Óvinir og annað fólk

Þetta er sundurlaus heimur, mannheimurinn. Örfáir alltof auðugir, meirihlutinn fátækur. Margir hugsa á annan hátt en við, við hugsum á annan hátt en þeir. Aðrir hafa öruvísi menningu og siðvenjur en við, við á sama hátt með öðruvísi menningarheim. Tiltölulega fáir hafa efnahagsleg og hugræn völd yfir meirihlutanum sem finnur sig misjafnlega valda- og eignalítill. Sumir, eiginlega örfáir með afar brenglaða hugsun, aðrir sannfærðir að þeir hafi rétt fyrir sér. Út frá öllum þessum huglæga og efnislega mismun búum við til óvini og þeir gera slíkt hið sama. Við erum jafn miklir óvinir og aðrir. Og er hægt að láta óvini komast upp með hvað sem er? En til hvers að eiga óvini? Til hvers að vera óvinur?

Svona viljum við hafa heiminn.
Við gætum á sama hátt haft hann öðruvísi, til dæmis lagt niður hugtakið óvinur. Hefur það hug¬tak hjálpað okkur? Við gætum lagt niður hugtakið föðurland. Og við gætum losað eitthvað um eign¬arkenndina. Við gætum farið að hugsa um óvini og fólk sem hugsar ekki á ná¬kvæm¬lega á sama hátt og við sem samferðamenn, við gætum farið að líta á jörðina sem heild án landamæra, kallað okkur jarðarbúa í stað þess að tengja okkur við sérstakan, huglægan eða landfræðilegan reit á jörðinni. Gætum fengið sameiginlegan skilning á staðreyndum. Gætum hætt að sanka að okkur langt umfram þarfir. Gætum farið að finna gleði og fullnægju þess að gefa.
Margt gætum við gert en gerum ekki. Vegna þess að við erum mannleg? Nei, vegna hins að við erum ekki nógu mannleg. Við erum ekki orðin fullorðin. Heimurinn er enn barnaheimili án umsjár. En við, hvert og eitt, getum orðið mannleg — ef við hirðum um. Allt sem þarf er að skilja, vilja og framkvæma.

Hvað er það að vera mannlegur? mennskur?
Að finna samkennd með öðrum mönnum. Skilja að mannkynið er ein heild og framtíðin í sam-eiginlegri ábyrgð. Að gleyma sjálfum sér, leggja sjálfan sig til hliðar og þannig birta góðleika sem er laus við hvers konar sjálflægni, sjálfs¬upp-hafningu eða sjálfselsku. Allir menn eru stundleg fyrirbæri, allir fæðast inn í þennan heim og hverfa þaðan aftur. Í samanbuðið við jörðina er lífið stundarfyrirbæri. Mannkynið er örstund borið saman við lífið á jörðinni. Tilvera einstaklinga er augnablik í ljósi sögu mannkyns. Við erum gestir um stund og ættum að haga okkur sem slíkir.
Út frá samkennd vex sameiginlegur skilningur, skilningur okkar á annars konar hugsanavenjum annarra. Allir menn eru í eðli sínu eins, allir vænta þess eða þrá hið sama. Þess að finna fyrir gildi sínu og viðurkenningu á að þeir tilheyri heild. Vænta fjarveru óhamingju. Við erum samfélags-verur vegna þess að við erum í grunninn eins. Hvers konar metingur, valdabarátta eða mismun-un er sá grundvallarmisskilningur að einhver sé yfir annan hafinn vegna þekkingar, gáfna, hæfileika, auðs eða valds.

Óvinir eru algerlega óþarfir, hugsunarvenja sem er hægt að brjótast út úr. Hugsanavilla sem leiðir til glötunar. Viljum við heilbrigða framtíð? Vilj-um við vera heilbrigð, viljum við heilbrigða hugs-un?
Allt sem þarf er að skilja á dýptina í samhengi, að vilja án sjálflægni og framkvæma með kærleik.