Söngur í hjartanu

Söngur í hjartanu

Sú skynjun sem leitar á

í mystískri upplifun

er oftast nær eins konar heyrn

EINS OG stundum oftar ætla ég að ræða mystíska upplifun, þetta undur mannlífsins sem okkur sést fulloft yfir og gætum e.t.v. ræktað betur en við gerum. Í þetta sinn ætla ég aðeins að víkja við umræðuefninu og horfa á málið frá annarri hlið.

Mystísk upplifun er upphaf allra andlegra fræða. Og spurningin hvurt okkur tekst að nema svokölluð dulræn, andleg fræði, esóterísk fræði, að gagni og ná árangri á þeirri braut fer eftir því fremur en nokkru öðru, hvernig við skiljum, hvort við skiljum og hvort við höfum tilfinningu fyrir því hvað mystísk upplifun er. Hvernig verður mystískri upplifun lýst? Hvernig er hægt að lýsa hinu ólýsanlega? Tungumálið er ekki miðað við að lýsa mystískri upplifun. En ég ætla að byrja á hinni sígildu lýsingu.

Hin sígilda lýsing á mystískri upplifun er í þremur stigum þó að mystísk upplifun sé ekki í neinum stigum, hún er alltaf eins eða réttara sagt hún er alltaf jafnólýsanleg.

Fyrst er að það leggst yfir ótrúlega voldug þögn. -- Ef menn taka eftir hvernig þessi reynsla kemur, þá byrjar hún á því að það leggst yfir ótrúlega voldug þögn. Enginn er í neinum vafa þegar þessi þögn er komin. Svo er eins og þú bráðnir inn í allt sem þú upplifir og sérð í kringum þig, eins og skilin milli þín og þess leysist upp. Þriðja e.t.v. sjaldgæfasta upplifunin, upplifun sem í rauninni er handan við alla hugsanlega möguleika að gefa til kynna er; að þú finnur allt, bókstaflega allt í þér, að þú verður tómið, óendanleiki -- óendanleikinn er e.t.v. skásta orðið sem allt hugsanlegt hvílir í. Þetta er svo einfalt og sjálfsagt meðan á því stendur, svo laust við að það þurfi að spyrja nokkurra spurninga eða koma með nokkrar útskýringar að manni liggur við að hlæja.

En þetta er ekki öll sagan, sagan verður raunar aldrei sögð, í þeirri upplifun sem við köllum mystíska er eitthvað, furðulegt eitthvað, og náttúrlega ekkert annað en þú sjálfur og mig langar andartak til að staldra við þetta eitthvað. -- Það er alls staðar, það er utan um allt, það smýgur í gegnum allt, það er gleði, það er fögnuður, ólýsanlegur fögnuður, það er lifandi, lifandi eitthvað, sem við getum e.t.v. kallað með dálítið útþvældu orði, návist. En það er samt eins og þú getir talað við þetta eitthvað þó að það sé þú. Vitund, allt er vitund, allt er líf, ekkert nema líf og þetta eitthvað er alltaf með á öllum stigum, þessum þremur stigum sem ég nefndi áðan, eiginlega óbreytt. Það er í þögninni, það er í því þegar þú bráðnar saman við allt sem þú upplifir. Það er í því stigi sem síðast var nefnt, þegar þú ert óendanleikinn, óendanleikinn án þess að nokkuð sé dregið undan.

Vanalegast stendur þetta stutt yfir, því miður. Við erum fremur að lýsa áhrifunum af þessu heldur en því sjálfu. Áhrifin eru alltaf eins, vara lengi á eftir, kannski það sem eftir er ævinnar. Fögnuður, kærleikur, raunverulegur kærleikur, skilyrðislaus og þess vegna hljóður eins og þögnin, og ótrúlega ljós skilningur eða sýn sem bregður furðulega sterkri birtu á líf mannsins eftir að þetta hefur komið fyrir.

Hægt er að tala um fleira í þessu sambandi. Hrifning t.a.m. er afskaplega nærri mystískri upplifun. Óendanlega sterk hrifning, t.d. á tónleikum eða þegar við horfum á fagurt landslag, stundum kannski bara daufur ávæningur af þessu sem hefur samt óendanleg áhrif, stundum eins og tilefnislaus blossi af sælu.

Að þessu viðbættu er hin svokallaða náttúrumystík, öll mystík er alltaf eins. Náttúrumystík þegar þú finnur þig í öllu í náttúrunni, situr og horfir á náttúruna, margir eiga auðvelt með þetta. -- Náttúran verður lifandi og ekki bara þú, smátt og smátt rennur þú saman við hana, eins og talað var um á öðru stiginu. Stundum er talað um að í þessu ástandi, sérstaklega þegar þú ert sjálfur óendanleikinn að þú sameinist guðdómnum; raunar er hann alltaf jafnnærri, ef átt er við guð með orðinu návist. Við þessa takmarkalausu allt yfirspennandi og gegnumsmjúgandi návist þarf ekki að setja neitt spurningarmerki; hún er það einasta sem ég get hugsað mér í lífinu sem ekki þarf að setja spurningarmerki við.

