VII SJÁLFSVIRÐING

7.0 TVÍHYGGJAN.
7.1 SJÁLFSFYRIRLITNING.
7.2 SAMANBURÐUR.
7.3 SJÁLFSHATUR.
7.4 SJÁLFSVIÐURKENNING.
7.5 HELVÍTI.

7.0 TVÍHYGGJAN.

Sjálfið er laust við öll viðhorf að því leyti, að það tileinkar sér ekkert, festir sig og samsamar sig engu. Það stjórnar hugsun og tilfinningum, en lætur ekki stjórnast af þeim. Sjálfið er nærri hinu algilda. Hugsun og tilfinningar tilheyra blekkingunni miklu. Blekkingin hylur veruleikann og setur ásýndina í staðinn. Hugsun og tilfinningar hylja ekki aðeins veruleikann, heldur eru mistökin fólgin í því að telja þær veruleikann. Þekkingarskorturinn er því ekki aðeins fólginn í hulunni, heldur og í sköpun hennar, þótt þetta sé auðvitað samtengt. Veruleikinn er því ekki þetta né hitt, “neti neti”, og því er heldur ekki hægt að skilgreina Sjálfið, en um það verður rætt sérstaklega síðar.

Kröfur okkar á sjálf okkur, sjálfsmynd okkar og stolt, markmið og þráhyggja eru því ekki veruleiki í sjálfu sér, þótt okkur finnist það. Þessir þættir byggjast upp rökrænt, eins og öll hugsun. Þessi viðhorf eru ekki aðeins tengd innbyrðis, heldur mynda þau sjálfkrafa önnur afstæð viðhorf. Við tileinkum okkur þessi viðhorf og teljum þau vera okkur sjálf. Hugurinn verður strax reikull, eins og fluga sem fer af einu blómi á annað. Við berum saman, gerum mun á, líkjum saman og tengjum og myndum afstæði til hlutanna. En hversu mikið og sterkt, sem við beitum huganum, er fengist við eintóma blekkingu, tilbúning og ásýnd. Við fáumst við Maya.

Nagaruna sagði eitt sinn: “Ef tilfinningarnar tilheyrðu okkur sem væru þær okkar innra eðli, hvernig væri þá hægt að losna við þær? Ekki er hægt að losna við veruleikann. Ef tilfinningarnar tilheyrðu ekki einhverjum, hvernig væri þá hægt að losna við þær, því hvernig gæti sá, sem ekki er til, losað sig við eitthvað,?” Tilfinningar eru því ekki staðreyndir.

Ég hefi áður lýst því, hvernig við færum okkar innri þungamiðju frá Sjálfi okkar yfir í hina ímynduðu sjálfsmynd og markmið. Hvernig við dæmum okkur út frá skyldum okkar og stolti. Hvernig við höfum fyrir sjónum annars vegar hina æskilegu og einstæðu persónumynd og hins vegar okkur sjálf eins og við erum, sem við erum fljót að dæma hart út frá þessari ímynd og markmiðum. Við hættum að horfa hlutlaust á málið og förum að bera saman og taka afstöðu. Hið innra stríð hefst jafnskjótt og við búum okkur til eigin mynd og markmið. Með því tökum við stóra stökkið frá Sjálfi okkar og snúumst gegn því.

Í öðrum þætti Tao Te Ching, segir Lao Tsu:

Allir í heimi sjá fegurð sem fegurð, vegna tilvistar ljótleikans.
Allir þekkja gott sem gott vegna tilvistar hins vonda.

Tilvist og tilvistarleysi birtast samtímis.
Hið auðvelda leiðir af sér hið torvelda.
Stutt er dregið af löngu með samanburði.
Hátt og lágt byggja á afstöðu til hvors annar.
Rödd og hljómur samræma hvort annað.
Fram og aftur fylgjast að.

Þess vegna vinnur hinn vitri án erfiðis og kennir án orða.
Allir hlutir verða til og eyðast án afláts.
Skapandi án þess að eigna sér,
starfandi án þess að stæra sig.
Verk er unnið og síðan gleymt.
Þess vegna er það eilíft.

7.1. SJÁLFSFYRIRLITNING.

Í síðasta þætti var rætt um sektarkenndina. Henni má líkja við samlagningu og frádrátt. Þar er valdið í nálægð. Í þessum þætti ræðum við um minnimáttarkenndina. Þá er um margföldun og deilingu að ræða. Þar er virðingin, sjálfsviðurkenningin nærri. Margföldun og deiling eru í sjálfu sér samlagning og frádráttur, en þó finnst okkur um eðlismun að ræða. Sektarkennd getur breyst í minnimáttarkennd. Magnið getur orðið það mikið, að það breytist í gæði. Um eðlisbreytingu verður að ræða, þótt sömu lögmál gildi sem áður.

Samviskan og sektarkenndin er hornótt og við erum sem innilokuð í búri eða kassa. Minnimáttarkenndin er mýkri og hefur ávalari línur, er afstæðari og óhöndlanlegri. Stundum er erfitt um að segja, hvort stigsmuni eða eðlismuni er til að dreifa. Það er t.d. stundum erfitt að ákvarða, hvort við erum að lumbra á okkur með vopnum sjálfsásakana, þ. e. með refsivopnum samviskunnar eða við finnum til minnimáttar-kenndar og teljum okkur einskis virði eða fyrirlitleg, vegna þess að við gerum lítið úr okkur eða lítillækkum. Þetta eru aðeins tvær skyldar aðferðir við að brjóta okkur niður.

