XII SUÐVESTANÁTTIN

12.0 ÚTSYNNINGUR.

12.1 ÞÖRF FYRIR ÁSTÚÐ OG VELVILJA.
12.2 EINKENNI ÞARFARINNAR.
12.3 HÖFNUN.
12.4 ÚTVEGUN OG RÉTTLÆTING.

12.0 ÚTSYNNINGUR.

Ég vil byrja á því að rifja upp það sem ég sagði í síðasta þætti (XI) um að við förum í fjórar áttir til þess að forðast kvíða og endurtaka það sem ég sagði um vestur og suður.

1. Í vestur förum við með hlýðni. Við förum út úr sjálfum okkur og reynum að fylgja þjóðfélagsstöðlum og geðjast öðrum. Í þættinum “Út vil ek” lýsti ég þessu og mun lýsa nánar síðar. Hlýðnin getur verið gagnvart skoðunum þjóðfélagsins og stofnunum þess eða snúið að ákveðnum persónum. Hún getur verið gagnvart almennum siðferðisskoðunum, trúarskoðunum eða valdamönnum. Að hlýðnast þessu er þá stefnumarkandi fyrir alla hegðun. Viðkomandi verður að vera “góður”, þótt góðleikinn geti verið breytilegur eftir því hvaða kröfur eru gerðar eða hvaða reglum hlýtt. Þetta getur jafnvel leitt til þess að viðkomandi taki ekkert alvarlega, ekki einu sinni sjálfan sig. Þessu má þó ekki rugla saman við að telja sig ekki mikilvægan, þótt um þverstæðu sé að ræða.

Þegar hlýðnin snýr hins vegar ekki að stofnun eða persónu, getur hún beinst að óskum allra. Þá er allt forðast, sem valdið gæti fjandskap eða reiði, eigin kröfur eru bældar, svo og gagnrýni á aðra. Slíkir menn verða að þola misneytingu án þess að geta varið sig og vera öðrum hjálpsamir án greinarmunar. Stundum finnur viðkomandi að kvíði liggur að baki gerða hans, en almennt finnur hann það alls ekki, og heldur fast við þá trú, að gerðir hans séu vegna ósíngirni og fórnarlundar, sem gengur svo langt, að eigin óskir eru látnar víkja. Einkunnarorðin eru: Ef ég hlýði, verður mér ekkert að meini.

2. Í suður förum við með því að tryggja okkur stuðning, vináttu, velvilja og ást í einu eða öðru formi. Hér er um að ræða almenna leið, sem langt mál er að lýsa og verður það gert í sérstökum þætti. Hlýðni getur verið þáttur í að tryggja sér ást og stuðning og sumir fórna öllu fyrir þessi gæði. Munurinn á þessari leið og vesturleiðinni er þó sá, að “útmaðurinn” trúir varla á ást og blíðu, enda er hann ekki að leita hennar heldur verndar. Hann finnur sig ekki öruggan nema þegar hann hlýðir stöðlum eða mönnum. Möguleiki á ást er ekki hugleiddur. Einkunnarorð suðurleiðar eru þá: Ef ég tryggi mér ást, vináttu og stuðning, verður mér ekkert að meini.

Í þessum þætti ætla ég að fjalla almennt um það sem kalla mætti útsynning eða suðvestanátt, sem er mjög svo algeng hér í þéttbýlinu á suðvesturhorni landsins, ekki aðeins í hinu ytra umhverfi, heldur í samskiptum manna og hið innra með þeim. Ég fjalla um þessa átt í sjálfstæðum kafla, bæði af því að hér er um að ræða áberandi þátt í samskiptum manna, sem fer þó jafnan fram hjá okkur, svo og af því að þessi átt er svo mikilvæg innra með okkur öllum, að nauðsynlegt er að fjalla um hana almennt, áður en fjallað er um hreinar áttir sérstaklega. Ég vil þó benda á að í þættinum “Út vil ek” fjallaði ég allnokkuð um vestanáttina. Þá verður að benda á, að ég hefi almennt nokkuð fjallað um stolt, hefnd, metnaðargirni, vald og virðingu og er þessi kafli því á vissan hátt nauðsynlegt mótvægi. Og einnig ber að geta þess, að þeim mun betur sem við skiljum sunnan, vestan og norðanátt, verður austrið skiljanlegra, en austmaðurinn tryggir sjálfstæði sitt með flótta sínum.

Ég vil einnig endurtaka það, sem sagt er í síðasta þætti, að með því að fara í einhverja þessara átta eingöngu eða aðallega, getur okkur veist það öryggi sem við sækjumst eftir, þ.e.a.s. ef aðstæður í lífinu bjóða upp á slíkan möguleika, en það verður alltaf á kostnað persónuleikans í heild. Einhliða fylgni við ákveðið markmið nær oftast ekki tilgangi sínum vegna of mikilla krafna og tillitsleysis gagnvart umhverfi. Mestu varðar þó, að flestir ætla í margar áttir til að tryggja sig gegn kvíða, en áttirnar verða aldrei samþýddar hver annarri. T.d. langar sama mann til að hafa völd yfir fólki, en jafnframt ást þess, geðjast fólki og uppfylla óskir þess, jafnframt því að koma vilja sínum fram gagnvart því, draga sig í hlé á sama tíma og hann saknar hlýju og stuðnings o.s.frv. Það eru einmitt þessir árekstrar, sem eru undirrót og uppspretta vandræða okkar.

