Við þráum öll að vera hamingjusöm. Það er eðlilegt markmið að vilja njóta hamingju í lífi sínu og engin óhófleg eigingirni í því fólgin. Þegar okkur líður vel höfum við mikið að gefa og getum verið öðrum innblástur og gleði.
Samt þurfum við öll að sæta mótlæti og ganga í gegnum sársauka af líkamlegum og andlegum toga. Margs konar þjáningar eru órjúfanlegur hluti mannlífsins svo sem þjáningar af völdum náttúruhamfara, sjúkdóma, öldrunar og ástvinamissis. En við göngum líka í gegnum sálarkvalir sem hægt er að komast hjá eða fara létt í gegnum. Þær eiga uppsprettu sína í huga mannsins og stafa af alls kyns grillum og ranghugmyndum sem hann gerir sér um hvernig hann eigi að vera, hvað hann þurfi að eiga og hvað annað fólk sé að hugsa um hann. Margar þjáningar okkar mannanna eru sjálfskapaðar og stafa af ýmiss konar niðurrifshugsunum sem endurspegla harkalega sjálfsgagnrýni og neikvætt lífsviðhorf fremur en raunveruleikann. Við þurfum því að líta inn á við og gæta að ástinni í eigin brjósti sem er hornsteinn hamingju okkar.
Hamingjan er hugarástand sem gerir okkur kleift að njóta gleði og taka áföllum og erfiðleikum án þess að láta bugast. Hamingjan er ekki eitthvert happ sem hendir okkur fyrirhafnarlaust heldur hvílir hún á viðhorfi okkar og gerðum. Hugurinn er hin raunverulega uppspretta hamingjunnar vegna þess að allt fer í gegnum huga okkar, allar okkar skynjanir, tilfinningar og hugsanir. Og það ætti að fylla okkur bjartsýni vegna þess að hugurinn er mótanlegur. Friðsæll, ástríkur hugur er um margt manneskjunni að þakka sem hefur lagt við hann góða rækt.
Ef hamingjan væri ekki annað en happ eða lán sem við yrðum fyrir og hefðum ekkert um að segja værum við leiksoppar í lífi okkar. Samt er sá hugsunarháttur ríkjandi að það sé bráðnauðsynlegt að fullnægja ótal ytri skilyrðum til að geta verið hamingjusamur. Það er til dæmis almennt talið að maður þurfi að vera við góða heilsu, hafa sæmilega góð efni og eiga vini til að geta verið hamingjusamur. Og því verður ekki á móti mælt að þessir þættir eiga allir sinn þátt í hamingju manna. Ákveðin grundvallarskilyrði þurfa að vera fyrir hendi svo hægt sé að tala um mannsæmandi líf og hæpið að tala um hamingjusaman mann sem óttast um líf sitt eða á ekki til hnífs og skeiðar. Samt dugar skammt að vera við góða heilsu, búa við góð efni og eiga góða vini ef hugurinn er í ójafnvægi. Ef hugur okkar er eirðarlaus, fullur af reiði, kvíða eða beiskju verðum við ekki hamingjusöm, sama hversu ákjósanlegar ytri aðstæður okkar eru.
Það dugar til dæmis skammt að vera við góða líkamlega heilsu ef við erum altekin andlegri vanlíðan. Og veraldlegar eigur gera lítið til að gleðja okkur þegar við erum altekin biturð eða reiði. Þess eru jafnvel dæmi að fólk grýti eigum sínum í bræðiköstum sem sýnir hvað hlutir verða lítils virði þegar hugurinn er í uppnámi. Dauðir hlutir mega sín einskis gagnvart þjökuðum huga. Og það er sama sagan með vini sem við þurfum þó svo mjög á að halda til að geta treyst og trúað fyrir tilfinningum okkar. Þegar hugurinn er bölsýnn sjáum við ekki vini okkar í réttu ljósi hvað þá að við mönnum okkur upp í að hafa samband við þá. Við sjáum ekki einu sinni maka okkar í réttu ljósi.
Okkur hættir til að kenna ytri þáttum um þegar við erum ekki ánægð og segjum kannski við sjálf okkur og aðra: Bara ef þetta væri svona eða hinsegin, þá væri allt betra. Tala nú ekki um ef annað fólk væri svolítið almennilegra, þá væri aldeilis betra að vera til!
