Donald Rothberg ræðir við Joseph Goldstein um gildi þroskalíkana.
Donald Rothberg: Hefur þú komið auga á ákveðið þroskamunstur sem fylgir andlegri þjálfun þegar þú hefur fylgst með nemendum þínum og samstarfsmönnum ár eftir ár? Eru til einhver sérstök líkön eða myndlíkingar sem gera andlega þroskabraut skiljanlega? [D.R. notar orðið „líkön“ (models) um ákveðin þroskaþrep sem sagt er að taki hvert við af öðru t.d. í Búddhisma eða Vedanta; þýð.].
Joseph Goldstein (eftir langa umhugsun): Smám saman hefur mér orðið æ betur ljóst hve andleg iðkun nær yfir geysibreitt svið. Breidd þess er slík að það getur náð yfir sérhvert líkan. Eins má orða það svo að mörg mismunandi líkön lýsi ólíkum hliðum hinnar andlegu leiðar. Fyrir mig er þetta þess vegna ekki spurning um þessa leiðina eða hina heldur allar leiðirnar. Aðalatriðið virðist vera uppgötvun vitundar sem er algerlega frjáls og óbundin. Í stuttu máli getum við sagt að allt annað sé hæfar lausnir [þýðing á skillful means (upaya), lausnir meistara til þess að vekja skilning hjá nemandanum].
DR: Námsferlið, eða hvernig ákveðið atriði á hinni andlegu þroskaleið tekur við af öðru, virðist ekki mynda neina heildarmynd.
JG: Jú, það eru til líkön sem lýsa almennt þroskaferlinu eins og t.d. mismunandi stig íhygli í Theravada-hefðinni (=Hinayana) eða uxasmalamyndirnar tíu í Zen eða misdjúp stig í tíbetsku Mahamudra-kenningunum. En ég held að frelsunarferli hugarins sé einnig einstaklingsbundið og hljóti að taka mið af sérstakri mótun hvers og eins.
DR: Ýmsir nútímarithöfundar hafa lýst ákveðinni heildarmynd eða a.m.k. almennu munstri í andlegum þroska manna. Jack Engler (l986) og fleiri hafa t.d. haldið því fram að ákveðin sálræn undirbúningsvinna verði að hafa farið fram áður en raunveruleg andleg þróun geti farið af stað.
JG: Ég held að hér sé um miklu flóknara mál að ræða. Þótt eingöngu sé horft til eins æviskeiðs hvað þá fleiri æviskeiða er engin leið að vita um dulda úrvinnslu á karmanu. Til að hafa raunverulega vitneskju um það þyrfti eitthvað í líkingu við vitund Búddha. Ég gæti t.d. vel ímyndað mér mann sem væri haldinn einhverri taugaveiklunarþráhyggju en gæti samt öðlast djúpan andlegan skilning án þess að hljóta fyrst sálræna meðferð. Í öðrum tilvikum gæti reynst nauðsynlegt að leysa fyrst úr andlegum flækjum. Við virðumst vera samsettari, fjölþættari og á margan hátt óskiljanlegri en fram kemur í þeim einföldu myndum sem stundum eru dregnar upp og eiga að sýna þroskaferilinn. Hins vegar virðist jafn augljóst að ákveðið lágmarksheilbrigði og jafnvægi er nauðsynlegt skilyrði andlegrar iðkunar og að ná því jafnvægi er í sjálfu sér hluti hinnar andlegu leiðar.
DR: Hvernig skilur þú þroskalíkön í Búddhisma? Eru þau í besta falli „hæfar lausnir“ sem geta orðið ákveðnu fólki gagnlegar á ákveðnum tímabilum á ævi þess og í ákveðnu menningarumhverfi?
JG: Já, en ég mundi ekki gera lítið úr slíkum lausnum með orðunum „í besta falli“. Hæfar lausnir skipta öllu máli. Ákveðið líkan getur gefið sumum hæfa lausn en ekki öðrum. Ef andleg iðkun fæst við að losa hugann úr fjötrum þá eru til mörg tæki, margar leiðir og myndlíkingar sem geta leiðbeint okkur á þeirri leið.