12.1 ÞÖRF FYRIR ÁSTÚÐ OG VELVILJA.

Að sjálfsögðu getur það verið bæði heilbrigt og óheilbrigt að fara í þessar áttir. Að vilja njóta ástar, að hlýða skyldum, að vilja hafa árangur og áhrif, og að vilja að draga sig í hlé, allt er þetta mjög heilbrigt. Hvar liggja þá mörkin á milli hins heilbrigða og óheilbrigða. Jú, meðan við teljum okkur þurfa endilega að fara í einhverja átt og sjáum ekki innihaldsleysi einstakra markmiða, meðan við sjáum ekki að þau eru tilbúningur okkar eigin huga en ekki sjálfstæður veruleiki, þá er um óheilbrigði að ræða. Ef við t.d. höfum þörf fyrir að fara í ákveðna átt vegna þess að við erum haldin kvíða, þá er um óheilbrigði að ræða. Munur er á því, hvort við hlaupum okkur til líkamlegrar hressingar eða erum á flótta undan óargadýri. Í fyrra tilvikinu hlaupum við ánægjunnar vegna, í hinu öryggisins og óttans vegna. Í síðara tilvikinu höfum við ekkert frjálst val. Þá eru viðbrögðin þvinguð og án greinarmunar. Auðvitað eru til mörg tilvik þarna á milli. Þá er einnig munur á fenginni ánægju. Munur er á vellíðan og ánægju annars vegar og huggun eða tryggingu öryggis hins vegar, þótt sá munur geti verið óljós. T.d. getur verið mikil ánægja fólgin í því að losna við kvíða eða ótta. Einnig veitir ást mikla ánægju umfram öryggiskennd.

Eins og ég sagði í upphafi, er þörf fyrir ást og velþóknun mjög almenn, svo almenn að okkur ætti að vera ljóst að eitthvað mikið er að. Samt reynum við sífellt að réttlæta okkur í þessu efni. Augljóst er, að ef við finnum okkur einangruð og hjálparlaus í fjandsamlegum heimi, þá er ást rökrétt lausn á þeim vanda og þá meina ég ást í víðum skilningi, svo sem velvilja, hjálp, stuðning og velvirðingu hvers konar. Stundum finnst okkur þetta vera lítilfjörlegt, við þörfnumst lítils, aðeins vinsemdar eða ráðleggingar. Við viljum engum mein gera og viljum geðjast fólki, í það minnsta alls ekki særa neinn og aðrir ættu að sýna þessum viðhorfum okkar velvirðingu. Þetta er allt og sumt. En við sjáum ekki hversu viðkvæm við erum, fjandsamleg undir niðri, hversu miklar kröfur við gerum á umhverfið. Við vitum í raun ekki til fullnustu, hvernig við verkum á aðra eða hver viðbrögð annarra eru í raun. Við skiljum því ekki vel, af hverju ýmis vinátta reynist ekki betri, af hverju samskipti við aðra eru oft hnökrótt. Við segjum gjarnan að mistökin séu öðrum að kenna, aðrir séu tillitslausir, óheiðarlegir eða illyrtir. Okkur finnst við ekki vera eins vinsæl og við vildum vera og eltum tálsýn ástarinnar.

Við höfum áður rætt, hvernig kvíði stafar af bældri reiði og hvernig kvíði skapar á ný reiði sem aftur er bæld o.s.frv., þ.e. hvernig kvíði og reiði samtvinnast. Þarna liggur svarið við því, hvers vegna við erum sífellt í ógöngum. Við eigum í raun erfitt með að elska, en þörfnumst aftur á móti ástar mikið. Tímabært er því að spyrja: Hvað er ást? Er það hæfileiki til að veita og taka við ástúð? Nokkuð er til í því. Sú skilgreining getur þó leitt okkur afvega. Það sem skiptir máli, er grundvallarviðhorf okkar, hvort við erum jákvæð gagnvart öðrum í okkar innstu hjartarótum eða hvort á ferðinni er þörf fyrir ástúð annarra í einu eða öðru formi eða ótti við að missa aðra eða kannski ósk um að ná taki á öðrum. Með öðrum orðum, við getum ekki tekið sem gilt einkenni það viðhorf sem sýnist vera.

Betra er að átta sig á ástinni með því að reyna að sjá, hvað ást er ekki. Okkur getur líkað vel við einhvern á sama tíma og við reiðumst honum, neitum að verða við óskum hans og viljum fá að vera í friði. Mikill munur er á þessu og því að vera sífellt á verði, afbrýðisamur og öfundsjúkur, að líta á hverja kröfu sem byrði eða kvöð og gagnrýni sem lítillækkun. Þá er ekki um ást að ræða. Ást getur stundum fylgt jákvæð gagnrýni, þegar verið er að hjálpa öðrum til að leiðrétta stefnuna. En það er ekki ást, að krefjast fullkomnunar eða sýna vanþóknun þegar henni er ekki náð. Það er líka gagnstæða við ást, ef einhver notar annan í einhverjum tilgangi, þ.e. af því að verið er að fullnægja ákveðnum þörfum. Þetta er augljósast, þegar við viljum einhvern vegna kynmaka eða virðingarstöðu í þjóðfélaginu. Við getum blindað okkur ótrúlega í þessu efni. Sumir geta t.d. talið sér trú um að þeir elski aðra manneskju, þótt þeir þarfnist hennar einungis vegna aðdáunar hennar á þeim. Sést það best þegar þeir snúast gegn viðkomandi manneskju vegna gagnrýni hennar.

