XIV SJÁLFSSKOÐUN SKILNINGUR

14.0 MARKMIÐIN.

14.1 SKILNINGSÞREP.

14.2 VERKLAG.

14.3 HAGNÝTT GILDI ÞEKKINGAR.

14.0 MARKMIÐIN.

Í síðasta þætti nefndi ég þau helstu markmið, sem þjá mannfólkið. Hélt ég mig við áttirnar eins og ég hefi áður gert, byrjaði í suðaustri og fór hringinn. Vegna þeirra, sem ekki hafa fylgst með þáttum mínum, einkum þeim síðasta, rifja ég upp nokkur atriði sem áður hafa verið til umfjöllunar, því ég tel nauðsynlegt að þau liggi ljós fyrir svo betur sé hægt að fylgjast með því sem á eftir fer.

Fyrst er þá suðaustur. Ef við lítum til suðausturs, þá sést þörfin fyrir að setja lífinu þröngar skorður, þ.e. að gera ekki kröfur til annarra og vera sáttur við sitt litla hlutskipti. Þetta gerist með því að setja hömlur á sókn eftir metorðum og veraldlegum gæðum. Það felur í sér bann við allri áleitni eða ásækni og þá nauðsyn að vera ekki áberandi og aldrei í sterkari stöðu eða sýna neins konar yfirburði. Þá má ekki viðurkenna eigin eiginleika eða kosti, en láta sér fátt um þá finnast, einkum um hæfni og getu, því “hógværð” er æðsta dyggðin. Þessu fylgir bann við síngirni eða sérgæsku, og ekki má hafa sannfæringu eða skoðanir, óskir eða kröfur. Algert bann er lagt við stolti. Spara verður frekar en eyða og stöðugt er búið í ótta við að gera kröfur eða að hafa of miklar óskir. Þá felst í þessu bann við tilburðum til afreka eða aðgerða og hvers konar viðleitni til að nota eigin getu eða hæfileika. Og aldrei má yfirstíga þær takmarkanir, sem viðkomandi hefur sett sjálfum sér.

Þá kemur suður. Beint í suður er þörf fyrir ástúð, blíðu, samúð, kynást, athygli. Þörf fyrir aðila, sem hægt er að treysta, helst af gagnstæðu kyni. Þá hvílir hugurinn stöðugt hjá honum, enda á hann að uppfylla vonir lífsins og bera ábyrgð á góðu og illu. Meginviðleitnin beinist þá að því að hafa áhrif á þennan aðila. Ofmat er lagt á ást, þar sem hún á að leysa öll vandamál. Ótti um að verða yfirgefinn eða verða einn situr í fyrirrúmi. Nauðsynlegt er að vera takmarkalaust skilningsgóður og ástúðlegur til að kalla hið gagnkvæma fram hjá hinum aðilanum og þess er gætt að aldrei verði árekstrar. Endalaust er sýndur skilningur, víðsýni, fyrirgefning og fórnfýsi. Afbrýðisemi er ekki sýnd, því markmiðið er alger eining og hamingja. Gjarnan er lifað í gegnum tilfinningar og stolt hins aðilans.

Í suðsuðaustur má segja að liggi kröfur og græðgi í persónur og tíma, mat, drykk og nautnalyf. Þarna liggja líka kaupæði og söfnunaræði. Listnautn og að falla fyrir náttúrunni liggur hins vegar meira í suðsuðvestur.

Þriðja er suðvestur. Þar liggur hinn vinsæli. Honum var lýst í næst síðasta þætti. Til þess að vera vinsæll er oft hentugt að vera ekki áreitinn og sýna hógværð og kurteisi eða vera í yfirburðastöðu. Þarna er ekki beinlínis á ferðinni hin þvingandi hógværð, sem lýst var áður (suðaustur), heldur kænska, og viðkomandi er stoltur af hógværð sinni. Vinsældir eru hér efst á blaði; að vera eftirsóttur, þægilegur, geðfelldur, skilningsgóður, tillitssamur, hjálpsamur, sáttfús og samvinnuþýður og tala svo sem aðrir vilja heyra og við á hverju sinni. Hér er verið að sækjast eftir öryggi, ekki áliti. Það er verið að geðjast öðrum í einu og öllu, hvort sem þeir kæra sig um eða ekki. Velþóknun og hrós annarra er vel þegið, enda er verið að uppfylla annarra óskir og hlýðnast öðrum. Hugurinn verður þannig meira í öðrum. Óskir og skoðanir annarra skipta þá meira máli en manns eigin. Ótti er við fjandskap annarra og eigin innri reiði.

Í fjórða lagi, beint í vestur liggur fullkomnunaráráttan, þetta að vera hinn óaðfinnanlegi í eigin og annarra huga. Stöðugar vangaveltur um hugsanleg mistök. Bakþankar og sjálfsásakanir. Undir niðri er fundið til yfirburða vegna eigin fullkomnunar og er þá komið í vestnorðvestur. Þarna liggur ótti við eigin ágalla. Mikill ótti við gagnrýni og ásakanir annarra. Einnig liggur þarna siðavendni til að sýnast, grandvarleiki, heiðarleiki og reglusemi. Samviskusemi umfram allt. Ég lýsti hreinni vesturátt í þættinum “Út vil ek”. Þessi maður vill verða eins og allir aðrir, svo ekki sé hægt að saka hann um neitt. Hann vill í raun vera ekkert af ótta einum saman og hagar seglum eftir vindi. Hann er psykopat, skiptir um skoðun eftir aðstæðum.

