Lífspeki – viskan um lífið

Ég held að Jesús hafi verið smiður. Það er rökrétt að ætla að Jósef hafi kennt syninum iðn sína. Að handleika rafmagnsjuðara með grófum sandpappír sem fjarlægði ójöfnur, gráma og dökka bletti eins og hendi væri veifað og sjá hreinan viðinn í gluggakistunum koma í ljós var óvænt og sterk upplifun á þessu fallega hausti. Það kom einhvern veginn allt heim og saman. Þetta er það sem okkur mönnunum er ætlað í þessum heimi. Slípa okkur til. Taka burt grámann, ójöfnurnar og dökku blettina svo að okkar sanna eðli eða raunverulega sjálf komi í ljós.

Örstutta stund dældast stolt mitt þegar ég sé efasvip bregða fyrir á andliti smiðsins þar sem hann stendur álengdar og mælir handarverk mitt út með augunum. En hann er sjálfum sér líkur og reiðubúinn að taka sökina á sig. „Ég sagði þér ekki nógu vel til,” segir hann stillilega. „Það borgar sig ekki að halda juðaranum of lengi kyrrum á sama stað.” „Sjáðu,” hann snertir handlegg minn létt og gefur mér merki um að færa mig fjær viðfangsefni mínu. Og þegar ég fæ meiri yfirsýn yfir viðinn og einblíni ekki lengur á galla og ójöfnur sé ég hvað hann á við. Gluggakistan sem varð fyrir barðinu á vinnugleði minni er ekki einungis orðinn ljós og slétt heldur hef ég líka slípað í hana dæld sem er vel sýnileg þeim sem taka skref aftur á bak og skoða hana í heild sinni. „Ó,” er það eina sem mér dettur í hug að segja. „Þetta er allt í lagi,” segir smiðurinn hughreystandi. „Það er hægt að laga þetta.” Hann tekur juðarann úr höndum mér og rennir honum yfir gluggakistuna, hratt og örugglega. Hann hafði gætt þess að orð sín hljómuðu ekki eins og ofanígjöf en fær ekki ráðið áhrifunum af handtökum sínum. Sjálfri hafði mér fundist handbragð mitt fumlaust og öruggt þar sem ég hamaðist á ljótu blettunum, óhrædd við að eyðileggja þótt ég væri að beita rafmagnsverkfæri í fyrsta sinn. En nú verður mér ljóst þegar ég fylgist með handbragði fagmannsins hversu viðvaningsleg vinnubrögð mín eru í raun.

Er þetta litla atvik úr raunveruleikanum kannski líking fyrir lífið? Er okkur ekki ætlað að slípa og fegra okkar innri mann, þessa viðargrein sem við fengum í hendur? Fara eins langt með hana og í okkar valdi stendur en beygja okkur samt fyrir því að eigin eljusemi og handtök munu aldrei duga alla leið. Samt nógu langt. Nógu langt til þess að opna fyrir einhverju æðra, einhverju dýpra og máttugra sem liggur handan við okkar dags daglega hringsól og handan okkar venjubundna hugsanastarfs sem oftar en ekki snýst um hvernig við viljum hafa hlutina þar með talin okkur sjálf. Í stað þess að halda áfram að reyna og brjóta heilann um hvernig við getum snúið veröldinni okkur í hag þá uppgötvum við kannski eins og fyrir óútskýranlega náð að okkur er óhætt að slaka á og vera. Það gerist þó ekki án einhvers konar viðleitni af okkar hálfu. En hún er af öðrum toga. Fer ekki nánar út í það hér. Get þó ekki stillt mig um að nefna vakandi athygli og minnast á að í Lífspekifélaginu snýst starf okkar og umræður að miklu leyti um hvers konar viðleitni verði til þess að dýpka skilninginn á sjálfum okkur og lífinu þannig að við megum upplifa oftar og samfelldara í dags daglegu amstri okkar að lífið hefur tilgang sem nær langt út yfir búksorgir hvunndagsins og eigingjarna sérhagsmuni.

