XIX HVAÐ ER PERFEKTIONISMI?

18.0 SJÁLFSFEGRUN.

18.1 HLUTVERK SJÁLFSÍMYNDAR.

18.2 HIN DJÚPA GJÁ.

18.3 VIRÐINGARÁHUGI.

18.4 STÆKKUNARÞÖRF.

18.5 PERSÓNULÝSING.

18.6 ORSAKIR.

18.0 SJÁLFSFEGRUN.

Í síðasta þætti var lögð áhersla á narcissus sem andlega útþenslu, sem lýsti sér í firringu gagnvart öðrum, eigingirni, missi sjálfsins og sjálfstrausts. Þarna var um að ræða narcissus í víðari merkingu og verður haldið áfram að ræða efnið á þeim grunni. Gera má þó mun á sjálfsfegrun og narcissus í þrengri merkingu. Í síðara tilvikinu er um að ræða samsömun við sjálfsímynd sína, viðkomandi hefur ást á henni og dáist að henni. Segja má, að sjálfsfegrun eigi sér stað í sambandi við alla þætti persónuleikans, en með sjálfsfegrun er m.a. verið að tengja saman gagnstæður í persónuleikanum. Narcissus í þrengri merkingu er hins vegar ein ákveðin lausn til að ná yfirhönd gagnvart umhverfinu. Ég tek þetta allt saman til athugunar í þessum þáttum um narcissus, þar sem fyrirbrigðin eiga að verulegu leyti sammerkt, að alltaf er um að ræða að upphefja sig vegna minnimáttarkenndar. Skal nú aðeins vikið að sjálfsfegrun.

Við búum okkur til sjálfsímynd af því sem við teljum okkur vera, teljum okkur geta verið eða ættum að vera. Hvort sem það er meðvitað eða dulvitað, er þessi ímynd því miður ævinlega að einhverju leyti í ósamræmi við veruleikann, þótt áhrif hennar á persónuleikann séu samt sem áður veruleg. Þessi ímynd er alltaf fegruð af okkur, talsvert meira en okkur grunar. Hún er mismunandi hjá hverjum og einum og ákvarðast að verulegu leyti af heildarpersónuleikanum. Einn dregur fegurðina fram, annar valdið, sá þriðji gáfurnar, sá fjórði heiðarleikann, sá fimmti hógværðina o.s.frv. Að því leyti sem þessi ímynd er óraunsæ, eignum við okkur eiginleika, sem við höfum raunverulega ekki. Við getum haft möguleika á að öðlast þessa eiginleika, en höfum samt sem áður ekki gert það. Því óraunhæfari sem þessi sjálfsímynd er þeim mun viðkvæmari erum við og berskjaldaðri gagnvart gagnrýni og þurfum meiri staðfestingu og viðurkenningu. Við þurfum alls ekki staðfestingu eða viðurkenningu þeirra eiginleika okkar, sem við erum viss um, en erum mjög viðkvæm, þegar dregnir eru í efa eiginleikar, sem við teljum okkur hafa, en eiga sér ekki trausta stoð í veruleikanum.

Sjálfsímyndin er dulvituð að verulegu leyti. Þótt utanaðkomandi sjái yfirleitt, að við séum að fegra okkur, verðum við þess lítt vör. Einnig gerum við okkur litla grein fyrir þeim tilbúningi, sem sjálfsímyndin er. Við vitum að við gerum kröfur til sjálfra okkar og vefengjum ekki gildi þeirra, en ruglum kröfunum saman við eiginlegar innri óskir. Staða þessa sköpunarverks gagnvart okkur sjálfum er breytileg og háð áhugasviði. Ef áhugi okkar er fólginn í að sannfæra okkur um, að við séum eigin sjálfímynd, þá reynum við að telja okkur trú um að við séum eitthvað sérstakt. Hér birtist narcissus. Ef við einblínum á hið raunverulega sjálf í samanburði við sjálfsímyndina, þá fyrirlítum við það og gagnrýnum sjálf okkur. Þar sem mynd okkar af sjálfum okkur, sem verður til við slíkan samanburð, er í raun jafn óraunhæf og sjálfsímyndin, gætum við nefnt hana hið fyrirlitlega sjálf. Ef við hins vegar einblínum á mismuninn sem er á sjálfsímyndinni og því sem við erum í raun, reynum við gjarnan að brúa bilið og þvinga okkur til fullkomnunar. Þá er sífellt endurtekið: ég vil, ég ætla o.s.frv. Við tölum um það, sem við hefðum átt að gera, hugsa o.s.frv. Í raun erum við þá sannfærð um að við gætum verið fullkomin og erum því ekkert betri en narcissusinn, þ.e.a.s. við höldum að við gætum verið fullkomin, ef við værum strangari við sjálf okkur, yfirvegaðri og betur skipulögð.

Gagnstætt innri hugsjónum, er sjálfsmyndin stöðnuð og óbreytanleg. Hún er ekki markmið, sem við sýnum viðleitni til að nálgast, heldur ákveðin mynd, sem við dýrkum. Hugsjónir eru hreyfanlegar hugmyndir og við höfum tilhneigingu til að nálgast þær. Þær eru óhjákvæmilegt afl til þroska og þróunar. Sjálfsímynd hindrar þroska, því annað hvort afneitar hún takmörkunum og göllum eða dæmir þá. Sannar hugsjónir gera okkur hógvær, en sjálfsímyndin hrokafull.