Samt vitum við, þegar við gefum okkur tíma til að hugsa, að þetta er ekki spurningin um aðra heldur um okkur sjálf. Við vitum – og sum okkar af biturri reynslu – að við breytum ekki öðrum. En við getum breytt sjálfum okkur og því er ástæða til að gefa hugsunarhætti og hjartalagi gaum ef mikil brögð eru að því að okkur finnist annað fólk ómögulegt. Þegar fíflunum fjölgar í kringum mann er tími til kominn að líta í eigin barm! Ást og hamingja eiga sér bólstað í sjálfum okkur og það eiga óhamingjan og vantraustið líka sem eitra samfélag okkar við aðra.
Við eyðum ómældri orku í að uppfylla ytri skilyrði sem við teljum bráðnauðsynleg hamingju okkar. En ekkert dugar því að alltaf breytist eitthvað sem við reiknuðum ekki með. Jafnvel þegar okkur tekst að uppfylla óskir okkar dugar það ekki heldur til. Það sem virtist svo mikilvægt í gær er það ekki lengur í dag. Nú þarf eitthvað annað til. Við höfum leyst það sem við töldum vera vandamálið en uppgötvum síðan að það var ekki meinið. Við flytjum í draumahúsið en komumst að því nokkrum mánuðum síðar að okkur líður ekkert betur. Nágrannarnir eru ómögulegir, eldhúsið allt of lítið og hverfið alls ekki eins gott og við höfðum ímyndað okkur. Eða við hittum draumamakann. Til að byrja með er hann dásamlegasti maður á jarðríki, fullkominn og gallalaus. En áður en langt um líður komum við auga á að hann er meingallaður. Og við horfum á hann og hugsum: „Hvað sá ég eiginlega við þennan mann? Ég hlýt að geta gert betur en þetta.“ Og leitin hefst á ný að öðrum maka, gáfaðri, fallegri, ríkari, yngri eða skilningsbetri. Einhverjum sem við teljum betur færan um að gera okkur hamingjusöm og upphefja okkur í augum annarra. Okkur hættir nefnilega til að meta lán okkar út frá því hvort öðrum finnist við öfundsverð og hættir til að gleyma að ekki er víst að það sem öðrum finnst eftirsóknar- og öfundsvert færi okkur hamingju.
Saga mannkynsins einkennist af stöðugri viðleitni mannsins til að bæta ytri skilyrði sín – og á margan hátt hefur honum tekist það. Stórfelldar vísinda- og tækniframfarir og betri efnahagur hafa skapað tækifæri til meiri hagsældar og betra lífs. En erum við hamingjusamari? Svarið er nei. Við erum ekki eins hamingjusöm og ætla mætti þegar við berum líf okkar saman við fátækt og basl undangenginna kynslóða.
Efnisleg velmegun, vísindi og tækniframfarir stuðla að sýnilegum og (að því er virðist) skjótum framförum. Mannlegi þátturinn, sálarþroskinn eða hugræktin, tekur hins vegar tíma og erfitt getur verið að sýna fram á hann með ótvíræðum hætti þannig að aðrir sannfærist. Er það kannski þess vegna sem nútímamanninum hættir til að einblína á efnahagsbata og tækninýjungar en vanrækja innri þroska mannsins?
Margir eru þeirrar skoðunar að nútímamaðurinn á Vesturlöndum sé í andlegri kreppu sem hann geri sér ekki endilega grein fyrir sjálfur – enda lýsir andleg kreppa sér oft í því að þolandinn gerir sér ekki grein fyrir ástandi sínu. Þessi kreppa er nefnd lífsleiði eða tilgangsleysi og hún lýsir sér í firringu mannsins. Hann er firrtur sjálfum sér, samferðamönnum sínum og náttúrunni.