Af hvurju erum við svona kærulaus um þennan möguleika sem læknar? Er það e.t.v. af eigingirni? Af því við verðum að leyfa okkur, svo framarlega sem einhver mystísk upplifun er annars vegar, að vera ekki neitt, sem þó raunar þýðir að við verðum allt.

Stundum kemur þessi mystíska upplifun líka fram í “líkamlegri skynjun", og þá verðum við að ræða um muninn á okkúltu næmi -- verkefni sem er tekið fyrir í esóterískri þjálfun en er í rauninni mjög einfalt -- og mystískri tilfinningu. Þetta er tvennt þó að það gangi hvað inn í annað.

Næmi er eins konar skynjun, einhver sem skynjar er ævinlega þar, það er eins konar framhald eða ný vídd í því að skynja. En mystísk tilfinning er framhald af tilfinningunni fyrir að vera -- þú sjálfur breytist, ekki það sem þú skynjar. Þetta blandast samt oft saman. Í andlegri iðkun, svokallaðri esóterískri iðkun, háu yoga, chakta-yoga þá á hin mystíska tilfinning að vera einu skrefi á undan hinu okkúlta næmi. Ef þú hefur aðeins okkúlt næmi og þróar það, þá verður þú skyggn og færð dulrænan mátt sem ekki þykir hollt ef við höfum ekki hina háu mystísku upplifun sem þurrkar út muninn á þér og öðrum.

Hina mystísku tilfinningu má skýra þannig að hið tímalausa andartak komi í ljós.

Við þurfum að staldra við vegna þess að okkur gengur verst að átta okkur á öllu sem er næst okkur. Hvernig ertu sjálfur í andartakinu? Því þetta sem við köllum tímalaust andartak er í rauninni sálarástand, það er í rauninni hér um bil hið sama og hljóður hugur. Þú finnur greinilega mun á því sem þú ert og því sem þú skynjar; það er eitt einkennið á þessu.

Það sem þú ert í hinu tímalausa andartaki er einhver óskilgreinanlegur óendanleiki, ekkert nema einskonar kyrrð, þetta er áður en nokkur mystísk reynsla kemur, þetta er nokkuð sem þið getið ræktað með ykkur bara með smáleiðbeiningum. Það sem þú skynjar birtist með einhverjum hætti í þessari kyrrð en það er ekki kyrrðin sjálf -- þú ert kyrrðin. Þarna er ekkert aðgreint ég, jafnvel þarna strax er ekkert aðgreint ég vegna þess að égið er tóm ímyndun, hrapallegasta ímyndun sem upp hefur verið fundin. Flestallar ímyndanir eru skemmtilegar eða a.m.k. skaðlausar en þessi er ekki skaðlaus, a.m.k. eins og sakir standa í þróun okkar.

En á bak við eitthvað sem við verðum að kalla “fókus athyglinnar" er eitthvurt óendanlegt djúp af hljóðri tilveru -- þannig er hið tímalausa andartak -- en framan við mig er þetta sem ég skynja, þetta sem kemur inn í kyrrðina eins og blæbrigði á vatnsfleti án þess að vera vatnið sjálft. Þú breytist ekkert, þetta hljóða djúp ert þú alltaf eins. Það sem þú skynjar er það sem breytist.

Annað sem verður að tala um er tekið beint úr esóterískum fræðum, það er hið svokallaða mystíska og okkúlta kerfi í manninum. Frá því sjónarmiði -- og við skulum bara líta á það sem líkingu -- er maðurinn, líkami hans, ytri og innri, eins og knippi af kraftþráðum. Veruleikinn, ef leyfist að tala um veruleika, er í annan endann vitund, í hinn endann máttur. Í mannslíkamanum eru tvö kerfi, annað fyrir nokkurn veginn hreina vitund, hitt aðallega fyrir mátt; það er eins og sinn hvor endinn á því sama.

Máttarkerfið er upp eftir hryggnum og stendur í nánu sambandi við skynjanirnar. Hálspunkturinn t.d. svokallaði er í sambandi við heyrn, brjóstpunkturinn í sambandi við snertingu og þótt undarlegt kunni að virðast, punkturinn sem er á móts við naflann er í sambandi við sjón. Þetta er kraftkerfið eða máttarkerfið sem er aðallega tengt veruleikanum sem mætti í manninum skv. esóterískum fræðum. En svo eru önnur sem standa í sambandi við vitundina fyrst og fremst, svæðið fyrir framan brjóstið, svæðið fyrir framan ennið og raunar víðar, það er hvernig þér líður, hvernig þér finnst að vera til -- hvað það er að vera til. Ef þér fer t.d. að líða illa af geðrænum ástæðum bara upp úr þurru er það vanalega vegna þess að það hefur eitthvað gerst í þessu kerfi.