Tökum sem dæmi úr Búddhismanum muninn á Abhidhamma (t.d. í Burma) og Zen. Í Abhidhamma er stuðst við sálfræðilegt líkan með mjög nákvæmri greiningu á huga og mismunandi vitundarástandi. Þetta er aðgengilegt mörgum vestrænum nemendum þar sem við leggjum svo mikla áherslu á sálfræðilegu aðferðina þegar við leitumst við að skilja okkar eigin menningu. En Zen-leiðin er aftur á móti skáldlegri. Sumir finna hljómgrunn við leit sína í Abhidhamma, þeim finnst sú leið skiljanleg en skáldlega leiðin óljós og þokukennd. Öðrum finnst sálfræðilega líkanið mjög þurrt og skáldleg útlistun höfðar meira til þeirra. Ólíkar lausnir, í þessu tilviki ólík líkön eða myndlíkingar, henta ólíkum skapgerðum.
DR: Heldur þú að menn skilji þessi líkön sem ólíkar myndlíkingar í hinu asíska og búddhíska umhverfi, t.d. í Burma?
JG: Líklega ekki (hlær). Ég hef á tilfinningunni að þar taki menn líkön fremur bókstaflega, að veruleikinn sé raunverulega eins og þau lýsa honum.
Síðustu tvö árin hef ég einmitt hugsað mjög mikið um líkön, sérstaklega eftir að ég fékk áhuga á ákveðnum tíbetskum aðferðum. Ég hafði lengi verið gagntekinn af Theravada-hefðinni. Þegar ég síðan hóf hina tíbetsættuðu iðkun komst ég í mikla úlfakreppu hugarins þegar ég reyndi að samræma tvö ólík háspekikerfi þó að bæði höfðuðu til mín hvort á sinn hátt. Ég dvaldi nokkra mánuði í hugleiðingarathvarfi og þessi gáta var að gera mig vitlausan: „Ef þetta er rétt þá hlýtur hitta að vera rangt.“ Ég spurði stundum sjálfan mig: „Er þetta ekki bara Mara [persónugervingur afla sem vinna gegn opnun vitundar] sem reynir að leiða mig á rangar brautir?“ Eftir alllangan tíma gerði ég mér ljóst að ég myndi aldrei leysa þessi mál með því að hugsa um þau. Ef til vill kæmist ég að hinu sanna þegar ég væri fyllilega upplýstur. Þessi skilningur hvatti mig til frekari iðkunar. Og þá rann upp fyrir mér að öll háspeki er hæfni í úrræðum. Með þessum skilningi breyttist allt. Ég sá að þessi ólíku kerfi voru ekki í mótsögn hvort við annað, heldur ólíkar lausnir til þess að opna og vekja vitundina. Ég gerði það að meginverkefni að leysa upp þrár en fresta því ekki eins og fjarlægu takmarki. Á þann hátt gat sérhver tækni eða kerfi orðið til hjálpar.
DR: Þú gast sem sagt fylgt þessu almenna viðhorfi, notað tíbetsku kenningarnar án þess að þér fyndist þú vera að hafna Theravada.
JG: Einmitt. Mér varð ljóst að ég var að beita viðhorfi sem felur í sér lausn frá þrám, lausn úr fjötrum. Þetta innsæi dýpkaði þegar ég las „húsbyggingarkaflann“ úr ræðu Búddha: „Ég hef litið þig sem húsið byggir. Þú byggir ei framar ... Það er fundið sem engu öðru er háð. Allar þrár eru horfnar.“ Ég hafði að sjálfsögðu lesið þennan kafla mörg hundruð sinnum, en nú skynjaði ég hann á nýjan og ferskan hátt. Hann lýsti andlegu leiðinni á einfaldan og djúpstæðan hátt. Þannig sá ég í gegnum öll þessi flóknu kerfi iðkunar og trúar. Það gæddi iðkunina nýju lífi.
DR: Síðustu tuttugu árin hefur þú unnið með mörg þúsund manns. Sérðu einhverja almenna reglu í þroskasögu fólks?
JG: Fyrst ætla ég að nefna það sem liggur í augum uppi. Menn vinna sig frá hinu augljósa til hins fíngerða. Allir verða fyrir svipaðri reynslu í byrjun. Þegar menn sitja í hugleiðingu læra þeir t.d. að mæta líkamlegri vellíðan og vanlíðan með jafnaðargeði; þeir dvelja í varurð án þess að seilast eftir því þægilega eða ýta frá sér hinu óþægilega. Menn læra einnig að greina á milli þess að vera niðursokknir í hugsanir eða verða varir við þær. Hér reynir ef til vill ekki á hárbeitt innsæi, en þessar uppgötvanir eru samt mjög djúpstæðar og ná inn að innsta eðli hins frjálsa hugar. Þegar menn svo halda áfram iðkuninni læra þeir ef til vill að breikka sviðið og jafnaðargeðið nær til áður dulinna og sífellt fíngerðari þátta í veru þeirra. Ýmis geðbrigði kunna að brjótast fram eða vera grafin upp. Neminn lærir að gera greinarmun á geðbrigðum sem birtast sem „ég“ og að leyfa þeim að koma og fara sem röð af sýndarfyrirbærum. Á enn fíngerðara sviði og með dýpra innsæi geta menn sleppt samkenningunni við vitundina sem annars myndar eins konar þekju yfir varurðina. Fíngerðar vanabindingar, sem eru eins konar orkuhnútar, eru einnig leystar upp. Þetta eru hvorki hugsanir né tilfinningar og eru í svo fíngerðu formi að langur tími getur liðið áður en við gerum okkur ljóst að hugurinn er bundinn þeim.
