X UM KVÍÐA

10.0 KVÍÐI OG ÓTTI.
10.1 HVERNIG FORÐUMST VIÐ KVÍÐA?
10.2 UM HÖMLUR.
10.3 KVÍÐI OG REIÐI.
10.4 ALMENNT UM KVÍÐA.

10.0 KVÍÐI OG ÓTTI.

Hvað er kvíði? Hvaða munur er á kvíða og ótta? Hvor tveggja eru tilfinningaleg viðbrögð manna við hættu, og þeim fylgja oftast líkamleg viðbrögð, skjálfti, sviti eða hjartsláttur. En munur er á kvíða og ótta. Ef við erum uggandi um líðan einhvers, sem er veikur, telst það ótti, en ef við erum flughrædd eða finnum til beygs við að halda erindi, er um kvíða að ræða.

En í hverju er munurinn fólginn? Eins og sjá má af því sem áður er sagt, er um ótta að ræða, þegar viðbrögð eru í réttu vægi miðað við tilefnið, en það telst til kvíða, þegar viðbrögðin eru í misvægi við tilefnið. Kvíði er oft ekki annað en viðbrögð við ímyndaðri hættu.

En þessi skilgreining er varasöm. Þegar talað er um vægi í þessu sambandi, er nauðsynlegt að líta til þekkingarstigs þjóðfélagsins. Þótt málið virðist augljóst, þá dugar almennt ekki að segja við fólk, að ákveðin viðhorf þess eigi sér ekki stoð í veruleikanum. Menn bregðast umsvifalaust við til að verja eigin viðhorf og það leiðir til óþrotlegra tilgangslausra rökræðna. Flestum finnst eigin ótti hafi yfirleitt við rök að styðjast. Ef frumstæðum manni er til dæmis sagt, að það skipti ekki máli þó hann rjúfi einhverja bannhelgi, “tabu”, þá er samt um raunveruleg hættu að ræða frá hans sjónarmiði.

Mikill munur er á kvíða meðal frumstæðra þjóða og manna í nútímaþjóðfélagi. Kvíði nútímamannsins er, gagnstætt hins frumstæða manns, ekki í samræmi við almennar þjóðfélagslegar skoðanir. Misvægið skilst betur, þegar að er gáð, og okkur verður ljósar hvað kvíði er. Til dæmis lifa margir stöðugt í kvíða vegna dauða síns. Ég man eftir skáldi einu, sem var spurt að því á yngri árum, hvort það bæri ekki kvíðboga fyrir dauðanum. Skáldið svaraði: “Hvernig get ég gert það, þegar svo margir hafa lent í þessu á undan mér?” Engu að síður kveið skáldið mjög dauða sínum í ellinni. Ýmis konar ótti í sambandi við dauðann, samtvinnaður óskhyggju, skapar fyrirboða um nálæga hættu. Þegar allir þættir eru þekktir og allt kemur til alls, má segja, að kvíðinn fyrir dauða sé í réttu vægi við viðbrögðin. Til skýringar má nefna annað dæmi. Ef maður sem er yfirleitt lofthræddur, stendur fulllur skelfingar frammi á fjallsbrún, finnst okkur ótti hans ástæðulaus og ekki í réttu vægi við hættuna. En gagnvart manninum geta verið þær aðstæður, sem valda togstreitu milli óskar um að lifa og freista þess að stökkva fram af fjallsbrúninni.

Því má segja að bæði ótti og kvíði séu jafnan í réttu vægi við tilefnið. Munurinn felist í því, að þegar um ótta er að ræða, þá er hættan augljós eða hlutlæg, en þegar um kvíða er að ræða, er hættan óljósari eða huglæg. Áhrif kvíðans á hlutaðeigandi er í réttu vægi við áhrif kringumstæðnanna. Orsakir kvíðans eru dulvitaðar eða óþekktar í meginatriðum. Hin raunhæfa þýðing þess að tala um ótta annars vegar og kvíða hins vegar er aðallega sú, að það er tilgangslaust að reyna að sannfæra menn um að kvíði þeirra sé ástæðulaus, því kvíðinn hefur ekkert með ytri veruleika að gera, heldur innri viðhorf til hans. Þess vegna er mikilvægt að átta sig á hvaða merkingu kringumstæðurnar hafa fyrir þann sem í hlut á.

Rétt er að gera sér grein fyrir hlutverki kvíðans. Menn gera sér yfirleitt litla grein fyrir því, hve mikilvægur þáttur hann er í lífi þeirra. Sumir minnast kvíða í æsku, í draumi eða í sambandi við mikilvæga ræðu, viðræður eða próf. Hins vegar gera sér aðrir ljóst, að þeir séu fullir kvíða. Mismunur er hér mikill. Um óljósan kvíða getur verið að ræða, kvíðaköst, kvíði við ákveðin störf eða kringumstæður. Sumir viðurkenna, að þeir finni stundum til kvíða, án þess að gera sér ljóst hvað honum veldur og leiða hugann ekki frekar að því. Svo eru aðrir, helteknir hugarangri, finna til vöntunar eða ófullnægju, hafa truflað kynlíf og svo framvegis. En þeim er ekki ljóst að þeir séu haldnir kvíða. Auðvitað kemur í ljós, þegar betur er að gáð, að kvíði liggur undir niðri. Það sýnir, að við getum haft kvíða án þess að verða hans vör.

