XIII SJÁLFSSKOÐUN MARKMIÐ

13.0 ER SJÁLFSSKOÐUN ÆSKILEG?

13.1 HNEIGÐIR EGÓSINS.

13.2 MARKMIÐIN.

13.3 GILDI MARKMIÐA.

13.0 ER SJÁLFSSKOÐUN ÆSKILEG?

Öll förum við okkar eigin leið. Leið sérhvers er hin eina rétta og ekki nákvæmlega sú sama og einhvers annars. Margar leiðir liggja yfir sama hálendið og margar eru leiðirnar að miðju hrings, svo líkingar séu notaðar. Meginatriðið er, að leiðina verður hver að fara sjálfur, enginn annar fer hana fyrir hann. En á þessari vegferð má hafa not af hjálpartækjum. Við getum stuðst við landakort og valið þá leið, sem okkur líst best á og við getum fengið okkur leiðsögumenn yfir ýmsa hluta leiðarinnar. Aldrei megum við samt gleyma því, að landakort eru landakort og leiðsögumenn eru leiðsögumenn, sem aldrei geta komið í stað ferðalangsins eða reynslu hans. Einnig verður að gæta þess, að leiðsögumennirnir eru ekki alltaf öruggir um að rata leiðina sjálfir og landakort eru ófullkomin. Hvernig tekst til er aðallega komið undir ferðalanginum sjálfum. Vafalaust tekst ferðin ef vel er að staðið, þótt oft verði að staðnæmast, hörfa til baka og lenda í blindgötum. Meginatriðið er að gefast ekki upp. Vonleysið er einn mesti þröskuldur sjálfsskoðunar, einkum þegar mönnum finnst ekkert miða eða þeir sjá ekki á leiðarenda. Okkur vex hins vegar kjarkur, takist okkur að leggja að baki hluta leiðarinnar og horfa yfir farinn veg.

Mönnum hefur lengi verið ljóst, að mikil starfsemi á sér stað í undirvitundinni, án þess að meðvitundin eigi þar ítök. Við vitum að sumir draumar eru okkur mikilvægir og hefur margur reynt, eftir að hafa lagst til svefns að kvöldi frá óleystu vandamáli, að lausnin liggur ljós fyrir þegar vaknað er að morgni. Ég er ekki að tala eingöngu hér um hið fræga stærðfræðidæmi eða taflstöðu, sem er leyst að morgni, heldur að ýmsar ákvarðanir okkar sem geta verið erfiðar og lausnir þokukenndar að kvöldi, eru oft einfaldar og ljósar að morgni, eftir að við höfum sofið á þeim, eins og kallað er. Þá má nefna reiði, sem viðkomandi vissi ekki um, en brýst skyndilega út af engu eða litlu tilefni eða hann vaknar við hana að morgni dags. Það er einmitt þessi starfsemi, sem hver og einn getur virkjað. Í okkur býr innra afl, sem leitar frelsis og veruleikans og það er þetta afl, sem við treystum á.

Sumir telja sjálfsleit þýðingarlausa án utanaðkomandi hjálpar og að enginn sé fær um að ferðast leiðina erfiðu einn og óstuddur. Freud gamli var t.d. mjög svo vantrúaður á það. Samt gerði hann sínar eigin uppgötvanir að mestu einn og óstuddur. Einnig var svo með Jung. Hann kafaði í sína eigin undirvitund sjálfur án ytri aðstoðar. Í raun er hér á ferðinni hin einfalda spurning: Getur maðurinn þekkt sjálfan sig. Slíkt viðfangsefni hefur alltaf þótt erfitt en áhugavert. Allir sem einhverja reynslu hafa af þessu leggja áherslu á, hve erfitt viðfangsefnið er, þar sem um er að ræða ferð inn í hið óþekkta, þar sem ekkert öryggi í venjulegum skilningi er að finna. Ein mesta hvatningin í þessu efni er þjáningin, sérstaklega kvíðinn, sem menn vilja gjarnan draga úr. Markmiðið er að leysa sjálfan sig úr innri fjötrum, þannig að maður þroskist í samræmi við getu og hæfileika og geti mætt erfiðleikum lífsins.

Eins og áður er minnst á, var Freud vantrúaður á, að maður geti einn og óstuddur stundað sjálfsskoðun og losað eigin fjötra. Hann hafði ekki heldur trú á innra Sjálfi, innra atman, Búddhanáttúru eða einhverju þess háttar, heldur taldi hann manninn sitja að eilífu uppi með egóið. Einnig benti hann á, að hvöt til sjálfsskoðunar stafaði oft af því, að menn vildu í raun upphefja sjálfa sig, verða eitthvað merkilegt. Hann taldi í raun narcissus undirrótina að slíkri löngun. Vissulega var þetta rétt hjá Freud. Byrjunarhvötin stýrist oft af slíkum löngunum, en hinu má ekki gleyma, að þegar allur narcissus hefur verið fjarlægður, situr hvötin eftir sterkari en fyrr. Að því leyti má fyrst í stað hagnýta eðlishneigð manna til upphafningar.

Við sitjum uppi með sjálf okkar alla daga og nætur og því gefast næg tækifæri til sjálfsskoðunar. Þá er hugarheimur okkar ekki framandi, heldur þekkjum við hann betur en nokkur annar. Vitað er að mörgum hefur tekist sjálfsskoðun með góðum árangri. Hún gerist oft án þess að stefnt hafi verið að henni vitandi vits. Árangur byggist á heiðarleika við sjálfan sig. En er sjálfsskoðun ekki að einhverju leyti óæskileg og jafnvel hættuleg? Sumir álíta best að lífið gangi sem snurðulausast fyrir sig, að maður falli vel inn í fjöldann og meginmarkmiðið sé að þjóna þjóðfélaginu. Það sem einstaklingurinn óttast undir niðri eða óskar eftir, á þá að ná valdi á og helst bæla. Menn eiga þannig að aga sjálfa sig. Einnig telja sumir, að með því að hugsa um sig sjálfa, séu menn að leggjast í sjálfsmeðaumkun og eigingirni. Því er til að svara, að við berum fyrst og fremst ábyrgð gagnvart okkur sjálfum og við höfum þau mannréttindi að leita eigin hamingju, og okkur er heimilt að taka eigin þroska alvarlega og leita innra frelsis. Við breytum ekki öðrum eða umhverfinu, nema með því að breyta okkur sjálfum. Við losnum ekki heldur við eigingirnina öðru vísi en að skoða hana og við upprætum hana ekki fyrr en við sjáum tilgangsleysi hennar. Aldrei getur það orðið markmið að verða meðaltal allra meðaltala, enda er umhverfið oft sjúkt og varhugaverður mælikvarði.

