Þekktu sjálfan þig

Mestöll sú þekking sem menn hafa um sjálfa sig eru hugmyndir. Hún er því ekki sjálfsþekking, heldur ytri þekking.

Leitin að sjálfsþekkingu er í rauninni leit að veruleika. Í henni felst spurningin um hvað maðurinn er í raun og veru.

Undarlegasta mótsögnin í viðleitni mannanna er að þeim hefur tekist að afla sér mikillar vitneskju um umhverfi sitt en vita sáralítið um sjálfa sig. Þó hljóta allir að viðurkenna, að maðurinn sjálfur er mælikvarði allrar þekkingar, þekking hans á alheiminum er mannleg þekking, miðuð við vitundarstig hans, skilning og skynfæri. Fyrir því má hann búast við að dýpri skilningur hans á sjálfum honum - og það er sennilega sama eða svipað og meiri þroski - hafi í för með sér verulegar breytingar á gildi þekkingar yfirleitt.

Sjálfsþekking er allt annað en ytri þekking. Munurinn liggur ekki bara í því, að í öðru tilfellinu er um að ræða heiminn og aðrar lífverur, en hins vegar manninn sjálfan eins og hann er. Það er enginn munur á þeirri vitneskju að það séu rauð blóðkorn í blóði mannsins og að það séu rauð blóðkorn í blóði annarra spendýra.

Það er jafnmikil ytri þekking hvort tveggja, af því að þær byggjast á ytri athugunum, í heimi skynjananna. Sjálfsþekking er allt annars eðlis.

Ytri þekking, þessi venjulega þekking, er reynsla mannsins í hinum ytri heimi. Sjálfsþekking er reynsla mannsins í sálarlífinu.

Á þessu tvennu er grundvallar munur. Hvort tveggja þekkingin getur í sjálfri sér verið jafn sönn, hin ytri þekking er alltaf komin undir vitundarástandinu, en aftur á móti virðist sjálfsþekkingin ekki háð ytri aðstæðum. Menn geta margir saman tekið þátt í starfi viðvíkjandi hinni ytri þekkingu, sannað hana hver öðrum og afsannað, en það eru bara orð og hugmyndir. Sjálfsþekkingin heldur áfram að búa hið innra. Við getum ekki einu sinni gefið hver öðrum nema hugmynd um skynjanir. Við finnum öll hlýju sólargeislanna á andlitinu, en á hvern hátt þessi hlýja skynjast er einkamál hvers og eins. Og öllu, sem liggur dýpra í sjálfum manni, er enn óþægilegra að koma inn á reynslusvið annarra.

Mestöll sú þekking sem menn hafa um sjálfa sig eru hugmyndir. Hún er því ekki sjálfsþekking, heldur ytri þekking. En samt hefur hver einasti einstaklingur, sennilega hver einasta lífvera með sjálfsvitund ákveðna sjálfsþekkingu. Innri tilfinning fyrir því að vera til, ég tilfinningin, er miðdepill þessarar þekkingar, og út frá honum kemur þekking á eða reynsla af því að geta hugsað, langað til, fundið til og skynjað, eins og það er greint innan frá. Til þess að gera þetta ljóst, skal ég taka dæmi:

Menn hafa komist að því, að hugsun mannsins og sálræn starfsemi hefur aðsetur sitt í heilanum. Við þekkjum gerð heilans og gerum okkur hugmynd um, hvernig boðskapur flyst með taugum um líkamann, þegar maður hugsar. Þetta er ytri þekking. Þegar maður hugsar, er hugsunin honum hins vegar veruleiki, en hann hefur enga tilfinningu fyrir starfsemi heilans á þann hátt, sem fengin er með hinni ytri athugun.

Menn hafa komist að raun um, að geðbrigði og hvatir standa í sambandi við hina svo kölluðu innrennsliskirtla. En þegar geðbrigði og hvatir gera vart við sig hið innra, er engin tilfinning fyrir starfi kirtlanna, þó það sé vafalaust veruleiki.