Hér er vissulega mikilvægara mál en í fljótu bragði sýnist. Kvíðinn er hluti af stærra vandamáli. Við höfum alls konar tilfinningar reiði, ástar, grunsemda o.s.frv. sem eru svo óljósar, að þær koma vart fram í vitund okkar og gleymast. Þessar tilfinningar geta verið léttvægar og stundarfyrirbrigði, en að baki þeim getur og legið mikilvægt afl. Við skulum hafa það hugfast, að vitund okkar um tilfinningu segir ekkert til um styrkleika hennar eða gildi. Þetta þýðir í stuttu máli, að við getum ekki aðeins haft kvíða án þess að vita af honum, heldur getur kvíði beinlínis ráðið miklu um lífsferil okkar, verið sú driffjöður, sem ákvarðar lífsmynstur okkar, án þess að við höfum um það minnstu hugmynd.

Við gerum raunverulega allt til að komast hjá kvíða eða kvíðatilfinningu. Ástæðan er einkum sú, að kvíðanum fylgja óþægindi og mæða. Ýmsir þættir hans verða sumum óbærilegir, svo sem úrræðaleysið. Margir eru hugrakkir, þegar raunveruleg hætta steðjar að, en finna til mesta ráðleysis þegar kvíða ber að. Þetta á einkum við um þá, sem þurfa að ná völdum eða tökum á umhverfinu. Þeir reiðast þá sjálfum sér vegna veikleika eða hjálparleysis, eins og hugleysi sé um að kenna.

Annar þáttur er hið óræða í kvíðanum. Einum er óbærilegra heldur en öðrum að láta það stjórna sér, sem er órökrænt eða óskynsamlegt. Einkum á þetta við um þann, sem finnur í sér leynda hættu gagnstæðra afla og hefur sjálfkrafa tamið sér sterka hugræna sjálfsögun. Vitandi vits þolir hann ekki óræð öfl í sér. Mikil áhersla er líka lögð á skynsemi og rökræna hugsun í þjóðfélaginu og að láta ekki stjórnast af órökrænum öflum, sem álitin eru óæðri.

Hinn óræði kvíði er einnig aðvörun um, að eitthvað í okkur sé ekki eins og það á að vera. Hér er á ferðinni hvöt til að endurskoða eitthvað í okkur. Við gerum það venjulega ekki vísvitandi, en þetta er aðvörun, hvort sem við viðurkennum það eða ekki. Sumum líkar ekki sú áskorun. Í raun og veru erum við ekki jafn mótfallin neinu eins og að viðurkenna að við þurfum að breyta eigin viðhorfi eða leggja það af. Því fastar sem við höldum í þá blekkingu, að við höfum rétt fyrir okkur og séum fullkomin, þeim mun frekar höfnum við öllum dylgjum um að eitthvað sé rangt í fari okkar og þörf sé breytinga.

10.1 HVERNIG FORÐUMST VIÐ KVÍÐA?

Við hliðrum okkur hjá kvíða með ýmsu móti. Aðferðirnar til þess má greina í fjóra megin þætti. Réttlætingu, afneitun, deyfingu og að forðast hugsanir, tilfinningar eða kringumstæður, sem geta vakið kvíða. Lítum á hvern þessara þátta fyrir sig.

Fyrsta aðferðin, réttlætingin, er besta skýringin á því hvernig við komumst hjá ábyrgð eigin gerða. Við breytum kvíða í skynsaman og rökréttan ótta. Við gætum haldið að lítið breyttist við þá aðgerð. Sá sem sífellt hamast við að afla tekna og græða peninga, heldur þeirri iðju áfram, hvort sem hann játar að hafa kvíða eða réttlætir hann sem skynsamlegan ótta um að hafa ekki nóg. Við getum sagt honum að þarna sé ekki um að ræða rökrænan ótta heldur kvíða sem er ekki í réttu vægi við raunverulega hættu og feli í sér huglæg, persónuleg atriði. Viðkomandi telur þetta vera dylgjur og hann leggur áherslu á að sanna, að við förum með rangt mál. Eru peningar ekki afl hlutanna, sem gera þarf? Er fátækt ekki ömurleg? Er ekki óneitanlega þægilegt að geta veitt sér alla hluti? Er ekki gott að geyma til elliáranna? Á fjölskyldan ekki að búa við öryggi? Er fjárhagslegt öryggi ekki betra en óvissa og féleysi? Er það ekki umhyggja fyrir fjölskyldu að afla fjár? Er manninum ekki eðlilegt að starfa? Er hægt að nota tíma og krafta til einhvers annars og betra? Þannig mætti lengi telja. Sama á við um móður, sem ber óhóflega umhyggju fyrir barni sínu og sér ekkert nema hættur og veikindi, eða óttast barneignir, sjúkdóma og slys, að ógleymdri þeirri algengu áráttu að þurfa að ljúka öllu af þegar í stað og geta ekkert átt ógert eða hinu gagnstæða, að gera aldrei neitt fyrr en á síðustu stundu eða þegar það er um seinan, svo dæmi séu tekin af handahófi.

