VI LÖGMÁLIÐ

6.0 KERFIÐ.
6.1 SKYLDAN OG SJÁLFSÁSAKANIR.
6.2 VONSVIK.
6.3 SJÁLFSVIÐURKENNING.

6.0 KERFIÐ.

Tilvist, tilvistarleysi, bæði eða hvorugt eru fjögur möguleg viðhorf. Hvorugt eða bæði er leitt af tilvist og tilvistarleysi, og teljast því raunverulega ekki sérviðhorf. Hvað tekur til tilvistar og tilvistarleysis, má staðhæfa að hvorugt getur komist fyrir í hinu. Þó má segja að í allri játningu felist afneitun, Ef því er til dæmis haldið fram að eitthvað sé ferningur, segi það jafnframt að það sé ekki þríhyrningur. Eins má líta á afneitun sem játningu, því ef við afneitum tilvist hlutar viðurkennum við með því að tilvist hans sé í einhverju formi einhvers staðar. En hvað viðkemur eðli hlutar í sjálfu sér, þá er um að ræða ólík viðhorf, sem ekki geta samrýmst. Játun og afneitun eru tvö ólík viðhorf, eða tvær hliðar á sama peningi, ef svo mætti að orði komast. Þetta er lögmál hugsunar. Í upphafi er ekkert og eitthvað, þ.e. 0 og 1, eins og tölvan grundvallast á. Hugsun felur óhjákvæmilega í sér tvíhyggju, hún hlutar allt niður. Eins og fyrsta fruman skiptir sér, þá hefst barátta andstæðnanna. Með hugsun hefst klofningur og barátta, sem þrotlaust mun halda áfram meðan hugsun er, því skipting er eðli hugsunar.

Ég hefi í fyrri köflum rakið þá þróun, sem fylgir sjálfsímynd okkar og markmiðum. Hvernig við eyðum orku okkar í að upphefja okkur og reynum að þvinga okkur í mót eigin sjálfsímyndar. Við höfum fyrir augum þá mynd og þau markmið, sem við höfum ákveðið að við gætum og ættum að hafa og við gerum okkur mynd af því, hvernig við teljum að við raunverulega séum. Kraftar okkar fara svo í að reyna að ná sjálfsímyndinni og markmiðunum og viðhalda þeim. Til þess að það heppnist gerum við kröfur á aðra og umhverfið, eins og lýst var í 2. þætti. Með skyldum okkar reynum við að gera okkur fullkomin og lýsti ég því í 3. þætti. Við reynum með metnaði okkar að koma okkur fyrir í lífinu í samræmi við mikilfengleik sjálfsímyndarinnar og til að styðja þau markmið, sem við höfum sett okkur, en því var lýst í 4. þætti. Í næsta þætti hér á undan var því lýst hvernig við búum okkur til eigið gildismat, og ákveðum hvað við viðurkennum í okkur, hvað við fegrum og gyllum og eigum að vera stolt af.

En viti menn. Um leið og við ákveðum þetta allt, tökum við jafnframt afstöðu til hverju við eigum að hafna, hvað við eigum að fyrirlíta, skammast okkar fyrir og hata. Annað viðhorfið getur ekki án hins verið. Segja mætti, eins og áður, að um sé að ræða tvær hliðar á sama peningi. Stolt og sjálfshatur eiga alltaf saman. Framsetningin er ein, en ferillinn tvíþættur. Um leið og við ákveðum markmið okkar og sjálfsímynd, fer annar ferill í gang, sem tekinn verður til athugunar í þessum þætti. Í stuttu máli má segja, að þegar áhersluþunginn verður á sjálfsímyndinni, þá upphefjum við okkur ekki aðeins með því, heldur horfum framan í hlutveruleikann, eins og hann er, frá röngu sjónarhorni. Sjálfsímyndin og markmiðin verða hvort tveggja tálsýnir, sem sóst er eftir, og mælistikan, sem við leggjum á okkur og hlutveruleikann. Frá sjónarmiði þessarar mælistiku, komumst við ekki hjá að fyrirlíta okkur meira eða minna. Við förum sjálf að þvælast fyrir okkur í leit að vegsemd eða upphefð með einum eða öðrum hætti. Við snúumst gegn okkur sjálfum og fyrirlítum það sem við erum og hvernig við reynumst og það sem er sýnu verra, við snúumst gegn okkar eigin Sjálfi.