Menn hafa komist að því, að sársauki er boð, sem taugar flytja heilanum og hann túlkar á þennan hátt. En þegar maður brennir sig í fingur, hefur hann enga tilfinningu um þessa starfsemi í líkamanum heldur aðeins sársaukann í fingrinum.

Þegar maður leitar sjálfsþekkingar hverfur maður frá hinum ytri skýringum og athugunum og fikrar sig áfram eftir hinni innri reynslu, athugar tilfinninguna, skynjunina, hugsunina, á þann hátt sem hún starfar í manninum, fikrar sig inn eftir sálarlífinu. Og það er ekki víst að allt, sem maður kallar reynslu í sálarlífinu, reynist mjög áreiðanlegt. Leitin að sjálfsþekkingu er í rauninni leit að veruleika. Í henni felst spurningin um hvað maðurinn er í raun og veru. Sú spurning hlýtur að vera kjarni sjálfsþekkingarinnar. Það er í rauninni eina og sanna sjálfsþekkingin. Ýmislegt, sem maður hefur reynslu af í sálarlífinu, kann að eiga eftir að koma manni öðru vísi fyrir sjónir við nánari athugun hið innra. Fyrirfram gerir maður sér enga grein fyrir því, hve djúpt maður þarf að kafa til að finna sjálfan sig.

Það er aldrei hægt að veita mönnum sjálfsþekkingu á sama hátt og unnt er að gefa vitneskju um hlutræn fyrirbæri. Þetta stafar af því, að viðfangsefnið sjálft er innilukt í hugarheimi mannsins. En það er hægt að benda á leið til sjálfsþekkingar. Það er ekki hægt að segja manninum hvað hann er. En það má leiðbeina um aðferð til sjálfsrannsóknar. Og svo undarlegt sem það virðist er sú aðferð fyrst fólgin í því að athuga hvað hann er ekki.

Ef maðurinn lifir í hugmynd um sjálfan sig, sem að einhverju leyti er röng, stafar það af því, að hann viðheldur í hugarheimi sínum einhverri blekkingu, sem hann tekur ekki eftir. Þegar hann svo sest niður til að athuga, hvað hann er, gengur honum án efa greiðlega að gera sér grein fyrir að hann er ekki stóllinn, sem hann situr á, eða borðið sem hann hefur fyrir framan sig.

En er þá ekki hægt að halda svona áfram?

Jú, til þess er ákveðin leið.

Austurlandabúar, einkum Indverjar, hafa frá fornu fari iðkað meira landkönnun í ríki sálarlífsins en rannsóknir út á við og þaðan fáum við leiðbeiningarnar. Framkvæmd er nákvæm og skipuleg athugun á hverjum þætti sálarlífsins fyrir sig, og reynt að láta koma í ljós hverju hlutverki hann gegnir.

Fyrsta skilyrði er taumhald á athyglinni. Ef þú ætlar að athuga tilfinningar þínar, máttu ekki láta þær bera athyglina á brott með sér og missa algerlega stjórn á því sem gerist í sálarlífinu. Ef þú ætlar að athuga skynjanir þínar, þarftu líka að lofa þeim að starfa eins og þeim er eðlilegt án þess að sökkva þér niður í unaðssemdir þeirra. Þegar þú athugar hugsanalífið, máttu ekki heldur fljóta á brott með straumi hugsananna. Þetta kostar fyrst og fremst sjálfsvald, hæfileika til einbeitingar. Vitræn athugun á sjálfum sér kostar viljafestu. Þess vegna er það í indverskri dulspeki að fyrsta atriði hugleiðingar er dharana, einbeiting, og fyrsta atriði almennrar þroskaviðleitni er viveka, dómgreind, en í rauninni er dharana og viveka sama skilyrðið. Í hvoru tveggja felst athugun og einbeiting. Þú athugar ekki sjálfan þig, ef þú getur ekki beitt athyglinni að hverju sem er, skipulega og ákveðið.