En nú megum við gæta þess að ganga ekki of langt. Þótt ást samrýmist ekki notkun hins elskaða í græðgi- eða ábataskyni, er þar með ekki sagt að ást verði að vera algjörlega og eingöngu fórnfús og óeigingjörn. Ást útilokar ekki, að sá sem elskar, geti ekki krafist eða óskað neins fyrir sjálfan sig. Auðvitað væntum við margs af þeim, sem okkur líkar. Við ætlumst til stuðnings, tryggðar og trúnaðar, auk uppfyllingar óska. Við ætlumst jafnvel til fórna, ef nauðsyn ber til. Það er heilbrigt að láta slíkar óskir í ljós og berjast fyrir þeim. Það sem hér skilur á milli heilbrigðs og óheilbrigðs má segja að liggi í því, að þegar ást er annars vegar, situr tilfinning fyrir ástúð, kærleik og hlýhug í fyrirrúmi. Sé ást ekki til að dreifa, heldur einhvers konar græðgi eða annarlegum markmiðum, þá situr í fyrirrúmi tilfinning fyrir öryggi og tryggingu eða friðþæging hvata. Svo er auðvitað til allt þarna á milli.

Þegar við erum að sækjast eftir velþóknun, velvild eða ást einhvers til að bægja frá kvíða, er það venjulega óljóst í huga okkar. Það er ekki síst vegna þess, að þá stundina skynjum við ekki, að við erum full kvíða og sækjumst þess vegna eftir einhvers konar hlýhug í öryggisskyni. Við skynjum þá aðeins, að um sé að ræða manneskju, sem okkur líkar, við treystum eða erum spennt fyrir. Velvilji okkar er þá e.t.v. aðeins svar við hlýlegu viðmóti, sem okkur hefur verið sýnt, eða umhverfið hefur vakið með okkur þennan velvilja. Hvað sem hefur vakið hann í okkur, verður mikilvægt í huga okkar og ímyndunaraflið fer af stað. Þetta getur verið frjálslegur einstaklingur eða öruggur með sig, sjálfstæður, valdamikill eða girnilegur. Kynferðisleg girnd kemur e.t.v. upp í okkur, sem ekkert hefur með ást að gera. Í þessum manneskjum getur falist von um tilfinningalegan eða andlegan stuðning. Mörg slík sambönd eru viðvarandi undir yfirskini ástar eða vináttu, en í raun er um að ræða festingu, eða verið er að halda sér í aðra til að fullnægja eigin markmiðum eða hvötum. Að ekki er um ást að ræða verður augljóst, þegar óskir ná ekki fram að ganga og snögg umskipti verða og jafnvel höfnun. Einn þáttur raunástar er einmitt áreiðanleiki, traustleiki, tilfinningalegur stöðugleiki og jafnvægi, sem er fjarri í slíkum tilvikum.

Eitt megineinkenni þess, að ást sé fjarri, er þegar finna má lítilsvirðingu fyrir persónuleika hins aðiljans, sérstaklega takmörkunum hans, sérkennum hans og skringilegheitum og þegar þarfir hans, óskir og þroski eru virt að vettugi. Ef við ætlum að fá eitthvað út úr öðrum, kunnum við lítt að meta hæfni hans til að veita það. Við vanmetum líka venjulega fjandskap okkar, fyrirlitningu og öfund. Við getum verið tillitssöm og fórnfús á yfirborðinu, en óvænt viðbrögð láta á sér kræla. Sú móðir sem ofverndar barn sitt vegna ástar sinnar að hún telur, metur lítt þarfir barnsins fyrir sjálfstæðan þroska. Við erum ef til vill tillitssöm og fórnfús gagnvart makanum, en sífellt þó að kvarta og nagga, ef hann er ekki eins og okkur þóknast.

Við verðum þess tæplega vör, hversu grunn ást okkar er. Það er algengur misskilningur og útbreiddur, t.d. í poppheiminum, að þörf fyrir aðra sé sama og ást eða hæfni til ástar. Þetta á við um einstaklinga og mannkyn í heild. Mikilvægt virðist að halda í slíka firru. Það liggur í augum uppi, því ella kæmi, eins og fyrri daginn, sannleikurinn í ljós. Þá sæist sem sé, að annars vegar væri um fjandskap að ræða og hins vegar þörf fyrir fullnægju á eigin græðgi, hvoru tveggja samtímis. Það er nefnilega ekki rökrænt, að við getum fyrirlitið einhvern, vantreyst honum og fundið til löngunar til að eyðileggja hamingju hans og sjálfstæði, samtímis því að heimta ástúð hans, stuðning og hjálp. Að sjálfsögðu verður þá að halda öllum fjandsamlegum tilhneigingum frá vitundinni. Ástarblekkingin felst því venjulega í samblandi af ósviknum velvilja annars vegar og þörf hins vegar og það er þessi blanda, sem veldur þessu ástarskvaldri, sem tröllríður heiminum.