Við ættum að spyrja, hvort sjálfsskoðun sé þroskavænleg eða tilgangslaus, hvort við verðum sterkara og betra fólk vegna hennar. Að sjálfsögðu getur sjálfsskoðun leitt til þráteflis, þegar hún er stunduð sjálfs sín vegna, þ.e. gengið er með hana á heilanum og fallið er í sjálfsaðdáun eða sjálfsmeðaumkun, eða lent í óendanlegum vangaveltum eða tilgangslausum sjálfsásökunum. Stundum er staðið að stöðugri þekkingarleit, án þess að hægt sé að nýta þá þekkingaröflun að neinu marki. En guði sé lof, slíkar blindgötur eru venjulega aðeins tímabundnar á þessari miklu vegferð.

Spyrja mætti, hvort sjálfsskoðun geti ekki verið varhugaverð, þar sem hún kunni að ýfa upp dulin og bæld öfl, sem viðkomandi ráði ekki við eða hafi ekki hemil á. Gætum við ekki rekist á innri gagnstæður, sem við sjáum enga leið út úr og leiða til kvíða og vonleysis, er hefði þunglyndi í för með sér? Vissulega gerist einmitt þetta í meiri eða minni mæli. Þegar við skyggnumst dýpra í okkur sjálf eykst kvíði, við uppgötvum reiði og förum úr jafnvægi. En þetta er aðeins tímabundið. Að jafnaði fer okkur aftur í fyrstu og við verðum gjarnan rugluð og kjarklaus. En við erum fljót að komast yfir slíkan afturkipp. Þegar ný innsýn festir rætur, hverfa slík einkenni og við tekur ánægjutilfinning yfir að hafa tekið skref fram á við. Ný viðhorf kosta alltaf sársauka og áföll eru óhjákvæmileg í allri þroskaleit. En náttúran sér við þessu. Innsýnin verður aldrei meiri en við þolum hverju sinni. Ef við erum ekki tilbúin til að meðtaka hana, þá höfnum við henni, finnst hún vera fjarstæðukennd, gleymum henni eða lítum á hana sem ósanngjarna gagnrýni. Við verndum þannig sjálf okkur fyrir sjálfum okkur. Stundum getum við nýtt okkur innsýn að hluta, en varpað meginkjarna hennar fyrir róða. Við erum viðkvæm og vitum hvað forðast ber. Hættan býr ekki í of mikilli innsýn, miklu frekar í því, að sniðganga innsýn um of og gera hana þannig tilgangslausa.

En þótt innsýn hafi truflandi áhrif, má ekki gleyma því, að hún hefur einnig áhrif í frjálsræðisátt. Mönnum léttir á vissan hátt. Að sjá sannleikann um sjálfan sig veit á útleið. Ef innsýn er ógnvekjandi, má segja að sá ótti sé á vissan hátt heilsusamlegur. Ef við sjáum t.d. okkar eigin sjálfsfyrirlitningu, getur það verið hrikaleg innsýn, en hún vekur jafnframt upp heilbrigða þætti í okkur, sem hefja gagnsókn. Ef við höfum nægilegt hugrekki til að sjá óþægilegan sannleika um okkur sjálf, þá getum við verið viss um að það sama hugrekki leiðir okkur út úr ógöngunum. Ef við öðlumst innsýn án aðstoðar annarra, sem veldur uppnámi hjá okkur, er ekkert annað að gera en að brjótast áfram og minni hætta er á að við gerum aðra ábyrga. Þegar við sjáum eigin takmarkanir hættir okkur til að skella skuldinni á aðra, en sjálfsskoðun stuðlar að sjálfsábyrgð okkar. Það er því rangt, að við getum valdið sjálfum okkur skaða með sjálfsskoðun.

Vafalaust eykur sjálfsskoðun innri styrk og sjálfstraust. Eitthvað fleira bætist við eftir slíkt ferðalag. Það frumkvæði, hugrekki og þolinmæði, sem sýna þarf, leiðir til aukins sjálfsöryggis. Að finna sinn eiginn veg leiðir til tilfinningar fyrir eigin getu til að mæta vandræðum og erfiðleikum og finna sig ekki hjálparvana og týndan án leiðsagnar í fjandsamlegum heimi. Velheppnuð fjallganga að eigin frumkvæði er ánægjulegri en sama fjallganga með leiðsögn, þótt árangurinn sé sá sami.

13.1 HNEIGÐIR EGÓSINS.

Markmið sjálfsskoðunar er skilningur. Skilningur sem fæst með sýn inn í sitt eigið sálarlíf. Með því að sýna sjálfum sér þolinmæði og samúð tekst að sjá samhengi einstakra þátta persónuleikans, en markmiðið er að sjá myndina í heild sinni. Margs konar tækni hefur verið fundin upp til að ná þessum markmiðum, m.a. sálgreiningaraðferðir. Það væri að æra óstöðugan að ætla að lýsa hinum ýmsu aðferðum, en það sem ég ætla einkum að fjalla um er með hvaða hætti má nálgast undirvitundina. Þar búa öfl, sem reka okkur áfram til aðgerða, tilfinninga og viðbragða og sem við vitandi vits óskum ekki eftir og rugla okkur rækilega í ríminu. Þessi dulvituðu markmið búa í öllum. Flestir veita þeim ekki hina minnstu eftirtekt, sérstaklega ef lífið gengur snurðulaust. Það er yfirleitt ekki fyrr en snurða hleypur á þráðinn, að menn fara að spyrja sjálfan sig, einkum ef eitthvað mistekst og ekki tekst að skella skuldinni á aðra eða kringumstæðurnar. Ef við verðum þess vör, að eitthvað hið innra hindrar okkur í því sem okkur langar til, þá er gjarnan farið að athuga málið.

