Um mannshugann

Mannshugurinn er meistari í að leysa ytri vandamál. Við þurfum ekki lengur að skjálfa úr kulda í sauðskinnsskóm og skjóllitlum fatnaði,  þurfum ekki  að hætta lífi og limum þegar við leggjum upp í ferðalög, þurfum ekki að láta okkur nægja rímnakveðskap í rökkrinu þegar okkur langar í afþreyingu né leggja okkur hrátt kjöt til munns þegar við erum svöng (nema okkur langi í dýrindis carpaccio eða grafið hangiket). Mannshugurinn hefur ekki einungis fundið snjallar lausnir á aðkallandi vandamálum hann hefur líka fyllt líf okkar als kyns þægindum og tækniundrum.

Hvers vegna erum við þá ekki hamingjusamari? Þegar ég hugsa um það sé ég  forfeður okkar fyrir mér rísa úr gröfum sínum og neðri kjálkana síga á hauskúpunum þegar þeir virða fyrir sér nútímaundrin og tæknibrellurnar. Ég sé fólkið fyrir mér sem rétt skrimti eða dó um aldur fram af harðindum, vosbúð og kulda líta hvert á annað og sömu hugsun lýsa úr öllum tómu augntóttunum:  Vá, hvað fólkið hlýtur að vera ánægt sem nú er uppi.

En hvað mundi gerast ef forfeður okkar og formæður fengju að skyggnast inn í andlega líðan okkar? Mundu þau ekki bara hrista hvítar hauskúpurnar hvert framan í annað og skrölta beina leið oní grafirnar aftur? Því andleg líðan og hugarástand eru ekki í neinu samræmi við þægindin sem umkringja okkur. Óánægja með eigið útlit, atgervi og lífsafkomu er allsráðandi og aldurinn færist sífellt neðar þegar fólk fær sitt fyrsta alvarlega þunglyndiskast.

Hugurinn er undravert dásemdartæki til að finna lausnir á ytri vandamálum eins og framfarir og tækniundur bera fagurt vitni um en þegar kemur að okkar innra lífi er eins og hann rekist á vegg. Því mannshugurinn er ekki bara snillingur. Hann er líka vandræðagripur sem snýst gegn sjálfum sér þegar kemur að okkar innra lífi, dundar sér við að búa til vandamál þegar hann hefur ekkert að gera og heimtar athygli þegar hann diskar upp með hverja hugsunina á fætur annarri. Og oftar en ekki fær hann vilja sínum framgengt. Áður en við vitum af erum við búin að týna okkur í  hugsunum,  eftirsjá eftir fortíðinni, áhyggjum af framtíðinni, ímynduðu samtali, ógnvænlegri atburðarás eða ljúfum dagdraumi.

Við veljum ekki að láta okkur líða illa. Við veljum ekki að láta hugann taka af okkur ráðin. Hann bara gerir það því þannig er mannshugurinn hannaður. Það má segja að í hann sé innbyggður nokkurs konar “misræmismælir”.  Þegar mælirinn sýnir misræmi eða bil á milli þess hvernig við viljum hafa hlutina og hvernig þeir eru í raun og veru fer hugurinn á fullt að leita lausna. Hann hrekkur sjálfkrafa í “verð-að-gera-eitthvað gírinn” sem hefur reynst  mannfólkinu  einkar vel í baráttuni við að ná tökum á ytra umhverfi sínu.

En þegar kemur að vandamálum sem eiga sér stað í okkar innri veruleika er eins og hugurinn leiði okkur í gildru og búi til enn fleiri vandamál. Þegar mannshugurinn tekur til við að reyna að leysa sín eigin vandamál er engu líkara en hann snúist gegn sjálfum sér og  margfaldi vandamálin í stað þess að leysa þau. Þetta er eins og tölvuleikur sem á sér stað í Martraðarlandi. Takkinn sem virkaði svo vel til að leysa ytri vanda  gefur þveröfuga niðurstöðu þegar við komum inn fyrir landamæri okkar eigin skinns. Þegar kemur að vandamálum sem varða tilfinningar okkar og líðan rekum við okkur á vegg. Við brjótum heilann án árangurs því við leysum ekki tilfinningavanda á sama hátt og ytri vanda.