Síðan er rétt að taka hvern þátt sálarlífsins fyrir sig. Það má gera það í sérstökum hugleiðingartímum, hafa þetta sérstakan þátt daglegrar hugleiðingar, því að mestöll hugleiðing er þessu lík, þótt hún sé skipulögð með margvíslegu móti. En slík sjálfsathugun er líka möguleg við dagleg störf, og kemur hún aldrei að fullu gagni nema hún sé iðkuð líka í straumiðu daglegs lífs. Sjálfsathugun felur ekki einasta í sér að reyna að kafa eftir hvað maður er í raun og veru, heldur líka að skoða sálarlífið og kynnast því rækilega eins og það er. Það er best að byrja á því, sem virðist vera yst og síðan fletta utan af sér hverju lagi af öðru. Fyrst athugar maður þá skynjanirnar. Maður skynjar stólinn, sem hann situr á og borðið, sem hann horfir á, einnig tónlistina, sem honum berst til eyrna. En í þessu tilfelli skiptir hugmyndin um stólinn engu máli og ekki heldur hugmyndin um borðið eða tónverkið, heldur bara skynjunin sjálf. Þú verður að gera þér grein fyrir því að stóllinn, borðið og tónverkið hefur ákveðna mynd í huga þér, í vitundarstarfi þínu, sem skynjunin vekur eða dregur athygli þína að. En sjálf skynjunin er ákveðin tegund reynslu, sem að vísu er þín reynsla, þótt hún þurfi ekki að leiða þig áfram að einhverjum sérstökum hugmyndum eða viðhorfum. Ef þú svo neitar skynjuninni að leiða þig með sér, geturðu setið á stólnum og fundið fyrir honum, án þess að sú tilkenning hafi nokkra þýðingu fyrir þig í svip: horft á borðið, án þess að veita því nokkra frekari athygli og látið tónana fara inn um annað eyrað og út um hitt í þess orðs réttu merkingu.

Þannig er hugsanlegt að taka allar skynjanir, og þegar svo er komið, að þú greinir þig þannig frá skynjunum, hefurðu litla tilfinningu um efnislíkamann yfirleitt, ert að minnsta kosti ekki á valdi hans, og kemst ekki hjá að álykta, að þú ert ekki líkaminn, ekki skynjanirnar. En um leið og þú getur aðgreint þig frá skynjuninni, finnurðu hvað hún er, og að það er merkilegasta atriðið. Að lifa skynjunarfyrirbærið, aðgreint frá öllu öðru, er að gera sér grein fyrir hvernig hægt sé að gera sig óháðan því, sigra það. Áður réðu skynjanirnar yfir þér en þú ekki yfir skynjununum. Þú hefur því ýtt til hliðar blekkingu, sem hafði þig á valdi sínu, því að þú værir sjálfráður á því sviði, þar sem skynjanirnar réðu í raun yfir þér.

Síðan er hægt að taka tilfinningalífið og langanirnar á sama hátt. Hugsaðu um barnið þitt, sem þú elskar eða einhvern sem þér er í nöp við, eitthvað sem þú þráir, eitthvað sem þú vilt forðast. En máðu burt hugsunina um tilefnið, beindu athyglinni að sjálfri tilfinningunni, fyrirbærinu að finna til, fyrirbærinu að langa, án þess að hugsa um þetta, sem veldur tilfinningaafstöðunni eða lönguninni. Þá uppgötvar þú, hvernig tilfinningin og löngunin eru í sjálfu sér, og þegar þær geta ekki lengur blekkt þig með þeirri hugmynd eða tilhugsun, sem var tilefni þeirra, skilur þú, hvaða aðferð þú getur beitt til að losa þig undan valdi þeirra, svo að þú stjórnir þeim, þær ekki þér.