Rætur vestrænnar menningar eru í grískri hugsun og gyðingdómi og þar var álitið að takmarkið með lífinu væri að fullkomna manninn. Nútímamaðurinn er hins vegar upptekinn af því að fullkomna hluti, auka framleiðni og bæta efnahag sinn. Sumir kalla slíkan hugsunarhátt ‚skynsemisrök‘ og stilla þeim upp gegn ‚tilfinningarökum‘ sem lúta að annars konar verðmætamati eins og verndun ósnortins víðernis og andlegrar velferðar mannsins. Þeir eru ófáir sem setja jafnaðarmerki milli skynsemi og veraldlegrar velferðar og falla í þá gryfju að láta stjórnast svo mjög af ‚skynsemi‘ að hún gengur út yfir alla skynsemi. Því að lífið getur snúist um of um leitina að öryggi þar sem einstaklingurinn reynir að forðast kvíða með því að eignast hluti og halda lífi sínu í föstum skorðum og telja sér þannig trú um að hann sitji sjálfur við stjórnvölinn. Of mikið kapp á að laga sig að ríkjandi gildum og því sem þykir ‚fínt‘ eða eftirsóknarvert verður til þess að maðurinn verður firrtur sjálfum sér. Hann verður eins og ókunnugur maður í lífi sjálfs sín og nær engu sambandi, hvorki við sitt innra sjálf né önnur sjálf. Við deyjum að innan þegar við eyðum hugarorku okkar í að hugsa einungis um hégóma og fánýta hluti. Við verðum andleg eyðimörk.
Í auglýsingaflóði samtímans er okkur talin trú um að hamingjan byggist á því að eignast sem mest og verða vinsæl og öfundsverð í augum annarra. Til marks um þennan hugsunarhátt má nefna auglýsingu eina þar sem spurt er: Hvaða vinkona heldurðu að myndi öfunda þig mest ef þú ynnir milljón í happdrætti? Samfélagsskipan okkar byggist ekki á að samgleðjast náunganum yfir velgengni hans heldur að kosta kapps um að skara eld að eigin köku og láta tækifærin til að græða sér ekki úr hendi sleppa. Gefið er í skyn að við hljótum að vera hamingjusöm ef við getum státað af góðum efnum, valdamikilli stöðu, fullkomnu útliti eða hátt skrifuðum maka sem leggur sitt af mörkum í okkar öfundsverða púkk.
Því er lætt inn hjá okkur leynt og ljóst að hamingjan sé fólgin í að fullnægja löngunum okkar og eignast það sem hugurinn girnist. Að vera er orðið undirokað því að eiga. Fyrirsagnir útbreidds tímarits eru talandi dæmi um þetta viðhorf: „Tíu heitustu pörin á Íslandi.“ „Skoðaðu flottu kjólana og dýru skartgripina.“ „Ævintýrastúlkan sem krækti í eftirsóttasta piparsvein Íslands.“ Og okkur býðst að skoða útlit stúlkunnar sem landaði þeim stóra en fáum minna að vita um mannkosti hennar sem verða ekki vegnir og metnir með augunum einum saman.
Samt má líka til sanns vegar færa að við erum mörg knúin áfram af löngun til að njóta velgengni sem verður til þess að við öflum okkur menntunar, stöndum okkur vel og höfum margt að gefa öðrum. Metnaður er sem betur fer oft af hinu góða og leiðir til þess að við verðum bæði sjálfum okkur og öðrum til góðs. Vandinn liggur í því þegar metnaður birtist á röngum stað og stundu og við gleymum að skoða hvaða mann við höfum að geyma en gerum ytri viðmiðanir að mælikvarða á sjálf okkur og aðra. Við lendum í ógöngum þegar okkur finnst við verða að vera ‚eitthvað‘ sem endar með því að okkur finnst við ekki vera neitt. Ef okkur finnst við ekki falleg hið innra og vera mikils virði sem manneskjur líður okkur eins og tómri tunni sem verður að fylla af eignum, afrekum, aðdáendum eða öðrum stöðutáknum. Gallinn er bara sá að botninn er suður í Borgarfirði eins og Bakkabræður myndu segja. Við höfum engan grunn að byggja á þegar sjálfsvirðinguna og samkenndina vantar.
Þegar við einblínum á það sem setur okkur í samkeppni hvert við annað missum við snertinguna við tilfinningarnar, ást og samkennd, sem gera okkur að manneskjum. Í þessum tilfinningum, sem eru ósýnilegar augunum, tengjumst við sjálfum okkur og öðrum. Ást og samkennd stuðla að hamingju en öfund og óhófleg samkeppni spilla henni. Ofuráhersla á ytri gæði getur leitt til þess að við missum sjónar á því sem gerir okkur að manneskjum í sannasta skilningi þess orðs og gleymum að við þurfum á öðrum að halda til að geta orðið hamingjusöm.
