Allar slíkar óendanlega mörgu athuganir geta verið dyr að hinu óþekkta í okkur. Við byrjum að undrast. Hér eins og annarsstaðar er undrun upphaf vísdóms, og með hugtengslaaðferð getum við reynt að skilja merkingu allra þessara tilfinningabrigða.

15.6 TÍMI OG SKRIF.

Athuganir, sem við gerum á sjálfum okkur, og þau hugtengsl og spurningar, sem þær vekja, eru sá efniviður sem unnið er úr við sjálfskönnun. Reglubundnar athuganir, t.d. á tilteknum tímum og dögum hafa sína kosti vegna samhengis og nauðsynjar á kerfisbundinni vinnu. Þó er vafasamt að reglusemin hafi mikið gildi. Ýmislegt getur komið í veg fyrir að fylgja megi henni, svo sem hlutir sem ekki þola bið eða okkur finnast ekki þola bið. Við erum heldur ekki alltaf tilbúin til þessara hluta og á ólíklegustu stundum getur sjálfskönnun reynst árangursrík. Stundum höfum við þörf fyrir sjálfsathugun og á öðrum stundum ekki. Þegar við erum óupplögð getur það stafað af dulvituðu viðnámi, og það viðnám yfirvinnur enginn sjálfsagi.

Sérstaka áherslu verður að leggja á það, að sjálfskönnun má aldrei verða skylda. Það kemur í veg fyrir að innri öfl birtist ósjálfrátt eða af sjálfsdáðum, sem er ómissandi og hefur mesta gildið. Við völdum okkur ekki tjóni, þótt við þvingum okkur til að gera líkamsæfingar, þegar okkur er það á móti skapi. En sjálfskönnun við slíkar aðstæður verður dauf og ófrjó, og getur einmitt valdið því, að hún fari að öllu leyti út um þúfur.

Reglusemi á þessum vettvangi er þess vegna ekki sérstakt markmið, þó hún sé æskileg vegna samhengis og til að átta sig á viðnámi. Ef óregluleg vinnubrögð leiða til þess, að við forðumst vandann, eltir hann okkur engu að síður. Jafnvel þótt verkið taki meiri tíma, skiptir það ekki meginmáli, við tökum það jafnan aftur upp þar sem frá var horfið, þegar við fáum til þess löngun. Sjálfskönnun á að vera okkur hollur og góður vinur, en ekki kennari, er heimtar árangur. Þetta þýðir þó ekki að mælt sé með dundi við sjálfskönnun eða hún ekki tekin alvarlega. Vináttu verður að rækta, eigi hún að hafa inntak í lífi okkar. Sjálfskönnun hlýtur alltaf að verða í rykkjum. Sumir tímar eru hagstæðari en aðrir. Ytri aðstæður eru misjafnar og þeir tímar koma jafnan, að við erum svo upptekin að lifa lífinu að slíkt starf kemst ekki að og við finnum minni þörf fyrir sjálfskönnun. Lífið sjálft er besti kennarinn og kemur okkur oft til meiri þroska, en sjálfskönnun gæti gert.

Sama er, hvort við veitum aðeins athygli því sem í hugann kemur eða skrifum það niður allt eða aðeins punkta. Sumum er auðveldara að einbeita sér við skriftir, en öðrum finnst athyglin dreifast við skriftir. Þó er sá kostur við að skrifa niður lykilorð, að við missum síður þráðinn eða gleymum og sleppum síður úr, eitthvað sem við teljum lítilvægt. Þá er sá kostur við skrifin, að fara má yfir þau á ný. Oft er hægt að missa af mikilvægum tengslum í fyrstu, en uppgötva þau síðar, þegar farið er yfir eigin athugasemdir. Niðurstöður og ósvaraðar spurningar vilja gleymast og nauðsynlegt er að rifja þær upp og gömul niðurstaða sést þá stundum í nýju ljósi. Einnig verður þá kannski ljóst, að staðið er í stað og ekkert nýtt hefur gerst, e.t.v. eftir marga mánuði. Þess vegna er ráðlegt að skrifa niður niðurstöður og meginforsendur þeirra, þótt þær hafi verið fengnar í upphafi án skrifa. Af því að hugsanir eru fljótari í förum en skrif, er ráðlegt að skrifa í fyrstu aðeins lykilorð.

Mörgum kann að koma í hug dagbók í þessu sambandi, sérstaklega þegar henni er ekki ætlað að vera skýrsla atburða heldur sönn lýsing tilfinningalegrar upplifunar og markmiða. En munurinn er þó nokkur. Dagbók getur í mesta lagi verið skráning þeirra tilfinninga, hugsana og markmiða, sem við höfum vitund um. Hún er í raun upplýsandi fyrir hinn ytri heim en upplýsir höfundinn þeim mun minna. Eitt er að upplýsa um það, sem maður hefur haldið leyndu, annað um það, sem hann vissi ekki af áður. Yfirleitt er leit að markmiðum í dagbók aðeins lauslegar ágiskanir. Þótt dagbækur hafi mikið gildi, eru þær frábrugðnar sjálfskönnun. Enginn getur sagt frá sjálfum sér á sama tíma og hugtengslaaðferð er beitt. Dagbókarhöfundur hefur einnig oft þá duldu áætlun að bókin verði lesin af öðrum. Slíkt dregur úr heiðarleika. Hann bætir þá við og breytir óvart og jafnvel af ásetningi, fellir úr þætti, dregur úr göllum, skellir skuldinni á aðra eða öfugt. Sama gildir auðvitað ef skráð eru hugtengsl með aðdáendahóp í huga eða ef ætlunin er að skapa einstakt meistaraverk. Þá er hugurinn ekki frjáls. Allt sem skrifað er ætti að vera gert í þeim tilgangi að reyna að þekkja sjálfan sig.