Verkefnaval

Lífspekifélagið er sérstætt að því leyti að það er grundvallað á spurningum en ekki svörum; þeir sem í það ganga sameinast um leit en ekki eitthvað sem búið er að finna.

Þegar slík grein er gerð fyrir félaginu þá kemur fyrir að glöggir menn spyrja: Hvernig er hægt að tryggja að starfsemi slíks félags verði hnitmiðuð en ekki fálmkennd, hvernig er farið að því að velja verkefni fyrir fundi og fræðslu?

Á það má benda að spurningar segja meira til um áhuga en svör. Spurning er alltaf knýjandi, svar er eitthvað sem er búið, henni fylgir vökul leit, því oftast lognmolla. En að því leyti á þessi spurning rétt á sér að fólk er almennt óvant því að hugsa um starfsemi sem er ekki bindandi, heldur algerlega frjáls. Í flestöll félög safnast menn vegna þess að þeir þykjast vita, ekki vegna þess að þeir standa höggdofa frammi fyrir voldugum spurningum. Þannig er að minnsta kosti um stjórnmálaflokka og trúfélög og flest menningarfélög líka.

En val á verkefnum fyrir starfsemi Lífspekifélagsins er ekki flókið mál. Stefnuskrá félagsins er leiðarsteinninn: að kynna sér trúarbrögð, heimspeki og vísindi og kanna þau öfl sem kunna að leynast með manninum. Ef við svo setjum efni fyrsta stefnuskráaratriðsins, um bræðralag manna, saman við þetta þá kemur verkefnavalið greinilega í ljós: Allt sem snýr að sambúð manna innbyrðis, svo og skiptum þeirra við aðrar lífverur, er talið merkilegt til athugunar, einkum kannski hvers vegna sú sambúð er svona erfið. Þar af leiðir aftur að lífspekifélagar vilja rannsaka manninn til að finna, ef unnt er, leiðir til lausnar á vandamálum hans, og þar með er bent á meginfarveginn í lífspekilegu námi; ekki aðeins að athuga mannleg viðfangsefni fræðilega, heldur líka þetta hversu þau koma að notum í lífinu. Það dugir manninum ef til vill ekki að reyna að finna ný svör við gömlum spurningum, kannski þarf að gera gangskör að því að finna algerlega nýjar spurningar, leita algerlega á nýjum stöðum, í öðrum áttum, í öðrum víddum reynslunnar.

Mystísk fræði gegnum aldirnar, austræn og vestræn, hafa löngum verið veigamikill þáttur í námi lífspekifélaga. Þar er leitað inná það svið hvort maðurinn þurfi endilega að vera eins og hann er. Er ekki mögulegt að breyta manninum úr því það dugir skammt að breyta skilyrðum hans? Til eru menn sem virðast öðruvísi en aðrir, ekki aðeins betri menn heldur en við venjulegt fólk, heldur miklum mun göfugri en við af því þeir upplifa það að vera til miklu skýrara og raunar allt öðru vísi en við. Mannleg vandamál virðast ekki hrína á þeim; það er eins og heildar-veruleiki mannkyns starfi í gegnum þá.

Einnig eru dæmi um óskaplega miklu voldugri hæfileika en við venjulegir menn erum gæddir. Dæmi er um menn sem virðast geta gert það sem venjulega er kallað kraftaverk, og mýmörg dæmi eru um menn sem sjá umhverfið allt öðruvísi en við, menn sem á íslensku eru kallaðir skyggnir.

Er ekki þess virði að athuga undantekningarnar? Geta þær ekki verið enn merkilegri en reglan? Einhvern tíma í fyrndinni hefur maðurinn verið undantekningin í náttúrunni. Allt nýtt er fyrst undantekning. Má því ekki segja að með því að athuga undantekningarnar séum við að leita í útjöðrum hinna þekktu möguleika, því hið nýja er víst sjaldnast áframhald af því gamla, það er umbreyting eða stökkbreyting frá því sem áður ríkti?

Hin vanabundna fræðistarfsemi manna vill ekkert af undantekningunni vita fremur en kirkjuyfirvöld á miðöldum sem virtust vilja áhveða sannleikann eftir geðþótta sínum einvörðungu. Þannig eru vísindi nútímans í hugum margra vísindalærðra manna – að vísu ekki réttrúnaður, heldur ákveðin réttskoðun, og það sem ekki samrýmist henni er ekki til!

Þess vegna hefur ekki fengist fé til rannsókna á sumum fyrirbærum lífsins því fjármagnið í heiminum snobbar fyrir viðurkenndum vísindum. Það er alveg nú á síðustu áratugum sem dulsálarfræðilegar rannsóknir hafa hlotið sæmilega viðurkenningu. Samt er hún hlutlæg vísindi. En hver segir að allt megi kanna með þeirri aðferð? Getur ekki margt verið til í lífi manna og tilveru sem þarf algerlega nýjar aðferðir til að kanna?

Fyrir þær sakir að Lífspekifélagið stefnir að hagnýtum athugunum eru gefnar leiðbeiningar um hugrækt. Hugleiðing er aðferð til að að kynnast sjálfum sér beint. Í henni er ekki fólgið að venja sig hugrænt með sérstökum hætti, heldur skoða sjálfan sig, hafa vitund um sjálfan sig – eða þetta furðulega sjálfmeðvitaða djúp sem ríkir í hverjum manni. Hatha yoga er á sömu grein.

Og sakir áhuga okkar á mannlífinu í heild höfum við stofnað félag sem nær yfir allt mannkyn. Nýr félagi gengur beint í heimsfélagið, eins og oft hefur verið fram tekið. Með því er undirstrikuð sú skoðun að mannkynið sé allt ein heild.

Það er því ekki nokkur vandi að velja verkefni fyrir Lífspekifélagið, deildir þess og stúkur. Og ef einhverjum dytti eitthvað nýtt í hug sem vel þjónar grundvallarmeiningum félagsins eins og hún kemur fram í stefnuskránni þá er þakkar vert að hann komi því á framfæri. Við þurfum að láta félagið breytast með mannkyninu, því það er til orðið vegna mannkynsins.

SH

© Lífspekifélagið