Óvissuástand hefur djúp áhrif á huga okkar en við höfum ekki lært að meta þau áhrif sem skildi
Viðfangsefnið er óöryggið og gildi þess að viðurkenna og meta óvissuna.
Við byggjum okkar eigin heim. Hugrænt sköpum við og mótum tilveru okkar og leit að öryggi í öllum þess myndum er eitt aðal einkenni lífs okkar.
Til þess að öðlast fyllra öryggi í lífinu reynum við að skapa okkur heilsteypta mynd af heiminum og sjálfum okkur. Okkur finnst við verða að þekkja eða kannast við daglega viðburði og kringumstæður. Flest verður að vera skipulagt og í skorðum. Heimsmynd okkar verður helst að vera áreiðanleg og stöðug - við viljum geta reitt okkur á heiminn í heild og nánasta umhverfi okkar - við virðumst þarfnast vissu. Við viljum vera viss um sjálf okkur og aðra.
Þannig byggjum við heim okkar. Hann er að þessu leyti hugsmíð, sífelld staðfesting á því sem við þykjumst vita að sé rétt, staðfesting á því sem okkur hefur verið kennt eða því sem við höfum áður upplifað á einhvern hátt.
Við óskum eftir ákveðnum hlutum, við leitumst við að láta þá vera eins og við viljum hafa þá og við reynum að laga það til, sem við erum ekki ánægð með.
Þetta er sífelld og fíngerð viðleitni til þess að laga veruleikann að mynd okkar af honum. Og þessi viðleitni er oftast ómeðvituð.
Óski ég mér annars litar á eldhúsið, kaupi ég þann lit sem ég vil fremur og mála upp á nýtt. Vilji ég hafa aðra einhvern veginn öðruvísi en þeir eru, reyni ég að stjórna þeim, leynt eða ljóst, þannig að þeir falli að mynd minni af fólki. Ef ég læt aðra stjórna mér, afsaka ég það á einhvern hátt þannig að það hafi ekki slæm áhrif á sjálfsmynd mína - en hún er hluti heimsmyndarinnar. Vilji ég vera öðruvísi en ég er, tel ég mér trú um að ég sé að lagast. Líki mér ekki það sem fyrir kemur, reyni ég að breyta því, breyta áhrifum þess eða viðurkenni einfaldlega ekki að það hafi komið fyrir.
Þannig mætti lengi telja upp dæmi um viðleitnina til þess að breyta veruleikanum.
Heiminn viljum við þekkja, við viljum hafa hann eins og fyrirframmynd okkar segir að hann sé með fáum undantekningum af því við erum ekki ánægð með allt í lífi okkar. En jafnvel því fáa sem við viljum breyta, það reynum við hafa á einhvern fyrirfram hugsaðan, þekktan hátt, vegna þess að við þráum vissu og öryggi.
Öðrum eða framkomu þeirra gagnvart okkur viljum við oft breyta og við erum tilbúin með módel af því hvernig þeir eiga að koma fram við okkur. Við burðumst með óskir og vonir og reynum að hafa á hreinu um hvað þær snúast.
Við teljum að öryggi sé fyrst og fremst að finna í því þekkta og þá helst í ytri gæðum. Ef ég er fátækur, reyni ég að afla fjár vegna þess að ég veit að við það verð ég fjárhagslega öruggari eða betur undir fjárútlát búinn. Ef ég er svangur, reyni ég að ná mér í mat. Ef mér mistekst eitthvað, reyni ég að gera öðruvísi til þess að öðlast öryggi í því sem ég er að gera. Þetta ættu allir að þekkja; við erum sífellt að leita öryggis á öllum sviðum.
Og við leitum þess í því þekkta.
En horfum á líf okkar. Þegar við gerum það þá sést að við höfum ekki fundið öryggi né vissu, hefðum við fangað það, þyrftum við ekki svo ákaft að leita þess. Sumir telja sig hafa fundið það í óskhyggju eða ímyndunum og við því er ekkert meira að segja. Aðrir telja sig finna það í ytri hlutum. En í raun lifum við fólk flest í óöryggi og óvissu - og líður illa, aðallega vegna þess að við höfum sefjað hvort annað, sannfært okkur um að ef við finnum til óöryggis sé vanlíðan óhjákvæmileg. Við höfum sett samasem merki milli óvissu og vanlíðunar.
