XI GRUNNKVÍÐI

11.0 BERNSKAN OG KVÍÐI.
11.1 ÞRÓUN KVÍÐA.
11.2 ÁTTIRNAR.
11.3 ENDURTEKNINGARÁRÁTTA OG GAGNÚÐ.
11.4 MEIRA UM KVÍÐA.

11.0 BERNSKAN OG KVÍÐI.

Í síðasta þætti var rætt um kvíða. Í þessum þætti er ætlunin að ræða orsakir kvíða og afleiðingar hans.

Skortur á umhyggju og ástúð í æsku getur valdið kvíða síðar á ævinni. Við getum að skaðlausu þolað margt í æsku, sem ella hefði skaðleg andleg áhrif á okkur, svo fremi að við höfum fengið tilfinningu fyrir velvilja og ást frá öðrum. Barnið finnur glöggt, hvort ást er einlæg og það verður ekki blekkt með sýndarmennsku. Meginástæða þess, að barni er ekki sýnd ást eða hlýja er oftast sú, að foreldrarnir eru ekki færir um að veita þetta vegna eigin sjálfslægni og firringar. Oft er skortur á hlýju dulbúinn og foreldrar telja sig vera að gæta hagsmuna barnsins. Alls konar uppeldisfræðilegar kenningar, ofvernd og ímynduð fórnarlund “fyrirmyndarmóður” getur síðar leitt til tilfinningar fyrir öryggisleysi.

Viðhorf og gerðir foreldra valda oft ósjálfrátt reiði og fjandskap hjá börnum. Þegar börnum er til dæmis mismunað og eitt barn er tekið fram yfir annað eða beitt er óréttmætum ásökunum, eða ef gerðar eru ófyrirsjáanlegar breytingar frá eftirlæti og dekri til höfnunar með fyrirlitningu. Einnig þegar loforð eru ekki efnd, sýnt er tillitsleysi og afskipti eru höfð af eðlilegum vilja eða óskum barnsins varðandi vináttubönd eða með því að hæðast að sjálfstæðri hugsun, og spilla áhuga þess á eigin verkum. Allt slíkt brýtur niður vilja barnsins enda oft til þess gert.

Í sálfræðibókmenntum fyrri tíma var lögð áhersla á vonbrigði, sérstaklega á kynferðissviðinu og vegna afbrýðisemi (Ödipus complex). Vel er hugsanlegt að vonbrigði valdi fjandskap hjá barni, en meira hefur verið lagt upp úr því en efni standa til. Yfirleitt valda vonbrigði ekki reiði, ef missir eða afrækt er eðlileg og réttlát og hefur sinn tilgang, sem barnið sér. Barn reiðist t.d. ekki hreinlætisaðgerð, jafnvel þótt hún geti verið óþægileg. Ávítur, sem ekki eru særandi eða í auðmýkingartón, vekja ekki fjandskap hjá barni. Það sem máli skiptir í þessu sambandi, eins og svo oft, er viðhorf foreldranna, ekki vonbrigðin eða missirinn sem slíkur. Sem viðbrögð við þessari áherslu, sem hér áður fyrr var gerð á vonbrigði, risu upp uppeldisskólar, sem kenndu að ekki mætti hafa nein afskipti af lífi barna án skaða. Slíkar öfgar heyra nú sögunni til.

Á hinn bóginn getur afbrýðisemi valdið reiði og fjandskap hjá börnum ekki síður en fullorðnum. Hér kemur til bæði öfund milli systkina og Ödupusarduld, sem Freud lagði svo mikið upp úr, þegar um er að ræða óvenjusterkar tilfinningar barns til foreldris af gagnstæðu kyni (einkum sonar til móður), oft samfara hatri, óbeit og afbrýðisemi í garð hins foreldrisins. Ekki er rétt að fara mörgum orðum um Ödipusarduld, sem æði margt hefur verið rætt og ritað um. Freud hélt hana jafnvel vera kjarna taugaveiklunar. Ekki er ástæða til að ætla hana jafn almenna og Freud og aðrir hafa talið. Meginástæða afbrýðisemi er jafnan annars vegar skortur á hlýju og hins vegar samkeppnisandi.

Andspyrna og uppreisn barns gagnvart foreldrum eða fjölskyldu er ekki talin að jafnaði skaðleg, ef ástæðan er gild. Hins vegar getur verið skaðlegt að bæla slíkt. Ef við höfum bælt niður gagnrýni, mótmæli eða ásakanir, er alltaf sú hætta fyrir hendi, að við höfum tekið sökina á sjálf okkur og fundist við enga ást eiga skilið. Þannig er bældur fjandskapur undirrót kvíða, sem áður hefur verið lýst. Margs konar ástæður eru fyrir bælingu fjandskapar og skal aðeins að því vikið.

