VIII ÚT VIL EK

8.0 ÞJÁNINGIN.
8.1 FRÁVARP.
8.2 MEIRA UM FRÁVARP.
8.3 ÚTVARP.
8.4 AÐVARP.
8.5 HEILDUN.

8.0 ÞJÁNINGIN.

Í fyrri erindum mínum hefi ég lagt áherslu á Sjálfið. Nú er komið að því að við nálgumst þennan kjarna, sem ekki verður skilgreindur. Í upphafsþættinum “Mannlegur þroski” drap ég á það, hvernig við yfirgefum Sjálfið. Síðan lýsti ég því, hvernig við myndum viðhorf og hvernig innri öfl leikast á og snúa á okkur. Einnig hefi ég lýst því hvernig stoltið mótast í sjálfstætt kerfi sem veldur því að við brjótum okkur sjálf niður.

Áhuginn breytist og dofnar fyrir raunsjálfinu. Sjálfsímyndin og markmiðin koma í staðinn. Við ættum aldrei að missa sjónar af raunsjálfinu. Í næstu þáttum mun ég ræða atriði er þetta varða og eru ástæða þess að við yfirgefum raunsjálfið. Einnig mun ég fjalla um hvaða þýðingu það fráhvarf hefur fyrir persónuleikann. Hvernig við seljum sál okkar. Hvernig við seljum frumburðarrétt okkar fyrir eina baunaskál.

Áður en það efni er nálgað mun ég verja þessum þætti í að ræða flótta frá Sjálfinu. Þau átök, sem lýst er í fyrri þáttum, leiða til innri skiptingar með okkur og mynda spennu og kvíða. Þetta er að mörgu leyti þungbært og við gerum ýmsar ráðstafanir til úrbóta, að því er við teljum. Gerðar eru tilraunir til að leysa vandamálin með ýmsum ráðum. Í sjálfu sér má segja, að sjálfsmyndin og markmiðin séu róttæk lausnarráð, því þá er Sjálfið yfirgefið. Við reynum að losna við erfiðleikana með því að lyfta okkur yfir þá. En munur er á þessum átökum og því sem ég mun lýsa í þessum þætti, það er e.t.v. ekki gæðamunur heldur stigsmunur.

Eðlilegt er að skapa sér markmið og ímyndir í ljósi þess að maðurinn vill yfirvinna takmarkanir sínar. En eigingirni er fyrst og fremst einkenni þessarar lausnar. Sameiginlegt með þessari lausn, og þeim sem ég ræði í þessum þætti, er ímyndunaraflið, sem er notað til hins ítrasta.

Þótt við séum óánægð með lífið, merkir það ekki á nokkurn hátt að við séum sálsjúk. Viljinn til framfara og þroska leynist í óánægjunni. Um leið og við skynjum þjáninguna, vöknum við til vitundar um hinn dýpri veruleik. Þjáningin gerir að engu venjulegar hugmyndir okkar um hlutveruleikann og hún þvingar okkur því til að vakna, til að sjá og finna það sem við áður forðuðumst. Í þessu ljósi er þjáningin blessun, því með henni vaknar hin skapandi innsýn.

Sumir notfæra sér þjáninguna ekki á þennan hátt, heldur velta sér og öðrum upp úr henni í tíma og ótíma. Þótt þjáningin sé merki til góðs, þarf hún ekki að leiða til þess. Hún er þó fyrsta skrefið til að viðurkenna að eitthvað sé að. Þjáningin felur í sér frelsið eða vísar til þess. Við þjáumst vegna þess að við viljum frelsið og innsýnin bíður á næsta leiti. Trúarhöfundar, heimspekingar og sálfræðingar hafa ævinlega bent á, að maðurinn þurfi að skynja þjáninguna, svo að hann komist yfir hana til frelsis. Ef við hins vegar sitjum föst í þjáningunni fáum við aldrei innsýn inn í veruleikann, þ.e. ef við skynjum aldrei þá innsýn sem er fólgin í henni og hægt er að nýta. Við getum ekki þolað þjáninguna svo að gagni sé, nema skynja þýðingu hennar og uppruna.

8.1 FRÁVARP.

Í þessum þætti og þeim næsta mun ég að ræða ýmsar aðferðir eða úrræði, sem við notum til að flýja frá Sjálfinu. Hér mun ég ræða um frávarp sem svo er nefnt, en í næsta þætti benda á aðrar aðferðir sem þjóna sama markmiði.

Til að útskýra frávarp er gott að taka einfalt dæmi. Mig langar að til grenna mig af því að ég borðaði fullmikið um jólin. Þar sem megrun krefst andlegs átaks, snýst ákveðinn þáttur í mér andvígur gegn henni. En setjum svo, að ósk mín um að fara í megrun sé sterkari, en sú ósk að gera það ekki. Ég legg því í megrunarkúr. Strax næsta dag koma upp þankagangar og efasemdir um að mótlætið borgi sig eða sé fyrirhafnarinnar virði. Þetta leiðir til þess að ég hika og fresta aðgerðum til næsta dags. Á þessu stigi hefi ég losað tengslin við sjálfa óskina. Samt er óskin eftir sem áður jafnsterk fyrir hendi. Ég er byrjaður að gleyma óskinni og þá kemur gjarnan upp tækifæri til frávarps.