Með sama hætti þarf að afgreiða hugsunina. Þú hugsar, hugsunarstarfið er þér innri veruleiki, eins og skynjanirnar og tilfinningarnar, bara innar í sálarlífinu að því er virðist. Það sést á því að engin skynjun verður til án hugsunar og engin tilfinning án hugsunar. Hugsanirnar eru eins og ólgandi lífsstarf hið innra, sífelld myndasmíð. Þér er tamt að láta athyglina fylgja með hugsanarásinni, tengja hana við myndina sem hugsunin skapaði, en ekki við hugsunarkerfið sjálft. En á þessu má gera breytingu, og reyna að athuga rólega, hvernig sú næsta kemur upp, líkt og loftbóla í vatni. Reyndu að athuga hvernig hugsunin starfar en ekki hvernig myndirnar eru, sem hún býr til sí og æ. Og þegar þú loks ert hættur að elta þær og ert orðinn fær um að skoða hvernig þú ferð að því að hugsa, ertu orðinn laus undan ofurvaldi hugsanaflekksins, eða að minnsta kosti telur að þú getir orðið það. Þetta er leið til sjálfsþekkingar eða réttara sagt grundvöllur sjálfsþekkingar. Þegar búið er með einbeitingunni að losa þannig um böndin í sálarlífinu er unnt að koma við áframhaldandi athugun. Og það er auðvitað mikið verk eftir að vinna við áframhaldandi athugun og við nánari rannsóknir á þeim þáttum sálarlífsins, sem hér hafa verið nefndir. Viðvíkjandi hugsuninni einni er unnt að athuga, hvernig hugmyndirnar tengjast hver annarri, hvernig rökhugsun starfar, hvernig ímyndunaraflið starfar, til dæmis í dagdraumum og öðrum draumum hvernig minnið starfar. En við erum þegar, með þessum athugunum, komin að nokkrum meginatriðum:

1. Venjulega hafa skynjanir, tilfinningar, langanir og hugsanir mann svo mjög á valdi sínu að hann tekur ekki einu sinni eftir hvernig skynjanastarfið, tilfinninga-, langana- og hugsanastarfið fer fram í sálarlífinu, hvað þá að hann hafi nokkra verulega tilfinningu um, hvað hann sjálfur er. Það má því segja, að hann móki eða láti sig dreyma.

2. Það að aðgreina sig frá þessari starfsemi í sálarlífinu, skynjun, tilfinningu, löngun og hugsun, og vera fær um að athuga þær sem fyrirbæri, er hvort tveggja í senn að skilja hana, eða réttara sagt fá beina reynslu af henni, og eins hitt að finna ráð til að láta hana ekki ráða yfir sér.

3. Ekkert af þessu ert þú. Þetta eru bara eins og ölduföll í kringum þig sjálfan, eins og röstin sem myndast, þegar skipsstafninn klýfur yfirborð sævarins.

4. Enda þótt unnt sé að halda áfram nánari athugun á þessari umgetnu sálrænu starfsemi, leiðir sú athugun aldrei beinlínis til að finna þig sjálfan.

Öll þessi viðleitni eykur verulega skilning á manneðlinu, en svarar ekki spurningunni um sjálfið. Það eykur sjálfsþekkinguna, en leysir ekki gátuna um hvað maðurinn er. Sú spurning yrði líklega á máli vestrænna sálfræðinga kölluð gáta vitundarlífsins, og dulspeki Austurlanda mundi ekki orða þetta mikið öðruvísi.

Hér tekur nú brátt að ljúka þeim möguleikum, sem venjulegir menn hafa til að kanna sálarlíf sitt með beinni reynslu. En samt þarf ekki að láta staðar numið. Það þarf að athuga þekkingarmöguleikana á sviðum skynjana, tilfinninga og langana og hugsana betur.

Í indverskri dulspeki er það vitundarástand, þegar maðurinn tengir athygli sína skynjunum, kallað jagrat, en hjá búddhistum í Himalaya og Tíbet er það kallað salur fávisku. Jagrat , salur fávisku, er ekki einasta vitundarstig, heldur líka þroskastig. Þeir menn tilheyra þessu þroskastigi, sem taka út nærfellt alla sína reynslu á sviði skynjananna, láta stjórnast af þeim. Þeir menn eru í móki á tilfinningasviðinu og langanasviðinu.