Hjálparleysi barnsins er ekki aðeins líffræðileg staðreynd, það gerist einnig á andlega sviðinu. Börn eru þó mjög misjafnlega háð foreldrum sínum andlega. Ræður þar nokkru uppeldi foreldranna og hvað þau innræta börnunum. Sumir foreldrar hvetja börn sín til að vera sterk, hugrökk og sjálfstæð, en aðrir vernda þau eða gera þau hlýðin og fákunnandi um lífið og tilveruna. Ef barn er alið upp í mótdrægu andrúmslofti, er hjálparleysi þess gjarnan aukið með hótunum eða það er gert tilfinningalega háð foreldrunum með dekri. Því hjálparlausara sem barnið er, þeim mun síður þorir það að sýna mótspyrnu eða dregur það á langinn. Við þær aðstæður bregst barnið við með því að bæla fjandskap sinn, vegna þess að það þarfnast foreldrisins, fremur en sýna andstöðu.

Ótti getur komið til vegna ógnana, hótana og refsinga og vegna reiðikasta eða ofbeldis, sem barnið verður vitni að. Óbeinar hótanir skapa einnig ótta, t.d. með því að valda í barninu óþarfa beyg við hættum lífsins. Því meiri sem hræðsla barnsins verður með þessu móti, þeim mun síður þorir það að sýna eða jafnvel finna til fjandskapar. Það neyðist til að bæla alla reiði og fjandskap af hræðslu við foreldri og umheiminn.

Ástæða getur verið til að bæla fjandskap vegna ástar. Þegar einlægri hlýju er ekki til að dreifa, er oft mikil áhersla lögð á það af foreldrum með fögrum orðum, hve mikið þeir elski barnið og hve miklu þeir vildu fórna fyrir það. Barn, sem hefur verið hrætt til undirgefni, festir sig gjarnan við ástarlíkið og sýnir ekki uppreisnargirni, til þess að fara ekki á mis við þá umbun, sem því fylgir að vera hlýðinn. Það velur þann kost að bæla fjandskap sinn til að fara ekki á mis við ástúðina.

Hér höfum við rætt um ótta barnsins við fjandskap umheimsins og að vera yfirgefið og fara á mis við ástríki. Því má bæta við, að við fáum sektarkennd vegna þess að okkur er innrætt sú þjóðfélagslega siðfræði, að það sé saknæmt að sýna mótþróa og fjandskap. Barninu er innrætt, að það sé einskisvirði í eigin augum og fyrirlitlegt, sýni það eða finni til fjandskapar gagnvart foreldrum eða brjóti reglur, sem foreldrarnir setja. Því ríkari sektarkenndar sem barnið er látið finna til, vegna þess að það hefur brotið bönn, þeim mun síður þorir það að finna til ásakana eða meinbægni gagnvart foreldrunum. Fyrrum voru kynferðismál mjög í brennidepli í þessu sambandi, en eru vart lengur. Kjarni málsins er, að barnið verður að bæla fjandskap sinn til þess að teljast ekki “vont” barn.

Þær ástæður, sem greint hefur verið frá, geta valdið margvíslegri og mismunandi bælingu, reiði eða fjandskap barnsins, en slík bæling er undirrót kvíða.

11.1 ÞRÓUN KVÍÐA.

Þótt stofnað sé til kvíða snemma á ævinni, kann ýmislegt að hafa gerst sem hamlar gegn honum. Aðstæður geta batnað. Breytist þær á hinn bóginn ekki, svo sem oft er, veldur það vaxandi kvíða stig af stigi. Miklu skiptir, hvort viðbrögð fjandskapar og kvíða takmarkast við þær kringumstæður, sem barnið býr við eða hvort viðbrögðin þróast gagnvart umheiminum og fólki.

Ástúð ömmu, kennara eða góðs vinar getur breytt miklu. Barnið sér að ekki er ills von frá öllum. En því erfiðari sem staða þess er gagnvart foreldrunum eru meiri líkur til að það ali með sér hatur gagnvart öllum, en ekki aðeins gagnvart foreldrum. Því einangraðra sem barnið er og getur minna deilt lífsreynslu sinni með öðrum, vaxa líkurnar fyrir kvíða. Þá er það einnig, að því meira sem barn bælir óvild sína gagnvart eigin fjölskyldu með því að fylgja viðhorfum foreldranna, er kvíðanum fremur frávarpað á hinn ytri heim. Heimurinn verður þá hættulegur og ógnandi.

Kvíði gagnvart umheiminum getur þróast og dafnað stig af stigi. Barn sem hefur alist upp í því andrúmslofti, sem lýst hefur verið, þorir ekki í samskiptum við aðra að vera eins fylgið sér og ágengt og þeir. Barnið hefur ekki vissu fyrir því, að aðrir telji það æskilegt eða hafi löngun eða vilja til samskipta við það og tekur meinlausri stríðni sem grófri höfnun. Það særist auðveldar en aðrir og á erfiðara með að verja sig.