Frávarpið gerist með eftirfarandi hætti: Óskin eftir að megrast er fyrir hendi. Þess vegna veit ég undir niðri, að einhver vill að ég megri mig. En vafinn og hikið gerir mér óljóst hver það er, sem vill að ég megrist. Til að fullkomna frávarpið, þarf einungis að gleyma því örstutt andartak, að þetta er fyrst og fremst manns eigin ósk og að veita sér tækifæri til að yfirfæra óskina á einhvern annan. Af því að ég veit, að þrýst er á mig að halda áfram megrun og að megrunarkúr er leiðinlegur, er kjörið að finna einhvern annan sem gæti hvatt til að koma þessu í verk.

Segjum nú, að konan komi í spilið. “Þú ert ekki enn farinn í megrunarkúr?”, spyr hún sakleysislega. Ég bregst við stuttur í spuna, því mér finnst konan vera að þrýsta á mig að fara í megrunarkúr. Ég finn ekki til eigin þrýstings í þessu tilviki. Frávarpið hefur gerst. Eigin ósk kemur að utan. Ég hefi varpað óskinni út og hún virðist koma utan frá. Í þessu tilviki er þó aðeins um að ræða eigin ósk. Ég snýst til varnar og svara að enginn megrunarkúr standi til og læt í ljós að ég sé lítið hrifinn af þessari afskiptasemi. Ef ég fyndi ekki sjálfs mín sök að þessari ósk, myndi ég að sjálfsögðu svara, að ég hefði aðeins skipt um skoðun og ætlaði í kúrinn seinna. En ég geri það ekki af því að ég veit undir niðri að einhver vill að ég fari í megrun og úr því að það er ekki ég, þá hlýtur það að vera einhver annar. Eiginkonan er því upplagður skotspónn, þ.e. upplagt er að tileinka henni óskina.

Þannig upplifum við eigin ósk sem ytri þrýsting, eins og hún komi að utan. Mikið af streitu nútímans á rót sína að rekja til frávarps. Menn finna eigin óskir og langanir sem ytri þrýsting. Þótt mörgum kunni að virðast ótrúlegt, þá stafar allur andlegur ytri þrýstingur af frávarpi í einni eða annarri mynd. Eins og dæmið sýndi, þá hefði ég ekki fundið til neins þrýstings frá konunni, ef óskin hefði ekki verið fyrir hendi í sjálfum mér. Ég hefði verið rólegur og tilkynnt konunni, að mig langaði ekki í megrun að svo stöddu eða hefði skipt um skoðun. Í raun var konan ekkert að þrýsta á mig. Þetta var eigin ósk, annað ekki. Ef engin ósk er fyrir hendi, finnum við engan ytri þrýsting. Allur þrýstingur er frávarp eigin óskar.

Margur telur það breyta sögunni, ef konan hefði beinlínis heimtað að ég færi í megrun. Þá mætti ætla, að ég hefði fundið til óskar hennar en ekki minnar eigin. Svo er ekki. Frávarpið verður einungis auðveldara. Konan býður í því tilviki engu síður upp á að ég frávarpi ósk minni yfir á hana. Annað hvort er um að ræða frávarp eigin óskar eða að ég finn ekki til neins þrýstings. Þótt konan geri kröfu til að ég fari í megrun, finn ég ekki til neins þrýstings frá henni nema af því að það er einnig mín ósk og að ég frávarpa þeirri ósk yfir á hana.

Ef menn finna til þrýstings utan frá, þá bendir það jafnan til þess að þeir geymi með sér óskir og vilja, er þeir vita ekki um. Ef þessar óskir eða vilji væru ekki í þeim, myndu þeir kæra sig kollótta. Þegar við því finnum til þrýstings frá öðrum, t.d. yfirmanni, eiginkonu eða börnum, ættum við að nota slíka tilfinningu til marks um að í okkur blundi óskir og vilji, sem við vitum ekki um. Við getum túlkað þrýstinginn með þeim hætti. Um leið og við vitum að slíkur utanaðkomandi þrýstingur er í raun eigin óskir, er okkur auðveldara að ákveða sjálfviljug hvað við ætlum að gera í málinu eða hvort við frestum því. Í öllu falli vitum við að þetta eru okkar eigin óskir.

Frávarp gerist því með þeim hætti, að tilhneigingu, sem er í okkur og beinist gegn umhverfinu, er varpað út og síðan virðist hún eiga upptök sín í umherfinu og stefna að okkur. En sálfræðin hefur sýnt fram á að ferillinn getur verið mun flóknari. Það á einkum við um bælda reiði og fjandskap. Okkur getur fundist að fjandskapurinn komi frá öðrum eða öðru, t.d. óveðri. Einnig getur okkur fundist, að hættan komi utan frá, en stefni að öðrum. Þá er fjandskapurinn frávarpaður á hinn ytri heim, en engu breytt um það viðfang, sem fjandskapurinn beinist að. Ef við gerumst óþarflega umhyggjusöm fyrir hönd einhvers sem við ímyndum okkur að sé í hættu, getur verið um frávarp að ræða.

