Vakandi athygli og líðandi stund

Leið athyglinnar sem Búdda útlistaði svo nákvæmlega fyrir lærisveinum sínum gerir ráð fyrir að tekinn sé frá ákveðinn tími á dag til að rækta  huga sinn með kerfisbundnum hætti. En fyrir okkur, önnum kafið nútímafólk sem stendur margháttuð afþreying til boða heima í stofu, reynist það oft þrautin þyngri að taka frá tíma í “að gera ekki neitt” eins og sumum finnst formleg hugleiðsla vera.

Þess vegna er gott til þess að vita að fleiri leiðir eru að markinu. Markinu sem er líka leiðin: Að efla núvitund og vakandi athygli (mindfulness), vera oftar “til staðar” heilshugar á andartakinu sem er að líða.

Það er athyglivert að margir hugsuðir hafa lagt mikla áherslu á það að vera í núinu.  Andartakið sem er að líða einmitt núna er raunveruleikinn. Líf þitt er hin líðandi stund. Þetta erum við minnt á aftur og aftur en margur önnum kafinn Vesturlandabúinn hristir höfuðið og spyr: Í hvaða heimi lifir sá sem þannig talar? Líðandi stund er ekki raunveruleikinn. Verkefnið sem ég þarf að skila í næstu viku er minn raunveruleiki. Skuldin sem ég þarf að greiða um mánaðamótin er enn naprari veruleiki svo ekki sé talað um ósættið í fjölskyldunni sem er ekki enn  til lykta leitt. Þetta tal um að lífið sé líðandi stund – er það nokkuð annað en veruleikafirring  þeirra sem vita ekki hvað lífið er – þeirra sem eyða ævi sinni á vernduðum vinnustað innan klausturmúra eða horfa á lífið gegnum rósrauð, kringlótt hippagleraugu sem eru löngu komin úr tísku  eins og dönskusletturnar?

Stutta svarið við spurningum efasemdarmannsins er: Þú verður hamingjusamari með því að upplifa fleiri stundir sem veruleika hér og nú í stað þess að vera annars hugar, niðursokkinn í eftirsjá eða áhyggjur á meðan lífið – og stundin fer fram hjá þér.

Sú stund kemur aldrei aftur sem einu sinni var. Þessa ljóðlínu er að finna í kvæði eftir  Halldór Laxness og hana má túlka á þann veg að ljóðmælandinn vilji vekja okkur til vitundar um dýrmæti stundanna í lífi okkar.

Við vitum ekki hvað líf okkar ber í skauti sér, vitum ekki hve stundirnar verða margar sem við fáum notið í þessu lífi. Það eina sem við vitum með vissu er að andartökin halda áfram að koma eitt af öðru svo lengi sem við drögum andann. Það er ekki í okkar höndum hve langur sá tími verður en með því að verða meðvituð um dýrmæti stundanna getum við stigið skref í áttina að lengra lífi. Ekki endilega lengra lífi í bókstaflegri merkingu heldur lengra í þeim skilningi að stundirnar renni ekki lengur saman í ógreinilega, lítt eftirminnilega móðu, heldur skeri fleiri stundir sig úr.

Mér kemur í hug breskur starfsbróðir minn, Mark Williams, einn höfundur bókarinnar Mindfulness-based cognitive therapy for depression sem kom hingað til lands að leiðbeina stórum hópi fagfólks um vakandi athygli. Mark er einstaklega vellátinn maður sem hefur bæði mikla útgeislun og hógværð til að bera. Og þess vegna svaraði hann, þegar hann var spurður á námskeiðinu hvaða áhrif reglubundin hugleiðsla hefði haft á líf hans, að við þyrftum helst að spyrja fjölskyldu hans að því. “Og þó”, bætti hann síðan við eftir andartaksumhugsun. “Ég get fullyrt eitt. Það er lengra milli jólanna eftir að ég byrjaði að hugleiða”.  

Þau okkar sem komin eru á eða yfir miðjan aldur vitum alveg hvað Mark á við. Hversu oft verður okkur ekki á orði þegar líður á ævina:  Aftur komin  jól! Eru þau ekki nýbúin?

En við getum skoðað fleiri stundir lífs okkar hverja fyrir sig líkt og perlur á perlufesti sem við handleikum hverja af annarri. Við getum lengt tilfinninguna fyrir góðu stundunum í lífi okkar og gert hvunndagsstundir eftirminnilegar með því að vakna til vitundar um stundina sem er að líða.  Þannig getum við líka fækkað stundunum þegar við erum gagntekin reiði, sjálfsásökunum eða eftirsjá, dapurlegum hugsunum um hvernig líf okkar hefði getað orðið eða gæti verið miklu betra bara ef....

