6.0 INDVERSK ALGILDISHYGGJA.
6.1 SJÓNARMIÐ VEDANTA.
6.2 SJÓNARMIÐ MIÐLEIÐAR OG VIJNANAVADA.
6.3 SAMEIGINLEG SJÓNARMIÐ.
6.4 AÐFERÐAFRÆÐI.
6.0 INVERSK ALGILDISHYGGJA.
Mig langar í upphafi að rifja upp nokkur viðhorf, sem ég hefi áður lýst.
Vedanta gengur út frá því, að við öðlumst frelsi með því að alsama okkur Brahman. Þegar margbreytileikanum í heimi fyrirbæranna hefur verið eytt og hið marga sameinað í eitt, er frelsinu náð. Ef hið persónulega sjálf er losað við allt, sem tilheyrir heimi hlutveruleikans eða margbreytileikans, meðal annars skynjanir, ímyndanir, tilfinningar, hugsanir, óskir, þá verður eftir hið raunverulega “Sjálf”. Og þegar það hefur verið hreinsað af öllu hinu ytra, sameinast það alheimssjálfinu, hinu algilda, Brahman. Hið minnsta samjafnast þar með hinu stærsta. Innsta eðli okkar er Guð. Með því að upplifa eininguna við Guð sinn eða Brahman, verður sálin frjáls.
Shankara, höfuðheimspekingur algildishyggju Vedanta, (788 820 e. Kr.) hélt því fram, að alveran, Brahman, sé hinn hinsti veruleiki, en allt annað sé blekking. Hann taldi undirrót blekkingarinnar vera fólgna í því, að það sem ekki er, er talið vera, eins og reipið er talið vera snákur. Snákurinn er þó ekki tilvistarlaus með öllu, þar sem reipið er til staðar. Eigi að síður sé um blekkingu að ræða. Sankara hélt því einnig fram, að “Sjálfið” sé þungamiðja allrar reynslu. Allt, sem ekki tilheyrir “Sjálfinu” sé blekking, eignuð því. Heim blekkingarinnar sagði hann huglægan, en ekki hlutlægan og hvorki veruleika né ekki veruleika. Blekkingin upphæfist þegar veruleikinn hefði verið skynjaður. Rétt skynjun sé því að skynja hina hreinu alveru. Hinn hinsti veruleiki sé einn, óbreytilegur og birtist sjálfum sér. Við sjáum hann með innri sýn. Brahman er þannig ópersónulegur og hlutlægur. Sankara sagði, að alveran hafi upphaflega verið ein án annarrar.
Orðið “mayja” táknar sýnd eða afstæði í heimi fyrirbrigðanna. Það þýðir þó ekki að heimurinn sé blekking. Sankara er andhverfur hughyggju (idealisma) Búddhismans. Hugkvíarnar annars vegar og heimurinn, sem við myndum með hugkvíjum hins vegar, hanga saman. Hið takmarkaða er í raun hið ótakmarkaða, sjón okkar er einungis takmörkuð vegna hindrana innra með okkur sjálfum. Þegar við sjáum hið algilda, hverfur hið afstæða. Brahman er grundvöllurinn, sem klæðist ásýndinni. Uppljómun fæst við það, að lyft er hulu vanþekkingarinnar, sem dylur okkur þann sannleika, að við erum Brahman. Við hugljómumst ekki við það að öðlast eitthvað eða gera eitthvað. Við öðlumst hugljómun einungis, með því að draga frá hulu vanþekkingarinnar. Innsýnin er í senn ráðning gátu og sigur í innri baráttu.
Við skulum rifja það upp, að tveir meginskólar Mahayana Búddhismans á Indlandi hafa jafnan boðað algildishyggju líkt og Vedanta, en þótt með öðrum hætti sé. Þessir megin skólar eru “Madhyamika”, kenning Miðleiðarinnar og “Vijnanavada”, kenning hughyggjunnar.
Fyrrnefndi skólinn, þ.e. Madhyamika skólinn var stofnaður á 2. öld e. Kr. af Nagarjuna sem ef til vill var mesti heimspekingur allra tíma. Hann leggur áherslu á kenninguna um sunyata, sem er af sumum túlkað sem tómið, en af öðrum sem afstæði hlutanna. Nagarjuna hélt því fram, að einhvern einn hlut væri aldrei hægt að skilgreina nema í samhengi við einhvern annan hlut. Án tengslanna væri hver hlutur merkingarlaus. Hlutur er þess vegna sagður án sjálfstæðrar tilvistar, af því að hann hefur ekki sjálfstæðan veruleika. Tilvist hlutar er háð orsökum og skilyrðum og hluturinn hverfur með þeim. Skilningur á sunyata, tóminu eða afstæði hlutanna, leiðir til prajna, sem er innsýn og þekking án tvíhyggju. Þegar þeirri innsýn eða þekkingu, prajna, hefur verið náð, eru hin algildu sannindi upplifuð, þau sannindi, sem eru handan við allar hugsanir og hugmyndir. Hér er um að ræða hið skilyrðislausa og óákvarðanlega. Þetta sem er hið algilda handan við hlutveruleikann, en jafnfram fólgið í honum og jafnast á við hann. Skilningur á hlutveruleikanum eða heimi fyrirbæranna, þar sem karma ríkir, felur í sér afstæðan sannleika, sem er allt annað.