Megineinkenni frávarps eru tvenns konar. Annars vegar veit viðkomandi ekki um ósk sína eða tilhneigingu og hins vegar virðist tilhneigingin vera utan við hann, í umhverfinu eða fólkinu í kring um hann. Við fjarlægjumst okkur og flýjum Sjálf okkar. Og meira segja er það jafnan svo, að viðkomandi snýst í vörn, ef hann er vefengdur, hann snýst harkalega til varnar hinu misskilda viðhorfi. Það er mikilvægt fyrir hann að geta sannað að frávarpið komi að utan, en ekki frá honum sjálfum. Flestir tregðast við að viðurkenna þær tilhneigingar sem þeir varpa frá sér. Þeim er það yfirleitt mjög á móti skapi og einmitt þess vegna er tilhneigingunni frávarpað.

Hvað er okkur þá svona á móti skapi? Jú, allt sem við viljum ekki viðurkenna í fari okkar, allt sem fer í bága við eigin sjálfsmynd og markmið. Því er það regla, að okkur er jafnan á móti skapi að viðurkenna frávarp, þótt í mismunandi mæli sé. Hvers konar ofsóknir, hvort sem eru galdra , trúarbragða , pólitískar eða aðrar ofsóknir eiga rætur að rekja til frávarps og blindu okkar að sjá ekki eigin veikleika, galla eða misbresti. Við höfum jafnan andstyggð á því í fari annarra, og aðeins því, sem við fyrirlitum í sjálfum okkur. Við segjum að aðrir séu ómóralskir, heimskir, falskir o.s. frv. Auðvitað getur fólk verið þetta allt saman, en við myndum ekki fyrirlíta það, nema af því að í okkur búa óafvitað sömu tilhneigingar. Eða eins og gamalt máltæki segir: “Sinn brest láir hver mest”. Við fyrirlítum þetta fólk af því að það minnir okkur á þær hliðar í sjálfum okkur, sem við höfum óbeit eða andstyggð á.

8.2 MEIRA UM FRÁVARP.

Af því sem ég hefi nú rakið má margt ráða. Nefna má að hafi umhverfi, fólk eða hlutir, sterk áhrif á tilfinningar okkar í stað þess að vera hlutlaust upplýsandi, þá er venjulega um frávarp að ræða. Hlutir, sem annað hvort fara í taugarnar á okkur, æsa okkur upp, skapa viðbjóð hjá okkur eða á hinn bóginn laða okkur að sér, þvinga okkur eða fara með öðrum hætti á sinnið á okkur, eru venjulega endurvarp frá undirvitund okkar. Með þessum hætti skynjum við það, sem er að gerast í undirvitundinni. Hér verða fleiri dæmi um frávarp rakin, sem algeng eru, svo að mönnum verði ljósar, hve víðtækt og flókið þetta fyrirbrigði er.

Ef við vörpum frá okkur sjálfsfyrirlitningu, tekur slíkt frávarp á sig tvenns konar myndir; annað hvort að við fyrirlítum aðra eða að okkur finnst að við séum fyrirlitin af öðrum. Það fer eftir persónuleika hvers og eins, hvor þátturinn ræður meira. Oftast eru þó báðir þættir ráðandi. Því meira sem við teljum okkur vera eigin ímynd eða hafa náð eigin markmiðum, þeim mun meira fyrirlítum við aðra. Ef við á hinn bóginn teljum að nokkuð skorti á að við höfum náð eigin ímynd og markmiðum, en erum sífellt að reyna það, þá er fyrirlitning frá öðrum meira ríkjandi.

Vert er að árétta, að því lengra bil, sem okkur finnst vera á milli sjálfsmyndar og markmiða annars vegar og hins fyrirlitlega sjálfs hins vegar, þeim mun minna álit höfum við á okkur. Þá höldum við að aðrir hafi ekki not fyrir okkur, verðum feimin og hemluð, of þakklát fyrir velvild og trúum ekki á vináttu annarra. Við verðum varnarlaus gagnvart ofmetnaði og ofríki. Þar sem sá hluti af okkur, sem er sjálfsmyndin og markmiðin, slær í takt við hinn yfirgangssama og hrokafulla, þá hættir okkur til að líta á fyrirlitningu hans sem eðlilega.

Það hefur mikið gildi fyrir okkur að frávarpa sjálfsfyrirlitningu. Ef við fyndum í raun eigin sjálfsfyrirlitningu milliliðalaust, myndum við falla saman andlega eða leggjast í þunglyndi. Það er í sjálfu sér slæmt að fyrirlita aðra eða að vera fyrirlitinn af þeim, en við getum þá alltaf lifað í voninni um að fá breytt viðhorfum þeirra. Við getum þá e.t.v. borgað fyrir okkur og þeir eru í brennidepli, en ekki við. Ef þessu væri beint að okkur milliliðalaust, gætum við ekki áfrýjað málinu og vonleysið heltæki okkur. Um kvíða og vonleysi ræði ég síðar í sérstökum þætti. Ef við beinum sjálfsfyrirlitningu beint og milliliðalaust inn, þá versnar málið. Við fyrirlítum þá ekki aðeins galla okkar, heldur verðum við ein fyrirlitleg heild, þ.e. góðu eiginleikarnir dragast með inn í dæmið eða fallið. Við myndum líta á okkur sem hið fyrirlitlega sjálf, sem væri óbreytanleg staðreynd og enga hjálp væri að finna. Við ættum ekki að taka sjálfsfyrirlitningu okkar til athugunar, fyrr en við höfum losað verulega um sjálfsmyndina og markmiðin, og vonleysi og kvíði hefur minnkað að nokkru. Þá sjáum við skýrt að óverðugleiki okkar er ekki staðreynd, heldur viðhorf, sem stafar af eigin tilbúningi, þ.e. sjálfsmynd og markmiðum. Þá sjáum við að öllu má breyta og að eiginleikarnir sem við fyrirlítum í okkur, eru ekki fyrirlitlegir, heldur aðeins erfiðleikar, sem hægt er að sigrast á hægt og rólega.