Gluggi opnast eins og fyrir náð mitt í amstri hvunndagsins og við sjáum allt í einu vítt yfir – jafnvel inn í eilífðina. Athyglin er ekki lengur bundin við misfellur og dökka bletti.

Okkur er komið til hjálpar og oft á annan hátt en við gátum séð fyrir. Stundum er leiðréttur hjá okkur kúrsinn einmitt vegna þess að við vorum nógu hugrökk og viljug til að leggja út í verk eða upp í ferð þótt engin trygging væri fyrir því að okkur tækist vel upp og enduðum á áfangastað sem við hefðum sjálf kosið.

Og hver er hann svo þessi himnasmiður sem leggur okkur lið? Í vestrænum trúarbrögðum er okkur tamt að líta svo á að hann sé einhvers konar Guð, einhvers konar máttarvald sem er utan við okkur sjálf. Einhver sem við getum trúað á og snúið okkur til þegar á móti blæs í trausti þess að hann svari bænum okkar. Sumir segja að þeir hafi enn sína barnatrú. Er það kannski trú sem hinn frægi geðlæknir Sigmund Freud kallaði barnalega trú?

Guð – ytra máttarvald?

Ég átti mína barnatrú þegar ég var lítil telpa og gleypti í mig frásagnir í kristilegum bæklingum sem fjölluðu um kraftaverkin sem Guð gæti gert. Málið væri að biðja nógu heitt og innilega og þá kæmi hann til hjálpar. Og eitt sinn þegar mikið lá við lét ég á það reyna. Ógöngur mínar fólust í því að hafa rifið nýjan jakka sem mamma hafði gefið mér í sveitina og lagt ríka áherslu á að ég færi vel með. Ég gætti þess að nota jakkann einungis á sunnudögum sem kom að litlu gagni þar sem hvíldardagurinn reyndist engin trygging gegn því að komast þyrfti gegnum gaddavírsgirðingar. Og svo fór að ég reif gat á jakkann þegar ég tróð mér gegnum eina slíka.

Ég átti von á að mamma yrði æfareið yfir kæruleysi mínu og sá ekki annað ráð vænna en snúa mér til Guðs. Bað heitt og innilega með fléttaða fingur og samanklemmd augu og þuklaði jakkann öðru hvoru til að fylgjast með hvort hann færi ekki að verða heill.

En kraftaverk eins og sagt var frá í kristilegu blöðunum lét á sér standa.  Kannski hafði Guð öðrum mikilvægari hnöppum að hneppa og kannski kærði hann sig ekki um að láta koma fram við sig eins og handlagna saumakonu sem sest niður eftir pöntun og rympar saman yfirsjónum mannanna með ósýnilegum saumsporum. Þriðji möguleikinn kom mér ekki til hugar og enginn talaði um hann við mig þá sem sé þann að Guð væri alls ekki staðsettur á himnum, aðskilinn frá mér, heldur væri hann hluti af mér og ég hluti af honum.

Þegar ég lít til baka finnst mér samt engu líkara en ég hafi verið bænheyrð þótt Guð hafi ekki látið svo lítið að tylla sér hjá mér með nál og tvinna. Mamma minntist nefnilega aldrei orði á gatið á jakkanum. Engu líkara en hún sæi það ekki.

Ég missti mína barnatrú fyrir löngu síðan sem þýðir þó ekki að ég sé trúlaus manneskja. Ég tek heilshugar undir með hinum merka guðfræðingi Paul Tillich þegar hann segir að sá sem skynjar dýpt í lífi sínu geti ekki litið á sig sem trúlausa manneskju.

Af hverju er ég að skrifa um þetta hér? Jú það er vegna nýja nafnsins á félaginu okkar, Lífspekifélag Íslands. Þegar „Guð” var í nafni félagsins datt flestum í hug sem ekki þekktu til félagsins (og þeim fer óhjákvæmilega fjölgandi sem ekki þekkja til sögu félagsins) að hér væri ákallaður sá Guð sem finna má í barnatrúnni. Einhvers konar ytra átórítet sem ýmist refsar eða kemur til hjálpar.