Á þann veg má greina þróun í iðkuninni frá hinu augljósa til hins fíngerða (subtle). Það sem kemur upp er mjög einstaklingsbundið en ég álít samt innsæið mikilvægara en innihaldið.
DR: Getur það verið mjög einstaklingsbundið hvað mönnum finnst augljóst eða fíngert? Gæti það sem er fíngert frá sjónarmiði eins verið öðrum augljóst?
JG: Ég held það. Við erum hér aftur komnir að því sem ég nefndi í byrjun: Það er útilokað að þekkja hina óralöngu fortíð einstaklinga. Sumum reynist auðvelt að átta sig á eðli varurðar og eru sáttir við formleysi. Aðrir líta aðeins á þessi orð sem afstrakt hugtök.
DR: Tveir ólíkir einstaklingar kunna að skynja hið fíngerða á gjörólíkan hátt. Annar er e.t.v. fullkomlega sáttur við formleysi en á hins vegar í erfiðleikum með að útvega sér vinnu.
JG: Þannig gæti það verið. Ég nota yfirleitt ekki orðið „langt kominn“ þegar ég lýsi iðkun einhvers. En ef ég gerði það tæki ég tillit til hversu óháður hann er ákveðinni reynslu. Einn einstaklingur gæti verið mjög háður mikilli formlausri reynslu; annar gæti fylgst með andardrættinum en verið óháður á djúpstæðan hátt. Fyrir mér er mælikvarðinn fremur hversu óháður iðkandinn er en innihald reynslunnar. Við komum hér aftur að eðli hins frjálsa hugar.
DR: Kemur fyrir að fólk upplifi djúpan skilning eða innsæi en er samt háð harla mörgu á grófari sviðum?
JG: Ég er nú hræddur um það! (Hlátur).
DR: Já, segjum tveir.
JG: Stundum gera menn sér óraunsæjar væntingar um eftiráhrif skilningsvöknunar. Hafi menn hins vegar að nokkru skilið sjálfsleysi fá hugfjötrar ákveðið gegnsæi. Samt geta menn augljóslega verið ýmsu háðir.
Með nokkrum undantekningum held ég samt að almenna munstrið sé að fikra sig frá hinu grófgerða til hins fíngerða. Flestum veitist auðveldast í byrjun að beina athyglinni að augljósum hlutum. Almennt beinist athyglin fyrst að líkamlegum þáttum og ýmsu í persónuleika og hversdagslífi, þó að stundum byrji þetta með einhverri fíngerðari, andlegri reynslu. Svo er alls ekki víst að fólk ljúki eða greiði endanlega úr þessum byrjunaratriðum. Að mörgu leyti má líta á andlegu leiðina sem spíral þar sem menn koma aftur og aftur að sömu byrjunaratriðunum.
Hugsum okkur manneskju sem dregur sig í hlé um stundarsakir til þess að iðka hugleiðingu. Hún lærir að mæta vanlíðan og vellíðan með jafnaðargeði, opnar sig betur fyrir geðhrifum og gerir ýmsar mikilvægar uppgötvanir. Þegar svo lengra er haldið snýr hún aftur athyglinni að líkama og geðhrifum en nú með dýpra óhæði og hugarró. Í fyrra skiptið er ekki víst að hún hafi náð að leysa hina djúpu og fíngerðu hugfjötra.
DR: Hvernig skilur þú og bregst við því sem nefnt er afturhvarf (regression) og nemandinn hverfur aftur til frumstæðari viðhorfa?