Hve mikið sem við reynum til að móta fullkomleika okkar, er það dæmt til að mistakast. Við getum með ýmsum ráðum fjarlægt óþægilegar staðreyndir úr huga okkar, en þær breytast ekki hót við það. Við sitjum uppi með okkur sjálf, hvort sem við etum, sofum, elskum eða vinnum. Við höldum oft að breyttar kringumstæður verði til úrbóta, til dæmis hjúskaparslit, breyting á starfi, aðsetursskipti, ferðalög o. s. frv., en eftir sem áður sitjum við uppi með okkur sjálf. Orka okkar og tími er afmarkaður, við höfum okkar takmarkanir. Við sitjum alltaf uppi með þennan ókunna vandræðagemsa og við vitum fullvel um allt sem með okkur gerist, þótt það komist ekki til dagvitundarinnar. Veruleikinn þrengir sér inn á okkur, við erum heimskuleg við sum tækifæri, kjarklaus í öðrum tilvikum, erum ekki í réttum holdum og við snúumst gegn þessum ókunna gesti með fyrirlitningu. Þannig verðum við, eins og við erum, að fórnarlambi sjálfs-ímyndarinnar og markmiða okkar.

Með sköpun sjálfsímyndar og markmiða urðum við tvískipt, ýmist hið æskilega, ímyndaða sjálf annars vegar eða hið fyrirlitlega sjálf hins vegar. Hvorugt er raunsjálf okkar, þótt segja megi að það felist á vissan hátt í hinu fyrirlitlega sjálfi. Hið fyrirlitlega sjálf er afleiðing hins æskilega sjálfs eða sjálfsímyndarinnar og markmiða okkar. Með vissum rökum má því segja, að raunsjálfið sé fólgið í hinu fyrirlitlega sjálfi. Raunsjálfið verður ekki skilgreint. Með sama rétti má því segja, að það standi bæði utan hins ímyndaða og hins fyrirlitlega sjálfs. Með hinu ímyndaða sjálfi og hinu fyrirlitlega sjálfi hefst kerfið. Raunsjálfið stendur utan kerfisins. Því mætti líka segja að klofningur sé milli kerfisins og raunsjálfsins. Frá sjónarmiði raunsjálfsins er þó engan klofning að sjá, heldur aðeins blekkingu. Hið ímyndaða sjálf og hið fyrirlitlega sjálf er aðeins blekking.

Við getum sagt, að barátta sé hafin milli raunsjálfsins annars vegar og kerfisins hins vegar, og einnig innan kerfisins, milli hins æskilega sjálfs annars vegar og hins fyrirlitlega sjálfs hins vegar. En meiri átök eru í aðsigi. Eitt markmið kallar á annað markmið. Sjálfsímyndin hefur að geyma ósamþýðanlega hluta. Markmið okkar og sjálfsímynd er hlaðin gagnstæðum markmiðum og mótsögnum. Eitt markmið kallar alltaf á gagnstæðu sína. Persónuleikinn mótast af þeirri sátt og sambúð, sem þessir ósamþýðanlegu þættir eru í á hverjum tíma. Við gerum málamiðlanir og myndum gervilausnir. Við verðum oft vör við þessa árekstra. Hógværð og góðleiki á ekki samleið með metnaði og hefndarsigri. Sjálfstæði og fórnfýsi er erfitt að sætta. Þarna er á ferðinni þriðji stóráreksturinn.

Þessu má líkja við árekstrana í þjóðfélaginu. Þar eru átök milli stjórnmálaflokka vegna ólíkra sjónarmiða, átök milli stjórnar og stjórnarandstöðu. Átökunum milli raunsjálfsins og kerfisins verður naumast líkt við minna en borgarstyrjöld. Sú barátta er algjör, þar er allt lagt að veði og allir taka þátt í. Hún hefur einnig meiri afgerandi þýðingu og átökin milli gagnstæðra afla verða aldrei meiri. Um er að ræða baráttu raunsjálfsins fyrir lífi sínu.

Áður er sagt að með vissum rökum megi líta á raunsjálfið, sem hluta af hinu fyrirlitlega sjálfi. Þetta lýsir sér í því, að raunsjálfið er alltaf bakgrunnur sjálfsfyrirlitningar, þótt hið fyrirlitlega sjálf sé í forgrunni. Hið fyrirlitlega sjálf er á vissan hátt málum blandið, en hatur á raunsjálfinu er oftast skýrt og klárt. Ef við ásökum okkur til dæmis fyrir eigingirni, er oft um tvennt að ræða, bæði ásökun fyrir að vera ekki algerlega óeigingjarn, og þá er óeigingirni markmið, og svo hins vegar hatur á raunsjálfinu. Mörgum reynist erfitt að koma auga á þetta, en um það verður nánar fjallað síðar. Við höfum ekki fyrirlitningu á okkur, af því að við séum einskis verð, heldur af því að við erum að þvinga okkur til að ná handan við okkur og förum í ranga átt. Með því upphefst löng og miskunnarlaus barátta.

Sjálfshatur og sjálfsfyrirlitning hafa sterk tök á okkur og eru fastheldin. Barátta innan kerfisins er tilgangslaus og með öllu ófrjó. Viðleitnin er að ná sjálfsímyndinni og markmiðunum eða gera sig heilsteyptan með því að útrýma ósamþýðanlegum þáttum í persónuleikanum.