Í fimmta lagi, í norðvestur höfum við hina fullkomnu fyrirmynd, sem er sér þess meðvitandi. Hann er fyrirmyndar foreldri, maki, vinur og félagi. Hann má aldrei gera mistök. Hann hefur réttar skoðanir á öllu. Hann er siðavandur og reglusamur, samviskusamur og sýnir ábyrgð. Hann reynir að ná valdi á öðrum með skynsemi og forsjálni og hefur oftrú á skynsemi og hugsun. Hann fyrirlítur tilfinningaöfl. Hann leggur áherslu á framsýni og forspá, og honum finnst hann hafa yfirburði yfir aðra vegna þess. Hann fyrirlítur allt í sjálfum sér, sem ekki hefur yfirbragð andlegra yfirburða. Hann óttast takmarkanir rökhyggju og skynsemi og sömuleiðis heimsku eða dómgreindarleysi. Hann sýnir myndarskap og er iðulega stoð og stytta vandamanna sinna.

Í sjötta lagi, ef farið er örlítið í norðnorðvestur birtist persónuleiki, sem vill ná valdi yfir öðrum. Hann segist jafnan helga sig málstað, skyldu, ábyrgð o.s.frv. og slíkt getur verið þáttur, en valdagræðgin er í fyrirrúmi. Hann fyrirlítur aðra, sérstæði, virðingu og tilfinningar þeirra og eina áhugamál hans er að ráða yfir þeim. Hér birtist hefndarreiði. Hann dáir styrkleika en fyrirlítur veikleika. Hann óttast aðstæður, sem ekki verður ráðið við og hvers konar vanmátt og hjálparleysi.

Í sjöunda lagi. Þá förum við í norður. Þar liggur narcissus í einni eða annarri mynd. Ég skipti því hér í þrennt:

a) Vestast liggur þörf fyrir þjóðfélagslega virðingu og stöðu. Allir hlutir, dauðir og lifandi, peningar og menn, eigin verðleikar, starf og tilfinningar, eru þá metnir eftir virðingargildi. Sjálfsmat er þá háð almennri velþóknun. Sóst er eftir því að vera voldugur, viðurkenndur, háttsettur, mikilvægur, eftirsóttur og þekkja fræga og volduga og vera í hvers konar áliti. Einnig er mikilvægt að þekkja og vera í tengslum við slíkt fólk. Öll brögð eru notuð til að vekja aðra til öfundar og aðdáunar. Jafnframt er fundið fyrir ótta við að minnka í áliti eða stöðu, annað hvort vegna ytri atvika eða eiginleika innan frá.

b) Þráðbeint í norður liggur þörf fyrir persónulega aðdáun. Hér er á ferðinni útblásin mynd af sjálfum sér (narcissus). Þörf er fyrir að vera dáður, ekki fyrir það sem viðkomandi á eða lætur í té, heldur fyrir hans eigin ímynd. Sjálfsmatið byggist á því að geta uppfyllt þessa sjálfsímynd og fá aðdáun annarra á henni. Mikill ótti er við lítillækkun, það að vekja ekki aðdáun. Að vera fallegur, gáfulegur, myndarlegur, kynþokkafullur o.s.frv. er mikill kostur í þessu sambandi.

c) Örlítið austar liggur þörf fyrir persónulegan metnað eða afrek. Þá þarf að fara fram úr öðrum, ekki með því sem látið er í té, heldur með eigin starfi. Þá er sjálfsmatið undir því komið að vera besti elskhuginn, íþróttamaðurinn, rithöfundurinn eða annað, sérstaklega í eigin huga. Að vera lífsspekingur, kennari eða hugsuður er ekki ónýtt, að ekki sé talað um snilling. Viðurkenning annarra á þessu er nauðsynleg ella reiðist viðkomandi. Sigra þarf aðra og sífellt að afreka meira. Búið er við stöðugan kvíða. Mikill ótti er við að lítillækka sig með því að tapa.

Með þrennu framangreindu, það er: a, b og c, er verið að ná yfirburðum í samkeppni. Þótt þessi markmið séu lík og fari oft saman, getur verið um sjálfstæða tilvist hvers um sig að ræða. Þörf fyrir persónulega aðdáun þarf ekki að fara saman með þörf fyrir þjóðfélagsvirðingu.

Í áttunda lagi. Þá erum við komin í norðausturhornið. Sumir hafa þörf fyrir að trúa á mátt viljans og að komast á honum einum saman til allra átta. Á ferðinni er sálarþrek vegna trúar á töfravaldi viljans. Fundið er til tómleika, ef óskir uppfyllast ekki. Tilhneiging er þá til að takmarka eða gefa upp óskir og missa áhuga af ótta við að ekki rætist úr. Ótti er við að viðurkenna takmarkanir viljans. Hér er á ferðinni tilhneiging sú, sem lýst var í norðvestur, en áráttan snýr hér inn á við.