Þær aðstæður, sem hér hefur verið lýst eða svipaðar, valda síaukinni og lymskulegri allsherjartilfinningu fyrir því að vera einmana og hjálparlaus í fjandsamlegum heimi. Viðbrögð við einstökum atvikum þróast í að verða persónuleikaeinkenni. Hér er kominn jarðvegur fyrir erfiðleikum síðar. Þessi grunnkvíði er samofinn því sem kalla mætti grunnfjandskap. Þótt okkur takist að losa okkur við margskonar kvíða með því að gera að engu þær forsendur, sem sköpuðu hann, er gjarnan eins og þessi kvíði búi að baki öllum samskiptum okkar við aðra. Þótt kvíði aukist og dvíni vegna breyttra kringumstæðna, heldur þessi grunnkvíði áfram að angra okkur án þess að nokkra sýnilega ástæðu sé að finna í hinu ytra. Svo samlíking sé tekin, þá getur pólitísk óánægja í þjóðfélaginu leitt til verkfalla og óeirða, á sama hátt og grunnkvíði getur leitt til alls konar einkenna. Óánægja getur þó verið í þjóðfélaginu eins og grunnkvíði í okkur, þótt við höfum leyst verkföll og komið á sáttum á yfirborðinu. Vegna grunnkvíðans verða viðbrögðin sterk af minnsta tilefni.

Þótt kvíði komi fram með ýmsu móti og við verndum okkur gegn honum með ýmsum hætti, þá má segja að grunnkvíði sé almennt líkur sjálfum sér, þótt magn og styrkleiki hans sé mismikill. Kvíði lýsir sér almennt þannig, að við finnum okkur smá, lítilfjörleg, hjálparlaus, yfirgefin, og að okkur sé ógnað í heimi, sem er fullur svika og pretta, ógnana, misnotkunar og lítillækkunar. Við vitum takmarkað um grunnkvíðann eða þýðingu hans fyrir líf okkar. Sumir þykjast ekki finna til kvíða, en eru samt hræddir við allt og alla. Vantraust gagnvart öllum getur verið dulið með yfirborðslegri sannfæringu um að fólk sé almennt gott. Mikil fyrirlitning gagnvart öllum getur dulbúist sem þörf fyrir að dást að þeim.

Þótt grunnkvíði taki til fólks, getur hann samt verið án allra persónulegra einkenna og breyst í tilfinningu fyrir ógn frá hinu ytra, t.d. pólitísku ástandi, slysum eða tilfinningu fyrir örlagadómi. Hefur í öðrum þætti verið rætt um frávarp þetta. Oft er erfitt fyrir viðkomandi að koma auga á, að hættan er ekki utanaðkomandi, heldur er um að ræða grunnkvíða og vantraust gagnvart öðrum.

En spyrja mætti, hvort þessi grunnkvíði sé ekki eðlilegur, þ.e. hvort við höfum hann ekki öll í meira eða minna mæli. Er þessi grunnkvíði ekki það sem kallað hefur verið “Angst der Kreatur”? Með þeim frasa er átt við, að öll séum við hjálparlaus gagnvart öflum, sem eru máttugri en við sjálf, svo sem dauða, veikindum, öldrun, náttúruhamförum, slysum o.s.frv. Við uppgötvum þetta hjálparleysi í bernsku og sú þekking varir með okkur út lífið. Sameiginlegt með þessum kvíða, nánast tilvistarkvíða og þeim grunnkvíða, sem við ræðum hér um, er hjálparleysið, en það sem skilur er, að í tilvistarkvíðanum felst enginn fjandskapur að því er tekur til þessara afla.

En er grunnkvíði eðlilegur? Almennt kennir reynslan okkur, ef við erum ekki því verndaðri eða drögum okkur ekki út úr lífinu, að varasamt er að treysta fólki um of. Við vitum að gerðir fólks eru ekki allar hreinar og beinar og ákvarðast oft af hugleysi og tækifærismennsku. Ef við erum heiðarleg teljum við sjálf okkur með. Ef við gerum það ekki, sjáum við þeim mun meira af þessu í öðrum. Þetta viðhorf er náskylt grunnkvíða. Þó er þarna munur á. Við finnum okkur ekki hjálparvana gagnvart mannlegum breyskleika og við gerum greinarmun, sem ekki á við um grunnkvíða. Við höfum hæfni til að stofna til einlægrar vináttu og treysta sumu fólki. Munurinn er sjálfsagt sá, að grunnkvíði skapast í bernsku, þegar ekki er hægt að hafa vald yfir þeim atburðum og viðhorfum, sem leggja grunn að lífsreynslunni, eins og við gerum aftur á móti á fullorðinsárum. Á fullorðinsárum getum við gripið í taumana og gert ráðstafanir, en í bernsku eru viðbrögðin kvíði.