“Vijnanavada skólinn” kennir hins vegar að heimur fyrirbrigðanna sé huglægur og því tilbúningur hugans. Hann kennir að hugurinn eða vitundin sé hinn eini sanni veruleiki. Samkvæmt þessari kenningu er hinn ytri eða hlutlægi heimur ekki veruleiki, þar sem hugurinn telst eini veruleikinn.
Báðir þessir skólar nutu vinsælda í Kína. En auk þeirra voru þar skólar Chan eða Zen, eins og það nefnist á japönsku. Sá skóli hafnar heimspekilegum fræðum og ímyndum og leitast við að öðlast beina og milliliðalausa upplifun, sem gerist á augabragði, þar sem innri kjarni eða Búddaeðli mannsins er upplifað. Zen vísar jafnan á bug háspekilegum umræðum, eins og áður segir og bendir á hið hagnýta í manninum. Þótt Zen nálgist upljómun beint og á einfaldan hátt, ber sá skóli, einkanlega Chan, oft mörg einkenni Vijnanavada skólans við túlkun á hinu algilda. Þessi einkenni eru, að hinn hlutlægi heimur sé tilbúningur hugans og að vitundin hrein og tær, sé kjarni veruleikans.
Margir hafa haldið því fram, að munur sé enginn á hinu algilda, þegar Miðleiðin talar um Sunyata, Vetanta talar um Brahman og Vijnanavada um Vijnana. Mismunurinn sé einungis á yfirborðinu og að raunar sé aðeins verið að þrátta um notkun orða. En af hverju er ágreiningurinn milli þessara skóla sprottinn? Sumir telja hann stafa af misskilningi, að fylgismenn skilji ekki sjónarmið og heimspeki hvers annars. Stundum er vísað til ofstækis, þar sem vinir verða að óvinum. Eitt er víst, að í hverju einstöku trúarkerfi hefur mikið verið rætt og ritað til að lýsa ófullkomleika annarra trúarkerfa. Sumir segja að það sé gert vísvitandi, meðal annars Stcherbatsky, sem áleit lítinn mun á Búddisma og Vedanta. Hann taldi að jafnvel Sankara hafi gert sig sekan um að reyna að fela þá staðreynd. Nokkuð má þó segja að langt sé gengið þegar mönnum eru gerðar upp skoðanir í þessu efni. Hins vegar er það óneitanleg staðreynd, að hinum einstöku trúarkerfum verður ekki ruglað saman. Á þeim er umtalsverður munur, sem nokkru varðar. Í þessum þætti er ætlunin að víkja nánar að þessu. Ein leiðin til að sjá muninn á trúarkerfunum er að líta á gagnrýni, sem hinar mismunandi trúarhefðir hafa fengið.
6.1 SJÓNARMIÐ VEDANTA.
Víkjum þá fyrst að Vedanta. Fylgismenn Vedanta hafa oft talið að Miðleið Búddismans boðaði níhílisma eða algera afneitun á öllu gildismati. Þeir halda því fram að hlutveruleikanum eða heimi fyrirbrigðanna verði ekki hafnað án þess að viðurkenna einhvern annan veruleika. Afneitun villu sé það sama og að viðurkenna þann sannleik, sem villan grundvallist á, að eitthvað annað sé rétt. Að sjálfsögðu eru fylgismenn Miðleiðarinnar ekki samþykkir þessari skoðun. Þeir telja þá, sem haldi þessu fram, ekki hafa komist lengra en að orðinu sunyata, sem við getum nefnt neind eða tóm. Afneituninni er nefnilega einnig afneitað, jafnvel af enn meiri eindrægni. Sunyata er ekki afneitun veruleikans, heldur sú skoðun að veruleikinn verði ekki klæddur í búning fyrirbrigðanna. Hið algilda er veruleikinn, eðli hlutanna eða nándun þeirra (tathata, suchness). Hið algilda er jafngildi hins fullkomna eða Tathagata. Misskilningurinn liggur í því að viðhorf Miðleiðarinnar, sem felst í engri kenningu um veruleikann, er skilið sem kenning um engan veruleik. Menn eru svo vanir kenningum um veruleikann, að þeir hafa dæmt Miðleiðarmenn sem nihilista vegna þess, að þeir finna ekki hjá Miðleiðarmönnum kenningu um Guð, sál eða eitthvað slíkt.