Þegar við verðum vör slíkra átaka við óræð viðhorf, getum við verið viss um að viðhorf einstaklingsins er mikilvægt fyrir hann sjálfan. Í stað þess að vera hjálparlaus leiksoppur t.d. peningagræðgi eða móðurtilfinningar, finnst honum að hann geti raunverulega gert eitthvað í málinu. Í stað þess að viðurkenna veikleika, er hægt að vera stoltur af eigin fyrirmynd, t.d. sem fjáraflamaður eða umhyggjusöm móðir. Í stað þess að viðurkenna, að óræð atriði gegnsýra viðhorfin, eru þau réttlætt og talin skynsamleg. Í stað þess að finna hvöt til að breyta sjálfum sér, er hægt að varpa ábyrgðinni á hinn ytri heim og komast þannig hjá því að sjá eigin markmið. Auðvitað verðum við að greiða þann stundarhagnað því verði, að losna aldrei við áhyggjurnar. Aðrir verða væntanlega einnig að greiða fullt verð, t.d. fjölskyldan í sambandi við peningagræðgina eða börnin í sambandi við móðurumhyggjuna. Þetta er þverstæða, því venjulega er áráttan réttlætt með því, að það sé einmitt verið að gera þetta fyrir þá sömu sem gjalda þess mest. Við viljum ekki viðurkenna þetta af þeirri einföldu ástæðu, að við ríghöldum í þá blekkingu að geta engu breytt í okkur sjálfum, en teljum okkur samt sem áður geta öðlast alla þá hagsbót, sem breytingin hefði í för með sér.

Önnur aðferðin til að forðast kvíða, er að afneita tilvist hans. Þá gerist ekki annað en að kvíðanum er afneitað, hann er útilokaður úr vitund okkar. Afleiðingar ótta og kvíða birtast þá líkamlega, í hrolli, svita, hjartslætti, köfnunartilfinningu, ógleði og magakveisu, eirðarleysi, streitu og lömun. Allt þetta getur hent okkur, þegar við erum verulega óttaslegin og höfum fulla vitneskju um það. En einnig getur verið um að ræða bældan kvíða. Allt sem okkur er þá ljóst er vitneskja um ytri afleiðingar.

Auðvitað er hægt að afneita kvíða vísvitandi, ekki ósvipað og ótta, eins og t.d. þegar hermenn drýgja hetjudáðir til að yfirvinna óttann. Að sjálfsögðu er lítið unnið við það, einfaldlega af því að orsakir kvíðans sitja eftir og hafa ekkert breyst. Slík ákvörðun er oft ekki vísvitandi, og gerist einatt ósjálfrátt. Árangurinn verður sýnilegur og getur það haft áþreifanlegt gildi fyrir viðkomandi, aukið sjálfstraustið og sjálfsálitið. Slíkur árangur er jafnan ofmetinn. Ekki má gleyma því að ekkert hefur breyst í persónuleikanum nema það sem snýr út á við og jafnframt hefur viðkomandi misst hvatningu til að glíma við vandann á dýpri miðum. Vandamálið er enn fyrir hendi, þótt einkennin hafi horfið.

Oft er skeytingarleysi og töffaraskapur unglinga fremur sprottinn af tilhneigingum til að afbera feimni og hömlur samtímis því að finnast vera að sér vegið heldur en beinlínis sé um að ræða reiði eða árásarhneigð. Árásargirnin verður þá ýkt til að komast yfir feimni.

Þriðja aðferðin til að losa sig við kvíða, er að deyfa hann. Það er hægt að gera vísvitandi og beinlínis með neyslu áfengis eða annarra fíkniefna. En margar leiðir eru farnar til að losna við kvíða, þar sem samhengið er ekki greint. Ein leiðin er að hella sér út í félagsmálastarfsemi af ótta við einsemd. Gildir einu máli, hvort kannast er við þann ótta eða hann kemur fram sem óljós órói eða óþægindi. Önnur leiðin er vinna þrotlaust myrkranna á milli. Kvíðinn sést þá á áráttunni og jafnframt óróa á frídögum. Sama gildir um óvenjulega þörf fyrir svefn, umfram það sem er til hvíldar og hressingar. Algengt er að kynlíf sé notað til að deyfa kvíða. Gildir það um hvers konar kynlíf. Þá verður fólk órótt og fullt gremju, ef það hefur ekki möguleika á kynferðislegri fullnægju, jafnvel í stuttan tíma.