En það gerum við ekki og viljum ekki að fólki haldi að slík starfsemi fari hér fram. Það fælir ekki einungis marga frá félaginu sem mundu eiga hér vel heima, heldur kemur líka í veg fyrir að fólk kynni sér félagið og spyrji spurninga um það. Ég upplifði aftur og aftur þegar ég sagði frá að ég væri í Guðspekifélaginu að fólk varð vandræðalegt í framan og sneri talinu að öðrum hlutum. Svipaða sögu hafa margir fleiri að segja.

Þess vegna er gott að losna við Guð úr nafni félagsins eins og Sigvaldi Hjálmarsson benti á á sínum tíma og fá annað orð í staðinn sem getur þýtt það sama og theo í theosophia án þess að leiða til ranghugmynda um starfsemi félagsins.

Fyrir allnokkru síðan heyrði ég einn félaga okkar útskýra tilgang félagsins fyrir gesti sem virtist ekki hafa komið áður á fund. „Það má segja að þetta sé lífspekifélag,” heyrði ég félaga okkar segja og ég greip orðið á lofti. Lífspekifélag. Mér fannst þetta ekki einungis góð og hnitmiðuð útskýring á markmiði félagsins heldur væri þetta einnig gott nafn á félagið sem hefði engan misskilning í för með sér og mikill kostur að einungis þyrfti að breyta þremur bókstöfum í okkar gamla ástkæra nafni. Auk þess má færa rök fyrir því eins og Halldór Haraldsson varaforseti Lífspekifélagsins bendir á í bréfi til höfuðstöðva Lífspekifélagsins sem birt er hér á vefnum að við erum í raun ekki að breyta nafni heldur lagfæra þýðinguna á theosophia. Lítum nánar á það.

Merking orðsins: Theosophy

Eftirfarandi umfjöllun er byggð á bókinni, Modern Theosophy, eftir Hugh Shearman sem kom út árið 1954 hjá The Theosophical Publishing House í Adyar höfuðstöðvum Lífspekifélagsins í Chennai á Indlandi.

Orðið þeósófía kemur frá grísku orðunum theos, sem merkir guð (hér er þó ekki átt við Guð í kristinni trú) og sophia sem merkir viska þannig að þeósófía gæti útlagst: guðdómleg viska, guðsviska, viska um guð eða viska guðanna.

Orðið þeósófía var fyrst notað af nýplatónistum á 4. öld eftir Krist og síðar var það oft látið vísa til ýmiss konar mystískra spekúlasjóna. Í heildina litið má samt segja að þeir sem á árum áður voru kallaðir þeósófistar hafi fremur verið gnostikerar en dulhyggjufólk þ.e.a.s. þeir voru einstaklingar sem staðhæfðu að þeir byggju yfir vitneskju um innri gerð eða innra eðli (inner things) fremur en guðhræðslu einni saman (Shearman 1954).

Orðið þeósófia hafði því öðlast viðurkennda merkingu löngu áður en það var tekið að láni af sextán einstaklingum sem hittust árið 1875 í New York og stofnuðu The Theosophical Society.

           Praktískt talað hefur guðsviska eða þeósófía öðlast tvenns konar aðalmerkingu segir Shearman í bók sinni um nútímalífspeki sem er að vísu komin til ára sinna. Í fyrsta lagi merkinguna hin hinsta viska eða speki, hinn hinsti, endanlegi sannleikur sem falinn er í lífinu sjálfu, og í öðru lagi hefur orðið hlotið afleidda merkingu þar sem það er látið ná yfir hinar margvíslegu kennisetningar eða fræði (body of teachings) um manninn og heiminn sem sett hafa verið fram, ekki síst af meðlimum Lífspekifélagsins. Þegar orðið er í þessari afleiddu merkingu táknar það að vísu fremur þekkingu en visku segir Shearman enn frekar.

           Og hver er þá munurinn á þekkingu og visku sem er nútímalegra orð yfir speki? „Visku er ekki hægt að miðla annarri manneskju í orðum,” segir Shearman og útlistar það nánar með eftirfarandi hætti.