Sankara bendir á hvernig reynt er að sanna veruleika vijnana með eftirgreindum röksemdum:
1. Tilvist hlutar sem frumeindir eða samsett heild af frumeindum, getur ekki staðist. Þau vandkvæði rugla öll hugtök hlutar hvort sem hann er altækur eða einstakur, heild eða hluti, efni og eiginleiki og svo framvegis.
2. Tilvist hlutar burtséð frá þekkingu á honum er óhugsandi. Þekking er hins vegar stöðug og ómissandi.
3. Vitund er til staðar án hlutar, eins og í draumum og svo framvegis. Ekki er hægt að neita því, að hluturinn birtist af sjálfu sér.
4. Með einfaldri tilgátu um starfsemi vitundar, getum við auðveldlega skilið mismunandi þekkingarástand með breytilegu innihaldi sem birtist eða er knúið fram af orsök, sem er falin í vitundinni.
Þessu svarar Sankara þannig að greinilega kemur í ljós mismunur Vedanta og Vijananavada.
1. Ekki er kleift að afneita hinum ytri hlutum, þar sem við fáum sífellt vitneskju um þá við alla þekkingarleit.
2. Ekkert vit er í því að telja vitneskju um hlut, vera hlutinn sjálfan, þar sem eðli þekkingarleitarinnar er að opinbera það sem fyrir er, það sem fyrirfram er gefið, fremur en að skapa innihald í sjálfu sér. Það getur alls ekki verið þekking.
3. Jafnvel þegar hughyggjumaðurinn afneitar veruleik hlutar í sjálfum sér, þ.e. þegar hann fullyrðir að vitundin sjálf virðist skynja eitthvað forminnihald, eins og um væri að ræða gefinn hlut, játar hann óbeint veruleika hlutarins. Ef hughyggjumaðurinn hefði enga þekkingu, svo sem hann lætur í veðri vaka, um hlutinn í sjálfum sér, eins og hann birtist, hvernig getur hann talað um vitund, sem skynjar, eins og innhaldið væri til staðar? Ekki er hægt að bera neitt saman við hlut, sem ekki er til samkvæmt tilgátu hughyggjumannsins. Sankara fullyrðir, að jafnvel þótt hluturinn sem slíkur sé blekking, þá þurfi eitthvað að vera til staðar hið ytra.
4. Ef ekki væri til hlutur, þá gæti hann ekki táknað neitt þekkingarlega. Þetta er í raun gagnröksemd við fullyrðingu hughyggjumanna um að hlutir séu ekki til án þekkingar um þá. Viðhorf Sankara er það sama og Kants og Miðleiðar, að án hins gefna hlutar geti ekki verið um að ræða þekkingu á honum.
5. Aðgreining milli draumavitundar og vökuvitundar, þ.e. milli blekkingar og raunskynjunar, er ekki möguleg nema á grundvelli þess, að hluturinn í vökuástandi sé gefinn, óháð þekkingarstarfinu, og jafnframt að hluturinn sé ekki til staðar í draumi. Þótt sérhvert innihald hugans væri innri aðlögun vitundar, má samt spyrja á hvaða grundvelli hughyggjumaðurinn geti greint á milli blekkingar og raunveruleika.
Sérstaklega verður að taka fram, að röksemdir Sankara má misskilja á þann hátt, að hann viðurkenni veruleika hlutveruleikans, þ.e. heim fyrirbrigðanna, eins og hann kemur okkur fyrir sjónir, sem hinn hinsta veruleika. Þannig er því ekki farið, því þá hefði hann gefið algildishugsjón sína upp á bátinn. Hið algilda, Brahman, væri þá ekki hreinsað af hinum venjulega reynsluheimi okkar. Það sem Sankara er að sýna fram á, er að hluturinn sé raunverulega í sérhverri reynslu okkar. Að veruleikinn sé eins og áhrifalaust undirlag, þar sem við leggjum yfir hugkvíar okkar (mismun, breytingu og sérstæði). Heimur fyrirbrigðanna sé raunverulegur, en sem sé Brahman. Þekking er fyrir Sankara þekking á hinu gefna eða því sem er og er háð því. Þekkingarleitin skapar ekkert og rangtúlkar ekkert, hún birtir aðeins eða upgötvar tilvist, sem er að öllu leyti fullkomin. Markmið hreinnar þekkingar er að mati hans að þekkja hlutinn eins og hann er, án nokkurs votts af huglægum formum, táknum eða öðrum hugkvíum. Samt sem áður sé engin reynsla í heimi fyrirbrigðanna hin fullkomna þekking. Því þegar kemur til hins algilda sé þekkingin algerlega sneydd huglægum viðhorfum. Þá sé hún svo hrein og tær að engin greining verði gerð milli þess sem þekkir (atman) og þekkingar (brahman).