Grunnkvíði hefur alvarlegar afleiðingar að því er tekur til viðhorfs gagnvart okkur og öðrum. Hann þýðir einangrun, sem erfitt er að umbera vegna eigin veikleika. Hann grefur undan sjálfstrausti. Hann veldur árekstri milli þarfar okkar fyrir að treysta öðrum og ómöguleikans til að gera það, vegna vantrausts og fjandskapar til þeirra. Vegna innri veikleika okkar höfum við þörf fyrir að skella skuldinni á aðra. Einnig veldur þessi veikleiki þörf fyrir umhyggju á sama tíma og fjandskapur og vantraust kemur í veg fyrir fullnustu hennar. Ekki má gleyma að við eyðum ómældri orku í að verja okkur gegn þessum grunnkvíða. Því meiri sem hann er, þeim mun öflugri verða viðbrögðin til að vernda okkur gegn honum. Við förum aðallega í fjórar mismunandi áttir til að tryggja okkur gegn grunnkvíða. Verður nú nánar að því vikið.

11.2 ÁTTIRNAR.

Ég sagði, að til að forðast kvíða förum við í fjórar áttir. Þær eru:

1. Í vestur. Með hlýðni. Við förum út úr sjálfum okkur og reynum að fylgja þjóðfélagsstöðlum og geðjast öðrum. Í þættinum “Út vil ek” var þessu að nokkru lýst, en verður nánar lýst síðar. Hlýðnin getur verið gagnvart skoðunum þjóðfélagsins og stofnunum þess eða snúið að ákveðnum persónum. Hún getur verið gagnvart almennum siðferðisskoðunum, trúarskoðunum eða valdamönnum. Að hlýðnast þessu er þá ákvarðandi fyrir alla hegðun. Viðkomandi verður að vera “góður”, þótt góðleikinn geti verið breytilegur eftir því hvaða kröfur eru gerðar eða hvaða reglum er hlýtt. Þetta getur jafnvel leitt til þess að viðkomandi taki ekkert alvarlega, ekki einu sinni sjálfan sig. Ekki má þó rugla því saman við að telja sig ekki mikilvægan, þótt um þverstæðu sé að ræða.

Þegar hlýðnin snýr hins vegar ekki að stofnun eða persónu, getur hún beinst að óskum allra. Þá er allt forðast, sem gæti skapað fjandskap eða reiði. Eigin kröfur eru bældar, og gagnrýni á aðra. Þola verður misbeitingu án þess að geta varið sig og að vera öðrum hjálpsamur án greinarmunar. Stundum finnur viðkomandi að kvíði liggur að baki gerða hans. Venjulega finnur hann ekki til þess, en heldur fast við þá trú, að gerðir hans séu vegna ósíngirni og fórnarlundar, sem gangi svo langt, að eigin óskir verði að víkja. Einkunnarorðin eru: Ef ég hlýði, verður mér ekkert að meini.

2. Í suður. Með því að tryggja sér stuðning, vináttu, velvilja og ást í einu eða öðru formi. Hér er um að ræða almenna leið, sem langt mál er að lýsa og verður það gert í sérstökum þætti. Hlýðni getur verið þáttur í að tryggja sér ást og stuðning og sumir fórna öllu fyrir þessi gæði. Munurinn á þessari leið og vesturleiðinni er þó sá, að útmaðurinn trúir varla á ást og blíðu, enda er hann ekki að útvega sér hana heldur vernd. Hann finnur sig ekki öruggan nema þegar hann hlýðir stöðlum eða mönnum. Möguleiki á ást er ekki hugleiddur. Einkunnarorð suðurleiðar eru þá: Ef ég tryggi mér ást, vináttu og stuðning, verður mér ekkert að meini.

3. Í norður. Hægt er að tryggja öryggi sitt með valdi og virðingu. Eignir koma hér til, aðdáun og virðing eða andlegir yfirburðir. Þessu viðhorfi hefur að nokkru verið gerð skil í sérstökum þætti um metnað. Því verða þó gerð enn frekari skil síðar. Hér eru einkunnarorðin: Ef ég hefi völd eða virðingu, verður mér ekkert að meini.

4. Í austur. Með því að draga sig út úr lífinu. Ekki með því að ganga í klaustur, heldur gerast sjálfstæður gagnvart öðrum með því að verða sjálfum sér nógur og þarfnast ekki annarra. Hér getur komið til eignasöfnun og liggja þá að baki önnur sjónarmið en í norðurleið. Þegar um er að ræða eignasöfnun vegna þess að viðkomandi vill vera sjálfum sér nógur, fylgir venjulega of mikill kvíði til þess að eignanna sé notið og þeirra er gætt með sparsemi, þar sem verið er að tryggja sig gagnvart öllum möguleikum. Sama markmiði má ná með því að takmarka þarfir sínar.