Enn eitt sýnir sig oft í kring um allt þetta ástarkjaftæði og það ekki ómerkilegt, að þótt viðkomandi næli sér í þá ástúð, sem hann sækist eftir, þá getur hann stundum í raun ekki tekið við henni. Viðkomanda hungrar og þyrstir eftir ást og maður skyldi því ætla að hann þiggi hana með þökkum, eins og þyrstur maður vatn. Það gerist, en aðeins í skamman tíma. Ljóst er að ástúð hefur góð áhrif og læknar mein, andleg og líkamleg. Einnig læknar ást og umhyggja kvíða og staða viðkomanda getur batnað til muna. Með ástúðinni er veitt hin eftirsótta trygging og fullnægja og viðkomandi verður hamingjusamur. En, og áherslu verður að leggja á “en”, undir niðri býr vantrúin og óttinn. Viðkomandi hefur ekki næga trú á ástinni, því að hann vantreystir því að nokkur geti elskað hann í raun. Tilfinningin fyrir að vera ekki elsku verður er oft sannfæring, sem ekki verður haggað þrátt fyrir aðra reynslu. Þetta getur verið svo sjálfsagt í huga viðkomanda, að hann kippir sér ekki upp við það. Hann kærir sig kollóttan með því stolti sem tilheyrir. Ef við erum sannfærð um að við séum ekki elsku verð, höfum við ekki heldur hæfni til að elska. Sá, sem þykir mjög vænt um aðra, getur verið þess viss, að öðrum þykir vænt um hann.

Ef kvíðinn ristir djúpt, þá er allri ástúð vantreyst og jafnvel svo að hún vekur grun um annarlegan tilgang. Sá sem sýnir ástúð er grunaður um græsku, og að gera það í eiginhagsmunaskyni. Sumum finnst ástúð beinlínis lítillækkandi, jafnvel ögrun eða storkun. Þeir telja að verið sé að stríða sér. Þegar ást er sýnd slíku fólki, er henni vantreyst og hún veldur kvíða. Það óttast að verða hneppt í fjötra eða gripið sofandi á verðinum í frumskógi mannæta. Þetta fólk hugsar með hryllingi til sannrar ástar.

Þetta kunna að virðast ýkjur. En gætum betur að. Allir þekkja jafnvel af eigin raun, að ástúð getur valdið ótta um að verða háður öðrum. Af þeim sökum verður ástin hætta sem ber að varast og berjast gegn í sjálfum sér. Slíkir menn verða, hvað sem það kostar, að forðast að láta í ljós tilfinningaviðbrögð jákvæðs hugarfars, vegna þeirrar hættu að verða háður öðrum. Til þess að forðast þetta, verða þeir að blinda sig fyrir þeirri staðreynd, að aðrir séu vinsamlegir og hjálpsamir. Þeim tekst einhvern veginn að fylla hug sinn sönnunum fyrir hinu gagnstæða og telja sér trú um að aðrir séu óvinsamlegir, áhugalausir og illkvittnir. Staða þessara manna er ekki ósvipuð þeirra, sem svelta, en þora ekki að borða, af því að þeir halda að maturinn sé eitraður.

Í stuttu máli: Ef fólk er haldið miklum grunnkvíða, sækist það eftir ástúð og velvilja til þess að eyða kvíðanum, og tryggja öryggi sitt og fullnægju. Ef þetta fólk sækist eftir slíkri ástúð eða velvilja, eru ekki ýkja miklar líkur á að það geti veitt því viðunandi viðtöku, vegna þess að það sem skapar þörfina, kemur í veg fyrir fullnægju hennar.

12.2 EINKENNI ÞARFARINNAR.

Eitt megin einkenni á þörfinni fyrir ástúð og velvilja, er hin knýjandi nauðsyn, áráttukennd og lítill sveigjanleiki. Nauðsynin virðist vera mjög brýn. Lítill greinarmunur er gerður, og ástúð og velvilji verður að fást, hvað sem það kostar. Þessu fylgir ofmat á gildi velvildar. Í raun skiptir það okkur litlu máli, hvort fólki líkar við okkur eða ekki. Vissulega er mikilvægt að vissum aðilum falli vel við okkur. Á það við um fjölskyldu og vinnufélaga. En að þessum aðilum slepptum skiptir litlu máli, hvort fólki líkar við okkur eða ekki. En hjá sumum virðist eigin tilvist og hamingja vera komin undir velvild annarra. Ósk þeirra um velvilja snýr þá fortakslaust að öllum. Ef þeim er ekki heilsað, þeim er ekki boðið eða sýnd sú tillitssemi, sem þeir ætlast til, komast þeir í vont skap og líta tilveruna hornauga eftir á.

Sumir þola einveruna illa. Þeim verður órótt eða þeir verða eirðarlausir og óttast einsemdina. Þeir þurfa mannleg samskipti, ella gerast þeir framtakslausir, órólegir og óhamingjusamir. Þeir eru oft haldnir a.m.k. snerti af víðáttubrjálæði, og þeim er léttir af mannlegu sambandi. Sumum líður þá betur innan þröngra veggja. Um leið og kvíði kemur upp, geta þeir ekki staðið einir. Þetta er einn anginn af miklum útflutningi eða frávarpi sálarlífsins.

Þörf fyrir ástúð og velvild getur snúið að einum ákveðnum manni, t.d. maka eða vini. Ef svo er, verður návist slíks manns mjög mikilvæg og áhuginn beinist því allur að honum. Þetta mikilvægi er þó þverstæða. Viðkomandi sækist eftir návist og athygli vinarins og óttast vanþóknun hans, og finnur sig jafnvel vanræktan, sé vinurinn fjarri. Á hinn bóginn er viðkomandi í raun ekkert sælli í návist átrúnaðargoðs síns. Óskin um návist hans er ekki vegna ósvikins dálætis, heldur einungis af þörf fyrir öryggi og að hafa vininn hjá sér.