Í fáum orðum sagt, þá taldi Sankara okkur ekki skapa í huganum með þekkingarviðleitni okkar, hluti sem virðast vera til staðar, hið ytra. Hann taldi hins vegar að hinir ytri hlutir gerðu þekkingu mögulega. Viðfangsefni þekkingar okkar sé hvorki til í vitundinni né verði til við þekkingarviðleitnina, heldur séu hlutirnir í sjálfum sér, ótengt hugsuninni. Það eina sem er í sjálfu sér, sé veruleiki. Þetta sem þarfnast einskis annars til að vera það sem það er. Hitt, sem tengt er þekkingarviðleitni okkar og er ekkert án hennar, það er blekking. Sú tilvist sé einungis í tengslum við þekkingarviðleitnina og ekkert meira í sjálfu sér.
Samkvæmt þessari skilgreiningu er veruleikinn tilvist, sem er hrein, óbreytileg, alsöm og sjálfsöm. Sú tilvist ein er hið sanna viðfangsefni þekkingar. Hún er hið algilda, Brahman. Hin breytilega tilvist er skilyrðisbundin. Hún er ekkert í sjálfu sér. Hið sértæka er, eins og það tengist öðru eða er gagnstætt öðru, sem einnig er sérstætt. Hið sjálfsama þarfnast ekki annarrar staðfestingar. Það er til staðar án tengsla við alla þekkingarviðleitni.
Vedanta skilgreinir reynslu frá sjónarmiði þekkingar. Hluturinn í sjálfum sér, þ.e. Brahman, er öll tilvistin. Þekkingarviðleitnin aðeins upplýsir og uppgötvar. Allt sem er ekkert í sjálfu sér, en hefur aðeins tilvist sem þekking, það er blekking, eins og reipið verður að snák í fyrrnefndri líkingu. Vedanta er að þessu leyti þekkingarfræðilega séð raunsæisstefna, sem heldur fram veruleik hins gefna, þ.e. hins ytra. Þó verður að árétta, að Vedanta bendir á hinn hinsta veruleik handan heims fyrirbrigðanna og að það sem við upplifum í reynsluheimi okkar sé aðeins ásýnd veruleikans, en ekki veruleikinn sjálfur. Að þessu leyti er Vedanta sömu skoðunar og miðleið Búddhismans og Kant.
Hinsvegar sér hughyggja Vijnanavada þekkingarviðleitni hugans eða vitundina, sem hinn eina veruleik og hlutnum er varpað fram eða vitundin skapar hann. Það hugarstarf er óháð hinu ytra. Um er að ræða stöðugt, sjálfvirkt og skapandi starf, en ekki óvirka eða kyrrstæða alveru eins og Brahman. Hlutirnir eru mótaðir og þeim er skotið fram í sjálfu sér af hinni sjálfskapandi vitund. Þetta sköpunarstarf hugans er ekki heimur fyrirbrigðanna, heldur starf hinnar dýpri vitundar, hins hinsta veruleika. Hlutur, sem varpað er fram í hug okkar eða við viljum í vitund okkar, er þess vegna í huganum og vegna hans og er ekkert annað en hann. Þetta er fullkomin hughyggja. Vijnana er alheimsvilji, sem er ópersónulegur og birtist með þeim hætti, að viðfangsefni vitundar er varpað fram og dregið aftur til baka inn í vitundina.
Vitundin er veruleiki vijnanavada, en hin óbreytilega, alsama og sjálfssama alvera er veruleiki Vedanta. Ljóst er því, að það sem er raunveruleiki í Vedanta er blekking í Vijnanavada og öfugt.
Hliðstæða Vijnanavada í vestrænni heimspeki er Hegel. Þó er þar talsverður munur á. Hjá Hegel er hugsunin hið algilda og hefur því að geyma tvíhyggju hugsunar. Vijnanavada telur hið algilda handan hugsunar og án tvíhyggju.
6.2 SJÓNARMIÐ MIÐLEIÐAR OG VIJNANAVADA.
Gagnrýni fylgismanna Miðleiðar á Vijnanvada gefur til kynna að þessi sjónarmið eru ólík. Vijnanavada heldur því fram, að vitund geti staðið ein sér án hinna ytri fyrirbrigða, eins og hún gerist í draumum og ímynduninni. Vitund er talin orsaka hið fjölbreytta innihald, sem birtist í margskonar vitundarástandi. Hún er sjálfsákvarðandi og býr yfir eigin þróunarlögmálum. Hún skapar hina ytri hluti. Ennfremur er vitundin sjálflýsandi, ef svo mætti að orði komast, hún hefur sjálfsþekkingu, varpar ljósi á sjálfa sig eins og lampi.