Tökum fyrst dæmi um ytri vanda. Mynd fellur niður af vegg hjá mér og við það skapast misræmi  milli þess hvernig ég vil hafa hlutina og þess hvernig þeir eru í raun og veru. Myndin situr á gólfinu í stað þess að hanga uppi á vegg. Hugurinn bregst skjótt við og bendir mér á leið út úr vandanum sem mannshugurinn fann upp löngu áður en ég og minn hugur komu fram á sjónarsviðið: Náðu þér í hamar og nagla og rektu naglann í vegginn. Einfalt mál fyrir suma en  ekki fyrir mig og mína líka sem sjá fyrir sér konur í myndaskrítlum sem brjóta sér leið inn í næstu íbúð áður en naglinn kemst í vegginn.  Hugur minn er samt ekki af baki dottinn og spyr gagnlegra  spurninga sem hann svarar af augabragði: Hvern get ég beðið um hjálp? Who are you gonna call? Ghostbusters. Nei, þarna fór hugur minn aðeins á flug eins og hann gerir stundum. Ég ætla ekki að hringja í draugabanana þótt ég syngi um þá í huganum,  ég ætla að hringja í Dúdda sem er bæði laghentur og greiðvikinn. Og ég læt hugsunina ekki nægja heldur framkvæmi hana líka og fæ staðfestingu á að ályktunarhæfni mín er góð þegar ég horfi á myndina á sínum stað uppi á vegg og þakka Dúdda kærlega fyrir hjálpina.  Málið er leyst. Ég þarf ekki að hugsa meira um það og get því snúið huga mínum að öðrum og skemmtilegri  viðfangsefnum.

En hvað gerist þegar vandamálið varðar tilfinningar okkar? Er málið jafn einfalt þegar kemur að okkar innra lífi? Get ég gripið til einhverra ráða til að bæta líðan mína?

Segjum sem svo að mér líði illa vegna þess að kærastinn  sagði mér upp.  Ekkert smámisræmi milli óska minna og raunveruleikans. Efst á óskalistanum er auðvitað að kærastinn sjái að sér og grátbiðji um að fá að koma aftur, ósk númer tvö væri að komast sem fyrst í annað samband og ósk númer þrjú væri að líða í það minnsta ekki svona bölvanlega ef hvorug hinna óskanna rættist.  En engin þessara lausna virðist vera í sjónmáli. Kærastinn fyrrverandi situr við sinn keip, nýr riddari á hvítum hesti hvergi sjáanlegur og líðanin alltaf jafn bölvanleg þótt ýmsir reyni að hugga og benda á að fleiri fiskar séu í sjónum.

Hugurinn hringsólar í kringum “vandamálið” og spyr spurninga sem engin svör finnast við: Af hverju fór hann? Af hverju tek ég það svona nærri mér?  Af hverju get ég ekki bara hrist þetta af mér?  Af hverju lendi ég alltaf á vonlausum gæjum?

Og til að bæta gráu ofan á svart fer hugur minn að hvísla að mér að kannski verði ég bara einmana og miður mín það sem eftir er og allir munu vorkenna mér og finnast ég vera misheppnuð.

Í stað þess að leysa vandann, auka hugsanirnar á vandann og verða smátt og smátt meira vandamál en upphaflega vandamálið. Hugurinn er kominn í “verð að gera eitthvað gírinn”, hann er farinn að grufla, velta sér upp úr eigin ástandi undir því yfirskyni að hann sé að leita lausnar á vandamálinu. Samt á hann engin svör við þessum tilfinningavanda fremur en svo mörgum öðrum. Svör hans  við ytri vandamálum eru oft ekki aðeins gagnleg heldur blátt áfram brillíant en svör á borð við: “Þú verður bara að láta þér líða betur”, duga skammt. Við skipum hvorki tilfinningum okkar fyrir né gerum vondar hugsanir brottrækar úr huganum. Því meira sem við reynum þeim mun verr líður okkur.