Ætla mætti, að menn vildu gjarnan vera lausir við sjálfshatur og sjálfsfyrirlitningu, en svo er ekki alltaf. Viðbrögðin geta verið óákveðin. Þótt okkur finnist sjálfsásakanir og sjálfsfyrirlitning hræðileg byrði, virðist okkur oft áhættusamt að rísa gegn henni. Við teljum hina háu staðla nauðsynlega til að halda okkur við efnið. Við óttumst það að verða hættulega léttúðug, ef við sýnum sjálfi okkar meira umburðarlyndi og samúð. Við höldum að við eigum sjálfshatrið skilið. Við getum oft ekki viðurkennt okkur sjálf með öðrum skilmálum en hinum háu stöðlum, sem við höfum sett okkur.

Enn einn þátturinn gerir sjálfshatrið sjálfvirkt. Hann er fólginn í þeirri staðreynd, að við erum svo fjarlæg sjálfi okkar. Við höfum oft litla tilfinningu fyrir sjálfi okkar. T. d. verðum við að fá einhverja tilfinningu fyrir þjáningu okkar og samúð með henni til þess að við áttum okkur á því, að heppilegra er að gera eitthvað jákvætt í málum okkar en að berja á okkur.

Flestir verða varir við sjálfsásakanir sínar og finna til sjálfsfyrirlitningar á vissum augnablikum, en fáir átta sig á því hversu mikið og varanlegt þetta ok er. Sumir frjósa fastir í eigin réttlætingu og finna því aldrei til sjálfsásakana. Hjá öðrum er þetta gagnstætt og þeir velta sér upp úr sekt sinni og afsaka sjálfan sig. Þrátt fyrir þetta finna fæstir, hversu sjálfsásakanir og sjálfsfyrirlitning hefur mikil tök á þeim. Enn færri átta sig á tilgangsleysi þeirra. Eins og áður sagði, þá álita margir að sjálfsásakanir þeirra sanni háa siðferðisstaðla. Ekki er heldur hægt að vefengja gildi þeirra meðan við dæmum okkur frá sjónarmiði fullkomnunar eða hinna háu siðferðisstaðla, sem við setjum okkur. Margir verða varir við afleiðingar sjálfsfyrirlitningar og sjálfshaturs, er þeir finna til sektarkenndar, minnimáttarkenndar, og ýmislegs annars. Aðrir fela allt slíkt undir stolti, meðal annars með því að vera ósíngjarnir, fórnfúsir og þrælar skyldunnar.

Við vitum almennt lítið um sjálfsfyrirlitningu okkar og sjálfshatur og teljum okkur oft hagkvæmast að vita sem minnst um það. Við útvörpum því, ef svo má að orði komast, beinum því að öðrum eða teljum það koma frá öðrum. Við beinum að okkur sjálfum reiði og hatri með svipuðum hætti og það gerist milli manna. Hvort sem við álítum raunsjálfið felast í hinu fyrirlitlega sjálfi eða vera utan við það, getum við vafalaust ekki gert okkur vonir um að nálgast það nema hið innra stríð sé aflagt. Við eygjum jafnvel ekki raunsjálfið meðan átökin standa yfir. Grundvallarskilyrði þess að öðlast sjálfan sig er að uppræta sjálfsásakanir, sjálfsfyrirlitningu og sjálfshatur. Skal nú vikið að einstökum þáttum þessarar baráttu.

6.1 SKYLDAN OG SJÁLFSÁSAKANIR.

“Hann gerir miklar kröfur á sjálfan sig”, heyrist ekki ósjaldan sagt, og það þykir hrósvert viðhorf. Við reynum að þvinga okkur til að verða eigin sjálfsímynd eða til að ná lífsmarkmiðum okkar. Við íklæðumst skyldu, eins og ég lýsti í þriðja erindi og okkur líður illa, ef við uppfyllum þær ekki. Við klæðumst eins konar skyldukerfi. Ein ástæða þess, að við kappkostum að uppfylla þessar skyldur, er einmitt sú, að við snúum ella harkalega gegn sjálfum okkur. Skyldan ákvarðast því engu minna af sjálfshatri en stolti. “Annað hvort uppfyllir þú skyldur þínar eða þú ert auvirðilegur”, er ekki óalgengt innra viðhorf sumra. Skyldurnar setja okkur í spennitreyju og ræna okkur innra frelsi. Jafnvel þótt okkur takist að ná fullkomnu hegðunarmynstri, er það alltaf á kostnað hins ósvikna, m. a. sjálfsprottinna tilfinninga og viðhorfa, sem orsakast af innri öflum, en eru ekki utanaðkomandi. Skyldunni er ætlað að útrýma sjálfinu ekki ósvipað og einstaklings-framtakinu er útrýmt í lögregluríki.