Í austnorðaustur höfum við svo náunga, sem vill hafa hag af öðrum með einum eða öðrum hætti. Hann metur aðra eftir því, hvort hann getur haft af þeim hag eða not eða ekki. Hagnýting er þá aðalatriðið, hagnýting peninga, hugmynda, kynlífs og tilfinninga. Viðkomandi er stoltur af því að geta hagnýtt eða notfært sér aðra. Klókindi eru þá talin dáð. Viðkomandi hagnýtir sér fólk sem hluta af sjálfum sér, sína eigin eign og telur sig minni eða stærri í hlutfalli við slíka eign. Mikil hagkvæmni, framkvæmdasemi og útsjónarsemi fylgir þessu markmiði.

Í níunda lagi. Í austur liggur svo andlegt og veraldlegt sjálfstæði. Sunnarlega er um að ræða andlegt sjálfstæði, að hafa tíma og frelsi fyrir sig einan, vera laus við skyldur og bönd. Þarfnast ekki annarra og verða ekki bundinn neinum eða neinu. Öll nálægð er bundin þrælsótta. Ótti er um þörf fyrir aðra, fyrir ást eða nálægð. Norðar liggur svo veraldlegt og fjárhagslegt sjálfstæði. Þörf fyrir að vera birgur og sjálfum sér nógur.

Í tíunda lagi. Í austsuðaustur liggur þörf fyrir sjálfsmeðaumkun og píslarvætti. Að finna sig fórnardýr verður eins konar aðferð til varnar sjálfsásökunum og móral. Með því að stuðla að því að aðrir beiti misneytingu, er innri sena flutt út og viðkomandi verður fórnardýr, sem þjáist í óréttlátum og grimmum heimi. Þjáningin verður grundvöllur krafna og sérstök aðferð til að fá útrás reiði og ásakana. Viðkomandi getur þannig á dulinn hátt fundið til yfirburða, einkum siðferðilegra. Þjáningin afsakar viðkomandi, kemur í veg fyrir annarra ásakanir og réttlætir kröfur um fyrirgefningu.

14.1 SKILNINGSÞREP.

Sú vitneskja, sem við höfum um eigin markmið og myndir, gefur nokkra hugmynd um hvaða verk við eigum fyrir höndum, ef við ætlum að stunda sjálfsskoðun. Æskilegt er að gera sér grein fyrir í hvaða röð við ætlum að skoða einstaka þætti. Að sjálfsögðu er eðlilegast að taka fyrir þá þætti, sem efst liggja og snúa fyrst og fremst að umheiminum. Síðan að leita dýpra. En málið er því miður ekki svona einfalt. Ástæðan er m.a. sú, að orsakir ákveðins markmiðs geta legið mjög djúpt, og taka þurfi á öðrum þáttum og grafast fyrir um þá áður en kleift er að snerta hinar raunverulegu orsakir þess markmiðs, sem yst liggur. Við ættum jafnan að skoða það efni, sem gefst á hverjum tíma. Það þýðir þó ekki, að með því sé farið dýpra eða inn á bæld svið. Þetta kann að rugla okkur í ríminu.

Best er að reyna að fara eins djúpt og mögulegt er við sérhvert markmið. Ýmsir þættir eru þó alloft meira og minna bældir. Þeir sem eru minna bældir eru auðveldari viðureignar og þeir sem eru meira bældir koma í ljós síðar. Svipað gildir í raun um einstök markmið. Ef maður finnur þörf fyrir sjálfstæði og að vera öðrum fremri, þá verður fyrst að reyna að grafa undan þessum markmiðum, áður en kleift er að átta sig á þörfinni fyrir vinsældir og ást. Sá sem uppgötvar, að ástarþörf og þörf fyrir viðurkenningu, liggur efst í honum getur ekki strax tekið á þörf sinni fyrir völd og annað. Það markmið eða sú tilhneiging, sem liggur efst og fyrst er uppgötvuð, segir ekkert um mikilvægi markmiðsins eða tilhneigingarinnar. Það þarf engan veginn að vera sérstakt í persónuleikanum eða hafa mest áhrif á hann. Það markmið sem fyrst birtist er venjulega í bestu samræmi við meðvitaða ímynd mannsins og rækilega réttlætt af honum. Aðrar tilhneigingar og markmið koma þá í ljós síðar.

Tökum dæmi um hana Guðrúnu, sem tók eftir því, að hún gerði oft lítið úr eigin gildi, getu og hæfni. Hún var ekki aðeins óviss um kosti sína, heldur afneitaði þeim og taldi sig ekki gáfaða, aðlaðandi eða vísaði á bug því sem sýndi, að hún var hæfileikum búin. Hún taldi aðra merkilegri en sjálfa sig, og ef um skoðanaágreining var að ræða, taldi hún þá hafa á réttu að standa. Þótt eiginmaður hennar ætti vingott við aðra konu, gerði hún ekkert til að andmæla því, þó að sú reynsla væri henni sársaukafull. Hún réttlætti eiginmanninn með því, að vinkona hans meira aðlaðandi og elskuverð. Hún átti erfitt með að eyða peningum á sjálfa sig. Þegar hún ferðaðist með öðrum gat hún lifað hátt og dýrt og goldið sinn hlut af kostnaðinum, en þegar hún var ein, eyddi hún ekki fé í ferðalög, föt, skemmtanir, bækur eða annað. Þótt hún væri í stöðu yfirmanns átti hún samt erfitt með að gefa undirmönnum fyrirmæli. Hún gerði það yfirleitt í afsökunartón.