Munur er á þessum aðferðum. Sjálfsásakanir snúa til dæmis jafnan fremur að markmiðum og gildum, siðferðilegum og vitsmunalegum. Reynt er að ná tökum á sjálfum sér og umhverfinu. Minnimáttarkenndin snýr fremur að sjálfsmatinu, eigin mikilvægi og stærð. Sjálfsfyrirlitning er andstæða sjálfsvirðingar og kemur í veg fyrir framfarir og árangur. Hún snýst fyrst og fremst gegn sjálfsáliti, sem aftur leiðir af sér skort á sjálfstrausti. Þessu er öfugt farið með sektarkennd. Hún skerðir sjálfsöryggi, sem aftur leiðir til minna sjálfsálits. Þetta er sagt fyrir menn eins og mig, sem vilja hafa alla hluti í kerfi.

Þetta má einfaldlega sjá í viðhorfi barnsins: “Mamma segir að megi ekki” og rangstaða er mynduð, samviska og sektarkennd. Öryggið laskast, sem aftur veldur því að barninu finnst það minna virði. Viðhorfið: “Þú ert ekki eins duglegur og stóri bróðir”, leiðir hinsvegar beint til minnimáttarkenndar. Sjálfsmatið minnkar og raskar þar sjálfsörygginu. Dreymi okkur, að við verðum fyrir árásum, er jafnan um sjálfsásakanir að ræða. Ef við á hinn bóginn erum að hrapa og lendum í ófærum, þá er minnimáttarkennd venjulega á ferðinni. Sektarkenndin er hornóttari, þ.e. hún hefur beinar línur, erkitýpan getur verið ferningur eða kassi, minnimáttarkenndin hefur aftur á móti bognari línur. Erkitýpa þess öxuls, virðingaröxulsins, er gjarnan hringurinn.

Sjálfsviðurkenning hvers einstaklings er byggð á ákveðnum gildum. Venjulega siðferðilegra, fagurfræðilegra og þjóðfélagslegra. Við ræddum siðfræðileg gildi í síðasta þætti og sektarkenndin snýr einkum að þeim. Minnimáttarkenndin höfðar hins vegar til fagurfræðilegra eða þjóðfélagslegra markmiða. Við skulum taka dæmi:

Hvað fyrirlítum við í okkur? Takmarkanir okkar. Sumum finnst þeir ekki líta nógu vel út. Konum finnst þær t.d. ekki nógu aðlaðandi. Þetta á jafnan einnig við konur, sem eru óvenju fallegar og aðlaðandi. Staðreyndir eða skoðanir annarra skipta litlu. Það sem konar fyrirlítur, er munurinn sem hún finnur á hinni æskilegu sjálfsmynd sem hún hefur sett sér, og því, sem hún raunverulega er. Þótt hún sé því falleg, hefur hún ekki algilda fegurð. Sú fegurð hefur aldrei verið og verður aldrei. Sumar konur einblína á einhverja missmíð, t.d. ör eða að þær séu of grannar eða búttaðar. Þær eru hræddar um að vera fráhrindandi. Róttækar ráðstafanir eru gerðar til úrbóta. Mikil vinna og fjármunir eru lagðir í farða og klæði. Farið er í stranga megrunarkúra og uppskurði til að laga nef eða brjóst. Einnig má taka þá stefnu að gera ekkert í málunum og látast kæra sig kollótta, hvernig útlitið er. Konur geta verið svo sannfærðar um að þær séu ljótar og óaðlaðandi, að þær telja hvers konar tilraunir til hins gagnstæða hlægilegar.

Þetta fyrirbrigði er dæmigert fyrir það, hvernig við flytjum viðhorf okkar frá hinu innra til hins ytra. Af hverju erum við aðlaðandi eða fráhrindandi? Þetta tengist óhjákvæmilega spurningunni um, hvort við séum elsku verð. Við ruglum saman tveimur spurningum. Önnur er: Lít ég nógu vel út til að vera elsku verður. Hin er: Hefi ég eiginleika, sem gera mig elsku verðan? Fyrri spurningin virðist hafa meira gildi á yngri árum en hin síðari að því leyti að hún vísar til þess, hvort við getum öðlast eðlilegt ástarlíf. En eiginleikar tengjast persónuleika og við höfum minni áhuga á honum en útlitinu. Þetta gildir því fremur sem við erum fjarlægari Sjálfi okkar. Þverstæðan er líka sú, að útlit skiptir yfirleitt litlu máli, en persónuleikinn miklu. Þó er kvartað og stunið meira yfir útlitsgöllum en persónuleikavandræðum. Við flýjum frá kjarnanum til yfirborðsins, frá því sem skiptir máli til yfirborðsmennsku. Öll leit að glaumi og glysi er í samræmi við þetta. Eigin þroski er aldrei sveipaður töfraljóma, annað gildir um rétt útlit og klæðaburð. Allir eru að sýnast vera aðrir en þeir eru og áherslan á útlit verður yfirgnæfandi.