Sjálfsímyndin getur kallast hið ímyndaða eða skáldaða sjálf, en það segir aðeins hálfan sannleikann. Óskhyggjan sem býr að baki sköpun hennar er mjög áberandi, jafnvel hjá mönnum, sem við teljum raunsæja. Hún er samt sem áður ekki einber skáldskapur. Þetta sköpunarverk er samofið og ákvarðað af raunsæjum atriðum. Venjulega inniheldur ímyndin einnig sannar hugsjónir okkar. Afrekin eru oft ýkt, en getan að baki raunsæ. Ímyndin verður til af innri nauðsyn. Hún hefur ákveðnu hlutverki að gegna og djúp áhrif á skapara sinn. Sköpun ímyndarinnar er háð ákveðnum lögmálum, þannig að vitum við um hana, vitum við mikið um persónuleikann.

Ekki skiptir máli, hversu hugarins tilbúningur er samofinn sjálfsímyndinni, okkur finnst hún jafnan raunsæ. Því rótfastari sem sjálfsímyndin er, þeim mun meira erum við hún að okkar mati. Raunsjálfið hefur þá fjarað út að sama skapi. Þannig verður sjálfsímyndin til að þurrka út raunveruleikann um leið og hún beinir birtunni að sér. Sjálfsímyndin hefur oft orðið okkur til hjálpar og þess vegna skiljum við ekki, að við séum bættari án hennar. Ef við gröfum undan henni, sjáum við veikleika okkar, innri árekstra og eigin fyrirlitningu og ekki er það aðlaðandi verk. Meðan við höldum fast í sjálfsímyndina, getum við fundið til yfirburða okkar og verið í jafnvægi. Sá boðskapur að við eigum möguleika á að verða meiri og sterkari persónuleikar og öðlast það sem er meira virði en öll dýrð sjálfsímyndarinnar, hefur enga meiningu fyrir okkur. Við erum of hrædd við stóra stökkið út í myrkrið. Við getum ekki sleppt.

En við skulum gera okkur grein fyrir því, að bygging sjálfsímyndarinnar er óstöðug, einmitt vegna þess að hún er hugarins tilbúningur. Við erum alltaf í hættu. Ytri gagnrýni, vitund um að okkur muni mistakast að uppfylla kröfur ímyndarinnar, getur leitt til þess að hún brotni í spón. Við verðum að takmarka líf okkar til að eiga ekki slíkt á hættu, forðast aðstæður þar sem við erum ekki viðurkennd, forðast störf sem við ráðum ekki fullkomlega við, sækjast ekki eftir starfi af ótta við að fá það ekki o.s.frv. Hræðsla við lítillækkun dregur þannig úr athöfnum, en þar sem ekkert næst nema með viðleitni og starfi, er tekið fyrir árangur og bilið breikkar milli sjálfsímyndar og raunsjálfsins.

Versti galli sjálfsímyndar er firring frá sjálfum okkur. Við bælum eða byggjum út verulega þætti í okkur, án þess þó að þeir verði að fullu aðskildir eða stíaðir frá okkur. Okkur verður þá óljóst, hvað við raunverulega finnum, trúum, viljum eða viljum ekki. Við getum sem sé lifað lífi sjálfsímyndar án þess að vita það. Menn missa þá áhuga á lífinu, því það eru ekki þeir sjálfir sem lifa því. Ekki er hægt að taka ákvarðanir, því viðkomandi veit ekki hvað hann raunverulega vill. Ef við erum óraunsæ við okkur sjálf, getum við verið haldin óraunveruleikakennd almennt. Sú slæða óraunveruleikans, sem ríkir hið innra, teygir sig til hins ytra. Eða eins og maðurinn sagði: “Ef raunveruleikinn truflaði ekki, væri allt í lagi.”

18.1 HLUTVERK SJÁLFSÍMYNDAR.

Í grundvallaratriðum kemur sjálfsímynd í stað raunverulegs sjálfsálits, þ.e. ef okkur hefur af einhverjum ástæðum ekki tekist að byggja upp eðlilegt sjálfsálit, t.d. vegna erfiðleika í æsku eða seinni reynslu og þróunar. Erfitt er að segja fyrir um þessi skilyrði. Vera kann að við höfum ekki haft tækifæri til að láta tilfinningar okkar frjálslega í ljósi, þróað með okkur einlæg viðhorf og markmið, sem koma frá okkur sjálfum eða haft tækifæri til að hafa stjórn á og leiða okkar eigið líf ein og óstudd. Sérhvert dulvitað markmið spillir sjálfsákvörðun, þar sem okkur er stjórnað í stað þess að vera sjálf við stjórnvölinn. Erfitt er að ákveða eigin leið á meðan við erum háð fólki, verðum að geðjast því, hafa yfirburði yfir það eða gera uppreisn gegn því. Með því að bæla tilfinningar okkar, eru þær teknar úr umferð, ef svo má segja. Allt þetta getur leitt til þess, að erfitt er að finna eigin stefnu, eigin leið í lífinu. Ef við erum undirorpin átökum gagnstæðra markmiða, erum við skipt í eigin húsi og skortir allan grundvöll. Allt þetta getur leitt til þess, að við sækjumst eftir völdum og virðingu. Von og þrá eftir fullkominni getu leynist alltaf einhver staðar í sjálfsímyndinni.