Þannig að við höfum annars vegar okkúlt næmi sem er dulskynjun og stendur í sambandi við það sem er kallað máttarkerfi, hins vegar vitundarkerfið eða mystíska kerfið og byrjar hjá öllum venjulegum mönnum í því sem kallast mystísk tilfinning. En þar fyrir ofan blandast þessi svæði saman í öðru svæði.

Mystískri upplifun fylgja oftast nær, fyrr eða síðar, einhvers konar dulskynjanir. Vegna hennar verður svolítið öðruvísi að vera til, það kemur einhver óljós illskilgreinanleg skynjun sem afskaplega erfitt er að segja eftir á hvað var, samt skynræns eðlis -- og oft finnst fólki það standa eitthvað í sambandi við kyrrð.

Við erum að tala um mystíska upplifun eða mystískan ávæning með einhvers konar furðulegri skynjun og að þetta er eins konar heyrn.

Mér dettur í hug það sem skáldin segja, t.a.m. það sem Davíð Stefánsson segir í frægasta ástarljóði þessarar aldar á Íslandi, Dalakofanum, þar sem hann kemst svo að orði:

“Jörðin verður harpa af hundrað þúsund strengjum

sem heilladísir vorsins í sólskininu slá."

Fagurt er það. Hafði hann heyrt eitthvað? Hafði ástin eða einhver önnur upplifun birst honum að nokkru í slíkri skynjun?

Vitna má í Kára Tryggvason sem hefur ort ákaflega fagurt ljóð sem hann kallar Sumarnótt:

Af stráunum drýpur döggin

það dökknar við ysta skaut

og náttskuggar hljóðlega hníga

af himni í gil og laut.

Að baki húmblárra hæða

hljómar af fjarlægum klið

svananna nætursöngur

um sumarást og frið.

Hvarflar á víðfleygum vængjum

vökul mannleg þrá

og hjartað verður harpa

sem hljótt er leikið á.

Það er nefnilega leyndardómur heyrnarinnar sem við eigum eftir að kanna; best væri að reyna það sem eftir væri ævinnar, því heyrnin er dularfyllsta skynjunin. Það er hægt að hlusta á landslag, hlusta á kyrrð. -- Umhverfi -- sérstakt umhverfi í náttúrunni, ekki bara hér á landi heldur yfirleitt -- er talið vekja mystíska upplifun, vissir tímar sólarhrings og viss skilyrði sem við getum horft á og fundið. Þá nefni ég fyrst sólarlagið.

Annað atriði sem er nefnt í þessu sambandi er stjörnubjört vetrarnótt, sbr. Norðurljós Einars Benediktssonar. En þar að auki höfum við einmitt á Íslandi hina björtu sumarnótt sem er eiginlega viðvarandi sólarlag alla nóttina til morguns. Það er einmitt þetta sólarlag sem Kínverjar tala um og settu í samband við Taó, það er strax þegar dagurinn er horfinn en áður en nóttin er komin, það er þá sem vegurinn sem þeir kölluðu Taó kemur í ljós. Þetta eru þau skilyrði í náttúrunni sem laða fram mystíska upplifun fremur en annað.

Þegar við höfum horft á landslag um tíma, og ef við kunnum að meta leyndardóm heyrnarinnar þá förum við e.t.v. einnig að hlusta á það. Þetta þarf nánari skýringar við. Að hlusta, hvað felst í því að kunna að hlusta? Nú nefni ég ekkert annað en það sem þið öll getið jafnvel og ég. Það er fyrst hljóðin, ekki er alveg víst að þið hafið öll gefið því gaum, það er fyrst hljóðin sem þið heyrið. Svo er það þögnin, það er kannski suð í eyra, og þú hlustar dýpra og dýpra inn í þögnina. En hvað er að gerast þegar þú hlustar inn í þögnina? Þú ert að hlusta inn í þína eigin vitund, inn í sjálfan þig.

Hljóðöldur eru í loftinu og svoleiðis, það heyrum við, en innri heyrn sem allir hafa, skynjun sem við metum e.t.v. minnst af öllu er ekki bundin við þær, slíkri skynjun er best lýst sem næmi fyrir þögn, það er skilningarvit getum við sagt sem felur í sér næmi fyrir þögn.

Sú skynjun sem leitar á í mystískri upplifun er sem sagt oftast nær eins konar heyrn ef vel er að gáð. En augað er svo frekt að ef svona lagað kemur fyrir okkur þá reynum við undir eins að túlka það yfir í einhverja sýn.