Ef til vill höfum við fundið öryggi í ytri aðstæðum og hlutum, eins konar öryggi sem hefur breitt yfir og falið óvissu og breytileika lífsins, en þegar hið svokallaða öryggi hverfur, sem það gerir, blasir kvíði okkar yfir óvissunni við og verður oft átakanlegur. Fyrr eða síðar finnum við að í ytri fyrirbærum eins og efnahag og velgengni, felst ekki öryggi sem nærir vitundina eða fullnægir sál okkar.
Við getum ekki tryggt okkur. Ekkert er tryggt í lífinu - sem betur fer, vegna þess að þá væri búið að svipta okkur þeirri áskorun sem felst í óvissunni. Dauðinn er ekki einu sinni tryggur, þetta sem sagt er að eigi fyrir öllum að liggja - sé hið eina örugga í lífinu - hann er ekki öruggur því við vitum ekki hvað hann er fyrir þolandann - er hann dauði? Er þetta ekki bara merkingarlaust orð? Merkingarlaust vegna þess að við vitum ekki nema að litlu leyti hvað hann felur í sér. Við vitum að líkaminn hættir að starfa og leysist upp en vitum í rauninni lítið meira.
Við getum gleymt óörygginu en ekki eytt því.
Í hverju er þessi óvissa nánar fólgin eða þetta óöryggi sem hér er rætt um?
Í innri tilfinningu - eða öllu fremur skorti á eins konar tilfinningu. Nánar sagt:
Heimurinn er síbreytilegur, í sífelldri þróun, lífið getur ekki staðið kyrrt. Við erum ekki þau sömu frá einni stundu til annarrar, ekkert er eins og það var. Allir yfirgefa þennan heim og hverfa út í óvissuna. Hvergi er öryggi að finna í því sem er þekkt né óþekkt. Við getum ýmislegt fundið sem veitir eins konar öryggi, en það öryggi er sýndin ein vegna þess að það svæfir, felur eða breiðir yfir innra óöryggi. Við þurfum að finna óöryggi hið innra og komast í gegnum það. Óvissan dvelur djúpt í okkur, þess vegna viljum við hafa þekkt vörumerki á öllu. Óöryggið er sífelld tilfinning innra með okkur vegna þess að okkur skortir hugrekki til að lifa fyllilega í heimi veruleikans, hinum síbreytilega, undursamlega heimi hverfulleikans.
Þetta er óvissa lífs okkar: við viðurkennum ekki raunveruleikann allan og lifum þess vegna í blekkingu.
Ef ég finn að ég ætti að vera betri kemur upp flótti, afsökun, blekking, viðleitni eða mótþrói - í stað þess að viðurkenna það sem ég er og hvorki neita því né upphefja mig af því. Ef hlutirnir ganga vel, miklumst við eða eflum ég-kenndina í stað þess að láta slíkt ekki hafa áhrif. Ef einhver finnur vanmátt sinn, reynir hann í flýti að gera eitthvað í málinu í stað þess að leyfa vanmættinum að vera. Leyfum frekar mistökum að vera um stund, horfumst í augu við þau. Og ef við viljum hjálpa öðrum, sýnum þeim þá mistök okkar í stað þess að fela þau, gefum öðrum hlutdeild í vanmætti okkar, þannig styrkjum við aðra. Sýnum öðrum óöryggi okkar, þannig hjálpum við þeim til að horfast í augu við sameiginlegt óöryggi manna. Horfum á það, viðurkennum og sættumst við það. Þá fyrst er búið að skapa grundvöll fyrir því að dvöl þess verði stutt.
Leyfum óvissunni að dvelja. Við þurfum ekki alltaf og strax að vera með andsvör við öllu. Ekki þarf alltaf að skilja eða þekkja heiminn, athafnir manna né það sem gerist. Við þurfum ekki alltaf að vita hvað ber að gera. Möguleikarnir liggja í hinu; að viðurkenna og horfast í augu við óvissuna. Vitundin tekur breytingum frammi fyrir óvissunni. Í spurningunni lærum við. Í óvissunni felst eitthvað nýtt og ferskt. Hún dýpkar tilfinningar og knýr okkur áfram til afreka.
