5.0 UPPRUNI ÞJÁNINGAR.
5.1 LOK ÞJÁNINGAR.
5.2 INNSÝN..
5.3 TÍMINN.
5.4 DIALEKTIK.
5.5 ÞJÁNINGIN OG NIRVANA.
5.6 SHANKARA.
5.0 UPPRUNI ÞJÁNINGAR.
Þegar Búddistar ræða um þjáninguna, benda þeir oft á að fæðing sé þjáning, að eldast og verða gamall sé þjáning, dauðinn sé þjáning. Sorg, sársauki, örðugleikar og andstreymi séu þjáning. Tengsl við það, sem manni líkar ekki séu þjáning. Aðskilnaður frá því, sem maður hefur mætur á, sé þjáning. Að fá ekki það sem maður vill sé þjáning. Dukkha er orð úr Pali, sem oftast merkir þjáning. Það hefur þó upphaflega haft mun víðari merkingu. Það táknar ekki aðeins augljósa líkamlega eða andlega þjáningu, heldur og öll stig óþæginda, óánægju, ótta, kvíða og óróa. Það táknar í raun vansælu og almennt öryggisleysi allra vera í heimi fyrirbrigðanna. Ófullnægja og tilhneiging til þjáningar fellur undir þetta.
Sannleikurinn um þjáninguna afneitar ekki tilvist ánægjulegrar lífreynslu, hann bendir einungis á, að mitt í ánægju og vellíðan, erum við aldrei laus við óþægindi eða ónot nema í stuttan tíma í senn. Ánægjan er fljót að líða hjá og sælan er skammvinn. Vissan um þetta gerir hlutina blendnari. Ef við lítum í eigin barm, sjáum við, að í daglegu lífi njótum við ekki oft augnarbliks fullkominnar og óblandinnar hamingju og þægindartilfinningar. Við getum ekki haldið því fram, að við séum oft laus við allt sem okkur líkar ekki vel, að við höfum allt sem við viljum eða að óskum okkar hafi verið fullnægt. Jafnvel á ánægjustundum býr í huga okkar, að við eigum eitthvað ógert eða ógreitt, svo dæmi sé nefnt.
Óþægindi og ónot er alls staðar að finna. Við erum aldrei nema örstutta stund í friði og sátt við heiminn eins og við reynum hann. Við erum ekki í friði og sátt við okkur sjálf. Margir trúarhöfundar og heimspekingar hafa bent á að lífið sé þjáning. Menn hafa hins vegar ekki verið á eitt sáttir um orsök þjáningarinnar og hvernig hana mætti lækna.
Búddisminn telur, að uppruna þjáningar sé að finna í löngunum okkar og óskum, þörfinni fyrir eitthvað, sem við höfum ekki. Orsök allra ónota eða óþæginda er þráin eftir einhverju. Þeirri þrá fylgir gjarnan löngun eftir ánægju sem fólgin er í þessu eða hinu. Þessi staðhæfing virðist í fyrstu eins og um sé að ræða of mikla einföldun mála, en eltingaleikurinn við ánægjuna er mjög margþættur. Ekki er aðeins um að ræða löngun í það sem manni líkar, heldur og óbeit á því, sem manni líkar ekki. Óbeit er aðeins ósk um að sneiða hjá því, sem okkur finnst vera óæskilegt eða óþægilegt. Mestum tíma okkar verjum við til að sækjast eftir því, sem við teljum æskilegt og að forðast það, sem við teljum óæskilegt.
Fallvalt og skammlíft eðli hlutanna er öllum augljóst. Með því að halda sér fast í eitthvað, sem hverfult er og vilja jafnframt viðhald þess og óbreytileika, er verið að skapa sér vandamál. Það sem við köllum staðreyndir, sál, hluti o.s.frv. er laust við allan kjarna eða varanleik. Ef við höldum okkur fast í hverfulleik hlutveruleikans, svekkjum við okkur sífellt, við verðum vonsvikin. Sagt hefur verið, að það sé eins og að hella vatni í sigti og búast við því að það verði þar kyrrt. Með því að sjá, að það sem okkur finnst varanlegt, er óstöðugt og hverfult, höggvum við að rót þeirrar festingar eða grips, sem heldur okkur föstum í löngunum okkar og girndum. Ekki skiptir máli í raun, hvað okkur langar í. Hvort sem við viljum fá eitthvað eða halda í það, sem okkur líkar við eða við viljum forðast eitthvað, sem við óttumst eða hafna einhverju. Allt er þetta löngun í einni eða annarri mynd. Við þjáumst af því að við höfum löngun í eitthvað.
5.1 LOK ÞJÁNINGAR.
Þar sem Búddisminn heldur því fram, að við þjáumst vegna þess að við höfum óskir, langanir eða þrár, þá gefur auga leið að við ættum ekki að þjást, ef við höfum ekki þessar óskir langanir eða þrár. En þetta er hægara sagt en gert. Ef við t.d. ákveðum í eitt skipti fyrir öll, að við viljum ekki þjást, þá getur slík ákvörðun verið verri en engin. Hér er nefnilega á ferðinni sérstök ósk eða löngun og þar með binding, sem við ættum einmitt að losa okkur við. Óskin um að þjást ekki er líka ósk og jafnframt sálræn binding við þægindi og hamingju.