Ef við göngum nú skrefi lengra og lítum á sjálfsreiði, þá er ekki erfitt að skilja hana með tilliti til þess hversu mikilvægt það er að viðhalda þeirri blekkingu að við séum okkar eigin sjálfsímynd. Hluti sjálfsímyndarinnar er oftast, ef ekki alltaf, að við séum mjög máttug. Sumir halda jafnvel að þeim sé fátt ómögulegt. Menn fyllast þá örvæntingu og reiðast sjálfum sér, ef þeir telja sig ekki ná markmiðum sínum og ímynd. Þótt við höfum átt erfitt í æsku, teljum við samt sem áður að við ættum að geta yfirstigið alla erfiðleika. Þótt sálarflækjur hafi sett okkur í vanda, ættum við að geta leyst þær. Þegar við uppgötvum gagnstæð eða ósamkvæm markmið og sjáum að við getum ekki náð þeim öllum, verðum við felmtri slegin.

Þegar við vörpum út sjálfsreiði, gerist það einkum með þrennum hætti. Þegar reiði er óhemluð, er henni beint út. Þá verðum við almennt skapstygg og einkanlega gagnvart göllum og ávirðingum í öðrum, sem við fyrirlítum hjá okkur sjálfum. Í öðru lagi getur okkur fundist, meðvitað eða ómeðvitað, að þeir gallar í okkur sem eru okkur sjálfum óþolandi, muni valda reiði hjá öðrum. Við getum verið svo sannfærð um þetta, að við verðum hissa, ef viðkomandi bregst ekki reiður við. Þetta er lúmsk frávörpun, sem getur skapað vítahring. Ef markmið okkar er að líkjast göfugmennum, reiðumst við okkur sjálfum, ef það tekst ekki. Ef við nú frávörpum þeirri reiði, þá eykur það óttann við reiði annarra. Það leiðir aftur til frekari löngunar til að líkjast göfugmennum.

Þriðja algenga aðferðin við frávörpun sjálfsreiði er með þeim hætti, að athyglinni er beint að líkamlegri velferð. Þá er reiðin ómeðvituð, en kemur fram í líkamlegri spennu og birtist sem maga eða þarmaveiki, höfuðverkur, þreyta, svefnleysi o.s.frv. Það dregur úr þessum einkennum þegar menn finna til reiðinnar og upplifa hana meðvitað, en þó hverfa þau ekki alveg fyrr en reiðin er horfin. Sálræn vandamál eru þá talin stafa af líkamlegum orsökum eða ytri áreitni. Þá telja menn ekkert athugavert á ferðinni hjá sér, af sálrænum toga heldur stafi erfiðleikarnir eingöngu af röngu mataræði, ofþreytu, svefnleysi o.s.frv.

Við frávörpum óspart þeirri innri þvingun, sem stafar af sjálfsímynd okkar og markmiðum, þ.e. skyldum okkar. Þessi þrýstingur er jafnan vanmetinn. Hann er mun erfiðari en ytri þvingun, sem leyfir þó innra frelsi. Fæstir þekkja álagið sem fylgir innri skyldum né finna mátt þeirra fyrr en þeim er aflétt og fæstir upplifa hið innra frelsi, sem því fylgir. Innri skyldu er oft frávarpað á þann hátt að setja þrýsting á aðra og þvinga þá til hlýðni við skylduna. Þetta verkar oft sem valdafíkn, en er ólíkt henni að því leyti að persónulegrar hlýðni er ekki beint krafist. Aðferðin er einkum fólgin í því að troða þeim stöðlum, sem viðkomandi þjáist sjálfur undir, upp á aðra. Siðavendni og strangtrúnaður eiga oft rætur að rekja til þessarar aðferðar. Hamingja manna skiptir þá litlu.

Jafnmikilvæg er sú aðferð að frávarpa innri þvingun með þeim hætti, að sýnd er ofurnæmni eða of mikil viðkvæmni gagnvart öllu í hinu ytra umhverfi, sem með einhverjum hætti verkar sem þvingun. Þetta er algengt. Ekki stafar þó öll slík viðkvæmni af innri þvingun. Má þar nefna að menn geta reiðst eigin valdafíkn í öðrum og ef markmið manna er sjálfstæði, þá verða þeir einnig viðkvæmir fyrir ytri þvingun. Þessi dæmi eru þó kannski ekki undantekningar frá reglunni, ef að er gáð.

