Leið einfaldleikans

Við getum ekki verið samtímis reið og hamingjusöm. Þetta tvennt er eins og myrkur og birta. Þegar myrkur reiðinnar heltekur hugann hverfur ljós hamingjunnar.

Fyrir um tvö þúsund og fimm hundruð árum kenndi mildur vitringur, sem nefndur var Búddha, að lykillinn að hamingju leyndist í huganum sjálfum. Og hann kenndi að ytri skilyrði svo sem auður, frægð og völd væru aðeins tæki sem gætu hjálpað eða skaðað í leitinni að hamingju. Á hvorn veginn það fer veltur á ástandi hugarins sem notar þau.

Búddha kenndi að þrenns konar hindranir kæmu í veg fyrir hamingju. Í fyrsta lagi: Maðurinn skilur ekki eðli sjálfsins (sem hann nefndi anatma, það sem er „handan sjálfsins“). Í öðru lagi: Hugurinn er mengaður ávana, löngun og græðgi. Í þriðja lagi: Hann er haldinn heilkenni (syndrome) haturs og óvildar. Hann talaði um hindranirnar sem „eitur sálar og líkama“. Á sanskrít eru þær nefndar kleshas. Tíbetar þýddu það með nyon mong, „brjálæðislegt myrkviði hugarins“.

Búddha beindi athygli manna sérstaklega að þriðja atriðinu, hatursheilkenninu. Hann benti á að ekkert sé eins skaðlegt heilsu og hamingju manna, bæði þeirra sjálfra og annarra sem þeir umgangast. Það er auk þess grófasta hindrunin og þess vegna sú sem auðveldast er að sigrast á. Samkvæmt almennri lífsreglu taldi hann eðlilegast að fást við stærstu vandamálin fyrst. Á leiðinni til hugljómunar, sem hann kenndi, var þess vegna efst á blaði að ná tökum á reiðinni. Hann lýsti því með orðinu ahimsa, að særa ekki aðra. Mahatma Gandhi notaði síðar þetta orð til þess að lýsa í hnotskurn bestu leiðum í andlegum sem félagslegum byltingum.

Læknavísindi Tíbeta og búddhista eiga rætur að rekja til fornindverskra (ayurvediskra) hefða. Þar er því haldið fram að orsök allra sjúkdóma sé beint eða óbeint hið þrefalda sálareitur sem áður var nefnt. Samkvæmt tíbetskum lækningatextum tengdist um þriðjungur allra sjúkdóma hatursheilkenninu.Við getum ráðið við sjúkdómseinkennin með lyfjum og atferlismeðferð, en til þess að ráða við frumorsakirnar þurfum við að fást við sjálft sálareitrið sem er hatur. Tíbetsk lækningarit byggja á búddhiskum töntrum sem eru kjarninn í kenningu Búddha. Þar er kennt að lækningaferlið sé bæði líkamlegt og sálrænt.

Nýlegar vestrænar athuganir benda í sömu átt. Á síðasta áratug hafa margar bækur verið ritaðar sem fjalla um rannsóknir sem benda til að óvild og hatur séu eitraðar kenndir, ekki bara í andlegum og félagslegum skilningi, heldur einnig líkamlega og læknisfræðilega. Ein þessara bóka er Anger Kills (Reiðin drepur) eftir Dr. Redford Williams og Dr. Virginia Williams. Sú bók á erindi til fólks í heilbrigðisstéttum. Einnig má nefna: Anger: The Misunderstood Emotion (Reiðin: misskilin geðbrigði) eftir Carol Travis. Nokkrar greinar í The Journal og Behavioral Medicine benda einnig á tengsl á milli haturs og sérstakra sjúkdóma (t.d. „Hostility, Coronary Heart Disease Incidence and Total Mortality“ - Um hatur og hjartasjúkdóma).