Hver sá sem reynir að gæða aðra manneskju visku með mörgum, fögrum og viturlegum orðum mun ekki uppskera erindi sem erfiði. Þekking er hins vegar annað mál. Við getum miðlað annarri manneskju þekkingu að einhverju marki með bókum, fyrirlestrum og hinu talaða orði. En jafnvel þekkingu þarf fyrst og fremst að miðla með tilvísan til beinnar reynslu, einhvers sem viðkomandi þekkir eða veit nú þegar í gegnum beina reynslu af fyrirbærum. Stundum leiðir reynsla til visku og stundum vekur þekking visku. En það er erfitt að skýrgreina visku.

           Að búa yfir visku felur í sér máttinn til að bregðast við eða aðhafast á viðeigandi hátt og taka rétta afstöðu til manna og málefna að miklu leyti án raka eða undanfarandi meðvitaðrar greiningar eða analýsu. Viska er mátturinn til að gera og segja það rétta og aðhafast í samræmi við það sem aðstæður kalla á hverju sinni, meira eða minna spontant eða á sjálfsprottinn hátt.

           Viska er afhjúpuð fremur en byggð upp. Máttur fullorðinsgreindar byggist ekki upp á því sem okkur var kennt í skóla heldur vex hann fram í sjálfu þroskaferlinu. Aðrir geta ekki gefið okkur þennan mátt með orðum eða gerðum. Samt gefa aðrir okkur stundum upplýsingar, staðreyndir eða kringumstæður sem við getum hagnýtt okkur til að uppgötva að við búum yfir þessum mætti. Viskan er okkur ekki gefin utan frá en samt verða þekking og athafnir annarra stundum til þess að kalla fram hjá okkur þann eiginleika sem við köllum visku.

           Sumir hafa sagt að kærleikur búi í viskunni. Að skilningurinn sem spakur maður eða spök kona búi yfir sé gæddur kærleiksríkri samsömun við annað fólk.

           Viska er kærleikur sem veit og þekking sem elskar. Það má kalla hana fram en hún verður ekki tjáð í orðum. Og það á enn betur við þegar viskan er á einhvern hátt guðdómleg, hvort sem við eigum við visku sem snertir Guð, visku guða eða visku manna sem eru guðum líkir (Shearman 1954, bls 5-6).  Og á öðrum stað segir Shearman: „Vísað hefur verið til viskuþáttarins í einstaklingseðli mannsins með því að tala um Krist í manninum, alheimslögmál kærleikans ...” (Shearman 1954, bls. 78).

Hin fornu einkunnarorð Lífspekifélagsins eru komin úr sanskrít og útleggjast á íslensku: Engin trúarbrögð eru sannleikanum æðri. Og hér er ekki átt við sannleika sem snertir staðreyndir eins og áætlunarferðir strætisvagna eða fróðleik í fjölfræðibókum heldur er hér um að ræða hinn hinsta sannleika. Engin trúarbrögð eru þessum raunveruleika æðri, vegna þess að hann er hinn undirliggjandi sannleikur sem öll trúarbrögð vísa til.

         

Og nú langar mig að hleypa sálfræðingnum að sem er starfsheiti undirritaðrar. Frumkvöðlar jákvæðrar sálarfræði sem er orðið sterkt afl í sálarfræðinni á síðari árum leituðu meðal annars í fornar bækur um heimspeki og trúarbrögð til að freista þess að finna einhvern algildan, tímalausan sannleika um styrkleika og dyggðir sem hjálpuðu okkur að lifa góðu lífi í bestu merkingu þess orðs. Hvað getum við gert til að eiga gott líf, líf sem nær út fyrir okkur sjálf og okkar einkahagsmuni, líf sem snertir aðra og verður bæði sjálfum okkur og öðrum til gæfu? Þegar stórt er spurt dugar ein grein mannlegrar viðleitni ekki til. Vísindin hafa að miklu leyti yfirtekið á síðari árum en nú hafa vísindamenn á sviði sálarfræðinnar viðurkennt í verki í auknum mæli að við höfum mikið að sækja til heimspeki og trúarbragða heimsins ekki síst Búddadóms.