En þessi þörf fyrir ástúð og velvild getur verið takmörkuð við ákveðinn hóp manna, t.d. ákveðinn stjórnmálahóp eða trúarhóp eða hitt kynið. Ef um hitt kynið er að ræða, verkar það sem eðlilegt og virðist eðlilegt frá sjónarmiði viðkomandi. Til er fólk, sem sífellt er að endurnýja samband við hitt kynið. Konur geta sóst eftir einhverjum manni, en eru aldrei ánægðar. Þær þurfa að hafa menn nálægt sér, en líkar í raun ekki við neinn og fá ekki fullnægju út úr neinu sambandinu. Sama gildir um karlmenn. Ef ástúð og velvild beinist að sama kyni, getur verið um einn þátt í samkynhneigð að ræða, einkum ef samband við hitt kynið á erfitt uppdráttar vegna kvíða. Slíkur kvíði getur verið falinn í tilfinningu lystarleysis og áhugaleysis á hinu kyninu.

Ef þörf fyrir ástúð og velvild er mjög mikilvæg, þá er hún of háu verði greidd, án þess þó að við gerum okkur grein fyrir því. Venjulega felst greiðslan í hlýðni í einu eða öðru formi og tilfinningalegu ósjálfstæði. Við áræðum ekki að vera ósammála eða gagnrýna og sýnum einungis hollustu, aðdáun, og undirgefni. Menn finna til kvíða, ef þeir gagnrýna eða gera lítið úr einhverjum, jafnvel þótt athugasemdir þeirra séu með öllu meinlausar. Þægðin getur orðið svo mikil, að lögð sé af öll ásækni og áreitni og allar tilhneigingar til að láta til sín taka. Viðkomandi býður upp á misneytingu og fórnar sér.

Skylt þessu hlýðniviðhorfi og samofið því, er tilfinningalegt ósjálfstæði, sem stafar af þörfinni fyrir að hanga með einum eða öðrum hætti í þeim, sem vonir gefur um vernd og fullnægju markmiða. Hér getur oft verið um mikla þjáningu að ræða. Menn eru þá t.d. háðir hinum aðilanum í hjónabandi, þótt þeim sé ljóst að sambandið sé óverjandi. Gerðir hins aðilans verða þá óhæfilega mikilvægar, jafnframt því sem viðkomandi treystir sér ekki til að slíta sambandinu. Oftast liggja þó flóknari ástæður til hins tilfinningalega ósjálfstæðis. Í sambandi, þar sem annar aðilinn er háður hinum, býr undantekningalaust töluverð reiði undirniðri. Sá sem er ósjálfstæður, er jafnan reiður yfir að vera í fjötrum, hann reiðist því að verða að hlýða, en heldur því þó áfram af ótta við að missa hinn aðilann. Hann veit ekki, að það er eigin kvíði hans, sem skapar ástandið. Hann telur víst að undirokunin stafi af því, að hinn aðilinn hafi þröngvað henni upp á hann. Hann bælir reiði sína, af því að hann þarfnast ástar hins, en bælingin eykur á kvíðann, sem aftur eykur ástarþörfina og svo koll af kolli. Þannig tengist hann hinum aðilanum æ fastar. Ef tilfinningalegt ósjálfstæði er á háu stigi, getur viðkomandi með réttu óttast að líf hans fari í rúst. Ef þessi ótti er mjög mikill, leiðir það til þess að viðkomandi þorir ekki að bindast neinum. Stundum er það líka svo, að hann gengur í gegn um mörg sambönd af þessu tagi og gefst upp að lokum og berst með öllum ráðum gegn hvers konar ósjálfstæði. Þá er oft leitað þeirrar leiðar að ná einhverjum af hinu kyninu á sitt vald án þess að verða tilfinningalega tengdur.

Eitt einkenni þessarar knýjandi þarfar fyrir ástúð og velvild, er græðgi eða óseðjanleikinn, sem græðginni fylgir. Hér getur verið um að ræða allsherjargræðgi, sem áberandi einkenni persónuleikans, er getur sýnt sig í ofáti, innkaupum og óþolinmæði. Græðgin getur einnig verið bæld, a.m.k. um tíma og brotist svo skyndilega út. Það getur birst í mildara formi með því að lifa á kostnað annarra, og ágengara formi með því að ná sem flestu undir eignarráð sín og vald. Græðgi lýsir sér einnig á kynferðissviðinu með óseðjanleika. Einnig með söfnun fjár og eigna, fata o.s.frv. Græðgin er ástríðufull eins og kynhvötin. Græðgin á rót sína í kvíða, en þó einkum innri tómleika vegna þess að sálarlífið hefur verið flutt út. Þetta sést best á því, að kynmök og át eru notuð til að lægja kvíða og að græðgin minnkar, þegar viðkomandi hefur fengið tryggingu eða fullnægju markmiða sinna, svo sem með ást, starfi eða árangri. Græðgin vex svo aftur, þegar fjandskapur og kvíði eykst.