Nauðsynlegt er að vita um tilvist og áhrif dulvitaðra markmiða. Við skiljum ekkert í persónuleikanum með öðru móti. Við kvíða eða áhyggjur er nauðsynlegt að komast að raun um þau öfl, er að baki búa. Ef stiklað er á stóru, þá taldi Freud vandræðin stafa af árekstrum milli umhverfis annars vegar og bældra eðlishvata hins vegar. Adler taldi þau stafa af þörf manna fyrir að vera öðrum fremri. Jung var mystisker og gekk út frá sameiginlegri dulvitund, sem væri full af sköpunarmöguleikum, en vandræðin stöfuðu af því, að markmið undirvitundarinnar væru jafnan gagnstæð markmiðum vöku-vitundarinnar. Hvað sem fræðilegum vangaveltum líður, má segja, að við höfum áskapað okkur dulvituð markmið, til að geta fengist við vandamál lífsins í ótta okkar, hjálparleysi og einangrun, sem aftur er að rekja til tvíhyggju mannlegrar hugsunar.

En hver eru þessi dulvituðu markmið? Hver eru einkenni þeirra, eðli og áhrif? Ég hefi ýjað að því í fyrri þáttum, en rétt er að nefna hér fáein atriði til skýringar. Við finnum áhrif þeirra, en fegrum þá gjarnan eiginleikana. Við höfum t.d. þörf fyrir ástúð, en höldum að við séum sérlega góðar og ástúðlegar manneskjur. Ef við erum haldin fullkomnunaráráttu, þá teljum við okkur vafalaust reglusamari og nákvæmari en aðrir að eðlisfari. Viðkomandi getur e.t.v. fundið að eitthvað dregur hann í þessar áttir, sérstaklega ef honum er bent á það. Hann finnur, þörf sína fyrir ástúð eða að vera fullkominn, en hann hefur sjaldnast hugmynd um að hann er algerlega á valdi þessara markmiða og að þau ákvarða líf hans í einu og öllu. Enn síður veit hann hvers vegna markmiðin hafi slík tök á honum.

Ég hefi áður rætt um, hversu þvingandi þessi markmið eru, hvernig þeim er fylgt eftir gagnrýnislaust og án þess að gera greinarmun á. Ef um ástúð er að ræða, þarf að ríkja vinsemd til vina sem óvina og velþóknun þeirra að vinnast. Ef um fullkomnun er að ræða, verða hlutirnir á skrifborðinu að vera í röð og reglu og viðkomandi verður líka að vera klæddur eins og vera ber við öll tækifæri. Veruleikanum og eiginhagsmunum er vikið til hliðar. Kona hangir í sambúð með manni og afhendir honum alla ábyrgð á lífi sínu, en spyr sig ekki að því, hvort viðkomandi sé heppilegur til að búa með, eða hún sé hamingjusöm með honum, hvort henni líki við hann eða hún virði hann. Ef viðkomandi þarf að vera sjálfstæður og sjálfum sér nógur, vill hann ekki binda sig neinum eða neinu, jafnvel þó það spilli hans eigin lífi. Þetta gagnrýnisleysi er oftast augljóst öðrum en viðkomandi sjálfum, en jafnvel utanaðkomandi sér þetta stundum ekki nema þegar þessi markmið verða honum óþægileg eða stinga í stúf við viðurkennda staðla þjóðfélagsins. Þvermóðska er t.d. meira áberandi en hlýðni, en áráttan getur verið jafn rík.

Þegar markmið þessi nást ekki, koma kvíði og vonbrigði í ljós. Þetta sýnir hversu mikið öryggisatriði hneigðirnar og markmiðin eru. Um ógnun verður að ræða. Þeim með fullkomnunaráráttuna verður órótt, þegar hann gerir mistök. Sá sem þarf algert frelsi, verður órór við hvers konar bönd, hvort sem um er að ræða hjónaband eða greiðslu húsaleigu. Viðkomandi finnst mikið um, ef alger fullkomnun eða sjálfstæði er ekki fyrir hendi.

Ég hefi áður rætt sérstaklega um æskuna og myndun þessara tilhneiginga strax á unga aldri. Ræður þar upplag og umhverfi og ætla ég ekki að eyða fleiri orðum í það hér. En ekki má gleyma megingrunninum, tvíhyggju hugsunarinnar, sem örlítið var minnst á í fyrsta þætti og rætt frekar í annarri þáttarröð. Kjarni málsins er, að af ýmsum ástæðum verðum við snemma kvíðafull, óörugg, einangruð og reið. Við finnum snemma til hjálparleysis gagnvart öflum í kringum okkur og við finnum upp eigin aðferðir til að kljást við umhverfið og bjarga eigin skinni. Við verðum næm á það, hvernig ber að umgangast aðra. Aðferðirnar og viðhorfin verða breytileg, allt eftir eðlisfari og kringumstæðum. T.d. draga sumir sig út úr lífinu og láta aðra ekki komast inn á sig. Aðrir fórna sínu eigin tilfinningalífi til að þóknast öðrum, falla öðrum í geð, aðlagast umhverfinu o.s.frv. Ef viðkomandi fellur algerlega fyrir annarri persónu, þjáist hann undir slíku, en vekur jafnframt með sér mikla þörf fyrir að vera sjálfum sér nógur o.s.frv.