Lífspekifélagið hefur haft það á stefnuskrá sinni frá upphafi að hvetja fólk til að leggja stund á og bera saman vísindi, trúarbrögð og heimspeki. Engin ein nálgun dugar til að öðlast skilning á manninum og leyndardómum lífsins.

Hefðbundin trúarbrögð þar sem gert er ráð fyrir Guði sem er utan við okkur sjálf duga ekki lengur til að gefa lífi okkar merkingu og stefnu. Við þurfum að finna að líf okkar hafi tilgang sem nær út yfir gruggugt dægurþras og hringsól hversdagslífsins og trú á Guð sem er utan við okkur sjálf dugar ekki til að gefa lífi okkar sem lifum í nútímasamfélagi merkingu og stefnu. Höfum við ekki flest glatað barnatrúnni? Hvað það merkir að trúa á Guð í sjálfum sér og hvernig við getum lagt rækt við andlegt líf eru síðan aðrar stórar spurningar sem taka við um leið og við staðhæfum að í okkur búi alheimslögmál kærleikans. Tæpi aðeins á einu atriði hér.

Þegar ég trúi á Guð í sjálfri mér finnst mér ég ekki þurfa að einblína á dökku blettina og ójöfnurnar heldur leyfi ég mér að taka skref inn á við og skoða sjálfa mig sem heild þar með talda viðleitni mína til að spjara mig í þessum heimi og verða sjálfri mér og öðrum til góðs. Og hér má bæta við að sálfræði hamingjunnar leggur ríka áherslu á að mikilvægara sé að efla sínar sterku hliðar en eyða of mikilli orku í að reyna að bæta úr veikleikum sínum.

Að finna einingu

Að lokum langar mig að vitna í orð hins merka sálfræðings og hugsuðar Erichs Fromm og vekja athygli á samræmi orða hans við fyrsta atriðið á stefnuskrá Lífspekifélagsins sem snýst um að mynda alheimsbræðra- og systralag mannkyns án tillits til  trúarskoðana, uppruna, kynferðis, stéttar eða hörundslitar.

Erich Fromm vekur athygli á að hlutskipti okkar mannanna er að hafa vitund um sjálfan sig sem aðgreinda einingu sem á sér sjálfstæða tilveru og að sú vitund geri okkur manneskjurnar óbærilega einar, valdalausar og týndar. Hann bendir á að lífið leggi fyrir okkur spurningu á andartaki fæðingarinnar sem við komumst ekki hjá að svara og erum að reyna að svara allt okkar líf.  Hann spyr í bók sinni, Psychoanalysis & Zen Buddhism: “Hver er hún  þessi spurning sem lífið leggur fyrir okkur?” (Fromm 1960, bls 30). Og hann svarar sinni eigin spurningu á þessa leið:

Hvernig getum við komist yfir þessa prísund, þessa smán, þennan sársauka sem fylgir reynslu okkar af því að vera aðskilin og ein? Hvernig getum við fundið einingu innra með sjálfum okkur, með samferðamönnum okkar og með náttúrunni?

Spurningin er alltaf sú sama. En það eru mörg svör. Þó eru þau kannski ekki nema tvö þegar grannt er skoðað. Annað þeirra felst í því að komast yfir aðskilnaðinn með afturför; með því að reyna að hverfa aftur til tímans áður en maðurinn öðlaðist vitund meðan hann hvíldi enn í móðurkviði. Hitt svarið felst í því að fæðast að fullu; að þroska vitund sína og næmi, skynsemi sína og hæfileikann til að elska uns okkur tekst að yfirstíga sjálfmiðaðar takmarkanir okkar og finna nýtt samræmi og einingu – innra með sjálfum okkur og með heiminum öllum (Fromm 1960, bls 30).

Hvernig við förum að því að lifa lífi okkar til fulls, skynja djúpa merkingu og tilgang og eiga kærleiksrík samskipti við samferðafólk okkar eru spurningar sem aldrei falla úr gildi og láta okkur aldrei í friði.