Austmaðurinn getur tryggt sjálfstæði sitt með því að gerast tilfinningalega óháður fólki, þannig að ekkert særi hann eða valdi vonbrigðum. En það kostar það, að draga verður úr tilfinningalegum þörfum. Þessi leið hefur það sameiginlegt með suður og vesturleið, að eigin óskir eru hundsaðar. En í þeim leiðum eru óskirnar hundsaðar vegna “góðleika” eða “ástar”. Um ekkert slíkt er að ræða í austurleið. Þar er markmiðið að afsala sér óskum sínum í þágu sjálfstæðis. Einkunnarorðin eru: Ef ég dreg mig í hlé, verður mér ekkert að meini.

Að fara í einhverja þessa átt eingöngu eða aðallega, getur veitt okkur það öryggi sem við sækjumst eftir, þ.e.a.s. ef aðstæður í lífinu bjóða upp á slíkan möguleika, en það verður alltaf á kostnað persónuleikans í heild. Einhliða fylgni við ákveðið markmið nær oftast ekki tilgangi sínum vegna of mikilla krafna og tillitsleysis gagnvart umhverfi. Mestu varðar þó, að flestir ætla í margar áttir í senn til að tryggja sig gegn kvíða. En áttirnar verða aldrei samrýmdar hver annarri. Það samrýmist til dæmis ekki að mann langi til að hafa vald yfir fólki, en jafnframt hafa ást þess, að geðjast fólki og uppfylla óskir þess, samtímis því að vilja koma vilja sínum fram gagnvart því, að draga sig í hlé og á sama tíma að fullnægja þörf fyrir hlýju og stuðning o.s.frv. Það eru einmitt þessir árekstrar, sem eru undirrót og kjarni vandræða okkar.

11.3 ENDURTEKNINGARÁRÁTTA OG GAGNÚÐ.

Freud tók eftir því, að við höfum tilhneigingu til að endurtaka lífsreynslu, tengsl og viðbrögð, sem við höfum áður upplifað eða reynt. Hann benti á að börn hafi tilhneigingu til að endurtaka lífsreynslu, jafnvel þótt hún sé óþægileg, með mikilli nákvæmni. Við endurtökum drauma, sem eru þjáningafullir. Við endurtökum sársaukafulla lífreynslu. Við erum sífellt að upplifa aftur og aftur sömu lífsreynsluna. Nokkur sannleikur er í þessu. Við erum haldin eins konar endurtekningaráráttu.

Hið vélræna viðhorf vísindanna á 19. öld mótaði mjög viðhorf Freuds. Freud benti á tímaleysi undirvitundarinnar. Nútíðin er þannig ekki aðeins bundin fortíðinni, heldur er hún ekkert annað en fortíðin. Sú hugmynd byggir á að óskir og reynsla, sem bældar eru í æsku, séu vegna bælingarinnar, aðskildar frá samhengi nútímans, þær tengist ekki til þróun einstaklingsins og frekari reynsla og þroski hafi ekki áhrif á þær. Þær séu óbreytilegar að magni og gæðum. Þessi kenning er grunnur hugmyndarinnar um vanabindingu, áráttu eða þráhyggju, þ.e. tilfinningatengsl eða tilhneiging, sem myndast snemma á sálrænum þroskaferli og hamlar frekari eðlilegri þróun þeirrar hvatar sem í hlut á. Mikið hefur verið rætt og ritað um slíka festingu eða áráttu og mun hinn franski sálfræðingur Janet hafa verið fyrstur til að benda á hana og orðið “fixe idée” er frá honum komið, þ.e. þráhyggja eða þegar sama hugsunin leitar sífellt á vitundina og verður ekki umflúin. Mikill sannleikur er einnig í þessu.

Þá ber að nefna mikilvæga uppgötvun Freuds um svonefnda gagnúð, því það var mikið snilldarverk þegar hann sýndi fram á, hvernig nota mætti þekkinguna um hana til lækninga. Við endurtökum sífellt þau tilfinningaviðbrögð, sem við sýndum gagnvart umhverfi okkar í æsku. Freud gekk svo langt að telja þessi viðbrögð endurupplifun bernskutilfinninga. Þetta kann að vera merkilegasta og nýtilegasta uppgötvunin af þeim þremur, sem hér hafa verið nefndar.

Allt þetta er satt. Þegar við veljum vini og kunningja, að ekki sé talað um maka, þá erum við að endurtaka eldri kunningja og vinasambönd. Sömu persónuleikarnir endurtaka sig í samfelldri röð. Viðbrögð okkar við þeim og samskipti eru lituð af hinum upprunalegu viðhorfum. Engin ástæða er til að vera hrelldur yfir þessu eða breyta nema við teljum ástæðu til. Við getum verið bjartsýnni en Freud á, að grundvallarbreyting sé kleif, ef við viljum. En kjarni málsins er að við erum sífellt að hjakka í sama farinu og breytum lítið lífsmynstrinu, þótt við höldum að við séum sífellt að gera það.