Það vitundarástand, þegar maðurinn tengir vitund sína tilfinningum, löngunum og hugsunum, er aftur á móti kallað svapna, sem þýðir eiginlega svefn eða draumur. Hjá búddhistum heitir það salur lærdóms. Þetta er líka þroskastig, og því tilheyra allir, sem að mestu lifa í tilfinningum sínum, löngunum og hugsunum. Þeir eru vaknaðir til meðvitundar um tilfinningar, langanir og hugsanir sem eitthvert brot eða birtingu af veruleika, og lúta valdi þeirra. Á þessu stigi eru flestir góðir menn og þetta stig er skilyrði fyrir því, að unnt sé að iðka nokkra hugræna æfingastarfsemi.

En ofar þessu stigi kemur vitundarstigið sushupti, sem heitir hjá búddhistum salur viskunnar. Það er ofar venjulegri mannlegri vitund og venjulegum mannlegum þroska. Það stig tekur við, þegar maðurinn er orðinn óháður fyrirbærum svapna stigsins, þegar algerlega hefur verið þaggað niður í tilfinningum, löngunum og fyrst og fremst hugsunum, og maðurinn er orðinn gersamlega óháður þeim.

Það er þó betra að vara sig á því að gera sér ekki of yfirborðskennda hugmynd um muninn á svapna og sushupti. Í svapna, á sviði tilfinninga, skynjana, langana og hugsana, höfum við séð, að eingöngu er um að ræða starfsemi. Og sú starfsemi, að viðbættri þeirri sjáfstilfinningu, sem fylgir athyglinni, þegar henni er beint að þessari starfsemi, er það, sem í dulspekifræðslu er kallað persónuleiki, þessi samnefnari eða samlögun, skynjunar, tilfinninga, langana og hugsunar. Sushupti er hins vegar undrið á bak við persónuleikann.

Hér þarf að hyggja grannt að. Hugsunarhæfileikinn er ekki allur, þar sem hann er séður. Allir kannast við það, sem kallað er óhlutræn hugsun, hugsanamyndun án tengsla við ytri fyrirbæri. Það er hún sem er að starfi, þegar maður reynir að athuga eða horfa á hugsunarhæfileikann að starfi, en leyfir ekki athyglinni að fylgja einstökum hugmyndum eftir.

Mér er ekki grunlaust um, að fólki finnist svolítið óljóst, hvað átt er við með óhlutrænni hugsun. En þegar þú til dæmis reynir að gera þér grein fyrir í hverju sannleikur og góðvild er fólgin, sannleikurinn og góðvildin í sjálfu sér, hugsarðu óhlutræna hugsun. Þannig er til hugsun án tengsla við ytri fyrirbæri.

Og þá kemur næsta stig í sjálfsþekkingarleitinni, þegar búið er að greina sig frá skynjunum, tilfinningum, löngunum og hugsunum.

Athyglinni er snúið inn á við, beint að þessum, sem hugsar. Áður hafði athyglin alltaf beinst út á við, út í ríki hugmynda og tilfinninga. Nú er reynt að snúa henni inn í sjálfa vitundina.

Ég er ekki að fara með ykkur upp í neinar skýjaborgir. Þið getið reynt þetta sjálf. Þetta eru að vísu bara tilraunir, og þið megið ekki búast við, að það gerist eitthvað stórkostlegt þegar í stað. Reynið við hentugt tækifæri, þegar hugurinn lætur vel að stjórn og þið eruð í góðri ró, að beina athyglinni að þessum, sem hugsar, ekki að neinni sérstakri hugsun, heldur blettinum, þar sem hugsanirnar koma upp. Það getur verið, að þetta gangi illa fyrst í stað, en með einlægni má verða nokkurs vísari. Blekkið ykkur þó ekki með því, að halda að í skyndi sé unnt að opna fyrir æðra vitundarstig. Hugsanirnar munu hópast að, þótt óboðnar séu og einbeitingin inn á við gengur í besta falli skrykkjótt. En þegar rofar til einstaka sinnum, gætuð þið orðið vör við einhvern myrkan blett í vitundinni, myrkan blett, sem væri líkastur algeru tómi, algerri kyrrð. Og það er eins og hann dylji á bak við sig eða í sér einhvern óskýranlegan veruleika, sem þið hyllist til að giska á að sé uppruni sjálfsvitundarinnar.

