Plótínus

Þáttur í hugmyndafræðilegum rótum Guðspekifélagsins.

Plótínus var sá fyrsti í röð hinna miklu, grísku heimspekinga fornaldar sem hófst með Þalesi á 6. öld fyrir Krist. Hugsun hans þróaði hinn mystíska þráð í kenningum Platós. Sú stefna var síðar nefnd nýplatónismi. Þessi stefna hafði djúpstæð áhrif á hugmyndir kirkjunnar á miðöldum og allt fram á þennan dag, þó að út á við væri hún einatt litin hornauga af kirkjunnar mönnum eins og aðrar mystískar stefnur.

Hinn frægi kristni 20. aldar rithöfundur, Dean Inge, talar um Plótínus sem „hinn mikla hugsuð sem hlýtur að vera hinn sígildi fulltrúi mystískrar heimspeki á öllum tímum. Enginn annar mýstíkur hugsuður nálgast Plótínus í krafti, innsæi og djúpum andlegum skilningi.“

Ef menn spyrja um það hverjar séu fyrstu ræturnar í hugmyndafræði sem oft hefur verið til umfjöllunar í Guðspekifélaginu, þá held ég við verðum að svara því að þær séu meðal annars að finna hjá heimspekingnum Plótínusi.

En hver var Plótínus og hverjar voru kenningar hans?

Plótínus var fæddur í Egyptalandi árið 205 e. Krist. Hann varð 65 ára að aldri og lést árið 270. Plótínus lærði í Alexandríu á þeim tíma þegar hún var andleg miðja heimsmenningarinnar. Fertugur að aldri fór hann til Rómaborgar og gerðist þar fræðari. Eftir að hann hafði kennt átta ár í Rómaborg hóf hann rithöfundarferil sinn og skrifaði í sautján ár heimspekirit um allar greinar heimspekinnar nema stjórnmál. Við fyrstu yfirsýn þóttu hugmyndir hans sundurleitar en þegar betur var að gáð mynduðu þær heilsteypt heimspekikerfi sem nefnt var nýplatónismi. Eins og Plató kallar Plótínus guð „hinn eina“ eða „frummynd hins góða“ sem felur allt annað í sér. Hann reyndi að útskýra heimspeki Platós í nýju ljósi. Allur veruleiki er vitund. Hún birtist á mörgum stigum og er stighækkandi frá hinni lægstu til hinnar hæstu. Mannshugurinn, mannssálin og vitund guðs eru þrjú þrep í þessum píramíta. Hvert vitundarstig breytir heiminum þó að heimurinn breytist ekki. Hin margbreytilega tilvera kemur frá hinu eina, frá Guði og hverfur aftur til hans.

Guð skapar, hugur mannsins skapar, sálin skapar. Vitund er aldrei ein og sér, hún er ævinlega tengd öllum öðrum vitundum. Samt eru viðfangsefni hennar og skynjun ævinlega afmörkuð þangað til fyrirbæri sem nefnt hefur verið vitundarvíkkun á sér stað. Þá fær vitundin ný viðfangsefni og nýjan sjóndeildarhring og nýja skynjun, nýjan himin og nýja jörð. Heimur okkar er það sem við skynjum hverju sinn, en þessar skorður eru ævinlega bundnar við stað og tíma. Vitundin breytist og það breytir heiminum. Takmark mannsins er að rísa upp fyrir það sem hann er eða heldur að hann sé, vaxa út fyrir og upp yfir sjálfan sig ef svo mætti segja. Þetta er þróunarferli sem leiðir að lokum til hins eina, til Guðs.

Nýplatónisminn svonefndi birtist í sinni hreinustu mynd í ritum Plótínusar, sex bókum sem eru nefndar Enneadur (níur). Þær hafa allar varðveist fram á þennan dag.

Allar kenningar má túlka á marga vegu. Albaníus til dæmis túlkar frummynda-kenningu Platós þannig að frummyndirnar séu hugsanir Guðs. Plótínus túlkar hana á sama hátt. Aðrir þekktir hugsuðir þessa skóla Plótínusar eru Ammónías Saccas, Porfýríus, Iamblíkus og Proklos. Kjarni allra þessara manna er hinn sami: Guð er upphaf og endir allra hluta.

Plótínus ræddi aldrei um hinn egypska uppruna sinn og það hvarflaði aldrei að honum að skrifa ævisögu. Nemandi hans Porfýríus telur sér skylt að gefa á þessu skýringar.