Ást og hamingja
Hestar fæðast en menn menntast, sagði gríski heimspekingurinn Aristóteles. Hesturinn kemur í heiminn sem hestur en maðurinn fæðist ekki að fullu sem maður því að hann er miklu meira en líffræðileg vera. Við erum að miklu leyti sköpuð af menningu og því verðum við ekki manneskjur nema með annarra manna hjálp.
Við eigum líf okkar öðrum að þakka. Þegar nýfætt barn er lagt að brjósti sér meðfætt sogviðbragð til þess að það byrjar að nærast. Manneskjunni eru gefin úrræði til að halda lífi en hún getur ekki nýtt sér þau nema með annarra hjálp. Móðirin gefur barninu brjóst sitt og barnið heldur lífi. Úrræðasemi og varnarleysi manneskjunnar haldast þannig hönd í hönd.
Okkur er gefinn mannshugur sem stundum er eins og rakvélarblað sem sker í gegnum hismið og kemst að kjarnanum og stundum eins og þúsundfætlan sem komst ekki úr sporunum þegar hún byrjaði að hugsa um hvern fótinn hún ætti að setja fram fyrstan. Í öflugum huga mannsins er að finna uppsprettu hamingju hans – og ógæfu, því að manninum er gefið frelsi til að fara vel eða illa með gjafir sínar. Hann ákveður sjálfur hvort hann leggur rækt við ástina í brjósti sér eða lætur hana mæta afgangi í dagsins önn. Og hann ákveður sjálfur hvort hann temur sér umburðarlyndi, þolinmæði og heiðarleika eða hvort hann réttlætir fyrir sér óheiðarleika og yfirgang.
Við verðum ekki manneskjur, í bestu merkingu þess orðs, nema við notum huga okkar vel og breytum í samræmi við einlægan vilja og góðan ásetning. Og við getum ekki nýtt okkur möguleika mannsandans nema með annarra manna hjálp. Ef við viljum lifa eins og menn þá þurfum við að geta tjáð okkur og skilið það sem gerist kringum okkur, þar á meðal reglur og siðaboð umhverfisins. Og það getum við ekki nema með hjálp tungumálsins sem kynslóð fram af kynslóð hefur þróað löngu áður en við komum til sögunnar. Við lærum að lesa og skrifa með annarra hjálp. Við skoðum okkur um í heiminum með annarra manna hjálp. Og við auðgum anda okkar og lærum að hugsa og tjá okkur betur þegar aðrir bjóða okkur inn í huga sinn gegnum talað og ritað mál. Við lifum í samfélagi manna og eigum allt öðrum að þakka. Ekkert hefði gildi og tilgang ef við værum ein í heiminum eins og barnabókin sígilda Palli var einn í heiminum lýsir svo eftirminnilega.
Einhver sagði að það þyrfti heilt þorp til að ala upp barn og það má líka segja að það þurfi heilt þorp til að vera manneskja. Líf okkar allra er samtvinnað. Að halda að maður sé sjálfum sér nógur og þurfi ekki á öðrum að halda er mesta sjálfsblekking sem til er. Gott líf er gott mannlegt líf. Við getum sett okkur siðferðilegar reglur sem eru nokkuð algildar með því að ganga út frá því að við viljum öll vera hamingjusöm og komast hjá vanlíðan. Það er mikilvægt að átta sig á að við getum ekki greint milli rétts og rangs í siðferðilegum efnum án þess að taka tillit til tilfinninga annarra. Sá sem gerir sér far um að rækta með sér ást, samhygð, góðvild, heiðarleika, þolinmæði og ábyrgðartilfinningu gerir sér grein fyrir að gerðir hans hafa áhrif á aðra og reynir að haga sér samkvæmt því. Hann setur sér reglur með tilliti til eigin hamingju og hamingju annarra. Hamingjan nærist á ástinni. Þegar ástina vantar er siðgæðið í molum og þar með hamingja okkar.
