V STOLTIÐ

5.0 SJÁLFSÍMYND.
5.1 GERVISTOLT.
5.2 VIÐBRÖGÐ VIÐ SÆRÐU STOLTI.
5.3 VIÐLEITNI TIL AÐ VERNDA STOLT.
5.4 VIÐREISN STOLTS.
5.5 STOLT OG HEFNDARSIGUR.

5.0 SJÁLFSMYND

Egoið er ímynd. Það er hugurinn sem skapar eininguna og aðgreininguna, ég er ég og þú ert þú. Um leið verðum við að vera eitthvað. Slíkt gerist aðeins í eigin huga. Við búum til ímynd um það, sem við höldum að við séum og einnig um það, hvað við ættum og gætum verið. Ímyndin er auðvitað alltaf tilbúningur og venjulega samræmist hún ekki heldur hlutveruleikanum, jafnvel þótt hann væri ekki álitinn blekking, því alltaf er um ýkjur að ræða. Þótt þetta sé ímynd, hefur hún afgerandi áhrif á persónuleikann. Það fer eftir áhugasviði okkar og markmiðum, hvað er ýkt. Ímyndin og markmiðin haldast í hendur. Raunsjálfið verður þá alloft fyrirlitlegt, og þar sem ekki er á það horft frá sjónarmiði veruleikans heldur ímyndunar og óskhyggju, verður viðhorfið til þess óraunhæft og fráhrindandi. Gagnstætt hugsjónum og háleitum markmiðum, er sjálfsímyndin venjulega óbreytileg og stöðnuð. Hugsjónir eru nauðsynlegar öllum þroska og þróun, en sjálfsímyndin er stöðnuð og föst hugmynd, sem við venjulega höfum dálæti á. Sjálfsímyndin stendur oftast í vegi fyrir þroska, því hún ýmist afneitar göllum okkar eða fordæmir þá. Hugsjónir fela í sér viðurkenningu og lítillæti, en sjálfsímyndin er drambsöm. Sjálfsímyndin er kjarni egosins. Hana er erfitt að uppræta. Okkur veitist jafnvel mjög erfitt að draga úr henni. Hún er að margra dómi mesta fyrirstaðan á leið til þroska. Verður ekki hjá komist að víkja nokkrum orðum að hlutverki hennar.

Sjálfsímyndin kemur venjulega að miklu leyti í stað eðlilegs sjálfstrausts og sjálfsálits. Eðlilegt sjálfstraust byggir á eiginleikum okkar og kostum. Hvað til þeirra telst, fer að verulegu leyti eftir þjóðfélagsviðhorfum á hverjum tíma. Hæfileiki til að hafa sjálfstæðar skoðanir og að geta fylgt þeim eftir í raun, eflir sjálfstraust. Einnig eflir sjálfstraustið að geta reitt sig á sjálfan sig með því að byggja á innri styrk, að bera ábyrgð á eigin gerðum, meta af raunsæi eigin eiginleika og kosti sem og ókosti og takmarkanir, að hafa auk þess til að bera tilfinningastyrk og hreinskilni og hæfni til að stofna til tengsla við aðra og rækta þau. Ef hér skortir eitthvað á, verður sjálfstraustið fallvalt. Eðlilegt sjálfsálit byggir á traustum grunni. Það getur byggst á réttmætri virðingu fyrir sérstökum afrekum, svo sem siðferðilegu þreki og hugrekki eða góðu verki, tilfinningu fyrir gildi okkar og sæmd. Yfirleitt er eðlilegu sjálfsáliti og sjálfstrausti ekki að heilsa. Liggja til þess margar ástæður.

Til að byggja upp hið ímyndaða ego í upphafi, þarf stuðning, hlýju, umhyggju, vernd annarra og traust, þ.e. bæði traust á öðrum og sjálfum sér. Þessu er sjaldnast að heilsa vegna þessa, að þeir sem veita ættu þessi gæði eru sjálfir uppteknir við viðhald á eigin egoi, sem einnig á í vök að verjast af eðlilegum ástæðum. Egoið er í upphafi takmarkað og vafasamt, þótt það sé praktískt og nauðsynlegt. Egoið er ómissandi í heimi hlutveruleikans og gegnir þar sínu eðlilega hlutverki. Án þess að fara útí heimspekileg sjónarmið, skal þó bent á að egoið er aðeins tilbúningur hugans, en ekki hinn hinsti veruleiki. Því verður það alltaf í eðli sínu fallvalt og veldur kvíða, þótt ekkert annað komi til. Slæm áhrif í æsku bæta ekki úr. Aðdáun, ávítur, uppgerðarástúð, hatur og minnimáttarkennd í heimi, þar sem egoin keppa innbyrðis og reyna að rífa hvert annað niður, og þar sem lítil hlýja er og sjálfstæði þykir hlægilegt, veldur því að egoið telur sér trú um, að það sé ekkert nema það sé eitthvað, sem það er ekki. Aðrir hjálpa einnig til og ýta undir þetta ranga viðhorf, með öðrum hætti, svo sem með skjalli og oflofi.

Egoið veldur því snemma á ævinni, að við verðum viðskila við okkar eigið Sjálf. Við verðum því andlega skipt. Við viljum margt ósamþýðanlegt í senn, en það er veruleiki, sem sprettur af hugsun. Sjálfsímyndin, þar sem við gyllum og fegrum í hvívetna fyrir okkur sjálfum, gegnir því hlutverki að lyfta huga okkar yfir hinn hráa hlutveruleik. Upphefðin er að mestu huglæg, en stundum að nokkru leyti raunveruleg. Í staðinn fyrir eðlilegt sjálfstraust og sjálfsálit kemur sjálfsímynd, fegruð meira eða minna, falskt sjálfstraust eða sjálfsálit, þ.e. gervistolt, sem er sjálfsálit, byggt á ímynduðum verðleikum. Munurinn á eðlilegu stolti og gervistolti er ekki spurning um magn, heldur gæði. Gervistolt byggist á þörf egosins fyrir að upphefja sig yfir aðra eða að gylla sig á einhvern hátt. Það geta verið ytri eiginleikar, eins og þjóðfélagsleg virðing eða eiginleikar og hæfileikar, sem við teljum okkur trú um að við höfum.