Skyldurnar eru skaðlegar og eyðileggjandi í eðli sínu. “Ég ætti að þola allt, sem mér er gert og aldrei að stökkva upp á nef mér”. “Ég ætti að fórna öllu fyrir umhyggju og velvild”. Þetta er ekki óalgeng afstaða, t. d. maka í hjónabandi. Sumir þurfa að leysa allra vandamál eða bera ábyrgð á öllu. Ef eitthvað misjafnt hendir, er það þeim að kenna. Ef einhver er óánægður, birtist sektarkenndin. Þessum viðhorfum er stöðugt verið að lýsa í óteljandi skáldsögum. Gefst ekki rúm að rekja þau hér.

Eins og ég hefi oft tekið fram, þá snúumst við harkalega gegn okkur, ef við uppfyllum ekki skyldur okkar. Oftast verðum við vör við þetta, er við ásökum okkur sjálf. En stundum er þetta ekki ljóst. Við verðum þá bara þreytt, svefnlaus, pirruð, í slæmu skapi o. s. frv. Við getum orðið æst og okkur finnst aðrir ósanngjarnir, að þeir misbjóði okkur eða misnoti. Við gerum stundum tilefnislaust, að því er virðist, miklar kröfur á umhverfið eða verðum sólgin í mat eða ást, svo dæmi séu tekin. Mikilvægt er að reyna að átta sig á þessu.

Sumir uppfylla skyldur sínar í ímyndun sinni, en þeim finnst þá gjarnan undir niðri, að þeir séu á hálum ís, sem þeir eru reyndar. Með því að horfast ekki í augu við sannleikann, forðast þeir þann hrylling, sem fólginn í því fyrir þá að sjá hann. Aðrir sljóvga vitund sína, svo þeir veita þessu ekki athygli. Enn öðrum finnst allt koma utan frá. Lífið einkennist þá af ytri þrýstingi og togstreitu, því skyldunni er útvarpað.

Skyldan veldur tvöfeldni. Þjóðfélagstvöfeldni er auðsæ öllum, en þegar um er að ræða innra fals, þá blekkja menn sig gjarnan ómeðvitað. Með því að uppfylla skylduna komast menn hjá því að horfast í augu við sjálfsásakanir, en sannleikanum er spillt og raunsjálfið er flúið. Markmiðin ákvarðast af ótta við sjálfsásakanir. Við myndum ekki ásaka okkur, værum við jafn ofurmannleg og við kysum sjálf.

Ég hefi hér oft nefnt sjálfsásakanir, en þær eru óhjákvæmilegar, ef við náum ekki hinum algildu markmiðum, sem við setjum okkur. Við viljum til dæmis vera óttalaus, örlát, hafa óbilandi vilja, fullkomna sjálfsstjórn o. s. frv. Ef þetta tekst ekki, kemur dómurinn: “Þú ert sekur fundinn”.

Oft snúumst við gegn sjálfum okkur, ef við eigum við innri erfiðleika að etja. Okkur sýnist það eðlilegt, þótt um blekkingu sé að ræða. Okkur finnst, sem við eigum ásakanirnar skilið og þær eiginlega vera sönnun um háa siðferðislega og andlega staðla okkar. Við spyrjum þá ekki, hvort við hefðum getað gert öðru vísi. Var mögulegt að hafa aðrar tilfinningar eða hugsa öðru vísi, er við misstigum okkur? Vandamálið er fordæmt, en ekki tekið til skoðunar. Við vorum e.t.v. uppstökk við ákveðið tækifæri, eða brugðumst of vinsamlega við þegar verið var að traðka á okkur. Við höfum ekki gætt hagsmuna okkar eða skoðana á réttu augnabliki. Málið er ekki skoðað nánar. Öflin sem í okkur búa og lágu að baki eru ekki skoðuð. Í stað þess að athuga alvarlega, til dæmis hvað orsakaði það að við vorum of vinsamleg, skömmum við okkur fyrir heigulshátt og kjarkleysi. Slík sjálfsskoðun gerir málið verra og leiðir aðeins til meira “kjarkleysis” í næsta skipti. Sama gildir um viljastyrk. Í stað þess að sýna sjálfum sér samúð og rannsaka málið, koma sjálfsásakanir.

Við ásökum okkur oft fyrir leti í stað þess að rannsaka hömlur eða orsök áhugaleysis. Sumum finnst þeir vera sýndarmenni eða óheiðarlegir eða finna til óánægjutilfinningar í þessa átt. Og vissulega á slík tilfinning sér skýringar. Í stað þess að grafast fyrir um rætur vandans er reynt að halda “andlitinu”, ef svo má að orði komast. Sektarkenndin kemur í veg fyrir sjálfsskoðun, sem ein gæti aflétt sýndarmennskunni og óheiðarleikanum og þar með upprætt sektarkenndina.