Í öðru lagi hefur sjálfsímyndin öðru hlutverki að gegna, sem nátengt er því, sem hér var rakið. Við höfum öll haft okkar óvini, við höfum verið blekkt, niðurlægð, sigruð og ráðskast hefur verið með okkur. Okkur hættir því óspart til að bera okkur saman við aðra, ekki af hégómagirnd eða duttlungum einum saman, heldur af brýnni nauðsyn. Ef okkur finnst sem við séum veik og fyrirlitleg, leitum við að einhverju sem fær okkur til að líða betur, vera öðrum meira virði. Hvort sem leiðin er sú, að finna sig ágætari, óbilgjarnari, umhyggjusamari eða kaldranalegri, verðum við með einhverjum hætti að finna leið til yfirburða eða verða öðrum fremri og skiptir þá ekki máli hvaða leið við finnum til þess. Alltaf er í þessu fólgin einhver löngun til að sigra aðra, þar sem handan við næsta horn er hætta á ferðum, við óttumst að litið verði niður á okkur eða við lítillækkuð. Þörfin fyrir að sigra aðra er okkur dulvituð lækning eða lyf gegn lítillækkun, hvort sem gengið er til verks að sigra eða við gerum það aðeins í huga okkar. Sigurinn er driffjöðrin í þörfinni fyrir yfirburði og gefur henni viss einkenni. Samkeppnisþjóðfélagið hefur ekki aðeins truflandi áhrif á mannleg samskipti, heldur eykur verulega þörfina fyrir yfirburði.

Með framangreindu kemur sjálfsímynd í staðinn fyrir sjálfsálit og jafnvel sjálfstraust. En hún gegnir öðru hlutverki. Þar sem markmið okkar eru hvert í sína áttina, hafa þau ekkert skuldbindandi gildi fyrir okkur. Markmiðin eru auk þess óljós og óskilgreinanleg og veita því enga leiðsögn. Því er það, að ef við sýndum ekki þessa viðleitni til að skapa eigin ímynd og fá þannig meiningu í lífið, værum við að meira eða minna leyti án takmarks eða tilgangs. Þetta sést skýrast, þegar við látum af sjálfsímyndinni, þá finnst okkur við vera týnd eða án átta, einkum þegar við sjáum að eigin hugsjónaglundroði er óæskilegur. Áður en við athugum sjálfsímyndina, höfum við ekki áhuga á þessu efni og skiljum það e.t.v. lítt, en eftir því sem við getum losað okkur úr þessari ímynd, þá sjáum við að hugsjónir skipta máli og við fáum löngun til að finna okkar eigin. Þessi ferill sannar einmitt að sjálfsímyndin kemur í staðinn fyrir sannar eigin hugsjónir. Við fáum ekki áhuga á þessu efni, fyrr en við höfum efni á að losa okkur við sjálfsímyndina.

Enn eitt hlutverk sjálfsímyndar er það, að vera eins konar mynd, þar sem kostir okkar sjást. Með því hverfa gallar og takmarkanir eða verða óljósari. Þetta skeður eins og ef máluð væri mynd af því sem við vildum sjá. Þetta leiðir þó til þess, að rétt er að spyrja: Hvað teljum við galla okkar og takmarkanir? Við þessu er nokkuð ákveðið svar. Það sem við álítum galla eða takmarkanir hjá okkur er undir því komið, hvað við viðurkennum eða höfnum hjá okkur. Það er aftur undir því komið, hvaða markmið við höfum sett okkur og hvaða hlið persónuleikans er viðurkennd. Sá sem vill umfram allt geðjast öðrum, lítur ekki á ótta sinn eða hjálparleysi sem ljóð á ráði sínu. Aftur á móti þykir þeim, sem vill vera harður kjarkmaður, slíkt skammarlegt og hann myndi fela slíkar tilfinningar fyrir sér og öðrum. Sá sem vill geðjast öðrum og vera vinsamlegur, lítur á það sem synd að vera fjandsamlegur eða árásargjarn. Harðjaxlinn eða sá sem vill vera sterkur persónuleiki lítur á fínni tilfinningar sem fyrirlitlegan veikleika. Allir hafna sem tilbúningi, því sem tilheyrir þeirri hlið persónuleikans, sem hann sækist eftir að vera. Sá geðfelldi hafnar því, að ást hans og örlæti sé uppgerð. Sá sjálfstæði vill ekki sjá, að frelsi hans er ekki afleiðing eigin frjáls vals, þ.e. að hann verður í raun að forðast aðra. Báðir þessir persónuleikar afneita hefndasigri o.s.frv. Niðurstaðan er sú, að allt það, sem ekki samsvarar þeirri samkvæmu ímynd, sem við sköpum með heildarviðhorfi okkar til annarra, er álitið galli.

Hlutverk sjálfsímyndarinnar er að afneita gagnstæðum. Þess vegna er hún svo óbreytanleg. Strax og við förum að viðurkenna gallana, sjáum við duldar hliðar persónuleikans og þar með gagnstæður. Með því raskast jafnvægið. Það þolum við illa. Segja má, að þeim mun ósveigjanlegri sem sjálfsímyndin er, þeim mun skarpari séu andstæðurnar.

Enn má segja, að sjálfsímyndin gegni því hlutverki að sameina og breiða yfir gagnstæðurnar í persónuleikanum og gera þær bærilegri. Gagnstæður eru þá sættar og líta ekki lengur út sem gagnstæður gagnvart viðkomandi. Þá er t.d. talað um litríkan persónuleika. Sjálfsímyndin er gerð til að leysa grundvallarárekstra í persónuleikanum, með því að halda honum saman. Þótt sjálfsímyndin sé aðeins hugarins tilbúningur, hefur hún mikil áhrif á samskipti okkar við okkur sjálf og aðra.