Það eru gömul sannindi, að himnaríki kemur ekki utan frá. Hversu fullkomin, sem við teljum okkur vera eða geta orðið, þá skortir okkur það sem við þráum mest, sjálfstraust og sjálfsálit. Við getum verið guðum lík í ímynduninni og öðlast frægð og frama, en við erum samt alltaf óörugg. Við þurfum sífellt ytri staðfestingu og ef við missum völd og virðingu, þá finnum við óöryggið. Séum við í annarlegu umhverfi, bregðist stuðningur eða við gerum mistök, þá hrynur öll upphefðin, öll kætin, gleðin og sjálfsánægjan, sem sjálfímyndin hafði byggt upp.

Eitt hlutverk sjálfsímyndarinnar felst í þörf okkar fyrir að vera eitthvað sérstakt. Við lifum ekki í tómarúmi, heldur innan um fólk, sem sífellt er að svíkja aðra og lítillækka o. s. frv. Við höfum því þörf fyrir að bera okkur saman við aðra, ekki af hégóma einum saman, heldur af nauðsyn. Þar sem okkur finnst stundum sem við séum lítils virði, leitum við ósjálfrátt að einhverju, sem gerir okkur betri eða meira virði. Löngun til yfirburða í einhverju birtist þá meðal annars oft á þann hátt að við viljum sigra aðra í einhverju. Við höfum áður nefnt hefndarsigur og hann felur í sér þörf fyrir að vera eitthvað sérstakt. Sjálfsímyndin getur því gegnt mikilvægu hlutverki í þessu efni.

Segja má að við séum oft ráðvillt og vegalaus. Sjálfsímyndin gefur visst innihald og tilgang í lífinu og hún veitir okkur leiðsögn. Við sjáum best hversu ráðvillt við verðum og rugluð, þegar grafið hefur verið undan sjálfsímyndinni. Þá sjáum við hvað raunverulegar hugsjónir og markmið eru í raun, en sjálfsímyndin kemur í stað sannra hugsjóna. Þá hefur sjálfsímyndin það hlutverk, að með henni getum við málað yfir galla og ókosti, sem við viljum ekki sjá í okkur. Galla og ókosti viljum við ekki sjá, af því þeir eru andstæðan við ímynd okkar og markmið. Við breiðum einnig yfir árekstra og klofning í persónuleikanum, allt sem er ósamkvæmt og stangast á í honum. Í raun er sjálfsímyndin oft eins konar listaverk, þar sem mótsagnir eru sættar og sameinaðar eða að minnsta kosti virðist svo á yfirborðinu. Við tölum um litríka persónuleika og margar hliðar á sama persónuleika o. s. frv. Sjálfsímyndin hefur þannig margþættu hlutverki að gegna. Hún hefur mikið huglægt gildi og heldur persónuleikanum saman. Þó sjálfsímyndin fyrirfinnist aðeins í huga viðkomandi, hefur hún þó mikil áhrif í samskiptum manna.

Sjálfsímyndin er ekki hið raunverulega Sjálf. Hún er tálmynd og jafnframt hluti egosins. Óskhyggjan ræður sköpun hennar, einnig hjá þeim, sem teljast raunsæir efnishyggjumenn. Sjálfsímyndin er venjulega sambland af ímyndun og veruleik, Hún hefur að geyma markmið okkar og í hana eru ofnar hugsjónir okkar. Sjálfsímyndin verður til af nauðsyn og hefur ákveðnu hlutverki að gegna. Hún hefur mikil áhrif á skapara sinn og aðra.

En þótt sjálfsímyndin sé byggð á tilbúningi og hugmyndaflugi er hún raunveruleg í augum okkar. Við viljum ekki missa af henni og bregðumst hart við ef að henni er vegið. Án sjálfsímyndar finnum við okkur vegvillt og ráðlaus, jafnvel andlega dauð. Sá möguleiki, að verða að meiri manni og meira virði en allur mikilfengleiki sjálfsímyndarinnar, er að vísu guðspjall, sem lætur vel í eyrum, en hefur samt enga merkingu. Það er stökk út í óvissuna, sem fáir þora að taka. Í raun er yfirleitt ókleift að ráðast gegn sjálfsímyndinni, nema vegna hinna miklu ókosta hennar. Oftast uppgötva menn þá ekki fyrr en eftir langa og stranga reynslu, sem kemur oft ekki fram fyrr en á miðjum aldri. Jung hefur bent á erfiðleika og uppgjör fólks eftir að hafa náð fertugs aldri.

Sjálfsímyndin er spilaborg hugmynda, sem getur hrunið hvenær sem er. Í henni er falin sprengja og varnarleysi. Gagnrýni, mistök og sérhver innsýn laskar ímyndina. Þá eru oft gerðar ráðstafanir til verndar og forðast allar aðstæður, þar sem hættu má vænta. Mesti galli sjálfsímyndarinnar er auðvitað, að með henni yfirgefum við Sjálf okkar og bælum þannig niður og kæfum eiginn veruleik og kjarna. Við reynum jafnvel að útrýma honum. Við missum áhuga á lífinu, af því að við lifum því ekki sjálf, við getum ekki tekið ákvarðanir, af því við vitum ekki hvað við viljum.