Fjórða aðferðin, til að losa sig við kvíða, er jafnframt sú róttækasta. Hún felst í því að forðast allar þær aðstæður, hugsanir og tilfinningar, sem geta vakið kvíða. Þetta má gera vísvitandi, eins og sá sem er lofthræddur forðast fjallsbrúnir eða sá sem hefur innilokunarkennd forðast lyftur og flugvélar. Viðkomandi veit um kvíðann og forðast hann. Stundum veit hann óljóst um hann eða alls ekki, og honum er jafnframt óljóst eða ómeðvitað það sem hann forðast. Því sem veldur kvíða er t.d. óafvitandi skotið á frest, svo sem að skrifa bréf eða fara til læknis. Eða að viðkomandi telur sér trú um, að sumt það, sem hann hefur í huga, skipti ekki máli, eins og að taka þátt í umræðum eða fyrirskipa undirmönnum eitthvað óvinsælt. Stundum þykjast menn ekki hafa áhuga á ákveðnum hlutum og hafna þeim á þeirri forsendu. Sérstaklega á þetta við um þá sem óttast höfnun af einhverju tagi.

Ef við göngum skrefi lengra og skoðum það sem gerist, þegar flótti er sjálfkrafa. Þá koma fram hömlur. Hömlur eru það að hlutaðeigandi getur ekki gert, fundið eða hugsað ákveðna hluti. Markmið þeirra er því að forða honum frá kvíða, sem myndi vakna ef reynt væri að gera, finna eða hugsa þessa ákveðnu hluti. Enginn kvíði er þá í vitundinni og ekki er um að ræða hæfni til að komast yfir hömlurnar vísvitandi. Hömlur eru stórbrotnastar, þegar þær leiða til þess, að misst er mál eða sjón eða lömun á sér stað. Hömlurnar geta einnig birst í kynferðislegu kaldlyndi og getuleysi, þótt um fleiri flóknari atriði geti verið að ræða. Á sálrænum sviðum koma hömlur meðal annars fram í skorti á einbeitingu, hiki við að tjá skoðanir sínar og stofna til sambands við aðra. Er rétt að víkja nokkru nánar að þessu efni.

10.2 UM HÖMLUR.

Það yrði of langt mál að telja upp afbrigði af hömlum. Flestir þekkja til þeirra og geta því fundið þær sem eru augljósar. Rétt er að drepa í stuttu máli á þær forsendur sem nauðsynlegar eru til að geta áttað sig á því, hvenær um hömlur er að ræða. Að öðrum kosti myndum við vanmeta tíðni þeirra.

Í fyrsta lagi verðum við að finna fyrir löngun til að gera eitthvað til þess að átta okkur á vangetu okkar til að framkvæma það. Við verðum til dæmis að vita eitthvað um eignagræðgi okkar til þess að við getum orðið vör við hömlur sem henni fylgja. Og þá má spyrja, hvort við vitum ef til vill ekki í öllu falli hvað við viljum. Það vitum við alls ekki. Ef við til dæmis hlustum á fyrirlestur, sem við viljum gagnrýna. Minni háttar hömlur teldust til feimni við að láta slíka gagnrýni í ljós. Ef hömlurnar væru meiri, þá gæti viðkomandi ekki hugsað skýrt, þannig að skoðanir hans mótuðust ekki fyrr en eftir að umræðum er lokið eða daginn eftir. Hömlur gætu líka verið það miklar, að gagnrýn hugsun kæmist ekki að og þá snýst málið við. Viðkomandi samþykkir allt í blindni og dáist jafnvel að því. Hann verður þá ekki var við neinar hömlur. Með öðrum orðum, ef hömlurnar ganga það langt að bæla óskir eða viðbrögð, veit viðkomandi ekkert um þær.

Í öðru lagi geta hömlur ekki borist til vitundar, þegar þær gegna það mikilvægu hlutverki í lífi einstaklingsins, að hann telur að um óbreytanlega staðreynd sé að ræða. Ef t.d. kvíði fylgir samkeppnisvinnu, getur viðkomandi orðið örþreyttur við sérhverja tilraun til að vinna verk í samkeppni við aðra, en talið sér trú um, að hann sé ekki nógu sterkur eða hraustur til vinnu. Slík trú verndar hann, en ef hann viðurkenndi að um hömlur sé að ræða, yrði hann að sinna starfinu og þar með fá yfir sig kvíðann.

Í þriðja lagi ber að líta á þjóðfélagsviðhorf. Menn verða ekki varir við hömlur, ef þær eru í samræmi við það sem almennt er viðurkennt í þjóðfélaginu. Hömlur í að nálgast hitt kynið eða við kröfugerðir yfirleitt geta einmitt verið lofsamlegar vegna þess að hógværðin er talin dyggð. Sama á við um gagnrýni í trúmálum og stjórnmálum vegna hræðslu við einangrun. Til þess að dæma um þessi atriði verðum við samt sem áður að skoða málið í heild. Hræðsla við að gagnrýna þarf ekki skilyrðislaust að vera vísbending um hömlur, svo dæmi sé nefnt. Til dæmis getur leti eða heimska átt hlut að máli.