En snúum okkur að karlmönnunum. Þeir leggja jafnan mikla áherslu á gáfur og greind, og oft einnig á algildi rökhyggjunnar. Skiptir ekki máli, hvort menn eru stoltir eða þjáðir af minnimáttarkennd í þessum efnum, þetta er sami ferillinn. Þeim mun fjarlægari, sem við erum Sjálfi okkar, þeim mun verr njótum við greindar okkar og gáfna. Sem dæmi má nefna, að þegar við þykjumst vita mikið, lærum við lítið. Á meðan við áttum okkur ekki á innri þverstæðum, skiljum við ekki hinar ytri. Ef Sjálf okkar er hulið þoku, verður hugsun okkar óskýr. Ef við erum upptekin af lokamarkmiðinu eða lokaárangrinum, þá missum við áhugann á verkinu hér og nú. Okkur vantar oft áhuga og hugrekki, en það er afleiðing yfirborðsmennskunnar. Menn sjá aðeins algilda greind og gáfur, sem hvergi er til, né verður til. Á þeim forsendum gera menn lítið úr sér, verða hræddir og kveða upp stóradóm yfir sjálfum sér.

En flóttinn til yfirborðsins er einkennandi hér. Hlutveruleikinn, hin hagnýta hlið lífsins verður allsráðandi. Því fjarlægari sem við erum Sjálfi okkar, ræður hugsunin meira. Sumir eru ekkert annað en hugsunin. Því er eðlilegt að þeir verði annað hvort stoltir af henni eða fyrirlitlegir vegna hennar. Hugsunin er einmitt blekkingin stóra, maya, og líti menn á þann hæfileika eða afurðir hans sem veruleikann, þá er ekki nema eðlilegt að hann verði mikilvægur. Hér er komið að því, sem sagt er í fyrsta þætti: “Ég er til af því að ég hugsa. Ég er mikilvægur af því að ég er til. Hins vegar vitum við glöggt innst inni, að ég er hvorki til né ekki til”.

7.2 SAMANBURÐUR.

Við gerum lítið úr okkur með ýmsu móti. Flestir gera sér ekki ljóst hve mikið. Margir geta ekki komið fram opinberlega, því þeir óttast að vera hlægilegir. Margir tala af ótrúlegri hæversku um eigin gerðir og afrek. “Þetta var það minnsta, sem ég gat gert”. Það var einum eða öðrum að þakka o. s. frv. Það má nefna mörg dæmi um þetta, svo algengt og auðséð er þetta í samskiptum fólks. Þetta kemur ekki aðeins fram í orðum, heldur og í hegðum allri. Menn meta ekki mikilvægi eigin tíma, vinnu sem þeir hafa látið í té, eigin óskir og skoðanir eru látnar víkja, þeir taka ekki alvarlega það sem þeir eru að gera eða segja og eru undrandi ef aðrir gera það. Þeir eru aumir og auðmjúkir og afsaka eigin tilvist með framkomu sinni.

Minnimáttarkennd er sú tegund sjálfsfyrirlitningar, þegar við gerum lítið úr okkur og setjum aðra á hærri stall. Hún veldur því, að við verðum kjarklaus til athafna, gefumst fljótt upp, þorum ekki að koma fram opinberlega, verðum hemluð og óörugg í mannlegum samskiptum. Þegar okkur tekst eitthvað vel, gerum við lítið úr því, en mistakist okkur, fyllumst við sjálfsfyrirlitningu og hatri.

Afleiðingar minnimáttarkenndar koma fram í þörf fyrir samanburð við aðra, svo til við alla sem koma í nánd við viðkomandi. Samanburðurinn er alltaf neikvæður. Aðrir eru áhugaverðari, betur upplýstir, meira aðlaðandi, betur klæddir, eru annað hvort eldri eða yngri, í betri stöðu, mikilvægari o. s. frv. Þótt hann sjái stundum, að samanburðurinn er út í hött, breytist minnimáttarkenndin ekkert. Þetta er að sjálfsögðu skiljanlegt, þegar við hugum að því, að viðkomandi langar til að sýna yfirburði í öllu. Stundum kemur stoltið einnig til skjalanna og hann reynir að vera fremri öllum öðrum í öllu. Allt sem er fremra truflar því og kallar á viðbrögð sjálfsminnkunar. Stundum er farið öfugt að og kostir, sem hann telur aðra hafa, notaðir til eigin lítillækkunar.

Þá koma afleiðingarnar fram í særanleika og varnarleysi. Sjálfsfyrirlitning veldur því, að menn verða viðkvæmir fyrir gagnrýni og höfnun. Þeim finnst aðrir líta niður til sín, taki þá ekki alvarlega, kæri sig ekki um félagsskap þeirra, lítilsvirði þá. Þegar viðkomandi er óviss um eigin afstöðu gagnvart sjálfum sér, hlýtur hann að vera mun óvissari um afstöðu annarra gagnvart sér. Þar sem hann viðurkennir ekki sjálfan sig, getur hann ekki trúað því að aðrir geri það. Þar sem hann veit um eigin galla, getur hann ekki vænst þess að aðrir viðurkenni hann með vinsamlegum eða þakklátum huga.