En er það æskureynslan sem stjórnar þessu? Eðlilegt var að Freud með sitt vélræna raunvísindaviðhorf áliti svo. Ekki er þó ástæða til að ætla það. Reynslan sýnir, að þótt við uppgötvum í sjálfum okkur þessa upphafsreynslu æskunnar, þá breytir slík uppgötvun litlu, þótt hún sé góð skýring. Við eigum tiltölulega auðvelt með að sjá að gömul viðhorf eru svipuð þeim sem nú ríkja með okkur. En af hverju upprætum við ekki þessi viðhorf, þegar við verðum fullorðin? Hvað veldur því að gömul viðhorf festast svo rækilega í okkur? Er reynsla okkar í dag raunverulega endurtekning gamallar reynslu?

Ástæða er til að ætla að þættir í persónuleikanum geri nauðsynlegt að við endurtökum viðbrögð okkar. Okkur ber ekki nauðsyn til að endurtaka liðna reynslu nema af því að persónuleikinn og samsetning hans gera það nauðsynlegt. Ýmislegt sem við aðhöfumst finnst öðrum óraunsætt, en það er hverju sinni rökrétt frá okkar sjónarmiði. Hið mikilvægasta er því að kanna persónuleika okkar og takast á við breytingar hér og nú. Að vera að grufla í bernsku hefur takmarkað gildi. Við vitum ekki svo glöggt, hvað var í fyrndinni raunveruleg lífsreynsla og upplifun og hvað ímyndunaraflið lagði til málanna. Miklu hagnýtara er að takast á við þau öfl sem nú búa í okkur. Kleift er að skilja þau og sjá, án þess að hafa mikla þekkingu á bernskunni. Einnig er svo, að með því að kanna okkur eins og við erum, rifjast æskan og bernskan ósjálfrátt upp og verður okkur ljóslifandi. Þegar við uppgötvum markmið okkar, öflin í okkur og þarfir, yfirborðsmennsku okkar, léttir þokunni og hið liðna kemur í ljós. Með því lítum við ekki á hið liðna eins og fjársjóð, sem við höfum lengi leitað, heldur kærkomna hjálp til að skilja þróun okkar og þroska.

Reynsla úr æsku, sem skýra á einhver einkenni hér og nú, er oft svo einangrað fyrirbrigði, að hún skýrir ekkert. Skýringar Freudista hafa gengið allt of langt í þessu efni og óþarft að rekja hér. Í þessu sambandi má minna á kenningu Freuds um bakrás (regression), en þá getur viðkomandi hrapað til baka til frumstæðara þroskastigs undir andlegu álagi. Starfsemi sálarlífsins hrapar niður á barnalegra þrep. Skipti Freud bernskunni og æskunni í hin ýmsu stig, sem þroski getur staðnað á og einnig er hægt að hrapa niður á.

Vafalaust mótar bernsku og æskureynsla þróunina og það er Freud að þakka að þetta er ljóst, því hann sá þetta með miklu meiri nákvæmni en áður hafði gerst. Spurningin snýr ekki að því, hvort um áhrif sé að ræða, heldur hvernig þau séu. Eins og áður var sagt, þá skilja bernskan og æskan eftir sín merki á okkur, sem einfalt er að rekja. T.d. ef okkur líkar vel eða illa við ákveðna persónu, þá getur það verið í beinu sambandi við bernskureynslu af manni með svipuð einkenni, t.d. föður, móður, systkini eða öðru nákomnu fólki eða vinum. Gamla reynslan kemur þannig beint fram í reynslu hins fullorðna. Sama gildir, hafi okkur fundist illa með okkur farið í æsku, þá kann okkur síðar að þykja það sama. Við getum hafa misst í æsku traust á velvilja og réttlæti manna og vissu um að við séum æskileg. Þetta getur endurtekið sig, þ.e.a.s við búumst alltaf við hinu versta.

Mikilvægustu áhrifin úr bernsku og æsku, eru heildaráhrifin, sem mótað hafa ákveðinn persónuleika eða réttara sagt komið þróun hans af stað. Hjá sumum er þessari þróun lokið við fimm ára aldur, hjá öðrum á unglingsárum og hjá enn öðrum um fertugt en sumum aldrei. Við getum aldrei dregið hreinar línur í þessu, þ.e. rakið hatur, sem við höfum á einhverjum nú, til haturs á einhverjum í bernsku eða æsku. Við verðum alltaf að reyna að skilja viðbrögðin út frá sjónarmiði heildarpersónuleikans eins og hann er. Þar koma ekki til viðskipti og tengsl við ákveðna menn, heldur sambland allra atriða sem áhrif höfðu á okkur í æsku, svo og viðhorf okkar í dag. Hið liðna er alltaf að einhverju leyti í nútíðinni. Um er að ræða þróun, sem sýnir endurtekningu vegna þess að staðan hefur lítið breyst að því er endurtekninguna varðar.