Frávarp á innri þvingun eða nauðung getur leitt til þess, að menn hafni öllum ráðleggingum og tillögum annarra umyrðalaust. Þeir eru svo ofurviðkvæmir fyrir ytri áhrifum, að þeir hafna þegar í stað ráðleggingum, sem þeim eru gefnar heilshugar. Þegar menn vita ekki hvað þeir sjálfir vilja í raun, þá eiga þeir erfitt með að velja og hafna. Þegar þeir vita undir niðri, að persónuleikinn er eins og hann er vegna innri þvingana, þá eru eðlileg viðbrögð að snúast gegn ytri áhrifum, sem ætlað er að breyta persónuleikanum úr einum í annan.

Önnur útkoma getur orðið, ef við lítum á málið í öðru ljósi. Hún getur orðið sú, að því meir sem við hlýðum innri skyldum, þeim mun hættar er okkur við að frávarpa slíkri hlýðni með því að reyna að uppfylla óskir og vonir annarra, sem ganga í sömu átt og eigin skyldur. Við höldum jafnvel að þess sé vænst af okkur. Við verðum þá meðfærileg og ráðþægin, jafnvel auðtrúa, en reiðumst slíkri þvingun undir niðri. Þetta getur leitt til þess, að flestir séu taldir ráðríkir, og það leiðir til bældrar reiði út í tilveruna.

Hvað vinnum við með slíku frávarpi? Á meðan okkur finnst þvingunin koma að utan, getum við snúist gegn henni eða tekið henni með fyrirvara. Við getum líka forðast ytri þvingun og blekkt okkur með því að við séum frjáls. Mest er þó um vert, að með því beinlínis að viðurkenna innri þvingun milliliðalaust, myndum við verða að játa, og taka afleiðingunum af því, að við erum hvorki sjálfsímynd okkar né markmið. Vafalaust stafa sjúkdómar, meðal annars astmi, háþrýstingur og harðlífi, að einhverju leyti af innri spennu vegna þvingana, sem innri skyldur leggja á okkur.

Í stuttu máli. Við vörpum frá okkur þeim eiginleikum í okkur, sem eru andstæðir sjálfsímynd okkar og markmiðum. Við ýmist verðum vör við þessa eiginleika í öðrum eða við teljum aðra ábyrga fyrir þeim. Frávarpinu er ætlað að létta á óafvitaðri innri tvöfeldni. Frávarp er algengt í draumum. Ef við í draumi náum ekki ákvörðunarstað vegna hindrana, er á ferðinni tilraun til að afneita innri mótsögn og skella skuldinni á ytri aðstæður. Frávarp er með þessum hætti aðferð til sjálfsflótta. Þegar við erum fjarlæg sjálfi okkar er eðlilegt að við reynum að eyða andstæðum úr vitund okkar. Með því að gerast meira ásakandi, hefnigjarnari eða óttaslegnari gagnvart öðrum, þá leiðir frávarpið til þess að innri mótsagnir eru fluttar út og upplifaðar í ytra umhverfi. Verið er að upplifa innri veruleik, eins og hann ætti sér í stað í ytra umhverfi og gera umhverfið ábyrgt fyrir eigin erfiðleikum. Þegar spenna, kvíði og vonleysi myndast vegna þess mismunar, sem er á eigin ímynd og markmiðum annars vegar og hinu fyrirlitlega sjálfi hins vegar, þá er ekki hægt að halla sér að neinu hið innra. Brugðið er á það ráðið, að hverfa algerlega frá sjálfum sér og líta á allt, eins og það sé hið ytra.

En það er ekki aðeins að eigin gallar séu séðir í þessu ljósi, heldur og allar tilfinningar. Við getum haft samúð með kúguðum smáþjóðum, en finnum ekki til eigin kúgunar. Við verðum ekki vör við eigin örvæntingu, en finnum hana í öðrum. Vandamálin og vandræðin eru ekki aðeins frávörpuð. Gott skap og góður árangur er þakkaður ytri aðstæðum, oft veðurfari. Mistök eru þá örlög og árangur heppni eða tilviljun. Þegar mönnum finnst gott og illt stafa frá öðru og öðrum, þá er ekki nema eðlilegt að gengið sé í það að breyta þeim, refsa þeim og vernda sjálfan sig fyrir þeim. Þannig veldur frávarpið því, að við verðum háðari öðru og öðrum en við þyrftum að vera. Við öðlumst eiginleika, sem Jung kallaði extraversion, og ég hefi nefnt útvarp og mun nú víkja nánar að.

8.3 ÚTVARP.

Við höfum nú öðlast nokkurn skilning á skugga okkar, eins og Jung hefði kallað það. Þannig er þrýstingur eða þvingun í raun frávörpuð hvöt og skyldan frávörpuð ósk. Þegar okkur finnst við verða að gera eitthvað af kvöð eða skyldu, sem aðrir knýja á um að við uppfyllum, þá erum við að gera eitthvað sem við viljum ekki játa að við viljum gera. Við höldum jafnvel hinu gagnstæða fram. Við segjum að við gerum ýmislegt af skyldurækni, án þess að við raunverulega viljum og að við höfum engan áhuga á að hjálpa ákveðnu fólki. Staðreyndin er hins vegar sú, að við viljum hjálpa öðrum án þess að vilja viðurkenna það. Við frávörpum óskinni á þann hátt, að okkur finnst að aðrir vilji fá okkur til að hjálpa þeim.