Þetta gengur oft svo langt, að viðkomandi finnst bókstaflega sem aðrir fyrirlíti sig. Hann getur verið sannfærður um þetta hið innra, þ.e. í undirvitundinni, þótt hann verði þess ekki var í daglegri vitund. Þarna er um frávörpun sjálfsfyrirlitningarinnar að ræða. Þetta spillir mannlegum samskiptum. Hann viðurkennir ekki jákvæðar tilfinningar annarra. Samúð þeirra verður þá meðaumkvun eða hann álítur að aðrir ætli að nota sig. Ef einhver heilsar honum ekki eða þiggur ekki umyrðalaust boð hans þegar í stað, er hann lítilsvirtur. Hann tekur heilbrigða gagnrýni sem sönnun um fyrirlitningu annarra o. s. frv. Eins og áður er sagt, þarf viðkomandi ekki að verða var við þessa brenglun á viðhorfi til annarra. Hann heldur raunverulega að viðhorf annarra séu þessi og hann er jafnvel stoltur af raunsæi sínu. Honum finnst hann ekki þurfa að leiða hugann að því.

Allar þessar brengluðu skynjanir er varða mannleg samskipti eru auðskildar, þegar við leiðum hugann að því að viðhorf annarra má túlka með ýmsu móti, sérstaklega þegar þau eru slitin úr samhengi. Viðkomandi finnst hin frávarpaða fyrirlitning vera raunveruleg. Frávörpunin er viðhöfð í verndarskyni. En vegna þess að óþolandi er til lengdar að búa við stöðuga sjálfsfyrirlitningu, skapast ómeðvitaður áhugi á að líta á aðra sem misgerðarmenn. Þótt sárt sé að finna sig lítilsvirtan af öðrum, er upplifun eigin sjálfsfyrirlitningar sársaukafyllri. Það er löng og hörð lexía fyrir hvern og einn, að uppgötva að aðrir geta ekki sært okkur né skapað sjálfsálit. Sannleikanum verður hver sárreiðastur.

Viðkvæmni í mannlegum samskiptum er nátengd stoltinu. Oft er erfitt að segja til um, hvort okkur finnst við lítillækkuð vegna þess að eitthvað særði stolt okkar eða vegna þess að við erum að frávarpa sjálfsfyrirlitningu okkar. Þetta er yfirleitt svo samanvafið, að best er líta á málin frá báðum hliðum. Oftast er annað augljóslega í fyrirrúmi. Ef viðbrögð okkar eru reiði og hefnd, þá er stoltið oftast í fyrirrúmi. Ef við af sama tilefni gerumst auðmjúk og afsakandi og reynum jafnvel að koma okkur í mjúkinn hjá viðkomandi, þá er sjálfsfyrirlitning á ferðinni. En gagnstæðan er alltaf samtímis á ferðinni. Betra að menn athugi það.

Þá er það oft svo, að sá sem haldinn er mikilli sjálfsfyrirlitningu lætur fara illa með sig og misnota. Honum er e.t.v. ljóst, að hann er lítillækkaður og jafnvel notaður. Ef honum er bent á þetta af vinum og kunningjum, þá gerir hann lítið úr því og réttlætir það. Þetta á oft við um annan aðilann í hjónabandi. Margt fleira en sjálfsfyrirlitningin ein kemur hér til, en hún er kjarnaþátturinn. Viðkomandi er að vissu leyti varnarlaus af því að hann telur, að hann eigi ekki betra skilið. Kona, sem ekki verður einu sinni reið eða lætur að minnsta kosti gott heita, að eiginmaðurinn haldi fram hjá henni, gerir það af því hún telur sjálfa sig ekki elsku verða og aðrar konur meira aðlaðandi.

En sjálfsfyrirlitning kallar á mótleiki. Reynt er að bæta úr minnimáttarkennd eða sjálfsfyrirlitningu eða reynt að ná jafnvægi gegn henni með athygli, virðingu, viðurkenningu, aðdáun og ást annarra. Sókn eftir slíkri athygli verður þvingandi. Sú nauðung stafar af því að reynt er komast hjá því að vera fórnardýr sjálfsfyrirlitningarinnar. Hún veldur einnig þörf fyrir að sigra, sem oft verður lífsmarkmið viðkomandi. Afleiðing þessa verður sú, að viðkomandi er algerlega háður áliti annarra á honum. Eigið álit rís og fellur með áliti annarra.

Þegar við virðum þetta fyrir okkur, sjáum við betur, hvers vegna okkur er svo nauðsynlegt að halda í hina fegruðu sjálfsímynd okkar. Við erum að forðast að horfast í augu við sjálfsfyrirlitninguna. Um er að ræða vítahring milli stolts og sjálfsfyrirlitningar. Hvor þátturinn styrkir og eflir hinn í sífellu. Þetta breytist að svo miklu leyti sem við fáum áhuga á sannleikanum um sjálf okkur. En sjálfsfyrirlitning gerir okkur einmitt örðugt að sjá sannleikann. Á meðan hið fyrirlitlega sjálf er okkur raunveruleiki, virðist okkur raunsjálfið fyrirlitlegt.