Við sjálfsskoðun varð Guðrúnu brátt ljóst að hún var haldin hógværðaráráttu. Hún hafði tilhneigingu til að einskorða líf sitt innan þröngra marka, og að setja sig skör neðar öðrum. Næst var að athuga þetta frá morgni til kvölds og finna án þess að vera því andvíg eða hafa illan bifur á því. Mikilvægt er að fyllast ekki sjálfsfyrirlitningu og ætla svo að breyta um á svipstundu. Það er tilgangslaust. Guðrún rannsakaði orsök tilhneigingar sinnar frá æsku. Hún athugaði hvaða afleiðingar markmiðið hefði og hvaða hlutverki það gegndi yfir höfuð í lífi hennar.

Guðrún sá að hún léti gjarnan skoðanir annarra móta sínar. Þótt hún hefði ríka hæfni til að meta fólk, gat hún ekki fengið sig til að gagnrýna eitt eða neitt, nema það snerti starf hennar. Þar gegndi öðru máli, því henni var einmitt ætlað að meta og gagnrýna. Hún hafði lent í erfiðleikum, vegna þess að samverkamaður hennar reyndi að grafa undan stöðu hennar. Þótt þetta væri öllum ljóst á vinnustað, leit hún á þennan samverkamann sem vin sinn. Þegar hún tók þátt í leikjum, var hún venjulega of hemluð til að leika vel, en þegar henni tókst vel og horfur voru á sigri hennar, þá byrjaði hún að leika illa. Óskir annarra voru mikilvægari en hennar eigin. Hún tók t.d. sumarleyfi, þegar það kom sér best fyrir aðra og hún lagði á sig meira starf en hún þurfti, til þess að létta á öðrum sem kvörtuðu um vinnuálagið.

Mikilvægust var bæling tilfinninga og óska. Í raun hafði hún sömu væntingar og aðrir gagnvart lífinu, en takmarkaði óskirnar við það sem mögulegt var að öðlast. Hún var óraunsæ að því leyti, að hún lifði langt neðan þeirra marka sem hún hafði ráð á félagslega, fjárhagslega og andlega. Síðar á ævinni sýndi sig, að mörgum átti eftir að líka vel við hana. Hún var aðlaðandi og skrifaði ýmislegt mikils virði og frumlegt.

Verstu afleiðingar þessara markmiða voru skortur á sjálfstrausti og almenn óánægja í lífinu. Hún varð að sjálfsögðu lítið vör við þetta á meðan allt var nógu gott fyrir hana og hún þekkti raunverulega ekki óskir sínar eða að þær væru ekki uppfylltar.

Lengi vel viðurkenndi Guðrún ekki sannindin um þessi markmið sín, nema að óverulegu leyti. En þar kom, að hún viðurkenndi hinn mikla kvíða að baki þessarar hógværðar. Sú viðurkenning jók henni bjartsýni. Það var ekki fyrr en löngu síðar, að hún gat fengist við önnur markmið, svo sem metnað, ótta við mistök og sigurþörf. Smátt og smátt varð henni ljóst, að hógværðarviðhorf hennar var nauðsynlegt af öryggisástæðum. Hún öðlaðist með innsýn þessari nokkuð traust á sjálfri sér og hugrekki til að setja fram óskir sínar og skoðanir.

Eftir þessar uppgötvanir sneri hún sér að ósjálfstæði sínu og viljaskorti eða getu til að standa á eigin fótum. Hún sá þörf fyrir félaga, til að uppfylla óskir sínar og vonir, en það markmið var bældara en hið fyrra. Verða því gerð nánari skil síðar. Aldrei hafði hvarflað að henni, að neitt athugavert væri við ástarsambönd hennar. Þvert á móti taldi hún þau vera góð. Annað átti þó eftir að koma í ljós.

Samband þessa markmiðs við hið fyrrnefnda, þ.e. hógværðina, var tvíþætt. Annars vegar varð hógværðin til þess að Guðrún þurfti félaga. Hún gat ekki sjálf haft uppi eigin óskir og þurfti því annan til þess. Hún gat ekki varið sig og varð að fá annan til þess. Hún sá ekki sitt eigið gildi og þurfti annan til að staðfesta það. Hins vegar var um að ræða andstæður og andlega árekstra sökum hógværðar hennar og mikillar vonar sem hún batt við félaga sinn. Þess vegna varð hún að afbaka stöðuna þegar hún varð fyrir þeim vonbrigðum sem fylgja ófullnægðum vonum. Hún reiddist því að vera, að henni fannst, fórnardýr harkalegrar og niðurlægjandi meðferðar. Þá reiði bældi hún af ótta við höfnun, sem aftur gróf undan sambandinu og breytti vonunum í hefndarkröfur. Bælingin leiddi til þreytu og hamla í starfi.