Sjálfsímyndin er steinbarn, sem við göngum með í brjóstinu og mikill léttir er að losna við. Hrikalegasti háskinn við sjálfsímyndina er sá, að við byggjum upp mynd, sem við setjum gagnstætt veruleikanum, Sjálfinu. Með því ætlum við að leysa vandræði okkar, en með því hefjast þau fyrir alvöru, því við snúumst gegn eigin Sjálfi, innri veruleik okkar og því sem máli skiptir í þessum heimi. Við hættum að læra og missum áhuga á raunverulegum þroska okkar. Við höldum jafnvel, að þroskinn sé fólginn í að skapa fullkomnari ímynd og nálgast hana.

Okkur er því nauðsynlegt að vera meðvituð um sjálfsímynd okkar í smáatriðum, skilja hlutverk og gildi hennar og finna, hversu mikið við þjáumst undir henni. Þá sjáum við, að hún er of dýru verði keypt. En við losnum ekki við sjálfsímyndina, nema við getum minnkað þær þarfir, sem sköpuðu hana.

5.1 GERVISTOLT.

Við gerum okkur gildismat, sem ákveður hvað við höfum í heiðri og hverju við höfnum, forðumst og fyrirlítum. Gervistolt byggist alltaf á hinni dýrðlegu útgáfu sjálfsímyndarinnar. Annað hvort eru það ytri kostir svo sem orðstír, álit, virðing og upphefð eða eiginleikar og hæfileikar, sem við teljum okkur hafa.

Af þessum kostum virðist þjóðfélagslegt álit eðlilegast. Það gera þjóðfélagshættirnir. Að vera stoltur af því að tilheyra mætum félagsskap, vera vinsæll, hafa samskipti við mikilvæga menn, eiga stórt hús og góðan bíl o. s. frv., telst eðlilegt í okkar þjóðfélagi. Þessir hlutir skipta þó suma engu máli, en aðrir eyða allri orku sinni í eftirsókn eftir þessum gildum. Auðvitað segjast þeir helst hafa áhuga á málefninu og telja eðlilegt að sóst sé eftir frama. En sjálfir rísa þeir og falla með velgengni sinni í þessum efnum og þótt hugur þeirra sé yfirfullur af hugleiðingum um þessi efni, sjá þeir ekkert athugavert við það af þeirri einföldu ástæðu að viðhorfið er svo almennt og inngróið í menningu okkar. En vissulega er á ferðinni hættulegur sjúkdómur, sem gerir fólk tækifærissinnað og óheilt. Hér eru ekki á ferðinni eðlilegir hlutir, heldur alvarleg truflun, þar sem stoltið byggist á þáttum, sem liggja utan við okkur. “Enginn skyldi hreykja sér af hesti sínum”, sagði Epiktet.

Gervistolt byggist ennfremur á eiginleikum, sem við ímyndum okkur að við höfum, þeim eiginleikum og hæfileikum, sem tilheyra sjálfsímyndinni. Við erum yfirleitt ekki stolt af því, sem við raunverulega erum. Við erum jafnvel ekki hreykin af hæfileikum okkar. Við höfum takmarkaða vitund um þá og afneitum þeim jafnvel. Erum við t.d. hreykin af vinnusemi okkar eða viðleitni til þroska? Á hinn bóginn erum við oft hreykin af afrekum og hæfileikum, sem við í raun höfum ekki. Sumir halda, að þeir afklæðist persónuleikanum, ef þeir verða að breyta sjálfsmatinu smávegis. Sumir eru hreyknir af ímyndun sinni og fyrirlíta þar með hversdagslegt fólk, sem puðar við að leita sannleikans. Almennt er stoltið þó oftast tengt skynsemi, gáfum, rökhyggju og viljastyrk. Það er eðlilegt, ef litið er til þess, að sjálfsímyndin er einmitt tilbúningur hugans. Allt snýst um vald hugans. Því fjarlægari, sem við erum Sjálfi okkar, þeim mun meiri veruleiki verður hugurinn. Sumir hafa nánast enga tilvist utan hugans. Þeir sjá veruleikann í spegli hans eða sem hugsanir sínar um heiminn og sig sjálfan. Því er eðlilegt að menn verði stoltir af gáfum og yfirburðum hugans.

Við getum verið stolt af að orðið er við kröfum okkar, af heilsuhreysti eða heppni, góðu veðri í velheppnuðu sumarleyfi. Einnig af því að fylgja kröfum eftir, t.d. að fá lán, fyrirgreiðslu, samúð eða að hafa stjórn á öðrum. Stolt getur verið bundið skyldusjónarmiðum. Oft sýnist slíkt stolt traust á yfirborðinu, en er þrungið yfirskini og uppgerð. Sá sem telur sig fullkomið foreldri er það venjulega í ímynduninni einni. Sá sem þykist vera mjög heiðarlegur, segir ekki beinlínis ósatt, en er oft fullur af dulvituðu óhreinlyndi. Sá sem þykist óeigingjarn og er stoltur af því, gerir ekki augljósar kröfur, en notar hjálparleysi sitt og þjáningu í staðinn. Hömlur á að hafa sig í frammi eða láta að sér kveða, telur hann gjarnan vera innbyggða hógværð. Sumir eru stoltir af prútti sínu, aðrir af því að prútta aldrei og svo mætti lengi telja.

Það getur orðið tilefni stolts að staðlar séu háleitir og strangir. Sumir vita ævinlega, hvað gott er eða illt og telja sig hafa siðferðislega yfirburði. Oft liggur stoltið í vitneskjunni einni saman um það, hvað sé siðferilega rétt. Stoltið á ekki rætur að rekja til siðferðisins sjálfs, heldur siðferðiskrafnanna. Ef slíkur maður ásakar sig fyrir siðleysi og þjáist undan því, er það aðeins tákn um yfirburði siðferðilegrar vitundar hans. Þannig viðheldur hann stoltinu.