7.3 SJÁLFSHATUR.

Afleiðingar sjálfshaturs eru margvíslegar. Ein er sjálfspíning, ef svo mætti að orði komast. Sjálfsásakanir og sjálfsfyrirlitning eru í sjálfu sér sjálfspíning. Hér á ég við sjálfspíningu sem ásetning. Þótt þetta hljómi e.t.v einkennilega, þá er það engu að síður staðreynd. Sumir menn eru sífellt í vafa, eins og Hamlet. Vafi stafar oftast af innri átökum, en hann getur líka beinlínis verið ásetningur viðkomandi til að grafa undan sjálfum sér. Sama gildir um frestun. Frestun ákvarðana eða aðgerða getur stafað af dáðleysi eða vanhæfni til að móta afstöðu. En sá sem lætur málin bíða veit oft sjálfur, að það sem hann frestar verður sífellt stærra vandamál og að hann á væntanlega eftir að þjást mikið vegna aðgerðarleysisins. Og ef menn segja við sjálfan sig: “þetta var þér líkt” eða “þetta áttir þú skilið” og viss ánægjukennd er í tóninum, er það innri gleði yfir eigin sjálfspíningu eða refsingu, ánægja áhorfandans að sjá fórnardýrið kveljast.

Ekki væri þetta marktækt, ef fleira kæmi ekki til. Þegar sparsemi við sjálfan sig verður meira en hömlur, þ. e. þegar sparnaður við sjálfan sig verður ástríða, sem verður að fullnægja. Eða þegar menn gerast sjúkdómahræddir úr hófi. Magaverkur verður krabbi, léttvægur kvíði að geðveilu eða óreglulegur hjartsláttur verður að alvarlegri hjartveiki o.s. frv., þ. e. þegar við ýkjum verulega hætturnar og hræðum sjálf okkur úr öllu hófi, er betra að gæta sín og athuga hvað sé á ferðinni. Vert er að gæta þess að venjulega fylgir þessu hjá viðkomandi krafa um algjört heilsuhreysti og óttaleysi.

Ýmsar sadistískar hugmyndir, sem menn geta fengið, t.d. ef þeir vilja lítillækka aðra eða pína eða þeir finna ánægju í valdi sínu yfir einhverjum minni máttar, eiga rót að rekja til sjálfshaturs, þótt það sé ekki algild regla. En oft er um frávörpun eigin sjálfshaturs að ræða, svo venjulega er ráðlegt að athuga sinn gang, ef menn finna til slíks. Þessar hugmyndir eru algengar og þarf ekki annað en líta til þeirrar ánægju og vinsælda, sem ofbeldisbókmenntir og kvikmyndir njóta. Í öllu falli er greinilega náið samhengi milli sjálfshaturs og sadisma. Klámkvikmyndaiðnaðurinn þrífst á þessu. Sado masochismi er ein algengasta tegund klámkvikmynda og bókmennta, sem njóta mikilla vinsælda. Í raun skiptir ekki máli við hvorn aðilann, þeim máttarmeiri eða máttarminni, menn samsama sig. Oftast eru það báðir aðilar, þ. e. sá er pínir eða lítillækkar og sá sem píndur er eða lítillækkaður, sem höfða til viðkomandi. Við aukið sjálfshatur magnast löngun í slíka upplifun.

Sjálfseyðileggjandi athafnir í einni eða annarri mynd eru ekki óalgengar. Við drepum margt, sem hefur þó verulegt gildi í lífi okkar. Við getum farið illa með okkur vegna drykkjuskapar eða reykinga eða með ofneyslu ýmissa efna. Auðvitað er þetta að miklu leyti gert til að eyða innri kvíða, en um kvíðann verður sérstaklega rætt síðar. Sjálfseyðilegging er hér einnig stór þáttur. Við snúumst gegn okkur bæði andlega og líkamlega og spillum fyrir okkur, án þess að gera okkur það ljóst. Okkur finnst það bara eðlilegt. Erfitt er að nefna ákveðin dæmi, því þetta er einstaklingsbundið. Algengt er að menn fari andlega eða líkamlega illa með sjálfa sig og finnst það samt sem áður eðlilegt, þótt ekkert réttlæti það.

Frá þessu sjónarmiði séð hættir sjálfsvíg að vera undarlegt. Hugmyndir eins og að vilja henda sér fram af svölum eða út um glugga, geta komið upp úr þurru og viðkomandi verður lofthræddur og verður að halda aftur af sér. Hann leiðir ekki hugann að dauðanum í slíkum tilvikum. Hann yrði mjög hissa, ef hann fyndi sjálfan sig dauðan, hefði hann aðstöðu til þess eftir á. Óraunsæi í sambandi við dauðann er þó greinilegra einkenni þeirra, sem gera misheppnaðar tilraunir til sjálfsvígs en hinna sem skipuleggja slíkt og framkvæma í alvöru. Margir stunda hættulegar íþróttir, aka ótæpilega eða taka ekkert tillit til líkamlegrar vangetu, fötlunar eða galla. Oft finnst þeim sjálfum ekkert skeytingarleysi viðhaft og að það geti ekkert komið fyrir þá. Betra er að athuga sjálfseyðingarhvöt, þegar menn horfa svo mjög fram hjá hættum í slíku samhengi. Þeir sem beinlínis kerfisbundið og skipulega eyðileggja heilsu sína með neyslu áfengis eða eiturlyfja, reykingum og kaffidrykkju, vinnu og lítils svefns, er betra að athuga, hvort ekki sé á ferðinni eyðileggingarhvöt, verðið sé að drepa sig hægt og rólega.