Aðstæður geta breytt þessum markmiðum og hneigðum, en oftast aukast þær með aldrinum, ef engin sjálfskoðun kemur til. Ástæður til þess eru margþættar, sérstaklega þó tregðulögmálið, við notum það sem gefst meðan það gefst. Þá verðum við að samræma þau viðhorf, sem myndast hafa með okkur, taka tillit til þeirra hamla, sem við höfum áskapað okkur, þess ótta og kvíða, sem við búum við o.s.frv. Við verðum eins og sjálfgengar vélar, eins og Gurdjieff jafnan lýsti því, við verðum dómgreindarlaus. Ef tekin eru dæmi, þá mætti halda sig við áðurgreinda persónu, sem fellur fyrir hinu kyninu eins og slegið gras. Öllum er ljóst það dómgreindarleysi og innra ósjálfstæði, sem því fylgir í orðum og athöfnum. En hugsum okkur ráðuneytisstjóra, sem fær einsýnan og ráðríkan ráðherra. Ef ráðuneytisstjórinn ætlar að halda góðum tengslum við ráðherra sinn, kemur hann sér upp ákveðinni tækni til að meðhöndla ráðherrann. Hann gætir þess að gagnrýna ráðherrann ekki upp í opið geðið og hrósa öllu jákvæðu, sem hann hefur að bjóða eða frá honum kemur. Hann varast að hrósa keppinautum. Hann samþykkir sjónarmið ráðherrans og áætlanir, burt séð frá eigin skoðunum og gætir þess vandlega að láta líta svo út, sem ráðherrann hafi haft frumkvæði að öllum hugmyndum og tillögum. Auðvitað leiðast ráðuneytisstjóranum þessi látalæti og fals og hefur ímugust á slíku, en þar sem hann virðir sjálfan sig finnst honum þetta ástand fremur vera ráðherranum til vansæmdar en honum sjálfum. Enda gildir þessi tækni aðeins gagnvart þessum húsbónda, af því að hún er nauðsynleg til að koma hlutunum í kring. Gagnvart næsta ráðherra gildir önnur tækni.

Nokkur munur er á þessu og því að falla algerlega fyrir annarri persónu, líta upp til hennar og dást að henni og gera allt til að falla henni í geð. Annars vegar er um að ræða tækni, sem notuð er vitandi vits, hins vegar þvingandi nauðsyn. Segja má að báðir komi sér upp tækni, þar sem þeir sjálfir víkja og dást að viðkomandi, og þannig séu dæmin sambærileg. En í raun eru þau mismunandi. Ráðuneytisstjórinn missir ekki sjálfsvirðinguna eða dómgreindina og bælir ekki reiði sína, en allt það gerir sá, er fellur fyrir öðrum og fórnar sér fyrir hann. Ráðuneytisstjórinn breytir hegðun sinni, en breytir ekki persónuleikanum. Hann sýnir vissa slægð, sem ekki ristir djúpt.

En við verðum að gæta þess, að ákveðið markmið hefur ekki verið afnumið með því einu að verða þess var, ella verðum við fyrir miklum vonbrigðum. Markmiðin hafa tök á okkur engu að síður. Atvinnuleysi eða okurvextir eru ekki afnumdir með því einu að vita af vandamálinu, en það er góð byrjun. Nauðsynlegt er að kanna málið frá öllum hliðum og átta sig á því hvaða öfl komu þessum markmiðum af stað og halda þeim við. Áður var nefnt öryggið, en markmiðin hafa alltaf í sér fólgna von um einhvers konar fullnægju óska. Segja má þó að í þörf fyrir fullkomnun eða hógværðartilhneigingu sé lítið um slíka von, öllu fremur öryggisþörf, en annars verður vonin oft svo mikil að hún líkist ástríðu. Ef tekið er áðurgreint dæmi um þann, sem fellur algerlega fyrir hinu kyninu, þá er viðkomandi uppfullur af vonum um hamingju með hinum aðilanum. M.a. vegna þessa er erfitt að sannfærast um að rétt sé að láta af markmiðinu.

13.2 MARKMIÐIN.

Hin mannlegu markmið sem rætt er um hér að framan, hafa verið flokkuð með ýmsum hætti. Ég fer ekki út í neina kerfisáráttu, en nefni helstu markmið, sem hrjá mannfólkið. Tel ég best að halda mig við áttirnar eins og ég hefi áður gert, byrja í suðaustri og fara hringinn. Þess er þó að minnast, að málið er hreint ekki einfalt. Ég bendi á, að ég mun taka öll þessi markmið til ítarlegrar umfjöllunar síðar í sérstökum þáttum, enda er ekki kleift að verja miklum tíma til þess nú.

Fyrst er þá suðaustur. Ef við lítum til suðausturs, sést þörfin fyrir að takmarka lífið innan þröngra marka, augljós verður nauðsyn þess að gera ekki kröfur á aðra, sættast við sitt litla hlutskipti og setja hömlur á eigin sókn eftir metnaði og veraldlegum gæðum. Í þessu felst bann við allri áleitni eða ásækni og nauðsyn þess að vera ekki áberandi og aldrei í sterkari stöðu eða sýna yfirburði í neinu. Þá má ekki viðurkenna eigin eiginleika eða kosti, en gera í stað þess lítið úr þeim, einkum hæfni og getu, þar sem “hógværð” er æðsta dyggðin. Þessu fylgir bann við síngirni eða sérgæsku, að hafa sannfæringu eða skoðanir, óskir og kröfur. Algert bann er lagt við stolti. Spara verður frekar en eyða og viðkomandi býr við sífelldan ótta við að gera kröfur eða hafa of miklar óskir. Þá felst í þessu bann á viðleitni til afreka eða aðgerða og á allri viðleitni til að nota eigin getu eða hæfileika og að yfirstíga þær takmarkanir, sem viðkomandi hefur sett sér.