Í raun getur hvað sem er orðið tilefni stolts. Það sem einn telur kost, finnst öðrum löstur. Sumir eru stoltir af að geta blekkt náungann, aðrir hafa á því skömm. Sumir eru stoltir af að treysta fólki, aðrir af því að vantreysta því o. s. frv. Þetta virðist ruglingslegt, en í raun fylgir stoltið alltaf sjálfsímyndinni. Þarfir verða þá kostir eða þeim er breytt í kosti, sem við erum stolt af. Á hinn bóginn er því hafnað, sem gengur þvert á sjálfsímyndina. Við gerumst þá býsna frjálslegir myndasmiðir og málum í sterkum litum, það sem við teljum æskilegt, en allt annað ekki í áberandi litum, ef við málum ekki yfir það. Ósamkvæmni verður þá frelsi, uppreisn gegn siðastöðlum hefur okkur yfir fordóma, hömlur á að gera eitthvað fyrir okkur sjálf verður að ósérplægni og óeigingirni, þörf fyrir að friðmælast verður að góðleika, ósjálfstæði að ást, hagnýting annarra að eigin kænsku, svo dæmi séu tekin. Hæfni í að ná fram sínum kröfum, kallast þá styrkur, hefndarsigur verður réttlæti, að svekkja aðra verður að slungnu vopni, verkleiði verður andstaða gegn vinnuþrælkun o. s. frv.

Meðan við lifum í sjálfglöðum draumi, getum við ekki verið sjálfum okkur trú. Bilið milli sjálfsímyndar og Sjálfs verður ekki brúað. Engin millilausn er til. Ef við lifum í heimi ímyndunaraflsins, þar sem við leitum eigin upphefðar, spilum við með gildismat okkar. Með því að leita upphefðar á einn eða annan hátt hverfum við frá Sjálfinu og hættum leit að sjálfsþekkingu og hins hinsta veruleika. Gervistolt er aldrei annað en tvöfeldni. Ef við vitum að stolt okkar tilheyrir einvörðungu sjálfsímynd okkar, eigum við í raun auðvelt með henda reiður á því. Þær tilhneigingar, sem þjóna sjálfsímynd og markmiðum, veita stoltinu brautargengi. Stolt og sjálfsímynd haldast alltaf í hendur.

5.2 VIÐBRÖGÐ VIÐ SÆRÐU STOLTI.

Við höfum minni áhuga á að kanna stolt okkar, heldur en það sem stendur í veginum fyrir vexti þess. Okkur þykir ekkert athugavert við það, sem við erum stolt af, einkum vegna þess að við teljum það einmitt sýna yfirburði okkar. Við finnum þó til ósveigjanleika þess, truflunar í samskiptum manna og orkueyðslu. Við vitum að eftirsókn okkar er oft eftir vindi, og að við gætum gert ýmislegt gagnlegra. Stoltið er byggt á sandi og getur hrunið eins og spilaborg við minnsta gust. Við erum særanleg að sama marki sem við erum stolt. Stolt okkar má særa innan frá og utan frá. Annað hvort finnum við til lítillækkunar eða við skömmumst okkar. Ef við gerum, hugsum eða finnum eitthvað, sem særir stolt okkar skömmumst við okkar. Ef aðrir særa stolt okkar eða uppfylla ekki kröfur þess, finnum við til lítillækkunar. Þegar við því finnum til lítillækkunar eða skömmumst okkar, skyldum við spyrja þessara spurninga: Hvað orsakaði þessi viðbrögð og hvaða stolt var sært? Milli þessara spurninga er samhengi og oft er erfitt að svara þeim. Sama atvikið getur leitt til hvoru tveggja, lítillækkunar og tilfinningar fyrir skömm, þótt annað hvort hafi jafnan yfirhöndina. Ef athugasemd fær ekki undirtektir, getur viðkomandi fundið til lítillækkunar og hugsað sem svo, að viðmælendur hans séu heimskingjar, sem skilji hann ekki eða hann skammast sín fyrir klaufaskap og ráðaleysi. Ef einhver hagnast á honum, getur honum fundist það lítillækkun eða skömm að hafa látið snúa á sig, svo dæmi séu tekin.

Við teljum oft að ytri aðstæður ráði um það, hvort við skömmumst okkar eða verðum fyrir lítillækkun. T.d. þykir eðlilegt, að maður skammist sín, ef hann er staðinn að ósannindum. Ekki er svo með alla. Sumum finnst slík uppákoma lítillækkandi og sá lítillækki, sem uppgötvaði ósannsöglina. Viðkomandi snýst þá gjarnan gegn þeim, sem sá í gegn um ósannindin. Það fer því eftir persónuleikanum en ekki atburðunum, hvort viðkomandi finnst atvik lítillækkandi eða hann skammast sín. Ekki eru tök á að lýsa einstökum persónuleikum hér, en í stuttu máli má segja, að sumir réttlæta svo gerðir sínar, að þeim finnst þeir aldrei gera mistök. Þeirra stolt verður aðeins sært utan frá. Aðrir finna eingöngu til skammar og sektarkenndar. Það eru einkum þeir, sem reyna sífellt að uppfylla skyldur sínar og horfa sífellt á mistökin eða skyldur, sem þeim hefur ekki tekist að gegna.

Þar sem viðbrögð við særðu stolti eru oftast augljós, ætti að vera auðvelt að draga ályktanir af þeim. Annað hvort ætti tilefnið eða sjálft stoltið jafnan að liggja í augum uppi. Maður ætti að geta kannað sjálfan sig í þessu efni. En viðbrögðin eru oft óljós og það gerir málið erfiðara. Ýmislegt getur valdið því að við finnum ekki særindin, þegar vegið er í stolt okkar. Við höfum áður nefnt eigin réttlætingu og að sumir telja sig ósæranlega og gangast upp í því. Eru þeir jafnvel stoltir af ósæranleik sínum. Telja sig jafnvel yfir það hafna að særast og svo sterka, að þeir þoli allt. Ef þeir því verða fyrir lítillækkun vegna móðgana annarra, finnst þeim skömm að því. Þeir verða því á yfirborðinu aðeins skapstyggir. Sumir verða hryggir eða vonsviknir. Aðrir verða órólegir eða vandræðalegir og enn aðrir finna til sektarkenndar.