18.2 HIN DJÚPA GJÁ.

Þótt sjálfsímyndinni sé ætlað að brúa gagnstæður í persónuleikanum, skapast ný og alvarleg gjá. Ef við byggjum á sjálfsímyndinni, hljótum við að þola illa raunsjálfið og snúumst gegn því og fyrirlítum það. Við sveiflumst á milli sjálfsaðdáunar og sjálfsfyrirlitningar, milli hinnar æskilegu sjálfsímyndar og hinnar fyrirlitlegu án þess að hafa neinn milligrunn að standa á.

Með sjálfsímyndinni skapast stríð í sálinni. Sjálfsímyndin skapar innra einræði, ekki ósvipað pólitísku einræði. Viðkomandi getur samsamað sig einræðinu og fundist hann jafn dásamlegur og fullkominn og einræðisherrann segir honum að vera. Þegar það gerist fáum við tilfinningu fyrir narcisstískum manni, sem engin gagnrýni hrín á. Hann er að jafnaði ekki meðvitaður um neina gjá. Ef viðkomandi reynir að teygja sig sem hann getur til að verða við kröfum einræðisherrans, þá höfum við perfektionistann, eða superegómanngerð Freuds. Ef viðkomandi snýst gegn kröfum einræðisherrans og þvingunum, og neitar að viðurkenna skyldurnar, þá höfum við mann sem er óáreiðanlegur að okkar mati og laus í rásinni. En jafnvel þessi uppreisnargjarni maður, sem telur sig “frjálsan”, þjáist undan þeim stöðlum, sem hann þykist varpa frá sér. Það sést best á því, hvernig hann ógnar öðrum með þeim eins og svipu.

Stundum sveiflast menn öfganna á milli. Maður getur um tíma verið hið mesta góðmenni, en þegar honum finnst hann ekki fá nóga huggun með þeim hætti, sveiflast hann til hins gagnstæða og gerir uppreisn gegn slíkum stöðlum. Eða að maður er fullur sjálfsaðdáunar um tíma, en gerist síðan perfektionisti. Oftast er þó um sambland slíkra viðhorfa að ræða. Þetta sýnir, að engin þessara tilrauna er fullnægjandi, þær eru allar dæmdar til að mistakast. Þær eru örvæntingarfullar tilraunir til að komast út úr óþolandi stöðu. Við reynum öll ráð, þegar við lendum í óþolandi aðstöðu, ef eitt mistekst, reynum við annað.

Þessar afleiðingar sjálfsímyndarinnar koma í veg fyrir þroska okkar. Við lærum ekki af mistökum, af því að við sjáum þau ekki. Hvað sem hver segir, hefur viðkomandi ekki áhuga á þroska sínum, heldur sjálfsímynd sem hann vill fullkomna. Þegar hann talar um þroska, hefur hann í huga dulvitaða löngun til að skapa fullkomna sjálfímynd, án ókosta. Mikilvægt er því, að við reynum að verða eigin sjálfímyndar vör, helst í smáatriðum, reynum að skilja hlutverk hennar og huglægt gildi og finna alla þá þjáningu, sem hún býður upp á. Þá spyrjum við gjarnan sjálf okkur, hvort hún sé ekki of dýru verði keypt. Við getum þó ekki upprætt sjálfsímyndina fyrr en við höfum minnkað að verulegu leyti þarfir þær, sem sköpuðu hana.

18.3 VIRÐINGARÁHUGI.

Það sem eftir er þessa þáttar er rétt að tala um narcissus í þrengri merkingu en hingað til, þ.e. sem áhuga fyrir aðdáun og virðingu.

Kemur þar fyrst til þjóðfélagsleg viðurkenning eða virðing. Þá eru hinir ytri hlutir, peningar, persónur, eigin kostir, athafnir og tilfinningar metnir eftir virðingargildi. Sjálfsmatið er þannig algerlega háð hinu ytra eða viðurkenningu annarra. Ótti við að lækka í tign er þá fyrirliggjandi.

Ef áherslan er á persónulega aðdáun, er útþanin sjálfmynd í fyrirrúmi. Þá er þörf fyrir að vera dáður vegna þess sem maður hefur eða sýnir út á við. Sjálfsmatið er þá háð aðdáun annarra og ótti er til staðar um að missa þessa aðdáun.

Þegar áherslan er á persónulegan metnað eða afrek, þurfa menn að vera öðrum fremri, ekki fyrir það sem þeir eru, heldur sýna eða afreka. Þá er sjálfsmatið undir því komið að vera besti elskhuginn, íþróttamaðurinn, rithöfundurinn, o.s.frv. sérstaklega í eigin augum, þótt viðurkenning annarra sé engu að síður mikilvæg. Alla vega er firrst við, ef hana skortir. Sigra þarf aðra. Afrekin þurfa sífellt að verða meiri og stærri og þeim fylgir aukinn kvíði. Alltaf er til staðar ótti við mistök eða lítillækkun við að tapa.

Þessu þríþættu markmið, sem geta ýmist blandast saman eða lýst sér sjálfstætt, sýna meiri eða minni samkeppnisþörf til að ná yfirburðum. Hrein aðdáunarþörf getur t.d. verið til staðar án þess að jafnframt sé þörf fyrir þjóðfélagslega viðurkenningu.