Þó eru margir, sem búa við mikinn kvíða, lausir við græðgi. Það bendir til þess að innri tómleiki ráði ferðinni. Segja má um gráðuga menn, að þeir treysta sér illa til að skapa eitthvað sjálfir en treysta fremur á hinn ytri heim til að fullnægja þörfum sínum. Þannig myndast innri tómleiki, sem bæta verður upp með innflutningi. Þeir hafa almennt litla trú á að aðrir séu tilbúnir til að veita þeim eitthvað gefins eða þeirra sjálfra vegna. Leggja verður áherslu á, að græðgi í ástúð og velvilja annarra lýsir sér oftast einnig í græðgi í það, að aðrir fórni þeim tíma sínum og fé, veiti þeim ráðgjöf við ákveðnar kringumstæður og hjálp í erfiðleikum, gefi gjafir, veiti upplýsingar, kynferðislega fullnægju o.s.frv. Græðgin er þá meira heildarviðhorf, þar sem verið er að ná sér í hvers konar hagræði og hagnað, ástúð, velvild og fullnægju. Græðgin eftir efnislegum gæðum getur þó bókstaflega kæft ástargræðgina.

Í þessari umfjöllun um græðgi, er rétt að bæta því við, að til er fólk, sem leitar með öllum ráðum eftir ást í hvaða formi sem er. Enn eru þeir, sem leita ástar, og þegar mistekst í ástarsambandinu, leita þeir ekki eftir öðru slíku, heldur draga sig í hlé og beina græðginni yfir á efnislega hluti. Þeir borða þá og kaupa, lesa eða gera eitthvað annað sem felst í því að afla sér einhvers. Menn geta þá fitnað snögglega eftir misheppnað ástarsamband, en megrast á ný, lendi þeir í nýju ævintýri o.s.frv. Ef matargræðgi er bæld, þá snýst málið við, þannig að matarlyst hverfur og viðkomandi horast nær þrotlaust. Þá er um enn frekari truflun að ræða. Enn eru þeir til sem hafa orðið fyrir svo miklum vonbrigðum í mannlegum samskiptum, að þeir hafa misst alla trú á ástúð og velvilja. Þeir eru þá ánægðir meðan þeim er ekki gert mein. Þeir verða háðskir og bituryrtir í garð ástar og fullnægja þörfum sínum eftir öðrum leiðum.

Græðgin og óseðjanleikinn lýsir sér jafnan í öfundsýki og afbrýðissemi. Menn óttast að missa ást sína og eignir. Gildir þetta bæði milli foreldra og barna og að sjálfsögðu í hjónabandi. Oft stafar öfundsýki frá æsku, ef um samkeppni milli systkina hefur verið að ræða. En krafan er um afdráttarlausa ást. Skiptir þá hegðun ekki máli, hvernig hún hefur verið, hvort hún hafi verið ögrandi eða ósæmileg. Gagnrýni er þá lögð til jafns við höfnun ástar. Þá er oft uppi krafa um að vera elskaður án þess að veita nokkuð í staðinn. Stundum er gerð krafa um ást án nokkurs hagræðis fyrir hinn aðilann. Þessi krafa byggist á þeim lúmska grunni, að ef hinn aðilinn hafi hagræði af sambandinu, sanni það aðeins að hann haldi sambandinu þess vegna. Enn er svo stundum gerð krafa um fórnir fyrir ástina. Því aðeins að öllu sé fórnað fyrir ástina, geti það sannað að um ósvikna ást sé að ræða. Fórnin getur verið fólgin bæði í fé og tíma, en jafnvel einnig í sannfæringu og heilindum. Er þá t.d. krafist að hinn aðilinn standi með viðkomandi í gegnum þykkt og þunnt vegna veittrar ástar.

Krafan um skilyrðislausa ást er bæði tillitslaus og miskunnarlaus gagnvart öðrum og sýnir betur en nokkuð annað hinn dulda fjandskap í kröfunni. Fæstir sjá kröfuna og þörf er fyrir að dylja hana af hagkvæmnisástæðum. Enginn myndi segja: “Ég vil að þú fórnir þér fyrir mig án þess að fá nokkuð í staðinn.” Réttlæta verður kröfuna með einhverjum hætti. Verður nánar vikið að því hér á eftir. Einnig er erfitt að gefa slíkar kröfur upp á bátinn. En með því að sjá innihaldsleysi þeirra og rökleysi er stigið fyrsta skrefið í þá átt. Slíkar kröfur eiga rætur að rekja til þeirrar sannfæringar m.a., að ekki sé hægt að lifa af sjálfum sér og eigin getu og hæfni, heldur verði allt að koma sjálfkrafa á silfurfati. Að aðrir beri ábyrgð á lífinu, en ekki við sjálf. Að gefa kröfuna um skilyrðislausa ást upp á bátinn, kostar grundvallarbreytingu á lífsviðhorfinu í heild.

12.3 HÖFNUN.

Vegna þarfar okkar fyrir ástúð og velvild, erum við mjög viðkvæm fyrir hvers konar höfnun. Við erum viðkvæm fyrir afsvari eða synjun. Erfitt er að greina stigsmun í þessu tilliti. Að vera látinn bíða, skoðanaágreiningur, að ekki er orðið við óskum manns. Allt slíkt álíta sumir eins konar höfnun. Slíkt er álitið lítillækkun og veldur kvíða. Þegar fundið er til lítillækkunar, veldur það reiði hjá viðkomandi, sem bæði getur verið bæld eða brotist út. Ef menn eru t.d. látnir bíða, telja þeir sig lítils metna og það sé engin þörf á að sýna þeim stundvísi. Þeir hafa e.t.v beðið í eftirvæntingu eftir að hitta einhvern, en hann kemur ekki. Reiði brýst fram eða menn draga sig í hlé tilfinningalega og verða kaldir og sýna engin viðbrögð.