Sem börn þörfnumst við öryggis, fullorðin ættum við að vaxa frá þeirri þörf.
Smátt og smátt þurfum við að fækka þeim þörfum sem við erum háð. Erfitt er að losna við þörfina á vissu fyrir eigin lífi og dauða, eigin tilveru. En á þroskaferlinum þurfum við að öðlast vissu í líf okkar en síðan að yfirgefa þá vissu, vegna þess að tilvera okkar og andartakið er eilíf spurning. Tilveran er breytileg og líðandi en ekki föst og stöðug. Tilveran er eilíf umbreyting í átt að því óþekkta. Eitthvað meira en það sem blasir við á yfirborðinu. Lífið í heild sinni er spurning í óvissunni, eitthvað sem verður ekki skilið af hinum venjulega huga, eitthvað sem við fyrr eða síðar gefumst upp fyrir. Lífið verður ekki fangað, andartakið er óvissa, það er eins konar straumur. Verðum við ekki að leggja út í lífsstrauminn fyrr eða síðar? Verðum við ekki að renna betur saman við tilveruna, leiðrétta stefnu okkar og vinna með heildinni?
Líf okkar er stöðug óvissa, og við skulum reyna að horfast í augu við lífið og hina hlið þess; dauðann.
Þegar við höfum varpað frá okkur þörfinni á öruggri tilveru, erum við einnig laus við kvíðann við óöryggi. Þegar við getum lifað að fullu í óvissu, frjáls og óttalaus, verður allt nýtt. Allt verður óþekkt og þess vegna undur. Þegar ómeðvituð og sjálfvirk tenging óöryggis og vanlíðunar er rofin, finnum við blekkinguna í þeim tengslum og gleðina í óvissunni.
En þetta gengur ekki vel enn þá - alla vega ekki hjá mér. Enn verð ég að fullvissa mig um flesta hluti. Ómeðvitað og fíngert er hugurinn sífellt að bera veruleikann saman við fyrirfram mynd af honum og ef veruleikinn smellur ekki saman við myndina, er honum hafnað.
Opnum fyrir óvissunni, það er mögulegt, þetta er möguleiki sem gott er að minna sig á, æfa sig í, þótt í litlu sé. Líf okkar er enn vanabundið hringferli. Reynum að halda opnu fyrir öðru en því sem við gerum ráð fyrir. Gott er að gera smá tilraunir öðru hvoru. Prófum að efast um hversdagslegustu hluti, og líta betur eftir því sem blasir við.
Þegar vitundin er gaumgæfð og hugurinn færist innar eða dýpra í vitundina, finnst að ýmislegt sem virðist óskylt, er það ekki. Þannig er með óöryggið og óhamingjuna.
Svo er því einnig varið með tilfinningar og hugsun. Þetta virðist oft óskylt, en dýpra í vitundinni sameinast þetta tvennt. Innri tilfinning fyrir vissu eða óvissu verður ekki venjuleg tilfinning sem oft er aðeins veðrabrigði án vitræns samhengis, heldur vitsmunalegt tilfinningasamband við lífsfljótið.
Öryggi er fjarvera óöryggis, hamingja er þegar óhamingja er ekki. Meðan við upplifum þetta sem andstæður, eru þetta andstæður sem fara saman. Þegar við hættum að skapa óöryggi í huga okkar, kemur öryggið af sjálfu sér.
Þegar við sjáum tvískiptinguna í huganum; óöryggi - öryggi, óhamingja - hamingja, byrjar upplausn þeirrar tvískiptingar. Örfín beiting viljans er það sem þarf, lítil athöfn í huganum, viss beiting athyglinnar - og við tekur líf án andstæðna. Líf sem þarfnast ekki öryggis, einu gildir hvort það er eða er ekki, slíkt líf hefur öryggið því á valdi sínu. Það er líf sem þarfnast ekki hamingju og er því hamingja. Innst eða dýpst í vitundinni rennur þetta saman, andstæðurnar upphefjast þegar þráhyggja hugsunarinnar við að aðgreina í andstæður hverfur.