Bæði Candrakirti og Santideva höfnuðu þessari afstöðu Vijnanavada. Þeir töldu að vitund þekkingar geti ekki starfað án hins ytri hlutar. Ef hinn ytri hlutur væri óraunverulegur, mætti spyrja: “hvað er það þá yfir höfuð sem hægt er að þekkja?” Vitundin ein er tóm og hún getur því ekki þekkt sjálfa sig. Hún verður að vinna að einhverju eða með eitthvað. Formið eitt getur ekki aflað henni innihalds. “Jafnvel hið beitta sverð getur ekki höggvið sjálft sig, fingurgómurinn getur ekki snert eigin fingurgóm, vitundin getur ekki þekkt sjálfa sig.” Hvernig getur nokkuð verið hvort tveggja í senn, þekkjandinn og hið þekkta, án þess að skiptast í tvennt? Vijnanavada viðurkennir tilvist, þar sem vitundin er, en hafnar annari tilvist, svo sem tilvist hinna ytri fyrirbrigða. Fylgismenn Miðleiðar benda því á, máli sínu til stuðnings, að Vijnanavada hafni þar með ekki bæði tilvist og tilvistarleysi, sem er hið sanna Miðleiðarsjónarmið.
Gagnrýni Miðleiðarmanna á Vijnanavada er svipuð og gagnrýni Kants á hughyggju. Báðir afneita því alfarið, að við getum haft sjálfsþekkingu án þekkingar á hinum ytri hlutum. Hugkvíar einar saman eða hrein vitund sé tómið eitt. Að því er tekur til hlutveruleikans er viðhorf þessara manna raunsætt. Þeir halda því fram, að hughyggjan gangi þvert á eðlilegan hugsunarhátt eða eðli hugsunar og skilnings á hlutveruleikanum, án þess að benda á annað gagnlegt í staðinn. Segja má, að viðhorf Kants og Miðleiðarmanna sé gagnrýni á hughyggju. Þeir viðurkenna heim fyrirbrigðanna sem veruleika, sem slíkan, þ.e. þegar um er að ræða þekkingu og þekkjanda. Sá veruleiki er óraunverulegur frá sjónarmiði hins algilda. Þar sem allt er afstætt og háð öðru, t.d. þekking og þekkjandi, getur hvorugt staðið eitt sér sem veruleiki, séð frá hinu algilda. Miðleiðarmenn fylgja algildishyggju, sem er hvorki algildi vitundar án hins hlutlægs veruleika, sjónarmið Vijanavada né sjónarmið Vedanta með Brahman, sem er algildishyggja hins hlutlæga eða alverunnar án hugsunar. Vitund um afstæði hlutanna og óraunveruleika þeirra er sú algildishyggja, sem Miðleiðarmenn hneigjast að.
Gagnrýni Vijnanavada á viðhorfi Miðleiðar felst einkum í því, að skilningur hinnar síðarnefndu á Sunyata séu þarflausar öfgar. Sunyata beri ekki að skilja sem afneitun alls, heldur afneitun tvíhyggju, t.d. þekkjanda og þekkingar í einhverju, þ.e. á einhverjum grunni. Það sem afneitar tvíhyggjunni sé til og hljóti því að vera eitthvað í sjálfu sér, þ.e. hið algilda. Vitund um tvíhyggjuna, afstæðið og sömuleiðis óraunveruleika allra hluta, hljóti því að vera hinn algildi veruleiki. Vitund án tvíhyggju sé hið algilda. Hreyfing vitundarinnar eða vitundarstraumurinn skapi fyrirbrigðin. Tengsl milli hluta séu innan hugsunarinnar, en ekki milli hennar og einhvers annars utan hennar. Þar sem hugsunin skapi heim fyrirbrigðanna, geti hann aldrei haft sjálfstæða tilvist. Heimur þekkjanda og þekkingar sé því ekki veruleiki. Á hinn bóginn þýði það ekki að vitundin sé ekki veruleiki. Hún hljóti að vera grundvöllur hins óraunverulega. Vitundin sé þó aðeins veruleiki, án hugtaka og hugsunar. Að öðrum kosti sé hún ekki hið algilda. Hún verði að vera án tvíhyggju.