Algengustu viðbrögðin eru hins vegar ótti og reiði. Allt frá óvelvild eða hatri til ertingar eða ofsareiði. Þetta er þó ekki alltaf afleiðing af særðu stolti, þó algeng sé. Sérstaklega er þetta augljóst, ef fjandskapurinn býr yfir fyrirlitningu, lítilsvirðingu eða þeim ásetningi að lítillækka. Þá er ætlunin að hefna. Sá sem er lítillækkaður svarar í sömu mynt. Ef við gættum þess oftar, að móðgandi eða særandi framkoma stafar af særðu stolti, gætum við sparað okkur mörg vandræðin með því að taka tillit til ástæðunnar fyrir hinu særða stolti. Við snúum oft fjandskap, hatri og fyrirlitningu vegna særðs stolts að okkur sjálfum, ef við höfum það á tilfinningunni að hafa sært það sjálf. Þá koma upp sjálfsásakanir, sem geta verið heiftarlegar. Umfjöllun um það atriði verður að bíða næsta þáttar.

Í síðasta þætti var rætt um ótta við lítillækkun sem fylgt getur mistökum. Ótti við mistök og þar með skömm og lítillækkun hefur lítið með raunverulegu mistökin að gera, því þau eru huglæg atriði og aðallega er um að ræða ótta við að stolt verði sært. Þetta á meðal annars við um það þegar við viljum koma vel fyrir gagnvart öðrum eða þegar við byrjum á nýju starfi eða verkefnum, þreytum próf eða komum opinberlega fram. Þetta er eins konar sviðsskjálfti, sem er fólginn í ótta við að okkur heppnist ekki eins vel og innri skyldur krefjast. Við óttumst því, að stolt okkar verði sært. Sama gildir, þegar fyrir liggur að stolt okkar verði hugsanlega sært vegna höfnunar, t.d. ef við nálgumst hitt kynið, biðjum um launahækkun o. s. frv. Algengt er að slíkur ótti um sært stolt komi fram, eftir að við höfum verið móðguð eða okkur finnst sem við höfum orðið okkur til skammar.

5.3 VIÐLEITNI TIL AÐ VERNDA STOLT.

Þar sem koma verður í veg fyrir að stoltið verði sært í framtíðinni, gerum við ýmislegt því til verndar. Þetta gerist mest sjálfkrafa. Við gerum okkur stundum ekki ljóst, að við forðumst athöfn eða starf, vegna þess að það gæti sært stolt okkar. Þetta tekur einnig til sambands og samstarfs við fólk og hvers konar viðleitni, sem heft er. Margir leggja ekki út í verk, sem er í samræmi við hæfni eða getu þeirra, af ótta við mistök eða að árangur verði ekki eftir vonum. Þeir þora ekki að byrja, nálgast hitt kynið, taka þátt í félagslífi, gera eitthvað skapandi eða sýna framtakssemi af ótta við ófullnægjandi árangur. Þá er gjarnan snúið í hina áttina og viðkomandi dregur sig inn í skelina og gerist, sjálfum sér nógur, að eigin mati. Þar sem hann þolir þó ekki að dragast aftur úr öðrum, einangrar hann sig enn frekar, lifir í eiginn hugarheimi og finnur sér afsakanir. Þessi lýsing er ýkt og fleira en stolt kemur til.

Við forðumst oft ákveðin svið. Við getum verið athafnasöm á vissum sviðum, einkum þegar framavon er annars vegar, en full af hömlum á öðrum sviðum. Sumir geta verið athafnasamir í starfi sínu en ekki félagslífi og stundum er þessu öfugt farið. Enn öðrum finnast kynmök lítillækkandi eða til vanvirðu og forðast þau þess vegna, en stolt er í mörgu tilliti andstæða ástar. Sumir geta ekki talað opinberlega, hringt í ókunnuga o. s. frv. Viðkomandi finnur að hann er að hliðra sér hjá eða hlífa sér við einhverju, en óljóst viðhorf hans er eitthvað á þá lund, að hann geti ekki hlutina eða sé sama um þá.

Tvennt má nefna, sem einkennir þessa viðleitni til að vernda stolt. Annars vegar tryggjum við öryggi okkar með því að takmarka lífsháttu okkar. Við teljum öruggara, að falla frá og afsala okkur frumburðarréttinum, draga okkur í hlé, fremur en að tefla stolti okkar í hættu. Það fer ekki á milli mála, að stoltið er okkur mikilvægt fyrst við erum reiðubúin að takmarka svo líf okkar. Hin aðferðin til að vernda stoltið felst í því, að við teljum öruggara að reyna ekki, þ. e. að gera ekki tilraun, heldur en að gera tilraun sem mistekst. Þetta síðarnefnda viðhorf innsiglar endanlega þessa viðleitni til að leiða hjá sér. Með því erum við svipt þeim möguleika að geta smátt og smátt komist yfir erfiðleika okkar og vandamál.

Sú viðleitni okkar að draga okkur í hlé, særir svo stolt okkar enn meir síðar. En við hugsum oft ekki langt fram í tímann, þegar stolt er annars vegar, heldur lítum við gjarnan aðeins til þeirrar hættu, sem við blasir. Ef engin tilraun er gerð hér og nú, þá verðum við okkur ekki til vansæmdar og við finnum upp afsakanir. Sumir hugga sig við það, að þeir hefðu væntanlega náð árangri, hefðu þeir reynt.

Hjá sumum gengur þessi tilhneiging til að leiða alla viðleitni hjá sér, svo langt, að það nær til alls sem æskilegt er talið, þ.e. til nær allra óska. Þeim finnst lítillækkun að öðlast ekki það, sem þeir óska sér. Einföld ósk boðar þá að hætta sé á ferðum. Slíkar hömlur á óskum draga að sjálfsögðu úr lífsgleði og lífsþorsta. Sumir forðast allar þær hugsanir, sem sært gætu stolt þeirra. Sú hugsun að þurfa að eldast og deyja, eins og aðrir menn, er óþolandi fyrir marga. Þeir forðast því mjög að hugsa um dauðann.