Alls staðar í kringum okkur má sjá dæmi um vandamál sem stafa af skorti á ást og umhyggju og mætti því kalla siðferðileg vandamál. Þar má nefna skilnaði, ofbeldi, fíkniefnaneyslu og þunglyndi sem oft tengist vonleysi um hvernig hægt sé að spjara sig í heimi þar sem ofuráhersla er á peninga, útlit, velgengni og töffheit. Mætti ekki komast hjá mörgum þessum vandamálum ef meiri ást og samhugur væri sýndur í verki? Ástin er lofsungin í bókmenntum, kvikmyndum og dægurlagatextum en hún er enn feimnismál í vísindaheiminum þótt rannsóknum fjölgi stöðugt sem sýna að ást og umhyggja bæta heilsu manna og auka batahorfur og lífslíkur þeirra sem veikjast.
Andleg vanlíðan á okkar velmegunartímum er því ekki einkavandamál þeirra sem líður illa. Hún á sér líka þjóðfélagslegar rætur og því þurfum við að gæta að hvaða gildum við höldum á lofti og hvaða gildi við vanrækjum. Sannleikann er ekki að finna í bókum, ekki einu sinni góðum bókum, segir Halldór Laxness í Alþýðubókinni: „Sannleikann er að finna í mönnum með gott hjartalag.“
Fallegt hugarfar og gott hjartalag haldast í hendur. Þeir tímar koma í lífi okkar þegar öllu skiptir að sækja styrk í göfuglyndi okkar og góðleika – ekki síst þegar á bjátar í ástarsamböndum. Því hvílir hjónabandshamingja ekki síst á því að leggja rækt við þá eiginleika mannsandans sem endurspegla umhyggju fyrir vellíðan annarra; eiginleika eins og samhygð, heiðarleika, góðvild, umburðarlyndi, ábyrgðartilfinningu, nægjusemi og síðast en ekki síst þolinmæði.
Þolinmæði auðveldar okkur að takast á við áföll eins og veikindi, ástarsorg og missi, þegar okkur eru allar bjargir bannaðar aðrar en þær að beygja okkur undir mótlætið og taka einn dag í einu. Sá sem temur sér þolinmæði sýnir lífsnauðsynlegt lítillæti sem felst í því að ætlast ekki til að aðrir fylgi hans hraða og lífið snúist um þarfir hans. Þolinmæði eflir því ást, skilning og þolgæði – enda talin einn mikilvægasti hornsteinn andlegrar iðkunar.
Við erum á góðri þroskaleið þegar við finnum fyrir skyldleikanum við meðbræður okkar og systur og því má segja að andlegur þroski sé bæði jarðbundinn og í takt við heilbrigða skynsemi. Við þurfum ekki að trúa á orku í steinum, huldufólk í klettum eða fyrri líf til að líta á okkur sem andlega þenkjandi manneskjur. Við þurfum ekki einu sinni að trúa á ákveðinn guð eða á himnaríki sem stað sem við förum til eftir dauðann. Miklu fremur þurfum við að trúa á Guð í sjálfum okkur og taka þátt í að skapa himnaríki á jörð með ást okkar og umhyggju fyrir næsta manni. Við varðveitum sálarheill okkar og verðum mennsk með því að lifa lífi sem byggist á samhygð og þakklæti fyrir náungann.
En það er harmleikur mannlífsins að margir koma ekki fram við aðra eins og manneskjur sem eiga jafn mikinn rétt á að verða hamingjusamar og þeir sjálfir, heldur eins og hluti sem má nota og kasta frá sér. Þeir missa sjónar á gagnkvæmni mannlegra tengsla og spyrja einungis um eigin ánægju og markmið. En þeir sem nota aðra verða ekki hamingjusamir. Við þurfum á öðrum að halda – ekki til að hagnast á þeim, ráðskast með þá eða sýna fram á að við þurfum ekki á þeim að halda – heldur þurfum við á öðrum að halda sem manneskjum sem anda og hrærast og vilja verða hamingjusamar alveg eins og við – þótt þær noti kannski til þess aðrar leiðir.
Brjóstumkennanlega hetjan okkar, Bjartur í Sumarhúsum í Sjálfstæðu fólki, vildi vera sjálfstæður og sýna að hann kæmist af án annarra og hann missti allt að lokum. Hann sagði um Rósu konu sína þegar hann reyndi að hugga sig við að hann ætti þó að minnsta kosti konu: Hún er þó altént kona, eins og kind er kind. Og hún er mín kona!