Af hverju heldur okkar þróaði mannshugur  áfram að grufla þegar það leiðir ekki til neins?  Það er vegna þess að hugurinn hrekkur meira og minna sjálfkrafa í gruflgírinn. Þegar við leitum lausnar á áþreifanlegu vandamáli hugsum við meðvitað um hvernig við getum farið að. En þegar hugurinn hringsólar kringum vandamál sem engin augljós lausn er á gerist það oftar en ekki  sjálfkrafa. Við ákveðum ekki meðvitað að brjóta heilann um líðan okkar.  Það bara gerist eins og af sjálfu sér að hugurinn er allt í einu kominn á fullt með að spyrja spurninga eins og: Af hverju er ég ekki... af hverju get ég ekki...?  Spurningar um  hamingjuna og lífstilganginn  lúra í bakhöfðinu og þegar hugurinn hefur ekkert sérstakt fyrir stafni tekur hann þær fram og byrjar að “vinna” með þær að okkur fornspurðum. Hann tekur völdin með hjálp hugsana sem fara með okkur langa vegu frá andartakinu hér og nú. Því má líkja við að taka vitlausan strætó sem fer með mann á  áfangastað sem liggur langt úr leið.

Margur reynir að hugsa sig út úr vandamálum sínum með sorglegum árangi þar sem lausnin eða réttara sagt það sem átti að vera lausnin verður stundum meira vandamál en upphaflega tilefnið. Við brjótum heilann um hvernig við getum látið okkur líða betur, berum okkur saman við fólk sem við ímyndum okkur að hafi allt sitt á hreinu og spyrjum út í tómið hvað verði um okkur í framtíðinni ef nútíðin fari ekki eitthvað skánandi.

Og þótt slíkt hugarstarf leiði sem betur fer stundum til jákvæðrar niðurstöðu  er andstæðan sorglega algeng: Í stað þess að taka gleði okkar á ný eða grípa til uppbyggjandi aðgerða, festumst við í áráttukenndum hugrenningum og döpru skapi sem lama athafnaþrekið.

Eintalið við sjálf okkur getur skapað alls kyns  tilfinningaviðbrögð og átt stóran þátt í að vanlíðan,  reiði og depurð dragast á langinn. En hugsanir endurspegla ekki alltaf veruleikann. Stundum er sjálfsmyndin skökk og orðin villandi sem við notum til að lýsa sjálfum okkur og öðrum. Þess vegna skiptir máli að gera sér skýra grein fyrir því sem gerist í huga okkar.  Hvað erum við að segja við sjálf okkur?  Hvernig túlkum við heiminn og það sem gerist í kringum okkur?  Hvaða merkingu leggjum við í það sem aðrir segja eða gera?

Í hugrænni sálarfræði hefur aðaláherslan verið lögð á þessa leið: Að skoða innihald hugsana sinna.

Önnur leið er að fara handan við hugann til þess að ná tökum á honum.  Virða fyrir sér hugsanir sínar í stað þess að samsama sig þeim og horfa á heiminn í gegnum þær. Verða vitnisvitund. Sú leið er vel kunn þeim sem hafa lesið Ganglera, tímarit um heimspeki og andleg mál, og sótt fundi í Lífspekifélaginu í gegnum árin. Og nú hefur það gerst að nútímasálarfræði sækir í vaxandi mæli í þann visku- og reynslubrunn sem kenndur er við leið athyglinnar, aðferðina sem Búdda kenndi fyrir nær þrjú þúsund árum síðan.

Búddismi og nútímasálarfræði hafa fallist í faðma.

Heimildir

Anna Valdimarsdóttir( 2011). Af sjónarhóli. Gangleri. Tímarit um heimspeki og andleg

mál. 85. árgangur, síðara hefti, bls. 1-4.

Germer, C.K., Siegel, R.D. & Fulton, P.R. (Útg.). (2005). Mindfulness and

psychotherapy. New York: Guilford.

Gunaratana ,H. (1993). Mindfulness in plain English. Boston, MA:Wisdome

Publications.

Segal, Z.V., Williams, J.M.G. og  Teasdale, J.D. (2002). Mindfulness-based cognitive

therapy for depression. A new approach to preventing relapse. New York:

The Guilford Press.