Lærdómsrík reynsla

Margir lesendur hafa efalaust lent í svipuðum erfilðeikum og Colin Wilson lýsir hér.

Árið 1973 var ég að leggja drög að bókinni Mysteries (Leyndardómum) sem átti að koma út í kjölfar bókarinnar The Occult (Hið dulda, sem kom út 1971). Ég lenti þá í erfiðleikum sem áttu samt eftir að reynast mér mjög lærdómsrík reynsla. Þessi reynsla setti mig nær alveg úr skorðum: síendurtekin hræðsluköst sem leiddu mig að mörkum taugaáfalls.

Ég hafði, þegar þetta gerðist, unnið mér til óbóta. Ég skrifaði greinaflokk um glæpi sem átti að birtast í alfræðiriti sem nefnist Crimes and Punishments (Glæpir og refsingar) en ég var aðstoðarritstjóri þess. Útgefendurnir heimtuðu að ég skrifaði sjö greinar á viku - hver um sig upp á 3000 orð - og juku fljótt kröfurnar í tíu greinar á viku, sem samsvarar bók af fullri lengd á þriggja vikna fresti. Ég remdist og puðaði og neitaði að gefast upp, en álagið var gífurlegt.

Álagið náði hámarki þegar tveir blaðamenn komu í heimsókn og tóku við mig viðtal sem dróst langt fram á nótt. Ég vaknaði tveimur stundum síðar í svitabaði og illa lerkaður og hafði alvarlegar áhyggjur af því mikla vinnuálagi sem framundan var. Í þessu spennu- og áhyggjuástandi leitaði á mig sú freisting að fara á fætur, setjast við ritvélina og byrja strax að vinna. En ég gerði mér grein fyrir að þetta væri versti kosturinn í stöðunni. Þess í stað reyndi ég að bæla kvíðann með einskærum viljakrafti. En þá greip mig ofsahræðsla og ég fann hvernig adrenalínið streymdi út í blóðið. Hjartslátturinn varð tvöfalt örari en hann átti að sér og ég óttaðist mögulegt hjartaáfall. Ég fór á fætur og sat í klukkutíma í setustofunni og reyndi að tala um fyrir sjálfum mér. Að lokum fór ég aftur í rúmið, lá vakandi og glímdi við óttann og velti fyrir mér hvort ég væri að verða geðveikur. Um morguninn var ég eins og flak, úrvinda af þreytu. Ég reyndi að hreinsa þessa vondu reynslu úr huga mér með því að einbeita mér að því að skrifa um hana, og það urðu einmitt fyrstu síðurnar í bókinni Mysteries.

Þegar ég lít til baka skil ég nákvæmlega hvað gerðist. Menn mæta sífellt nýjum vandamálum og erfileikum sem sigrast þarf á. Þegar það tekst fyllast menn bjartsýni sem eflir styrk þeirra. Ef það mistekst fylgir því kjarkleysi sem dregur úr mönnum styrk. Þá er eins og við hörfum undan áskorunum lífsins og missum löngunina til að beita okkur. Ef við reynum að skyggnast fram í tímann virðist ekkert framundan annað en ógæfa og enn fleiri ósigrar. Skyndilega virðist lífið vonlaus barátta og við skiljum hvað Emily Brontë átti við með orðunum: „Liggur vegurinn upp á við alla leið?“

Þegar við höfum á annað borð sokkið niður í þetta svartsýnisdíki flækjast öll vandamál enn meira vegna efans sem nagar okkur. Það er nógu slæmt að sjá ekkert framundan annað en endalausa erfiðleika. Það sem gerir ástandið enn verra er sú tilfinning að það sé ekki þess virði að byrja glímuna við erfiðleikana vegna þess að allt lífið sé hvort sem er tilgangslaust. Einföld skynsemi segir manni að ekki dugi að leggja árar í bát: maður ber ábyrgð á heimili og fjölskyldu. En einhver innri púki grefur sífellt undan þessari skoðun með því að hvísla: „Þetta er hvort sem er allt til einskis ... .“ Þegar maður svo tekur í hnakkadrambið á sjálfum sér og segir: „Þú verður að halda áfram hvort sem þér líkar betur eða verr,“ fylgir því ömurleg þyngslatilfinning eins og þegar hestur, sem er að lotum kominn, er hvattur og barinn áfram. Eitthvað innra með þér þráir að bresta í grát og snúa baki við lífinu.