Þetta er ekkert yfirnáttúrulegt. Þetta er ekki æðri vitund eða uppljómun. Þetta þýðir bara það, að þið hafið komist til botns í hugsunarhæfileikanum örstutt andatak. Hér eru líka mörk mannlegra vitsmuna. Þeir draga ekki lengra. Venjulegir mannlegir vitsmunir geta myndað kenningar um framhaldið, en þær kenningar eru aðeins hugmyndir, ekki sannreynanlegur veruleiki í manninum sjálfum.

Hingað til höfum við látið hinn mannlega skilningshæfileika vera okkar leiðarljós í þessari athugun. Sú útsýn yfir sálarlífið, sem við nú höfum er í fáum orðum þessi:

1. Hin persónulega sálræna starfsemi er sundurgreinanlegir þættir, sem maður getur horft á og athugað, eins og landabréf fyrir framan mann.

2. Að baki liggur einhver dimmur eða óskýranlegur veruleiki, sem maður hefur aðeins frið til að greina, þegar sljákkar í hinni sálrænu starfsemi.

3. Vitund mannsins virðist vera á mörkunum þarna á milli.

Til dýpri könnunar í sálarlífinu þarf aðra aðferð. Það er ekki nóg að skilja og athuga. Það þarf sérstaka iðkun. Leyndardómur þroskaviðleitninnar er bæði fólginn í skilningi og framkvæmd.

Allt, sem við höfum rætt um hér er skilningseðlis, er eins og útsýn yfir verkefnið. Við höfum skilið þann möguleika að undangenginni athugun á sálarlífi okkar sjálfra, að það er til aðgerð, sem líkleg er til að geta losað mann undan valdi skynjananna, enn fremur aðferð til að gera mann óháðan hugsunum. Til þess að geta orðið þessa vísari, höfum við lært hugareinbeitingu, það er að beina athyglinni að einhverju sérstöku í einu og halda henni þar fastri um stund. Þá hefur skilningsglæta bent okkur á það, að eina leiðin til að maður fái frið til að láta athygli sína hvíla við hinn myrka miðdepil vitundarlífsins sé að gera sig algerlega óháðan öldugangi hinnar sálrænu starfsemi.

Nú tekur við annað stig viðleitninnar til sjálfsþekkingar. Þá er bætt við sérstökum iðkunum, sem fela í sér nýja afstöðu til ytri fyrirbæra. Þær iðkanir eru einmitt það að gera sig algerlega ósnortinn af fyrirbærum skynjana, tilfinninga og hugsana, án þess að maður hætti að hugsa, finna til eða skynja. Þessi iðkun heitir á Sanskrít vairagya og er talin beint framhald viveka. Vairagya felur í sér að framkvæma þá aðgreiningu, sem skilningshæfileikinn benti á að væri möguleg, og orðið vairagya þýðir það að vera algerlega ósnortinn af ytri fyrirbærum, líka tilfinningum og hugsunum, enda þótt maður bæði skynji, finni til og hugsi. Vairagya er að gera sig frjálsan í fangelsinu. Samfara vairagya er önnur tegund hugleiðingar. Hugareinbeitingarinnar er ekki þörf. Hún er að nokkru leyti áunnin ásamt skilningnum á því, hvað maður er og hvað maður er ekki. En þegar hugurinn er orðinn þjáll, ber að láta hann uppgötva allan skilning, sem honum er mögulegur. Slík hugleiðing nefnist dhyana, notkun hugsunarhæfileikans eftir að hann er orðinn þjálfaður.

Fyrir flestum er það í fyrstu þokukennt, hvaða iðkanir skuli hafa um hönd til að ástunda vairagya, en skilningurinn, sem vaknar í hugleiðingunni vísar leiðina. Þetta krefst vökullar athygli, sömu afstöðu daginn út og daginn inn, sem maður hefur í vel heppnaðri hugleiðingu, og það á að vera hægt, eftir að einbeitingin er orðin nokkuð þjálfuð.