Því er nauðsynlegt að uppræta þarfir og óskir að öllu leyti. Annars hverfur þjáningin ekki að fullu. Þetta merkir algera breytingu í viðhorfum. Spurningin er því sú, hvernig er það hægt? Svarið er tiltölulega einfalt, en erfitt í framkvæmd. Fyrsta skrefið er að rækta með sér athygli á hug og líkama án þess að taka afstöðu með eða á móti því, sem við verðum vör við. Reyna að sjá sjálfan sig og umhverfið í hlutlægu ljósi, sjá eðli hlutanna. Þetta verður best gert í kyrrð hugans, t.d. þegar hugleitt er á þögnina, en kyrrð hugans er annar megintilgangur hugleiðslu.
Hugleiðsla er athygli hljóðs huga. Við vitum, að ekkert er stöðugt eða varanlegt. Eldri skólar Búddismans töldu að frelsi fengist með því að gera sér að fullu ljóst, að allt er óstöðugt og hverfult og með því að sjá að ekkert þarf að óttast eða hafa áhyggjur af. En slík hugleiðsla verður að vera hluti af dagfari okkar, ekki aðeins þá stund, sem við ákveðum að hugleiða.
Flest trúarbrögð telja rétt viðhorf og rétta breytni, meðal annars siðferðilegt uppeldi, forsendu fyrir þroska. Þá hafa margir spakir menn, svo sem Aristoteles og Búdda ráðlagt mönnum meðalhóf í líferni. Einnig er það vafalaust, að nútíma sálarfræði getur hjálpað okkur að uppræta þarflaus viðhorf eða sýnt okkur fram á fánýti þeirra. Í þessu sambandi er rétt að leggja áherslu á sérstaklega, að athygli og skilningur einn er ekki nægur, heldur verðum við að finna og upplifa hin nýju viðhorf eða viðhorfsleysi frá grunni sjálfs okkar. Skilningurinn verður að festa rætur í sál okkar, svo uppskeran verði einhver.
Ég sagði áður, að annar megintilgangur hugleiðslu væri kyrrð hugans. Hinn tilgangurinn er innsýn, innsýn inn í veruleikann. Frelsi er ekki fólgið í öflun verðleika, virðingar eða valda, heldur er um að ræða neikvætt ferli, sem fjarlægir hindranir, hindranir sem hylja veruleikann. Öll tengsl og óbeit byggist á ímyndunaraflinu. Við fáum löngun eða óbeit á hlutum vegna þess að við íklæðum þá fötum girnilegra eða ógeðfelldra eiginleika. Hlutir eru aldrei í sjálfu sér, aðlaðandi eða fráhrindandi, því það sem einum líkar, er öðrum ógeðfellt, á sama tíma og sá þriðji tekur enga afstöðu. Þetta sýnir hið huglæga eðli viðhorfanna.
Nagarjuna segir: “Með uppbyggjandi ímyndunarafli skapast tengsl, andúð eða hrifning. Þetta byggist á góðu, illu eða heimskulegu viðhorfi okkar. Tilvera, sem byggist á þessu er ekkert í sjálfu sér. Langanir eru óraunverulegar”. Enn segir hann: “Frelsi er endalok karma og langana. Langanir koma frá ímyndunaraflinu og þeim lýkur, þegar við sjáum innihaldsleysi þeirra og óraunveruleika.” Budda sagði: “Löngun, ég þekki uppruna þinn. Þú kemur úr ímyndunaraflinu. Ekki skal ég sökkva mér í ímyndunaraflið. Ég hefi engar óskir meir.”
5.2 INNSÝN.
Bæði Búddistar og Vedantaskólar ganga út frá því, að fullkomin andleg endurfæðing sé möguleg vegna innsýnar í veruleikann. Vandamálið sé í raun þekkingarvandamál. Með því er átt við, að þekkingin sé ofar viljanum. Með þekkingunni hverfi ástríður og langanir. Sannleikurinn er æðstur. Margir heimspekingar Vesturlanda hafa verið á gagnstæðri skoðun, talið viljann ofar skilningnum. Í Vedantafræðum, í Madhyamika og Vijnanavada er huglæg innsýn lögð til jafns við frelsið. Þekkingin er talin ofar viljanum. Þó eru leiðirnar að þessu marki nokkuð ólíkar.
Í Vedanta er gert ráð fyrir því, að frelsið sé afleiðing af samsömun sjálfsins við Brahman. Með því að uppræta einstök viðhorf egosins og samsömun þess við alveruna, Brahman, verða ástríður og langanir, óskir og andúð óhugsandi. Það er enginn annar, sem þú getur elskað eða hatað. Þetta ert þú. Frelsið er afleiðing algildisins. Svo dæmi sé tekið. Kleift er að sigrast á kynferðislegri ást með því að leiða hugann að hinu yfirskilvitlega eða algilda. Með því að vera altekinn því, hættir líkamleg ást að hafa aðdráttarafl.