Árangurinn af sjálfsskoðun Guðrúnar varð sá að hún komst yfir eigið hjálparleysi og þörf fyrir stuðning annarra. Hún varð ekki eins ósjálfbjarga. Þreytan hvarf og samskipti við aðra urðu frjálsari. Þá kom í ljós að öðrum þótti hún hrokafull, þótt hún hefði sjálf tilfinningu fyrir því að vera feimin.

Þá sneri Guðrún sér að þriðja verkefninu, hinum bældu metnaðarmarkmiðum. Hún minntist þess að hafa fyrr á árum verið haldin miklum metnaði sem hún sá brátt að kraumaði enn undir niðri. Hún fann gleðina og ánægjuna yfir að hljóta viðurkenningu, og óttann við mistök og hversu mjög hún kveið því að vinna sjálfstætt og taka ákvarðanir.

Þetta markmið var flóknara en hin tvö. Gagnstætt þeim var það tilraun til að ná tökum á lífinu og berjast gegn mótdrægum öflum. Guðrúnu hafði alltaf fundist jákvætt afl í metnaðinum og vildi því gjarnan viðhalda honum. Með metnaðinum endurheimti hún glataða sjálfsvirðingu. Þá var hann viss hefnd. Árangur þýddi sigur yfir þeim, sem höfðu lítillækkað hana, en mistök aftur ámóti auðmýkjandi ósigur. Til að skilja einkenni metnaðarins, verðum við að líta örlítið nánar á aðdraganda hans hjá Guðrúnu.

Baráttuandi þessa markmiðs hafði birst snemma í æsku, jafnvel áður en hin tvö markmiðin tóku að þróast. Guðrún minntist tímabila í lífi sínu, þar sem hún var í uppreisn og andstöðu og með herskáar kröfur, stríðni og hrekki. Á skólaárunum fylltist hún metnaði. Nú var metnaðurinn blandaður fjandskap og hefndarfullur, vegna þess óréttlætis og vansæmdar, sem hún hafði orðið að þola. Segja má, að með því að verða fremst endurnýjaði hún brostið sjálfstraust og með því að sigra aðra hefndi hún þess, sem á hlut hennar hafði verið gert.

Stundum hvarf þessi metnaður, einkum vegna erfiðleika, sem fylgdu því að viðhalda honum. Vegna hógværðarinnar var hún oft í vafa um hæfni sína og gáfur. Frjáls notkun gáfna var oft erfið, þar sem hún varð að bæla gagnrýnandi hugsun. Það mátti ekki taka áhættu á mistökum, því þörfin fyrir að vera öðrum fremri var svo knýjandi. Þótt metnaðurinn kæmi þannig ekki fram á yfirborðinu, sýndi hann sig með ýmsu móti óbeint, því löngunin til að sigra var ekki horfin. Þannig mat hún alla heppni sem sigur sinn. Óheppni varð þá að sama skapi ósigur. Hún taldi það einnig til sigurs að eiga maka eða elskhuga, en einlífi taldi hún hinsvegar til ósigurs. Í ímyndun sinni áttu aðrir að lyfta henni og hefja til vegs, án þess að hún gerði neitt til þess sjálf. Allt þetta jók á þörfina fyrir félaga eða vin til að hanga á.

Afleiðingar þessa markmiðs skoðaði Guðrún rækilega og viðurkenndi áhrif þeirra á viðhorf sitt til lífsins almennt, vinnunnar, annars fólks og sjálfrar sín. Þessi sjálfskoðun leiddi til þess að hömlur í vinnu urðu greinilega minni. Þá skoðaði hún tengsl þessa markmiðs við önnur. Annars vegar voru ósættanlegar gagnstæður og hins vegar styrktu markmiðin hvort annað. Þannig var hún fjötruð í eigin hugarflækjum. Að þurfa að sigra annars vegar og vera hógvær hins vegar voru andstæður. Sömuleiðis var framametnaður hennar andstæður því að vera háð stuðningi annarra. Áreksturinn skapaði kvíða og lamaði alla viðleitni í hvora áttina sem var. Þarna var orsök verkþreytunnar og hamla í starfi. Markmiðin juku einnig styrk hvors annars, t.d. að vera hógvær og lítillát var þeim mun nauðsynlegra, þar sem það var notað sem eins konar gríma á sigurþörfina. Félagi var nauðsynlegur, ef hann átti á sinn vafasama hátt að fullnægja sigurþörfinni. Tilfinning fyrir að vera lítillækkuð ásamt þörfinni fyrir að lifa fyrir neðan það, sem hæfni hennar gaf tilefni til, og þörfinni fyrir félaga, vöktu með henni hefndarþorsta, sem aftur hélt við og magnaði þörf fyrir sigur.