           Höfundur bókarinnar Mindfulness in plain English skrifar á þessa leið:

“Öll upplifun breytist þegar árveknin í daglega lífinu eykst við það að vera  samviskusöm að iðka hugleiðslu daglega.  Reynslan af því að vera lifandi, að vera með meðvitund verður skýr og tær, nákvæm, ekki lengur bara einhver bakgrunnur sem við veitum ekki athygli og fellur í skuggann af áhyggjum, annríki og hversdagslegu vafstri. Við verðum samkvæmari sjálfum okkur í að skynja okkar eigin tilvist.

Andartökin hvert og eitt verða greinilegri, þau renna ekki lengur saman í einhverja móðu sem hverfur út í buskann án þess við tökum eftir henni.  Við breiðum ekki lengur yfir neitt né tökum neitt sem gefnu, engin reynsla er afgreidd með að kalla hana bara venjulega. Öll tilveran tekur á sig lit, það verður einhver ljómi yfir öllu.  Þú flokkar ekki lífið og tilveruna í fljótafgreidda bása.  Hvert andartak fær að vera í eigin rétti og segja þér það sem það hefur að segja. Þú hlustar á það sem andartökin hafa að segja þér og þú hlustar eins og þú sért að heyra það í fyrsta sinn.” (Mindfulness in Plain, bls...)

Helgun hvunndagsins

Formleg íhugun felst í því að taka frá með reglubundnum hætti ákveðinn tíma á dag til að vera einn með sjálfum sér, fylgjast með andardrætti sínum og verða var við það sem kemur upp í hugann. Óformleg hugleiðsla snýst hins vegar um það að leitast við að lifa lífi sínu dags daglega þannig að hugur fylgi verki. Taka eftir því sem við gerum um leið og við gerum það og vera sátt við það. Ekki vinna verk okkar annars hugar eða með hangandi hendi heldur heilshugar með fullri athygli og sátt við það sem við erum að gera. Þannig getum við notað dags daglegar athafnir til að iðka vakandi athygli. Hvernig  er mikilvægara en hvað. Hvernig við gerum það sem við gerum.

Það getur verið nóg að spyrja sjálfan þig hvort þú finnir fyrir innri ró í því sem þú ert að gera ef þú vilt verða meðvitaður um hvort þú ert heilshugar með þínum nánustu eða í verkum þínum. Eða eins og það er orðað í bókinni Mátturinn í núinu eftir Eckhart Tolle:

“Ef það er enginn fögnuður, innri ró eða léttleiki í því sem þið eruð að gera, þá þýðir það ekki endilega að þið þurfið að breyta því sem þið eruð að gera. Það getur verið nóg að þið breytið því hvernig þið gerið það. “Hvernig” er alltaf mikilvægara en “hvað”. Sjáið hvort þið eruð uppteknari af verkum ykkar en þeim árangri sem þið ætlið þeim að skila. Ef það sem er á þessu andartaki – hvað sem það er – fær alla ykkar athygli óskipta, þá felur það líka í sér algera sátt við það sem er. Það er ekki hægt að hafa athyglina óskipta á einhverju og samtímis að streitast gegn því.”

Ef athygli mín er óskipt á því sem ég er að gera get ég ekki verið ósátt við það sem er. Takmarkinu er því náð að vera heil og óskipt í stundinni sem er að líða og því engin ástæða til að fylgjast með andardrætti mínum þá stundina.

Vakandi athygli er því bæði markmiðið og leiðin að markmiðinu og óformleg iðkun vakandi athygli í dags daglegum athöfnum  ekki síður mikilvæg en formleg hugleiðsla. Í bók sinni The heart of buddhist meditation bendir   Nyanaponika Thera (1996) á að óformleg ástundun réttrar athygli styðji ekki aðeins við reglubundna iðkun hugleiðslu, heldur glæði hún líka í óþjálfuðum huga viðhorfið og hugarástandið sem leið athyglinnar hvílir á og gefur þannig forsmekkinn að hinu hugræna andrúmslofti sem við gætum búið við, oftar og lengur í senn, með ástundun reglubundinnar hugleiðslu. Af þeim sökum verður óformleg iðkun í dags daglegu lífi  oft hvatinn að því að við verðum viljugri að stunda hugleiðslu með reglubundnum hætti. Því er ástæða til að gefa óformlegri iðkun vakandi athygli fullan gaum og velta fyrir sér hvaða sess hún geti skipað í dags daglegu lífi.

Frá alda öðli hefur það verið álitin kröftug, andleg iðkun að gefa sérhverju verki fullan gaum án þess að hafa áhyggjur af árangrinum. Í Bhagavad Gita, einu elsta helgiriti sem til er, er hún kennd við karma jóga eða starfsrækt og lýst sem leið “hinnar helgu athafnar”. Við getum unnið hversdagslegustu verk með fullri athygli og af þakklátu hjarta. Þannig gerum við  minnstu verk að eins konar helgiathöfnum hvunndagsins þegar við vegsömum lífið með því að vinna störf okkar af natni og alúð.