11.4 MEIRA UM KVÍÐA.

Í síðasta þætti ræddi ég um kvíða. Þar ræddi ég einkum um reiði og fjandskap sem orsakir kvíða. Síðast í þættinum nefndi ég nokkur dæmi um aðrar orsakir kvíða. Í þessum þætti hefi ég rætt um þann grunnkvíða, sem við fáum í æsku, þegar við finnum okkur einmana og hjálparvana í fjandsamlegum heimi. Viðbrögð við þessum grunnkvíða er tilhneiging okkar til að vera vinsæl (vestur), elskuverð (suður), stór (norður) og sjálfstæð (austur). Nú er rétt að skoða kvíða nánar í ljósi þess, sem sagt hefur verið í þessum þætti, sérstaklega það sem sagt er um viðbrögð okkar við grunnkvíða.

Kvíði greinist frá ótta og einkennist af óvissu og samhengisleysi. Hann snertir kjarna persónuleikans. Mikill fjölbreytileiki er í því, sem við teljum hafa afgerandi þýðingu fyrir okkur, og að sama skapi fjölbreytni í því, sem við álítum mikilvæga ógnun. En eitt megineinkenni kvíða er tilfinningin fyrir því hjálparleysi, sem honum fylgir.

Ef við gagnrýnum einhvern án þess að hann taki því illa, þá léttir okkur. Af hverju? Jú, það getur stafað af því, að við viljum vera elskuleg gagnvart honum og við viljum ekki vinslit, heldur eindregna vináttu hans, jafnvel ástúðlega. Einnig getur ástæðan verið sú, að við viljum vera vinsæl. Við viljum umfram allt láta telja okkur geðfelld, falla vel inn í umhverfið og kröfur viðkomandi um hegðun og hafa þá framkomu, sem hann ætlast til af manni. Við viljum e.t.v. umfram allt sýna yfirvegaða og fágaða hegðun gagnvart öðrum, vera tillitssöm og óttumst vanþóknun ef við erum ekki fullkomin að þessu leyti.

Sama gildir um aðrar áttir sem við förum í. Ef sjálfsálit okkar er byggt á virðingu og aðdáun annarra, þá fylgir því alltaf sú hætta, að við kunnum að falla úr þessum sessi. Kvíði vaknar þegar umhverfið veitir ekki slíka viðurkenningu. Ef öryggi okkar byggist á því að vekja ekki athygli, þá fáum við kvíða í sviðsljósinu. Málinu er þannig háttað, að við tökum ákveðna stefnu vegna grunnkvíðans og setjum okkur að fylgja ákveðnum markmiðum eða myndum. Takist okkur það ekki, þá fáum við enn kvíða í ofanálag. Kvíði getur sprottið af öllu því sem er líklegt til að tefla þeim markmiðum í hættu, sem við höfum sett okkur. Ef við þekkjum meginmarkmið okkar, þá vitum við hvaða áreitni sé líkleg til að skapa kvíða.

Ef við lítum til þess, að orsök hætturnar getur komið innanfrá, þá verður málið flóknara. Ákveðin tilfinning, fjandsamleg viðbrögð, eða hömlur, getur verið orsök kvíða. Ef við viljum vera óskeikul, þá skapast kvíði við villur eða ef dómgreindin er ekki fullkomin eða minnið, t.d. ef við gleymum nöfnum eða einhverju í sambandi við undirbúning ferðalags. Ef við viljum vera ósíngjörn, getur eigingjörn ósk skapað kvíða. Hér kemur þó til sem kvíðavaldur, fyrst og fremst reiði og fjandskapur, en um það var rætt í síðasta þætti. Hömlur geta valdið kvíða, t.d. ef við getum ekki tekið ákvörðun á örlagaríku augnabliki.

Gagnstæð markmið okkar geta valdið kvíða. Ef í okkur búa gagnstæðar tilfinningar og hvatir, veldur önnur hvor leiðin óhjákvæmilega kvíða, þar sem við getum ekki farið í tvær áttir samtímis. Ef við viljum vera frjáls, getur ást skapað kvíða. Þörf fyrir sjálfstæði getur skapað kvíða, ef æskileg sambúð, sem öryggi okkar byggist á, er sett í hættu með sjálfstæðisþörfinni. Í okkur býr mýgrútur af gagnstæðum tilhneigingum og möguleikarnir eru nánast ótakmarkaðir fyrir slíkum árekstrum.