Í Vijnanavada er gert ráð frá því, að við getum gert okkur ljóst, að vitundin, hrein og tær, er eini veruleikinn. Þennan veruleika má kalla þögn. Í þögninni sjáum við, að allt hlutlægt er blekking. Þegar séður hefur verið óraunveruleiki hlutveruleikans, þess sem er hlutlægt, hverfur það sem við nefnum löngun, áráttu og andúð. Hin holdlega ást er dæmigerður tilbúningur hugans og heyrir til heims óraunveruleikans.
Í Madhyamika eða miðleiðinni er gengið hreinna til verks. Sunyata eða andleg innsýn leysir upp alla hugarsmíðina, en það jafngildir frelsi. Ekki er um að ræða samruna hugans við Brahman, þ.e. alveruna eða vijnana, þ.e. vitundina, sem aftur leiðir til þess að löngun verður ósamrýmanleg þeirri reynslu. Miðleiðin hefur enga skoðun á veruleikanum. Hún telur hann hvorki alveru né vitund. Hún gengur ekki út frá neinni ákveðinni verufræði, þ.e. hún hefur ekki skoðun um tilveruna. Að mati miðleiðarinnar er veruleikinn hvorki vitund, vijnana né alverund, Brahman, þó er hann ekki ekkert. Svo sama dæmi sé enn tekið, þá er samkvæmt miðleiðinni kleift að komast yfir holdlega löngun með því að gera sér grein fyrir innihaldsleysi og innantómleika hennar, þ.e.a.s. fánýti hennar og óþarfa, einkum hvernig hún er eintóm hugarsmíð. Dialektik miðleiðarinna breytir ekki hlutunum, heldur afstöðu okkar til þeirra. Hlutir eru ekki gerðir óraunverulegir, því þeir eru það fyrir. Sunyata er ekki formúla til að sjá hlutina sem óraunverulega, heldur birtist eðli hlutanna með Sunyata. Þá verður hugurinn frjáls úr kóngulóarvef rangra skoðana og sjónarmiða.
Margar leiðir liggja frá ummáli hrings að miðju hans. Allar eru þær jafngildar. Leiðirnar til hins algilda henta mönnum misjafnlega. Þótt leiðirnar til að nálgast hið algilda séu ekki þær sömu, virðist upplifunin vera sú sama. Allavega er ekki vitað um mismun, þar sem þögnin er eina tungumálið. Sumum finnst gjarnan sem þeir séu á réttri leið en aðrir ekki. Sumir horfa svo fast á miðdepil hringsins frá eigin sjónarhorni, að þeir sjá ekki að aðrir nálgast miðjuna eftir annari leið. Guðspekifélagið er einmitt rétti vettvangurinn til að hýsa öll þessi sjónarmið, hvort sem menn daðra við austrið, eru í slagtogi við það eða hafa gleypt það með húð og hári.
5.3 TÍMINN.
Eilífðin eða tímaleysið tilheyrir mystiskri reynslu. Í þessum þætti langar mig til að víkja sérstaklega að því sem Kristur kallaði eilífðina og margir upplýstir menn hafa nefnt hið óborna, þar sem engin fæðing eða dauði er til. Þar til við höndlum eilífðina, verður veruleikinn óljós. Flestir álíta mystiska reynslu einhvers konar uppgerð eða hysterí. Þeim er eilífðin aðeins eitthvað óendanlegt, eitthvað sem varir alltaf í tíma. Tímaleysið er heldur óraunhæft í huga þeirra.
Eilífðin er hvorki heimspekileg skoðun, trúarstefna eða einhvers konar hugsjón. Eilífðin liggur opin fyrir augum allra. Huang Po sagði: “Hún blasir við okkur.” Eins og ég hef áður drepið á, er eilífðin í mystiskri reynslu ekki eitthvað sem að eilífu varir, heldur vitund sem er tímalaus. Um er að ræða tímaleysi, þar sem ekki finnst fortíð eða framtíð, líf eða dauði. Meistari Eckhart sagði: “Tíminn hindrar það að ljósið nái til okkar. Tíminn er mesta hindrunin á veginum til Guðs. Ekki tíminn einn, heldur og hið tímabundna, ekki aðeins hið skammvinna, heldur og skammvinnur hlýhugur, ekki aðeins skammvinn ástúð, heldur og allur vottur að tíma.”
Við höfum öll upplifað augnarblik, sem virðast hafin yfir tíma, t.d. í fallegri náttúru eða ástarsambandi eða við skyndilegt hljóð eða óvænt atvik. Á þessum augnarblikum lifðum við í núinu. En núið er einmitt tímalaust, það veit ekki fortíð eða framtíð. Að lifa algerlega í núinu er að upplifa eilífðina, hið óborna og hið ódauðlega. En athugum betur þetta “nú”.
Við getum aldrei fundið neitt upphaf í núinu. Hvenær byrjaði núið? Byrjaði það einhvern tíma? Á sama hátt má spyrja hvort nokkur endir sé á núinu. Við finnum í raun aldrei neinn endi þess. Jafnvel við dauða finnum við engan endi á núinu. Aðeins núið hefur engan enda, sagði Schroedinger. Hvað sem gengur á fyrir skilningarvitum okkar, er núið ósnertanlegt, tíminn hefur enginn áhrif á það. Í núinu er hvorki framtíð né fortíð, enginn tími. Eilífðin hefur engan tíma. Eilífðin er því hvert augnarblik sem við lifum. Wittgenstein hefur sagt: Eilífðin tilheyrir þeim, sem lifa í núinu.