Ef við skoðum annað dæmi. Mörgum finnst óþægileg tilfinning að vera í sviðsljósinu og að aðrir stari á sig, t.d. ef við höldum opinbert erindi. Sumu fólki finnst þetta síður en svo amalegt. Vandamálið liggur því ekki í kringumstæðunum heldur í okkur sjálfum. Sumir halda því fram, að við vörpum frá okkur áhuganum á fólkinu, til þess að okkur finnist að það hafi áhuga á okkur. Í stað þess að horfa á fólkið, finnst okkur aðrir horfa á okkur. Okkar eyru og augu eru þannig í áheyrendum og áhorfendum. Senuskjálfti, eins og hér er lýst, er ekkert annað en hræðsla við að vera ekki eigin sjálfsímynd gagnvart áheyrendum og áhorfendum. Þar sem augu okkar og eyru eru komin til þeirra, virðist okkur sem áhugi þeirra vaxi óhæfilega. Við verðum í þessu tilviki taugaóstyrk á meðan við sættum okkur ekki algjörlega við hið fyrirlitlega sjálf eða höfum eytt senusjálfsímyndinni og tökum til okkar frávarpið og finnum, að það er eiginn áhugi á okkur sjálfum. Þá getum við horft, án þess að á okkur sé starað.

Við getum dregið nokkrar ályktanir af því, sem hér hefur verið sagt. Óttist einhver annað fólk eða ákveðna staði, er það oft merki þess að hann búi ómeðvitað yfir reiði eða hatri gagnvart sama fólki og stöðum án þess að vita það. Sumum finnst, að þeim sé hafnað og engum líki við sig né hafi áhuga á sér eða gagnrýni sig óþægilega. Þeim finnst þetta óréttlátt, því í raun líki þeim vel við allt og alla. Þeim finnst þetta ástæðulaust og gera allt til að geðjast öðrum. Þetta er lýsing dæmigerðs frávarps. Viðkomandi hefur ekki vissa tilhneigingu, en aðrir engu að síður. Raunverulega er viðkomandi fullkomlega ómeðvitaður um eigin tilhneigingar til að hafna öðrum og gagnrýna þá. Ef eigin tilhneigingu er frávarpað á marga eða alla menn, margfaldar það upprunalegu hvötina og aðrir vaxa þá óhæfilega í augum viðkomandi. Stutt er þá í ofsóknarbrjálæði.

Raunverulega tækjum við gagnrýni fólks ekki hátíðlega nema vegna þess að hún er frávarp á okkar eigin gagnrýni. Sannleikanum er hver sárreiðastur. Ef við finnum til höfnunar og minnimáttarkenndar, er viturlegt að athuga, hvort um frávarp er að ræða og taka það til okkar. Frávarp breytir ekki aðeins umhverfinu eins og það birtist okkur, heldur einnig tilfinningunni fyrir eigin Sjálfi. Við sjáum okkar eigin skugga í hinu ytra á dulbúinn hátt. Þegar skugganum hefur þannig verið frávarpað finnum við einkenni hans í okkur sjálfum, t.d. í minnimáttarkennd, ótta, leiðindum eða kvíða. Og við snúumst gegn þessu einkenni og reynum að losna við það, á sama hátt og við reyndum áður að losna við skuggann eða hina bældu ómeðvituðu hvöt. Fyrst reynum við að afneita eiginleikunum og þegar þeir birtast sem frávarp eða eiginleikar í öðrum, erum við ekki sátt við þau einkenni sem birtast í okkur vegna frávarpsins. Við reynum að leyna þeim. Þessi einkenni hafa þó að geyma lykilinn að leyndardómnum, þ.e. eigin frávarpi. Við eigum því að viðurkenna þessi einkenni og taka frávarpið til okkar.

Ef frávarp er magnað finnur fólk til tómleika, án þess að geta staðsett hann. Í stað þess að finna tilfinningatómleikann, finnur fólk oft tómleika í maga og reynir að ráða bót á því með áráttukenndu eða óviðráðanlegu áti. Sumum finnst þeir verða eins og fis eða tóm skel. Því meira sem frávarpið er, þeim mun líkari vofu verður viðkomandi, og lætur reka á reiðanum. Eins og ég hefi bent á, veldur frávarp því, að innri átök eru upplifuð eins og þau eigi sér stað milli viðkomandi og hins ytra umhverfis. Segja má, að allt sem gerist í sálarlífinu megi frávarpa með einum eða öðrum hætti. Við getum haft samúð með öðrum, á sama tíma og við getum ekki fundið eigin sjálfsmeðaumkvun. Við getum afneitað þörf okkar fyrir að losna úr eigin þjáningum og fjötrum á sama tíma, sem við þykjumst sjá greinilega, hvernig aðrir eru staðnaðir í þroska sínum og við göngum upp í að hjálpa þeim. Innri uppreisn gegn þvingun og skyldum getur birst sem andstaða gegn lögum og venju. Þótt við sjáum ekki eigið stolt, getum við dáðst að því í öðrum o.s.frv.