Sumar sjálfsásakanir beinast að innri hvötum okkar eða áhugahvötum. Þetta er blekkjandi, því að slíkar sjálfsásakanir virðast vera samviskusamleg sjálfsskoðun. Stundum er sjálfsgagnrýni einhliða í fyrirrúmi, en ekki sjálfsskoðun, þótt hvoru tveggja sé stundum á ferðinni. Þetta er oft villandi, því hvatir okkar og markmið eru sjaldan skíragull. Aðrir ódýrari málmar eru þar oft til staðar. En við köllum það gull, sem er gull að meirihluta til og við skulum vera ánægð með það. Ef við t. d. veitum öðrum ráð, eins og ég er að gera hér, er það fyrst og fremst vinsamlegur ásetningur að veita öðrum, svo þeir hafi gagn af. En ég get líka sagt: “Ég nenni nú varla að gera þetta.” “Ég er nú aðallega að gera þetta fyrir sjálfan mig.” “Kannski vil ég hafa áhrif á aðra.” “Kannski vil ég sýna visku mína og þekkingu.” “Kannski vil ég ganga í augun á öðrum og vera í áliti hjá þeim.” “Kannski vil ég sýna yfirburði”. “Kannski er ég að hjálpa til við að leysa annarra vandamál, af því að ég get ekki leyst mín eigin”. “Kannski er ég að eigna mér annarra skrif?” Svona mætti lengi telja. En ég get líka sagt: “Segjum að eitthvað sé til í þessu, er þá ekki mest um vert að koma þekkingunni á framfæri og vera hjálplegur, til að aðrir hafi gagn af og geti þar með betur hjálpað sjálfum sér?” Við verðum að sjá skóginn fyrir trjánum. Þetta er ekki sagt sem huggun eða til að fullvissa sig, heldur talað frá jákvæðu sjónarhorni.

Þetta er sagt til að sýna, hve erfitt er að komast hjá sjálfsásökunum. Við dæmum stöðuna venjulega ekki í heild sinni. Við einblínum á viss viðhorf, einkum þau sem tilheyra sjálfsímynd okkar og markmiðum, og kveðum svo upp stóradóm. Af því að við erum ekki algerlega hjálpleg, heiðarleg o. s. frv., þá skömmum við sjálf okkur og heimilisfriðurinn á okkar innra heimili er úti. Við kveðjum sjálf okkar og höldum í átt til vítis.

Oft er sjálfsásökunum beint að hlutum, sem eru utan valdsviðs okkar. Menn ásaka sig ef til vill um kæruleysi, fyrir að hafa ekki gert viðeigandi ráðstafanir o. s. frv. Þetta kann að virðast einkennilegt, því venjulega afsaka menn sig með utanaðkomandi aðstæðum. “Ég gerði allt rétt, en aðrir, óheppni eða kringumstæðurnar komu í veg fyrir árangur”. En í báðum tilvikum er horft út og ytri kringumstæður gerðar ábyrgar fyrir árangursleysi. Með því er hægt að milda sjálfsásakanir fyrir að vera ekki eigin sjálfsímynd eða ná ekki markmiðum. Í stað þess að ráðast á vandann, er gripið til sjálfsásakana. Farið er gætilega með eigin vanda, en ábyrgðinni skellt á umhverfið. En með þessu losna menn samt sem áður ekki við sjálfsásakanir, einkum af því að mönnum finnst ytri kringumstæður ekki utan valdsviðs síns.

Oftast finna menn ástæðu fyrir sjálfsásökunum, en stundum dugir það ekki til, þeir losna ekki við þær þrátt fyrir það. Slíkir menn ásaka sig stöðugt af því að þeir hata sjálfa sig. Ein sjálfsásökunin kemur þá á eftir annarri. T. d. ásaka þeir sig annars vegar fyrir skapstyggð og hefnigirni hins vegar fyrir hugleysi, undirlægjuhátt og aumingjaskap. Stutt er þá í ofsóknarbrjálæði. Skáldsagan “Réttarhöldin” eftir Kafka, er nánast kennslubók í þessum viðhorfum.

Þegar um er að ræða sjálfsásakanir fyrir sárameinlausa og eðlilega og jafnvel æskilega hluti, eins og að kalla það sjálfsdekur að sýna sjálfum sér rækt, að kalla það matargræðgi að njóta góðs matar o. s. frv., þá skyldu menn athuga sinn gang. Sérstaklega er þetta hættulegt, ef menn álíta eigin óskir, eigingirni eða framsetningu eigin skoðana framhleypni. Hér er oft verið að vega að raunsjálfinu án þess að menn geri sér grein fyrir því. Slík viðhorf geta staðið í vegi fyrir þroska.