Hann segir: Plótínus skammaðist sín fyrir að vera í líkama. Hann vildi aldrei ræða um ættstofn, foreldra eða föðurland. Hann neitaði gjörsamlega að láta gera af sér málverk eða líkneski. Við nemendur hans lögðum fast að honum að láta gera af sér mynd en hann svaraði: „Er það ekki nóg að þurfa að burðast með þetta hylki sem náttúran hefur sett okkur í þótt ekki sé verið að gera langvarandi eftirmynd af eftirlíkingunni rétt eins og hún segi nokkuð um hinn raunverulega mann?“

Plótínus lét sér ekki nægja fræði Platós og Stóuspeki. Hann tók sér ferð á hendur til Austurlanda til að kynna sér persneska og indverska heimspeki. En hann komst aldrei lengra en til Mesópótamíu, þar varð hann að snúa við heim aftur.

Eins og fyrr segir stofnaði hann heimspekiskóla í Róm, fertugur að aldri. Skólinn var heimili hans líkt og Akademía Platós. Af þessari stofnun fór brátt mikið orð og þekkt skáld, senatorar og fræðimenn gerðust nemendur hans. Meira að segja keisarinn, Gallienus, og keisaradrottningin Salónína. Það var einn grundvallarmunur á skólum Plótínusar og Platós. Plató stofnaði sína Akademíu til að kenna þjóðhöfðingjum að stjórna ríki. Plótínus hafði hafnað veröldinni og lét sig stjórnmál litlu skipta. Plótínus kenndi nemendum sínum þannig að hann gætti þess vandlega að kenna hverjum og einum aðeins það sem hæfði þroska hans. Þetta er skýringin á því að heimspeki Plótínusar er sett fram í brotum þó að hún myndi greinilega heild eða kerfi. Frægasti nemandi hans, Porfýríus, fékk til dæmis ekki að lesa rit Plótínusar fyrr en eftir margra ára setu í skólanum.

Plótínus lést úr holdsveiki 65 ára að aldri. Ritgerð sína um dauðann og þjáninguna, sem hann þekkti af eigin raun, skrifaði hann síðustu æviárin, þá fársjúkur maður. Hún sýnir best hina óviðjafnanlegu göfgi og sálarstyrk þessa mikla hugsuðar. Þrettán árum eftir dauða hans sáu nemendur hans um útgáfu á ritum hans sem alls voru fimmtíu og fjórar ritgerðir. Þetta urðu sex bækur með níu ritgerðum í hverri bók. Af þessari tölu draga bækurnar nafn sitt. Þær voru nefnda Enneadur eða níurnar. Og nemendurnir brutu boðorð meistarans og skrifuðu æviágrip Plótínusar í Mormóla. Í níunum er það kennt að öll tilveran sé útstreymi „hins eina“, Guðs. Það er eins og lind sem streymir stöðugt fram án þess sjálf að minnka, eða eins og sól sem skín endalaust og skapar gróður og líf jarðar án þess að eyðast eða breytast. Á ytra borði birtist þetta útstreymi á þremur ólíkum tilverusviðum. Hið eina er alheimsleg vitund ofar hæsta sviði mannlegra vitsmuna og því verður ekki lýst með neinu orði mannlegrar tungu. Öll hugtök úr fjórvíddar-tilveru mannsins hafa hér tapað merkingu sinni. Það er ekki hægt að segja að guð sé fegurð, eða kalla guð hið góða í heiminum, eða að segja að guð hugsi eða sjái. Og það er enn síður hægt að segja að hann sé meðvitundarlaus eða blindur. Guð er æðri allri fegurð vegna þess að öll fegurð er frá honum komin. Hann er æðri hinu góða vegna þess að hann er uppspretta þess. Plótínus leggur jafnan áherslu á að orsök hlutar sé ekki hluturinn sjálfur. Guð er æðri hinu góða því að hann er uppspretta þess. Hann er því ekki hið góða fyrir sjálfan sig heldur fyrir aðra. Guð er ekki hugsun því að hugsun byggist á aðgreiningu á hugsun og hinu hugsaða, en guð er alger eining. Um hvað ætti guð að hugsa? Ætti hann að hugsa um sjálfan sig? - Það þýddi að guð hefði verið fáfróður um sjálfan sig áður en hann hugsaði og þyrfti á hugsun að halda til að þekkja sjálfan sig. Þetta sama á við um allt annað. Ef guð þyrfti á því að halda að hugsa eitthvað þýddi það að hann hefði ekki vitað það áður. Það væri sama og að segja að hann væri ekki guð heldur maður.