Verkið var fólgið í að leysa þessa vítahringi upp skref fyrir skref. Þar sem Guðrún losnaði að nokkru við hógværðarþörfina, hjálpaði það henni strax til að tjá sig og fylgja óskum sínum eftir, sem aftur leiddi til þess sjálfkrafa að þörf hennar fyrir sigur minnkaði. Sama gilti um þörfina fyrir félaga. Um leið og sú þörf minnkaði, varð Guðrún sjálf sterkari og minna varð um lítillækkun, það leiddi til minnkandi sigurþarfar. Þegar hún svo loks sneri sér að hefndarþörfinni, sem var henni mjög ógeðfellt viðhorf, gat hún beitt sér að henni með auknum innri styrk, enda fór sá vandi þegar minnkandi. Á hinn bóginn hefði henni verið ókleift að byrja á því viðhorfi. Hún hefði hvorki skilið það, né þolað.

Niðurstaða þessa alls varð meira sjálfstæði og frelsi og hún gat virkjað betur getu sína og krafta. Metnaðurinn varð heilbrigðari, hann varð ekki jafn þvingandi og lamandi. Áherslan breyttist úr áhuga á árangri í áhuga á efni málsins. Tengsl hennar við fólk bötnuðu. Spennan, sem var afleiðing blendinnar hógværðar og dulins hroka hvarf.

14.2 VERKLAG.

Það sem hér hefur verið rætt um, er að mörgu leyti dæmigerð sálgreining á byrjunarstigi, þ.e. greining markmiða. Fyrst verður að greina markmiðin og viðurkenna þau sem hluta af okkur án sjálfsásakana. Mikilvægt er að líta jákvætt á tilhneigingar okkar og hafa samúð með þeim, jafnvel þykja vænt um þær og alls ekki afneita þeim eða bæla þær á nokkurn hátt, en okkur hættir einmitt til þess og við förum að hallmæla þeim. Næst er svo að rekja ástæður þessara tilhneiginga og markmiða og líta rækilega til þess, hvernig þær lýsa sér í verki, þ.e. í daglegri hugsun, viðhorfum og hegðun. Þá er að líta til afleiðinganna, þ.e. sjá ókostina við markmiðin og viðhorfin. Markmiðin bægja ekki aðeins burt megninu af okkar raunverulega manni og persónuleika, heldur eru þau endalaus eftirsókn eftir vindi, sem er ógnþrungin alla ævidaga, vikur og ár. Þá er rétt að skoða áhrif markmiðanna á önnur markmið og aðra þætti persónuleikans og hvernig þetta er samofið. Best er þó að vinna við eitt markmið í einu. Við hvert skref verða önnur markmið skýrari og aðrir hlutar persónuleikans koma í ljós. Uppgötvast þá margt, er engan grunaði. Oft verður að kanna vel, hvernig markmið lýsir sér áður en kleift er að sjá og viðurkenna það í sjálfum sér. Það er eins og við sjáum óljóst og í vísbendingum, að markmið geti búið í okkur, áður en við skynjum raunverulega og verðum vör við, að það hafi stjórn á okkur.

Eins og ég hefi sagt oft áður gildir hvert skref. Hvert skref hefur heilsusamleg áhrif. Það eitt að viðurkenna markmið, þýðir viðurkenningu á því að eitthvað stjórni okkur, sem ekki verður hönd á fest. Sú viðurkenning hefur strax bætandi áhrif. Áður vorum við hjálparlaus á valdi óræðra afla. Með viðurkenningu markmiðs öðlumst við vissa innsýn í sjálf okkur og verðum ekki jafn ráðvillt og hjálparlaus og áður. Ef við þekkjum ástæður fyrir markmiði, vitum við jafnframt að möguleiki er á að gera eitthvað í málinu. Þótt ekkert hafi breyst í hinu ytra eða hegðunarmynstri, þá vitum við að kleift er að vinna að lausn málsins með skipulögðum hætti. Við stöndum ekki lengur ráðlaus gagnvart vandanum.

Stundum breytir uppgötvun markmiðs nokkru, en oftast litlu. Oft er viljinn til breytinga óljós í fyrstu og jafnvel þótt hann sé ótvírætt fyrir hendi jafngildir það ekki getu til breytinga. Ástæða þess, að vilji hefur ekki nægilegt afl til þess að afnema markmið, er einfaldlega sú, að markmiðið hefur svo mikið huglægt gildi fyrir viðkomandi, að hann vill ekki fórna því. Þegar útlit er fyrir, að leggja megi af markmið, magnast þeir kraftar sem vilja viðhalda því. Með öðrum orðum, fljótlega eftir að uppgötvun markmiðs hefur haft áhrif í frelsisátt, er komin upp togstreita. Viðkomandi vill breyta og hann vill ekki breyta. Þessi togstreita er venjulega dulvituð, vegna þess að viðkomandi er ekki fús til að játa fyrir sjálfum sér, að hann vilji viðhalda einhverju sem sé gagnstætt skynsemi og sjálfshagsmunum.