Sagt er að Búddha hafi lagt fyrir menn þrjár mismunandi útgáfur hinnar andlegu þroskaleiðar, kallaðar yanas. Þær eru nefndar hinayana eða „leið einfaldleikans“, mahayana, „víðfeðma leiðin“ og vajrayana, „demantsleiðin“. Ég lagði stund á tíbetskan búddhisma í Himalaya samfellt í tólf ár (1972 - 1984). Þar var litið á leiðirnar þrjár sem þrjú stig iðkunar. Fyrsta er ætlað byrjendum, annað þroskuðum iðkendum og hið þriðja langt komnum nemendum. Á hverju þessara stiga nálgast menn vanda hins reiða hugar frá breyttu sjónarmiði. Hvert um sig leggur auk þess fyrir nemann sérhæfðar aðferðir til þess að sigrast á vandanum.

Hinayanaleiðin.

Leið einfaldleikans hefur það að markmiði að hliðra einstaklingnum úr hringdansi veraldlegrar mótunar. Í sérhverju þjóðfélagi er sú mótun ævinlega blanda heilbrigðra og óheilbrigðra viðhorfa og atferlis. Sum beina mönnum til aukins þroska en önnur vinna gegn honum. Mótunin sækir lífsafl sitt bæði til viturra manna og heimskra. Stundum eru áhrif fyrri hópsins ríkjandi. Við tölum um slík tímabil í sögu þjóðfélags sem blómaskeið.

Þetta fyrsta stig í búddhiskri þjálfun er einnig nefnt pratimoksha, leið einstaklingslausnar, vegna þess að áherslan er á innra frelsi hugarins. Þá er mönnum kennt hvernig í lífi þeirra skiptist á hamingja og þjáning og að þessi tvenns konar reynsla er ekki háð tilviljun í heimi óreiðu, heldur útkoma eðlilegrar, lögmálsbundinnar framvindu. Eða eins og Dalai Lama orðaði það einu sinni: „Það var slagorð Búddha að allir hlutir spretti fram með gagnkvæmri orsökun.“ Okkur verður smám saman ljóst að ákveðnum orsökum fylgja ákveðnar afleiðingar og það getum við nýtt okkur andlega, til ummyndunar hugarins og til þess að öðlast andlegan styrk og innra frelsi.

Búddha nefndi þessa athugun og iðkun „vökula athygli á ferns konar veruleika samkvæmt skilningi hinna göfugu“ (búddhisk kenning sem oft hefur verið nefnd „hin fernu háleitu sannindi“) sem er þjáningin, orsök hennar, lausn frá henni og leiðin sem leiðir til lausnar.

Ef við athugum vandlega reynslumunstur okkar, sagði Búddha, tökum við eftir að öll þjáning - streita, veikindi, togstreita og vonbrigði - á sér ákveðnar orsakir. Á sama hátt tökum við eftir að ákveðnar orsakir og skilyrði hafa í för með sér hamingjustundir.

Athafnir og afstaða.

Búddha benti á að orsakir líkamlegra og andlegra þjáninga eru af tvenns konar toga. Hann nefndi þær karma og klesha. Fyrra orðið merkir athöfn og vísar í þessu sambandi til óheilnæms atferlis. Síðara orðið merkir brenglað ástand tilfinninga og þá er átt við neikvætt sálarlíf. Með öðrum orðum: Þjáningar okkar, veikindi og vonbrigði eiga rætur að rekja til einhvers sem við ger(ð)um og afstöðu okkar til þessara athafna. Þetta eru fyrstu tvö atriðin í hinum „ferns konar veruleika samkvæmt skilningi hinna göfugu.“ Til þess að ná þriðja atriðinu, sem er lausn, þurfum við að fást við annað atriðið sem er orsök vandamálanna en það er karma og klesha. Með öðrum orðum: Til þess að útrýma þjáningunni, sem er fyrsti veruleikinn, þurfum við að sigrast á ferli annars veruleikans (karma og klesha). Þegar það er gert næst þriðji veruleikinn sem er lausn. Iðkunin sem leiðir hugann út úr prísundinni er fjórði veruleikinn, leiðin til lausnar.