Hinir upplýstu hafa margsinnis bent á, að himnaríki á jörð og frelsið er hér og nú án fortíðar og framtíðar. Eilífðina er ekki að finna á morgun né innan skamms eða langs tíma. Núið er eini veruleikinn. Mjög fáir lifa algerlega hér og nú, við erum sífellt að velta okkur upp úr fortíðinni eða að spá í framtíðina. Við hlekkjum okkur við tímann og lifum í þeim vofuheimi, sem ekki tilheyrir núinu. Við lifum í minningum eða eftirvæntingu og von um framtíð. Við höldum líka, að framtíðin muni bera núið í skauti sér, núið sem við bíðum þó sífellt eftir.
Að lifa í tímanum er að lifa í þjáningunni. Öll okkar vandamál eru tímanleg vandamál eða vandamál í tíma. Áhyggjur okkar eru alltaf út af fortíð eða framtíð. Við iðrumst gerða okkar í fortíðinni og óttumst afleiðingar þeirra í framtíðinni. Sektarkennd er bundin við fortíðina, svo og öll sjálfsfyrirlitning í hvaða mynd sem er. Allur kvíði og ótti snýr að framtíðinni. Fortíð og framtíð hlekkja okkur þannig við þjáninguna.
Í núinu eru engin vandamál, þar sem enginn tími býr í því. Ef svo virðist, þá er það alltaf bundið sektarkennd fortíðarinnar eða kvíða fyrir framtíðinni. Með sektarkennd týnum við okkur í fortíðinni og með kvíða hverfum við í framtíðina. Kjarni málsins er því að lifa í tímaleysi, í eilífð eða ódauðleika. En við megum vara okkur. Með þessu er ekki átt við að við eigum að gleyma gærdeginum og morgundeginum. Hinir upplýstu halda því ekki fram, að hundsa eigi eða gleyma fortíð og framtíð. Þeir halda því fram, sem meira er, að það sé engin fortíð eða framtíð. Því fortíð og framtíð er ímyndun eða framleiðsla hugans, sem hann þrengir inn á núið og mengar það. Hugurinn greinir núið í fortíð og framtíð. Vandinn er því ekki sá að losna við fortíð eða framtíð, heldur að fortíð og framtíð er blekking, sem nauðsynlegt er að átta sig á. Um er að ræða blekkingu sem hylur veruleikann.
Margir reyna að ná hinu tímalausa núi með því að beina athyglinni að því. Með því að beina athyglinni að því sem þeir gera á tilteknu augnarbliki. Menn iðka “hreina athygli” í von um að komast í snertingu við eilífðina. En slíkt getur í raun skotið fram hjá markinu. Það að reyna að komast í snertingu við núið, krefst annars augnarbliks, þ.e. það að reyna að veita núinu athygli, krefst framtíðar, þar sem þessari athygli er beint að. Við getum aldrei notað tíma til að losna við tíma. Við getum því lent í því að efla það, sem við ætlum að uppræta. Þetta stafar af því, að við jafnan teljum okkur ekki lifa í núinu. Við teljum okkur þurfa að gera ráðstafanir til að tryggja, að við lifum í því í framtíðinni. Við höldum að tíminn sé veruleiki og reynum að eyða honum. Að eyða tíma með tíma gengur aldrei. Það þýðir ekkert að eyða blekkingum, aðeins að leita að þeim og átta sig á þeim.
Í stað þess að losna við tímann, er annað ráð betra: Að leita að honum. Ef við leitum að tímanum og finnum hann ekki, fáum við hugboð um eilífðina. Ég hefi áður rætt um að leita að sjálfstæðu Sjálfi og finna það ekki. Á sama hátt er gott að leita að því, hvort tíminn, þ.e. hreyfing frá fortíð til framtíðar er í raun til. Hvernig skynjum við tímann? Skynjum við nokkru sinni fortíð eða framtíð? Öll hljóð sem við heyrum eru hljóð hér og nú. Við heyrum aldrei hljóð úr fortíðinni eða framtíðinni. Sama gildir um öll skilningarvitin. Skynjunin er öll í núinu.
En hvað er það, sem gefur okkur tilfinningu fyrir tíma? Við þykjumst vita um fortíðina, sem er aldrei neitt annað en minning. Minnið eitt sannar fyrir okkur fortíðina. Ef við hefðum ekki minninguna og vissum ekki af því, að aðrir hafa sömu reynslu, hefðum við enga hugmynd um tímann yfirleitt. En gæta verður þess, að þótt minningin veiti okkur þekkingu um fortíðina, þar sem við getum ekki beint upplifað hana, þá megum við aldrei gleyma því, að minningin er í sjálfu sér alltaf upplifun hér og nú. Við lítum til þeirra spora, sem fortíðin hefur sett á núið. Við ályktum um liðna atburði, en uplifum þá ekki í raun. Hið liðna er því aðeins í núinu eða sem hluti þess. Við upplifum því aldrei fortíðina eða öðlumst þekkingu um hana, við höfum aðeins minningu um hana og þessar minningar eru upplifun hér og nú. Þegar það gerðist, sem átt hefur sér stað í fortíðinni, gerðist það líka í núinu. Þess vegna getum við aldrei upplifað fortíðina beint. Sama gildir um framtíðina. Við vitum aðeins um væntingar og vonir, sem allaf eru upplifun hér og nú. Vænting er eins og minningin, staðreynd í nútíð.