Stundum verður skaðinn eins og af tilviljun. Þegar við erum í slæmu skapi og þreytt, er alltaf hætta á að við slösum okkur. Málið verður alvarlegt, ef við gætum ekki götuljósa. Oft sjáum við endurtekningu í hegðunarmynstrinu. Menn eyðileggja með skipulegum hætti alla sína möguleika. Fara úr einu starfi í annað eða úr einu hjónabandi í annað. Viðkomandi finnst hann vera píslarvottur og að aðrir séu ósanngjarnir. En oft gengur hann einmitt svo langt í ögrandi framkomu gagnvart öðrum, að þeir kæra sig ekki um hann og hann verður þess vegna að taka því sem hann óttaðist mest. Hann gerir aðra að eigin böðlum.

Erfitt er að aðgreina sál og líkama. Þekkt er hið forna gríska máltæki “heilbrigð sál í hraustum líkama”. Það er læknisfræðileg staðreynd, að ósk sjúklings um að lifa eða deyja skiptir verulegu máli. Viljinn til að láta sér batna skiptir máli. Sjálfshatur og sjálfseyðingarhvöt eru því vafalaust áhrifarík í þessu sambandi. Sá sem hirðir ekki um sjálfan sig, fitnar úr hófi fram, drekkur of mikið, sefur of lítið, gætir ekki heilsunnar, borðar of lítið, stundar ekki líkamsrækt, hirðir ekki um starf sitt, gerist lauslátur, stelur og lýgur o.s.frv., hann er yfirleitt haldinn megnu sjálfshatri og getur e.t.v. lítið andæft gegn því. Hann er á góðri leið með að fara í hundana eins og sagt er. Viðbrögð geta verið þau, að hann hlakki yfir þessu með dulbúnum hætti, vorkenni sjálfum sér eða sé hræddur. Þetta kemur oft fram í draumum sem stefnuleysi og í eyðilegu umhverfi, óhugnanlegu og hættulegu, því að í draumum erum við nær sjálfum okkur en í vöku. Auðvitað er góðs viti, ef maður sem þannig er ástatt um, hefur jákvæða samúð með sjálfum sér og finnur til óskar um eigið hjálpræði. Ótti getur eðlilega gripið um sig, því honum finnst hann vera magnþrota og hjálparlaus gagnvart miskunnarlausum öflum sjálfseyðileggingarinnar. Ótti við hið óþekkta, vofur, hið dularfulla eða við sjúkdóma er eðlilegur í þessu samhengi. Allt sem er dulvitað er dularfullt. Skelfingu og hræðsluköstum bregður fyrir án ástæðu.

Sjálfshatrið er harmleikur mannshugans. Í leit okkar að algildum markmiðum hefst sjálfseyðileggingin. Þegar við gerum samning við djöfulinn, sem lofar okkur vegsemd, frægð og frama, förum við til helvítis, okkar innra helvítis.

7.4 SJÁLFSVIÐURKENNING.

Áður hefur verið sagt, að sjálfsviðurkenning sé jafnan byggð á vissum stöðlum, siðferðilegum, fagurfræðilegum eða félagslegum. Ef viðurkenningin snýr að siðferðinu, er dæmt um gott og illt. Ef hún er fagurfræðileg, þá er það fallegt og ljótt, en snúi hún að mannfélaginu, þá fjallar gildismatið um mikilvægi og léttvægi. Sjálfsviðurkenning sérhvers einstaklings, sem þjóðfélagsmeðlims eða að því er snýr að öðrum, er undir því komin að hann standi sig siðferðilega, að hann falli í annarra smekk og sé félagslega mikilvægur. Hin siðferðilega skipting milli góðs og ills gengur í raun út frá, að aðeins alger ást á mannkyni sé siðferðilega viðeigandi.

Með því að viðurkenna óæskilegar hliðar á sjálfum sér, einkum þó veikleika og galla, hjálpum við okkur til frelsis og að taka sjálfstæðar ákvarðanir í lífinu. Þegar við viðurkennum eða höfnum okkur sem félagsverum eru vissir staðlar óafvitað notaðir. Viðurkenning á sér sjálfum sem einstaklingi er kjarni vandamálsins. Það er eins og við gerum ráð fyrir að vita jafnan, hvað sé gott eða illt, fallegt eða ljótt, mikilvægt eða lítilvægt. Við göngum líka út frá því að hafa valfrelsi. Ekki er það nú svo. Spurningin um, hvað sé gott og illt, æskilegt eða óæskilegt, aðgengilegt eða óaðgengilegt, á sér ekkert einfalt svar. Því án ills væri ekkert gott. Við höfum aðeins afstætt valfrelsi, valið er skilyrðisbundið. Það sem máli skiptir er að velja þ.e. hin valkvæða athöfn, en ekki það sem við veljum. Baráttan skiptir meira máli en markmiðið. Hún gefur þroska okkar líf og reisn.