Ef menn hafa þörf fyrir að vekja hrifningu, aðdáun eða virðingu hjá öðrum, fylgja því oft draumórar um að fá athygli annarra vegna eigin fegurðar eða gáfna eða vegna einhverra sérstakra afreka eða þjóðfélagslegrar stöðu. Oft eru slíkir menn örlátir og tala gjarnan um kynni sín af kunnu eða frægu fólki eða frammámönnum. Þeir þurfa vini, maka, vinnufólk o.s.frv. sem dáist að þeim, þar sem sjálfsmatið er byggt á þessari aðdáun og verður að engu, ef hana skortir. Vegna þessarar viðkvæmni og tilfinningu fyrir hugsanlegri lítillækkun, verður lífið að eldraun. Oft er ekki fundið til lítillækkunar, vegna þess að sú vitneskja yrði of sársaukafull. En slík vitneskja skapar reiði, sem er í hlutfalli við sársaukann. Því skapast stöðugt meiri fjandskapur og kvíði, sem leiðir til vítahrings. Eins og áður hefur verið rakið, er hér ekki sjálfsást á ferðinni, heldur er verið að vernda sig gegn eigin minnimáttarkennd, þ.e. verið er að reyna að lækna samanfallið sjálfsálit.

Fjandskapurinn tekur venjulega á sig það form að vilja lítillækka aðra. Ef sjálfsmatið er sært af lítillækkun, er eðlilegt að vilja hefna sín. Þá kemur til aukinn ótti við lítillækkun, vegna ótta við að aðrir hefni sín. Þannig skapast vítahringur. Oft hefur þetta upphaflega orsakast af lítillækkun í æsku. Tilhneiging til að lítillækka er oft bæld, vegna þess að viðkomandi veit hversu særður og hefnigjarn hann verður við lítillækkun og hann hræðist svipuð viðbrögð hjá öðrum. Samt sem áður geta slíkar tilhneigingar birst án þess að hann verði þess var, t.d. með því að virða aðra að vettugi, láta þá bíða, koma þeim í vandræðalega aðstöðu eða láta þá finna hversu háðir þeir séu honum. Þótt hann viti ekkert um þessar tilhneigingar sínar, þá kvíðir hann undir niðri stöðugt að verða snupraður eða lítillækkaður. Hömlur lýsa sér í því, að forðast er allt sem öðrum gæti virst lítillækkun, t.d. gagnrýni eða höfnun, þannig að viðkomandi virðist yfir sig kurteis og tillitssamur.

Tilhneiging til að lítillækka getur falist á bak við tilhneigingu til að dást að öðrum. Þar sem lítillækkun og aðdáun eru algerar andstæður, þá getur aðdáun einmitt falið tilhneigingu til lítillækkunar. Þess vegna búa þessar öfgar svo oft í sama manninum. Þannig er hægt að dreifa þessum tilhneigingum, t.d. í tíma með því að fyrirlíta fólk um tíma og dást svo að því í annan tíma eða dást að karlmönnum og fyrirlíta konur eða öfugt. Algengt er að dást blint að einni eða tveim manneskjum, en fyrirlíta svo heiminn að öðru leyti. Þessar andstæður búa alltaf saman. Annað hvort er önnur bæld eða sveiflast er á milli þeirra.

18.4 STÆKKUNARÞÖRF.

Við höfum rætt mikið um mann, sem er upptekinn af sjálfum sér, einkum sinni eigin ímynd. Við höfum sífellt hreinan narcissus íhuga, þ.e. mann sem samsamar sig sinni eigin sjálfsímynd. Til vinstri við hann, ef svo má segja, höfum við talað um þjóðfélagslega virðingu, en hún snýr út á við og er á vissan hátt stöðluð og þannig skyld perfektionistanum, sem samsamar sig sínum staðli. Til hægri við hreinan narcissus höfum við talað um afreksmanninn. Þar er sjálfsímyndin blönduð viljanum og nær sjálfstæðinu, en viljinn er þar sem eins konar valdform, þ.e. til að ná tökum á sér og umhverfinu án þess að um sé að ræða beina valdbeitingu gagnvart öðrum, því að viðkomandi vill frekar draga sig frá öðrum, þ.e. ekki vera í beinum samskiptum við aðra.

Epiktet segir svo í XLIV kafla í þýðingu dr. Brodda Jóhannessonar: “Það er rökvilla að álykta á þessa leið: Ég er mælskari en þú, því er ég þér fremri. Rökréttara er: Ég er ríkari en þú, því er auður minn meiri auði þínum. Eða: Ég er mælskari en þú, því er ræða mín fremri ræðu þinni. En þegar allt kemur saman, ert þú hvorki auður né ræða.”

Af hagkvæmnisástæðum ræðum við það sem eftir er þessa þáttar um hreinan narcissus, þó allt sem sagt verði eigi einnig við um þörf fyrir þjóðfélagsvirðingu eða afrek. Alltaf er um að ræða sjálfsútþenslu, eins konar andlega verðbólgu, til þess að gefa sjálfum sér meira gildi, en raunverulega fær staðist. Um er að ræða ást og aðdáun á kostum, sem eiga sér ekki neinn grundvöll eða standa utan við okkur. Vænst er ástar og aðdáunar frá öðrum vegna kosta, sem við höfum ekki eða öllu heldur ekki í þeim mæli sem við teljum sjálf. Að meta það í sjálfum okkur, sem við raunverulega höfum, er því ekki narcissus. Narcissus finnst hann alltaf sjálfur mikilvægur og þarfnast jafnframt aðdáunar, hvortveggja er honum alltaf eiginlegt.