Þá kemur suður. Beint í suður er þörf fyrir ástúð, blíðu, samúð, kynást og athygli. Þörf fyrir aðila, sem hægt er að treysta, helst af gagnstæðu kyni. Þá hvílir hugurinn stöðugt hjá honum, enda á hann að uppfylla vonir lífsins og taka ábyrgð á góðu og illu. Meginviðleitnin beinist þá að því að hafa áhrif á þennan aðila. Ofmat er lagt á ást, þar sem hún á að leysa öll vandamál. Ótti um að verða einn og yfirgefinn situr í fyrirrúmi. Nauðsynlegt er að vera alltaf skilningsgóður og elskusamur til að viðhalda ást hins aðilans og þess gætt að aldrei verði árekstrar. Endalaus skilningur, víðsýni, fyrirgefning og fórnfýsi sýnd. Afbrýðisemi ekki sýnd, enda markmiðið alger eining og hamingja. Gjarnan er lifað í gegnum tilfinningar og stolt hins aðilans.

Segja má, að í suðsuðaustur liggi kröfur og græðgi; í persónur og tíma, mat, drykk og nautnalyf. Þarna liggur líka kaupæði, söfnunaræði. Listnautn og að falla fyrir náttúrunni liggur hins vegar meira í suðsuðvestur.

Þriðja er suðvestur. Þar liggur hinn vinsæli. Honum var lýst í síðasta þætti. Til þess að vera vinsæll er oft hentugt að vera ekki áreitinn og sýna hógværð og kurteisi eða vera í yfirburðastöðu, en þarna er ekki á ferðinni beinlínis hin þvingandi hógværð, sem lýst var fyrst (suðaustur), heldur er hér kænska á ferðinni og viðkomandi er stoltur af hógværð sinni. Vinsældir eru hér efst á blaði, vera eftirsóttur, þægilegur, geðfelldur, skilningsgóður, tillitssamur o.s.frv. Hjálpsamur, sáttfús og samvinnuþýður og tala svo sem aðrir vilja heyra og við á hverju sinni. Hér er verið að sækjast eftir öryggi, ekki áliti. Sem sé, verið er að geðjast öðrum í einu og öllu, hvort sem þeir kæra sig um eða ekki. Velþóknun og hrós annarra er vel þegið, enda er verið að uppfylla óskir þeirra og hlýðnast þeim. Hugurinn verður þannig meira í öðrum. Óskir þeirra og skoðanir skipta þá meira máli en eigin skoðanir. Ótti er við fjandskap annarra og eigin innri reiði.

Í fjórða lagi, beint í vestur liggur fullkomnunaráráttan, þ.e. að vera hinn óaðfinnanlegi í eigin og annarra huga. Stöðugar vangaveltur um hugsanleg mistök. Bakþankar og sjálfsásakanir. Undir niðri er fundið til yfirburða vegna eigin fullkomnunar og er þá komið í vestnorðvestur. Þarna liggur ótti við galla í sjálfum sér. Mikill ótti við gagnrýni og ásakanir annarra. Einnig liggur þarna siðvendni til að sýnast, grandvarleiki, heiðarleiki og reglusemi. Samviskusemi umfram allt. Ég lýsti hreinni vesturátt í þættinum “Út vil ek”. Þessi maður vill verða eins og allir aðrir, svo ekki sé hægt að saka hann um neitt. Hann vill í raun vera ekkert af ótta einum saman og hagar seglum eftir vindi. Hann er psykopat, skiptir um skoðun eftir aðstæðum.

Í fimmta lagi í norðvestur höfum við svo hina fullkomnu fyrirmynd, sem veit af því. Hann er fyrirmyndar foreldri, maki, vinur og félagi. Hann má aldrei gera mistök. Hann hefur réttar skoðanir á öllu. Hann er siðavandur og reglusamur, samviskusamur og sýnir ábyrgð. Hann reynir að ná valdi á öðrum með skynsemi og forsjálni og hefur oftrú á skynsemi og hugsun. Hann fyrirlítur tilfinningaöfl. Hann leggur áherslu á framsýni og forspá og finnst hann hafa yfirburði yfir aðra vegna þess. Hann fyrirlítur allt í sjálfum sér, sem ekki hefur yfirbragð andlegra yfirburða. Hann óttast takmarkanir rökhyggju og skynsemi og svo heimsku eða dómgreindarleysi. Hann sýnir myndarskap og er gjarnan stoð og stytta vandamanna sinna.

Í sjötta lagi, ef farið er örlítið í norðnorðvestur birtist persónuleiki, sem vill ná völdum á öðrum. Hann segist jafnan helga sig málstað, skyldu, ábyrgð o.s.frv. og slíkt getur verið rétt svo langt sem það nær, en valdagræðgin situr í fyrirrúmi. Hann fyrirlítur aðra, sérstæði, virðingu og tilfinningar þeirra og eina áhugamál hans er að ráða yfir þeim. Hér birtist hefndarreiði. Hann dáir styrkleika og fyrirlítur veikleika. Hann óttast aðstæður, sem ekki verður ráðið við, svo og hvers konar vanmátt og hjálparleysi.