Í þessum orðum felst að þetta sé einfalt mál. Að einfalt sé að losna við höft og tvíhyggju hugans. Tökum dæmi af færum teiknara. Með fáeinum einföldum dráttum rissar hann upp listræna mynd. Hún virðist svo einföld og auðgerð að okkur langar að fara heim og gera eitthvað álíka, við erum viss um að geta það. Þegar við svo reynum tekst okkur miður upp. Hvers vegna? Meðvitað eða dulvitað erum við sannfærð um að við getum ekki teiknað eins og listamaður - þess vegna gerum við það ekki, þetta virðist erfitt, en er í eðli sínu einfalt. Það sem til þarf er að vísu nokkur æfing og þekking en fyrst og fremst lítil og rétt beiting athyglinnar og hugur sem malar ekki sífellt um hvað reynslan segir okkur um vangetu okkar. Það er í eðli sínu einfalt að uppræta tvískiptingu hugans og öðlast það sem við teljum okkur ekki hafa, en það er erfitt meðan hugurinn hættir ekki að fullvissa okkur um að það sé erfitt.
Þegar hugurinn hættir að lokum að flokka í gott eða slæmt, verður allt handan við skiptinguna, hvorki gott né slæmt, ekki hvorugt né bæði, alveg utan við hugsun okkar um þetta. Þannig öðlast maðurinn, með því að losna við, vera óháður. Ef hann þarfnast ekki hamingju, getur hann gefið hana frá sér og þannig sameinast henni. Ef maðurinn þarfnast ekki öryggis, leitar þess ekki, flýr það hann ekki. Með því að láta frá okkur og með því að viðurkenna, öðlumst við. Þannig er það í sálarlífinu. Hér er ekki sagt að svo sé einnig í hinum ytra heimi, það getur verið, en þarf ekki að vera.
Getum við hafnað öryggi og hamingju? Getum við upphafið allar andstæður? Á því er enginn vafi - en við þorum það ekki, við reynum frekar að fanga það sem er - þótt það sé ekki hægt. Þannig lifum við stöðugt í heimi blekkinga. Okkur finnst að við getum eða höfum höndlað það sem ekki er hægt að ráða yfir. Við höldum að við skiljum - en sjáum veruleikann ekki fyrir mynd okkar af honum. Það er ekki hægt að halda því sem er, aðeins blekkingunni. Hugurinn getur ekki fangað það sem er, þess vegna býr hann til blekkinguna til þess að hafa eitthvert öryggi. Það sem er, er líf, tilheyrir okkur og þó ekki, er við og þó ekki. Það er, en er þó eitthvað meira, sífelld umbreyting í eitthvað annað í óvissunni.
Við getum hrokkið inn í takt lífsins og lifað með honum - eins og stendur lifum við eiginlega þvers og kruss um lífsstrauminn. Að hnykkjast inn í taktinn er örlítið átak líkt og að vaða eld eða stökkva úr flugvél í fallhlíf, að öðru leyti en því að það er laust við sýningarþörf eða sýndartilþrif. Til þess að leggja út í lífsstrauminn þarf vilja kvörðun sem er ekki hugans og beitingu athyglinnar, ákvörðun sem skilur milli vakandi vitundar og sljórrar, milli lífs í samræmi við heildina og lífs í vítahring andstæðna sem er sköpun hugans.
Leyfum huganum að hvílast öðru hvoru í sköpunarleik sínum. Hann þarf ekki stöðugt að búa til andstæður og baráttu. Hann getur hvílst í veruleika andartaksins, dvalið andspænis hverju sem er, eins og það er.
Þegar hugurinn er laus við baráttuna flokkar hann ekkert, ekki einu sinni sjálfan sig. Mín vitund, minn hugur, þín vitund, þinn hugur - er ekki fyrir hendi. Ekkert mitt óöryggi né óhamingja, ekkert mitt öryggi né hamingja. Eitthvað allt annað og óskilgreint getur tekið við, eins konar vissa í óvissunni, hamingja í óhamingjunni. Því eina raunverulega vissan felst í óvissunni og eina raunverulega hamingjan er að finna fyrir óhamingju mannlífsins. Sú hamingja fellst í samkennd með mannlífinu og mannlífið er á stigi óhamingju.
© Guðspekifélagið