Hér skulum nefnd nokkur dæmi um iðkun vairagya:

Þú ert við vinnu þína, og skalt þá annað slagið staldra við og reyna að öðlast þá afstöðu að horfa á sjálfan þig vinna, horfa á hendurnar hreyfast, horfa á athöfnina og sjálfan þig inna hana af hendi, og reyndu að finna, að þú getur gert þetta án þess að láta það hafa áhrif á þig. Horfðu út um gluggann og líttu á umhverfið. Reyndu að gera þér grein fyrir, að þetta er bara mynd. Þú ert eins og barn, sem er að fletta myndabók, og gleymir sér. En rumskaðu nú. Láttu þér skiljast, að þú getur horft á umhverfi þitt eins og þú værir að horfa á kvikmynd, og þótt þú sjálfur sért einn af leikurunum, þá gerir það ekkert til, því að þú átt að reyna að horfa á líkama þinn eins og starfandi tæki, sjálfum þér óháð. Taktu líka þínar góðu og göfugu tilfinningar og horfðu á þær eins og ytri fyrirbæri. Þú átt að geta elskað án þess að drekkja þér í kærleikstilfinningunni. Þú átt að geta þráð þroska vegna þroskans sjálfs og eins og hann komi þér ekkert við. Og svo kemur að lokum að skynjanirnar verða eins og skuggamyndir á tjaldi, tilfinningarnar eins og næturgolan, sem leikur um andlit þér, og hugsanirnar eins og maður sé að teikna myndir eða leika á hljóðfæri.

Þetta kostar gífurlega sjálfsafneitun, vökula athugun og óbifandi festu. Vairagya er skóli í því að verða algerlega ópersónulegur í viðhorfum sínum og venja sig af því að vænta ábata af verkum sínum.

Um þann, sem hefur áunnið sér þessa dyggð, eru þessi orð í bókinni Rödd þagnarinnar:

„Vitrir menn tefja eigi á leikvangi skynjananna”

“Vitrir menn sinna eigi ljúfmælum blekkjandi radda.”

Og hinu sama lýsir Isha Upanishad með þessum orðum:

"Vel getur sá látið sér lynda að lifa hundrað ár, sem starfar án þess að vera háður starfinu, vinnur verk sín í einlægni en án langana, þráir ekki ávexti þeirra,- hann og hann einn.”

Sá, sem þessari afstöðu hefur náð, lifir í órofinni kyrrð. Boðaföll persónulegra viðhorfa ná ekki til hans. Um hann er stöðug ró, friður fjallanna. Hann á auðvitað mikið ólært. En hann er nú fær um að gera merkilega uppgötvun. Sú snerting af kyrrð og tómleika, sem honum fannst áður við hina vitrænu athugun eina stafa frá hinum myrka bletti í vitundarlífinu, var bara forboði þeirrar kyrrðar, sem ríkir stöðugt innra með honum, eftir að hann hefur öðlast ávexti vairagya.

Og nú truflar hann ekkert, þegar hann lætur athyglina dvelja við uppsprettu sjálfsvitundartilfinningarinnar í sjálfum sér. Nú er hægt að halda áfram könnuninni í djúpum sálarlífsins.

Og hinn myrki blettur greiðist í sundur.

Fyrst er eins og allar sveiflur hjaðni. Síðan kemur tilfinning um einhvern öflugan veruleika, en loks kemst athyglin aftur fyrir persónuleikann, og þetta, sem okkur finnst vera myrkur hlutur, sem er umluktur magnþrunginni kyrrð, er eins og gluggi inn í aðra veröld, heim raunveruleikans, vitund innri mannsins.

Þetta er eins og ljósgeisli og allur veruleiki þeirra hluta í sálarlífinu, sem við köllum hugsanir, tilfinningar og skynjanir, eru eins og skuggaspil í ljósi hans.