Ef ákvörðun um að breyta ekki verður ofan á, þá verða áhrifin í frelsisátt aðeins að stundarlétti, sem aftur fylgir kjarkleysi og uppgjöf. Ef viðkomandi hættir að trúa á hina andlegu bót, tekur svartsýnin við. Oftast er þetta ekki svo. Oftast verður eins konar málamiðlun milli þessara afla. Ákveðið er að breyta, en á eins auðveldan og ódýran hátt og mögulegt er. Sumir halda að nóg sé að sjá uppruna markmiðsins í æsku, en það er ekki rétt. Aðrir halda, að ákvörðunin ein um að breyta sé nægileg eða viðurkenning á markmiði dugi og að allt breytist svo á svipstundu. En allt er þetta rangt.

Eftir því sem við athugum nánar, hvað fólgið er í ákveðnum markmiðum, viðhorfum og myndum, þá sjáum við betur óheppilegar afleiðingar af því hvernig þetta setur líf okkar í fastar skorður eða leikþröng á öllum sviðum. Tökum dæmi um þann sem vill um fram allt öðlast sjálfstæði. Eftir að hafa athugað uppruna þessa viðhorfs, skoðar hann nánar ástæðuna til þess, að þetta er eina leiðin, sem tryggir sjálfsöryggi hans og hvernig hún lýsir sér í daglegu lífi hans. Hann verður að sjá, hvernig þetta viðhorf veldur því að honum er til skapraunar ef eitthvað byrgir útsýni eða hann situr í miðri sætaröð. Hann sér hvernig honum er illa við belti, armbönd eða bindi, sem honum finnst þrengja að sér. Hann er á móti vanabundnum verkum, skyldum og væntingum annarra, svo og uppástungum og tillögum. Hann er í uppreisn gegn tímabindingu og yfirboðurum. Hann sér að í ástarlífi kærir hann sig ekki um nein bönd og finnst jafnvel sem áhugi á annarri persónu geti leitt til ánauðar. Honum finnst sem sé ýmislegt þvinga sig og þrengja að sér, og það neyðir hann enn á ný til að vera á verði. Honum er ekki nóg að sjá að hann hafi sjálfstæði að markmiði. Það er ekki fyrr en hann finnur þetta þvingandi afl, sem á honum hvílir og neikvæðar hliðar þess, að hjá honum vaknar hvöt til að losa sig við þetta markmið. Segja má, að þessi athugun styrki vilja hans til að ná tökum á markmiðinu eða viðhorfinu. Hann sér þörf breytinga. Hann verður ákveðnari í að takast alvarlega á við málið.

Þótt sú ákvörðun sé ómetanleg og óhjákvæmileg til að breyting gerist, leyfir geta hans ekki enn slíka breytingu. Getan eykst þó eftir því sem markmiðin og viðhorfin koma skýrar í ljós. Jafnframt því sem unnið er að athugun á afleiðingum markmiðs, er losað um rætur tálsýna, ótta, sárinda og hamla. Viðkomandi verður vissari í sinni sök, hann minnkar einangrun sína og fjandskap. Samskipti hans við sjálfan sig og aðra gera markmiðið eða viðhorfið ónauðsynlegra, sem aftur eykur afl hans til átaka.

Næsta skref hlýtur að verða rannsókn á þeim þáttum, sem koma í veg fyrir breytingu. Með þeirri rannsókn, sem ég hefi þegar lýst, hefur viðkomandi losað aðeins um tök markmiðsins á sér og þar með bætt stöðuna. En málið er, að markmiðið og afleiðingar þess eru vafalaust nátengd öðrum, mögulega gagnstæðum markmiðum og viðhorfum. Þess vegna nægir ekki að athuga viðkomandi markmið einangrað. Þetta kom t.d. í ljós hjá henni Guðrúnu okkar, eins og lýst var í kaflanum á undan.

Þessi verkþáttur, þ.e. viðurkenning og skilningur á tengslum ólíkra markmiða og viðhorfa, leiðir til þess að gripið er á dýpri togstreitu og gagnstæði í persónuleikanum. Þá sjáum við tilraunir okkar til lausnar vandanum og hvernig við flækjum okkur stöðugt og meira í markmiðum okkar og viðhorfum. Við kunnum að hafa séð undirstöðuþætti togstreitunnar eða átakanna. Samt sem áður höldum við gjarnan að við getum sætt þau. T.d. höldum við okkur geta leyst málið með því að lifa út ákveðin markmið, eitt í senn. Víst er að engar breytingar geta átt sér stað meðan við höldum að við getum leyst málið með þeim ódýra hætti. En lausnir vandans eru margbreytilegar og ókleift að lýsa þeim nánar fyrr en síðar í þessum þáttum.

Gildi þessa síðasta verkþáttar liggur í því, að mögulegt er að vefja ofan af vítahringjum, sem myndast hafa vegna markmiðanna og viðhorfanna. Markmiðin eða viðhorfin efla hvert annað, en þau eru jafnframt gagnstæður sem valda árekstrum og átökum í sálarlífinu. Við skiljum ekki einkenni eins og kvíða, þunglyndi, ofdrykkju eða ofát fyrr en þessi átök verða okkur ljós. Það sem þó skiptir mestu máli, er að sjá heildina, hvorki meira né minna. Við getum í raun fljótt séð þessa árekstra eða átök, en slík innsýn hefur ekki varanlegt gildi fyrr en allir þættir árekstranna eru að fullu skildir og kraftur þeirra hefur rýrnað. Þá fyrst eftir að það hefur gerst er möguleiki að taka af alvöru á þessum átakaþáttum.