Með því að sjá, að fortíðin er aðeins minning og framtíðin er aðeins vænting, sést að hvoru tveggja eru staðreyndir hér og nú, allur tími er hér og nú. Því er öll andleg hlekking okkar við tímann með öllum þeim vandamálum, sem af því leiðir, eintóm blekking. Í raun upplifum við aldrei neitt annað en hið eilífa nú, þótt okkur finnist ekki svo vera. Okkur finnst núið mjög svo takmarkað. Í raun finnst okkur það eins og þunnt lag á milli tveggja samlokusneiða, sem eru fortíð og framtíð. Við setjum sjálf markalínur á núið og skerum það upp í fortíð og framtíð. Svo hugsum við okkur að tíminn líði eða hreyfist frá fortíð í gegnum hið óljósa nú til framtíðar eða öfugt. Við setjum markalínu á eilífðina og girðum okkur af. Núið er þannig bundið fortíðinni á annan veg, en framtíðinni á hinn veginn.
Okkur finnst fortíðin veruleiki, sem sé til staðar að baki okkur, einhver veruleiki sem við lítum til baka til. Sumum finnst fortíðin vera til vinstri, en framtíðin til hægri. Okkur finnst minningin vísa á hið liðna, sem liggi að baki því, sem nú er. Hún takmarkar því nútíðina eða stendur gegnt henni að baki eða frá vinstri. Hinum megin höfum við svo framtíðina. Hún virðist veruleiki, þótt hún sé óvissari, þar sem við verðum að giska á, hver hún verður. Við erum þó viss um, að hún sé til staðar sem slík. Framtíðin liggur venjulega beint fyrir framan okkur eða til hægri. Núið er því þrengt niður að þessu leyti.
Nútíðin er því innilokuð og klemmd á milli fortíðar og framtíðar. Þannig verður fortíð og framtíð oft raunverulegri en nútíðin. Um verður að ræða samloku með engri fyllingu milli sneiðanna. En ef við lítum til þess, að fortíðin er aðeins minning, hrynur markalínan að baki, og sjáum við einnig að framtíðarvonir eru alltaf upplifun nú, hverfur markalínan fyrir framan okkur. Við sjáum, að ekkert er að baki okkar eða fyrir framan okkur. Nútíðin er þá ekki klemmd inni, heldur hefur að geyma allan tíma. Við sjáum, að engin fortíð né framtíð er til utan nútíðar, engar markalínur eru í núinu og við upplifum enga byrjun né endi á því.
Hinir upplýstu flýja ekki tímann með því að líta ekki til nútíðar eða framtíðar. Þeir forðast ekki ábyrgð eða söguna. Þótt þeir lifi í eilífðinni, hafa þeir vitund og áhuga á fortíð og framtíð. Þeir eru ekki á flótta undan tímanum, heldur hafa þeir vitund um, að fortíð og framtíð er nútíð og nútíðin hefur að geyma allan tíma. Þeir eru því ekki bundnir af fortíð eða framtíð. Fortíðarminning þrýstir ekki á og framtíðarvonir toga ekki í, því nútíðin inniheldur hvorutveggja. Þeir lifa ekki í tíma, því tíminn lifir í þeim.
Krishnamurti hefur oft bent á, að egoið sé samansett af minningum. Það sem okkur finnst vera við, sé aðeins samsafn minninga. Ef við erum spurð, hver við séum, byrjum við að leita í minningunum eftir svari. Sú tilfinning, að okkur finnst við vera eitthvað sjálfstætt, byggist algerlega á minningu. Ef við ætlum að ná taki á okkur sjálfum, náum við ekki haldi á öðru en minningum. Það er ekkert rangt við að muna fortíðina, því það er nauðsynlegt. En við samsömum okkur þessum minningum, eins og þær væru til utan núsins, þ.e. eins og um væri að ræða þekkingu á veruleik sem væri eins konar ytri fortíð.
Ef minningin stendur utan nútíðar, þá gerir egoið, sem byggir á minningu það einnig. Sú tilfinning, að minningin sé lífsreynsla í fortíðinni að baki nútíðinni, er sama tilfinning og er við finnum fyrir sjálfstæðu egoi á bak við reynslu í nútíðinni. Athugandinn virðist standa utan við núið, af því að minningin virðist vera liðin reynsla. Málið er einfalt, ef minningin er annað en núið, þá verður egoið einnig annað en núið.