Eins og áður segir, er Vijnanavada algildishyggja hinnar hreinu vitundar, sem skapar heim tvíhyggjunnar eða fyrirbrigðanna. Gagnstætt þessu má segja, að Brahman sé alveran, aðgerðarlaus eða án tvíhyggju eða sköpunar. Brahman býr ekkert til. Tilbúningurinn gerist á hinum óvirka grunni Brahman, þar sem Brahman veitir okkur tækifæri til að búa til heim fyrirbrigðanna. Vedanta lýtur á starfsemi sem takmörkun eða heim fyrirbrigðanna og forsenda Vedanta er hið takmarkalausa eða hin alsama alvera. Rökin að baki þessa eru, að allur munur gangi út frá alsömun, en ekki öfugt. Í Vedanta tilheyrir öll starfsemi heimi fyrirbrigðanna, hið algilda er utan og ofar allri starfsemi og raunar grunnur hennar. Fyrir Vijnanavada er Brahman, þ.e. hið algilda eða alveran samkvæmt Vedanta, hlutirnir í sjálfum sér (”Ding an sich” hjá Kant), tilbúningur hugans eða vitundarinnar. Þannig er hið algilda gagnstæður séð frá þessum tveim sjónamiðum, þ.e. Vijnanavada og Vedanta.
Frá sjónamiði Miðleiðarmanna er tengt, afstætt og háð hvort öðru annars vegar hlutirnir í sjálfu sér, þ.e. Brahman og hins vegar hrein og tær vitund, þ.e. veruleiki Vijnanavada. Annað getur ekki án hins verið. Bæði eru skilyrðisbundin og þar af leiðandi blekking. Miðleiðarmenn líta á hvoru tveggja, annars vegar hlutina í sjálfum sér (Ding an sich) og hins vegar hugkvíar og vitund (Ding an mich), eins og Kant gerði. Hvort fyrir sig hindri þá innsýn, sem ein sér sé veruleikinn. Það sem er óskilyrt og ótengt í núinu er forgrunnur hugsunar og hluta, starfs og tilveru. Í þessum skilningi er Sunyata eða Prajna, ekki alveran eða vitundin, form hins algilda.
6.3 SAMEIGINLEG SJÓNARMIÐ.
Miðleiðin, Vijnanavada og Vedanda eiga margt sameiginlegt að formi til. Mismunurinn er einkum fólginn í því, hvernig nálgast eigi hið algilda og að vissu leyti í því, hvernig það er skilgreint. Þegar að hinu algilda kemur, hverfur munurinn sjálfsagt alveg. Tæplega verður minnst á mismun, þar sem þögnin er eina tungumálið. Það er sagt, að frá ummáli hrings sé hægt að nálgast miðju hans eftir ótal geislum. Mörgum finnst að hann sé sjálfur á hinni réttu leið, en að aðrir séu það ekki. Hverjum sýnist miðjan blasa við sér, en hann sér oft ekki að aðrir nálgast miðjuna úr annarri átt eða eftir annarri leið.
Í öllum trúarhefðunum er hið algilda handan við heim fyrirbrigðanna, hlutveruleikans, og hugsunar. Það verður með engu móti skilgreint. Hið algilda er í eðli sínu veruleiki blekkingarinnar. Það er heimur fyrirbrigðanna í hans innsta eðli. Hið algilda er upplifað með innsýn. Slíkri reynslu eru engin tök á að lýsa með öðru en því, að hún á sér stað hér og nú, og hún er heildræn, kjarni hlutanna og tilvist, verður eitt og hið sama. Einnig verður ljóst, að heimur fyrirbrigðanna, þ.e. hlutveruleikinn, sé blekking. Með því að skynja hið algilda, víkur tilvist ásýndarinnar.
Eðli blekkingarinnar og staða hennar gagnvart hinu algilda er þó mismunandi eftir trúarkerfum. Öll algildishyggja afneitar tvíhyggju. Hið algilda er í sjálfu sér ekki þekkt, heldur finnst með afneitun tvíhyggjunar, en venjulega ekki með rökfærslu, heldur með díalektik eða því að sýna fram á innihaldsleysi ímyndar og markmiða. Ella er eins líklegt, að hið algilda standi eitt sér sem annar veruleiki. En það er mismunandi eftir trúarkerfum, hverju er hafnað. Miðleiðin hafnar hugsun og hugtakasmíð, allri ímynd og markmiðum, og telur að slíkt rangfæri veruleikann, sem sé innsýn. Vijnanavada hafnar öllum hlutveruleik, því í honum virðist vijnana eða vitundin smituð tvíhyggju. Vedanta afneitar allri skilgreiningu. Veruleikinn er alger, alsamur og altækur.
Algildishyggja skilgreinir hið algilda annars vegar og blekkingar hins vegar. Rit eru skýrð á grundvelli þessa. Vedanta byrjar á því að greina venjulega blekkingu frá venjulegri reynsluþekkingu, þá blekkingu sem öllum er augljós. Síðan er þessari greiningu líkt við heimsblekkinguna eða sýnt fram á að hún gerist með sama hætti. Aðferð Vijnanavada er svipuð. Miðleiðarmenn snúa sér hins vegar beint að heimsblekkingunni, eins og hún birtist í ósamþýðanlegum heimspekikerfum og viðhorfum. Þeir snúa sér beint að handanviðleikanum, eins og Kant gerði á sínum tíma. Öll þessi trúarkerfi eru sama sinnis um nauðsyn andlegrar upplýsingar og þjálfunar. Þekkingin er það sem frelsar okkur, annað er aukatriði borið saman við þann stóra sannleik. Mukti, nirvana, satori og annað þess háttar, er allt samsömun við hið algilda.