Af því að sjálfsásakanir eru sársaukafullar og þungbærar er beitt allra bragða til að forðast þær. Menn snúast til varnar og ásaka aðra eða kringumstæður með einum eða öðrum hætti. Þörfin fyrir að verjast sjálfsásökunum kemur þá í veg fyrir jákvæða sjálfsgagnrýni og veldur því að menn læra ekki af eigin mistökum.

Hin eina sanna samviska, er samviska raunsjálfsins. Sú samviska á ekkert skylt við sjálfsásakanir og við uppgötvum hana ekki meðan við ásökum okkur sjálf. Sú samviska sér allt í heild sinni og er laus við allt ego. Hin venjulega samviska er allt annars eðlis. Hún er ekkert annað en óánægja hins stolta egos með það að ekki er uppfyllt þess eigin sjálfsímynd og markmið. Slík samviska snýst ekki til varnar raunsjálfinu, heldur snýst hún venjulega gegn því og ætlar sér að koma því fyrir kattarnef.

Sá órói sem kemur frá samvisku raunsjálfsins er jákvæður og vekur forvitni okkar og vilja til þroska. Samviska raunsjálfsins skoðar málið í heild sinni. Hún er vinsamleg og full af styrk. Við sjáum þá mistökin án þess að gera mikið eða lítið úr þeim, án sjálfsásakana og við fáum löngun til að sjá sannleikann, hvað veldur og leysa málið. Sjálfsásakanir aftur á móti dæma persónuleikann norður og niður og síðan er málið afgreitt. Ekkert jákvætt gerist. Það sýnir einmitt tilgangsleysi sjálfsásakana. Samviska raunsjálfsins þjónar þroskaviðleitni okkar. Sjálfsásakanir eru meira og minna siðlausar að uppruna og eðli og valda því að aldrei gerist neitt í málinu. Því er varla hægt að kalla þær “samvisku.”

6.2 VONSVIK.

Við megum ekki gleyma heilbrigðri sjálfsögun. Eðlilegt skipulag í lífsháttum er nauðsynlegt. Við forðumst vissar athafnir og látum ekki allt eftir okkur. En af hverju gerum við það. Jú, við teljum rétt að fórna ýmsu góðlæti fyrir stærri markmið. Við gerum okkur forgangsröð í gildismati og fórnum minni hagsmunum fyrir meiri. Við spörum við okkur til að eiga nóg til heimilisins. Við stundum hugleiðslu í stað skemmtana o. s. frv. En til þess að vera viss um að við séum að fórna réttum gæðum, þá verður okkur að vera ljós raunveruleg markmið okkar. Við fórnum ekki minni hagsmunum fyrir meiri nema að við vitum, hverjir þessir meiri hagsmunir eru. En oft eru þessi stærri markmið hulin. Óskir okkar verða meira og minna jafnmikilvægar. Við sjáum, eins og áður sagði, ekki skóginn fyrir trjánum. Heilbrigð sjálfsögun verður þá oft fjarlægt markmið. Okkur er stundum ekki ljóst, hvort við erum að afsala okkur einhverju af frjálsum vilja eða hvort við erum beinlínis aðeins að hrella okkur eða refsa.

Við getum í raun sífellt verið vonsvikin og mædd án þess að gera okkur það ljóst. Hugarflækjan og flóttinn frá Sjálfi okkar kemur í veg fyrir, að við njótum getu okkar og kosta. Vegna sjálfsímyndar og markmiða gerum við óeðlilegar kröfur á umheiminn, sem aftur veldur okkur vonbrigðum. Mikil þörf fyrir ást, velvild, stuðning og samúð hefur í raun þau áhrif að rauntilfinningar, sem koma frá Sjálfinu, verða ekki tjáðar. Segja má, að um óbeina afleiðingu sé að ræða. Harðstjórn skyldunnar er armæða eða ami, þar sem við höfum ekki lengur frjálst val. Sjálfsásakanir koma í veg fyrir sjálfstraust og sjálfsfyrirlitning kemur í veg fyrir sjálfsvirðingu.

En hér kemur margt fleira til. Við ásetjum okkur beinlínis að áreita okkur sjálf og skaprauna. Hér á ég við, að stundum spillum við sjálf öllum vonum og allri viðleitni okkar og komum í veg fyrir að við njótum þess, sem okkur stendur til boða.

Með því að meina sjálfum okkur að njóta lífsins, þá erum við að koma í veg fyrir, að við gerum það sem okkur er sjálfum til hagsbóta, eykur lífsgæðin eða er í þágu sjálfra okkar. Við skyldum gæta okkar, þegar við segjum, að við eigum ekki eitthvað skilið, svo dæmi sé tekið. Einnig þegar okkur finnst, sem við eigum ekki rétt á einhverju. Við ásökum okkur fyrir leti og neitum að hvílast eða við viljum ekki láta eftir okkur ánægjulega hluti eða við njótum þeirra með sektarkennd. Ef einhver hefur drauma í þá átt, að hann missi af lest, fái ekki notið ástar, komist ekki á áfangastað eða aðrir svipti hann ánægju, er kjörið tækifæri fyrir viðkomandi að athuga þessi viðhorf.