Framangreindar ástæður valda því, að erfitt er að átta sig á hömlum. En jafnvel þótt við berum skyn á þær, vanmetum við tíðni þeirra engu að síður. Til eru ýmis konar viðbrögð, sem ekki hafa þróast í hömlur. Við getum til dæmis gert ýmislegt, en kvíðinn sem fylgir hefur sín áhrif á það sem við gerum.

Í fyrsta lagi þá veldur kvíðvænlegt starf streitu og þreytu. Mörg streitan og þreytan, sem menn rekja til yfirvinnu, stafa í raun ekki af sjálfri vinnunni, heldur af kvíða í sambandi við hana og vegna mannlegra samskipta sem tengd eru henni.

Í öðru lagi leiðir kvíði í sambandi við starf til lakari starfsárangurs, t.d. að fyrirskipanir eru gefnar í afsökunartón. Vitund um þetta er oft óljós. Viðkomandi veit að kvíði kemur í veg fyrir að honum takist að framkvæma ákveðið verk með fullnægjandi hætti eða hann hefur þá tilfinningu að honum sé ófært að gera neitt vel.

Í þriðja lagi spillir kvíði þeirri ánægju, sem athöfn eða starfi fylgir. Minniháttar kvíði getur þó verið ánægjulegur. Svo er t.d. ef brunað er á skíðum niður brekkur. Kvíði í sambandi við kynmök veldur hins vegar kyndeyfð. Þannig má segja, að kvíði valdi því að við forðumst athöfn eða starf og geti einnig verið afleiðing athafnar eða starfs. Sálfræðin er vissulega margslungin.

Almennt verður að álíta kvíða fólks meiri en það verður vart við. Hann getur dulist á bak við ýmis óþægindi og þreytu, eða ótta, sem virðist hafa sínar ástæður. Kvíðinn getur verið undirrót drykkjuskapar og alls konar afþreyingar. Oft veldur hann því að ekki er notið heimsins gæða og hann er alltaf að baki hömlum. Þjóðfélagsaðstæður skapa kvíða sem flestir taka upp varnir gegn í einni eða annarri mynd. Því stórfelldari sem hömlur eru, er okkur fremur fyrirmunað að aðhafast nokkuð, þótt hvorki skorti hæfni né þekkingu til þeirra hluta.

10.3 KVÍÐI OG REIÐI.

Eins og áður er sagt, er kvíði talinn huglægur ótti. Hvað er þá hið huglæga í kvíðanum? Hver er sú reynsla? Það er eins og að standa hjálparvana frammi fyrir mikilli og óhjákvæmilegri hættu. Stundum virðist sú hætta koma utan frá, eins og slys sé í vændum eða innan frá vegna eigin tilhneiginga. Stundum er hættan óljós og verður ekki höndluð, svo sem í kvíðaköstum.

Ekki þarf kvíða til slíkra tilfinninga, þær koma t.d. upp þegar hætta steðjar að og við erum hjálparvana og varnarlaus. Slík huglæg reynsla getur gerst við jarðskjálfta eða er barn upplifir harðræði. Þarna er þó óttinn byggður á raunverulegum ástæðum og hjálparleysið og varnarleysið auðskilið. Þegar um kvíða er að ræða, kemur hættan til og er mögnuð upp af huglægum ástæðum og hjálparleysið verður vegna eigin innra viðhorfs.

Spurningin um hið huglæga í kvíðanum leiðir af sér spurningu um hvaða sálræn skilyrði skapi tilfinningu fyrir aðsteðjandi hættu og varnarleysi gagnvart henni? Hér er ekki spurt um efnafræðileg eða líkamleg skilyrði. Sigmund Freud taldi að hættan og hjálparleysið stafaði af því mikla afli sem býr í frumhvötum tilhneiginga hans. Hvöt eða tilhneiging getur skapað kvíða, þegar þetta raskar lífshagsmunum og þörfum, sem eru bráðnauðsynlegar og helgar eða tilfinningaleg nauðsyn. Þetta átti einkum við á tímum Freuds um boð og bönn í kynferðismálum. Nú á tímum getur þetta svið ekki talist eins kvíðvænlegt. Þó virðist kvíði oft tengdur kynþörfum á yfirborðinu, eins og áður segir. Nánari skoðun hefur þó leitt í ljós, að grundvöll kvíða er ekki að finna í kynhvötinni sjálfri, en öllu heldur í andstæðum tilheigingum í sambandi við hana, eins og að þurfa að meiða eða lítillækka í kynmökum.