Af þessu leiðir, að ef við áttum okkur á og upplifum allar minningar, sem upplifun hér og nú, þá gröfum við með því undan sjálfstæðu egoi, sem stendur utan nútíðar. Egoið, sem er ekkert annað en minning, verður þar með upplifun hér og nú. Bæði fortíð og egoið sameinast núinu. Ekki er hægt að standa utan núsins, þar sem ekkert er utan þess. Með því að sjá, að minningin er hér og nú, þá leysum við upp ímyndaðar takmarkanir, leysum við upp gagnstæður fortíðar og framtíðar. Ekkert er að baki, ekkert er fyrir framan. Við getum hvergi staðið nema hér og nú í eilífðinni.
5.4 DIALEKTIK.
Nagarjuna hefur kannað hugtakið tími. Hann bendir á að deiling tímans í fortíð, nútíð og framtíð er grundvallaratriði tímahugtaksins. Nútíð og framtíð eiga sína tilvist undir fortíðinni. Þær ættu að vera til í fortíðinni, þar sem þær eru byggðar á henni. Ef svo er, eiga þær að vera innifaldar í fortíðinni eða að fortíðin sé óaðgreinanleg frá nútíðinni og framtíðinni. Ef við reyndum að komast hjá þessari niðurstöðu með því að telja nútíð og framtíð ekki vera innfalda í fortíðinni, þá má spyrja: Í afstöðu til hvers eru þær nútið og framtíð? Nútíð og framtíð án tengsla er ekki möguleg. Án slíkrar aðgreiningar er tíminn ekki hugsanlegur. Sömu röksemdir að breyttu breytanda eiga við um tilvist fortíðar eða nútíðar í nútíð og framtíð o.s.frv.
Í stuttu máli má segja, að óraunveruleiki fortíðar, nútíðar og framtíðar sjáist með því að líta til þess, að í fortíð er engin nútíð og framtíð eða öfugt. Samt sem áður er vitund um fortíð, nútíð og framtíð án slíkra tengsla óhugsandi. Í þessu felst óraunveruleiki þessara hugtaka.
Tilvist tíma án hluta, þ.e. tómur tími er óhugsandi. Sama gildir um það, að skipta hlutunum í upphaf, miðju og endi. Þessi skipting er huglæg. Ekkert stendur heldur sjálfstætt sem byrjun, miðja eða endir. Allt leiðir hvað inn í annað. Þótt við höfnum byrjun, er hið upphafslausa einnig hugtak, sem er jafn óverulegt.
Þannig rökræða þeir Búddistar. Þetta hjálpar einnig til að átta sig á því, hvernig hugurinn skapar veruleikann.
5.5 ÞJÁNINGIN OG NIRVANA.
Ég hefi áður greint frá því, að indversk trúarkerfi byggi á vandamálinu um þjáninguna og þar með vitund um blekkinguna. Vitundin um þjáninguna leiðir til þess, að við höfnum veraldargæðum í leit að hinu varanlega. Búddistar hafa alltaf lagt mikla áherslu á þjáninguna. Var því að nokkru gerð skil fyrst í þessum þætti. Hlutveruleikann telja þeir jafnan hafa fólgna í sér þjáningu, raunverulega eða mögulega. Komast má hjá þjáningu vegna þess að hún er skilyrðisbundin. Ef þjáningin væri eðli náttúrunnar, en ekki afleiðing þekkingarskorts, væru tilburðir okkar til að lina hana tilgangslausir. Byrjun andlegrar leitar hefst gjarnan með þeirri sannfæringu, að veraldleg ráð lækni ekki þjáninguna, heldur herði tök sem samsara hefur á okkur. Menn uppgötva, að innsýnin ein, Prjana, getur upprætt þjáninguna eða vanþekkinguna.
Það er trú Búddista, þeirra miðleiðarmanna, að lokalausnin sé möguleg í gegnum eða með sunyata, þ. e. með því að gefa á bátinn öll viðhorf, skoðanir, markmið og ímyndir. Við hljótum að bindast þeim viðhorfum, sem við höldum að túlki veruleikann og hafna öðrum. Vegna þess að sérhvert viðhorf er takmörkunum bundið og vegna þess að það er ákvarðandi, hlýtur það að bera í sér eða hafa fólgna í sér tvíhyggju. Tvíhyggjan er grunnorsök samsara. Nagarjuna sagði: “Þegar égið er staðsett, stendur eitthvert annað gegnt því. Með því að gera ráð fyrir égi og ekki égi, verður árangurinn binding og andúð. Allir lestir byggja á þessu. Bindingin leiðir af sér þorsta í unað og vellíðan og þessi þorsti hylur galla hlutanna. Blindaður af þessu, ímyndar hinn þyrsti maður sér gæði hlutanna og leitar að ráðum til að verða sér úti um unað og vellíðan. Samsara er þess vegna við líði svo lengi sem við bindumst éginu.”