Af hverju þarf fólk að stækka sig? Hér eru ekki tök á að gera æskuorsökum skil. En með því að ímynda okkur að við séum eitthvað sérstakt, forðumst við tilfinningu fyrir að vera ekki neitt. Við réðum ekki upplagi okkar né umhverfi, en af því að við erum að okkar mati til sem sjálfstæð eining og hugsunin skipar svo fyrir, þá vill þessi sjálfstæða skipulagsheild vera eitthvað umfram það venjulega. Við getum gert þetta í eigin ímyndunarheimi og fundið þar eigin tilfinningar fyrir að vera mikilvæg. Því fjarlægari sem við erum eigin Sjálfi því fremur verður þessi hugarins tilbúningur andlegur veruleiki. Veruleikinn víkur þó ekki alveg fyrir þessum hugmyndum. Það er eins og við höfum á þessu fyrirvara eða þetta gildi um stundarsakir, eins og þeir sem halda að raunverulegt líf þeirra byrji fyrst í himnaríki. Eigin hugmyndir koma þannig í staðinn fyrir sjálfsálit, sem grafið hefur verið undan. Við látum sem þessir ímynduðu þættir séu hluti af sjálfum okkur, þótt þeir séu það ekki í raun.

Ef við í ímyndun okkar gerumst hetjur, er það viss huggun gagnvart því að vera ekki elskuð eða virt. Ef aðrir hafna okkur, líta niður á okkur, meta okkur ekki fyrir það sem við raunverulega erum, þá segjum við bara, að við séum ofar annarra skilningi. Slíkar blekkingar geta gefið okkur í laumi vissa ánægju og hafa vafalaust oft í æsku bjargað okkur frá voða. Með því að þenja okkur út andlega, þá verða tengsl við aðra á jákvæðari grunni. Ef aðrir hvorki elska okkur né virða fyrir það sem við raunverulega erum, þá skyldu þeir samt veita okkur athygli og dást að okkur. Við skiptum á ást og aðdáun.

Með þessu er tekið alvarlegt skref. Viðkomandi telur sig óvelkominn, ef hann fær ekki aðdáun eða virðingu. Hann hættir að skilja að ást og vinátta felst meðal annars í hlutlægri gagnrýni. Skortur á aðdáun þarf ekki að merkja ástleysi eða fjandskap. Ekki er gott að meta aðra eftir því, hvað þeir veita mikla aðdáun eða smjaður. Viðkomandi metur aðra mikils ef þeir dást að honum, en kærir sig kollóttan um hina. Fullnægja lífsins fæst í aðdáun annarra og sjálfsöryggið byggist á því, af því að aðdáun blekkir með þeim hætti, að viðkomandi telur sig vera sterkan og að umheimurinn sé vinsamlegur. Slíkt öryggi er ótryggt og ekki þarf mikið að bresta til að í ljós komi öryggisleysið sem undir býr. Jafnvel aðdáun annarra á öðrum getur komið því til leiðar.

18.5 PERSÓNULÝSING.

Sá sem er eigin sjálfsímynd og virðist dást að henni er jafnan glaðlyndur og lífsfjörugur. Hann virðist hafa nóg öfundsvert sjálfstraust. Hann er ekki heldur í minnsta vafa um sig sjálfan, hann er hinn útvaldi, maður, sem hefur hlutverki að gegna, stjórnmálamaðurinn, hinn andlegi spámaður, veitandinn mikli, velgerðarmaður mannkyns. Allt þetta hefur vissan sannleika að geyma. Yfirleitt eru þessir menn hæfileikaríkir, vinna sér snemma til viðurkenningar eða sýna góða frammistöðu, án þess að það veitist þeim erfitt og oft var þeim hampað eða þeir dáðir sem börn.

Þessi óumdeilda trú á mikilleik og sérstöðu þessara manna, er einmitt lykillinn að skilningi á þeim. Glaðlyndi og ungdómskraftur á sér uppsprettu í þessu. Sama gildir um heillandi persónutöfra, sem einkenna þessa menn. Þrátt fyrir þessar guðsgjafir, eru þeir á hálum ís. Þeir geta rætt endalaust um afrek sín og kosti og þurfa þrotlausa staðfestingu á eigin mati í formi aðdáunar eða hollustu. Þeir finna til yfirburða sinna og eru sannfærðir um að ekkert sé það, sem þeir geti ekki gert eða sigrað. Þeir hafa ríka persónutöfra, einkum þegar þeir nálgast einhvern, sem þeir þekkja ekki fyrir. Hvort sem þessi manneskja hefur einhverja þýðingu fyrir þá eða ekki, verða þeir samt sem áður að vinna hylli hennar. Þeir sýnast hafa ást á fólki, eru örlátir, og sýna tilfinningar ríkulega. Þeir hrósa og skjalla og gera öðrum greiða og veita þeim hjálp, en náttúrulega til að fá aðdáun eða hollustu í staðinn. Það er alltaf eitthvað hrífandi við þá. Þeir eru umburðalyndir og ætla ekki öðrum að vera fullkomnir. Þeir þola gamanmál um sjálfan sig, svo lengi sem grínið snýr að jákvæðum sérkennum þeirra, en aldrei má draga þá alvarlega í efa.