Næturnar voru verstar. Ef ég fór að hugsa um þennan óþægilega hjartslátt byrjaði hann um leið - eins og okkur klæjar ef við hugsum um kláða. Þetta framkallaði svo nýjan ótta eins og föst jörðin væri að breytast í kviksyndi. Þá var eini kosturinn að rugla athyglina - snúa sér í rúminu, klóra sér í nefinu - bara gera eitthvað. Óttinn gaus upp eins og mjólk sem sýður í potti og magnaðist vegna neikvæðrar afturvirkni. Skyndilega virtist hið eðlilega öryggi, sem ég hafði alltaf gert ráð fyrir, vera í bráðahættu.

Samt uppgötvaði ég strax aðra nóttina leið til að sigrast á mesta óttanum. Ég þurfti að vakna til fulls, e.t.v. fara á fætur og fara á salernið. Um leið og ég var fyllilega vaknaður var eins og eitthvert skynsamara svið veru minnar skynjaði það sem um var að vera. Þessu má líkja við það þegar kennslukona kemur inn í skólastofu fulla af skvaldrandi börnum, hún klappar saman lófunum og á augabragði ríkir þögn í bekknum.

En hvaða fyrirbæri var eiginlega þessi „kennslukonuáhrif“ - sem ég nefndi svo? Það er því líkast að eitthvert æðra svið persónuleikans hefði vaknað til starfa. Þetta varpaði ljósi fyrir mig á ýmis sálræn fyrirbæri sem ég hafði oft velt fyrir mér svo sem eins og t.d. fyrirbærið rofinn persónuleiki (multile personality).

Það versta við þessi köst voru afleiðingarnar, þær eyddu svo mikilli orku. Ég var sífellt þreyttur. Samt remdist ég áfram við vinnuna í Glæpum og refsingum. Mér var ljóst að vinnan var besta læknislyfið. Og dag einn rann lokst upp fyrir mér hvað var aðalatriðið í þessu vandamáli. Reynslan virðist ofur hversdagsleg en samt var það hún sem færði mér lykilinn að lausninni á því hvernig sigra skal óttann.

Þetta var síðla dags og ég þurfti að koma nokkrum bréfum í póstkassa sem var við endann á heimreiðinni okkar. Þetta virtist algerlega merkingarlaust og leiðinlegt verk, en það þurfti að gera. Ég klifraði því upp í landróverinn og ók niður heimreiðina. Við gatnamótin stöðvaði ég bílinn áður en ég hætti mér út á aðalveginn, en um leið skaust bíll framhjá svo nálægt að hann hafði næstum rifið höggvarann af bílnum. Ég gerði mér grein fyrir að hefði ég verið aðeins þreyttari og meira annars hugar og hemlað sekúndubroti síðar hefði ég lent í alvarlegum árekstri.

Þarna var nú ef til vill ekki mjög mikil hætta á ferðum, en þetta nægði til að vekja með mér innsæisleiftur. Vandamál mitt var einfaldlega þetta: Ég var klofinn hið innra, ósamþykkur sjálfum mér. Skynsemisjálfið vissi að því bar að skila mörgum nauðsynlegum verkum - eins og að fara með bréf í póst. En tilfinningasjálfið andvarpaði af leiðindum og streittist á móti. Skynsemisjálfið þurfti því að draga hið síðarnefnda á eftir sér eins og akkeri og sérhvert verk kostaði tvöfalt erfiði. Það bætti ekki úr skák að ég gat vel skilið tregðu tilfinningasjálfsins, þar sem ég viðurkenndi að það væri leiðindaverk að fara í póstkassann. Þarna lá vandinn. Ég hafði næstum lent í slysi og það kom mér í skilning um að leiðindi gætu verið dýr eftirlátssemi við sjálfan sig. Ef ég hefði lent í slysi hefði það kostað mig hundraðfalda erfiðleika miðað við fyrirhöfnina að fara í póstkassann. Ég sá fyrir mér endalaus óþægindi, skýrslugerð, viðtöl við tryggingarfélög o. s. frv. og ég þakkaði mínum sæla fyrir að hafa ekki lent í þessu klandri. Skynsemisjálfið sneri sér að tilfinningasálfinu og sagði reiðilega: „Þarna sérðu, bjálfinn þinn, vandamálin sem þú býrð stöðugt til með því að draga lappirnar.“ Og tilfinningasjálfið varð vandræðalegt, það virtist skammast sín og hagaði sér vel það sem eftir var dagsins.