Þess ber að geta, að ein sér skapar tilvist gagnstæðra tilhneiginga ekki kvíða, því kleift er að fást við gagnstæðar tilhneigingar með ýmsu móti. Við getum bælt tilhneigingar og forðað þannig árekstri eða upplifað tilhneigingu í ímynduninni og forðað þannig kvíða. Við getum gert málamiðlun, t.d. veitt aðgerðarlaust viðnám, sem er málamiðlun milli hlýðni og mótþróa. Ein tilhneiging getur verið hemill á aðra, eins og tilhneiging til að vera lítt áberandi getur hamlað metnaði og frama. Slíkar lausnir geta skapað jafnvægi, þótt ótraust sé. Um leið og jafnvægið raskast, skapast kvíði.

Segja má, að tilhneigingarnar sem slíkar, t.d. til að geðjast öðrum, til hógværðar, ástar, yfirburða, frelsis eða sjálfstæðis séu ekki hættuvaldar, en ef öryggi okkar byggist að einhverju leyti á þessum viðhorfum og tilhneigingarnar fá ekki að hafa sinn gang, þá kemur fram í okkur kvíði. Þessi kvíði er vegna augljósrar hættu. Hann skilur sig frá grunnkvíða að því leyti, að grunnkvíði er ekki vegna augljósrar hættu heldur mögulegrar hættu og liggur dýpra. En hvort sem kvíðinn er vegna hættu sem er möguleg eða augljós, getur hann verið bældur og aðeins komið fram í draumum, eirðarleysi eða öðrum einkennum. Við getum tekið sem dæmi, mann sem á langa ferð fyrir höndum í óbyggðum, þar sem óveður getur hamlað ferð hans, þá veit hann um mögulega hættu. En ef hann er vel útbúinn að klæðum og mat og þess háttar, sýnir hann ekki kvíða vegna augljósar hættu, því að hann hefur nægan útbúnað til varnar. En hafi hann ekki tekið með sér næg klæði né mat, þá verður kvíðinn vegna augljósrar hættu.

Grunnkvíði verður einkum til vegna þess hve háð við erum foreldrum og umhverfi, sem við viljum rísa gegn. Þann uppreisnaranda gegn umhverfinu verður að bæla. Þessu hefur verið ítarlega lýst áður. Bælingin gerir okkur varnarlaus gagnvart þeirri hættu, sem við ættum að berjast gegn. Ef við bælum reiði, vitum við ekki lengur, að það sem reiðinni veldur er ógnun við okkur. Við verðum geðþekk, hlýðin, tillitssöm og vinsamleg í stað þess að vera á verði. Þetta varnarleysi ásamt óttanum, sem er til staðar þrátt fyrir bælinguna, er meginástæða tilfinningar fyrir að vera hjálparvana í ógnandi heimi.

Að vera hjálparvana er þannig þáttur í grunnkvíða. En fleira gerir okkur hjálparvana. Að fylgja því viðhorfi, t.d. að geðjast eða vera sjálfstæð, tryggir okkur nokkra vernd, en við verðum jafnframt að nokkru varnarlaus, þegar önnur viðhorf eða hegðun eru nauðsynleg. Að þurfa að gera eitthvað, getur fólgið í sér að vera hjálparvana. Ástæður kvíða liggja í okkur og skapa varnarleysi. Ef við komumst ekki hjá því að reiðast, en megum ekki fyrir nokkurn mun sýna það, vegna þess að við verðum að tryggja öryggi okkar með því að sýnast elskuleg eða geðfelld, þá erum við illa sett. Sumir geta ekki aflagt aðgerðarleysi sitt, jafnvel ekki tímabundið og þótt metnaður og frami sé í hættu, og það geti haft úrslitaþýðingu fyrir þá. Margir finna sig flækta í neti, enda er það svo. Mest af þessum augljósa kvíða, sem hér er talað um, stafar af því að menn standa hjálparlausir í klemmu, þar sem báðir vegir eru jafnmikilvægir.

Þegar við verðum vör við kvíða, skyldum við athuga, hvort við séum ekki í klípu án þess að gera okkur það ljóst. Við skyldum þá leita að eðli þessa árekstrar. Við finnum t.d. til reiði út í einhvern. Oft er það út af fyrir sig léttir, þótt ekki leysi það með öllu kvíðavandamálið. Þar sem við getum fundið til reiði án þess að hafa kvíða, þá hlýtur kvíðinn að stafa af því, að eitthvað mikilvægt í okkur er í hættu. Þegar við fylgjum spurningunni eftir sjáum við, hvaða viðhorf eða markmið verða sett í hættu með reiðinni. Með þessu getum við bæði tekist á við kvíðann og jafnframt stundað sjálfskoðun og fundið, hvernig eiginn persónuleiki er samsettur. Freud sagði, að ráðning drauma væri “via regia” til skilnings á undirvitundinni. Sama má segja um þennan kvíða, sem liggur ofan á grunnkvíðanum og kemur fram af ákveðnu tilefni við augljósa hættu, þ.e. þegar viðhorf og markmið fá ekki að hafa sinn gang. Rétt greining kvíðans er ágæt leið til skilnings á innri átökum og árekstrum okkar.