En kona er ekki kona eins og kind er kind. Lamb fæðist lamb og verður kind ef Guð og bóndinn lofar. En manneskja fæðist barn og verður síðan að gera úr sér manneskju. Við erum að miklu leyti sköpuð af menningu og þurfum á öðrum mönnum að halda til að menntast. Við þurfum öll á góðum fyrirmyndum að halda og þær þurfa að vera af okkar eigin tegund.
Manneskjur eru öðrum manneskjum innblástur. Gæludýrin okkar geta ekki einu sinni verið okkur innblástur þótt okkur þyki ósköp vænt um þau og dáumst að leikgleði þeirra og værukærð. Þau eru bara of ólík okkur og örlög þeirra óskyld örlögum okkar mannanna. Við finnum fyrir nánum skyldleika með öðrum mönnum sem leiðir til þess að okkur finnst við ekki lengur vera aðskilin og ein. Hamingja okkar veltur á öðru fólki. Þótt við sönkum að okkur fínum og dýrum hlutum geta þeir aldrei veitt okkur það sem gerir lífið þess virði að hafa fyrir því.
Einn mikilvægasti þáttur sannrar hamingju er gagnkvæm umhyggja. En það er ekki óalgengt að sumir noti aðra í eigingjörnum tilgangi og kalli ‚umhyggju‘ sína ást þótt hún eigi meira skylt við ráðríki og stjórnsemi. Þeir líta á lífsförunautinn sem tæki til að ná markmiðum sínum en líta ekki á hann sem markmið í sjálfu sér. Þeir draga kraft úr annarri manneskju og verða oft vinsælir og athafnasamir meðan förunautarnir verða daufir og litlausir. Þeir hafa í raun ekki áhuga á manneskjunni sem þeir telja sig elska þá stundina, það eina sem þeir hafa áhuga á er að ná sínu fram. Slík hegðun er oft flokkuð undir skapgerðarbrest sem erfitt er að útskýra og ráða bót á, en það má líka segja að hún endurspegli allt of einfaldar hugmyndir um hamingjuna. Maður sem lætur stjórnast svo mjög af metnaðargirni að hann hefur aldrei tíma til að sinna sínum nánustu eða sýna raunverulega umhyggju fer á mis við það besta sem lífið hefur að bjóða, sanna vináttu og raunverulega virðingu, og breytir þá engu þótt hann komist til æðstu metorða í starfi sínu.
Sönn ást felur í sér umhyggju, virðingu og ábyrgð og beinist að þeim mannlegu verðmætum sem ástvinurinn býr yfir. Ástin birtist í einlægum vilja til að stuðla að vexti og hamingju ástvina okkar og hún sprettur upp úr hæfileika okkar sjálfra til að elska. Ef þinn heittelskaði segist ekki þola neinn nema þig skaltu hugsa þig tvisvar um áður en þú tekur því sem gullhömrum því það er erfitt að verða hamingjusamur með þeim sem þolir ekki mannkynið. Einn góðan veðurdag uppgötvar hann að þú ert bara venjuleg, breysk manneskja og þá þolir hann þig ekki heldur. Ást á einni konu eða einum manni á ekki að vera útilokandi því að þegar allt er eins og best verður á kosið elskum við allt mannkynið í ástvininum. Ástúðin sem við njótum vekur hjá okkur ástúð á öðrum. Þegar tvær manneskjur gefa sig hvor annarri í gagnkvæmri ást og nánara samneyti en þær eiga við nokkurn annan gerir ástargleðin þau enn meira vakandi fyrir hamingju annarra og heiminum öllum.
Ást og einmanaleiki
Við sitjum ein uppi með líf okkar. Því finnum við oft til einsemdar og stundum fyllir sú tilfinning okkur skömm vegna þess að við ímyndum okkur að við séum ein um hana. Og þá leitum við miður heppilegra leiða til að losna við hana. En aðeins ein leið er raunverulega fær og sú leið er ástin; að endurfæðast að fullu í ást – ekki aðeins til eins manns eða einnar konu heldur til heimsins alls.