6.4 AÐFERÐAFRÆÐI.
Það er augljóst, að menn nálgast hið algilda með ólíkum hætti eftir því hvaða trúarkerfi þeir fylgja. Öll algildishyggja afneitar blekkingunni. En mjög er mismunandi, hvað talið er blekking og sömuleiðis er grundvöllur afneitunarinnar, sem miðað er við, mismunandi, þegar horft er til blekkingarinnar. Segja má, að litið sé á tengsl veruleika og blekkingar með ólíkum hætti.
Vedanta og Vijnanavada líta á blekkingu þessa reynsluheims, þ.e. heims fyrirbrigðanna. Heimsblekkingin er þannig eins og breidd yfir veruleikann og er þá gjarnan notuð líkingin um reipið og snákinn.
Vedanta greinir blekkinguna frá sjónarmiði þekkingarinnar. Blekkingin felst, samkvæmt þeirri skilgreiningu, í rangri merkingu, hún felst í því að halda að hlutveruleikinn sé eitthvað annað en hann er, að líta á hann eins og snák, svo haldið sé hinni góðkunnu samlíkingu. En jafnvel þótt við gerum þessi mistök, er álitið að heimur hlutveruleikans sé samt til staðar, burt séð frá þekkingu okkar á honum. Snákurinn er þó blekking hugans.
Vijnanavada greinir blekkinguna frá gagnstæðu sjónarmiði. Þar er hlutveruleikinn eða heimur fyrirbrigðanna álitinn blekking og talið að hann sé ekki til, burt séð frá þekkingu okkar á honum. Vitundin og það sem hún skapar, er álitið veruleikinn. Þegar eitthvað birtist í vitundinni, er því hafnað sem hinum hinsta veruleik, enda talið tilbúningur vitundarinnar. Ásýnd hinnar ytri náttúru er talin sköpun hugans eða vitundarinnar og hin ytri náttúra er yfirleitt ekki talin vera til.
En hvað er það, sem segir okkur, að heimur fyrirbrigðanna sé blekking? Við höfum ekkert fast til að standa á í þeim efnum, eins og við höfum í dæminu um reipið og snákinn. Hvernig er kleift að alhæfa slíkt? Bæði Vedanta og Vijnanavada koma með þekkingafræðilegar skýringar á þessu. Vedanta lýsir því yfir að atman (Brahman) sé hinn hinsti veruleiki og Vijnanavada eða Yogacara vísa til andlegrar reynslu, þegar hlutveruleikinn eða heimur fyrirbrigðanna hefur verið hreinsaður úr vitundinni og hún er orðin hrein og tær. Hér er því um nokkra frumspeki að ræða.
Miðleiðin fer hins vegar öðru vísi að. Sú leið byrjar ekki á blekkingu þessa heims eða heims fyrirbrigðanna, heldur á blekkingu þess viðhorfs að telja, að veruleikinn sé eitthvað. Hún bendir á þverstæður allra viðhorfa og heimspekikerfa. Horft er á viðhorfið til veruleikans, en lítið sinnt um veruleikann sjálfan. Öll viðhorf til veruleikans eru gagnrýnd og öll eru þau talin blekking. Gagnrýnin verður þannig heimspeki Miðleiðarinnar. Í Vedanta eða Vijanavada er gagnrýnin aftur á móti notuð í þágu heimspekinnar.
Hverju er þá neitað, þegar öllu er á botninn hvolft? Ef við segjum “þetta er snákur”, þá afneitum við honum með því að segja “þetta er ekki snákur”. Í Vedanta er orðið “ekki” notað um snákinn, þar er sagt “þetta er ekki snákur”, heldur veruleikinn, sem sýnist ranglega vera snákur. Það að okkur sýnist hann vera snákur er blekkingin. Í Vijnanavada er orðið “ekki” við þetta, þ.e. “snákurinn er ekki þetta”, þar er átt við að snákurinn er ekki þarna úti, ekki sem hlutur óháður vitundinni eða sköpun hennar, heldur hluti af henni.
“Þetta þarna úti” er veruleiki hjá Vedanta og snákurinn, sem tilbúningur vitundarinnar, er blekking. Hjá Vijnanavada er þetta gagnstætt. Þetta þarna úti, óháð vitundinni, er blekking, en snákurinn er veruleiki í þeim skilningi, að hann er framleiðsla vitundarinnar, sem er hinn hinsti veruleiki samkvæmt Vijnanavada. Báðar trúarhefðirnar hafa sameiginleg einkenni. Þær afneita blekkingunni sem ásýnd veruleikans (snáknum í Vedanta og hinum ytra heimi í Vijnanavada). Þau halda öðrum hluta samlokunnar og gera hann að veruleika eða forsendu blekkingarinnar.