Í sjöunda lagi. Þá förum við í norður. Þar liggur narcissus í einni eða annarri mynd. Ég skipti því hér í þrennt:

a) Vestast liggur þörf fyrir þjóðfélagslega virðingu og stöðu. Allir hlutir, dauðir og lifandi, peningar og menn, eigin verðleikar, starf og tilfinningar, eru þá metnir eftir virðingargildi. Sjálfsmat er þá háð almennri velþóknun. Sóst er eftir því að vera voldugur, viðurkenndur, háttsettur, mikilvægur, eftirsóttur og þekkja fræga og volduga, og vera í hvers konar áliti. Einnig er mikilvægt að þekkja og vera í tengslum við slíkt fólk. Öll brögð eru notuð til að afla sér öfundar og aðdáunar. Jafnframt er fundið fyrir ótta við að minnka í áliti eða stöðu, annað hvort vegna ytri atvika eða vegna eiginleika innan frá.

b) Þráðbeint í norður liggur þörf fyrir persónulega aðdáun. Hér er á ferðinni útblásin mynd af sjálfum sér (narcissus). Þörf er fyrir að vera dáður, ekki fyrir það sem viðkomandi á eða lætur í té, heldur fyrir eigin ímynd. Sjálfsmatið byggist á því að geta uppfyllt þessa sjálfsímynd og fá aðdáun annarra á henni. Mikill ótti er við lítillækkun, þ.e. að missa aðdáun. Að vera fallegur, gáfulegur, myndarlegur, kynþokkafullur o.s.frv. er mikill kostur í þessu sambandi.

c) Aðeins austar liggur þörf fyrir persónulegan metnað eða afrek. Þá þarf að fara fram úr öðrum, ekki með því sem látið er í té, heldur með eigin starfi. Þá er sjálfsmatið undir því komið að vera besti elskhuginn, íþróttamaðurinn, rithöfundurinn o.s.frv., sérstaklega í eigin huga. Að vera lífsspekingur, kennari eða hugsuður er ekki ónýtt, að ekki sé talað um snilling. Viðurkenning annarra á þessu er nauðsynleg ella reiðist viðkomandi. Sigra þarf aðra og sífellt að afreka meira. Búið er við stöðugan kvíða. Mikill ótti er við að tapa og lítillækka sig með því.

Með þessu þrennu; það er: a, b og c, er verið að ná yfirburðum í samkeppni. Þótt þessi markmið séu lík og fari oft saman, þá getur verið um sjálfstæða tilvist hvers um sig að ræða. Þörf fyrir persónulega aðdáun þarf ekki að fara saman með þörf fyrir þjóðfélagsvirðingu.

Í áttunda lagi. Þá erum við komin í norðausturhornið. Þar liggur þörf hjá sumum fyrir að trúa á mátt viljans og komast á honum einum saman til allra átta. Á ferðinni er hugrekki vegna töfravalds viljans. Fundið er til tómleika, ef óskir uppfyllast ekki. Tilhneiging er þá til að takmarka eða gefa upp óskir og missa áhuga af ótta við að ekki rætist úr. Ótti er við að viðurkenna takmarkanir viljans. Hér er á ferðinni tilhneiging sú, sem lýst var í norðvestur, en áráttan snýr hér inn á við.

Í austnorðaustur höfum við þann, sem vill hafa hag af öðrum með einum eða öðrum hætti. Hann metur aðra eftir því, hvort hann getur haft af þeim hag eða not eða ekki. Hagnýting er þá aðalatriðið, hagnýting peninga, hugmynda, kynlífs og tilfinninga. Viðkomandi er stoltur af því að geta hagnýtt eða notfært sér aðra. Klókindi eru þá talin dáð. Viðkomandi hagnýtir sér fólk sem hluta af sjálfum sér, sína eigin eign og telur sig minni eða meiri í hlutfalli við slíka eign. Mikil hagkvæmni, framkvæmdasemi og útsjónarsemi fylgir þessu markmiði.

Í níunda lagi. Í austur liggur svo andlegt og veraldlegt sjálfstæði. Sunnarlega er um að ræða andlegt sjálfstæði, að hafa tíma og frelsi fyrir sig einan, vera laus við skyldur og bönd. Þarfnast ekki annarra og verða ekki bundinn neinum eða neinu. Öll nálægð er bundin þrælsótta. Ótti er um þörf fyrir aðra, fyrir ást eða nálægð. Norðar liggur svo veraldlegt og fjárhagslegt sjálfstæði. Þörf fyrir að vera birgur og sjálfum sér nógur.

Í tíunda lagi. Í austsuðaustur liggur þörf fyrir sjálfsmeðaumkun og píslarvætti. Að finna sig fórnardýr verður eins konar aðferð til varnar sjálfsásökunum og móral. Með því að stuðla að því að aðrir beiti misneytingu, er innri sena flutt út og viðkomandi verður fórnardýr, sem þjáist í óréttlátum og grimmum heimi. Þjáningin verður grundvöllur krafna og sérstök aðferð til að fá útrás reiði og ásakana. Viðkomandi getur þannig á dulinn hátt fundið til yfirburða, einkum siðferðislegra. Þjáningin afsakar viðkomandi, kemur í veg fyrir annarra ásakanir og réttlætir kröfur um fyrirgefningu.

Taka verður vara á því, að kerfi þetta er alger tilbúningur. Alltaf er um sambland markmiða að ræða. “All cases are mixed cases”, sagði William James.

13.3 GILDI MARKMIÐA.

En eru öll þessi markmið ekki eðlileg og sjálfsögð? Er eitthvað athugavert við þau? Hafa þau ekki að geyma mannleg gildi? Viljum við ekki öll sýna ástúð, sjálfstjórn, hógværð og tillitssemi við aðra og fá endurgoldið í sömu mynt? Metum við ekki mikils að vera sjálfum okkur nóg, sjálfstæð eða vera framsýn og fyrirhyggjusöm? Af hverju á að amast við þessum markmiðum? Er það ekki lögmál náttúrunnar að sýna meiri tilhneigingu í eina átt en aðra, og sönnun þess að við séum ekki öll eins, heldur hvert með sínu móti? Er ekki eðlilegt að einn leggi meira upp úr sjálfstæði en ást?

Þessu má öllu svara játandi og meira en það. Við getum aldrei losnað fullkomlega við þessi markmið, sem tilheyra hugsun og eru samgróin lögmáli hennar. Við losnum aldrei við hugann. Við munum alltaf lifa í “samsara” er leiðir til “nirvana”, þegar innihaldsleysi og tóm “samsara” er upplifað.