Sumir telja andstæðar tilhneigingar og hvatir í einni eða annarri mynd, vera meginorsök kvíða. Þetta verður þó ekki alhæft. Andstæðar tilhneigingar valda kvíða, ef framgangur þeirra er skipbrot fyrir eigin lífsmarkmið, lífhagsmuni eða þarfir, sem eru tilfinningalega nauðsynlegar. Ef það er álitið valda meiri háttar ógæfu að láta undan hvöt eða tilhneigingu, orsakar það kvíða. Þar sem reiði og fjandskapur eru gagnstæð siðareglum einstaklinga og þjóðfélags, veldur bæld reiði, afbrýðisemi og annar fjandskapur jafnan kvíða. Flestum er þó ekki ljóst þetta samhengi milli reiði og kvíða. Þar sem fjandsamlegar tilhneigingar eru svo oft orsök kvíða, er rétt að gera stutta grein fyrir sálarlegum afleiðingum þess að bæla reiði.

Með því að bæla reiði okkar, viljum við láta líta svo út, sem allt sé í stakasta lagi og við höldum aftur af okkur og heyjum ekki baráttu fyrir málstað okkar, þegar við ættum að gera það eða a.m.k. þegar við óskum að gera það. Óhjákvæmileg afleiðing slíkrar bælingar er tilfinning fyrir varnarleysi eða öllu heldur magnar bælingin þá varnarleysistilfinningu, sem fyrir er. Ef fjandskapur er bældur, þegar ráðist er á hagsmuni viðkomandi, er alltaf möguleiki fyrir því, að aðrir færi sér það í nyt.

Bæla má reiði og fjandskap og vísvitandi má einnig ná valdi á þessum geðhrifum. Við höfum fáa valkosti um, hvaða aðferð við notum, og fer það eftir styrkleika reiðinnar og kringumstæðum. Oft er óbærilegt að verða var við fjandskap sinn og þá kemur bæling til. Við getum borið kærleika til einhvers eða þurft hans við á sama tíma og við reiðumst honum. Við viljum e.t.v. ekki sjá ástæðurnar, til dæmis að þær séu afbrýðisemi og þörf fyrir að eiga viðkomandi sem ástvin eða félaga, eða að við viljum almennt ekki kannast við reiði eða fjandskap okkar gagnvart neinum. Við ætlum okkur að vera góðmenni og eigum að vera það undir öllum kringumstæðum og þola allar misgerðir. Í slíkum tilvikum er bæling skemmsta og nærtækasta leiðin til að tryggja það. Með henni hverfur hin varasama reiði eða fjandskapur úr vitundinni eða er haldið frá henni. Í stuttu máli: Ef reiði eða fjandskapur eru bæld, hefur sá hinn sami ekki minnstu hugmynd um reiði sína eða fjandskap.

Fljótlegasta leiðin til að tryggja það, að reiði og fjandskapur búi ekki í vitundinni, er samt sem áður ekki öruggasta leiðin þegar til lengdar lætur. Með því að bæla reiði verður hennar ekki vart í vitundinni, en henni hefur þó ekki verið útrýmt eða eytt. Hún hefur verið sett afsíðis í persónuleikanum og er því meira eða minna ekki á valdi vitundarinnar, heldur blundar eins og tundur eða gosefni, sem þrýstir á, en gæta verður að spryngi ekki. Sprengihættan verður stöðugt meiri vegna þess að hin bælda reiði er einangruð og eykst við það verulega að umfangi.

Þegar við verðum vör við fjandskap eða hatur, takmarkast útrásin með þrennum hætti. Í fyrsta lagi segja kringumstæðurnar til um möguleika okkar gagnvart meintum óvini. Í öðru lagi, snúi reiðin að einhverjum, sem okkur líkar að öðru leyti og við jafnvel þörfnumst eða dáumst að, sameinast hún öllum öðrum tilfinningum okkar gagnvart honum. Í þriðja lagi, að því leyti sem við fylgjum ákveðnum skoðunum, markmiðum og lífsmynstri, er ákvarðar hvað við teljum rétt eða rangt, og við viljum fylgja, takmarka þau viðhorf reiði og fjandskap að ákveðnu marki, eins og ég benti á í umfjöllun minni um það ef við teljum okkur vera góð og viljum vera vinsæl.

Þegar reiði er bæld, hefur hún engin tengsl við þessar takmarkanir, sem aftur getur leitt til þess að hin fjandsamlegu viðbrögð virða ekki þessar takmarkanir, hvorki innan frá né hið ytra. Þetta gerist einkum í draumum. Með aðgreiningu hinnar bældu reiði frá vitundinni eykst hún venjulega vegna ytri atburða, sem endurtaka sig og þar með verður til ný reiði, sem sífellt er bæld.

Þótt við bælum reiði okkar finnum við engu að síður, að innra með okkur býr eitthvað, sem getur sprungið eða gosið, án þess að við getum haft fullt vald á því. Ég hefi áður sagt, að þegar við bælum reiði okkar, höfum við enga vitund um að við séum reið. Því má spyrja: “Hvað finnum við þá innra með okkur?” Svarið er, að ekkert ákveðið skilrúm er milli vitundar og undirvitundar. Tala má um hin ýmsu lög vitundarinnar. Hin bælda reiði er til staðar, og í dýpri lögum vitundarinnar vitum við um tilvist hennar. Þegar á reynir, fáum við ekki blekkt sjálf okkur og við vitum meira um okkur í raun, en við verðum almennt vör við. Þetta á einnig við um athuganir og skoðanir okkar á öðrum.