Að nota hugtök eins og sjón og hugsun, sem byggjast á takmörkunum mannlegrar reynslu í tíma og rúmi, um alvitund utan tíma og rúms hefur vitanlega enga merkingu. Guð er æðri öllum mannlegum hugmyndum. Jafnvel orð eins og alvitund er rangt að nota því að orðið vitund takmarkar hið ótakmarkanlega. Plótínus setur fram þversögn sem sjá má í velflestum trúarbrögðum. Guð er ofar mannlegum skilningi og menn geta þekkt guð og talað við hann í bænum sínum. Plótínus segir okkur að hver vitund, á hvaða stigi sem hún er, geti skynjað guð takmarkaðan samkvæmt sínum eigin takmörkunum. Í raun þýðir þetta að Plótínus lítur ekki á algyðistrú og guðstrú sem andstæður.

Andinn, segir Plótínus, er hið fyrsta útstreymi guðdómsins. Svið andans liggur utan tíma og rúms. En andinn skapar. Hann skapar nýja veröld.

Tilvera andans er tvíþætt. Hann finnur guð í hugleiðslu. Og vegna guðs fyllist andinn mætti og fegurð, og öðlast hæfileikann til að skapa. Hann skapar á sínu sviði heim frummyndanna en þær eru forritið að öllu sem andinn skapar í heimi efnis, tíma og rúms. Þetta er ástæðan fyrir því að allt í tilverunni leitar guðs þó að enginn geti skilið hann eins og hann er. Hver lífvera heldur á brattann og reynir að snúa heim til hans. Andinn einn gerir lífið göfugt. Allt sem hlotið hefur fyllingu flæðir yfir takmörk sín og skapar nýja veröld.

Slíkt útstreymi andans kallar Plótínus sál. Guð og andinn lifa utan tíma og rúms, sálin lifir í tíma og rúmi. Með sálinni verður tíminn til og líkami hennar er efnisheimurinn og rúmið. Sálin, samkvæmt hugmynd Plótínusar, lifir þess vegna bæði í tíma og eilífð. Sálin lifir í heimi hinna mörgu hluta og hinna mörgu atburða. Og atburðir koma í tímaröð og skapa tímann. Vegna þessa eiginleika sálarinnar að vera háð tíma þá neyðist hún til að hugsa. Hugsun kemur fyrst fram þegar tími og rúm verða til. Andinn þarf ekki að hugsa vegna þess að hann er eitt með guði. Andinn þarf ekki að leita þekkingar en sálin verður bæði að hugsa og leita þekkingar. Leit, þekkingarleit eins og önnur leit byggist á skorti. Menn leita að því sem þeir hafa ekki. Af þessum sökum hefur sálin tvíþætt eðli. Hinn æðri hluti hennar skynjar andann og er upplýstur af andanum. Hinn lægri hluti sálarinnar hefur hæfileika til að greina sig frá þessari heild. Og það er þessi hluti sálarinnar sem skapar hinn efnislega alheim sem Plótínus nefnir jafnan líkama.

Þannig verður heimurinn til. Guð skapar andann með útstreymi. Andinn skapar sálina. Sálin skapar efnisheiminn. Síðan skapar efnisheimurinn efnið. Sá hluti sálarinnar sem stendur að þessari sköpun missir þó aldrei að fullu sambandið við hinn æðsta kjarna sinn í veröld andans. Hinn æðsti hluti sálarinnar skapaði í hugleiðsluástandi hina lægri sál, sem Plótínus nefnir einnig náttúru. Hin lægri sál er útstreymi hinnar æðri og hún verður tæki hennar til að skapa veröldina.

Hjá Plótínusi er hugleiðsla upphaf allra hluta. Öll þessi sköpun gerist alltaf í hugleiðslu. Hinn efnislegi alheimur er í raun ein lifandi vera og allt í honum er líf á vissu stigi. Heimssálin hefur skapað hann og stjórnar honum innan frá.

Maðurinn er fyrst og fremst sál. Hún stendur mitt á milli andans og skilningarvitanna. Sá maður sem lýtur jörðinni er háður skilningarvitunum, en sá sem hefur sig upp yfir hina jarðnesku náttúru getur öðlast mátt andans og orðið eitt með honum í vissum skilningi. Maðurinn hefur frjálsan vilja og er ábyrgur gerða sinna. Hver sál er til áður en hún kemur til jarðarinnar og þroskaskeið hennar ákveður hvert hlutskipti hennar verður og við hvaða aðstæður hún býr á jörðinni.