JG: Í hugleiðingu opnast hin misdjúpu svið í eðli okkar. Þegar hugurinn verður hljóðari og truflanalausari myndast rými sem getur tekið við hverju sem er úr hugardjúpunum. Í því sambandi detta manni fyrst í hug fyrirbæri sem líta út sem afturför. Misdjúp svið hugfjötra koma í ljós, upp koma munstur sem standa djúpum rótum í þessu lífi og hugsanlega í fyrri æviskeiðum. Stundum lýsir þessi reynsla sér sem sálrænt áfall (trauma) og getur orðið yfirþyrmandi, sérstaklega í hinu „klassíska“ afturhvarfi, en þá finnst mönnum eins og þeir séu týndir í öðrum eða fyrri heimi.
DR: Sjálfur hóf ég iðkun mína í hugleiðingarathvörfum. Oftast var þetta undursamleg reynsla, djúp kyrrð og dýpkandi skilningur þó að auðvitað væru erfið tímabil inn á milli. En ég fann ekki hvernig ég var háður og bundinn fyrr en við aðrar aðstæður utan athvarfa, í nánum tengslum við fólk, í vinnu, í viðhorfi mínu til náttúrunnar og í félagslegu og pólitísku starfi.
Hvernig lítur þú á jafnvægið á milli náms innan og utan athvarfa?
JG: Við erum að tala um svo geysilega vítt svið. Jafnvel heil mannsævi getur ekki leitt í ljós allt sem bundið getur hugann auk þess sem reynslan sem menn koma með inn í lífið er svo breytileg. Ég get því ekki bent á neina fyrirmynd (líkan) að því hvað fólk ætti eða ætti ekki að gera. Sumir gætu t.d. hafa átt í nánum samböndum um mörg æviskeið en eru munkar eða nunnur í þessu lífi. Ef til vill hefur einhver verið nunna eða munkur á fyrri æviskeiðum og ekki átt í nánum samböndum. Um þetta er ákaflega erfitt að dæma fyrir ytri áhorfanda. Þess vegna fer ég mjög varlega í að benda fólki á ákveðna leið og ráðleggja því hvað það á að gera eða láta ógert. Mestu máli skiptir að hlusta með athygli.
Ég held hins vegar að menn þurfi ekki að lenda í öllum mögulegum aðstæðum sem gætu leitt í ljós fjötra hugarins. Slíkt tæki aldrei enda og þar með væri vonlaust um frelsi hugarins.
Ég held að almennt þurfum við að heildgera vinnuna í því sem upp kemur hvort sem er í hversdagslífi eða í hugleiðingu og greina með innsæi hvernig allt þetta er í eðli sínu tómt. Þetta má gera á breiðu reynslusviði, en þetta er einnig möguleiki þó að reynslusviðið sé þröngt. Ef dýpt andlegs skilnings er nægileg mun sú viska af sjálfu sér snerta hverja þá stöðu sem upp kann að koma.
DR: Hvernig getum við skilið þetta mikilvæga atriði: Menn öðlast djúpa innsýn en um leið hafa þeir ekki lokið grundvallarvinnu við eigin persónuleika? Þetta atriði var t.d. meginviðfangsefni á þingi vestrænna kennara í Búddhisma í Kaliforníu árið 1995.
JG: Margt mætti um þetta segja. Í fyrsta lagi vil ég ítreka: Ef einhver dýpri skilningur hefur vaknað er auðveldara að ráða við persónulegri hluti þar eð menn hafa öðlast nokkra innsýn í tómið.
Í öðru lagi: Þeirrar tilhneigingar gætir hjá fólki á Vesturlöndum að einskorða andlega andlega iðkun við hugleiðingu. En hin háleita áttfalda braut, sem Búddha kenndi sem leið til hugljómunar, er mjög heildstæð. Hún fæst við lífið í hverdagsheimi, um tengslin við annað fólk, en fæst einnig við hugleiðingu. Við tökum iðulega ekki nógu alvarlega þá hluta leiðarinnar sem ekki fást við hugleiðingu, svo sem rétt tal, rétta athöfn og rétt líferni, sem hluta af okkar andlegu iðkun. Ef við tækjum þessa þætti alvarlega þyrfti miklu síður að snúa aftur til þess að hreinsa upp ólokin verkefni vegna þess að þau eru samofin hinum ýmsu þáttum hinnar göfugu áttföldu leiðar. Frá mínum bæjardyrum er hin andlega leið að gefa öllum þessum þáttum jafnan gaum.