Hér er þó um að ræða meiri grundvallarmun en flestir gera sér ljóst. Munurinn er eins og á mínus einum og plús einum. Í báðum tilvikum höfum við einn, en formerkið gjörbreytir gildinu. Munurinn liggur ekki síst í því, að meðan við ekki sjáum innihalds og gildisleysi markmiðanna, hafa þau tök á okkur og stjórna okkur. Þegar við skiljum, getum við sleppt. Þegar við sjáum ekkineittið í þessari veröld sem við búum okkur til og stafar að vissu leyti af meðfæddum eiginleikum, svo sem hugsun, þá léttir okkur. Við verðum frjálsari og eigum hægara með að veita öðrum ástúð, aðstoð, hjálp og skilning.

Við getum tekið dæmi. Ást á öðrum hefur því aðeins gildi og meiningu, ef okkur þykir vænt um þá, þ.e. við höfum tilfinningu fyrir að deila einhverju með þeim. Hér er áherslan á hinum jákvæðu tilfinningum, sem við sýnum öðrum. En flest sú ást, sem um er rætt, er snauð af þessu. Verið er að tryggja sig gegn fjandskap annarra og vanþóknun eða byggt á eigin girnd og græðgi, sem verið er að fullnægja og hefur ekkert með hinn aðilann sem persónu að gera. Gagnkvæmur skilningur, umburðarlyndi og samúð situr þá ekki í fyrirrúmi.

Ef við tökum annað dæmi, þá er okkur mikils virði að þroska hæfileika okkar og kosti. Heimurinn væri betri ef við ræktuðum betur getu okkar og hæfni. En að ætla sér að vera fullkominn og hafa það að áráttu eða þörf, hefur ekkert gildi, því að með því erum við að reyna að fullkomnast án innri breytinga eða breytinga á innri viðhorfum. Engar framfarir gerast með þeim hætti, að við þvingum okkur til ytri breytinga. Ekki er þá hirt um að skoða og uppgötva þá þætti í okkur, sem ráð væri að skilja og uppræta. Slíkt viðfangsefni verkar þá ógnvekjandi og við forðumst það. Þá er farin sú leið, að berja í gallana eða breiða yfir þá, til að losna við eigin fyrirlitningu og annarra, og til þess að viðhalda leyndri tilfinningu eigin yfirburða. Eins og í dæminu áðan um ástina, þátttöku sjálfsins vantar eða er takmörkuð. Í stað viðleitni og þroska, er viðhaldið óbreyttu ástandi.

Tökum þriðja dæmið. Við virðum öll viljastyrk. Hann er mikilvægt afl, sem við getum nýtt í þjónustu þroska okkar og í starfi. En enginn viljastyrkur bjargar okkur úr umferðaröngþveiti. Viljastyrkur getur ekki talist kostur, ef við höfum það að sérstöku markmiði að sanna gildi hans. Sérhver hindrun á veginum veldur þá hamstola aðgerðum, burtséð frá því hvort þörf sé fyrir það sem sóst er eftir eða ekki. Viðkomandi hefur ekki viljakraft, heldur hefur viljakrafturinn hann.

Dæmin sýna, að markmiðin hafa ekki að geyma þau mannlegu gildi sem við teljum. Þau hafa ekki að geyma frelsi. Þau hafa að geyma hugmyndir og hugarburð. Gildi þeirra er huglægt, þ.e. þau gefa vonir um öryggi og lausn vandamála, en einmitt þau gera okkur öryggislaus og óhamingjusöm. Innst inni eru það ekki heldur þessi markmið, sem við sækjumst eftir. Ef einhver sækist eftir virðingu og metorðum, höldum við gjarnan, að hann í raun hafi þessi markmið, en sannleikurinn er sá að viðkomandi er þvingaður vegna innri viðhorfa til að sækjast eftir þeim. Hann stjórnar ekki ferðinni í raun, heldur eru það markmiðin sem stjórna honum, hann er fjarstýrður.

Vafalaust er, að markmiðin móta persónuleika okkar. Þau valda því, að við þróum með okkur ákveðin viðhorf, tilfinningar og hegðunarmynstur. Þau valda því líka, að við gerum af sjálfum okkur ímynd um það, sem við erum eða ættum að vera. Við verðum vör við ýmsar hliðar persónuleikans og bælum aðrar, verðum stolt af vissum eiginleikum, en fyrirlítum aðra, án sýnilegrar ástæðu. Þeim, sem trúa sérstaklega á rökhyggju og framsýni, hættir til að ofmeta það, sem næst með rökhyggju almennt og vera stoltir af eigin rökvísi, dómgreind, framsýni og forspá. Sá, sem ekki getur staðið einn, verður að fá sér maka eða félaga, sem styður hann og veitir lífi hans meiningu og honum hættir til að ofmeta ást sína á öðrum eða vinsemd eða getu sína á því sviði og verða stoltur af þessari hæfni sinni. Sá, sem leggur allt upp úr því að geta allt af eigin rammleik og vera sjálfum sér nógur, telur sig ósjálfrátt hafa sérstaka hæfni til þess að stóla á sig einan og þarfnast einskis og verður stoltur af því.

Brýna nauðsyn ber svo til að viðhalda þessu áliti, og stoltið, sem við byggjum á þessum eiginleikum, verður alltaf viðkvæmt og særanlegt af gildum ástæðum. Það er byggt á sandi eða réttara sagt á þröngum grundvelli og er ímyndað. Ef menn eru vefengdir um hæfni, verða þeir gjarnan órólegir eða reiðast, sem aftur veldur erfiðum samskiptum við umhverfið.