Afleiðingar þeirrar bælingar, sem hér hefur verið lýst, eru í sjálfu sér nægjanlegar til að skapa kvíða. En málinu er ekki þar með lokið. Mikil innri þörf er til að losna við hinn hættulega innri varning, sem ógnar öryggi og hagsmunum. Næst gerist það, að við frávörpum eða útvörpum reiði okkar og fjandsamlegum tilhneigingum. Fyrst er þannig reiðin bæld og síðan látið líta svo út, sem tilhneigingin komi utan frá. Venjulega beinist frávarpið að þeim, sem hatur eða fjandskapur snýr að. Hlutaðeigandi öðlast með þessu persónulegt mikilvægi. Reiðin snýst upp í miskunnarleysi, óbilgirni og grimmd, sem frávarpað er, og vegna varnarleysisins, sem eykst við frávarpið, virðist hættan enn meiri. Frávarpið er jafnframt réttlæting, það er ekki hlutaðeigandi sem vill stela, hagnýta eða lítillækka, heldur eru það aðrir. Hræðsla við hefnd kemur svo einnig til skjalanna og heldur enn frekar aftur af viðkomandi.

Það, sem hér hefur verið lýst, leiðir til kvíða. Bælingin veldur kvíðaeinkennum, tilfinningu fyrir varnarleysi gagnvart því sem okkur finnst koma ógnandi utan frá. Frávarpið getur tekið til annars en þess sem hlut á að máli. Dæmigert er, ef fjandskapur samrýmist ekki ást og virðingu í hjónabandi, kann honum að vera frávarpað á annað, svo sem eldhættu eða óveður. Þá er öll reiði rækilega bæld og hvorugum makanum kemur hún til hugar. Þótt bæld reiði leiði til kvíða, þýðir það ekki skilyrðislaust, að kvíði komi til í hvert skipti, því við losum okkur við hann með ýmsu móti, eins og áður var lýst, t.d. með svefni eða drykkju.

Í þættinum “Út vil ek”, lýsti ég ítarlega frávarpi bældrar reiði. Ég vísa til þess, og þeirrar skrautlegu aðferðar sem þar er lýst. En hringnum er ekki lokað. Bæld reiði skapar kvíða. Þegar kvíði er tilfinning fyrir því, að okkur sé ógnað, skapar hann aftur reiði eða ótta, sem kallar á bardaga. Ef sá fjandskapur er bældur, skapar hann enn á ný kvíða og þannig verður til sá vítahringur, sem oft er fjallað um í sálfræði. Reiði magnar kvíða og kvíðinn magnar reiði. Þetta eru víxláhrif, sem efla hvort annað. Þetta varpar ljósi á það af hverju bæld reiði verður venjulega meiri en upphaflega stóð til. Þessi víxlverkun skýrir einnig, af hverju menn versna án orsaka, að séð verður, hið ytra. Reiði og kvíði eru samofin fyrirbrigði.

Þegar við finnum til kvíða eða höfum vísbendingar um tilvist hans, getur reynst vel að spyrja sjálfan sig: Hvar hef ég verið særður, hvað hefur orsakað reiði mína og hvers vegna þarf ég að bæla hana? Oft leiðir athugun í þessa átt til fullnægjandi skilnings á kvíðanum.

10.4 ALMENNT UM KVÍÐA.

Mér hefur orðið tíðrætt um kvíða, sem afleiðingu bældrar reiði. Ástæðan er sú, að hann er svo algengur og mjög raunhæft er að takast á við hann. Uppruni hans og hvernig hann þróast varpar ljósi á hliðstæðu að því er tekur til annarra tegunda kvíða. Hann gegnir og líka meginhlutverki í lífi okkar og skiptir miklu máli í sambandi við það, sem lýst verður í síðari þáttum. Í þessu samhengi er þó rétt að minnast á aðrar algengar tegundir kvíða, sem byggjast á sömu lögmálum og lýst hefur verið.

Því hefur verið haldið fram, að í æsku fáum við í okkur grunnkvíða, fólginn í því að við finnum okkur einmana og hjálparlaus í fjandsamlegum heimi. Út frá þessum grunnkvíða þróist svo persónuleikinn. Að þessu er lauslega vikið í fyrsta þætti mínum, er ég nefndi, “Mannlegur þroski”. Þessu verður gerð nánari skil síðar. Margir halda því fram, að grunnkvíðinn stjórni flestu sem við tökum okkur fyrir hendur.