Þeir hafa sínar skyldur og staðla, en þeir meðhöndla þá með töfrasprota. Þeir hafa sem sé ótakmarkaða getu til að sjá ekki eigin galla eða breyta þeim í kosti. Aðrir gætu álitið þá ófyrirleitna að þessu leyti eða a.m.k. óáreiðanlega. Þeir hika ekki við að brjóta loforð, vera ótrúir, sökkva sér í skuldir, svíkja. Þeir ætlast til ástar frá öðrum, án tillits til hversu mikið þeir ganga yfir þá eða troða á rétti þeirra.

Erfiðleikar þessara manna birtast í samskiptum við fólk og í vinnu. Þeir eru í grundvallaratriðum án tengsla við annað fólk, sem einkum kemur í ljós við náin samskipti. Sú einfalda staðreynd, að aðrir hafi eigin óskir og skoðanir, að aðrir horfi til þeirra gagnrýnisaugum, taki afstöðu gegn göllum þeirra, að aðrir búist við einhverju af þeim, allt slíkt finnst þeim sem eitrandi lítillækkun og vekur reiði, sem kraumar innra með þeim. Þeir geta þá rokið upp í reiðikasti og farið til enn annarra, sem “skilja” þá betur. Þar sem slíkt gerist oft, eru þessir menn einmana.

Erfiðleikar í vinnu eru miklir. Ráðagerðir þeirra eru svo umfangsmiklar. Þeir reikna ekki með takmörkunum. Þeir ofmeta eigin getu, sinna of mörgu og því verður uppskera oft lítil. Þeir geta lengi haldið sér á floti með glaðlyndi, en þegar þeim misheppnast sífellt það sem þeir taka sér fyrir hendur, og í mannlegum samskiptum, þegar þeim er hafnað, getur svo farið að þeir falli alveg saman. Sjálfsfyrirlitning og sjálfshatur, sem haldið var í skefjum, kemur þá fram af fullum krafti. Þá verða þeir þunglyndir og snúast gegn sjálfum sér.

Á yfirborðinu eru þessir menn frekar bjartsýnir, virðast opnir fyrir lífinu, sækjast eftir gleði og hamingju. En undir niðri liggja straumar vonleysis, úrræðaleysis og svartsýni. Þar sem lífsmælikvarði þeirra er óendanleikinn, þeir miða við að verða stórkostlega hamingjusamir, komast þeir ekki hjá því að verða þess varir með sársaukafullum hætti, að langt er í slíkan árangur. Á meðan þeir fljóta ofan á, er óhugsandi að þeir viðurkenni nein mistök, sérstaklega þau að ná ekki tökum á lífinu. Ef eitthvað er að, þá er það að lífinu sjálfu. Þeir sjá þannig hina hryggilegu eiginleika lífsins, ekki þá sem eru til staðar, heldur þá sem þeir færa því.

18.6 ORSAKIR.

Þar sem við erum afkomendur annars fólks og búum í sama umhverfi, hlýtur munur okkar að vera sáralítill. Við erum sem sé venjulegt fólk, en það eiga flestir samt sem áður erfitt með að sætta sig við. Ef við gerum okkur ljóst að við höfum sjálf lítið skapað, og höfum ekki skapað okkur sjálf eða umhverfið, þá erum við á hárréttri leið. En slæm blindgata er þó við fótmálið, ef við höldum að við séum eitthvað sérstakt, af því að við gerum okkur grein fyrir þessu.

Þótt við höfum einhvern tíma verið illa haldin af minnimáttarkennd og þurft að stækka okkur, þarf svo ekki að vera nú eða í framtíðinni. Fer það eftir firringu okkar og kvíða, hvernig til tekst í tímans rás. Ef aðstæður eru t.d. góðar nú, má uppræta þennan sjúkdóm. Ef sjúkdómurinn á hinn bóginn er ekki upprættur, hefur hann ríka tilhneigingu til að vaxa í framtíðinni. Fyrir því eru einkum þrjár ástæður.

Ein þeirra er minnkandi sköpunarhæfni og vaxandi árangursleysi í verki. Að keppa eftir aðdáun getur verið hvati til árangurs eða að þróa með sér eiginleika, sem þjóðfélagið álítur æskilega. En sú hætta fylgir, að allt sé gert með áhrif á aðra fyrir augum. Maki er valinn, með tilliti til þess að ávinningur við að fá hann kitli hégómagirndina eða auki þjóðfélagsvirðingu, en ekki vegna makans sjálfs. Verk eða starf er ekki innt af hendi vegna þess sjálfs, heldur með tilliti til þess hvernig það orkar á aðra. Snilli verður mikilvægari en efni máls eða kjarni máls. Af þessu leiðir að sýndarmennska og hentistefna kæfir sköpunarhæfni. Jafnvel þótt vinna megi virðingu með þessum hætti, finnur viðkomandi undir niðri réttilega að sú virðing er ekki varanleg. Eina leiðin til svæfa þann óróa sem af því stafar er að auka narcisstíska viðleitni, þ.e. leita eftir meiri velgengni og byggja upp stærri hugmyndir um sjálfan sig. Stundum er sýnd mikil hæfni í að breyta takmörkunum og göllum í eitthvað dásamlegt. Ef ritverk hans eru ekki nægilega viðurkennd, stafar það af því að hann er á undan sinni samtíð. Ef hann kemst illa af við fjölskyldu sína eða vini, er það vegna takmarkana þeirra o.s.frv..