Áreiti af þessum toga er venjulega ómeðvitað. Oft er höfnunin svo smávægileg, að hún nær aldrei til yfirvitundar. Menn verða þá aðeins pirraðir, skapvondir eða þreyttir, niðurdregnir eða fá t.d. höfuðverk án sýnilegrar ástæðu. Viðbrögðin stafa þá ekki aðeins vegna höfnunar, heldur og vegna þess sem talið er vera höfnun eða metið sem slíkt og einnig þegar búist er við höfnun. Menn geta t.d. spurt reiðilega vegna þess að þeir búast við afsvari. Menn senda vinkonu sinni ekki kveðju eða blóm, af ótta við, að hún haldi að eitthvað annarlegt liggi að baki. Sumir jafnvel forðast að láta í ljósi vinsamlegar tilfinningar, ástúð, þakklæti eða virðingu til þess að sýnast gagnvart sjálfum sér og öðrum kaldari en raun er á. Jafnvel eru þess dæmi, að gert sé gys að hinu kyninu, til þess að hefna fyrirfram væntanlegrar höfnunar.

Ef menn óttast höfnun mjög mikið, forðast þeir það sem gæti gefið tilefni til synjunar eða afsvars. T.d. sækja menn ekki um stöður eða nálgast ekki hitt kynið, nema þeir séu vissir um að fá ekki höfnun. Karlmönnum finnst konur oft betur settar í þessu tilliti, þar sem ætlast er til að þeir eigi frumkvæðið. Í stuttu máli, ótti við höfnun getur leitt til alvarlegra hamla og feimni. Feimnin er þá vörn gegn því að verða hafnað. Sannfæringin um að vera ekki elskuverður, er þá notuð til varnar. Þá er sagt sem svo: “Fólki líkar alla vega ekki við mig, svo rétt er hjá mér að draga mig í hlé og vernda mig þannig gegn mögulegri höfnun.” Óttinn við höfnun verður þannig til þess að koma í veg fyrir að aðrir fái vitneskju um að viðkomandi vilji öðlast athygli annarra.

Tilfinning fyrir höfnun elur á kvíðanum og viðheldur vítahring þeim, sem áður hefur verið bent á. Vítahringurinn getur verið þessi: “Kvíði. Þörf fyrir velvild og ástúð. Tilfinning fyrir höfnun, ef þessar óskir eru ekki uppfylltar. Reiðiviðbrögð við höfnun. Þörf fyrir að bæla reiði af ótta við að öðlast ekki ástúð og velvild. Innri þrýstingur vegna bælingar reiði. Aukinn kvíði. Meiri þörf fyrir ástúð og velvild o.s.frv.” Þetta eðli vítahringsins í sálfræði er almennt mjög mikilvægt. Sérhver varnarháttur treystir öryggi manna, en skapar jafnan nýjan kvíða. Sá sem drekkur til að losna við kvíða, skapar nýjan. Þannig er það jafnan, að vont versnar stöðugt vegna vítahringa hins innri manns, án þess að nein breyting í hinu ytra komi til. Markmið sálkönnunar er einmitt að uppgötva og grafa undan slíkum vítahringum. Erfitt er að takast á við þá, þar sem við einblínum yfirleitt á afleiðingarnar fremur en orsakirnar. Stundum finnst mönnum það eina sem þeir verði varir við sé sú staðreynd, að þeir séu fastir í gildru eða í vonlausri aðstöðu. Rétt er það einnig, í raun erum við í gildrum, sem við eigum erfitt með að leysa okkur úr. Þegar við erum laus úr einni, birtast strax aðrar hættur. Þetta er lífsins “samsara”.

12.4 ÚTVEGUN OG RÉTTLÆTING.

Við verðum gjarnan að ávinna okkur ástúð og velvild og réttlæta þörf okkar fyrir hana. Skulu nú nefndar nokkrar leiðir til þess. Þær útiloka ekki hverja aðra, og eru oft notaðar fleiri en ein samtímis eða til skiptis. Fer styrkleiki meðala sem notuð eru eftir því, hversu hinn bælda reiði er mikil.

Við notum mútur, þ.e. við segjum sem svo: “Ég elska þig, þess vegna ættir þú að elska mig og elska mig heitt.” E.t.v. er þessi aðferð meira notuð af konum en körlum vegna þjóðhátta, þ.e. konur hafa í gegnum tíðina notað ástina til að afla sér þess, sem þær óska. Karlmenn hafa frekar átt að afreka, þegar konur hafa átt að öðlast hamingju, öryggi og virðingu í gegnum ástina. Þannig er ástin notuð til kröfugerðar. Þessi aðferð skapar mikla hættu á að viðkomandi missi sjálfstæði sitt eða verði háður hinum aðilanum. T.d. ef kona dregst að manni, en hann dregur sig í hlé, þegar hún nálgast hann. Konan reiðist höfnuninni og bælir reiði sína, af ótta við að missa manninn. Ef hún dregur sig einnig í hlé fær hann e.t.v. áhuga á henni á ný og hún bælir reiði sína þá enn frekar með því að sína manninum ást og tryggð. Þá er henni enn hafnað og viðbrögð hennar samkvæmt sama lögmáli eykur ást hennar enn. Brátt verður hún sannfærð um að vera haldin einhverri mikilli ástarástríðu. Önnur mútuaðferð felst í því að sýna viðkomandi sérstakan skilning, hjálpa honum andlega og í þroska hans, hjálpa honum í erfiðleikum o.s.frv. Þetta er nokkuð almennt.