5.4 VIÐREISN STOLTS.

Stoltið er mikilvægt, en gerir okkur viðkvæm og særanleg. Þegar stolt okkar er sært, er það venjulega svo óbærilegt, að við gerum sérstakar ráðstafanir til úrbóta. Við reynum að reisa það úr rústum. Við þurfum þá að bjarga andlitinu með einhverjum hætti og við gerum það með ýmsu móti. Algengust er hefndin, sem margir telja árangursríkasta. Þá lítum við svo á, að með því að ná sér niðri á þeim, sem lítillækkaði okkur, reisum við eigið stolt við. Hugsunin bak við viðhorfið er þessi: Þar sem sá er móðgaði okkur hafði vald til að særa stolt okkar, setti hann sig ofar okkur og sigraði okkur. Með því að særa hann meira en hann særði okkur, hefnum við okkar og snúum taflinu við. Við sigrum hann. Markmið hefndar er ekki að verða jafn, heldur að sigra með því að höggva harðar til baka. Ekkert minna en sigur getur endurreist hinn ímyndaða mikilleik, sem stoltið hefur að geyma. Þessi eiginleiki hefndarinnar að geta endurreist stolt, skýrir vinsældir hennar og hversu fastheldnir menn eru á hana.

Sumir eru sérstaklega stoltir af því að geta hefnt sín, og þannig verður hæfileikinn til að hefna sín bundinn stolti. Honum er jafnað við styrkleika. Ef menn geta ekki hefnt sín, er það talið veikleiki. Hefndarsigur er einn þáttur egosins og í leit að upphefð. Honum var lýst í síðasta þætti. Um er að ræða vítahring, þar sem hefndarsigur eykur á viðleitni til upphefðar og stolts. Aukið stolt eykur aftur á þörf fyrir hefndarsigur, og þannig koll af kolli. Ég vík nánar að stolti og hefnd hér á eftir.

Með því að missa áhugann á því fólki og málefnum, sem særa stolt okkar, endurreisum við það að nokkru. Sumir hætta við íþróttir, stjórnmál, eða andleg áhugaefni af því að þeir geta ekki fullnægt þörf sinni fyrir fullkomnun eða að skara fram úr. Þeir átta sig ekki á því, hvað raunverulega hefur átt sér stað. Ellegar menn halda starfinu áfram áhugalausir eða þeir ná ekki því út úr starfinu, sem annars væri mögulegt. Gildar ástæður geta legið fyrir því, að okkur líkar ekki lengur við fólk, sem við héldum upp á áður, t.d. ef við höfum ofmetið það eða áhugamálin ganga í aðrar áttir. Oft er það þó svo, að stolt okkar hefur verið sært án þess að við veittum því sérstaka athygli, t.d. samanburður, virðingarleysi eða við höfum sjálf brugðist vonum viðkomandi.

Ýmsar aðrar leiðir eru til að endurreisa stolt. Ef við segjum eitthvað óviðeignandi, gleymum við því gjarnan, neitum að hafa sagt það eða erum viss um að við meintum annað en sagt var. Skylt þessu er að minnka eigin hlutdeild í óviðeigandi atburði eða verknaði, leggja áherslu á aðra þætti og túlka þá okkur í hag til að hvítþvo stolt okkar. Við búum líka til tylliafsakanir, t.d. að hafa ekki sofið eða hafa drukkið of mikið og einnig það að ásetningurinn hafi verið góður, þótt reyndin hafi orðið önnur, eða að við höfum ekki haft nægan tíma o. s. frv. Þótt afsakanir séu að vissu marki réttar, þá hafa þær oft því hlutverki að gegna að þurrka leiðindaatburðinn með öllu úr huga manna. Sumir halda að nóg sé að segja, að þeim þyki eitthvað leitt og þá sé allt komið í lag.

Allar þessar ráðstafanir hafa það að markmiði að afneita ábyrgð á sjálfum sér, þ. e. bjarga andlitinu með því að afneita ófullkomleika, göllum eða ljóði á ráði okkar. Við gleymum gerðum okkar, fegrum þær eða álösum öðrum. Í þessu sambandi verður að varast gervihlutlægni. Viðkomandi getur gefið nákvæma lýsingu á sjálfum sér, eigin göllum og því sem hann mislíkar í eigin fari og hann virðist glöggskyggn og heiðarlegur gagnvart sjálfum sér, en undir niðri er um að ræða gáfaðan einstakling, þ. e. athuganda, sem ekki ber ábyrgð á þeim sem hann hefur haft til athugunar. Af því að athugandinn ber ekki ábyrgð á hinum athugaða, þá er dregið úr sárindunum, einkum og sér í lagi af því að athyglinni er beint að hæfni viðkomandi til að skoða sjálfan sig.

Að lokum má nefna kímni sem bjargar oft andlitinu, þ. e. stoltinu. Það er merki um innra frelsi, er við viðurkennum erfiðleika okkar og getum brugðið á leik í því sambandi og jafnvel hent gaman að þeim. En sumir gera stöðugt grín að sjálfum sér og ýkja erfiðleika sína og vandamál til þess að þau verði skopleg, þótt þeir séu jafnframt mjög viðkvæmir fyrir allri gagnrýni. Í þeim tilvikum er kímnin m. a. notuð til að deyfa illþolandi skömm.

Þar sem stolt og hefnd eru nátengdir þættir og hefndarsigurinn er langmikilvægasta aðgerðin til viðreisnar stolti, verður ekki hjá komist að nefna þau mál nokkrum orðum hér á eftir.