Stundum eru þessi viðhorf frávörpuð og felast þá undir þjóðfélagsábyrgð. Ekki má þá njóta einhvers meðan aðrir þurfa að þjást. En stundum kemur þetta fram í hömlum. Til dæmis geta sumir ekki notið hluta, eins og tónlistar, nema með öðrum. Vissulega eykur slíkt á ánægjuna, en sumir geta ekki notið hennar einir, þeir verða að vera með öðrum. Sumir eru nískir gagnvart eyðslu á sjálfan sig, en geta verið örlátir á aðra. Þarna kemur sjálfsmyndin til skjalanna. Fyrir hana er þrælað, en það sem aðeins stuðlar að eigin hamingju og þroska er forboðið. Þetta getur gengið svo langt, að láti menn eitthvað eftir sér, þá finnst þeim, eins og þeim verði refsað fyrir það eða komið verði í veg fyrir að þeir njóti hlutanna.

Glöggt vitni um það hvernig menn brjóta niður eigin vonir, er þegar þeir telja sig aldrei geta náð einhverju markmiði, t.d. í eigin þroskaleit. Þeir muni aldrei verða frjálsir, sigrast á vissum einkennum, eins og drykkjuskap, svefnleysi, ofáti o. s. frv. Eða þeim finnst útilokað, að þeir komist lengra. Algeng er afturför hjá mönnum eftir ákveðnar framfarir. Þessi afturför er venjulega skammlíf. Hún veldur því þó oft, að menn missa kjarkinn og verða niðurdregnir. Við þolum stundum ekki miklar framfarir í einu. Við getum t.d. uppgötvað hæfileika í okkur, en verðum óttaslegin. Oft stafar þetta af því, að við lítum til algerra markmiða. Ef t. d. markmiðið er frelsi og okkur tekst ekki að verða algerlega frjáls, þá snúumst við gegn okkur og segjum: “Þú kemst ekki langt, þetta er til einskis”. Hin algeru markmið halda okkur þannig niðri.

Að lokum er rétt að nefna bann við viðleitni, en það er algengara en menn ætla. Hér er átt við bann við að ná háleitum markmiðum og hvers konar viðleitni okkar til þroska eða nota það, sem í okkur býr. Við leyfum okkur þá ekki að njóta hæfileika okkar og getu eða njóta árangurs í þeim efnum. Margir þora ekki að steypa sér út í ný viðfangsefni. Menn flýja þá þjóðfélagsstörfin, vænta einskis af lífinu og setja sér lág markmið. Þeir lifa neðan við getu sína og andleg efni. Oft er þessum viðhorfum frávarpað. Ef það væri ekki konan, peningar, starfið, veðrið eða stjórnmálaástandið, þá væri allt í lagi. Oft eru þessi atriði mikilvæg, en við skyldum alltaf rannsaka að hve miklu leyti svo er og að hve miklu leyti við færum innri vandamál til hins ytra. Þá verðum við oft rólegri, þótt ytri aðstæður hafi ekki breyst.

Ég minntist áður á skáldsöguna Réttarhöldin eftir Kafka. Þar segir frá manni, er kemur að dyrum lögmálsins og biður dyravörðinn um inngöngu. Dyravörðurinn segist ekki geta hleypt manninum inn að svo stöddu. Þótt lögmálsdyrnar standi opnar, telur maðurinn að betra sé að bíða, þar til hann fær leyfi til að fara inn. Hann sest því niður og bíður í daga, mánuði og ár. Hann biður aftur og aftur um, að sér sé hleypt inn, en fær alltaf sama svarið, þ. e. að enn sé ekki hægt að leyfa honum inngöngu. Meðan þessi langa bið líður, skoðar maðurinn dyravörðinn stöðugt, svo að hann jafnvel ber kennsl á flærnar í loðfrakka hans. Að því kemur, að maðurinn eldist og nálgast dauðann. Þá spyr hann í fyrsta skipti: “hvað kemur til, að enginn annar en ég hefir í öll þessi ár beiðst inngöngu?” Dyravörðurinn svarar þá: “Enginn annar en þú gat fengið inngöngu um þessar dyr, því þessar dyr voru ætlaðar þér. Nú loka ég þeim”.

Þessi saga lýsir hinni möglunarlausu, aðgerðaralausu og óvirku von, sem bíður framtíðarinnar. Maðurinn átti auðvitað að hafa hugrekki til að virða dyravörðinn að vettugi og frelsa sig sjálfan jafnframt. Margir bíða og vona. Þeim er ekki gefið að sýna eigið frumkvæði, þeir bíða eftir grænu ljósi. Ekkert á að gerast núna, heldur í framtíðinni. Ég ræddi um það í öðrum þætti, að í staðinn fyrir aðgerðir hér og nú, kemur framtíðin með sínar vonir. Þar sem framtíðin uppfyllir vonirnar, án þess að neitt þurfi að aðhafast, verður hún eins konar tylliafsökun.