Mér hefur orðið tíðrætt um frávarp. Er það nauðsynlegt vegna þess hversu algengt það er. En frávarp getur orðið og er iðulega svo magnað, að það verður sjálfstæður lífstíll. Er þá hægt að tala um sjálfstæð persónuleikaeinkenni og væri lýsing á þeim efni í sjálfstæðan þátt. Þar er líklega nær sanni að tala um útvarp fremur en frávarp, því beinlínis allt sálarlífið er flutt út og lifað utan persónunnar.

Þetta fólk hefur yfirleitt fremur áhuga á vandamálum annarra heldur en sínum eigin. Það telur erfiðleika sína stafa af umhverfinu en ekki innan frá. Allt væri í lagi ef makinn, starfið, eða þjóðfélagið væri ekki svona slæmt. Þetta fólk áttar sig ekki á, að tilfinningaöfl eru að verki í því sjálfu. Það getur verið hrætt við drauga, þjófa, óveður eða hið pólitíska ástand, en aldrei við sjálft sig. Það hefur áhuga á innri vandamálum að því leyti sem það þjónar vitsmunalegri eða listrænni ánægju þess. En þar sem þetta fólk er sálrænt séð ekki til, getur það ekki notfært sér innsýn inn í sjálft sig til að bæta líf sitt. Það aflar sér oft mikillar þekkingar um sjálft sig án þess að það breyti nokkru.

Margt af þessu fólki hefur alist upp við uppgerð og yfirdrepskap og hefur síðar skapað sér drauma og hugsjónir, sem ekki hafa ræst né samrýmst. Síðan hefur það neyðst til að fleygja þessu öllu fyrir róða til að leysa eigin innri mótsagnir. Það hefur orðið tortryggið á einlægni og heiðarleika manna og lagt niður alla stefnu í lífinu. Það rekur því stefnulaust undan straumi.

8.4 AÐVARP.

Það er lögmál hugsunar, að eitt viðhorf kallar á andstæðu sína. Ef við nefnum ákveðinn hlut er það til aðgreiningar frá öllu öðru, sem ekki er hluturinn. Um leið og tekin er sú ákvörðun að ég sé ég, þá er allt annað ekki ég o.s.frv. Með ákvörðun sjálfsmyndar og markmiða og samsömun égsins við þessa mynd og markmið, er jafnframt öllu öðru sem ekki samþýðist þessum viðhorfum afneitað. Í huganum myndast þó alltaf gagnstæðan og það er hún, sem við viljum ekki viðurkenna.

Því segja margir sálfræðingar: Ef þú elskar móður þína, þá hatar þú hana í undirvitundinni. Ef þú á hinn bóginn hatar hana, þá elskar þú hana undir niðri. Ef þú hatar að vera lítillækkaður, þá hefurðu dulvitaða ánægju að því. Ef þú trúir á málstað og predikar hann, þá hefurðu vantrú á honum undir niðri og ert að sannfæra sjálfan sig. Ef þú segir nei, meinarðu undir niðri já o. s. frv. Þetta hljómar e.t.v. dálítið fjarstæðukennt, en hefur þó að geyma vissan sannleik. Ef við ætlum að vera heilsteypt, þá verðum við alltaf að upplifa andstæðurnar í okkur. Dæmin, sem ég hefi nefnt eru einmitt staðfesting á þessu. Við verðum aðeins vör við aðra hliðina á okkur og afneitum hinni, eða eins og Jung hefði sagt: “við samþykkjum persónuna en afneitum skugganum”.

Nú geta andstæðurnar ekki án hvor annarrar verið. Ekkert væri vont ef gott væri ekki til, ekkert væri stutt, ef langt væri ekki til, ekki væri ég aðgreint, ef ekki væri til aðgreiningar frá öllu öðru. Ekkert hefur því sjálfstæða tilvist. Sérhvert viðhorf er aðeins annar hluti heildar. Hjá okkur gerist það, að við afneitum heildinni. Við verðum ekki vör við annan helming samlokunnar og sendum hann norður og niður. Sá helmingur liggur í undirvitundinni og við frávörpum honum. Því má heldur ekki gleyma, að með sköpun sjálfsímyndar og markmiða erum við að skapa ímynduð landamæri milli þessara viðhorfa og gagnstæðunnar, og sjálfkrafa veldur það baráttu og stríði. Árekstur og barátta er því alltaf eðli hugsunar. Sú barátta vinnst aldrei, en tapast gjarnan á sársaukafullan hátt, einfaldlega vegna þess, að baráttan er milli tveggja hluta, sem eru sama heildin.