Önnur ástæða fyrir því, að narcisstísk viðleitni vex, eru þær miklu væntingar, sem viðkomandi hefur á hinn ytra heim. Heimurinn er í skuld við hann. Honum finnst, að hann ætti að vera viðurkenndur sem snillingur, án þess að þurfa að sýna fram á það í reynd eða starfi. Konur ættu að krækja í hann án þess að hann sýni viðleitni. Honum finnst óhugsandi að kona, sem þekki hann, fái ást á öðrum. Hér eru á ferðinni væntingar um, að vegsemd og hylli komi til án þess að sýna þurfi viðleitni eða frumkvæði. Ástæða alls þessa er sú, að frumkvæði, frumleiki og sköpunarkraftur sem orsakast af innri öflum en ekki utanaðkomandi ástæðum, hefur verið skertur og ótti við fólk tekinn við. Þannig verða þau öfl, sem orsaka sjálfsstækkun, til að lama innri starfsemi. Sem sagt uppfylling óska ætti að koma frá öðrum. Þessi dulvitaða þróun leiðir til þess að narcisstísk tilhneiging vex með tvennum hætti. Kröfur á aðra verður að réttlæta með því að leggja áherslu á meinta kosti. Leggja verður aukna áherslu á meinta kosti til að fela vonbrigðin, sem óhjákvæmilega leiða af hinum ýktu kröfum.

Þriðja ástæðan fyrir því, að narcisstísk viðleitni vex, er aukinn skaði sem verður í mannlegum samskiptum. Blekkingar viðkomandi um sjálfan sig og væntingar á aðra, leiða til þess að hann verður afar særanlegur. Þar sem veröldin viðurkennir ekki hinar leyndu kröfur, er hann oft særður og fyllist fjandskap gagnvart öðrum, verður einangraðri, sem aftur leiðir til þess, að hann verður í sífellu að leita á náðir eigin tálsýna. Gremjan gagnvart öðrum getur einnig vaxið, vegna þess að hann telur þá ábyrga fyrir því, að honum misheppnast að gera eigin tálsýnir að veruleika. Með honum þróast þá einkenni, sem við teljum siðlaus, svo sem eigingirni, hefnigirni, vantraust, tillitsleysi gagnvart þeim, sem ekki þjóna vegsemd hans o.s.frv. Þessi einkenni samræmast að sjálfsögðu ekki hugmyndum hans um að hann sé dásamlegur, hafinn yfir mannlegan breyskleika. Þess vegna dylur hann þau. Hann annað hvort bælir þau eða afneitar þeim. Sjálfsstækkun gegnir þá því hlutverki að fela eigin galla undir formerkinu: Það er útilokað, að ég þessi afburðamaður, hafi slíka galla og þess vegna eru þeir ekki til.

Það er mannlegt eðli að vilja yfirstíga eigin takmarkanir. Misjafnt er hvað við látum hugarflug blekkja okkur. Munur er á, hvort aðdáunarhugarburður er framkvæmdur eða aðeins látinn leika lausum hala í eigin kolli. Hér er þó aðeins spurning um magn en ekki gæði, þ.e. hversu mikil sjálfsfyrirlitning eða minnimáttarkennd býr að baki hugarburðinum. Einnig er narcissus oft samofinn öðrum markmiðum, sem síðar verður lýst. Þetta er ekki óeðlilegt, því að öll markmið eru flótti frá veruleikanum eða Sjálfinu.

Narcissus er algeng manngerð í nútímaþjóðfélagi. Sönn vinátta og ást eru sjaldgæf. Margir eru eigingjarnir, uppteknir af öryggi sínu, heilsu og viðurkenningu. Öryggisleysi og ofmat á eigin mikilvægi eru algeng fyrirbrigði. Margir eru dómgreindarlausir á eigin gildi og afhenda það gildismat öðrum. Margir þjóðfélagsþættir skapa ótta og fjandsamlega spennu meðal fólks og stía því í sundur. Tilfinningar, hugsanir og hegðun eru stöðluð og fólk er jafnan metið fyrir það sem það sýnir, frekar en það sem það er í raun. Sjálfsagt þykir að eltast við þjóðfélagslega virðingu til að yfirstíga ótta og fylla innri tómleika.

Narcissus er ekki sjálfsást heldur sjálfsfirring. Viðkomandi sækist eftir blekkingum um sjálfan sig og aðdáunarhugarburði, vegna þess að hann hefur týnt sjálfum sér. Hann er ófær um að elska, bæði sjálfan sig og aðra. Epiktet segir svo í “Hver er sinnar gæfu smiður” VI. kafla þýðingu dr. Brodda Jóhannessonar: “Hreyktu þér aldrei af annarra kostum. Ef hestur reistist og segði: Ég er fagur, þá væri við það hlítandi. En ef þú segir fullur ofmetnaðar: Ég á glæstan hest, þá gerðu þér ljóst, að þú hreykist aðeins af kostum hests þíns. Nú munt þú spyrja, hvað þú megir kalla þitt eigið. Það, hvernig þú notfærir þér hugmyndir þínar. Ef þú nýtir þær í samræmi við eðli hlutanna, sæmir þér að vera hróðugur, því að þá stærir þú þig af þínum eigin verðleikum.” Í VIII. kafla segir Epiktet einnig: “Bið þess ekki, að allt gerist svo sem þú vilt, heldur skal það vera vilji þinn, að allir hlutir gerist svo sem þeir gerast, og þá munt þú verða hamingjusamur.”