Nagarjuna sagði einnig: “Afstaða eða viðhorf leiðir af sér gagnstæða afstöðu eða viðhorf og hvorugt er veruleikinn.” Í hlutveruleikanum þýðir viðhorf bindingu og andúð. Hvert viðhorfið er, skiptir ekki máli. Viðhorf er útilokandi, ef svo má að orði komast, það er jafnan ósamrýmanlegt öðru viðhorfi. Andstæðan verður því jafnan til staðar. Ef við höldum fram viðhorfi, getum við aldrei komist hjá deilum og árekstum, hvort sem viðhorfið er jákvætt eða neikvætt. Viðhorf og ímyndunaraflið er því vanþekkingin fyrst og fremst. Veruleikinn hefur enga eiginleika, neti neti, ekki þetta, ekki þetta. Með því að halda því fram, að veruleikinn sé eitthvað, er verið að gera hann einhliða, hluta hann eða gera hlutdrægan og þar með óraunverulegan. Sérhver fullyrðing felur í sér afneitun á veruleikanum, því sérhver fullyrðing hefur fólgna í sér afneitun. Veruleikinn verður ekki ákvarðaður. Rétt skilið er sunyata ekki útþurrkun eða afnám hlutanna, heldur afneitun afneitunarinnar. Sunyata er leiðrétting vitandi vits á upprunlegri og dulvitaðri fölsun veruleikans.
Því hefur jafnan verið haldið fram, að nirvana verði ekki skilgreint, það sé veruleikinn. Það sé hið óborna, óskapaða o. s. frv. Ef nirvana væri ekki til staðar, væri engin undankoma úr hlutveruleikanum og þjáningunni. Talað hefur verið um það með jákvæðum staðhæfingum, svo sem að það sé veruleiki ofar allri þjáningu og breytingu, ógleymanlegt, kyrrt, varanlegt, gallalaust, eins og friður, alsæla. Það er eyja, skýli, afdrep og markið. Það er ekki eyðing eða afmáun hlutanna.
Miðleiðin leggur áherslu á, að með nirvana breytist ekkert. Ef blekkingin væri eitthvað, væri erfitt að gera hana að engu. Breytingin felst aðeins í viðhorfi okkar. Veruleikinn breytist ekkert. Nirvana er ekki eitthvað, sem er eyðilagt eða skapað, yfirgefið eða fengið. Með prajna breytum við ekki veruleikanum, við aðeins breytum viðhorfi okkar gagnvart honum. Breytingin er þekkingarfræðileg eða huglæg, en ekki verufræðileg eða hlutlæg.
Þetta leiðir til annarrar fullyrðingar miðleiðarinnar, um að enginn munur sé á nirvana og samsara, nirvana sé samsara. Hlutveruleikinn eða heimur fyrirbrigðanna annars vegar og hið algilda eða yfirskilvitlega hins vegar, eru ekki tveir aðskildir hlutir, né tvenns konar eðli sama hlutar. Hið algilda er eini veruleikinn. Það er veruleiki samsara, sem er viðhaldið með falskri hugarsmíð. Hið algilda er, ef horft er á það í gegnum hugkvíar ímyndunarafls og hugsunar, heimur fyrirbrigðanna eða hlutveruleikinn. Og gagnstætt má segja, að hið algilda sé heimurinn séður án þessara hugkvía.
Nirvana er hvorki tilvist né tilvistarleysi, þ. e. brotthvarf frá slíku mati á veruleikanum. Nirvana sem hið algilda er laus við öll hugasanaform eða viðhorf og aðeins með því að gefa þau upp ábátinn öðlumst við nirvana. Nirvana verður ekki skilgreint og frá trúarlegu sjónarmiði er því jafnað við Guð. Nirvana er hið yfirhafna og óskilvitlega andans líf.
5.6 SHANKARA.
Allir þeir skólar, sem leggja áherslu á hið algilda, sem lokamarkmið, ef svo má að orði komast, leggja rækt við iðkun og siðferði. Hugrækt er kjarninn í starfseminni. Mannrækt og sálfræði eru í fyrirrúmi. Gautama Budda hafði fyrirlitningu á vangaveltum og heilaspuna, en réðist mun harkalegar gegn græðgi og reiði. Dyrnar að því sem við leitum, opnast ekki nema með hugrækt. Ég er ekki í miklum vafa um, að nútíma djúpsálarfræði er einmitt eitt besta tækið í þessu efni og hittir beint í mark.
Með því að sjá hvert stefna skal, er einfalt að notfæra sér sálfræðiþekkingu, sem við búum þegar yfir. Með hverju skrefi verðum við frjálsari og færari til hvers konar afreka. Alfrjáls getur maðurinn allt. Ég ætla að ljúka þessu spjalli nú með því að vitna í orð Shankara:
“Alheimurinn er mettaður af Atman, en ekkert mettar hann. Atman lætur alla hluti skína, en allri hlutir megna ekki að láta hann skína.”
“Við verðum sjálf að kynnast og þekkja eðli okkar eiginn veruleiks, honum kynnumst við ekki í gegn um kennara. Á sama hátt getum við aðeins kynnst lögun mánans með okkar eigin augum. Hvernig gætum við kynnst henni með annarra augum.”
“Hver nema Atman getur losað bönd vanþekkingar, ástríðu og sjálfhverfu?”
“Veiki verður ekki læknuð með því að nefna nafnið á lyfinu, heldur með því að taka lyfið inn. Frelsun næst ekki með því að endurtaka orðið “Brahman”, heldur með beinni upplifun á Brahman.”