Halldór Laxness lýsir þessu óviðjafnanlega í skáldsögu sinni, Heimsljós. Þegar Ólafur Kárason Ljósvíkingur leggur leið sína upp að jökli hittir hann fyrir gömul hjón með svip hinna löngu björtu sumarmorgna. Þau líta á ævi sína sem talandi dæmi þess hvernig guðinn ann mönnunum og samt eru þau bláfátæk og hafa ekki farið varhluta af skakkaföllum lífsins. Þótt allt væri komið að fótum fram í kringum þau þekktist ekki að ganga um hlut eins og engan varðaði um hann “aldrei  virtist neitt hafa verið gert hér af handahófi eða skeytíngarleysi, lítilmótlegasta handarvik unnið af sérstakri virðíngu fyrir sköpunarverkinu í heild, af alúð einsog þvílíkt verk hefði aldrei verið unnið fyr og mundi ekki verða framar unnið.”

Hér er engu við að bæta.

Daglegt líf

Það er engin skýr lína milli formlegrar innsærrar íhugunar (vipassana meditation) og þess að vera vakandi í daglegu lífi okkar.  Markmiðið er alltaf það sama: Að vera vakandi og til staðar á fleiri stundum lífs okkar. Því að þótt líkaminn sé til staðar – er ekki þar með sagt að við séum til staðar. Raunverulega til staðar.

Hvort sem maður beinir huganum að mikilvægu verkefni sem þarf að skila í vinnunni, þvær upp heima hjá sér, gengur úti í guðsgrænni náttúrunni eða hjálpar barninu sínu með heimaverkefni.

           Sumt lærir maður ekki af öðrum. Það er ekki einu sinni hægt að útskýra til fulls í orðum  ávinninginn af ástundun vakandi athygli. Það verður hver og einn að finna út fyrir sjálfan sig með því að iðka hana nógu lengi og nógu samviskusamlega til að árangurinn komi í ljós. Og á þeirri leið, leið athyglinnar, eigum við eftir að gleyma  góðum ásetningi okkar og þurfa að minna okkur á aftur og aftur  að vera heil og óskipt í því sem við gerum.

Við þurfum að minna okkur á að koma til baka til stundarinnar hér og nú þegar hugurinn hefur tosað okkur af leið. Og þá er gagnlegt að kunna eða eigum við að segja “koma okkur upp”  leiðum til að kveikja á núvitundinni eins og bent er á í bókinni Leiðarvísir í núvitund eftir Choden og Kristine Janson (2011). Það þarf ekki að taka nema fáein andartök en slíkar stundir geta haft bæði friðandi og jarðtengjandi áhrif í lífi okkar. Við getum náð í skottið á sjálfum okkur með einum andardrætti eða innstillingu inn á það hvernig okkur líður, hvað við skynjum og hvað við erum að hugsa. Og hvunndagurinn veitir okkur tækifæri til að efla vakandi athygli okkar með því að beina allri athyglinni að athöfn eða verki sem við erum annars vön að vinna annars hugar eða “á sjálfsstýringunni” vegna þess hve það er orðið okkur tamt. Það getur verið hvað sem er og sum þeirra geta varað nokkrar mínútur eða lengri tíma.

Við gerum okkur far um að gera aðeins eitt í einu þegar það er mögulegt og veita því fulla athygli. Á sambærilegan hátt og í formlegum hugleiðsluæfingum beinum við athyglinni rólega að því sem við erum að gera þegar hugurinn hefur reikað eða athyglin orðin tætingsleg. Það geta verið athafnir eins og að þvo upp, bursta tennur,  þvo sér, hlusta á tónlist, ganga eða borða matinn sinn af fullri athygli. Horfa á matinn áður en maður setur hann upp í sig. Taka eftir hvernig hann lítur út, finna bragðið af honum, tyggja vel og halda fullri athygli á munnbitanum uppi í okkar áður en hún beinist að þeim næsta sem situr á gafflinum! Og ekki gleyma að finna til þakklætis fyrir matinn og vinnu allra þeirra sem stuðluðu að því að það er yfir höfuð matur á diskinum okkar. Þakklæti og alúð auka á hamingju,  þegar við tökum okkur tíma til að þakka fyrir hið góða, fagra og uppbyggilega í lífinu hvort sem það er þroskandi lífsreynsla, stund með barninu okkar, stráin sem stingast upp úr mosanum á sumrin eða rauðu reyniberin sem kremjast undir skónum okkar á haustin.