Algengur kvíði er það sem Freud kallaði merki um hættu. Hann er vísbending um það, að viðkomandi nálgist reynslu, sem fyrr á ævinni voru honum tilfinningaleg óþægindi. Í huganum eru þá vituð eða óvituð tengsl milli atburðarins og minninganna um fyrri óþægindi. Freud lagði svo mikla áherslu á æskuna, að hann hélt því fram að kvíðinn skapaðist aðeins í æsku. Að sönnu er rétt, að í æsku er sérstök hætta búin í þessu efni. Þá er barnið jafnan vanmegnugra og varnarlausara en sá fullorðni. Einnig er það staðreynd, að kvíði byrjar jafnan í æsku, sérstaklega grunnkvíðinn. Oft er kvíðinn tengdur æskureynslu og kemur fram í óbreyttu formi. En hér er þó aðallega um þróun að ræða. Koma þá bæði til atriði úr æsku og reynsla síðar á ævinni. Margir skólar ganga út á lækningu á þessum kvíða, aðallega með því að kenna mönnum að upplifa á ný upphaflegu reynsluna og láta þá sjá innhaldsleysi hennar miðað við aðstæður síðar.

Mjög algengur kvíði stafar af því, að í okkur búa gagnstæðar tilfinningar og hvatir. Við getum ekki farið samtímis í tvær áttir. Ég hefi áður bent á þau átök, sem eiga sér stað innra með okkur, þegar kröfur, skyldur og stolt búa annars vegar og sektarkennd og minnimáttarkennd hins vegar. En þessum gagnstæðum verður að lýsa betur síðar, ekki aðeins þeim, sem eingöngu eru innra með okkur, heldur og þeim sem snúa að öðrum. Sá kvíði sem þessum átökum fylgir, líkist tilfinningu fyrir að starfsemi okkar sem heild sé kaos eða óskapnaður. Vart finnst þessi kvíði fyrr en betur er að honum gætt, og þá er líka nauðsynlegt að átta sig á, að um gagnstæður er að ræða. Verður því lýst síðar. Slík gagnstæð átök geta verið ýmis konar, t.d. jákvæðar óskir, sem ganga í gagnstæðar áttir. Við getum ekki þjónað tveimur herrum, þörf fyrir starf og andúð á starfinu eða getuleysi til að taka ákvörðun, þótt ákvörðun sé nauðsynleg o.s.frv. Ákvörðun sem kemur innan frá eða með þrýstingi utan frá, getur þó minnkað þennan kvíða. Einkenni hans er skipulagsleysi, af því að viðkomandi getur ekki tekið skipulegar ákvarðanir um athafnir sínar og störf.

Ein algeng tegund kvíða miðar að því að viðhalda lífsmynstrinu óbreyttu, þ.e. status quo. Þá geta menn ekki farið kvíðalaust út fyrir þröngan, sjálfákvarðaðan hring, sem þeim finnst þeir öruggir inn í. Þessi kvíði er fyrirboði mistaka um leið og vilji til aðgerða verður til í huga viðkomandi. Markmið þessa fyrirboða er að sannfæra viðkomandi um að gera ekki það sem hann hefur ætlað að gera. Ímyndunaraflið er ríkur þáttur í þessu fyrirbrigði og það hefur ákveðna þýðingu við sköpun kvíðareynslu, að búa til frásögn um lítillækkun, skömm, særindi og mistök o.s.frv. Það einkennilega við þennan kvíða er, að sumir geta stundum gert án óþæginda það sem þeir óttuðust, en markmið kvíðans er að viðhalda óbreyttu ástandi.

Enn eitt, sem kostað getur stöðugan kvíða, orsakast af vissri persónugerð. Ef álit okkar er t.d. algerlega háð áliti annarra og óskin um að geðjast öðrum yfirgnæfir eigið gildismat og óskir, þá er kvíði óhjákvæmilegur. Höfnun og særindi eru ekki aðeins fyrirboði, heldur gerast í raun. Þessi kvíði er viðvarandi hjá þeim sem hann hafa, en magnast þó við vissa atburði. Hann er fastmótaður en yfirborðslegur og sýnir ótta um vanþóknun.

Í þessari upptalningu má ekki gleyma tilvistarkvíðanum. Margir heimspekingar, sérstaklega existentialistar, fullyrða að kvíði sé þegar allt kemur til alls, ótti við tilvistarleysi í einni eða annarri mynd, sérstaklega ótti við dauðann. Vafalaust á tilvistarkvíðinn sér djúpar rætur í okkur. Hugsanlega liggur hann dýpst allra kvíðategunda. Óttinn við tilvistarleysi getur lýst sér með ýmsu öðru móti, svo sem tómleikatilfinningu eða tilfinningu fyrir innihaldsleysi og tilgangsleysi lífsins. Menn dylja fyrir sér slíkan kvíða með því að forðast að vera einir og starfa myrkranna á milli eða með því að eta og drekka. Eyðileggingarhvöt getur gripið þá, sem þykjast finna tilgangsleysi lífsins.

Vafalaust verður tilvistarkvíðinn ekki upprættur, fyrr en menn gera sér ljóst, að hvorki er um tilvist eða tilvistarleysi að ræða og þeir skynja stöðu sjálfsins gagnvart veruleikanum. Um það efni fjalla ég í annarri þáttaröð