Í þriðja lagi vil ég benda á það almenna einkenni á okkar menningu að vænta skjóts árangurs í hverju því sem við tökum okkur fyrir hendur. Við metum iðulega leiðina eða árangur hennar á fremur yfirborðslegan hátt. Einhver gæti stundað stranga iðkun í fáein ár og sagt síðan: „Ég er enn bundinn af öllu því persónulega“. Hvað var það sem mistókst í þessari andlegu iðkun?“. Til eru margar skemmtilegar sögur í Theragatha og Therighata (hugljómunarljóð frá fyrri tímum eftir munka og nunnur í Búddhisma). Þar er dæmigerð frásögn nunnu sem gæti verið á þessa leið: „Ég hef stundað hugleiðingu í sextíu ár og ekki eitt augnablik var hugur minn hljóður. En þá opnaðist hugur minn skyndilega og ég öðlaðist frið.“
Þegar við metum hvað næst og næst ekki með iðkun þurfum við að skoða það í samhengi innan mjög breiðs tímaramma. Þetta þýðir ekki að við megum ekki spyrja hvernig gangi og hvert stefni. Við þurfum hins vegar að hafa hugfast að á þessari miklu vöknunarleið þurfa menn að vera sjálfum sér samkvæmir og sýna mikið úthald.
Sv. B. þýddi og stytti.
[... Framarlega í ramma eða með mynd ... : ]
Joseph Goldstein er einhver þekktasti og virtasti hugleiðingarkennari nútímans. Hann fæddist 1944 og ólst upp í Catskill fjallahéraði í New York fylki. Árið 1965 gekk hann í s.k. Friðarsveitir (Peace Corps), en það er stofnun í Bandaríkjunum sem sendir sjálfboðaliða sem vinna við uppbyggingu í þróunarlöndum. Hann var sendur til Bangkok í Thailandi. Þar kynntist hann Búddhisma. Sérstaklega var það búddísk hugleiðing sem vakti áhuga hans. Árið 1967 yfirgaf hann Friðarsveitir og ferðaðist um Indland. Hann hóf nám og iðkun í s.k. innsæishugleiðingu (vipassana) undir leiðsögn A. Munindra ( sem var nemandi Mahasi Sayadaw sem var frægur kennari í Burma) og dvaldist í Burma næstu sjö árin. Í vipassana er stefnt að því að þróa með sér nakta athygli gagnvart öllu sem upp kemur í reynslunni. Á meðal vestrænna nemenda þótti JG skara fram úr í áhuga og úthaldi.
Árið 1974 var JG boðið að kenna við Naropa-stofnunina í Boulder, Colorado. Þar kynntist hann Jack Kornfield (sem einnig er mjög þekktur hugleiðingarkennari). Þeir tóku upp samstarf og keyptu gamalt klaustur árið 1976 í Barre, skammt frá Boston. Það varð athvarf Innsæishugleiðingar-félagsins (Insight Meditation Society - IMS). Síðan hefur JG leiðbeint nemendum í IMS og í athvörfum víða um heim og skrifað fjölda bóka um þessi efni (sumar með Jack Kornfield). JG hefur einnig unnið með tíbetskum Búddhistum og einnig kannað möguleika sállækninga í anda C.G.Jungs.
Eins og fram kemur í viðtalinu hér á eftir leggur JG áherslu á hversu einfaldar leiðbeiningar Búddha eru en gera samt miklar kröfur til iðkandans. JG varar við „útþynningu“ á innri leiðinni sem stundum er gerð til þess að gera þessa hluti aðgengilegri fyrir Vesturlandabúa, t.d. því viðhorfi að leiðin til lausnar sé einhvers konar slökun eða sállækningatækni.
Kjarninn í nálgun JG virðist vera að leita eftir því að vera óháður, andlega óbundinn. „Hver veit?“ er ein af eftirlætissetningum hans eða: „Er hugurinn fjötraður?“
JG viðurkennir að eftir á að hyggja megi greina þróun í mannssálinni sem stefnir, að því er virðist, frá hinu grófgerða til hins fíngerða. En þessi stig eða þrep og skipan þeirra í líkan er samt ekki það sem skiptir iðkandann mestu máli.
Donald Rothberg er fæddur árið 1950. Hann hefur kennt heimspeki við háskóla í Ohio og Kentucky en kennt síðan 1989 við Saybrook Institude í San Francisco. Eftir hann liggja margar ritgerðir um yfirpersónuleg (transpersonal) fræði, mýstik og skyld efni og sérstaklega hvernig yfirpersónuleg viðhorf geta þroskast í samfélagslegu og pólitísku umhverfi. Hann er (síðan 1991) ritstjóri tímaritsins ReVision.