Þar sem öll óæskileg reynsla sprettur frá karma og klesha, athöfnum og afstöðum, gerist lækningaferlið eða leiðin á tveimur baráttusviðum: Þau eru atferlismeðferð (að göfga karmað) og hugrækt (að ummynda klesha). Allt á hinum þremur leiðum, sem Búddha kenndi og áður voru nefndar, fellur undir annað tveggja: Að göfga karmisk munstur og ummynda hugann.

Klesha er sagt djúpstæðara en karma. Geðbrigði, tilfinningar, afstaða og gildamat liggja að baki athöfnum okkar, gæða þær merkingu og setja þær í samhengi. Þess vegna er sagt í búddhiskum helgiritum að kenning Búddha hafi aðeins einn tilgang: Að temja hugann og sigra hann. Með orðunum „Að temja og sigra“ er átt við að lækna hugann af kleshum eða hinu sálræna eitri og þá er reiðin og hatursheilkennið efst á blaði.

Mælikvarðinn á framför á „leið einfaldleikans“ er innra frelsi. Með einföldum orðum getum við sagt að reiðin sé óæskileg af því að hún takmarkar innra frelsi. Því hatursfyllri sem við erum því minna innra frelsis njótum við. Dalai Lama, hinn sjöundi í röðinni, orðaði þetta þannig: „Við getum ekki verið samtímis reið og hamingjusöm. Þetta tvennt er eins og myrkur og birta. Þegar myrkur reiðinnar heltekur hugann hverfur ljós hamingjunnar.“

Eins og áður sagði tengist þetta iðkunarstig lausn einstaklingsins. Áhersla er lögð á að mynda innra umhverfi persónulegs jafnvægis og vaxtarmöguleika. Við viðurkennum fyrst ábyrgð okkar á eigin lífi og líðan en hirðum minna um hvaða neikvæð áhrif reiði okkar kann að hafa á aðra þó að þau séu vissulega mikilvæg. Hér að baki liggur sú hugmynd að ekki sé til neins að ætla að bæta heiminn á meðan við höfum ekki komið sviðum okkar eigin karma og klesha í jafnvægi. Við erum sjálf hluti af vandamálinu en ekki hluti þess afls sem læknað getur mein heimsins.

Tíbetski meistarinn Tsongkhapa, sem uppi var á 14. öld og stofnaði Gulhetturegluna, notaði tvö mikilvæg hugtök: shen wang og rang wang. Hið fyrra merkir „knúinn áfram af öðrum“, hið síðara „knúinn áfram af sjálfi“.

Fyrra hugtakið vísar til þeirra sem ekki hafa náð tökum á karmaferlum sínum og kleshum. Þeir lúta ómeðvitað stjórn brenglaðra geðhrifa og ósjálfráðs atferlis. Þessi neikvæðu öfl knýja þá áfram í lífinu, þeir þeytast úr einu í annað, eru sem lauf í vindi. Þeir axla ekki ábyrgð í lífi sínu. Þeir eru „knúðir áfram af öðrum“.

Síðara hugtakið, „knúinn áfram af sjálfi“, vísar til manns sem hefur lokið þessu fyrsta stigi þjálfunar. Hann er meðvitaður um karma og klesha og stjórnast af jafnvægisleitandi visku. Hann er ekki lengur ofurseldur innri, ómeðvituðum öflum og brengluðum geðhrifum. Þeir sem náð hafa þessu stigi andlegs þroska hafa sjálfir hendur á stýri í lífi sínu.

Þríþætt leið.