Þögnin er ekki þögn. Hvað er þögnin? Þögnin er niður. Þú hlustar inn í sjálfan þig og heyrir nið. Þú getur hlustað dýpra og þá getur það gerst að þessi niður greiðist í sundur í undarlega magnþrungna en samt milda hljóma eða óma sem mér skilst að stundum kallist hnattasöngur eða ómar himinhvolfanna. Fullyrða má að ekki þarf mikla dulræna hæfileika ef við höfum mystíska tilfinningu til þess að hlusta á þá magnþrungnu tónlist, ef við kunnum að meta leyndardóm heyrnarinnar.

Önnur afbrigði af þessari innri músík eða ómaskynjun sem hangir utan í mystískri upplifun er bundin við vissa staði í líkamanum. Það er til dæmis algengt að heyra þyt í höfðinu sem eins og býr ofarlega í höfuðkúpunni, e.t.v. þannig að það er eins og höfuðkúpan gersamlega opnist. Algengt er að hafa lágt hvískur í vinstra eyra og halda að það sé af minnkandi heyrn, sem kann að vera. Stundum er sterkur trompetómur í hægra eyra.

Blavatsky talaði um hin sjö mystísku hljóð sem ég hef aldrei heyrt nokkurn annan tala um af viti. Þeir vitru menn, sem um Rödd þagnarinnar hafa fjallað, hafa staðið frammi fyrir þessum ómum eins og þeir væru furðufyrirbæri. Þeir hefðu fremur átt að halla sér að heyrninni en sjóninni og þá hefðu þeir getað komist að raun um hvað er átt við.

Blavatsky segir að fyrst heyrist mild rödd næturgalans. Og síðan eins og í silfurbjöllu -- silfurskálabumbuhljómur. Þar á eftir nefnir hún niðinn sem heyrist í skeljum -- hafið þið ekki prófað að hlusta inn í kuðung og heyrt þennan furðulega þunga nið eins og alheimshafið sé þar á ferð? Síðan nefnir hún vínutóna -- vînâ er hin indverska fiðla. Það fimmta er bambusflauta. Sjötta er trompethljómurinn. Það sjöunda er eins og fjarlægur dynur af þrumum, eins og dynur af fjarlægum þrumum sem öll hin hljóðin hverfa í.

Við þurfum ekkert að fara að velta vöngum yfir hvað þetta er stórkostlegt. Það sem við erum að reyna að gera er að finna hvurt hægt er að hlusta sig út í eða inn í óendanleikann.

Þá er komið að því að ræða um söng í hjartanu.

Öll innri gerð mannsins er hljómkviða, víbrasjón sem sannarlega má greina sem óma. Hið týnda orð í ýmissi dulspeki fyrr og síðar er hljómur eða ómur. Þetta týnda orð er máttarpunkturinn þaðan sem mannslíkaminn, innri og ytri, er sunginn. Má ég endurtaka; punkturinn sem mannslíkaminn er sunginn frá. -- Mannslíkaminn, innri og ytri er helst þannig til orðinn eins og hann sé sunginn. Þessi punktur er við neðri enda mænunnar í manninum en það er unnt að færa hann upp í þann punkt sem er á móti miðju brjósti og sá punktur kallast anahata sem þýðir bókstaflega útlagt sjálfvakinn ómur.

Þegar þangað er komið breytist þessi hljómkviða í einstaklega ljúfan óm; sumir skynja þetta sem ljós, eða óskaplega elskulega tilfinningu sem fyllir allt brjóstið. Þar með er persónulegt líf mannsins gerbreytt. Mér er fortalið að þetta sé framtíðarstig í mannsþróuninni. Þá verður maðurinn hættur að vera hálfur maður og hálfur dýr eins og hann er núna ef hann er ekki meira en hálfur dýr núna -- og orðinn maður, þungamiðja sem áður var við neðri enda mænunnar er nú færð upp í brjóstið.

Hvernig er sálarástandið? Það er hljóður hugur með mystískum glömpum -- í gamla daga útskýrt sem hin fyrsta vígsla -- mystískri reynslu, sem því miður kemur oftast sem glampi og með dálitlu af dularskyni breytist allt umhverfi mannsins í eins konar hljóða sinfóníu. Vetrarnóttin verður sinfónía, sólarlagið verður sinfónía og hin heiða bjarta sumarnótt á Íslandi líka. Og vera má að í þeirri hljómsveit sem þar leikur sé einleikur á hörpu, hörpu hjartans.

Hvert einasta atriði sem komið hefur fram í þessu erindi er lýsing á reynslu, ekki minni reynslu allt saman því miður; lýsing á reynslu margra. Veruleikinn er vanalega meira ævintýri en ævintýrið.

Erindi flutt 1980

E.G. og B.B. bjuggu til prentunar

© Guðspekifélagið