Við verðum að kanna, hvað hindrar og hvað eflir sjálfsviðurkenningu. Eitt af því, sem mannlegur harmleikur á rót sína að rekja til, er óskin um að vera góður, fagur og mikilvægur. En óskin og þörfin á að velja og viðurkenna aðeins hið góða, hið fagra og mikilvæga er órökræn. Þegar við getum ekki viðurkennt okkur eins og við erum, getum við aldrei viðurkennt okkur sem heild, þ.e. samsafn hins góða, illa og hlutlausa eða það sem ekki er hægt að flokka undir gott eða illt. Þetta veldur sundrung í okkur sem einingu eða heild. Við verðum að viðurkenna bæði hið heilbrigða og óheilbrigða í okkur, hið ánægjulega og óæskilega. Við verðum að játa því, sem er ósamþýðanlegt eða stangast á í okkur.

Ég hefi áður bent á hvernig hagnýta má lögmál hinna hreinu andstæðna. Ekkert er vont án hins góða. Sama gildir um hvítt og svart og ást og hatur. Hatur er ekki til nema vegna þess að ást er möguleg. Feimni er dulin ósk um að sýna sjálfsöryggi. Þegar átt er við ósamþýðanlega hluta persónuleikans, er gott að gæta að þessu lögmáli. Að sjá, að hið illa er gagnhverfa hins góða, hjálpar okkur til að sættast við innri átök og þverstæður.

Vafalaust er nauðsynlegt að sjá eigin andstæður og að viðurkenna tilvist þeirra. Það er forsenda þess að leysa þær upp eða losna við þær. Spyrja mætti, hvort andstæður séu ekki alltaf ósættanlegar og því ekki hægt að viðurkenna þær samkvæmt eðli sínu. Árekstur leiðir til aðskilnaðar og upplausnar. Við verðum að gæta að því, hvað veldur árekstrinum og skapar mótstæðurnar. Misræmi, ósamræmi og gagnstæður verða ævinlega til. Þær eru uppruni aflsins. Þær skapa fjölbreytnina. Gagnstæðar skoðanir og ólík viðhorf styrkja stefnu og stöðu mála. Gagnstæður taka til allra möguleika. Aðeins öfgar eða hinar algjöru andstæður útiloka hver aðra. Walt Whitman sagði:

Er ég í mótsögn við sjálfan mig?
Gott og vel, þá er ég í mótsögn við sjálfan mig,
(Ég er víðfeðmur, í mér býr margbreytileiki.)

Hvenær eru andstæður samþýðanlegar? Minni háttar andstæður virðast oft ósamrýmanlegar. Möguleikinn á samþýðanleikanum hverfur, ef við veljum aðeins hið góða, fallega og mikilvæga. Þróunin í þessum heimi gerist ekki með vélrænni útilokun hins óæskilega eða óhæfa, heldur með því að upplifa það í reynd. Að þessu leyti getum við sagt að barátta sé árangur. Hið eftirsóknarverða er að komast í baráttuna en ekki úr henni. Allt sem er skipt, útilokað eða firrt er sjúklegt. Allt það sem hjálpar til að sameina eða stefna saman og til að stofna til eðlilegrar samvinnu er heilbrigt. Með því að viðurkenna mismun og andstæður, sérstaklega með því að hafa hugrekki til að mæta valkostum, nálgumst við mannlegan sannleik, sem er eðlilegur, raunsannur og siðferðilegur. Það tryggir sjálfsþroska.

Gott og illt eru ekki ákveðin skýrgreinanleg gæði, heldur tímabundin viðhorf á ákveðnum tengslum eða sambandi hluta. Illt er sundurgreining, samkeppni og ósamþýðanleiki. Gott er nálgun, samleitni og samvinna. Eins og einingin er fyrirrennari óeiningar, er gott fyrirrennari hins illa. Gott og illt verða til með sundurgreiningu í vitundinni. Áður en sú sundurgreining hófst, réði gott ríkjum í skilningi eðlilegrar samvinnu. Á þroskabraut okkar förum við þannig aftur til upphafsins, til baka í tímanum til þess, er ekkert var gott eða illt og hugsunin bjó það ekki til. Svið hins góða er breitt, það umlykur einnig hið siðlausa og illa. Synd og siðferði eru ekki gagnstæður, heldur eitt. Ég er ekki að mæla með andstæðum eða mótsögnum. En ég veit, að orrustuvöllur tilfinninga okkar verður að viðurkennast til þess að við komumst á áfangastað og til að við getum stuðlað að sjálfsþroska. Hæfileikinn til að sjá sjálfan sig í víðu ljósi hjálpar til að komast handan við átökin og árekstrana. Ekki til að halda sig í fjarlægð frá þeim. Ég er ekki að mæla með því, heldur til að upplýsast og fá útskýringu á fyrirbærunum.