5.5 STOLT OG HEFNDARSIGUR.

Þegar menn hafa hugmyndir um að verða óendanlega betri en aðrir í framtíðinni, að verða stórir og gera öðrum skömm til. Þegar þeir ætla að sýna að aðrir hafa misskilið þá og dæmt ranglega. Þegar þeir ætla að gerast hetjur, leiðtogar, rithöfundar, vísindamenn og öðlast óendanlega frægð. Þegar lífsstefnan mótast af að sigra og fara úr einum sigri í annan í litlu og stóru og menn lifa fyrir dag reikningsskilanna, þá skulum við gæta sérstakrar varúðar gagnvart hefndarsigri.

Þörfin fyrir hefndarsigur er einhver skaðlegasti þátturinn í starfsemi egosins. Hann getur verið bundinn metnaði, eins og lýst var í síðasta þætti og þá er markmiðið að sigra aðra eða gera þeim skömm, ná valdi og virðingu og lítillækka aðra eða láta þá þjást. En oft kemur þessi viðleitni einungis fram í huganum, eða ímyndunaraflinu. Þá sigrum við aðra og gerum þeim skömm í huganum. Upphaflega hefur þetta myndast í æsku, er við urðum fyrir barðinu á öðrum, en styrkleiki áráttunnar og vitund um hana er mjög breytilegur. Flestir hafa enga vitund um hana, en e. t. v. bregður slíkri vitneskju fyrir á vissum augnablikum.

Stundum er ekki farið í neinar felur með hana og hefndarsigur getur beinlínis verið lífstíll manna. Hitler upplifði lítillækkun í æsku og varði lífi sínu í að uppfylla ósk sína um að ráða yfir fólki í stöðugt vaxandi mæli. Þar var um að ræða vítahringi. Hann hugsaði aðeins í sigri og ósigri. Ótti við ósigur magnaði þörfina fyrir sigur og tilfinning hans fyrir mikilleik sínum, sem jókst við hvern sigur, gerði óþolandi að nokkur, jafnvel ekki þjóðir, viðurkenndu ekki mikilleik hans. Ótal dæmi mætti nefna, en þörfin fyrir hefndarsigur er yfirleitt hulin okkur. Af því að hefndarsigurinn er svo skaðlegur, er hann sá þáttur í leitinni að upphefð, sem rækilegast er falinn í huga okkar. Oft er metnaðurinn augljós og veittur forgangur, en á bak við liggur oft og einatt þörf fyrir að sigra aðra og lyfta sér yfir þá, þannig að metnaðurinn hefur gleypt í sig hefndarsigurinn. Þannig getum við líka komið hefndarsigrinum í framkvæmd og réttlætt hann.

Löngun til að svara fyrir sig og hefna sín með einum eða öðrum hætti er sterk. Þetta er oft ekki ósvipað löngun alkóhólistans til að detta í það. Skynsemi eða rök duga ekki og menn setja ekki fyrir sig, hvort kringumstæður séu viðeigandi eða ekki. Gætni er vikið til hliðar og ekki litið til afleiðinganna. Um er að ræða ástríðu eða áráttu, sem óþarft er að lýsa, því hana þekkja allir og hún kemur fyrir í hverri skáldsögu. Hamlet eða Moby Dick eru lýsandi dæmi um skáldlega innsýn í og lýsingu á hefndardarsigrinum. Þeir sem lifa undir niðri fyrir dag reikningsskilanna hafa oft í upphafi beint þessu viðhorfi að öðru foreldrana.

Sá sem ekki fær tækifæri til að fá útrás á reiði sinni, getur misst svefn, orðið óeirinn, þreyttur og niðurdreginn. Skiptir þá ekki máli, hvað kemur í veg fyrir hefnd, hvort það eru kringumstæður eða hömlur. Menn geta vaknað upp um miðja nótt fullir reiði yfir einhverju lítillækkandi atviki og verið sárir út í sjálfan sig fyrir að hafa ekki svarað fyrir sig. Ef hugmyndir gætu drepið, væri misgjörðarmaðurinn þá drepinn a. m. k. nokkrum sinnum. Tvennt getur þó valdið því, að mönnum verður óljós eigin þörf á hefndarsigri. Annað er stoltið sem fylgir því markmiði að ætla sér að taka öllu með jafnaðargeði og að hafa óendanlega þolinmæði. Hitt er, að sjálfsímyndin getur hamlað upplifun á hefndarsigri. Ef markmið manna er til dæmis góðleiki, sanngirni, víðsýni eða skynsemi, þá breiða menn gjarnan yfir hefndarsigurinn og bæla hann.

Hvað veldur því, að hefndarsigurinn er slík þvingandi nauðsyn, sem raun ber vitni? Freud leit til reiðinnar og fjandskapsins, en fjandskapurinn einn út af fyrir sig er ekki næg skýring. Meginástæður þessarar reiði og illsku eru þrjár. Í fyrsta lagi sært stolt. Í öðru lagi útvörpun sjálfshaturs og sjálfsfyrirlitningar. Þar sem menn þurfa að réttlæta fjandskap sinn, þ. e. finna gildar ástæður fyrir honum gagnvart sér og öðrum, hafa menn tilhneigingu til að verja viðhorf sín og gerðir, sem aftur skapar vítahring. Í þriðja lagi kemur til vonleysi, einkum öfundsýki yfir að finnast útilokaður frá gleði, hamingju, ást, sköpun og þroska. Í stað þess að gera eitthvað sjálfur í eigin málum er ætlast til að hamingjan komi utan frá. Þar sem aðrir hafa það betra, særir það stolt viðkomandi o. s. frv. Einnig er horft út og aðrir sakaðir um hvernig komið er. Aðrir ættu að skammast sín, en þessir aðrir hafa oftast upprunalega verið foreldrar. Ekki er tekin ábyrgð á eigin göllum eða neitt jákvætt gert í eigin málum, heldur er allri orkunni beint með fjandsamlegum hætti að öðrum. Í stað þess að bæta sjálfan sig, gerast menn vanmegna, enda væri ella ekki hægt að leggja fram reikning á aðra.