Markmiðin valda því einnig, að við metum aðra ranglega. Sá, sem sækist eftir virðingu, metur aðra eftir því, á hvaða þrepi virðingarstigans þeir standa. Ef einhver nýtur meiri virðingar en hann sjálfur, setur hann þann sér ofar, en lítur að sama skapi niður á hinn, sem nýtur minni virðingar. Þetta er óháð veruleikanum, þ.e. hinu raunverulega gildi hans sjálfs. Sá sem sífellt reynir að geðjast öðrum, er líklegur til að dást skilyrðislaust að því sem honum virðist styrkleiki, jafnvel þótt þessi styrkleiki byggist á ófyrirleitinni hegðun. Þeim sem hagnýtir sér aðra, líkar að sjálfsögðu vel við þann, sem lætur nota sig, en fyrirlítur hann einnig. Hann álítur hógværan mann vera heimskan eða telur hógværðina uppgerð eina. Sá sem er háður öðrum og þarfnast umfram allt félaga og vinar, öfundar þann, sem er sjálfum sér nógur og álítur hann frjálsan og óheftan, þótt honum sé aðeins stjórnað af öðru markmiði.

Markmiðin valda hömlum og ég hefi áður rætt nokkuð það fyrirbrigði. Ætla ég því ekki rúm sérstaklega hér, en hömlur geta verið mjög svo leyndar. Ekki má gleyma því, að þessi markmið okkar eru dulvituð og því erum við eins og línudansarar án þess að vita það, horfum hvorki til hægri eða vinstri en fylgjum ákveðinni línu upp á líf og dauða. Sá, sem er öðrum háður, hefur ekki kjark til að gera neitt sjálfstætt. Sá, sem vill vera hógvær, heldur ekki fram skoðunum sínum og óskum. Sá, sem þarf að hafa vald yfir sér og öðrum, óttast sterkar tilfinningar. Sá, sem sækist eftir virðingu, þorir e.t.v. ekki að koma fram opinberlega af ótta við að mistakast og verða hlægilegur. Allar þessar hömlur hafa það sameiginlegt, að tilfinningar, hugsun og athafnir eru hemlaðar. Línudansari er sjaldan afslappaður og hann óttast sífellt að skrika fótur.

Þannig felur sérhvert markmið í sér ákveðið hegðunarmynstur, hver hefur sérstaka mynd af sjálfum sér og öðrum, sérstakt stolt, sérstaka viðkvæmni og sérstakar hömlur. En við einföldum málið of mikið, ef við ætlum hverjum og einum eitt ákveðið markmið eða skyld markmið. Málið væri þá ekki flókið. Því er ekki að heilsa. Lík markmið geta oft farið saman eða þau stangast ekki mjög svo á, ef þau eru ekki of fjarlæg. Þegar markmið eru lík má með ýmsum ráðum komast hjá miklum vandræðum, þótt það sé jafnan gert á kostnað viðkomandi. En jafnvel þótt aðeins væri um eitt markmið að ræða, skapast samt árekstrar, því að öll markmið hafa í sér fólgin vísi að gagnstæðum.

Málið vandast, þegar við uppgötvum að við þroskum með okkur markmið, sem jafnan eru gagnstæður og fara alls ekki saman. Þá verðum við að þjóna tveim eða fleiri ólíkum herrum, sem gefa gagnstæðar fyrirskipanir og hlýða þeim í blindni. Ef við viljum um fram allt geðjast fólki og vera jafnframt algerlega sjálfstæð, þá leysum við ekki þann vanda. Við gerum þá gjarnan málamiðlanir, en árekstrar eru óhjákvæmilegir, því ef við förum í eina átt gengur það þvert á gagnstæðuna. Ef við viljum til dæmis hagnýta aðra, sem aftur spillir fyrir eigin sköpunarhæfni, og sú árátta er jafnrík og að vilja vera afburðamenni eða skapandi snillingur, þá er ekki von á góðu. Þunglyndi, ofdrykkja og önnur einkenni eiga stundum rót sína að rekja til slíkra árekstra. Við skyldum aldrei líta á einkennin, heldur orsakirnar. Betra er að gæta að upprunanum. En ég er nú ekki þar með að segja að nóg sé að líta á gagnstæð markmið ein sér, því að meiru þarf að hyggja. Kemur það skýrar í ljós eftir því sem gengur á þessa þætti mína.

Við segjum gjarnan að allt sé í lagi, ekkert ami að, en erum samt haldin ofáti, græðgi, o.s.frv. og finnum reyndar undir niðri að eitthvað er að. Við höfum líka dulvitaða hagsmuni af því að vita ekki af grundvelli vandamála okkar, vegna þess hve markmiðin hafa mikið huglægt gildi fyrir okkur. Sannleikurinn er líka sá, að því minna gildi sem markmiðin hafa í raun fyrir okkur, þeim mun fremur finnst okkur þau ómissandi og þeim mun meira verðum við að réttlæta þau. Þetta á sér hliðstæðu í þjóðfélaginu. Ef við höfum lélega ríkisstjórn, þá þolir hún minni gagnrýni og þeim mun meira réttlætir hún sig. Þá þarf að sýna, eins og hjá okkur sjálfum, að allt sé rétt, gott og óbreytanlegt. Allt sem gert er, er þá skynsamlegt, eðlilegt og rétt og aldrei viðurkennt neitt hið minnsta, sem gæti verið vafasamt eða vefengjanlegt. Eða kannast nokkur við þetta?

Sem sagt, við vitum um vandræði okkar, en gætum þess ekki, að það eru markmiðin og myndirnar, sem eru orsakirnar og við erum fjarstýrð af þeim. Markmiðin hafa vald á okkur og stjórna okkur, en við ekki þeim. Þessi markmið hafa flest komið til í æsku, vegna vandamála, sem við áttum þá við að glíma, en þau eru í eðli sínu afleiðing hugsunar og lögmála hennar. Markmiðin lofa okkur einnig leið út úr vandanum, ef við sjáum innihaldsleysi þeirra og hugarins tilbúning, sem ekkert hefur með veruleikann að gera. Höldum við á hinn bóginn fast í markmiðin, verður lífið sífellt erfiðara og þjáningarfyllra. Þá verðum við sífellt særð, hömluð og full af innri átökum. Markmiðin voru upphaflega lausn á fyrstu erfiðleikum okkar, en þau eru jafnframt orsök þeirra, er síðar koma til.