Manninum er gefin vitund um sjálfan sig. Hann veit hvað líf hans er stutt og tilvera hans ótrygg og hann skynjar að hann ber einn ábyrgð á lífi sínu. Honum er varpað inn í þennan heim án þess að hafa nokkuð um það að segja og það eina sem hann á öruggt er að verða tekinn héðan aftur, trúlega án þess að verða spurður hvort dauðastundin henti.
Um leið og maðurinn fæðist leggur lífið spurningu fyrir hann og þeirri spurningu verður hann að svara. Hann verður að svara henni á hverju augnabliki lífs síns; það er ekki aðeins hugur hans sem þarf að svara og ekki aðeins líkami hans sem þarf að svara; heldur verður hann að svara henni, maðurinn allur og heill. Og spurningin er þessi: Hvernig getum við yfirunnið þennan sársauka sem fylgir reynslu okkar af því að vera aðskilin og ein? Hvernig getum við fundið einingu innra með sjálfum okkur, með samferðamönnum okkar, náttúrunni og lífinu öllu?
Spurningin er alltaf sú sama. En það eru mörg svör. Þó eru þau kannski ekki nema tvö þegar grannt er skoðað. Annað þeirra felst í því að komast yfir aðskilnaðinn með því að reyna að velta ábyrgðinni á sjálfum sér og lífi sínu yfir á einhvern annan. Hitt svarið felst í því að fæðast að fullu; að þroska næmi okkar, skynsemi og hæfileikann til að elska uns okkur tekst að finna nýtt samræmi og einingu – innra með sjálfum okkur og með heiminum öllum.
Elskhugi lífsins
Hamingja og ást spretta af lifandi, virkum huga. Þótt yfirleitt sé talað um virkni eða dugnað sem birtist í sýnilegum athöfnum er virkni miklu meira en ytri athafnasemi. Virkni birtist líka í lifandi huga sem hugsar djúpt, nýtur til fulls og brýtur viðfangsefni sín til mergjar. Því getur sú manneskja verið mjög virk sem situr og les sama ljóðið aftur og aftur þótt athöfn hennar leiði ekki til sýnilegrar nytsemi.
Ekki má setja jafnaðarmerki milli þess að vera virkur og þess að vera alltaf að. Manneskja sem er önnum kafin og gefur sér varla tíma til að setjast niður getur virst afar dugleg og virk. En ekki er víst að athafnasemi hennar komi til af góðu. Til þess að skera úr um hvort manneskja sé í raun virk þarf að skoða hugarfarið að baki gerða hennar. Ef hún er knúin áfram af kvíða eða þörf fyrir að sanna sig í augum annarra er ekki hægt að segja að athafnasemi hennar komi til af góðu vegna þess að hún er rekin áfram af einhverju sem er utan við hana sjálfa og vinnur kannski störf sín samanbitin eða með hangandi hendi (sem stundum er máttleysisleg leið til að mótmæla). Hugur fylgir ekki verki. Hún er ekki ‚með‘ í athöfn sinni og vinnur ekki starf sitt af gleði og fúsum og frjálsum vilja. Því má segja að manneskja sem gefur sér tóm til að hugleiða líf sitt með sjálfri sér sé stundum virkari en sú sem er á fleygiferð vegna þess að sú fyrrnefnda er öll í athöfn sinni og gefur sér frelsi til að leyfa hugsunum sínum að streyma fram hindrunarlaust.
Sá sem er virkur eða athafnasamur, í besta skilningi þess orðs, lifir sig inn í það sem hann gerir og það sem hann les, sér og heyrir. Hann verður eitt með verki sínu eins og bóndinn sem slær túnið, smiðurinn sem reisir húsið, listamaðurinn sem vinnur að sköpun sinni og konan sem gefur sig elskhuga sínum. Innri virkni er mikilvæg í ástinni því ekki dugar að elska með hangandi hendi eða af hlýðni við ytri boð eða bönn. Okkur dugar ekki að elskhuginn reyni að þóknast og þolum það raunar illa. Við viljum finna að orð hans og athafnir spretti frá honum sjálfum. Við viljum finna fyrir frumkvæði hans, viljastyrk og tilfinningahita. Ást sem varir nærist á auðugu innra lífi. Hún á það sammerkt með hamingjunni að spretta af lifandi huga sem kann að elska bæði sjálfan sig og aðra.