Á leið einfaldleikans ráðlagði Búddha þrígreinda leið til bata. Hann nefndi hana „hina þreföldu æðri þjálfun“: shila (sjálfsögun eða atferlismeðferð), samadhi (einbeitt, ótrufluð athygli eða innri tærleiki - ath. orðið er hér notað í víðari merkingu en venjulegt er; þýð.) og prajna (æðri varurð eða viska; framb. pragnja). Henni er líkt við byggingu húss: Sjálfsögun er að leggja grunninn, einbeitt athygli er að reisa veggina og viska er að setja þak á húsið. Viskan er takmark þjálfunarinnar af því að það er hún sem endanlega framkallar innra frelsi og óbrigðula hamingju. En viskan vaknar ekki nema menn hafi áður tileinkað sér sjálfsögun og einbeitta athygli alveg eins og þakið getur ekki staðist nema því sé haldið uppi af grunni og veggjum.

Þegar menn beita þessari þrígreindu iðkun gegn hatursheilkenninu iðka menn fyrst sjálfsögun til þess að draga úr sýnilegum andúðarviðbrögðum og þeim vana að ala með sér andúð. Með þessu draga menn úr síendurteknu, ómeðvituðu og reiðiþrungnu atferli og hugsanavenjum. Þetta framkallar hugarástand og skilyrði fyrir einbeitta athygli. Á meðan innri og ytri tilvera manns er stórlega trufluð af karma og klesha er samadhi útilokað.

Þegar menn hafa náð sæmilegu jafnvægi í sjálfsögun byrja þeir daglega iðkun hugleiðingar. Þá sitja menn venjulega hljóðir nokkrum sinnum á dag og stilla hugann inn á eitthvað afmarkað eins og t.d. öndunina eða þá hlut eins og blóm eða mynd. Iðkandinn fylgist með því ef hugurinn reynir að hvarfla frá viðfangsefninu, falla í dvala eða æsast upp. Þetta minnir á íþróttamann sem einbeitir sér að ákveðnum líkamsæfingum til þess að fínstilla vöðvana, nema hér er verið að fínstilla hugann og auka getu hans.

Eftir linnulausa þjálfun verður hugurinn að lokum hljóður, kyrr og tær eins og heiðskír himinn. Þetta innblæs iðkandanum æðri sjálfsvarurð og dýpri rósemi og sjálfsstjórn. Sjálfsvarurð gerir nemanum kleift að greina fíngerðar breytingar í vitundinni og þar með frækorn reiðinnar þegar þau eru að byrja að spíra. Rósemi og sjálfsstjórn gefur nemandanum vald til að beina orkunni í skapandi farvegi í stað þess að verða sjálfur leiksoppur hennar.

Í þriðja lagi leggur nemandinn rækt við viskuna. Á leið einfaldleikans merkir þetta að kanna eðli sjálfsins, „égsins“. Reiðin brýst fram vegna rangrar ég-samkenningar (villu í því sem nemandinn skynjar sem „ég“; þýð.). Þetta er þar af leiðandi dýpsta leiðin til þess að leiðrétta villuna.

Almennt talað má segja að tilfinning okkar fyrir sjálfum okkur sem persónu grundvallist á því hvernig við tengjumst hverju þessara fjögurra sviða: líkama, tilfinningum, hugsunum og reynslu á ytri fyrirbærum. Misskilningurinn um eðli sjálfsins stafar af röngum skilningi á tengslum „égs“ og þessara fjögurra þátta. Þetta framkallar síðan réttu vaxtarskilyrðin fyrir kleshana. Búddha orðaði þetta þannig: „Klesharnir koma upp vegna misskilnings um hvað maður er. Þegar menn sjá ósanna sjálfið og skilja það sem handan sjálfs birtist viskan og upprætir kleshana.“

Gyaltsepjey, höfuðnemandi Tsongkhapa, skrifaði: „Við samkennum „égið“ ranglega einhverju í líkama, tilfinningum, hugsunum eða ytri reynsluheimi. Þess vegna erum við á valdi reiði, ávana og óvissu. Þegar okkur verður dagljóst að „ég“ fyrirfinnst á engu þessara sviða vaknar viskan og eyðir kleshunum. Þeir leysast upp af sjálfu sér eins og myrkrið sem hverfur þegar sólin kemur upp.

Ferns konar rétt athygli.