En hvað sjá menn jákvætt við hefndarsigur, því eins og áður sagði, er fjandskapurinn einn ekki næg skýring. Hvað gerir hann æskilegan í augum manna? Í fyrsta lagi verndarsjónarmið. Menn telja sig vera að vernda sjálfan sig. Raunhæft sé að vera viðbúinn því að geta jafnan svarað fyrir sig eða svarað í sömu mynt. Í þeim heimi, þar sem menn eru hagnýttir og lítillækkaðir, sé heimskulegt að vera ekki á varðbergi. Rétt sé að verja sína hagsmuni. Menn gá ekki að því, að í þessum tilvikum hafa þeir engan áhuga á Sjálfi sínu, heldur er það aðeins sjálfsímyndin, sem þeir eru að verja. Þá verjast menn eigin sjálfsfyrirlitningu og sjálfshatri, með því að beina athygli og viðbrögðum út en ekki inn.

Í öðru lagi reisa menn við sært stolt, sem einnig mætti telja verndarsjónarmið. Menn líta ekki á stoltið, sem punt eingöngu, heldur miklu meira, jafnvel sjálfan lífstyrkinn. Ef höggvið er í það, geta menn hrunið saman. Með því að geta svarað fyrir sig, er þessari hættu afstýrt. Þetta á því betur við, sem álit okkar á sjálfum okkur er háð öðrum. Hæfileikinn til að hefna sín verður þá oft bundinn stolti. Menn telja sig þá hreinskilna, réttláta, kjarkaða og óttalausa, heiðarlega, sterka, raunhæfa o. s. frv.

Þriðja ástæðan er oft hulin sjónum manna, en hefndarsigurinn hefur að geyma sigur í huga eða verki. Í honum er m. a. fólginn uppörvun, spenna, æsandi upplifun, sæla, ástríðufull tilfinning eða losti. Þörfin fyrir sigur á sér margar orsakir. Vegna lítillækkunar óska menn sigurs yfir misgjörðarmanni sínum. Ef viðkomandi er vonlaus gagnvart eigin þroska, verður sigurinn meginmarkmiðið. Þessi sigurþörf getur haft ljúft yfirbragð og er jafnan meira eða minna óafvituð. Öskubusku dreymir um prinsinn, sem muni velja hana og að þá muni móðir og systur sjá hversu blindar þær hafi verið gagnvart fegurð hennar og góðleika. En Öskubuska ætlar ekki að bera neinn kala til þeirra og í mikilleik sínum og örlæti ætlar hún að gerast velgjörðarmaður þeirra.

Ef menn eru lítillækkaðir eða útilokaðir, eru eðlileg viðbrögð að vilja snúa taflinu sér í hag. Sigurinn reisir stoltið við. En auk þess er sú uppörvun og spenna, sem sigrinum fylgir, stundum eina tilfinningaupplifunin, sem viðkomandi býðst. Hefndin og sigurinn hafa því mikið tilfinningalegt gildi. Þó er um að ræða vítahring, þar sem alltaf þarf meiri örvun, svipað og gerist við fíkniefnaneyslu. Þessi eftirsókn eftir sigri, kæfir lífsþorsta. Ef sigurinn verður aðalatriðið, deyr áhuginn á málefninu eða starfinu. Við hættum þá að rækta garð okkar vegna eigin ánægju, en gerum það til að sýnast. Við missum ánægjuna af vináttu og félagsskap eða starfi, þar sem sigurmarkmið skyggja á.

Þá kemur að spurningunni, hvaða aðrar leiðir er hægt að fara í stað hefndarsigurs. Ég ræði sjálfsfyrirlitningu í næsta þætti, en oft sjá menn enga aðra leið en þá að verða hjálparlaust fórnarlamb annarra, þar sem eiginn réttur er fótum troðinn o. s. frv. Hin heilbrigða útleið er oft hulin sjónum manna. Til er fólk, sem hefur mikinn styrk til að bera án þess að vera hefnigjarnt. Menn sjá líka, að leggi þeir af hefndarsigurinn, öðlast þeir meiri frið í sálu sinni, innra frelsi og auðugra tilfinningalíf. En til að fara þá leið, neyðumst við til að vera mannlegri. Við verðum að leggja af hinn ímyndaða mikilleik okkar og sérstæði og játa að við erum venjulegt fólk, eins og allir aðrir, án nokkurra forréttinda. Við erum hinn almenni maður, sem svo margir fyrirlíta. Við verðum að játa takmarkanir okkar, ósigra, sorg og taka ábyrgð á lífi okkar. Það er erfitt fyrir suma að játa að þeir séu bara venjulegir menn og enn síður að sjá það sem æskilegt markmið að vera mannlegur. Þar til þetta rennur upp fyrir mönnum, er hin heilbrigða leið lokuð.

Hefndarsigurinn einangrar okkur og gerir okkur eigingjarna og sjálfhverfa. Hann eyðir orku okkar, gerir okkur andlausa og ófrjóa og hann lokar allri leið til frekari þroska. Hefndarsigurinn skaðar sjálf okkur meira en aðra. Þótt hefndarsigur sé eyðileggjandi fyrir okkur, er bæling hans þó verri. Markmiðið er því að opna honum leið og eyða honum. Í Rómverjabréfi Páls postula segir svo: “Hefnið yðar ekki sjálfir, þér elskaðir, heldur lofið hinni refsandi reiði að komast að. Því ritað er: Mín er hefndin, ég mun endurgjalda, segir Drottinn. Meira að segja, ef óvin þinn hungrar, þá gef honum að eta, ef hann þyrstir, þá gef honum að drekka, því að með því að gjöra þetta, safnar þú glóðum elds á höfuð honum. Lát ekki hið vonda yfirbuga þig, heldur sigra þú illt með góðu.”