6.3 SJÁLFSVIÐURKENNING.

Viðurkenning er staðfesting. Sérhverri hugmynd er í grundvallaratriðum beint að viðurkenningu. Eins er með sjálfsviðurkenningu, hún er forsenda innri þroska. Það sem ekki er viðurkennt, verður ekki þolað, hjálpað né þroskað. Skortur á viðurkenningu veldur áhugaleysi og skeytingaleysi, neikvæðum viðhorfum eða uppreisn gegn því, sem ekki er viðurkennt. Viðurkenningarskortur kemur í veg fyrir frumkvæði og löngun til að veita því umhyggju, sem þarf að vaxa og þroskast, sérstaklega ef það er veikburða og þarfnast aðhlynningar og umhyggju. Sérhver höfnun eða afneitun á sjálfum sér er tengd viðurkenningu að því leyti, að um er að ræða neikvæða staðfestingu.

Um leið og við setjum okkur í þá stöðu að viðurkenna okkur eða hafna, höfum við skapað tvíhyggju, sem öll hugsun reyndar felur í sér og ekki er auðvelt að sleppa frá. Við ýmist upphefjum okkur og gyllum eða við dæmum okkur og fyrirlítum. Í upphafi er þessi tvíhyggja ekki, en hún kemur með hugsun. Því eru þeir verst settir, sem mest hugsa. “There is nothing either good or bad, but thinking makes it so”, sagði Shakespeare.

Við þráum að skynja veruleikann og við þráum heilleikann og eininguna. Við erum ekki með eða móti rökkri, fullt tungl er hvorki gott né vont, barnið grætur ekki af því að það er gott eða vont, fallegt eða ljótt, né vegna heimildar til þess að gráta. Fuglinn flýgur ekki til að sýna fiðrildinu yfirburði sína. Tré eru hvorki góð eða slæm. Þau eru aðeins í eðlilegu samræmi við náttúruna.

Allt í náttúrunni er eðlilegt. Veruleikinn er eðlilegur. Allt eðli og öll tilvist okkar samanstendur af góðum, illum eða hlutlausum viðhorfum. Ef við værum í samræmi við eðli okkar, væri þroski okkar ekkert vandamál. Vandamálið stafar af því að við afrækjum eðli okkar og förum villur vegar. Það gerðum við upphaflega þegar við yfirgáfum aldingarðinn, hið eðlilega og heila. Öll viðleitnin gengur því í þá átt að komast til hins upprunalega.

Það sem skilur á milli manns og dýrs, er að maðurinn hugsar og býr yfir þekkingu. Hann þarf að bregðast við hættum, sem dýrin þekkja líklega ekki, eins og einsemd, smæð og að lokum dauðann. Allt er þetta óbreytilegt og óhjákvæmilegt, en erfitt að viðurkenna. Ef maðurinn ætlar að lifa í friði, verður hann að læra að bregðast við þessu. Það getur hann aðeins með því að viðurkenna.

Nota má tvíhyggjuna sjálfa í þessu sambandi eða það, að staðfesta mótsögnina. Ef það er leiðinlegt og vont að deyja, hlýtur að vera skemmtilegt og gott að lifa. Ef dauðinn er hryllingur, hlýtur lífið að vera blessun. Með þessu er horft á hið jákvæða og uppbyggilega. Sama gildir um einmanaleik. Sérhver vera er ein, þegar til kastanna kemur. Ég minnist erindis, þar sem Sigvaldi Hjálmarsson benti á hina sameiginlegu einsemd, einmitt til að leggja áherslu á hina jákvæðu hlið málsins. En þegar við horfum til þess, að við erum öll svo til nákvæmlega eins, þá tengjumst við saman. Einsemdin verður samkennd.

Þegar við lítum út og sjáum víðáttuna og hjálparleysi okkar, getum við hugsað um sérstæði okkar, því þótt við séum eins, erum við líka einstæð, hvert um sig. Okkur eru gefin þau forréttindi og veitt sú ábyrgð að hafa sjálfstætt líf og það gefur okkur styrk.

Með því að meðtaka þennan ótta og þessar hættur, finnum við gæði lífsins. Við sættum okkur við veruleikann eða sannleikann í stað þess að standa í stríði við hann eða berjast við vindmillur. Það hjálpar okkur til að nota lífshlaupið sem möguleika, sem að vísu er ekki okkar að eilífu heldur tímabundið. Það sættir okkur við hið mannlega og veitir hugrekki til að taka áhættu, til að þola, þjást og gleðjast.