Aðferðirnar sem beitt er til þess að skilja betur eðli ég-tilfinningarinnar eru nefndar „fjórar satipanna“ ( eða satipatthana; þýð.) eða ferns konar einlæg eða rétt athygli („mindfulness“; samma-sati; þýð.). Það er einlæg athygli á líkama, tilfinningum, hugsunum og fyrirbærum sem spretta upp í huganum. Hver þessara leiða er iðkuð sem hugleiðing og þá er byrjað á einlægri athygli á tilfinningu fyrir líkamanum. Þegar menn hafa skilið til fulls þessi fjögur svið og hvernig þau móta ég-kenndina og um leið skynjun okkar og atferli, birtist viskan af sjálfu sér.

Þessi tegund hugleiðingar er iðkuð innan allra hefðbundinna greina í Hinayana allt frá Tíbet til Japans og Sri Lanka. Hver grein hefur þróað sín séreinkenni en meginkjarninn er alls staðar sá sami.

Samkvæmt visku búddhismans er skýringin á því, hvers vegna reiðin brýst út í huganum, það hvernig við myndum ég-samkenningu við eitthvert þessara fjögurra sviða. Við eignum hlutnum eiginleika sem hann hefur ekki og tengjumst honum eins og hann búi yfir einhvers konar sannri og sjálfstæðri tilveru. Við tökum hann með öðrum orðum of alvarlega. Ef við á hinn bóginn gætum dvalið í hljóðri íhygli sem gaumgæfir fyrirbærin án ástríðu, sæjum við að þau eru alls ekki aðgreind frá okkur og eru ekki til sem sjálfstæður veruleiki. Þessi nýja sýn á hlutina einangrar hugann gegn neikvæðum geðhrifum. Með orðum Kadampa meistarans Geshey Chekhawa (12. öld): „Viska tómsins er besta verndin.“

Vitund um það sem er handan sjálfsins viðheldur á heilbrigðan hátt hæfilegu rými á milli vitundarinnar og fyrirbæranna sem gremju valda. Þetta bil gefur okkur nægilega rósemi til þess að geta leyst vandamálið í ljósi visku í stað þess að ráðast ómeðvitað gegn því sem hendi er næst.

Vitringurinn Shantideva, sem uppi var á áttundu öld, sagði: „Ef fyrir liggur vandamál sem unnt er að leysa, þá er ástæðulaust að æsa sig yfir því. Einbeittu frekar orku þinni að því að leysa vandamálið. Ef á hinn bóginn er um að ræða vandamál sem ekki er unnt að leysa, þá er þýðingarlaust að reiðast. Beittu heldur orku þinni að því að læra að lifa með því.“

Í sambandi við þessa æðri þjálfun - sjálfsögun, einbeitta athygli og visku - er eitt atriði sem ég vil að komi skýrt fram: Nú á dögum er allt sem heitir siðareglur og ræktun dyggða fremur óvinsælt á Vesturlöndum. En meistarar allra hinna miklu andlegu hefða í heiminum eru á einu máli um það að innri leiðir hugleiðingar og hugkyrrðar séu marklitlar og gagnslausar ef menn gæta ekki um leið að ytra atferli sínu. Hirðulaus ytri lífsstíll stuðlar að innri óreiðu.

En eins og núverandi Dalai Lama orðaði það: „Við þurfum ekki langan lista með reglum til þess að ná þessu, þó að listi geti stundum hjálpað. En við ættum að minnsta kosti að halda fast við þá afstöðu að særa ekki aðra en reyna alltaf þess í stað að vinna öðrum gagn.“

Frægur tíbetskur meistari, Lama Drom Tonpa, sem uppi var á elleftu öld, sagði: „Ef athöfn er ekki gagnleg, er betra að sleppa henni og gera ekkert.“ Nemandi hans, Geshey Potewa, bætti við: „Ef þú hefur ekkert gagnlegt að iðja er betra að liggja í rúminu og sofa. Það er betra en að fara á fætur og vinna einhverjum mein.“

Sv. B. þýddi úr The Quest.