Jafnvel við hagstæðustu kringumstæður, erum við háð vissum takmörkunum, sem við komumst aldrei yfir. Það er ofar mannlegum skilningi að vita gott og illt og við getum ekki vænst slíks valfrelsis. Við reynum hið góða og vonda. Við upplifum baráttuna og njótum ávaxta hennar. Mannleg örlög eru þau að plægja og sá og skera upp í hverfulleikanum, gleði og sorg. Þegar menn telja sig alvitra, eru þeir brottrækir úr paradís. Þeir hafa fjarlægst uppruna sinn og getu. Þeir tapa sínum náttúrulegu hæfileikum. Ef úr minna er að velja, verður minna valið. Hin óskammfeilna þekking á góðu og illu, veldur því að menn skammast sín fyrir að vera eins og þeir eru. Eins og þeir eigi val á því að vera öðru vísi. Menn geta því ekki viðurkennt sjálfa sig.

Gagnlegt er að viðurkenna sig sem eina heild og við hvers konar aðstæður, og það er eina leiðin til þess að við getum hafist handa og breytt okkur. Óánægja og höfnun stafa af því að við höldum að við hefðum getað gert betur en við gerðum. Að viðurkenna ekki takmarkanir okkar er skaðlegt og jafngildir því að eyðileggja eigin innri getu. Það er eðlilegt og mannlegt að vera takmarkaður og hafa takmarkanir. Við verðum að viðurkenna þessa staðreynd sem hluta af hinu mannlega í stað þess að álasa okkur og fyrirlíta. Það er hægt að afneita og hafna hinu óæskilega, en það hjálpar ekki til að takast á við það. Allt í tilverunni, sem við höfum ekki getað eða viljað viðurkenna eykur tilfinningu okkar fyrir eigin getuleysi og óvirðingu.

7.5 HELVÍTI.

Í fyrri þáttum lýsti ég því, hvernig við búum okkur til sjálfsmynd og markmið, hvernig við gerum kröfur á umhverfið og sjálfa okkur til þess að gera þessa sjálfsmynd eða markmið að veruleika í okkar eigin augum, því að við teljum okkur trú um að það sé hægt. Við sækjumst eftir frama og vegsemd. Við greipum sjálfsmyndina og markmiðin í fasta byggingu sem við girðum af með stolti okkar, er líkja mætti við gaddavírsgirðingu. Jafnframt því sem við gerum þetta, sköpum við eigin sjálfsásakanir, sjálfsfyrirlitningu og sjálfshatur. Annað getur ekki án hins verið fremur en hliðar peningsins. Það er gamall vísdómur að þetta tvennt hangi saman og verði ekki að skilið.

Það eru til margar sögur um samninga við djöfulinn frá öllum tímum. Þær eru keimlíkar. Sagan hefur venjulega að geyma mannveru í andlegum eða efnislegum vandræðum eða háska. Þá kemur freistarinn til skjalanna í líki hins illa eða einhvers annars. Það kann að vera djöfullinn, galdranorn eða snákur, eins og í aldingarðinum. Þá kemur til loforð um, að viðkomandi losni undan vandræðunum eða háskanum og jafnframt um að hann öðlist ótakmörkuð völd eða óendanlegan styrk. (Faust lét sér ekki nægja að vita mikið, heldur þurfti hann að vita allt). Það er yfirleitt talinn vitnisburður um mikilleik, ef viðkomandi stenst freistinguna, eins og Kristur í eyðimörkinni, er hann hafnaði djöflinum. Að lokum er svo gjaldið, sem greiða verður í ýmsu formi, oftast með því að glata sál sinni, t.d. misstu Adam og Eva sakleysi sitt. Aðrir eiga að leggja sig á vald hinna illu afla, eins og djöfullinn heimtaði af Kristi er hann sagði: “Allt þetta vil ég gefa þér, ef þú fellur fram og tilbiður mig.” Gjaldið getur líka verið andlegar þjáningar í þessu lífi eða kvalir í helvíti.

Þetta þema birtist í ýmsum myndum í þjóðsögum, goðsögnum og víðar. Þessi viska liggur í samvitund almennings. Yfirleitt þar sem tvíhyggjan, gott og illt er í fyrirrúmi. Djöfullinn eða einhver fulltrúi hins illa freistar og lofar óendanlegum völdum, sem ekki er hægt að öðlast nema glata sálu sinni eða fara til helvítis. Þessi freisting höfðar til tveggja mikilvægra langana; löngun eftir hinu óendanlega og löngun eftir auðveldri lausn vandans. Bæði Buddha og Kristur upplifðu slíkar freistingar og stóðust þær. Þeir höfðu fastan grundvöll í sínu Sjálfi. Þeir áttuðu sig á freistingunni og höfnuðu henni.

Í raun hefi ég verið að lýsa því sama. Manneskja í andlegum háska sækist eftir óendanlegri vegsemd og völdum, eftir eigin fullkominni mynd og ytri markmiðum, en jafnframt liggur leiðin til innra helvítis. Hún glatar sálu sinni og þjáist í eigin innra helvíti, því sjálfsásakanir, sjálfsfyrirlitning og sjálfshatur eru ekkert annað en eigið innra helvíti, sem við búum til sjálf með hugsun okkar. Við hljótum upphefð í eigin huga með aðstoð ímyndunaraflsins og stundum að nokkru leyti í hlutveruleikanum, en jafnfram seljum við sál okkar eða Sjálf.