Ramana Maharshi – Svarar

RAMANA SVARAR

Eftirfarandi eru sýnishorn af samtölum nemenda við Ramana Maharshi sem af mörgum hefur verið talinn mesti yógi og Vedantaspekingur á þessari öld. Hér reynir Ramana að benda nemendum sínum á hvernig raunveruleg sjálfsuppgötvun á sér stað handan venjulegrar hugsunar þegar hugsunin hefur brennt sjálfa sig upp í leit sinni eða viðurkennt vanmátt sinn.

Nemandinn spyr og Ramana svarar:

R: Þú ættir að leita sjálfsins sem inniheldur allt.

N: En er ekki dálítið undarlegt að „ég“ leiti einhvers sem er kallað „ég“? Verður ekki könnunin „Hver er ég?“ á endanum að dauðri formúlu? Eða á ég að spyrja sjálfan mig endalaust og endurtaka þetta eins og möntru?

R: Sjálfskönnun er vissulega ekki innantóm formúla, hún er meira en endurtekning möntru. Ef spurningin „Hver er ég?“ gerist aðeins í hugsuninni, er hún ekki mikils virði. Markmið sjálfskönnunar er að beina huganum óskiptum að uppsprettu sinni. Þetta er sem sagt ekki spurningin um að eitt „ég“ leiti að öðru „égi“. Sjálfskönnunin er ekki heldur innantóm formúla, vegna þess að allur hugurinn þarf að beita ýtrustu getu sinni til að dvelja hljóður í sjálfsvarurð.

Sjálfskönnun er eina óbrigðula ráðið og eina beina leiðin til að uppgötva þá óskilyrtu, algjöru veru sem þú ert í raun og veru.

N: Hvers vegna ætti að líta á atma-vichara (sjálfskönnun) sem beinu leiðina til jnana (andlegs skilnings)?

R: Vegna þess að allar aðrar tegundir sadhana (iðkunar) gera ráð fyrir áframhaldi hugarins til þess að halda áfram iðkuninni og án hugarins er ekki hægt að iðka þær. Egóið kann að taka á sig önnur og fíngerðari form á mismunandi stigum iðkunarinnar, en því er ekki sjálfu eytt.

Þegar Janaka konungur hrópaði: „Nú hef ég uppgötvað þjófinn, sem alltaf rændi mig öllu. Hann þarf að afgreiða í eitt skipti fyrir öll,“ þá átti hann við egóið eða hugann.

N: En það má alveg eins góma þjófinn með öðrum tegundum sadhana.

R: Að reyna að eyða egóinu eða huganum með öðrum sadhönum en atma-vichara er eins og þjófurinn brygði sér í gervi lögregluþjóns sem síðan ætti að góma þjófinn sem er hann sjálfur. Aðeins atma-vichara getur leitt í ljós sannindin að hvorki egóið né hugurinn eru raunveruleiki og gerir okkur mögulegt að uppgötva hina hreinu ósundurgreindu og algjöru veru Sjálfsins ... sem er fullkomin hamingja og allt sem er.

Tvær konur frá Ahmedabad komu til Ramana Maharshi. Þær sögðust hafa haft áhuga á andlegum málum allt frá barnæsku, hefðu lesið bækur um heimspeki og Vedanta, Úpanishöd, Yoga Vasishta, Bagavad Gita o.fl. Þær sögðust reyna að hugleiða, en um enga framför væri að ræða. „Við áttum okkur ekki á, hvernig hægt er að öðlast andlegan skilning. Getur þú hjálpað okkur í þessu?“

Bhagavan (Ramana) : Hvernig hugleiðið þið?

N: Ég byrja með því að spyrja „Hver er ég?“ Síðan útiloka ég líkamann sem „ekki ég“, öndunina sem ekki „ég“ og hugsunina sem „ekki ég“, en þá kemst ég ekki lengra.

B: Já, þetta er ágætt eins langt og hugurinn nær. En könnunarferlið hjá ykkur er aðeins hugrænt. Helgiritin nefna þessa aðferð aðeins til þess að beina leitandanum í átt til sannleikans. En sjálfan sannleikann er ekki hægt að gefa til kynna beint, þess vegna er þessu hugræna ferli beitt. Lítið þið á, sá sem leggur til hliðar allt sem er „ekki-ég“ getur samt ekki lagt til hliðar „ég“. Til þess að geta sagt „ég er ekki þetta“ eða „ég er það“ þarf „ég“ til þess að segja það. Þetta „ég“ er aðeins egóið eða „ég“-hugsunin. Þegar „ég“-hugsunin hefur sprottið upp spretta allar aðrar hugsanir upp í kjölfarið. „Ég“-hugsunin er þess vegna frumhugsunin, rótin sem allar aðrar hugsanir eru sprottnar frá. Ef rótin er numin brott eru allar aðrar hugsanir um leið upprættar. Leitaðu þess vegna rótarinnar, þessa „égs“, spurðu sjálfan þig: „Hver er „ég“? og finndu uppsprettu „égsins“. Þá hverfa öll þessi vandamál og hið tæra, skínandi sjálf verður eitt eftir.

N. spyr nú, hvernig hún eigi að fara að þessu. B. svarar, að veruleikinn sé alltaf til staðar hvort sem er í djúpsvefni, draumum eða vökuástandi. „Ef ekki væri svo yrðir þú að afneita því að þú værir til. En þú gerir það ekki. Þú segir„ég er“. Finndu hver er.“

N: En ég skil ekki samt. Þú segir að „ég“ sé nú blekkingar „ég“. Hvernig get ég útrýmt þessu blekkingar „égi“?

B: Þú þarft ekki að útrýma neinu blekkingar „égi“. Hvernig getur„ég“ útrýmt sjálfu sér? Hið eina sem þú þarft að gera er að finna uppsprettu þess og dvelja við hana. Viðleitni þín nær ekki lengra. Þá tekur við það sem er handan við. Þú getur ekkert gert þar. Engin viðleitni getur náð því.