14.3 HAGNÝTT GILDI ÞEKKINGAR.

Spyrja mætti, hvort það sem ég hefi sagt í þessum þætti og þættinum á undan, hafi hagnýtt gildi. Gefur það leiðsögn um hinn grýtta veg sálkönnunar? Svarið er, að engin slík þekking uppfyllir þær kröfur. Fólk er svo ólíkt, að engin fyrirfram ákvörðuð leið er kleif. Jafnvel þótt við slægjum því föstu, að markmiðin sem ég hefi talið upp, væru tæmandi fyrir okkar þjóðfélag, en það er ekki svo, þá væri samt sem áður um að ræða óteljandi blöndun og tengsl milli markmiðanna og viðhorfanna. Við sjáum sjaldan eitt ákveðið markmið skýrt aðgreint frá öðru, heldur aðeins heildarflækjuna. Töluverða hugkvæmni þarf því til að einangra einstaka þætti myndarinnar. Þá gerir það málið erfiðara, að ekki verður í fyrstu fest hönd á viss markmið þar sem þau eru bæld, sem aftur gerir viðurkenningu þeirra erfiða. Þá má ekki gleyma mannlega þættinum og samskiptum manns og umhverfis. Sálkönnun vekur upp kvíða og alls konar fjandskap út í umhverfið, og fólkið í kringum mann er einnig þjáð af margs konar markmiðum, sem aftur ruglar í ríminu.

Sú fullyrðing, að sálkönnun hvers og eins verði að hafa sitt eigið verklag og verkröð, setur e.t.v. beyg í suma, sérstaklega þá, sem verða að hafa tryggingu fyrir því að þeir séu á réttri leið. Þeir skyldu þó samt sem áður hafa í huga, að hér ræður ekki kylfa kasti, heldur liggur það í eðli vandamálanna, að eitt verður aðgengilegt á undan öðru og ekki verður fengist við það síðarnefnda fyrr en hið fyrrnefnda hefur verið upprætt. Með öðrum orðum, þegar við könnum sjálf okkur koma skrefin af sjálfu sér og rétt er að fylgja því efni, sem upp kemur hverju sinni. Stundum er um að ræða spurningar, sem erfitt er að finna svar við á stundinni. Þá er efnið venjulega ofar skilningi viðkomandi á þeirri stundu og fer best á því að leggja það til hliðar um stund. Við viðurkennum t.d. venjulega ekki vissan ótta eða kjarkleysi í fyrstu. En einnig má þá prófa sig áfram með happa og glappa aðferð.

Við sjálfskoðun er lítil hætta á að við fáumst við vandamál of snemma, því venjulega forðumst við vanda, sem við erum ekki reiðubúin að horfast í augu við. Ef viðkomandi fæst við ákveðinn vanda í nokkurn tíma, og telur sig ekki komast nær lausn, kann það að stafa af því, að hann er ekki enn tilbúinn til að takast á við hann. Þá er betra að leggja vandann til hliðar um sinn. Enginn þarf að missa kjarkinn þess vegna, þar sem atlaga, þótt hún sé gerð of snemma, gagnar þegar síðar er snúið sér að sama vanda.

Því verður ekki neitað, að þekking á markmiðum hjálpar viðkomandi til að setja saman og skilja ólíka þætti í persónuleikanum, sem ella hefðu engin innbyrðis tengsl í huganum. Alltaf verður að muna að eitt markmið útskýrir aðeins hluta, að í okkur búa einnig gagnstæð öfl. En markmið hlýtur samt sem áður alltaf að sýna sig í vissu viðbragðamynstri. Þekking á markmiðum veitir mikla hjálp, einnig eftir að þau hafa verið uppgötvuð. Hún er sérstaklega nauðsynleg til að sjá hve dýru verði markmiðið er keypt. Þegar kemur að innri átökum, þá er þessi þekking ómetanleg. Guðrún eyddi miklum tíma sjálfskoðunar sinnar í að reika á milli tilhneigingar til annars vegar að ásaka sjálfa sig og hins vegar að skella skuldinni á aðra. Hún vissi ekki hvor tilhneigingin var ríkari. Í raun voru báðar ríkjandi. Tilhneiging til að ásaka sjálfa sig stafaði af hógværðarmarkmiðinu og tilhneiging til að ásaka aðra stafaði af þörf fyrir yfirburði, sem aftur þýddi að hún átti erfitt með að viðurkenna eigin galla. Þegar hún sá, að tilhneigingarnar stöfuðu af gagnstæðum markmiðum, léttist róðurinn.

Ég mun í síðari þáttum fara ítarlega í hin einstöku markmið, því eins og áður sagði auðveldar sú þekking mönnum að fást við hin dulvituðu öfl og fá heildarmynd af persónuleikanum. Ég hefi ekki enn rætt um aðferðir til að grafa þessi markmið og viðhorf upp úr dulvitundinni, en mun víkja að því í næsta þætti.