Miðleiðin afneitar bæði hinu innra og ytra, hún hafnar bæði heimi hlutveruleikans og snáknum, ef svo mætti segja. Þetta, sem þarna er úti, verður ekki aðskilið frá snáknum, snákurinn verður ekki aðskilinn frá hlutveruleikanum. Þættirnir eru háðir hvor öðrum og það sannar blekkingu þeirra. Hvorki hið huglæga í Vijnanavada né alveran í Vedanta, sem aðgerðarlaus grunnur, er blekkingin hylur, er veruleiki samkvæmt Miðleiðinni. Hvað er þess umkomið að sýna okkur að annað tveggja sé veruleiki, alveran eða vitundin? Ekki blekkingin sem slík. Annað getur ekki án hins verið. Að halda því fram, að eitthvað sérstakt sé veruleiki, er eins konar sleggjudómur. Bæði Vedanta og Vijnanavada gætu bent á, að erfitt sé að útskýra blekkinguna nema staðið sé á einhverjum föstum grunni. Miðleiðin hafnar þeirri skoðun. Vedanta skilgreinir blekkingu út frá sjónarmiði þekkingar og Vijnanavada út frá vilja. Þau velja eina skýringarleið sem hina einu sönnu. Blekkingin sem slík upplýsir ekkert um innri kjarna hlutanna og ekki þýðir að nálgast hann með einhverrri fyrirfram skoðun, því ekkert réttlætir fyrirfram skoðun. Við megum ekki framleiða kenningar um leið og við útskýrum blekkinguna. Þá erum við farin að láta sjálfa blekkinguna, ímyndunaraflið, ráða ferðinni. Það eina sem segja má, að blekkingin sýni, er einmitt að alveran og vitundin eigi hvort undir hinu.
Þegar við sjáum, að alveran annars vegar og vitundin hins vegar eru afstæð, án eigin veruleika eða hinsta veruleika, má segja þrátt fyrir allt, að sú innsýn eða íhugunarvitund sé veruleiki, sem hvort sjónarmiðið um sig birtist í. Því við stöndum utan og ofan við gagnstæðuna. Tveir jafningjar heyja einvígi og falla báðir. Áhorfandinn stendur eftir. Við getum ekki afneitað þeirri vitund sem skynjar gagnstæðuna. Þetta er heimspekilegt viðhorf, sem setur endapunkt á alla heimspeki. Ekki verður bent á neitt tiltekið, en það er þó innsti kjarni hlutanna, hinsti veruleiki, prajna.
Veruleiki Miðleiðarinnar er hin gagnrýna vitund um að veruleikinn er hvorki tilvist, tilvistarleysi, hvorttveggja eða hvorugt. Endurmat viðhorfs er ekki sama og nýtt viðhorf. Það er hvorki eldra viðhorf né nýtt viðhorf. Prajna er utan og ofar hugsun. Veruleikinn er eðlislægur, aðeins endurmetið viðhorf, sem ekki er nýtt viðhorf. Með endurmati viðhorfs er það leyst upp. Miðleiðin er ekki efasemdarstefna (nihilismi), sem afneitar öllum veruleik, heldur fyrst og fremst heimspekilegt viðhorf.
Ef við tökum saman í stuttu máli, það sem ég hefi hér sagt. Brahman er alveran og sem slík hið algilda og aðferð til að nálgast hana er þekkingarleit. Vijnanavada gengur út frá því að hrein og tær vitund, ómenguð af tvíhyggju, sé hið algilda og aðferð til að nálgast það, sé viðleitni með vilja einum saman að vopni. Sunyata Miðleiðarinnar er prajna, innsýn án tvíhyggju og aðferð til að nálgast hana er gagnrýnt viðhorf, heimspekileg endurskoðun. Hið algilda er hin afstöðulausa og innhaldslausa vitund um eðli hlutanna. Auðvitað fela Brahman og Vijnana einnig í sér afstöðulaus og innihaldslaus viðhorf. Ekkert annað er en alveran. Hún verður ekki aðskilin frá neinu eða tengd neinu. Í raun er ekki hægt að tala um hana. Þótt við höldum áfram að tala um alveru, vitund og önnur heiti, þá er öll algildishyggja í raun viðhorf Miðleiðar, sem er ekkert viðhorf. Segja má því, að mismunurinn sé eingöngu í því fólginn, hvernig hin einstöku trúarkerfi nálgast hið algilda. Hægt er að nálgast miðju hrings frá ummáli hans eftir mörgum leiðum.
COPYRIGHT © 2012 LIFSPEKIFELAGID.IS