Önnur aðferð til að afla ástúðar eða velvildar er að höfða til meðaumkunar, samúðar eða vorkunnsemi. Þá er sagt sem svo: “Þú ættir að elska mig, af því að ég þjáist og er hjálparvana.” Þjáningin er þannig notuð til að réttlæta kröfur á aðra. Meiri og minni dulinn fjandskapur getur verið fólginn í þessari aðferð og þá er gjarnan vísað til hins góða í okkur. Sóst er eftir athygli og huggun með einum eða öðrum hætti. Notkun þessarar aðferðar sýnir, að viðkomandi er sannfærður um að geta ekki aflað ástúðar með öðrum hætti. Annað hvort er á ferðinni vantrú á ástúð yfirleitt eða að geta aflað hennar í því tilviki, sem um er að ræða.

Enn er sú aðferð við öflun ástúðar og velvildar, að höfða til réttlætis. Þá er sagt sem svo: “Þetta hefi ég gert fyrir þig, hvað vilt þú gera fyrir mig.” Mæður geta vísað til þess við börn sín, að þær hafi gert svo mikið fyrir þau, að þeim beri að sýna óbilandi hollustu og ást. Að hafa samþykkt hjúskap eftir að hinn aðilinn sýndi mikla eftirgangsmuni, getur verið undirrót kröfugerðar. Þeir sem byggja kröfur sínar á þessum grunni leggja gjarnan ofurkapp á að þóknast öðrum, í þeirri von undir niðri, að fá í staðinn allt sem þeir óska. Þeir verða fyrir miklum vonbrigðum vilji aðrir ekki gera jafnmikið fyrir þá. Þetta er ekki útreiknað vitandi vits, en á ferðinni er eins konar töfraformúla: Þeir gera öðrum það, sem þeir vilja að aðrir geri þeim. Það er ekki fyrr en vonbrigðin koma í ljós, að það sést, að væntingarnar voru í raun fyrir hendi. Stundum er þó á ferðinni eins konar huglægt bókhald, þar sem færðar eru til eignar ýmsar fórnir, sem í raun eru gagnslausar, svo sem að vera andvaka. Aftur á móti er gert lítið úr því, sem aðrir gera fyrir þá, og bókhaldið er þannig falsað til að þeir geti krafist sérstakrar athygli. Þetta getur aftur leitt til eftirkasta, þar sem viðkomandi verður e.t.v. hræddur við að skuldbinda sig á nokkurn hátt. Þá dæmir hann aðra eftir sjálfum sér og óttast að aðrir geti hagnýtt sér hann, ef þeir gerðu honum greiða.

Höfðun til réttlætis getur verið á þeirri forsendu, hvað viðkomandi gerði fyrir aðra, ef hann hefði tækifæri til þess. Hann myndi elska, fórna sér eða gera eitthvað annað, ef hann væri í annarra stöðu. Honum finnst kröfur sínar réttlættast af þeirri staðreynd, að hann fari ekki fram á meira við aðra en hann myndi sjálfur gera. Þetta er flókin sálfræði. Eigin ímynd felst í hegðunarkostum, sem hann krefst af öðrum. Ekki er þó um er að ræða algera blekkingu, því að viðkomandi hefur vissa tilhneigingu til að fórna sér, t.d. vegna þess að hann getur ekki verið ákveðinn og beitt sér, eða lítur á sig sem undirsáta og þar sem hann hefur tilhneigingu til að vera jafn eftirlátur við aðra og hann vildi að aðrir væru honum.

Þegar kröfur eru grundvallaðar á skaðabótum, bæta á fyrir rangindi og höfðað er til réttlætis, kemur í ljós að dulinn fjandskapur ríkir undir niðri. Þá er sagt sem svo: “Þú hefur orsakað þjáningar mínar eða beitt mig rangindum, þess vegna verður þú að hjálpa mér, sýna mér umhyggju, styðja mig.” Í slíkum tilvikum er þjáningin nánast aðkeypt til þess að geta ásakað og gert kröfur, án þess að viðkomandi verði þess var og geti haldið réttlætistilfinningu sinni.

Þótt ótrúlegt sé, geta menn gengið svo langt að hóta því að gera sjálfum sér eða öðrum mein, til að afla sér ástúðar og velvildar. Hótanir eru þekktar um að ræna orðstír, gera tilraunir til sjálfsmorðs o.s.frv. Þá er verið að sýna hinum, að án hans verði ekki lifað. Lítinn tilgang hefur að rekja þessar öfgar nema til að sýna, hversu rík tilhneigingin getur orðið, svo að menn sjái þá ljósar hin mildari tilvik. Þar sem markmiðið með hótunum sem þessum er að fá óskum sínum fullnægt, eru þær ekki framkvæmdar, á meðan nokkur von er til þess að úr rætist. Aftur á móti verður að gæta þess, og þar skjátlast mörgum, að viðkomandi framkvæmir alla jafnan hótanir sínar í vonleysi sínu og hefnd.