Þar sem skugginn er dulvituð gagnstæða við meðvitað viðhorf, þá er hægt að vita um öll hans viðhorf. Það eru einmitt þessi gagnstæðu viðhorf skuggans, sem við verðum að sættast við. Ég er þó ekki að segja að við eigum að hegða okkur í samræmi við viðhorf skuggans, heldur verða var við hann og upplifa hann í okkur. Ef okkur líkar ekki einhver eða eitthvað, þá ættum við að athuga þá hlið í okkur sem dulvitað líkar vel við hann eða það. Ef við höfum ást á einhverju, skyldum við athuga þann þátt í okkur, sem kærir sig kollóttan o.s.frv. Um leið og við verðum vör við þessar gagnstæður, þá slaknar á þeirri spennu sem barátta andstæðnanna skapaði áður. Um leið og við missum sjónar á gagnstæðunum og verðum þeirra ekki vör, þá búum við til gervilandamæri og rekum aðra gagnstæðuna niður í undirvitund okkar, en þar heldur hún áfram að gera vart við sig.

Um leið og við rannsökum og upplifum gagnstæðurnar í okkur, gerist mikil breyting. Við byrjum að taka ábyrgð á viðhorfum okkar og gerðum og ekki síst tilfinningum okkar. Við sjáum þá að umhverfið er ekki að abbast upp á okkur, heldur aðeins við gagnvart sjálfum okkur. Það er okkur lausn að sjá, að við sköpum sjálf okkar eigin vandamál en ekki aðrir, sem er í raun forsenda þess að við getum leyst þau. Við búum til okkar eigin tilfinningar, ekki aðrir.

8.5 HEILDUN.

Ég hefi áður sagt, að ekki er von til þess að við getum nálgast Sjálfið á meðan innri barátta er við líði, þ.e. barátta milli andstæðna hugans. Þeir þættir, sem á undan hafa farið, veita örlitla innsýn inn í sum þeirra grundvallarviðhorfa, sem þessi barátta byggist á. Nauðsynlegt er þó með fleiri þáttum að gera þessa baráttu ljósari. Þetta mætti segja með öðrum orðum. Víst má telja, að við getum ekki nálgast Sjálfið fyrr en við höfum öðlast sterkt ego. Spyrja mætti, hvort það sé ekki mótsögn að ætla að styrkja það, sem við ætlum að losna við. Því er til að svara, að engin önnur leið er fær. Til þess að afneita egoinu, verður fyrst að játa því. Egoið hefur líka óhjákvæmilegu hlutverki að gegna í heimi hugsunar og hlutveruleikans. Til þess að öðlast heilsteypt ego, verðum við að játa bæði persónunni og skugganum. Við verðum því að byrja á að meðtaka hluti, sem við héldum vera framandi. Við verðum að skilja og viðurkenna allt í okkur, bæði hið neikvæða og jákvæða, æskilega og fyrirlitlega. Þetta þýðir að leggja niður landamæri, þannig að óvinir verði vinir. Þótt ekki sé allt æskilegt, getur það þó verið viðfelldið.

Það sem máli skiptir í sjálfsþroska snýst ekki um það, hvort hampa eða hallmæla eigi tilteknu viðhorfi, né hvort það varðar eitthvað mikilvægt eða léttvægt, heldur hvort það gagnast okkur. Við erum hins vegar óörugg þegar enginn utanaðkomandi né heldur innan frá er til að leiðbeina okkur. Við erum nefnilega svo upptekin af markmiðum, árangri og niðurstöðu, og við þurfum alltaf að hafa vissu áður en við hættum á eitthvað. Viðleitni, að leggja sig fram og barátta eru mikilvægari en niðurstaða. Menn leggja sig fram að nálgast hið æðsta, samt eru þeir sjálfum sér líkir. Að ætla sér að fara handan við mannlegt eðli er það sama og viðurkenna mannlegt eðli. En með því að viðurkenna og sætta erum við einmitt að bæta vídd inn í mannlega reynslu. Það þýðir að ganga úr þeim dómstóli, sem aðgreinir og að veita sér þess í stað náð skilningsins. Þetta er jafnan mjög mikilvægt, ekki síst þegar við stöndum frammi fyrir stóra stökkinu milli árbakkanna, frá egoi til Sjálfs.

Sjálfsviðurkenning opnar leiðina til sköpunargáfu og snilli. Innri atburðir koma úr djúpunum og veita fyllingu. Að upplifa lífshlaup sitt á sekúndubroti er þverstæða sköpunargáfunnar. Með því að upplifa allt hið góða og illa, aukum við sköpunarmátt okkar. Innri hvatvísi og ákefð og ytri íhugun, sameinaður styrkleiki og víðátta, öll víðáttan frá hinu viljaþrungna og ofsafengna til hins gætna og hikandi, er vita aktiva og contemplativa. En forsendan og niðurstaðan eru alltaf sjálfsviðurkenning. Með sjálfsviðurkenningu viðurkennir maður sjálfan sig og lífið. Nauðsynlegt er að viðurkenna ágalla sína og mistök vegna þess að við erum mannleg, mælistikan sem við notum er ófullkomin og við erum skilyrt, þ.e. ytri og innri aðstæður hafa mótað okkur og við höfðum ekki valfrelsi, þegar við gerðum mistök okkar. Sjálfsviðurkenning og viðurkenning á mótsögnum og andstæðum styttir leiðina erfiðu og linar þjáninguna. Hún ein gerir það mögulegt að taka ábyrgð á sjálfum okkur og gjörðum okkar og er forsenda þess að kleift sé að nálgast Sjálfið.