“Sannleikann um Brahman má í sjálfu sér skilja. En jafnvel í þeim sem skilja, á óskin um persónulegan aðskilnað sér djúpar rætur og hún er öflug, enda hefur hún verið til frá upphafi. Slík ósk skapar viðhorfið: “Ég er gerandi, ég er sá er upplifi.” Þessi hugmynd er sú, er heldur okkur í fjötrum og í heimi hins skilyrðisbundna veruleik, lífi og dauða. Kleift er að fjarlægja hana með því að leggja sig einlæglega fram við að lifa stöðugt í sameiningu við Brahman. Hinir vitru nefna afnám þessarar hugmyndar og löngunar eftir persónulegum aðskilnaði frelsi.”
“Þekkingarskortur veldur því að við samsömum okkur líkamanum, egoinu, skynjunum og öllu því, sem ekki er Atman. Sá er vitur, sem losar sig við þessa vanþekkingu með því að helga sig Atman.”
“Þótt Brahman sé einn, er hann þó orsök hins marga. Engin önnur orsök er til. Þó er Brahman óháður orsakalögmálinu. Slíkur er Brahman og þú ert þetta. Hugleiddu þennan sannleika í vitund þinni.”
“Þegar við erum upptekin af hinum veraldlegu hlutum, holdinu eða siðvenjunum, getur þekkingin á veruleikanum ekki komist að í okkur. Hinn vitri segir, að þessi þrefalda árátta sé eins og járnhlekkir, sem binda fætur þess, sem sýnir viðleitni í að sleppa úr fangelsi þessa heims. Sá sem losar sig við þessa hlekki öðlast frelsi.”
Í einum hinum elstu Upanishada Chandogya Upanishad, er eftirgreind frásögn:
“Þegar Svetaketu var tólf ára gamall, var hann sendur til kennara, sem hann lærði hjá til tuttugu ára aldurs. Eftir að hafa lært allar Vedabækurnar, sneri hann aftur heim fullur hroka í þeirri vissu að hann væri uppfullur af lærdómi. Var hann dómharður mjög.
Faðir hans sagði við hann: “Svetaketu, barnið mitt, þú sem ert svo fullur lærdóms og aðfinnslusemi, hefur þú leitað að þeirri þekkingu, sem gerir okkur kleift að heyra hið óheyranlega, skynja hið óskynjanlega og þekkja hið óþekkjanlega.
Hver er sú þekking, herra, spurði Svetaketu.
Faðir hans svaraði: “Með því að þekkja leirklump, þekkjum við allt það sem er gert úr leir. Munurinn verður aðeins á nafni, en sannleikurinn er sá, að allir leirmunir eru úr leir þannig, barnið mitt, er þessi þekking, þekking sem við höfum öll.
En vissulega vita hinir æruverðugu kennarar mínir ekki um þessa þekkingu, því ef þeir hefðu um hana vitneskju, hefðu þeir látið mér hana í té. Vilt þú, herra, veita mér hana.
Verði svo, sagði faðirinn og hann mælti: “Færið mér aldin þessa nyagrodha trés þarna”.
“Það er hér”, herra.
“Kljúfðu það.”
“Það er klofið” herra.
“Hvað sérðu þar?”
“Nokkur fræ, herra, mjög smá.”
“Brjóttu eitt þeirra.”
“Það er brotið, herra.”
“Hvað sérðu þar?”
“Ekkert, herra”.
Faðirinn sagði: “Sonur minn, þessi ósýnilegi, sem þú getur ekki greint er sjálfur kjarni hins mikla nyagrodha-trés sem það er sprottið af. Allt sem lifir á rætur sínar í veruleikanum, hinum innri veruleika. Hann er sjálfið - og einnig þú Svetaketu, ert hann.”
“Ég bið þig, herra, að segja mér ennþá fleira.”
Sem þú vilt, barn mitt,” svaraði faðirinn.
“Settu þetta salt í vatnskerið og bíddu mín hér á morgun.”
Sonurinn gerði, eins og honum var sagt.
Næsta dag sagði faðirinn: Færðu mér saltið, sem þú settir í vatnið í gær.”
Sonurinn fann það auðvitað ekki, því að saltið hafði samlagast vatninu.
Faðirinn sagði þá: “Hvaða bragð er af þessu vatni á yfirborðinu?”.
“Það er salt,” sagði sonurinn.
“Hvaða bragð er af því í miðju þess?”
“Það er salt”, sagði sonurinn”
“Hvaða bragð er af því við botninn?”.
“Það er salt”, sagði sonurinn.”
“Helltu því niður og bíddu mín hér á morgun.”
Hann gerði svo, en saltið var þá ekki horfið, því salti verður ekki eytt.
Þá mælti faðirinn: “Ekki heldur hér í þessum líkama skynjar þú andann, sonur minn, en hann er þar þó, því að allt, sem lifir, á rætur sínar í veruleikanum, hinum innri veruleika. Hann er sjálfið, einnig þú, Svetaketu, ert hann.”
COPYRIGHT © 2012 LIFSPEKIFELAGID.IS