Upp frá þessu fækkaði kvíðaköstunum - þó að þau hyrfu ekki alveg fyrr en eftir nokkra mánuði. Þegar ég leit til baka skildi ég að atburðir, sem höfðu þá virst bæði tilgangslausir og skelfilegir, voru í raun og veru einhver dýrmætasta reynsla lífs míns. Ég fann t.d. að þessi langa barátta mín við kvíðann skilaði sér sem miklu meira vald yfir áður ósjálfráðum viðbrögðum. Ef einhver missti disk í gólfið hrökk ég ekki einu sinni við og ef mér leiddist einhver sýndi augnaráð mitt ekki nein merki þess. En það mikilvægasta var samt nývakið innsæi mitt á heimskulegri hegðun tilfinningasjálfsins. Það einskorðaðist ekki við skilning á hræðsluköstum og þunglyndi. Við þurfum öll að verja miklum tíma í hluti sem við vildum helst vera laus við og á meðan eyðum við feiknarlegri orku í það eitt að sigrast á „tregðu“ tilfinningasjálfsins. Í hvert skipti sem sólin felur sig á bak við ský upphefur tilfinningasjálfið sín kjarkleysisandvörp og um leið dofnar yfir okkur. Það var þess vegna sem William James komst svo að orði: „Flestum okkar finnst eins og yfir okkur grúfi eitthvert þyngslaský sem kemur í veg fyrir að við náum okkar besta í dómgreind, skýrleika í ályktunum og festu í ákvörðunum.“ Ástæðan er sú að við leyfum tilfinningasjálfinu að ráða ferðinni í hvert skipti sem það byrjar að andvarpa af leiðindum og segir: „Er þetta raunverulega þess virði?“

Þetta skýrir einnig hvers vegna heilbrigt fólk fær alltaf öðru hverju háa vitundarglampa, eins og Maslow benti á og hann nefndi hátindareynslu (peak experiences). Þetta fólk hefur skýr markmið og leggur sig þess vegna meira fram í daglegu lífi og uppsker því miklu ríkulegri lífsreynslu en hinir sem drattast með tilfinningasjálfið í eftirdragi eins og illa uppalið barn. Þetta fólk sér villuna í þeirri tilfinningu að hlutirnir „séu ekki erfiðisins virði“. Það lifir lífinu með bjartsýni og jákvæðum væntingum. Þegar sólin brýst fram úr skýjum staðfestir það einfaldlega þá trú þeirra að lífið sé okkur hliðhollt og þegar sólin felur sig í skýjum lítur það á fyrirbærið sem hluta af áhugaverðum margbreytileika tilverunnar.

Það er greinilega eitthvert grundvallaratriði sem er ekki í lagi í tegundinni maður. Frá sjónarmiði geðsjúkdómafræðinnar erum við öll taugasjúklingar, ef með því orði er átt við ástand þegar menn lifa aðeins hálfu lífi - langt innan getumarka. Við búum öll yfir kröftum sem við höfum vanist af að nota. Er það nokkur furða þó að fæst okkar skynji glampa frá „duldum kröftum“, þegar við kunnum ekki einu sinni að nýta okkur þá lífsorku sem við þekkjum?

Mér virðist það ljóst að fyrsta skrefið til að endurverkja þessa duldu krafta sé sú viljaákvörðun að yfirvinna vanabundna „tregðu“ tilfinningasjálfsins og temja sér meiri bjartsýni.

[Hér nefnir C. W. tvö dæmi um það hvernig honum hætti til að lenda í óhöppum þegar hann lét eftir sér að falla niður í leiða og þreytu og á hinn bóginn hvernig hlutirnir leystust oft á furðulegan hátt þegar orkan og lífsgleðin var ríkjandi].

Í bókinni Mysteries reyndi ég að beita lærdómnum af þessari lífsreynslu í kenningu um þrepskiptingu sjálfsins. Við göngum öll í gegnum nokkur þróunar- eða þroskastig á leið okkar frá vöggu til grafar. Shakespeare talaði um „sjö aldursskeið mansins“. Það er augljóst að við þróumst í gegnum röð persónuleika. Hve oft hefur það ekki gerst að við hittum barn að nokkrum árum liðnum og furðum okkur á því að það virðist ekki vera sama persónan og áður? En persónulegur þroski er ekki jafn fyrirsjáanlegur og líkamlegar breytingar: hann er árangur viðleitni. Ef lífið verður of erfitt hættum við allri viðleitni og hættum að þroskast.

Sv. B. þýddi úr „Beyond the Occult“.