Til eru þrjár tegundir sálna:

1) Guðlegar sálir. Þær eru í ljóslíkama og lifa í veröld hinnar æðstu hamingju.

2) Sálir sem reika milli himins og jarðar.

3) Sálir sem lifa í grófgerðum efnislíkama.

Sálin fer til jarðar af frjálsum vilja. Það er að segja, eðli hennar knýr hana til þess. Þessi fæðing til jarðarinnar þarf ekki að vera nein ógæfa. Ef mannssál hverfur til jarðar til að vinna ákveðin ætlunarverk þá getur sálin vaxið og þroskað leynd öfl, sem með henni búa, og öðlast dýrmæta reynslu sem hún annars færi á mis við.

Sálinni er það innri nauðsyn að skapa. Efnisheimurinn í hugmyndafræði Plótínusar er annað en það sem við köllum efni. Allir eiginleikar efnisheimsins eru af andanum og sálinni. Neðar efnisheimi er hið hreina efni sem er ekki-vera. Þessi ekki-vera er undirrót alls ljótleika og orsök hins illa í heiminum. Svigrúm hins illa eykst þannig eftir því sem neðar dregur í tilverustiganum, því að í eðli sínu er hið illa aðeins fjarvera hins góða. Myrkur er þar sem ljósið missir mátt sinn og nær ekki að skína. Ekki-veran er myrkrið.

Takmark allrar tilveru er að snúa aftur til guðdómsins. Þegar botninum er náð snúa allir hlutir við. Þessi leið er leið þróunarinnar og þráin sem stjórnar henni er meðfædd og eðlislæg eins og frá móður til barns og barns til móður. Takmark mannsins er að komast eins langt á þessari leið og honum er unnt. En áður en maðurinn getur gert sér vonir um að komast að hliðum guðdómsins verður hann að hafa farið í gegnum alla mannlega reynslu. Maðurinn verður að gera sál sína fagra áður en hún getur litið hina andlegu fegurð. Hann verður fyrst að öðlast siðvit til að skilja að hinn sanni kjarni hans er andinn. Velfarnaður mannsins er því ekki nauðsynlega velsæld líkamans eða skarpleiki skilningarvitanna. Að vera fagur, auðugur og voldugur eru svikul gæði sem geta orðið neikvæð fyrir hinn raunverulega velfarnað mannsins, sem er andlegur vöxtur. Hann birtist sífellt sem víðtækari vitund. Öll sönn hamingja verður að koma að ofan.

Þrjár leiðir segir Plótínus að liggi til guðs: listin, ástin og heimspekin. Þetta eru þó raunar þrír áfangar á sömu leið. Listamaðurinn leitar andans eins og hann birtist í skilningarvitunum. Elskhuginn leitar andans í mannssálinni. Heimspekingurinn hinnar algjöru fegurðar í heimi andans. En heimspekingur í fræðum Plótínusar er sá einn, sem hefur þroskað innsæi sitt og getur í djúpri hugleiðslu sameinað mannssálina hinu guðlega, þótt ekki sé nema stutta stund. En fyrst verður hann að hafa bæði vaxið frá hversdagslegum skoðunum og fræðum hinna ýmsu heimspekiskóla. Afturhvarfið til guðdómsins byggist þannig fyrst og fremst á innsæi og djúpri hugleiðslu, en það ástand, segir Plótínus, er hið sanna líf. Eftir að sálin hefur fundið hinn innri veruleika snýr hún frá efninu og hinu illa og verður á ný guðlegs eðlis.

Plótínus talar um sína eigin reynslu í sambandi við að fara úr líkamanum. Eftir eina slíka ferð skrifar hann:

„Horfðu á andann í hreinleika sínum. Horfðu á hann með innri sjónum þínum, ekki þessum líkamlegum augum. Þú sérð arin tilverunnar og á honum eilífan loga. Þú sérð hvernig verurnar hvílast í heimi andans. Hvernig þær eru aðgreindar og þó allar ein heild. Þú sérð stöðugt líf og hugsun, sem beinist ekki að framtíðinni heldur að nútíðinni eða öllu heldur hinni eilífu nútíð, hinu eilífa núi.“

Með því að lyfta sál sinni í hæðir getur maðurinn orðið eitt með veröld andans þótt hún sé ofar mannlegri skynsemi. En þessari reynslu verður ekki fyllilega lýst eða hún skilgreind með orðum.

© Guðspekifélagið